Hæstiréttur íslands
Nr. 2020-85
Lykilorð
- Kæruleyfi
- Faðerni
- Kæruheimild
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Með beiðni 12. mars 2020 leitar A leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar 28. febrúar 2020 í málinu nr. 861/2019: A gegn B. Um kæruheimild er vísað til 1. mgr. 15. gr. barnalaga nr. 76/2003 og 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. B leggst gegn beiðninni.
Mál þetta lýtur að kröfum leyfisbeiðanda um að viðurkennt verði að gagnaðili sé faðir C og að gagnaðila verði gert að þola töku blóð- og lífsýna til mannerfðafræðilegra rannsókna í því skyni. Leyfisbeiðandi er móðir C sem fæddist [...]. Í fæðingarvottorði hans, útgefnu af Þjóðskrá Íslands 7. mars 2017, kemur fram að gagnaðili sé faðir hans. Leyfisbeiðandi giftist síðar D sem gekk C í föðurstað og ættleiddi hann [...]. Samkvæmt gögnum málsins liggur fyrir að C hafi ítrekað afsalað sér öllum réttindum á hendur ætluðum föður af fúsum og frjálsum vilja. Gagnaðili hefur ekki gengist við því að vera faðir C.
Héraðsdómur vísaði málinu frá dómi með þeim rökum að leyfisbeiðandi hefði ekki sýnt fram á lögvarða hagsmuni sína af því að fá dóm um kröfur sínar, sbr. 25. gr. laga nr. 91/1991. Var vísað til þess að úrlausn málsins hefði ekki nein réttaráhrif gagnvart syni leyfisbeiðanda þar sem hann hefði þegar verið ættleiddur. Þess utan hefði hann afsalað sér öllum mögulegum rétti á hendur gagnaðila. Landsréttur staðfesti þá niðurstöðu með framangreindum úrskurði og vísað til þess að sonur leyfisbeiðanda, sem nú væri [...] ára gamall, hefði sjálfur ráðstafað hagsmunum sínum og afsalað sér öllum rétti á hendur gagnaðila. Leyfisbeiðandi hefði því ekki sýnt fram á að hún hefði lögvarða hagsmuni af því að fá efnisdóm um kröfur sínar á hendur gagnaðila.
Samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991, sbr. lög nr. 76/2019, er heimilt án leyfis að kæra til Hæstaréttar úrskurði Landsréttar ef þar hefur verið mælt fyrir um frávísun máls frá héraðsdómi eða Landsrétti og ekki er um að ræða staðfestingu á slíkri dómsathöfn héraðsdóms. Getur úrskurður Landsréttar samkvæmt því sætt kæru til Hæstaréttar ef þar hefur verið tekin ákvörðun um að vísa máli frá héraðsdómi sem ekki hefur fyrr verið gert. Á hinn bóginn sætir úrskurður Landsréttar ekki kæru til Hæstaréttar eftir framangreindri heimild ef þar hefur verið staðfestur úrskurður héraðsdóms um frávísun svo sem hér er um að ræða.
Samkvæmt 2. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að leita leyfis Hæstaréttar til að kæra úrskurði Landsréttar þegar svo er fyrir mælt í öðrum lögum. Hvorki er í lögum nr. 76/2003 né í lögum nr. 91/1991 er að finna heimild til að sækja um leyfi Hæstaréttar til að kæra úrskurð Landsréttar þar sem staðfest er niðurstaða héraðsdóms um að vísa máli frá dómi. Þegar af þessari ástæðu er beiðni um kæruleyfi hafnað.