Hæstiréttur íslands

Mál nr. 281/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Þagnarskylda
  • Matsmenn
  • Afhending gagna
  • Vitni


                                     

Föstudaginn 23. maí 2014.

Nr. 281/2014.

Glitnir hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins

(Jón Sigurðsson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Þagnarskylda. Matsmenn. Afhending gagna. Vitni.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu L um að G hf. yrði gert að afhenda dómkvöddum matsmönnum tiltekin gögn og veita sömu mönnum aðgang að matsandlaginu, en tekin til greina krafa L um að taka skyldi skýrslu af sjö nafngreindum vitnum. Matsmennirnir höfðu verið dómkvaddir í tengslum við rekstur máls L á hendur G hf., vegna ágreinings um rétthæð kröfu sem L lýsti við slit G hf. Kröfuna reisti L á skuldabréfi sem hann hafði fest kaup á, útgefnu af G hf., og bar því við að G hf. hefði veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína er skuldabréfið var gefið út og selt sér. Í dómi Hæstaréttar var rakið að heimildir matsmanna til gagnaöflunar og skyldu til að láta gögn af hendi sættu meðal annars takmörkunum sem leiddu af 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Til þess að unnt væri að meta hvort beiðni um gögn eða upplýsingar færi í bága við þagnarskyldu samkvæmt síðastgreindri lagagrein yrði að tilgreina nægilega skýrt hvaða gagna væri óskað og að slíkt tilviksbundið mat heyrði undir dómstóla. Við það mat hefði í dómaframkvæmd verið lagt til grundvallar að ekki væri sama ástæða til að veita félögum sem tekin hefðu verið til gjaldþrotaskipta jafn ríka vernd og einstaklingum, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um meðferð gjaldþrotaskipta o.fl. Hæstiréttur felldi hinn kærða úrskurð úr gildi á þann veg að tekin var greina krafa L um að G hf. yrði gert að afhenda gögn með tilgreindum upplýsingum um níu nánar tilteknar lánveitingar, yfirliti um lánveitingar til og aðrar skuldbindingar gagnvart 12 nafngreindum aðilum við G hf. á tímabilinu 31. desember 2007 til 31. mars 2008 ásamt yfirlitum um tryggingar vegna þeirra, yfirliti um allar lánveitingar og samninga miðað við tvær fyrrgreindar dagsetningar þar sem hlutabréf í G hf. sjálfum og 17 öðrum tilgreindum félögum voru til tryggingar og loks gögn með yfirliti um alla samninga G hf. við M og dótturfélög, þar með talið framvirka samninga um hlutabréf í G hf., F hf. og M hf. Á hinn bóginn staðfesti Hæstiréttur niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að heimila skýrslugjöf sjö nafngreindra vitna. Hið sama gilti um þá niðurstöðu hins kærða úrskurðar að synja matsmönnum um aðgang að bókum G hf. og öðrum tilteknum gögnum en að framan var getið, enda væri beiðni L þar að lútandi svo úr garði gerð að ekki væri unnt að meta hvort hún færi í bága við 58. gr. laga nr. 161/2002.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Þorgeir Örlygsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. apríl 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2014, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að sóknaraðila yrði gert að afhenda dómkvöddum matsmönnum tiltekin gögn og að honum yrði gert að veita sömu mönnum „aðgang að matsandlaginu“. Þá var tekin til greina krafa varnaraðila um að taka skyldi skýrslu af sjö nafngreindum vitnum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi að því er varðar þá niðurstöðu að taka skuli skýrslu af sjö nafngreindum vitnum. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Varnaraðili kærði úrskurð héraðsdóms fyrir sitt leyti 3. apríl 2014. Hann krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi á þann veg að teknar verði til greina kröfur hans er lúta að afhendingu gagna og aðgengi að matsandlagi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.

I

Varnaraðili keypti 28. mars 2008 skuldabréf að nafnverði 370.000.000 krónur af varnaraðila, sem þá bar heitið Glitnir banki hf. Bréfið var í skuldabréfaflokki sem gefinn var út af sóknaraðila og bar auðkennið GLBCONV 0413. Skuldabréfaflokkurinn var skráður hjá Verðbréfaskrá Íslands 15. apríl 2008 og heildarverðmæti hans 15 milljarðar króna. Skuldabréfið mun samkvæmt skilmálum þess hafa átt að teljast til eiginfjárþáttar A samkvæmt reglum nr. 156/2005 um viðbótareiginfjárliði fyrir fjármálafyrirtæki, sbr. 10. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Í því fólst að krafa samkvæmt skuldabréfinu viki fyrir öðrum kröfum á hendur útgefanda við gjaldþrotaskipti hans eða slit, öðrum en kröfum um endurgreiðslu hlutafjár, sbr. 4. tölulið 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en kröfur samkvæmt skuldabréfinu væru jafnréttháar öðrum víkjandi skuldabréfum sem teldust til eiginfjárþáttar A, er útgefandi kynni að hafa gefið út.

Eins og alkunna er tók Fjármálaeftirlitið sóknaraðila yfir, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd 7. október 2008. Héraðsdómur Reykjavíkur skipaði sóknaraðila slitastjórn 12. maí 2009 samkvæmt 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða í lögum nr. 44/2009, sem breyttu lögum nr. 161/2002. Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna 25. maí 2009 og lauk kröfulýsingafresti 26. nóvember sama ár. Varnaraðili lýsti kröfu að fjárhæð 472.268.380 krónur við slitin og var hún reist á skuldabréfi því, sem áður greinir. Varnaraðili krafðist þess að krafan yrði viðurkennd í réttindaröð sem almenn krafa, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991. Slitastjórn sóknaraðila hafnaði því að viðurkenna kröfuna, en taldi hana eftirstæða í réttindaröð samkvæmt 4. tölulið 114. gr. laganna og því ekki ástæða til þess að taka afstöðu til hennar að öðru leyti. Röksemdir varnaraðila fyrir því að krafan ætti að njóta stöðu í réttindaröð sem almenn krafa, þrátt fyrir fyrrgreinda skilmála skuldabréfsins, voru þær að við útgáfu skuldabréfaflokksins hafi sóknaraðili lýst því yfir að hann stæði vel að vígi fjárhagslega, hefði gott tekjustreymi, sterkt og gott eignasafn, auk þess sem eiginfjárhlutfall hans væri vel yfir lögboðnum mörkum. Heldur varnaraðili því fram að þessar upplýsingar hafi verið rangar og fyrirsvarsmenn sóknaraðila hafi vitað eða mátt vita að svo var á þeim tíma sem skuldabréfið var gefið út. Telur varnaraðili að samningur hans við sóknaraðila um kaup á skuldabréfinu sé ógildanlegur á grundvelli reglna samningaréttar um brostnar forsendur og ógildingarreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggeringa. Telur hann sig af þeim sökum eiga rétt á endurgreiðslu þeirrar fjárhæðar, sem hann lýsti við slitin. Hann reisir kröfu sína einnig á reglum um galla í lögum um lausafjárkaup nr. 50/2000 og að því frágengnu telur hann sig eiga rétt á skaðabótum úr hendi sóknaraðila að lýstri fjárhæð.

Þegar ekki tókst að jafna ágreining aðila um rétthæð kröfu varnaraðila var honum beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar með vísan til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr., laga nr. 21/1991. Málið var þingfest þar 3. júní 2010.

II

Eins og áður greinir reisir varnaraðili málatilbúnað sinn á því að sóknaraðili hafi veitt rangar upplýsingar um fjárhagsstöðu sína er skuldabréf það, sem er grundvöllur kröfunnar, var gefið út og selt varnaraðila. Með dómi Hæstaréttar 14. desember 2012 í máli nr. 684/2012 var fallist á kröfu varnaraðila um að dómkvaddir yrðu matsmenn til að láta í té skriflegt og rökstutt álit á nokkrum atriðum er vörðuðu efnahag sóknaraðila á árunum 2007 og 2008. Matsmenn skyldu leggja mat á uppbyggingu eigin fjár og eiginfjárhlutfalls sóknaraðila á þessum tíma, afskriftaþörf hans og hvert lausafé hans hefði verið að teknu tilliti til tiltekinna þátta og reglna um hvernig skuli telja þessa þætti fram í rekstri fjármálafyrirtækis. Þær spurningar sem fallist var á að matsmenn skyldu svara lutu að eftirtöldum atriðum. Í fyrsta lagi hve miklum hluta eiginfjár sóknaraðila tilteknar lánveitingar hans, sem útlistaðar voru í átta stafliðum, hafi numið á nánar greindum tíma og hvert hafi verið vægi hvers láns um sig í eiginfjárhlutfalli hans. Í öðru lagi var óskað hins sama um ótilgreindar lánveitingar sóknaraðila sem matsmenn kynnu að greina við rannsókn sína og hefðu sömu einkenni og þau lán sem tilgreind voru í fyrstu matsspurningu. Í þriðja lagi hve mikill hluti af eigin fé og eignfjárhlutfalli sóknaraðila samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007 og árshlutareikningi 31. mars 2008 hafi staðið saman af lánveitingum til nafngreindra aðaleigenda sóknaraðila og tengdra aðila, umfram lögbundið 25% hámarkshlutfall af eiginfjárgrunni samkvæmt 30. gr. laga nr. 161/2002. Í fjórða lagi hvert matsmenn telji að hafi verið ,,eiginfjárhlutfall (CAD hlutfall)“ sóknaraðila samkvæmt 84. gr. laga nr. 161/2002 að gættum reglum 85. gr. sömu laga, annars vegar 31. desember 2007, og hins vegar 31. mars 2008, að virtum áhrifum lánveitinga sem til er vitnað í matsspurningu í fyrsta, öðrum og þriðja lið að framan. Í fimmta lagi hver hafi verið lausafjárstaða sóknaraðila (,,cash  eða ,,cash balances“), annars vegar 31. desember 2007 og hins vegar 31. mars 2008, að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem fram komu í árs- og árshlutareikningi hans á sömu dagsetningum og lausafjáryfirlitum sem sóknaraðili sendi Seðlabanka Íslands 31. desember 2007 og 31. mars 2008.

III

Matsmenn telja að þau gögn sem þeir hafa aflað í því skyni að svara matsspurningum, sem lagðar hafa verið fyrir þá, en sóknaraðili hefur afhent sum þeirra, séu ekki fullnægjandi til þess að þeir geti svarað spurningunum. Þeir kveða sóknaraðila hafa synjað fyrir að afhenda önnur gögn, sem þeir hafi beðið um. Varnaraðili lagði fram beiðni 13. desember 2013 til Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem óskað var í fyrsta lagi eftir gögnum frá sóknarðila, í öðru lagi eftir því að matsmönnum yrði veittur aðgangur að bókum sóknaraðila eða ,,matsandlaginu“ og í þriðja lagi að teknar yrðu skýrslur af sjö nafngreindum fyrrverandi starfsmönnum sóknaraðila. Sóknaraðili mótmælti því að fallist yrði á þessa beiðni varnaraðila.

Í hinum kærða úrskurði var beiðni sóknaraðila um gögn og um að fá aðgang að ,,matsandlaginu“ hafnað en fallist á að leiddir yrðu sem vitni sjö starfsmenn sóknaraðila.

Þau gögn, sem beiðni sóknaraðila lýtur að, eru útlistuð í fylgiskjali með henni og eru eftirfarandi: 1. Í fyrsta lagi gögn, sem tengjast matsspurningu númer eitt og eru flokkuð eftir stafliðum a til h með sama hætti og hún. Í staflið a er óskað gagna vegna 102.000.000 evra láns sóknaraðila í febrúar 2008 til Vafnings ehf. og 187.000.000 evra láns til Svartháfs ehf. í sama mánuði. Gögnin sem óskað er eftir eru lánssamningar, veðskjöl og framvirkir samningar sem kunna að hafa verið gerðir í tengslum við lánin, auk breytinga sem kunna að hafa verið gerðar á skilmálum þeirra til 31. mars 2008. Jafnframt er óskað upplýsinga um stöðu lánanna við uppgjör þeirra síðastgreindan dag og nánar tilgreindra upplýsinga sem lúta að þessum lánveitingum þar á meðal um uppgjörsflokk lánanna á uppgjörsdegi. Í staflið b er óskað eftir samsvarandi gögnum og upplýsingum vegna 50.000.000 evra láns sóknaraðila til FL Group hf. í mars 2008 sem veitt var í tilgreindu skyni. Í c lið er enn óskað eftir samsvarandi gögnum og upplýsingum, annars vegar vegna um 19.600.000.000 króna láns sóknaraðila 12. nóvember 2007 til Stíms ehf., sem veitt var til kaupa á hlutum í sóknaraðila og um 4,3% hlutafjár í FL Group hf., og hins vegar vegna lána sem veitt voru 31. mars 2008 að fjárhæð 12.000.000.000 króna til fjögurra tilgreindra félaga til að fjármagna kaup þeirra á hlutum í sóknaraðila. Í staflið d er óskað samsvarandi gagna og upplýsinga um 7.500.000.000 króna lán sóknaraðila 21. desember 2007 til Salt Investments ehf. til kaupa á 2,3% hlut í sóknaraðila. Í e lið er óskað eftir sömu gögnum og upplýsingum vegna 5.200.000.000 króna láns sóknaraðila í febrúar 2008 til Rákungs ehf. til kaupa á hlutum í sóknaraðila. Í f lið er óskað samsvarandi gagna og upplýsinga um 5.000.000.000 króna lán sóknaraðila í febrúar 2008 til IceProperties ehf. til kaupa á hlutum í sóknaraðila að tilgreindri fjárhæð. Í g lið er óskað samsvarandi gagna og upplýsinga vegna 17.100.000.000 króna láns sóknaraðila í nóvember eða desember 2007 til BK-44 ehf. til kaupa á hlutum í sóknaraðila. Loks er í h lið spurt hvaða upplýsingar og í hvaða formi sóknaraðili hafi um veðtöku í hlutabréfum í sjálfum sér sem bankinn hafði selt í framvirkum viðskiptum í árslok 2007. Tiltekið er að í matsspurningu séu þetta sagðir vera 663,8 milljónir hluta að markaðsvirði 14.500.000.000 krónur. 2. Í öðru lagi er óskað eftir fundargerðum áhættunefndar sóknaraðila á tímabilinu 1. september 2007 til 31. mars 2008. Í rökstuðningi fyrir þessum þætti er fjallað um hlutverk áhættunefndar og hvaða gögn skuli lögð fyrir nefndina. 3. Í þriðja lagi segir í fylgiskjali með beiðninni að óskað sé eftir yfirliti um lánveitingar til og aðrar skuldbindingar gagnvart nafngreindum aðilum við sóknaraðila 31. desember 2007 og 31. mars 2008 ásamt yfirlitum um tryggingar vegna þeirra. Taldir eru upp FL Group hf. og tengdir aðilar, Baugur Group hf. og tengdir aðilar, Milestone hf. og tengdir aðilar, Fons ehf. og tengdir aðilar, Stím ehf., Gnúpur fjárfestingafélag hf., Fjárfestingafélagið Prímus ehf., Kistan ehf., Lyfjablóm ehf., Björgólfur Guðmundsson, Materia Invest ehf. og Sund ehf. Tilgreindar eru nokkrar röksemdir fyrir því hvers vegna matsmenn óski eftir gögnum um lánveitingar og aðrar skuldbindingar þessara aðila. 4. Í fjórða lagi er óskað eftir yfirliti um allar lánveitingar og samninga, annars vegar miðað við 31. desember 2007, og hins vegar miðað við 31. mars 2008 þar sem hlutabréf í sóknaraðila sjálfum og 17 öðrum tilgreindum félögum voru til tryggingar. 5. Í fimmta lagi er óskað eftir yfirliti um ,,hlutabréf í bankanum (Glitni) sem voru í eigu félaga tengdum starfsmönnum bankans.“ Jafnframt yfirliti um ,,hlutabréf í bankanum (Glitni) sem voru í eigu 3ja aðila í tengslum við skuldbindingar bankans (Glitnis) vegna kaupréttarsamninga starfsmanna og stjórnenda“ hans. 6. Í sjötta lagi er í fylgiskjali með beiðninni gerð grein fyrir því áliti matsmanna að þeim sé nauðsynlegt að fá tiltekin gögn og upplýsingar sem varða félagið Drumlin JV Inc. og að því búnu eru taldir upp ársreikningar og milliuppgjör þessa félags. Þá er óskað yfirlits um alla samninga við Morgan Stanley og dótturfélög, afrit af samningi um stofnun og rekstur Drumlin JV Inc. og fundargerðir stjórnar þess félags, afrit af samningum ,,þar sem Morgan Stanley, Glitnir banki hf. og Milestone ehf. eru sameiginlega hluti af. Afrit af samningum þar sem Morgan Stanley, Glitnir banki hf. og Þáttur eignarhaldsfélag ehf. eru sameiginlega hluti af. Afrit af samningum þar sem Morgan Stanley, Glitnir banki og Þáttur International ehf. eru sameiginlega hluti af.“ Ennfremur er óskað eftir yfirliti um samninga eða viðskipti sem sóknaraðili eða sjóðir á vegum hans áttu við, eða yfirlýsingu um að engin viðskipti hafi átt sér stað við, ellefu erlend félög sem nafngreind eru. Að endingu er óskað yfirlits um lánveitingar Glitnis til erlendra banka árin 2006, 2007 og 2008.

IV

Samkvæmt 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 er þeim, sem hefur umráð þess sem matsgerð lýtur að, skylt að veita matsmanni aðgang að því nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það. Af lokamálslið 2. mgr. sömu greinar leiðir að reynist vitnaleiðsla nauðsynleg til skýringar á matsatriði sé dómara rétt að láta hana þegar fara fram.

Framangreind ákvæði um heimildir matsmanna til gagnaöflunar og skyldu til að láta gögn af hendi eru háð takmörkunum sem meðal annars leiða af 58. gr. laga nr. 161/2002. Til þess að unnt sé að meta hvort beiðni um gögn eða upplýsingar fari í bága við þagnarskyldu samkvæmt greininni verður að tilgreina nægilega skýrt hvaða gagna sé óskað. Það er hlutverk dómstóla að leggja mat á það í hverju tilviki hvort það fari í bága við þagnarskyldu að veita upplýsingar eða afhenda gögn. Við það mat hefur í dómaframkvæmd verið lagt til grundvallar að ekki er sama ástæða til að veita félögum, sem tekin hafa verið til gjaldþrotaskipta, jafn ríka vernd og einstaklingum, sbr. til hliðsjónar 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991.

Fallist er á með héraðsdómi að heimilt sé að taka skýrslu af þeim sjö vitnum, sem þar eru nafngreind. Þá er einnig fallist á með héraðsdómi að hafna beri að veita matsmönnum aðgang að bókum sóknaraðila, enda er sá hluti beiðninnar þannig settur fram að ekki er unnt að meta hvort hún fari í bága við 58. gr. laga nr. 161/2002.

Þau gögn, sem matsmenn telja að séu nauðsynleg vegna matsstarfans eru tíunduð, að því marki sem þörf er á, í III. kafla dóms þessa. Verður að taka afstöðu til réttmætis beiðni matsmanna um að fá aðgang að þessum gögnum og upplýsingum eftir þeim reglum sem áður greinir. Samkvæmt því verður fallist á að sóknaraðila beri að afhenda gögn sem óskað er eftir í stafliðum a til g í fyrsta lið III. kafla dómsins, en hafnað að skylt sé að afhenda gögn samkvæmt h lið, enda felur sá stafliður, svo fram settur, fremur í sér spurningu en beiðni um tilgreind gögn. Verður að hafna því að sá hluti beiðninnar sé nægjanlega skýr. Þá verður einnig hafnað beiðni varnaraðila um að sóknaraðili afhendi gögn sem tiltekin eru í öðrum lið III. kafla, enda lýtur beiðnin, eins og hún er fram sett, að fundargerðum áhættunefndar á tilteknu tímabili, án tilgreiningar á þeim aðilum eða sérstöku fundarefnum sem matsmenn telja sig þurfa vegna starfa síns. Fallist er á að sóknaraðila sé skylt að afhenda gögn sem tilgreind eru í þriðja lið III. kafla að framan með þeim takmörkunum að hafna verður því að afhenda gögn sem varða ,,tengda aðila“ þeirra fjögurra félaga, sem nefnd eru, FL Group hf., Baugs Group hf., Milestone hf. og Fons ehf., enda sú tilgreining, eins og hún er fram sett, of óljós til þess að unnt sé að fallast á hana. Fallist er á að sóknaraðila sé skylt að afhenda þau gögn, sem tilgreind eru í fjórða lið III. kafla að framan. Hafnað er aftur á móti að skylt sé að afhenda gögn sem falla undir fimmta lið í III. kafla að framan, enda tilgreining, eins og hún er fram sett, ófullnægjandi á því hvaða félög teljist til ,,félaga tengdum starfsmönnum bankans“ og hverjir teljist til ,,3ja aðila í tengslum við skuldbindingar bankans ... vegna kaupréttarsamninga starfsmanna og stjórnenda“ sóknaraðila. Hafna verður beiðni í sjötta lið III. kafla um gögn sem varða félagið Drumlin JV Inc., enda er ekki gerð fullnægjandi grein fyrir því hvers vegna sóknaraðili á að hafa ársreikninga og milliuppgjör þess félags í vörslum sínum og hver tengsl félagsins við sóknaraðila séu. Fallist er á hinn bóginn á að sóknaraðila beri að afhenda yfirlit um alla samninga sína við Morgan Stanley og dótturfélög, þar með talið framvirka samninga um hlutabréf í sóknaraðila, FL Group hf. og Milestone hf. Fallist er á að sóknaraðila sé skylt að afhenda afrit af samningum sem hann og Morgan Stanley eru aðilar að, ásamt þeim þremur félögum sem tilgreind eru í þessum lið. Þá verður einnig fallist á að sóknaraðila sé skylt að afhenda yfirlit um samninga eða viðskipti sem hann eða sjóðir á hans vegum áttu við þau ellefu erlendu félög sem matsmenn tilgreina. Loks er fallist á að sóknaraðila sé skylt að afhenda yfirlit um lánveitingar sínar til erlendra banka á árunum 2006, 2007 og 2008.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um að hafna því að sóknaraðila, Glitni hf., sé skylt að veita dómkvöddum mönnum aðgang að bókum sínum og að fallast á að teknar skuli skýrslur af þeim sjö vitnum, sem tilgreind eru í úrskurðarorði.

Sóknaraðila er skylt að afhenda varnaraðila, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins, gögn sem tilgreind eru í stafliðum a til g í fyrsta lið í III. kafla dóms þessa, gögn, sem tilgreind eru í þriðja lið sama kafla dómsins með þeim takmörkunum, sem greinir í IV. kafla hans, gögn sem tilgreind eru í fjórða lið í III kafla, og gögn sem tilgreind eru þar í sjötta lið með þeim takmörkunum, sem greinir í IV. kafla. Að öðru leyti er beiðni varnaraðila um afhendingu gagna hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 21. mars 2014.

                Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð varnaraðila, beindi slitastjórn hans til dómsins með bréfi 29. mars 2010, sem móttekið var af dómnum 9. apríl sama ár. Um heimild til að leita úrlausnar dómsins um ágreininginn vísaði varnaraðili til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

                Málið var tekið til úrskurðar 12. febrúar sl. um þann ágreining sem greinir hér að neðan.

                Sóknaraðili er Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins, A-deild, Bankastræti 7, Reykjavík en varnaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

                Í málinu krefst sóknaraðili þess að krafa hans að fjárhæð 472.260.380 krónur verði viðurkennd við slitameðferð varnaraðila og að kröfunni verði skipað sem almennri kröfu í réttindaröð, sbr. 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Varnaraðili krefst þess aðallega að staðfest verði sú afstaða hans að hafnað kröfu sóknaraðila að ofangreindri fjárhæð, sem almennri kröfu skv. 113. gr. laga nr. 21/1991, en til vara að krafa sóknaraðila að fjárhæð 369.616.695 krónur verði samþykkt sem almenn krafa við slit varnaraðila, sbr. sama lagaákvæði. Þá krefst hann málskostnaðar.

                Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að að úrskurðað verði að varnaraðila, matsþola, verði gert að afhenda matsmönnum nánar tilgreind gögn.  Þá krefst hann þess að varnaraðila verði gert skylt að veita matsmönnum aðgang að matsandlaginu. Einnig krefst hann þess að dómari láti þegar fara fram vitnaleiðslur og teknar verði þá skýrslur af nafngreindum vitnum.

                Varnaraðili krefst þess að framangreindum kröfum sóknaraðila verði hafnað. Þá krefst hann málskostnaðar í þessum þætti málsins.

I

                Málavextir eru þeir að sóknaraðili málsins keypti 28. mars 2008 skuldabréf að nafnverði 370.000.000 krónur af varnaraðila. Skuldabréfið var í skuldabréfaflokki sem gefinn var út af varnaraðila og bar auðkennið GLBCONV 0413. Skuldabréfaflokkurinn mun hafa verið skráður hjá Verðbréfaskrá Íslands 15. apríl 2008 og heildarverðmæti hans 15 milljarðar króna. Kemur fram í greinargerð varnaraðila að samkvæmt skilmálum hafi skuldabréfið talist til eiginfjárþáttar A, samkvæmt reglum um viðbótareiginfjárliði fyrir fjármálafyrirtæki nr. 156/2005, sbr. 10. mgr. 84. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Kveður varnaraðili að í því felist að kröfur samkvæmt skuldbréfinu víki fyrir öðrum kröfum á hendur útgefanda við gjaldþrot eða slit, öðrum en um endurgreiðslu hlutafjár, sbr. 4. tl. 114. gr. laga nr. 21/1991, en kröfur samkvæmt skuldabréfinu séu jafnréttháar öðrum víkjandi skuldabréfum sem teljist til eiginfjárþáttar A, sem útgefandi kunni að hafa gefið út. Þá er mælt fyrir um að skuldabréfinu skyldi skipta í hlutabréf í varnaraðila 1. apríl 2013. Ekki þykir ástæða hér að rekja nánar skilmála bréfsins.

                Í stuttu máli byggir sóknaraðili m.a. á því í málinu að á þeim tíma sem hann hafi keypt umrætt víkjandi skuldabréf af varnaraðila hafi lögbundið eiginfjárhlutfall varnaraðila, svonefnt CAD hlutfall, verið verulega ofmetið  og lausafjárstaða og fjármögnun þrengri en komið hafi fram í kynningu við kaupin. Eigið fé varnaraðila hafi á umræddum tíma verið ofmetið þar sem þess hafi ekki verið gætt að draga frá við útreikning þess lán sem bankinn hafi veitt á árunum 2007 til 2008 til kaupa á hlutum í bankanum sjálfum. Þá hafi eigið fé bankans ekki verið lækkað um fjárhæð sem numið hafi andvirði lánveitinga sem farið hafi fram yfir lögmælt hámark á stórum áhættuskuldbindingum. Einnig hafi bankinn haft yfir að ráða mun minna af lausu fé en tilgreint hafi verið í byrjun árs 2008. Byggir sóknaraðili fjárkröfu sína m.a. á sjónarmiðum um að samning aðila beri að ógilda og endurgreiða honum kaupverðið, brostið hafi forsendur, umrætt skuldabréf sé haldið galla og honum beri afsláttur af kaupverði og loks að varnaraðili sé skaðabótaskyldur. Varnaraðli hafnar nefndum sjónarmiðum og telur engan annmarka vera á umræddu skuldabréfi eða að fyrir hendi sé skaðabótaskylda hans gagnvart sóknaraðila.

                Eins og alkunna er var varnaraðila skipuð skilanefnd síðari hluta árs 2008 og var hann í kjölfarið tekinn til slitameðferðar. Var af því tilefni birt innköllun til skuldheimtumanna og lýsti sóknaraðili kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests. Krafðist sóknaraðili þess að krafan nyti stöðu í skuldaröð sem almenn krafa, en varnaraðili hafnaði því og taldi hana til eftirstæðra krafna samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991, en til slíkra krafna tók varnaraðili ekki afstöðu þar sem sýnt þótti að ekki kæmi til greiðslu þeirra að nokkru leyti við slitameðferð hans. Mótmælti sóknaraðili afstöðu varnaraðila innan lögmæltra tímamarka og að loknum árangurslausum fundum til að jafna ágreining var málinu vísað til meðferðar dómsins eins og fyrr er komið fram.

                Undir rekstri málsins hefur sóknaraðili skorað á varnaraðila að leggja fram ýmis gögn. Hefur varnaraðili lagt sum þeirra fram en hafnað framlagningu annarra en gagnaöflun þessi hefur verið umfangsmikil og tímafrek eins og sjá má af bókunum í þingbók málsins.

                Með dómi Hæstaréttar 14. desember 2012 í máli nr. 684/2012 var fallist á að dómkveðja ætti matsmenn að kröfu sóknaraðila til að svara fimm nánar greindum spurningum. Voru matsmenn dómkvaddir 28. janúar 2013. Í desember sama ár lagði sóknaraðili fram kröfu sína um úrskurð dómara um þau ágreiningsefni sem hér er um fjallað og fylgdu kröfunni tvær greinargerðir matsmanna, sem nánari grein verður gerð fyrir hér síðar. Varnaraðili hefur mótmælt kröfunni og er gerð nánari grein fyrir afstöðu hans hér síðar.

II

                Í beiðni sóknaraðila kemur fram að matsmenn hafi á síðustu mánuðum óskað eftir ýmsum gögnum frá matsþola, en matsþoli hafi hafnað því að afhenda hluta þeirra gagna sem um hafi verið beðið. Matsmenn hafi einnig óskað eftir aðgangi að matsandlaginu, annars vegar með því að fá aðgang að bókum matsþola á skrifstofum hans og hins vegar með ósk um að fá fund með forsvarsmönnum matsþola eða starfsmönnum hans sem gætu veitt þeim gagnlegar upplýsingar um bókhald og gögn matsþola svo matsvinna yrði einfölduð og gerð markvissari. Þessu hafi matsþoli alfarið hafnað. Vísar matsbeiðandi til þess að það sé skylda matsþola og matsbeiðanda að aðstoða matsmenn við matsgerðina eftir því sem þeir geti, sbr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Byggir sóknaraðili á því að

                Matsspurningar sem lagðar eru fyrir matsmenn eru eftirfarandi:

1                 Hvað námu eftirgreindar lánveitingar,  gegn veðum í hlutabréfum í Glitni banka hf., miklum hluta af eigin fé  Glitnis banka hf. samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007 annars vegar og árshlutareikningi 31. mars 2008 hins vegar.   Hvert var vægi hvers láns um sig í eiginfjárhlutfalli bankans á sömu dagsetningum:

a         Lánveiting Glitnis banka hf. til félaganna Vafnings ehf. (síðar Földungur ehf.) og Svartháfs ehf. Í febrúar 2008 lánaði Glitnir banki hf. 102 milljónir evra inn í Vafning ehf. með veði í hlutabréfum í Glitni banka hf. í eigu félagsins Þáttar International ehf. og fleiri eignum. Þá samþykkti Glitnir einnig að lána Svartháfi ehf. í febrúar 2008 187 milljónir evra, en fyrirtækið lánaði upphæðina áfram til Þáttar International ehf. Sjá lið 8.8.3.1, sbr. bls. 175-176 í bindi 2 SRA, um lánveitingar Glitnis banka hf. til Milestone ehf. til þess að fjármagna kaup hlutabréfa í bankanum sjálfum, sbr. einnig lið b í fylgiskjali með SRA, bls. 305 í bindi 2 og lið 12.8.2 á bls. 71-74 í bindi 4.

b         Lánveiting Glitnis banka hf. til FL Group hf. í mars 2008 á 50 milljónum evra, sem var endurfjármögnun á 10% eignarhlut FL Group hf. í Glitni. Sjá lið 8.8.3.3 í SRA, sbr. bls. 176 í bindi 2.

c         Lánveiting Glitnis banka hf. hinn 12. nóv. 2007 á 19,6 milljörðum kr. til Stíms ehf. til kaupa á um 4,3% eignarhlut í Glitni banka hf. (640 milljón hlutir) og u.þ.b. 4,3% eignarhlut í FL Group hf. Glitnir banki hf. var sjálfur stór hluthafi í Stími ehf. Hinn 31. mars 2008 var veitt 12 milljarða kr. lán til fjögurra félaga til fjármögnunar á kaupum þeirra á hlutum í Glitni banka hf. Sjá nánar bls. 74-78 í bindi 4 í SRA, sbr. lið b í fylgiskjali með SRA, bls. 305 í bindi 2, sbr. einnig umfjöllun á bls. 52-56 í stefnu varnaraðila fyrir Hæstarétti New York-ríkis á hendur fyrrum aðalhluthöfum (eigendum) og stjórnendum Glitnis banka hf.

d         Lánveiting Glitnis banka hf. þann 21. desember 2007 til Salt Investments ehf. að fjárhæð 7,5 milljarðar kr. til kaupa á um 2,3% eignarhlut í Glitni (341 milljón hlutir). Sjá bls. 98-99 í bindi 4 í SRA, sbr. einnig lið b í fylgiskjali með SRA, bls. 306 í bindi 2.

e         Lánveiting Glitnis banka hf. í febrúar 2008 til handa Rákungi ehf. að fjárhæð 5,2 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í Glitni. Sjá bls. 104-105 í bindi 4 í SRA.

f          Lánveiting Glitnis banka hf. í febrúar 2008 til IceProperties ehf. að fjárhæð 5 milljarðar kr. til kaupa á hlutabréfum í Glitni banka hf. að fjárhæð um 4,5 milljarða kr. Ekki voru aðrar tryggingar settar fyrir láninu en veð í hinum keyptu bréfum. Sjá bls. 106-107 í bindi 4 í SRA.

g         Lánveiting Glitnis banka hf. í nóvember/desember 2007 til BK-44 ehf. að fjárhæð 17,1 milljarðar kr. til kaupa á 150 milljón hlutum í Glitni banka hf. Hlutabréfin sjálf voru sett til tryggingar skuldinni.

h         Veðtaka Glitnis banka hf. í hlutabréfum í Glitni banka hf. sem bankinn hafði selt í framvirkum viðskiptum í árslok 2007, 663,8 milljón hlutir að markaðsvirði 14,5 milljarðar kr.

2         Ef matsmenn greina samkvæmt því sem fram kemur í tilvísuðum og framlögðum gögnum að aðrar lánveitingar Glitnis banka hf., gegn veðum í hlutabréfum í Glitni banka hf., en þær sem taldar eru upp í lið 1 að framan, hafi myndað hluta af eigin fé eða eiginfjárhlutfalli bankans samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007 annars vegar og árshlutareikningi 31. mars 2008 hins vegar, eða fjárhæðir verið aðrar, er þess óskað að matsmenn geri grein fyrir því hversu miklum hluta af eigin fé og eiginfjárhlutfalli þær lánveitingar námu á hvorri dagsetningu um sig, í samræmi við það sem óskað er svara við samkvæmt lið nr. 1 að framan.

3         Hversu mikill hluti af eigin fé og eiginfjárhlutfalli Glitnis banka hf. samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2007 annars vegar og árshlutareikningi 31. mars 2008 hins vegar samanstóð af lánveitingum til aðaleiganda Glitnis banka hf. og tengdra aðila, umfram lögbundið 25% hámarkshlutfall af eiginfjárgrunni skv. ákvæði 30. gr. laga nr. 161/2002, að teknu tilliti til lista yfir stærstu eigendur á bls. 11 í ársskýrslu bankans fyrir árið 2007 og til þeirra forsendna og upplýsinga sem fram hafa komið m.a. í lið 35-36 á bls. 13, lið 88 á bls. 26-27, bls. 28, 31 og 35-36 í stefnu varnaraðila á dskj. nr. 24. Meðal aðaleiganda Glitnis banka hf. og aðila tengdum þeim eru: Baugur Group hf., BG Capital ehf. (Styrkur Invest), Fjárfestingarfélagið Gaumur ehf., Hagar hf., Milton ehf., Sólin skín ehf., 101 Capital ehf., FL Group hf., Eikarhald ehf., Eik fasteignafélag ehf., Þyrping hf., FS6 ehf./Reitir VI ehf., Fasteignafélagið Stoðir (Landic Property), Stoðir fasteignir ehf., Landsafl ehf., Geysir Green Energy hf., Jarðboranir hf., Hitaveita Suðurnesja, Smáralind ehf. og Northern Travel Holding.

4         Hvert telja matsmenn að hafi verið eiginfjárhlutfall (CAD hlutfall) Glitnis banka hf. skv. 84. gr. laga 161/2002 að gættum reglum 85. gr. sömu laga þann 31. desember 2007 annars vegar og 31. mars 2008 hins vegar, og að virtum áhrifum  lánveitinga sem til er vitnað í matsspurningum 1-3 hér að framan.

7.   Hver var lausafjárstaða Glitnis banka hf. („cash“ eða „cash balances“) þann 31. desember 2007 annars vegar og 31. mars 2008 hins vegar, að teknu tilliti til þeirra upplýsinga sem fram koma í árs- og árshlutareikningi Glitnis á sömu dagsetningum og lausafjáryfirlitum sem Glitnir banki hf. sendi Seðlabanka Íslands 31. desember 2007 og 31. mars 2008.

                Með beiðni sinni um úrlausn ofangreinds ágreinings lagði sóknaraðili fram tvö bréf matsmanna, annars vegar þar sem fram kemur beiðni um að varnaraðila verði gert að afhenda gögn og hins vegar beiðni um að nafngreindir einstaklingar verði leiddir fyrir dóminn til skýrslugjafar.

                Í beiðni um gagnaframlagningu kemur fram að það sé mat matsmanna að þau gögn sem þegar liggi fyrir í málinu séu ekki fullnægjandi til að svara þeim matsspurningum sem lagðar hafi verið fyrir. Hafi matsmenn á þeim grundvelli óskað eftir frekari gögnum frá matsþola, en umbeðin gögn hafi að stærstum hluta ekki verið afhent og vísað til þess að um gögnin gildi þagnarskylduákvæði laga um fjármálafyrirtæki, þau séu innanhússsamskipti, séu ekki til eða finnist ekki. Matsmenn hafi ítrekað farið fram á, án árangurs, að ræða við starfsmenn varnaraðila um hvaða gögn séu til staðar og uppbyggingu þeirra þannig að beiðnir matsmanna um gögn geti orðið markvissari. Um þetta sé nánar fjallað í bréfi matsmanna er varði beiðni um skýrslugjöf fyrir dómi. Er nánar fjallað um þá beiðni hér síðar.

                Í bréfi matsmanna kemur fram að með beiðni 5. júlí 2013 hafi þeir óskað eftir eftirfarandi vegna matsspurningar 1 og samsvara stafliðir í beiðninni stafliðum spurningarinnar.

                Vegna stafliða a. til g. er beðið beðið um eftirfarandi gögn varðandi hvern þeirra lánasamninga sem tilgreindur er í viðeigandi undirlið matsspurningar. Þykir ekki ástæða til að rekja það nánar hér en vísast til matsspurningarinnar sem tekin er upp orðrétt hér að framan. Beðið er um „lánasamninga, veðskjöl og framvirka samninga sem kunna að hafa verið gerðir í tengslum við lánin, auk breytinga sem kunna að hafa verið gerðar á skilmálum fram til 31/3/2008. Skjöl sem lögð voru fyrir lánanefnd og áhættunefnd við ákvörðun um lánveitingu, liggi þau fyrir. Upplýsingar um stöðu lánanna og beinar niðurfærslur á afskriftareikningi sem kunna að hafa verið gerðar vegna lánanna á uppgjörsdegi þann 31/3/2008. Einnig biðjum við  um upplýsingar um í hvaða áhættuflokk lánin voru sett á uppgjörsdegi 31/3/2008 og upplýsingar um hvert var mat stjórnenda Glitnis banka hf. á lánunum, ef þær upplýsingar liggja fyrir.“

                Í h. lið er spurt hvaða upplýsingar og í hvaða formi varnaraðili hafi um veðtöku í hlutabréfum í bankanum, sem hann hafi selt í framvirkum viðskiptum í árslok 2007. Er og vísað til þess að í matsspurningunni séu þetta sagðir vera 663,8 milljón hlutir að markaðsvirði 14,5 milljarðar króna.

                Matsmenn óska einnig eftir að fá afhentar fundargerðir áhættunefndar varnaraðila á tímabilinu 1. desember 2007 til 31. mars 2008. Kemur fram hjá matsmönnum að samkvæmt handbók varnaraðila um einstakar áhættur hafi átt að leggja beiðnir um stærri lánveitingar auk lánabeiðna sem fallið hafi utan lánaramma annarra aðila innan bankans. Með þessum beiðnum um lán hafi einnig borið að leggja fram gögn til stuðnings umræddri lánsbeiðni, þannig að lánanefnd væri unnt að taka afstöðu til hennar. Skýrslur og ábendingar um áhættu bankans hafi verið lagðar fram á fundum nefndarinnar. Ættu því allar helstu upplýsingar sem máli gætu skipt um áhættu bankans að koma fram í  umræddum fundargerðum. Telji matsmenn það mikilvægt þegar þeir leggi mat á CAD hlutfall bankans, sem spurt er um í matsspurningu 4, að hafa upplýsingar til að geta metið helstu áhættuþætti bankans. Í ljósi þess að hluti þess sem matsmenn eigi að leggja mat á í matsspurningum 1 til 4 séu áhrif ákveðinna útlána á eiginfjárhlutfall varnaraðila sé þörf á nákvæmum upplýsingum um útlánin og tryggingar vegna þeirra, sem ættu að hluta að koma fram í fundargerðum áhættunefndar.

                Matsmenn óska eftir yfirliti yfir lánveitingar og aðrar skuldbindingar neðangreindra aðila hjá bankanum þann 31. desember 2007 og 31. mars 2008 ásamt yfirliti yfir tryggingar vegna þeirra: FL Group hf. og tengdir aðilar, Baugur Group hf. og tengdir aðilar, Milestone hf. og tengdir aðilar, Fons ehf. og tengdir aðilar, Stím ehf., Gnúpur fjárfestingarfélag ehf., Fjárfestingarfélagið Prímus ehf., Kistan ehf., Lyfjablóm ehf., Björgólfur Guðmundsson, Materia Invest ehf. og Sund ehf.

                Vegna matsspurninga 2 og 3 þar sem matsmenn eigi að leggja mat á lánveitingar og aðrar skuldbindingar til eigenda og tengdra aðila sé beðið um yfirlit yfir allar lánveitingar og samninga 31. desember 2007 og 31. mars 2008 þar sem hlutabréf í eftirtöldum félögum hafi verið til tryggingar: Glitni banka hf., BG Capital ehf., Fons hf., Jötni Holding ehf., Oddaflugi bv, Materia Invest ehf., FL Group hf., Þætti International, Saxbygg invest ehf., Salt Investments ehf., Rákungi ehf., IceProperties ehf., Kristni ehf., BK-44 ehf., Langflugi ehf., Sundi ehf., Hnotskurn ehf. og Stími ehf.

                Vegna matsspurningar 1. varðandi lið h. og matsspurningu 2 sem snúi að veðtöku bankans í eigin hlutabréfum hafi verið óskað eftir yfirliti yfir hlutabréf í bankanum sem hafi verið í eigu félaga sem tengst hafi starfsmönnum bankans og yfirlit yfir hlutabréf í bankanum sem hafi verið í eigu þriðja aðila í tengslum við skuldbindingar bankans vegna kaupréttarsamninga starfsmanna og stjórnenda bankans.

                Þá óska matsmenn eftir aðgangi að upplýsingum um félagið Drumlin og telja að umbeðin gögn varði beint svör við öllum matsspurningum. Nánar tiltekið óska matsmenn eftir eftirtöldum gögnum:

                „Ársreikningum og milliuppgjöri Drumlin JV Inc. árin 2007 og 2008.

                Yfirlit yfir alla samninga við Morgan Stanley og dótturfélög, þar með talda lánssamninga og framvirka samninga um hlutabréf í Glitni hf., FL Group og Milestone.

                Afrit af samningi um stofnun og rekstur Drumlin JV Inc. og fundargerðir stjórnar Drumlin JV Inc.

                Afrit af samningum þar sem Morgan Stanley, Glitnir Banki hf. og Milestone ehf. eru sameiginlega hluti af.

                Afrit af samningum þar sem Morgan Stanley, Glitnir Banki hf. og Þáttur Eignarhaldsfélag ehf. eru sameiginlega hluti af.

                Afrit af samningum þar sem Morgan Stanley, Glitnir Banki hf. og Þáttur International eru sameiginlega hluti af.

                Fá yfirlit yfir samninga eða viðskipti sem Glitnir Banki hf. eða sjóðir á vegum hans áttu við, eða yfirlýsingu um að engin viðskipti hafi átt sér stað við eftirfarandi félög: Morgan Stanley Tindur LLC, Morgan Stanley Areta Limited, Morgan Stanley Hubbard Inc., Morgan Stanley Drumlin JV Inc., Morgan Stanley Hatteras I LLC, Morgan Stanley Hatteras II LLC, Morgan Stanley Pennine LLC, Morgan Stanley Scafell Limited, Morgan Stanley Snowdon Inc, Hamar JV Inc og Morgan Stanley Torridon LLC.“

                Þá er þess óskað að afhent verði yfirlit yfir lánveitingar varnaraðila til erlendra banka árin 2006, 2007 og 2008.

                Í bréfi matsmanna 29. október 2013 kemur fram að þeir hafi frá upphafi vinnu sinnar við matsgerðina óskað eftir fundum með starfsmönnum varnaraðila og öðrum aðilum sem komið hafi að gerð skýrslna Glitnis á árinu 2007 og í upphafi árs 2008. Tilgangurinn með þessum beiðnum hafi verið að reyna að afla upplýsinga um hvaða gögn séu til staðar sem nýst gætu við gerð matsins. Er því lýst í bréfinu að varnaraðili hafi ekki verið tilbúinn að fallast á umrædda beiðni og nánari lýst samskiptum vegna þessa. Matsmenn kveðast telja það nauðsynlegt að láta fara fram skýrslutökur til að fá fram nákvæmari upplýsingar um hvaða gögn ættu að vera fyrir hendi til að gera vinnu við matið markvissari.

                Óska matsmenn eftir að til að svara spurningum varðandi gögn og lausfjáryfirlit vegna matsspurningar 7 verði tekin skýrsla fyrir dómi af Sigrúnu Halldórsdóttur og Guðbjörgu Önnu Guðmundsdóttur sem séð hafi um gerð skýrslna um lausafjáráhættu og gengisáhættu fyrir Glitni hf. Til þess að svara spurningum varðandi gögn, áhættuflokkun útlána, stöðu útlána og vinnulag við niðurfærslu útlána vegna matsspurninga 1 til 3 er óskað eftir að teknar verði skýrslur af Alexander K. Guðmundssyni, fyrrum fjármálastjóra Glitnis, Ágústi Hrafnkelssyni, fyrrum starfsmanni við innri endurskoðun Glitnis, Kjartani Arnfinnssyni fyrrum starfsmanni við reikningshald Glitnis og Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur fyrrum starfsmanni við reikningshald Glitnis.

III

                Ekki er ágreiningur um að varnaraðili hafi ekki orðið við beiðnum matsmanna um framlagningu gagna og um að matsmenn eigi fundi með starfsmönnum varnaraðila.

                Í beiðni sóknaraðila er til þess vísað og á því byggt af hans hálfu að höfnun matsþola á að afhenda þau gögn sem óskað hafi verið eftir fari gegn ákvæði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sé skýrt kveðið á um það í X. kafla sömu laga að aðila dómsmáls sé skylt að afhenda gögn sem óskað sé eftir eða skorað á hann að leggja fram. Kveðst sóknaraðili alfarið hafna rökum varnaraðila um að ekki sé hægt að leggja umrædd gögn fram sökum reglna um bankaleynd. Varnaraðili hafi þegar orðið við óskum um afhendingu ýmissa gagna þar sem komi fram upplýsingar um fjárhag einstaklinga og fyrirtækja auk þess sem varnaraðili hafi sjálfur lagt fram sambærileg gögn í dómsmálum sem hann hafi höfðað gegn öðrum en sóknaraðila.

                Matsmenn hafi einnig lagt fram beiðni þar sem þeir óski eftir vitnaleiðslum. Vitnaleiðsla sé talin nauðsynleg til skýringar á ýmsum mikilvægum matsatriðum varðandi matsandlagið og matsspurningar.

                Er þess óskað að dómari geri varnaraðila að afhenda umbeðin gögn. Hluta þeirra upplýsinga sem matsmenn hafi óskað eftir geti þeir ekki krafist með vísan í ákveðin gögn, þar sem þeir hafi ekki fengið þann aðgang að varnaraðila eða starfsmönnum hans, sem þeir hafi óskað eftir. Sé þess óskað að dómari geri varnaraðila skylt að veita matsmönnum aðgang að því sem matsgerð lúti að, sbr. 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Þá sé farið fram á að dómari láti fara fram vitnaleiðslur svo fljótt sem verða megi.

                Um lagarök að baki beiðni kveðst sóknaraðili vísa til VIII., IX og X kafla laga nr. 91/1991, sérstaklega 2. og 3. mgr. 62. gr. og 2. mgr. 67. gr. Þá kveðst hann vísa til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. um rétt kröfuhafa til upplýsingagjafar úr þrotabúi. Við munnlegan flutning vísaði sóknaraðili einkum til 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 í þessu sambandi.

                Varnaraðili hefur hafnað því að verða við kröfum sem hér eru til umfjöllunar. Kveðst hann í fyrsta lagi vera bundinn þagnarskyldu á grundvelli 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, um efni sumra þeirra gagna sem matsmenn hafi óskað eftir. Margt af því sem óskað sé eftir sé ekki til. Þá hafi matsmenn óskað eftir gögnum sem ekki varði matsgerðina en ekki sé skylt að láta þeim í té slík gögn, sbr. gagnályktun frá 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Þá kveður varnaraðili að lagaúrræði matsbeiðanda til að fá aðgang að skjali úr hendi matsþola séu tæmandi talin í 1. mgr. 68. gr. laga nr. 91/1991 og geti ákvæði IX. kafla laganna ekki veitt heimild umfram það til að málsaðili geti knúið gagnaðila sinn til að láta af hendi skjal. Varnaraðili telji að 62. gr. laga nr. 91/1991 feli ekki í sér heimild til að skylda aðila að dómsmáli til að afhenda dómkvöddum matsmönnum gögn eða upplýsingar. Þannig byggi varnaraðili á því að túlka verði ákvæði 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 til samræmis við 67. og 68. gr. laganna og í samræmi við meginreglu einkamálaréttarfars um forræði aðila á sönnunarfærslu. Matsþoli kveðst telja að umbeðnar skýrslutökur falli  utan heimildar til töku vitnaskýrslna í 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991. Það gangi gegn 1. mgr. 61. gr. sömu laga að leiða starfsmenn matsþola fyrir dóm til að gefa skýrslu í þeim tilgangi að veita masmönnum „nákvæmari upplýsingar um hvaða gögn ættu að vera fyrir hendi“.

IV

                Eins og nánar er lýst hér að framan fer nú fram að kröfu sóknaraðila mat tveggja dómkvaddra matsmanna til að svara þeim fimm matsspurningum sem áður eru raktar.

                Fyrir liggur að varnaraðili er fjármálafyrirtæki í slitameðferð og gildir um fyrirtækið m.a. ákvæði 58. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Greinir í 1. mgr. þess ákvæðis að stjórnarmenn fjármálafyrirtækis, framkvæmdastjórar, endurskoðendur, starfsmenn og hverjir þeir sem taki að sér verk í þágu fyrirtækisins séu bundnir þagnarskyldu um allt það sem þeir fái vitneskju um við framkvæmd starfa síns og varði viðskipta- eða einkamálefni viðskiptamanna þess nema skylt sé að veita upplýsingarnar samkvæmt lögum. Þagnarskyldan helst þó látið sé af starfi. Í 2 mgr. ákvæðisins greinir að sá sem veiti viðtöku upplýsingum af því tagi sem um geti í 1. mgr. sé bundinn þagnarskyldu með sama hætti og þar greini. Sá aðili sem veiti upplýsingarnar skuli áminna viðtakanda um þagnarskylduna. Í 60. gr. sömu laga kemur fram að heimilt sé að miðla til utanaðkomandi aðila þeim upplýsingum um viðskiptamenn sem um geti í 58. gr. laganna að fengnu skriflegu samþykki þess er í hlut eigi. Í samþykki skuli koma fram til hvaða upplýsinga það taki, til hvaða aðila sé heimilt að miðla upplýsingum á grundvelli þess og í hvaða tilgangi upplýsingunum sé miðlað.

                Í 2. mgr. 67. gr. laga nr. 91/1991 er mælt fyrir um skyldu aðila máls til að verða við áskorun gagnaðila síns að leggja fram skjal sem hann hefur í sínum vörslum. Er sú skylda háð því að aðilinn eigi annaðhvort rétt til skjalsins án tillits til málsins eða efni skjalsins er slíkt að aðilanum væri skylt að bera vitni um það ef hann væri ekki aðili að málinu.

                Þá greinir í 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 að þeim sem hafi umráð þess sem matsgerð lúti að sé skylt að veita matsmanni aðgang að því nema hann megi skorast undan vitnaskyldu um matsatriði eða sé óheimilt að bera vitni um það.

                Bæði síðasttalin lagaákvæði gera það að skilyrði til að vörslumanni verði gert skylt að afhenda skjal, eða veita aðgang að því sem meta á samkvæmt matsbeiðni, að viðkomandi manni væri skylt að bera vitni um það sem um ræðir.

                Í 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991, sbr. b. lið þess ákvæðis, er kveðið á um að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem í hlut eigi að svara spurningum um einkahagi manns, sem því hefur verið trúað fyrir eða það hefur komast að á annan hátt í starfi sem endurskoðandi, félagsráðgjafi, lögfræðingur, lyfsali, læknir, prestur, sálfræðingur eða aðstoðarmaður einhvers þessara, eða í öðru starfi sem viðlíka trúnaðarskylda fylgi.

                Að mati dómsins veldur það ekki sérstökum vafa að sá sem bundinn er trúnaði á grundvelli áðurtilvitnaðrar 58. gr. laga nr. 161/2002 fellur undir ákvæði b. liðar 2. mgr. 53. gr. laga nr. 91/1991.

                Á grundvelli framangreindra lagaákvæða verður talið að þar sem varnaraðila eða starfsmönnum hans væri óheimilt að bera vitni um fjárhagsmálefni viðskiptavina sinna, að honum sé jafnframt óheimilt að afhenda gagnaðila sínum gögn er varða þau málefni og gildir það sama um dómkvadda matsmenn.

                Í máli þessu liggur ekki fyrir að þeir fjölmörgu fyrrum viðskiptamenn varnaraðila sem þau gögn varða sem hann hefur óskað eftir að matsmenn fái aðgang að og hann þá jafnframt einnig, hafi samþykkt skriflega slíka upplýsingagjöf eins og áskilið er í 60. gr. laga nr. 161/2002. Þá hafa ekki verið færð fram fullnægjandi gögn í málinu sem sýni fram á að svo sé ástatt um þessa aðila að þeir teljist ekki lengur hafa hagsmuni af þeirri leynd sem fyrrnefndri 58. gr. laga nr. 91/1991 er ætlað að tryggja.

                Ekki er unnt að fallast á þann skilning sóknaraðila að í dómi Hæstaréttar í máli nr. 684/2012, þar sem fallist var á beiðni hans um dómkvaðningu matsmanna til að svara þeim spurningum sem að framan eru raktar, hafi rétturinn hafnað því að varnaraðili væri unnt að bera fyrir sig reglur um bankaleynd.

                Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki annað séð en að öll þau skjöl og upplýsingar sem ágreiningur aðila lýtur að séu þess eðlis að þau séu háð bankaleynd.

                Þegar af þeim ástæðum sem hér hafa verið raktar verður hafnað kröfu um að varnaraðila verði gert skylt að afhenda matsmönnum eða sóknaraðila þau gögn sem að framan er gerð grein fyrir og ágreiningur málsins varðar.

                Sóknaraðili gerir og kröfu um að matsmönnum verði veittur aðgangur að matsandlaginu, m.a. með skýrslum af nafngreindum vitnum. Með hliðsjón af því sem að framan er lýst um efni 3. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991, sbr. þær takmarkanir á aðgangi sem þar er mælt fyrir um, sbr. einnig ákvæði b. liðar 2. mgr. 57. gr. sömu laga verður ekki talið að heimild standi til þess að veita matsmönnum óheftan aðgang að bókum varnaraðila. Á hinn bóginn verður einnig að hafa í huga að í samræmi við ákvæði 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ber að veita þeim sem lögvarinna hagsmuna á að gæta aðgang að gögnum þrotabús. Þá ber einnig að líta til þess að fyrrnefndar reglur um þagnarskyldu eru ekki settar til hagsbóta fyrir varnaraðila heldur viðskiptamenn hans. Þegar framangreint er haft í huga, sem og það að sóknaraðila er fært að afla samþykkis þeirra aðila sem upplýsingar varðar er það mat dómsins að ekki séu efni til annars en að fallast á að heimilt sé að kalla fyrir dóminn þau vitni sem matsmenn hafa óskað eftir að gæfu skýrslu í því skyni að upplýsa nánar um hvaða gögn liggi fyrir og eftir atvikum hvernig staðið hafi verið að verki varðandi þau atriði sem máli geta skipt við matsvinnu. Er það mat dómsins að með þessu sé veitt færi á að leita skýringar á matsatriðum án þess að í bága fari við framangreindar reglur um bankaleynd og þannig ræktar þær skyldur sem lagðar eru á varnaraðila með 2. mgr. 80. gr. laga nr. 21/1991 og 3. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 til að veita aðgang að þeim gögnum slitabúsins sem heimilt er og skylt að veita aðgang að. Þá er það mat dómsins að ákvæði lokamálsliðar 2. mgr. 62. gr. laga nr. 91/1991 veiti fullnægjandi lagaheimild til að hin umbeðna skýrslugjöf megi fara fram. Ekki er fallist á með varnaraðila að sú skylda sem mælt er fyrir um hér að framan og leidd er af tilvitnuðum ákvæðum laga nr. 21/1991 og laga nr. 91/1991 geti talist fara gegn meginreglum einkamálaréttarfars um forræði aðila á sönnunarfærslu.

                Með vísan til þess sem að framan greinir er því hafnað að veita matsmönnum aðgang að matsandlaginu með þeim hætti sem krafist er utan að fallist er á að teknar verði þær skýrslur sem óskað hefur verið eftir, eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

                Ekki þykir ástæða til að úrskurða sérstaklega um málskostnað í þessum þætti málsins og verður það látið bíða efnislegrar úrlausnar þess.

                Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan að gættu ákvæði 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, en uppkvaðning úrskurðar hefur dregist vegna embættisanna dómara.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

                Kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði úrskurðaður til að afhenda dómkvöddum matsmönnum þau gögn sem nánari grein er gerð fyrir á dómskjali nr. 129 er hafnað.

                Kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði gert að veita dómkvöddum matsmönnum aðgang að matsandlaginu er hafnað eins og hún er sett fram.            Taka skal skýrslur af vitnunum, Sveinbjörgu Ingvarsdóttur, Sigrúnu Halldórsdóttur, Guðbjörgu Önnu Guðmundsdóttur, Alexander K. Guðmundssyni, Ágústi Hrafnkelssyni, Kjartani Arnfinnssyni og Sigrúnu Rögnu Ólafsdóttur í samræmi við beiðni dómkvaddra matsmanna þar um.

                Ákvörðun málskostnaðar bíður efnislegrar úrlausnar málsins.