Hæstiréttur íslands
Mál nr. 295/2011
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
Föstudaginn 27. maí 2011. |
|
|
Nr. 295/2011. |
Ákæruvaldið (Eyjólfur Ármannsson aðstoðarsaksóknari) gegn X og Y (Erlendur Gíslason hrl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
X og Y voru ákærð fyrir skilasvik í rekstri hlutafélagsins A með því að hafa skömmu áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota selt hlutafélaginu B hluta af veðsettum vörubirgðum félagsins fyrir óhæfilega lágt verð. Með úrskurði héraðsdóms var fallist á beiðni þeirra um að dómkvaddur yrði einn sérfróður og óvilhallur matsmaður til þess að staðreyna söluverð vörulagersins. Í úrskurðinum, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði m.a. að játa yrði sökuðum einstaklingi ríkt svigrúm til að afla sönnunargagna í sakamáli. Dómurinn gæti ekki á þessi stigi útilokað hvert gildi slíkt sönnunargagn hefði við efnismeðferð málsins. Þá væri til þess að líta að ákærðu bæru hallann af því reyndist matsgerðin haldlaus við úrlausn um efnishlið málsins þar sem sá kostnaður sem af henni hlytist félli á þá yrðu þeir sakfelldir í refsimálinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Markús Sigurbjörnsson og Páll Hreinsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. maí 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2011, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að dómkvaddur yrði maður til að leggja mat á nánar tiltekin atriði undir rekstri máls ákæruvaldsins á hendur þeim. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að hafnað verði kröfu varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2011.
Með ákæru ríkislögreglustjóra 3. desember 2010 er ákærðu gefið að sök skilasvik framin í rekstri hlutafélagsins A með því að hafa skömmu áður en félagið var úrskurðað gjaldþrota 7. september 2004 selt tilgreindu einkahlutafélagi hluta af veðsettum vörubirgðum félagsins fyrir óhæfilega lágt verð. Með sölunni er talið að ákærðu eigi að hafa skert rétt veðhafans og annarra lánadrottna til að öðlast fullnægju af eignum þrotabúsins. Er háttsemin talin varða við 2. og 4. tl. 1. mgr. 250. gr. laga nr. 19/1940.
Ákærðu neita sök. Í þinghaldi 15. mars sl. lagði verjandi ákærðu fram kröfu um matsbeiðni, sbr. 128. gr. laga nr. 88/2008. Var þess krafist að dómkvaddur yrði einn sérfróður og óvilhallur matsmaður til þess að staðreyna hvert hafi verið söluverð vörulagers sem seldur var frá A til B samkvæmt reikningi nr. [...] dagsettur 26. ágúst 2004 þegar lagerinn var seldur í rekstri C. Í dómkvaðningunni kemur fram að í ákæru sé greint frá því að samkvæmt mati dómkvaddra matsmanna hafi verðmæti þeirra vörubirgða sem seldar hafi verið numið samtals 71.252.728 krónum. Ákærðu telji framangreint mat gefa alranga hugmynd um verðmæti hinna seldu vörubirgða, auk þess sem matið hafi enga þýðingu í sakamálinu. Þannig liggi fyrir önnur og mun vandaðri skýrsla D um verðmæti vörulagersins þar sem fullyrt sé að vart verði talið að heildarverð hinna seldu birgða hafi verið of lágt. Mál það sem hér sé til meðferðar sé sakamál. Sé ekki unnt að meina ákærðu að afla sönnunargagna af þeim toga sem hér sé farið fram á, en niðurstaða matsgerðar geti haft mikla þýðingu fyrir niðurstöðu sakamálsins.
Ákæruvald hefur mótmælt því að umbeðin dómkvaðning fari fram. Ákæruefni í málinu byggi á mati dómkvaddra matsmanna sem metið hafi verðmæti vörubirgðanna á þeim tíma sem þær hafi verið seldar. Niðurstaða í dag um verðmæti vörubirgðanna hafi þannig enga þýðingu fyrir sakarefnið þar sem brotið hafi verið fullframið við sölu á árinu 2004. Huglæg afstaða ákærðu á þeim tímapunkti sé því grundvallaratriði málsins. Matið sé því með öllu þýðingarlaust.
Við úrlausn um hvort fallast eigi á kröfu ákærðu um dómkvaðningu matsmanns getur dómurinn ekki litið til efnishliðar málsins, en aðalmeðferð málsins hefur enn ekki farið fram. Samkvæmt 2. mgr. 133. gr. laga nr. 88/2008 leggur dómari mat á sönnunargildi matsgerðar þegar leyst er að öðru leyti úr máli. Á þessu stigi málsins getur dómurinn einungis hafnað matsbeiðninni á þeim grundvelli að matsgerðin sé þýðingarlaus, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Við úrlausn á því álitaefni sem hér er til meðferðar er til þess er að líta að játa verður sökuðum einstaklingi ríkt svigrúm til að afla sönnunargagna í sakamáli. Á þessu stigi getur dómurinn ekki útilokað hvert gildi slíkt sönnunargagn hefur við efnismeðferð málsins. Einnig er til þess að líta að ákærðu bera halla af því reynist matsgerðin haldlaus við úrlausn um efnishlið málsins þar sem sá kostnaður sem hlýst af matsgerðinni fellur á ákærðu verði þeir sakfelldir í refsimálinu. Loks verða tafir á rekstri málsins vegna þessa þáttar málsins ekki skrifaðar á ákæruvaldið. Með vísan til þessa verður orðið við kröfu ákærðu um dómkvaðningu matsmanns.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Ú r s k u r ð a r o r ð:
Í samræmi við matsbeiðni á dskj. nr. 8 verður dómkvaddur einn sérfróður og óvilhallur matsmaður til þess að staðreyna hvert hafi verið söluverð vörulagers sem seldur var frá A til B samkvæmt reikningi nr. [...], dagsettur 26. ágúst 2004, þegar lagerinn var seldur í rekstri C.