Hæstiréttur íslands

Mál nr. 424/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns


                                                         

Miðvikudaginn 25. júní 2014.

Nr. 424/2014.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(enginn)

Y og

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.  )

Z

(Lárentsínus Kristjánsson hrl.)

Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var beiðni L  um að dómkvaddir yrðu tveir menn til að leggja mat á á nánar tiltekin atriði í tengslum við lögreglurannsókn sem beindist að X, Y og Z vegna ætlaðra kynferðisbrota gegn drengnum A. Laut beiðni L að því að dómkvaddir yrðu matsmenn til að meta í fyrsta lagi þroska og líðan A, í öðru lagi tengsl hans við móður sína og X og í þriðja lagi hvort fyrir hendi væru aðstæður, sem væru til þess fallnar að rýra sönnunargildi framburðar drengsins. Hæstiréttur taldi efni til að verða við beiðni L, þar með talið hvort uppi væru sérstakar aðstæður, sem gætu verið fallnar til að rýra sönnunargildi framburðar A, enda væri ekki með sérfræðilegu áliti um það efni lagt í hendur dómkvaddra manna það sönnunarmat, sem dómari færi með að lögum. Var því lagt fyrir héraðsdóm að dómkveðja sérfróða menn til að leggja mat á þau atriði sem greindi í matsbeiðni L.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 16. júní 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 13. júní 2014, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að dómkvaddir yrðu tveir menn til að leggja mat á nánar tiltekin atriði í tengslum við lögreglurannsókn, sem beint er að varnaraðilum. Kæruheimild er í o. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Sóknaraðili krefst þess að dómkvaddir verði tveir matsmenn til þessa verks.

Varnaraðilarnir Y og Z krefjast þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur. Varnaraðilinn X hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Eins og fram kemur í hinum kærða úrskurði hóf lögregla um vorið 2013 rannsókn á ætluðum brotum varnaraðila gagnvart drengnum A. Tilefni rannsóknarinnar var að móðir drengsins skýrði starfsmanni barnaverndarnefndar frá því að hann hefði lýst grófum kynferðisbrotum sem hann hefði orðið fyrir af hálfu varnaraðilans X, en hann mun vera fyrrverandi sambúðarmaður móður drengsins, sem þá var sex ára. Síðar lagði móðirin fram kæru á hendur varnaraðilunum X og Y vegna ætlaðra kynferðisbrota þeirra gagnvart drengnum. Í skýrslutöku hjá lögreglu kvað móðirin drenginn hafa lýst því að varnaraðilinn Z hefði einnig brotið gegn honum, svo og að brot X gegn honum hefðu staðið yfir í um tveggja ára hríð. Í kjölfarið voru teknar þrjár skýrslur af drengnum fyrir dómi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008. Samkvæmt málatilbúnaði sóknaraðila höfðu þessar skýrslutökur „ekki gengið vel“, en þó liggi fyrir framburður drengsins um ætluð kynferðisbrot gegn honum.

Sóknaraðili telur brýna þörf á að dómkvaddir verði matsmenn á grundvelli 128. gr. laga nr. 88/2008 til að meta í fyrsta lagi þroska og líðan drengsins, í öðru lagi tengsl hans við móður sína og varnaraðilann X og í þriðja lagi hvort fyrir hendi séu aðstæður, sem séu til þess fallnar að rýra sönnunargildi framburðar drengsins. Sé matsgerðarinnar þörf svo að unnt verði að ákveða hvort sækja skuli sakborninga til sakar, sbr. 145. gr. sömu laga.

Samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 88/2008 metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt eða ákvörðun viðurlaga við afbroti, þar á meðal hvaða sönnunargildi vitnisburður hafi. Þá er í 2. mgr. 127. gr. sömu laga kveðið á um að dómari leggi sjálfur mat á atriði, sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar, en verði ekki farið svo að geti hann kvatt einn eða tvo matsmenn til að framkvæma mat eftir skriflegri beiðni aðila, sbr. 1. mgr. 128. gr. laganna.

Af framangreindu leiðir að dómari leggur mat á framburð vitna fyrir dómi. Það girðir þó ekki fyrir að aflað verði matsgerðar dómkvaddra manna um atriði, sem kunna að skipta máli við slíkt mat dómara, ef þörf er við það mat annarrar þekkingar en þeirrar sem talist geti almenn eða á sviði laga. Í máli þessu reynir á sönnunargildi framburðar sjö ára drengs fyrir dómi um ætluð kynferðisbrot gegn honum, sem kunna að hafa verið framin þegar hann var fjögurra til sex ára gamall, og er einn sakborninga sem fyrr segir maður, sem á þeim tíma var drengnum nákominn. Að nokkru hefur hann lýst atvikum sjálfur fyrir dómi, en eins og málið liggur fyrir af hendi sóknaraðila hefur hann einnig stuðst við það, sem móðir drengsins hefur lýst um efni samtala þeirra. Þá verður ekki annað ráðið af gögnum málsins en að ásakanir á hendur varnaraðilum hafi komið fram í framhaldi af sambandsslitum móður drengsins og varnaraðilans X. Þegar þetta er virt í heild verður að líta svo á að efni séu til að verða við beiðni sóknaraðila um dómkvaðningu tveggja manna til að leggja mat á þau atriði, sem í matsbeiðni greinir, þar með talið hvort uppi séu sérstakar aðstæður, sem gætu verið fallnar til að rýra sönnunargildi framburðar drengsins, enda væri ekki með sérfræðilegu áliti um það efni lagt í hendur dómkvaddra manna það sönnunarmat, sem dómari fer með að lögum.

Dómsorð:

Lagt er fyrir héraðsdóm að dómkveðja tvo sérfróða menn til að leggja mat á þau atriði, sem greinir í matsbeiðni sóknaraðila, lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, frá 23. apríl 2014.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness föstudaginn 13. júní 2014.

                Með matsbeiðni, sem barst héraðsdómi 25. apríl 2014, hefur matsbeiðandi óskað þess að dómkvaddir verði matsmenn í máli lögreglu númer 007-2013-[...]. Málið var þingfest 15. maí síðastliðinn og tekið til úrskurðar 22. sama mánaðar.

                Matsbeiðandi er lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, Hverfisgötu 115, Reykjavík.

                Matsþolar eru X, [...], Y, [...] og Z, [...].

                Þess er krafist að dómkvaddir verði tveir óvilhallir matsmenn til að gera mat á þroska og líðan drengsins A, [...], og að metin verði tengsl hans og viðhorf til móður sinnar, B og fyrrum sambýlismanns hennar, X, sem jafnframt sé sakborningur í málinu. Þá er þess krafist að lagt verði mat á hvort fyrir hendi séu aðstæður sem eru til þess fallnar að rýra sönnunargildi framburðar drengsins.

                Matsþolar krefjast þess að matsbeiðni lögreglustjóra verði hafnað.

I

                Málavextir eru þeir að með bréfi 28. maí 2013 óskaði barnaverndarnefnd Hafnarfjarðar eftir rannsókn lögreglu á ætluðum brotum X gagnvart A. Í bréfinu segir meðal annars að móðir drengsins hafi haft samband við starfsmann barnaverndarnefndar og skýrt frá því að drengurinn hafi lýst grófum kynferðisbrotum sem hann hefði orðið fyrir af hálfu X. Í bréfinu er rakin frásögn þar um. Þá segir að A hafi farið í könnunarviðtal hjá barnaverndarnefnd því tilkynning hafi borist frá skóla drengsins þess efnis að hann hafi rætt um að X hafi beitt hann ofbeldi. 

                Móðir drengsins lagði fram kæru hjá lögreglu 30. og 31. maí 2013 á hendur matsþolunum X og Y vegna ætlaðra kynferðisbrota þeirra gagnvart drengnum. Tekin var skýrsla af móður drengsins 24. september 2013 þar sem hún kvað drenginn hafa tjáð sér að matsþolinn Z hefði einnig brotið gegn drengnum. 

                Teknar voru þrjár skýrslur af drengnum fyrir dómi á árinu 2013, fyrst 6. júní með aðstoð sérhæfðs rannsakanda hjá lögreglu. Matsbeiðandi fullyrðir að augljóst sé að skýrslutakan hafi ekki gengið vel, en drengurinn hafi þó tjáð sig að fyrra bragði um að X hafi alltaf verið að gera eitthvað dónalegt við hann og til útskýringar á því hafi hann sagt að það væri verið að setja typpið í rassinn. Þá hafi drengurinn nefnt að Y hafi hjálpað honum svo að X myndi ekki gera „þetta“ við hann, en vildi ekki ræða nánar um hvað „þetta“ hefði verið. Skýrsla hafi aftur verið tekin af drengnum 12. júlí 2013. Þá hafi hann lýst meintum brotum X og Y og hvar þau hafi átt sér stað. Þriðja skýrslan hafi verið tekin 16. október 2013. Hafi skýrslutakan gengið fremur illa og hafi drengurinn ekki viljað ræða við viðmælendur sína. Hann hafi þó lýst því að Z hefði tekið af honum myndir á heimili X og að einu sinni hafi hann reynt að „pissa“ í hann á heimili sínu.

                Sakborningar í málinu hafi gefið skýrslu og neiti allir sök. Húsleitir hafi verið gerðar á heimilum þeirra og munir haldlagði í þágu rannsóknar málsins án þess að nokkuð fyndist sem tengist málinu. 

                Matsbeiðandi ákvað að hætta rannsókn málsins 5. nóvember 2013. Móðir drengsins kærði þá ákvörðun til ríkissaksóknara sem felldi ákvörðun lögreglustjórans úr gildi 2. janúar 2014. Sama dag sendi ríkissaksóknari fyrirmæli um rannsóknaraðgerðir samkvæmt 3. mgr. 21. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála með bréfi til lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu. Tekið er fram í bréfinu að eins og gögnum málsins sé háttað hafi lögreglustjóra borið að halda áfram rannsókn málsins. Þá kemur fram í bréfi ríkissaksóknara að rétt sé að lögreglustjóri fari fram á dómkvaðningu matsmanns í samræmi við XIX. kafla laga nr. 88/2008 til að meta þroska og líðan ætlaðs brotaþola og tengsl hans og viðhorf til móður sinnar og kærða X. Einnig að lagt verði mat á hvort fyrir hendi séu aðstæður sem séu til þess fallnar að rýra sönnunargildi framburðar hans. Bent er á tvo nafngreinda sérfræðinga, sálfræðing og barnageðlækni, sem hafi unnið slíkt mat áður og séu því hæfir matsmenn.

II

                Matsbeiðandi vísar til þess að í málinu liggi fyrir framburður sex ára gamals drengs um ætluð kynferðisbrot gagnvart honum. Telji ákæruvaldið að til staðar sé grundvöllur til að dómkvaddir verði matsmenn í samræmi við kröfur matsbeiðanda. Brýn þörf sé á því að afla matsins og telji ákæruvaldið matið meðal þeirra nauðsynlegu rannsóknargagna sem verði að liggja fyrir í málinu svo unnt sé að leggja heildstætt mat á það í samræmi við 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Dómkvaðning matsmannanna miði að því að leggja vandaðan grunn að ákvörðun ákæruvalds um það hvort rétt sé að gefa út ákæru eða fella málið niður. Með vísan til framangreinds, gagna málsins og 3. mgr. 18. gr. og 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að fallist verði á beiðni matsbeiðanda og að matsmenn verði dómkvaddir til starfans. 

III

                Af hálfu matsþolans X er vísað til þess að svör við tilgreindum matsspurningum séu algjörlega óþarfar fyrir rannsókn málsins og síðar dómsmeðferð. Auk þess sé byggt á því að matsspurningar og matið sjálft væru á skjön við meginreglur laga um meðferð sakamála. Gert sé ráð fyrir að fyrsta úrlausnarefni matsmanna sé að leggja almennt mat á þroska og líðan A. Ekki verði séð að slíkt mat eigi erindi í rannsókn málsins. Vísað sé til 128. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í athugasemdum með ákvæðinu sé vísað til 3. mgr. 110. gr. Þar segi að dómari skuli ekki verða við beiðni um dómkvaðningu matsmanna nema hann telji þörf á að afla slíks mats til þess að dómur verði lagður á málið. Samkvæmt þessu verði ekki séð að dómari eigi að samþykkja beiðnina því ekki verði séð að hennar sé þörf til að unnt verði að ákveða hvort ákæra eigi í málinu. Hvað varði aðra matsspurninguna um að lagt verði mat á tengsl drengsins við móður sína og X og viðhorf hans til þeirra sé óljóst hvað þessu sé ætlað að upplýsa um sakarefnið í málinu. Til rannsóknar hafi verið meint brot þriggja einstaklinga gegn drengnum. Ekki verði séð hvernig mat á tengslum drengsins við móður sína og einn sakborninga í málinu, X, geti skipt máli. Þá verði ekki séð hvernig viðhorf drengsins eigi að geta orðið sönnunargagn í málinu, eða hjálpað til við skýringu eða sönnun málsins. Um sé að ræða opna og víðtæka spurningu án nokkurs tilgangs. Með hliðsjón af 128. gr. og 110 gr. laga nr. 88/2008 beri dómara að hafna þessum lið og meina ákæruvaldinu þessa sönnunarfærslu eins og það sé orðað í 110. gr. laga nr. 88/2008. Þriðja spurningin sé á skjön við meginreglur laga um meðferð sakamála. Þrátt fyrir að lögin veiti heimild til þess í 127. gr. að dómkvaddir séu matsmenn sé skýrt kveðið á um það í 2. mgr. 127. gr. laganna að dómari leggi sjálfur mat á atriði er krefjist almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Um sönnun í sakamálum megi einnig vísa til 109. gr. laga um meðferð sakamála. Það sé ákæruvaldsins á grundvelli faglegrar menntunar og reynslu að meta það hvort nægileg sönnun sé fram komin til þess að sakfelling muni nást. Það geti aldrei verið verkefni dómkvaddra matsmanna. 

                Af hálfu matsþolans Y er vísað til framangreindra sjónarmiða sem hann geri að sínum. Við skýrslutökur af vitnum hjá lögreglu hafi komið fram að kærði Y hafi ekki verið í nokkurri aðstöðu til að brjóta gegn brotaþola með þeim hætti sem hann sé sakaður um. Fyrsta matsspurningin um almennt mat á þroska og líðan drengsins eigi ekkert erindi í sakamálið. Önnur matsspurning hafi ekkert með matsþolann Y að gera og verði ekki séð með hvaða hætti hann geti tengst matinu. Í þriðja lagi sé spurning matsbeiðanda um mat á framburði brotaþola í málinu. Það sé hlutverk dómara en ekki sálfræðings að meta framburð brotaþola. Af öllu þessu sé ljóst að hafna beri matsbeiðninni. 

                Matsþolinn Z gerir framangreind sjónarmið annarra matsþola að sínum en vekur athygli á því að hann blandist ekki inn í málið fyrr en 19. september 2013 eftir að málið hafði verið til rannsóknar í um sex mánuði.

IV

                Samkvæmt VII. kafla laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála fer lögregla með rannsókn sakamála nema öðru vísi sé fyrir mælt í lögum. Í 1. mgr. 53. gr. laganna segir að markmið rannsóknar sé að afla allra nauðsynlegra gagna til þess að ákæranda sé fært að ákveða að henni lokinni hvort sækja skuli mann til sakar, svo og að afla gagna til undirbúnings málsmeðferð fyrir dómi. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að þeir sem rannsaka sakamál skuli vinna að því að hið sanna og rétta komi í ljós og gæta jafnt að þeim atriðum sem horfa til sýknu og sektar. Mikilvægt er að rannsókn lögreglu á sakamáli sé nægilega vönduð áður en ákvörðun er tekin um útgáfu ákæru. Ræðst það af eðli máls hvaða gagna aflað er í því skyni.

                Í 86. gr. laga nr. 88/2008 segir að í þágu rannsóknar leiti lögregla til sérfróðra manna ef þörf þyki á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál, svo sem læknisskoðun, efnafræðilegri rannsókn, rithandarrannsókn eða bókhaldsrannsókn. Einnig segir að lögregla eða ákærandi geti farið fram á að dómkvaddur verði matsmaður samkvæmt 128. gr. laganna. Í athugasemdum með 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála segir meðal annars að lögregla eða ákærandi geti farið fram á, sé talin ástæða til, að sérfræðingar, sem kvaddir eru til aðstoðar við rannsókn máls, verði dómkvaddir sem matsmenn samkvæmt 1. mgr. 128. gr. í stað þess að þeir verði fengnir til aðstoðar með óformlegum hætti eins og tíðkast hefur. Þá segir að þar sem dómari hafi sjálfstæðari stöðu gagnvart sökuðum manni en lögregla og ákæruvald og vegna þess að veita beri sakborningi, sé hann til staðar, tækifæri til að tjá sig um dómkvaðninguna og síðar á matsfundi, hafi matsgerð slíkra matsmanna að öðru jöfnu ríkara sönnunargildi en skýrsla eða álitsgerð sérfræðinga sem ekki eru dómkvaddir.

                Samkvæmt framangreindu er ljóst að lögregla eða ákærandi geta farið fram á að dómkvaddur verði matsmaður samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laga nr. 88/2008. Þá er aðilum sakamáls almennt heimilt samkvæmt XII. kafla laganna að leggja fram mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn til að færa sönnur á málsatvik. Dómara er þó heimilt að meina aðilum um sönnunarfærslu ef hann telur bersýnilegt að atriði, sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar. Kemur þetta fram í 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Í athugasemdum sem fylgdu 128. gr. í frumvarpi því er varð að framannefndum lögum nr. 88/2008 segir að því er varðar matsgerðir að dómari skuli ekki verða við beiðni um dómkvaðningu nema hann telji þörf á að afla slíks mats til þess að dómur verði lagður á málið. Samkvæmt 2. mgr. 127. gr. laga nr. 88/2008 leggur dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Þá metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga við broti, þar á meðal hvaða sönnunargildi skýrslur ákærða hafi, vitnisburður, mats- og skoðunargerðir, skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem færð eru fram í máli, sbr. ákvæði 1. mgr. 109. gr. laganna. Loks er það meginregla við meðferð sakamáls að sönnunarfærsla skuli vera milliliðalaus, það er að dómur skal reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð málsins fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. sömu laga. Liggur hluti af sönnunarmati dómara í mati á sannleiksgildi framburða þeirra er koma fyrir dóminn og bera um atvik máls. 

                Matsbeiðandi óskar eftir því að dómkvaddir verði tveir óvilhallir matsmenn til þess að meta þroska og líðan sjö ára gamals drengs, A, tengsl hans við móður sína og einn sakborninga í málinu, X, og viðhorf drengsins til þeirra. Loks verði lagt mat á það hvort fyrir hendi séu aðstæður sem eru til þess fallnar að rýra sönnunargildi framburðar hans. Af hálfu matsbeiðanda er einkum vísað til þess að brýn þörf  sé á því að afla matsins sem ákæruvaldið telji vera meðal þeirra rannsóknargagna sem nauðsynleg séu til unnt sé að „leggja heildstætt mat á málið í samræmi við 145. gr. laga nr. 88/2008 ...“ og miði dómkvaðning matsmannanna að því að „leggja vandaðan grunn að ákvörðun ákæruvalds um það hvort rétt sé að gefa út ákæru eða fella mál niður.“

                Samkvæmt spurningum í tölusettum liðum 1-3 í matsbeiðni verður ekki hjá því komist að álykta sem svo að í reynd sé matsbeiðandi í öllum tilvikum að leitast við að afla sérfræðiálits um trúverðugleika vitnisburðar brotaþola í því skyni að fá álitið lagt fram fyrir dóminn. Nánar tiltekið er um að ræða vitnisburð sem gefinn hefur verið fyrir dómi í þremur skýrslum, teknum í Barnahúsi 6. júní, 12. júlí og 16. október 2013. Í öllum tilvikum er um að ræða skýrslur fyrir dómi, teknar samkvæmt heimild í a. lið 1. mgr. 59. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þau matsatriði, sem lögregla og ákæruvald óska eftir að leggja fyrir hina dómkvöddu matsmenn, sálfræðing og barnageðlækni, eru að mati dómsins almenn atriði er lúta að trúverðugleika meints brotaþola í málinu sem gefið hefur skýrslu frammi fyrir dómara. Fram er komið að það er hlutverk dómara, og eftir atvikum fjölskipaðs dóms, að leggja mat á sönnunargildi framburðar vitnis í sakamáli. Slíkt mat á framburði er beinlínis lögbundið hlutverk dómara. Það að leggja slíkt mat í hendur sérfræðinga áður en ákvörðun er tekin um saksókn, samkvæmt 145. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og áður en til aðalmeðferðar kemur verður að teljast í andstöðu við þær meginreglur sakamálaréttarfars sem raktar eru hér að framan. Það fær ekki staðist að lögum að slíkt mat sérfræðinga geti verið grunnur að ákvörðun ákæruvalds um það hvort gefa skuli út ákæru í málinu eða ekki. Þá þykir sýnt að þar sem á slíkum gögnum yrði ekki byggt fyrir dómi séu þau sýnilega þarflaus, sbr. 3. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ber því samkvæmt 1. mgr. 128. gr. laganna að hafna kröfu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu um dómkvaðningu matsmanna. 

Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Beiðni lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, sem barst dóminum 25. apríl 2014, um að dómkvaddir verði tveir óvilhallir matsmenn, er hafnað.