Hæstiréttur íslands

Mál nr. 634/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Reynslulausn
  • Skilorðsrof
  • Fullnusta refsingar


Föstudaginn 6

 

Föstudaginn 6. nóvember 2009.

Nr. 634/2009.

Sýslumaðurinn á Akureyri

(enginn)

gegn

X

(Arnar Sigfússon hdl.)

 

Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.

 

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi afplána 586 daga eftirstöðvar refsingar, sbr. 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Hjördís Hákonardóttir og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. nóvember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. nóvember 2009, þar sem varnaraðila var gert að afplána 586 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sem hann hlaut með dómi Hæstaréttar 28. febrúar 2008 í máli nr. 511/2007 og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 25. október 2007 í máli nr. S-1378/2007. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Hinn kærði úrskurður verður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 1. nóvember 2009.

Mál þetta, sem barst dóminum fyrr í dag með bréfi lögreglustjórans á Akureyri og var málið tekið til úrskurðar að loknu þinghaldi nú síðdegis.

Í máli þessu krefst lögreglustjóri að X, kt. [...], verði með úrskurði gert að afplána 586 daga eftirstöðva, annars vegar þriggja ára og sex mánaða fangelsisrefsingar, skv. dómi Hæstaréttar uppkveðnum 28. febrúar 2008 að frádreginni 318 daga gæsluvarðhaldsvist og hins vegar helming af fjögurra mánaða fangelsisrefsingar skv. dómi Héraðsdómi Reykjavíkur frá 25. október 2007, en þann 18. febrúar 2009 hafi Fangelsismálastofnun ríkisins veitt kærða reynslulausn í 2 ár á eftirstöðvum nefndra refsinga.

Skipaður verjandi varnaraðila krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað, enda séu skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49, 2005 ekki fullnægt.  Þá krefst verjandinn hæfilegrar þóknunar sér til handa úr ríkissjóði.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að þann 31. október sl. kl. 22:40 hafi lögregla fengið tilkynningu um innbrot í íbúð við [...].  Kærði hafi verið handtekinn kl. 01:00 í nótt á dvalarstað sínum í [..], en þar hafi einnig fundist þýfi úr innbrotinu.  Við skýrslutöku í dag hafi kærði viðurkennt verknaðinn.

Lögreglustjóri segir að samkvæmt ofangreindu sé kærði grunaður um brot á 244 gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og geti brotið varðað sex ára fangelsi.  Því séu skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49, 2005 fyrir hendi, enda séu sterkar líkur fyrir því að kærði hafi rofið skilyrði reynslulausnar sem honum var veitt þann 18. febrúar sl.  Að auki sé í gagnagrunni lögreglu skráður fjöldi óafgreiddra mála á kærða.

Kærði kom fyrir dóm í kvöld og andmælti hann framangreindri kröfu lögreglustjóra.  Skipaður verjandi rökstuddi andmælin frekar.

Álit dómsins.

Í máli þessu liggja fyrir lögregluskýrslur þ.á.m. skýrsla kærða hjá lögreglu dagsett í dag, en þar játar hann innbrot í íbúðarhús að [...].  Kærði staðfesti skýrslu þessa fyrir dómi.

Að þessu virtu þykir vera fyrir hendi sterkur grunur um að kærði hafi gerst sekur um þjófnaðarbrot, sbr. 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Ekki þykir unnt að byggja á gögnum og yfirlýsingum sóknaraðila fyrir dómi um að nú séu til rannsóknar fleiri mál á hendur kærða vegna ætlaðra þjófnaðarbrota, án frekari gagnaframlagninga, þar sem vafi leikur á að fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49, 2005.

Fyrir liggur staðfesting Fangelsismálastofnunar ríkisins, dags. 19. október 2009, um að kærða hafi verið veitt reynslulausn á eftirstöðum 586 daga á fangelsisrefsingu skv. áðurnefndum dómum.

Með vísan til framanritaðs fellst dómurinn á það mat lögreglustjóra að sterkur grunur sé uppi um að kærði hafi framið brot það er varði við 244. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.  Eru að mati dómsins uppfyllt skilyrði 2. mgr., 65. gr. laga nr. 49, 2005 og verður því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærða verði gert að afplána eftirstöðvar fangelsisdómsins eins og nánar greinir í úrskurðarorði.

Málskostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og í úrskurðarorði greinir. 

Úrskurð þennan kveður upp Ólafur Ólafsson héraðsdómari.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Kærði X, kt. [...], afpláni 586 daga eftirstöðvar fangelsisrefsingar sem að hann hlaut með dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 28. febrúar 2008 og dómi Héraðsdóms Reykjavíkur uppkveðnum 25. október 2007

Þóknun skipaðs verjanda kærða, Arnars Sigfússonar hdl. kr. 62.250, greiðist úr ríkissjóði og er þá virðisaukaskattur meðtalinn.