Hæstiréttur íslands

Mál nr. 129/1999


Lykilorð

  • Félagsdómur
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                                                                                                 

Fimmtudaginn 25. mars 1999.

Nr. 129/1999.

Íslenska ríkið

(Einar Karl Hallvarðsson hrl.)

gegn

Starfsmannafélagi ríkisstofnana

f.h. Halldóru Hilmarsdóttur

(Gestur Jónsson hrl.)

Félagsdómur. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Talið var að félagsdómsmál, sem Starfsmannafélag ríkisstofnana hafði höfðað fyrir hönd eins félagsmanna sinna gegn íslenska ríkinu, varðaði skilning á reglum kjarasamnings sem ætti undir lögsögu Félagsdóms. Var staðfest niðurstaða Félagsdóms um að hafna kröfu ríkisins um frávísun málsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 10. mars 1999, sem barst réttinum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Félagsdóms 4. mars sl. þar sem hafnað er frávísunarkröfu sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. tl. 67. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, sbr. IV. kafla laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.

Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og málinu verði vísað frá Félagsdómi. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Félagsdómi og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar úrskurðarins og kærumálskostnaðar.

Skilja verður mál þetta svo að Starfsmannafélag ríkisstofnana sé stefnandi þess þótt málið sé höfðað vegna Halldóru Hilmarsdóttur. Ágreiningur er með samningsaðilum um skilning á reglum kjarasamnings sem á undir lögsögu Félagsdóms samkvæmt 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986. Með þessari athugasemd og vísun til forsendna Félagsdóms ber að staðfesta úrskurðinn.

Rétt er að hvor aðila beri sinn kærumálskostnað.

                                                    Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður skal vera óraskaður.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Félagsdóms 4. mars 1999.

Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefnda hinn 8. febrúar sl.

Málið úrskurða Eggert Óskarsson, Ingibjörg Benediktsdóttir, Gylfi Knudsen, Guðni Á. Haraldsson og Kristján Torfason.

Stefnandi er Starfsmannafélag ríkisstofnana (SFR), kt. 620269-3449, Grettisgötu 89, Reykjavík, f.h. félagsmanns síns Halldóru Hilmarsdóttur, kt. 161272-5589, Gullteig 12, Reykjavík.

Stefndi er fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs, kt. 550169-2829, Arnarhváli, Reykjavík, vegna ríkisspítalanna, kt. 540269-6379, Rauðarárstíg 31, Reykjavík.

Dómkröfur stefnanda.

Að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé skylt að greiða Halldóru staðgengilslaun samkvæmt launaflokki 242 þrepi 8 í kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra f.h. ríkisins tímabilin 01.04.97-30.06.97, 04.12.97-31.01.98 og 16.03.98-31.03.98 og samkvæmt launaflokki B03-6 tímabilið 01.04.98-13.04.98.

Þá er krafist málskostnaðar samkvæmt gjaldskrá Lögmanna Mörkinni 1 sf.  Við málskostnaðarákvörðun verði gætt að skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt vegna lögmannsþjónustu.

Dómkröfur stefnda.

Aðallega að málinu verði vísað frá Félagsdómi og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samkvæmt mati Félagsdóms.  Verði málinu ekki vísað frá dómi bíði málskostnaður efnisdóms.

Til vara krefst stefndi þess að verða sýknaður af öllum kröfum stefnanda og að stefnanda verði gert að greiða stefnda málskostnað samvkæmt mati Félagsdóms.

Málavextir.

Stefnandi Halldóra Hilmarsdóttir er læknaritari að mennt og starfar hjá stefnda.  Hún er félagsmaður í Starfsmannafélagi ríkisstofnana (SFR) og fékk greidd laun á þeim tíma sem hér skiptir máli samkvæmt þrepi 3 í launaflokki 239 í kjarasamningi SFR og stefnda.  Stefnandi gegnir ekki launuðu staðgengilsstarfi.

Sveindís Þórisdóttir er deildarlæknaritari á Landspítalanum.  Hún fékk greidd laun á þeim tíma sem um ræðir samkvæmt þrepi 8 í launaflokki 242 í kjarasamningi SFR og samkvæmt launaflokki B03-6 tímabilið 01.04.98-13.04.98.

Sveindís var frá störfum vegna forfalla tímabilin 01.04.97-30.06.97, 04.12.97-31.01.98 og 16.03.98-13.04.98.  Var stefnanda falið af stefnda að gegna störfum Sveindísar í forföllum hennar

Í grein 9.3.1 í kjarasamningi SFR er svohljóðandi ákvæði:

„Starfsmaður sem ekki er í stöðu staðgengils yfirmanns, en er falið að gegna störfum yfirmanns í forföllum hans eða störfum annars hærra launaðs starfsmanns, skal taka laun skv. launaflokki hins forfallaða starfsmanns þann tíma, er hann gegnir starfi hans.“

Aðila greinir á um það hvort Halldóra Hilmarsdóttir eigi rétt til staðgengilslauna samkvæmt ákvæði þessu þann tíma sem hún gegndi störfum Sveindísar Þórisdóttur í forföllum hennar.

Stefnandi kveður mál þetta falla undir lögsögu Félagsdóms á grundvelli 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi kveðst byggja á eftirtöldum málsástæðum og lagarökum.

Krafa stefnanda sé um laun samkvæmt þeim launaflokki og því launaþrepi sem hinn forfallaði starfsmaður hafi fengið greidd laun eftir.  Krafan sé byggð á grein 9.3.1 í kjarasamningi SFR og stefnda.  Eins og skýrt komi fram í ákvæðinu eigi það við hvort sem hinn forfallaði starfsmaður sé (1) yfirmaður viðkomandi starfsmanns eða (2) annar hærra launaður starfsmaður.  Telur stefnandi öll skilyrði kjarasamningsákvæðisins uppfyllt.  Á því er byggt að þar sem hinn forfallaði starfsmaður hafi fengið greidd laun samkvæmt 8 þrepi launaflokks 242 og að hluta samkvæmt launaflokki B03-6 eigi stefnandi rétt til launa samkvæmt sama launaflokki og sama launaþrepi þann tíma sem hærra launaði starfsmaðurinn var fjarverandi vegna forfalla og stefnandi gegndi starfi hans.

Stefnandi bendir á að Félagsdómur hafi þegar dæmt um það álitaefni sem hér sé lagt fyrir dóm.  Vísast til dóma Félagsdóms frá 30. desember 1991 í málinu nr. 6/1991 og frá 2. nóvember 1993 í málinu nr. 8/1993.  Sá einn munur sé á atvikum þessa máls og tilvitnuðum málum að í þessu tilviki sé hinn forfallaði „annar hærra launaður starfsmaður“  en í  dómunum hafi hinir forfölluðu verið yfirmenn staðgengilsins.

Krafa um málskostnað er reist á 130. gr. laga um meðferð einkamála.  Stefnandi telur að við ákvörðun málskostnaðar beri að líta til þess að stefnandi hafi leitast við að fá niðurstöðu í málið með tilvísun til dómafordæma Félagsdóms í sambærilegum málum, en stefndi hafi kosið að líta fram hjá þeim þannig að málshöfðun sé nauðsynleg.  Stefndi njóti ekki frádráttarréttar vegna kostnaðar af virðisaukaskatti.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína á því að um sé að ræða kröfu sem hafi öll einkenni og eðli sakarefnis um vangoldin laun.  Stefndi telur málið eins og það er lagt fyrir ekki eiga undir Félagsdóm samkvæmt 3. tölulið 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasamninga opinberra starfsmanna.  Sé gerð krafa þess efnis að viðurkennt verði með dómi að stefnda sé skylt að greiða Halldóru Hilmarsdóttur staðgengilslaun samkvæmt launaflokki 242 þrepi 8 og launaflokki B03-6 í kjarasamningi SFR og fjármálaráðherra fyrir hönd ríkisins tiltekin tímabil.  Í raun sé um að ræða kröfu um greiðslu fjár sem ekki eigi undir Félagsdóm.  Stefndi telur að lögsögu Félagsdóms beri að túlka þröngt, enda um sérdómstól að ræða sem skilur tiltekin sakarefni undan lögsögu hinna almennu dómstóla.  Ekki séu rök til að undanskilja sakarefnið lögsögu hinna almennu dómstóla þar sem úrslit málsins ráðist fremur af þeim þáttum er varða ráðningarsamband Halldóru Hilmarsdóttur, vinnutíma hennar og ráðningarkjör, fremur en skýringu kjarasamnings.  Sé ekkert því til fyrirstöðu að á ákvæði kjarasamnings geti hins vegar reynt í almennu einkamáli, sbr. H. 1997: 30.  Reyni þar að auki á ýmis atriði í málinu varðandi starfshlutfall, nýjan kjarasamning og launaflokka sem örðugt sé að leysa úr eins og málið sé höfðað.

Stefndi byggir frávísunarkröfu sína einnig á því að kröfugerð málsins sé óljós og málið ekki reifað nægjanlega.  Þau tímabil afleysinga sem tiltekin séu í formi talnarunu í kröfugerð spanni yfir gildistíma tveggja kjarasamninga sem byggi á gerólíkum ákvæðum um röðun starfsmanna í launaflokka.  Vísast þar til gildandi kjarasamnings aðila málsins, dags. 24. apríl 1997, en samkvæmt honum skyldi nýtt launakerfi taka gildi þann 1. apríl 1998, en vera að fullu komið til framkvæmda þann 1. júní 1998.  Þar sem ekki liggi fyrir nauðsynleg reifun máls og dómkrafan sé af þessum sökum óskýr telur stefndi að vísa beri málinu frá dómi.  Vísast til meginreglu einkamálaréttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. 25. gr. og 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og 69. gr. laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur.  Sé vanreifun málsins ennfremur fólgin í því að kenna Halldóru Hilmarsdóttur við beina aðild málsins þótt aðild hennar sé ekki til að dreifa.

Í ljósi framanritaðs er ennfremur á það bent að lögvarðir hagsmunir af úrlausn um túlkun á kjarasamningi þeim sem kröfugerðin vísar til með tilliti til þeirra launaflokkaröðunar sem þar um ræðir séu liðnir undir lok þar sem gerbreytt launakerfi sé nú við lýði.  Styðji það frekar að úr málinu skuli leyst fyrir almennum dómstólum milli Halldóru og stefnda.

Stefndi byggir einnig frávísunarkröfu sína á því að ekki liggi fyrir formlega að málið sé útkljáð af samráðsnefnd, svo sem kjarasamningur aðila ráðgeri í grein 11.2, áður en málum sé skotið til Félagsdóms.  Liggi því ekki fyrir það skilyrði laga og kjarasamnings að fyrir hendi sé ágreiningur um túlkun á ákvæði kjarasamnings, sbr. orðalag 26. gr. laga nr. 94/1986.  Hafi málið hvorki verið tekið fyrir í samráðsnefnd Ríkisspítala og stefnanda né samstarfsnefnd.  Þessu til áréttingar er einnig vísað til bókunar 1 með nýjum kjarasamningi aðila þar sem þeir hafa skuldbundið sig til að endurskoða ákvæði hans um staðgengla að því marki sem ekki verði ráðið til lykta á vettvangi aðlögunarnefnda.

Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og gerir kröfu til málskostnaðar í þessum  þætti málsins.  Stefnandi heldur því m.a. fram að málið varði ágreining um túlkun á tilgreindu ákvæði kjarasamnings aðila.

Niðurstaða.

Gögn málsins bera með sér að aðila greinir á um túlkun og skilning á reglum kjarasamnings aðila um staðgengla samkvæmt 9. kafla í kjarasamningi þeirra.  Nánar tiltekið er um að ræða ákvæði 9.3.1 í núgildandi kjarasamningi aðila sem hljóðar svo:

„Starfsmaður sem ekki er í stöðu staðgengils yfirmanns, en er falið að gegna störfum yfirmanns í forföllum hans eða störfum annars hærra launaðs starfsmanns, skal taka laun skv. launaflokki hins forfallaða starfsmanns þann tíma, er hann gegnir starfi hans.“

Reynt hefur áður á skýringu þessa ákvæðis fyrir Félagsdómi í hliðstæðum málum nr. 6/1991 og 8/1993.  

Samkvæmt framansögðu verður að telja að mál þetta heyri undir valdsvið Félagsdóms með vísan til 3. tl. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 94/1986 um kjarasaminga opinberra starfsmanna, sbr. og 27. gr. laganna.

Með framlagðri bókun stefnanda um breytta kröfugerð hefur verið bætt úr vanreifun málsins að því varðar launatímabil og launaflokka.  Samkvæmt þessu verður hvorki talið að málið sé vanreifað svo að frávísun varði né að stefnandi hafi ekki lögvarða hagsmuni af úrlausn þess.

Ekki verður talið að ákvæði í kjarasamningi aðila um samstarfsnefnd standi því í vegi að Félagsdómur fjalli um málið, enda liggur ekki fyrir að málinu hafi verið skotið til samstarfsnefndar eins og heimilt er samkvæmt gr. 11.2 í kjarasamningi aðila. Ekkert liggur fyrir um það að málið hafi verið lagt fyrir svonefnda samráðsnefnd Ríkisspítala og stefnanda.

Þá verður ekki talið að bókun 1 með kjarasamningi um endurskoðun ákvæða um staðgengla séu því til fyrirstöðu að um ágreiningsefnið sé fjallað fyrir dómi.

Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins.

Rétt þykir að málskostnaður falli niður í þessum þætti málsins.

Úrskurðarorð:

Frávísunarkröfu stefnda er hafnað.

Málskostnaður fellur niður.