Hæstiréttur íslands

Mál nr. 623/2007


Lykilorð

  • Akstur sviptur ökurétti
  • Áfrýjun


         

Fimmtudaginn 5. júní 2008.

Nr. 623/2007.

Ákæruvaldið

(Daði Kristjánsson, settur saksóknari)

gegn

Sigurði Pétri Sigurðssyni

(Kristján Stefánsson hrl.)

 

Akstur án ökuréttar. Áfrýjun.

S var sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið sviptur ökurétti. Við uppkvaðningu dómsins í héraði var bókað í þingbók að ákærði hefði unað dómi. Í kjölfarið sendi ríkissaksóknari endurrit dómsins til Fangelsismálastofnunar ríkisins 2. október 2007, áritað um að málinu yrði ekki áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins. Með bréfi S 11. sama mánaðar tilkynnti hann ríkissaksóknara að hann vildi áfrýja dómnum. Því svaraði ríkissaksóknari 22. sama mánaðar þannig að bókað hefði verið eftir S í þingbók að hann hefði unað dómi og yrði áfrýjunarstefna því ekki gefin út. Verjandi S ítrekaði beiðni hans með bréfi til ríkissaksóknara 24. október 2007 þar sem S taldi ranglega bókað í þingbók að hann hefði unað dómi, auk þess sem yfirlýsingin hafði ekki verið undirrituð af hans hálfu. Var áfrýjunarstefna því gefin út 30. sama mánaðar eftir að lögmanni S hafði verið gefið færi á að halda fast við upphaflegu áfrýjunaryfirlýsinguna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að ekki yrði lagt til grundvallar í málinu að ákærði hefði afsalað sér rétti til málskots svo bindandi væri og að áfrýjun af hans hálfu, svo og ákæruvaldsins, væri komin innan lögmæts frests, sbr. 2. mgr. 151. gr. og 152. gr. laga nr. 19/1991. Var héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna, þó með þeirri athugasemd að ekki væru lagaskilyrði til að dæma ákærða í 10 mánaða fangelsi og fresta fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í þrjú ár, sbr. 1. mgr. 57. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var þess í stað frestað ákvörðun um fullnustu 7 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í þrjú ár. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 30. október 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess að refsing hans verði milduð.

Í héraðsdómi var ákærði sakfelldur fyrir að hafa ekið bifreið um bifreiðastæði í Faxafeni í Reykjavík 12. maí 2007, sviptur ökurétti. Farið var með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og ákærði sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Við uppkvaðningu dómsins var bókað í þingbók að ákærði myndi una dómi. Í kjölfar þess var endurrit dómsins áritað 2. október 2007 af hálfu ríkissaksóknara um að dómnum yrði ekki áfrýjað af hálfu ákæruvalds og endurritið sent Fangelsismálastofnun ríkisins til fullnustu. Með bréfi sem barst ríkissaksóknara 11. sama mánaðar tilkynnti ákærði að hann hafi ákveðið að áfrýja dómnum. Því svaraði ríkissaksóknari með bréfi 22. sama mánaðar, þar sem vísað var til þess að bókað hefði verið eftir ákærða í þingbók héraðsdóms að hann myndi una dómi og yrði áfrýjunarstefna því ekki gefin út vegna yfirlýsingar ákærða um áfrýjun. Verjandi ákærða ítrekaði yfirlýsingu ákærða með bréfi til ríkissaksóknara 24. október 2007, þar sem greint var frá því að ákærði teldi ranglega bókað í þingbók að hann hefði unað dómi auk þess sem yfirlýsingin hefði ekki verið undirrituð af sinni hálfu. Með bréfi ríkissaksóknara 24. október 2007 var ákærða gefið færi á því að halda fast við áfrýjunaryfirlýsingu frá 1. október 2007, og myndi ríkissaksóknari þá gefa út áfrýjunarstefnu í málinu. Bréf lögmanns ákærða þess efnis barst ríkissaksóknara 29. október 2007 og var áfrýjunarstefna gefin út 30. sama mánaðar.

Samkvæmt áðurgreindum texta í þingbók héraðsdóms er bókað eftir ákærða að hann uni niðurstöðu dómsins. Ákærði hefur hins vegar borið því við að hann hafi enga slíka yfirlýsingu gefið og er endurritið ekki undirritað af hans hálfu. Þá ber endurritið ekki með sér að dómari hafi kynnt ákærða rétt hans til áfrýjunar og frest til að lýsa henni yfir, svo sem bóka ber í þingbók, sbr. 1. mgr. 151. gr. laga nr. 19/1991. Verður af þessum sökum lagt til grundvallar í málinu að ákærði hafi eigi afsalað sér rétti til málskots svo bindandi sé og að áfrýjun af hans hálfu, svo og ákæruvaldsins sé fram komin innan lögmæts frests, sbr. 2. mgr. 151. gr. og 152. gr. laga nr. 19/1991.

Að þessu athuguðu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur um refsingu ákærða, þó með þeirri athugasemd að ekki eru lagaskilyrði til að dæma ákærða í 10 mánaða fangelsi og fresta fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í þrjú ár, sbr. 1. mgr. 57. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 eins og greinir í niðurstöðu héraðsdóms. Þess í stað verður frestað ákvörðun um fullnustu 7 mánaða af refsivistinni og skal sá hluti hennar niður falla að liðnum þremur árum frá uppkvaðningu þessa dóms haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal verða óraskað.

Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Sigurður Pétur Sigurðsson, sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 7 mánaða af refsingunni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá uppsögu þessa dóms, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skal vera óraskað.

Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 159.553 krónur þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 149.400 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. september 2007.

Mál þetta, sem dómtekið var í dag, er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu 6. júlí sl. á hendur Sigurði Pétri Sigurðssyni, kt. 301071-4349, Víðimel 48, Reykjavík, ,,fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni MM-948, laugardaginn 12. maí 2007, sviptur ökurétti um bifreiðastæði við veitingastaðinn KFC í Faxafeni í Reykjavík.

Þetta er talið varða við 1. mgr. 48. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“ 

Farið var með mál þetta samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga. 

Ákærði hefur skýlaust játað brot sitt. Sannað er með játningu ákærða og öðrum gögnum málsins að ákærði er sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök og er brot hans rétt heimfært til refsiákvæðis í ákæru.

          Ákærði er fæddur í október 1971 og samkvæmt fyrirliggjandi sakavottorði hefur hann frá því á árinu 1989 í átján skipti hlotið dóm, mestmegnis fyrir hegningarlagabrot, en einnig hefur hann fimm sinnum áður hlotið dóm fyrir að aka bifreið sviptur ökurétti. Þá hefur hann og verið sektaður tvisvar sinnum fyrir fíkniefnalagabrot. Með dómi uppkveðnum 23. júní 2006 var hann dæmdur í 6 mánaða fangelsi fyrir fjársvik, þjófnaði og fíkniefnalagabrot. Var refsingin þá bundin skilorði í þrjú ár og vísað til þess í dóminum að ákærði hefði undirgengist vímuefnameðferð og að meðferð lokinni hefði ákærði verið orðinn vinnufær. Þá hlaut hann á ný dóm 31. ágúst 2006 fyrir smáþjófnað en refsing hans í því máli var ákvörðuð sem hegningarauki við refsingu samkvæmt fyrrgreindum dómi og var honum því ekki gerð sérstök refsing. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð dómsins frá 23. júní 2006 og verður refsing hans samkvæmt þeim dómi því tekin upp og honum nú tiltekin refsing í einu lagi, sbr. 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga.

Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 3 ár frá uppkvaðningu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.

                                  

                                                               D ó m s o r ð :

Ákærði, Sigurður Pétur Sigurðsson, sæti fangelsi í 10 mánuði, en fresta skal fullnustu 6 mánaða af refsivistinni skilorðsbundið í 3 ár frá uppkvaðningu dómsins að telja og falli sá hluti refsingarinnar niður að þeim tíma liðnum haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.