Hæstiréttur íslands

Mál nr. 497/2002


Lykilorð

  • Skaðabótamál
  • Björgunarsveit
  • Neyðarréttur
  • Óbeðinn erindrekstur


Fimmtudaginn 10

 

Fimmtudaginn 10. apríl 2003.

Nr. 497/2002.

Kristinn Ólafsson

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

gegn

Maríu Jónasdóttur

(Hákon Árnason hrl.)

 

Skaðabótamál. Björgunarsveitir. Neyðarréttur. Óbeðinn erindrekstur.

K krafði M um skaðabætur vegna slyss sem hann varð fyrir sem björgunarsveitarmaður er hann féll niður af þaki á húsi M eftir að hafa fest þar plötur, er losnað höfðu vegna óveðurs. Talið var að hvað sem liði samskiptum M og K, áður en K fór upp á þakið, hefði ekki verið sýnt fram á að milli þeirra hefði stofnast samningur, sem fæli í sér að M hefði tekið á sig ábyrgð á hugsanlegu tjóni K. Þá væri ekki unnt að fallast á það með K að ólögfestar reglur skaðabótaréttar um óbeðinn erindrekstur og neyðarrétt gætu leitt til þess að á M yrði lögð skaðabótaábyrgð vegna tjónsins. Yrði að líta svo á að fébótaábyrgð yrði almennt ekki lögð á þann, sem bjargað væri úr háska eða á þá hagsmuni, sem björgunaraðgerðir beinast að, nema sá hinn sami hefði vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi stofnað til þeirra aðstæðna, er tjón björgunarmanns yrði rakið til en því hefði ekki verið haldið fram af hálfu K. Var M því sýknuð af kröfum K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Haraldur Henrysson, Garðar Gíslason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. nóvember 2002 og krefst þess aðallega að stefnda verði dæmt til að greiða sér 7.813.420 krónur með nánar greindum vöxtum frá 1. febrúar 1997 til greiðsludags. Til vara krefst hann greiðslu á 7.769.887 krónum með sömu vöxtum og í aðalkröfu. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Stefnda krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur áfrýjanda verði verulega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Greint er frá málavöxtum og málsástæðum aðila í héraðsdómi. Áfrýjandi krefur stefndu um greiðslu skaðabóta vegna slyss er hann varð fyrir sem björgunarsveitarmaður 3. febrúar 1991, er hann féll niður af þaki stefndu eftir að hafa fest þar plötur, er losnað höfðu vegna óveðurs. Hvað sem líður samskiptum stefndu og áfrýjanda, áður en hann fór upp á þakið, hefur ekki verið sýnt fram á að milli þeirra hafi stofnast samningur, sem feli í sér að hún hafi tekið á sig ábyrgð á hugsanlegu tjóni hans, eins og haldið er fram. Þá er ekki unnt að fallast á það með áfrýjanda að ólögfestar reglur skaðabótaréttar um óbeðinn erindrekstur og neyðarrétt geti leitt til þess að á stefndu verði lögð skaðabótaábyrgð vegna tjónsins. Verður að líta svo á að fébótaábyrgð verði almennt ekki lögð á þann, sem bjargað er úr háska eða á þá hagsmuni, sem björgunaraðgerðir beinast að, nema sá hinn sami hafi vísvitandi eða af stórfelldu gáleysi stofnað til þeirra aðstæðna, er tjón björgunarmanns verður rakið til. Í þessu máli er því ekki haldið fram af hálfu áfrýjanda, að svo hafi verið.

Að þessu athuguðu, en að öðru leyti með skírskotun til forsendna héraðsdóms, verður hann staðfestur.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður en um gjafsóknarkostnað fer eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, Kristins Ólafssonar, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns hans, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 300.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2002.

I.

Mál þetta, sem dómtekið var fimmtudaginn 2. maí sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristni Ólafssyni, kt. 210557-3859, Garðbraut 88, Garði, með stefnu og framhaldsstefnu, birtum 1. febrúar 2001 og 7. júní 2001, á hendur Maríu Jónasdóttur, kt. 071026-0009, Blómsturvöllum við Skagabraut, Garði, og Vátryggingafélagi Íslands hf., kt. 690689-2009, Ármúla 3, Reykjavík.

         Endanlegar dómkröfur stefnanda í aðalsök og framhaldssök eru þær aðallega, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda skaða- og miskabætur að fjárhæð kr. 7.813.420, með 0,9% ársvöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 með síðari breytingum frá 01.02.1997 til 01.06. s.á., en með 1,0% ársvöxtum frá þeim degi til 01.08. s.á., en með 0,9% ársvöxtum frá þeim degi til 01.09. s.á., en með 0,8% ársvöxtum frá þeim degi til 27.10. s.á., en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga með síðari breytingum, frá þeim degi til 01.07.2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla l. nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags.  Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu samkvæmt málskostnaðarreikningi, ásamt 24,5% virðisaukaskatti af málflutningsþóknun, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.  Til vara krefst stefnandi greiðslu á kr. 7.769.887 með sömu vöxtum og greinir í aðalkröfu, auk málskostnaðar eins og þar greinir.

         Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær, að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, en til vara, að stefnukröfur verði stórlækkaðar.  Jafnframt krefjast stefndu í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

II.

Málavextir:

Málsatvik eru þau, að sunnudagsmorguninn 3. febrúar 1991 var Björgunarsveitin Ægir í Garði sett í viðbragðsstöðu ásamt öðrum björgunarsveitum á Suðurnesjum að fenginni viðvörun frá Almannvörnum ríkisins um ofviðri í aðsigi.  Var stefnandi liðsmaður í Björgunarsveitinni Ægi. Klukkan 9 um morguninn mældist vindhraðinn á Keflavíkurflugvelli um 24 m/s og 34,5 m/s í mestu hviðunum.  Eftir hádegið var vindhraði í mestu hviðum orðinn 46,3 m/s.  Samkvæmt dagbók Björgunarsveitarinnar Ægis var allt tiltækt lið sveitarinnar kallað út til hjálparstafa um kl. 10. Losnaði járn víða á þökum húsa í Garðinum um daginn, og voru björgunar­sveitarmenn settir í að festa niður þakplöturnar.  Einnig fauk allt lauslegt og skapaði hættu, rúður brotnuðu og bílskúrshurðir vildu fjúka upp.  Sömu sögu var að segja frá Keflavík og Njarðvík, þar sem einnig sukku trillur.

         Síðdegis þennan dag var stefnandi einn síns liðs uppi á þaki húss stefndu, Maríu, Blómsturvöllum við Skagabraut, Garði, að hefta þakjárn, sem var að fjúka í ofviðrinu, en tveir aðrir björgunarsveitarmenn stóðu við norðurhlið hússins.  Eru Blómsturvellir einnar hæðar hús með risi.  Er þakhalli um 30° og ca. 2,80 m hæð frá jörðu að þakskeggi.  Er stefnandi var þarna að störfum, gerði mikla vindhviðu, sem feykti honum ofan af þakinu.  Kom hann standandi niður á steypta stétt við húsið.  Kenndi hann mikilla bakverkja, og fluttu félagar hans hann á Sjúkrahús Keflavíkurlæknishéraðs, en þangað kom hann kl. 17.15.  Var stefnandi mjög aumur í neðstu hryggjarliðum, átti erfitt með að hreyfa sig og haltraði.  Röntgenmyndir af mjóbaki og lendarliðum sýndu ekki brot.  Fékk stefnandi að fara heim með lyfseðil á verkjalyf.  Við endurkomur var hann mjög stirður í hryggnum og var ákveðið, að hann færi í sjúkraþjálfun.

         Stefnandi var 34 ára að aldri á slysdegi og beitingamaður að atvinnu.  Var hann óvinnufær í 4 mánuði fyrst eftir slysið, en fór þá um sumarið að vinna í saltfiski og aftur við beitingar um haustið.  Um mitt ár 1992 hætti hann þeirri vinnu og hóf fullt starf sem umsjónarmaður í íþróttamiðstöðinni í Garði.  Fyrir slysið átti stefnandi langvarandi sögu um mjóbaksverki með leiðni niður í ganglim.  Bætti slysið 3. febrúar 1991 ekki úr skák.  Gekkst stefnandi undir ýmiss konar meðferð, án verulegs árangurs, svo sem sjúkraþjálfun, hnykkingar og lyfjameðferð og loks brjósklosaðgerð neðst í mjóbaki á árinu 1999.  Var stefnanda metin 65% almenn örorka hjá Tryggingastofnun ríkisins árin 1994 - 1996 og aftur frá 1. maí 1997 - 30. apríl 1999, og meira en 75% örorka frá 1. desember 1998.

         Hinn 20. maí 1997 mat Jónas Hallgrímsson læknir, að beiðni stefnanda, varanlega örorku hans af völdum slyssins og taldi hana vera 20%.  Þá taldi Jónas, að sá hluti varanlegrar örorku stefnanda, sem var til staðar fyrir slysið, svaraði til 5% örorku, og að brjósklos í mjóbaki stefnanda væri ekki með neinu öryggi hægt að rekja til slyssins, þótt líkur væru á, að það ætti þátt í því.  Tímabundna örorku stefnanda af völdum slyssins mat Jónas 100% í fjóra mánuði.

         Slysavarnarfélag Íslands hafði slysatryggt liðsmenn björgunarsveitanna á Suður­nesjum, þ.á.m. Björgunarfélagsins Ægis, hjá stefnda VÍS.  Greiddi VÍS þ. 27. okt. 1997 slysabætur til stefnanda úr þeirri tryggingu í samræmi við örorkumat Jónasar Hallgrímssonar.  Stefnandi taldi örorkumatið of lágt og tók við bótunum með fyrirvara.  Hinn 7. apríl 1998 bað hann Jónas um að endurmeta örorkuna, en læknirinn svaraði beiðninni svo:  "Tel vonlaust að hækka nema í samráði við VÍS í tveggja lækna mati".

         Hinn 26. nóv. 1997 tilkynnti lögmaður stefnanda stefndu Maríu Jónasdóttur, að stefnandi teldi hana skaðabótaskylda vegna slyss hans þ. 3. febrúar 1991.   Var stefnda með húseigendatryggingu hjá stefnda VÍS, sem hafnaði bótaskyldu af hálfu stefndu með bréfi 30. des. 1997.

         Hinn 27. október 2000 beiddist stefnandi dómkvaðningar matsmanna til að meta á ný læknisfræðilega örorku sína af völdum slyssins.  Voru læknarnir, Stefán Carlsson og Júlíus Valsson, dómkvaddir til starfans.  Er matsgerð þeirra dagsett 30. janúar 2001 þar sem þeir meta stefnanda 25% varanlega örorku af völdum slyssins, auk 100% tímabundinnar örorku í fjóra mánuði.  Kemur fram í matinu að stefnandi hafði minnkað við sig starf og var í 40% starfi.  Þá hafi nokkuð borið á depurð hjá honum, og hafi hann verið á þunglyndislyfjum vegna þess síðan 1999. Í matsforsendum segir síðan, að við mat á varanlegri læknisfræðilegri örorku stefnanda telji matsmenn sanngjarnt að rekja langstærstan hluta einkenna hans í dag frá hrygg til slyssins.  "Auk þess telja matsmenn að þunglyndiseinkenni matsbeiðanda megi einnig rekja til slyssins að megin. (sic í matsgerð)."  Þó verði einnig að rekja hluta af einkennum matsbeiðanda til bakóþæginda fyrir slysið.  Telji matsmenn varanlega læknisfræðilega örorku matsbeiðanda vera samanlagt 30%, sem skiptist þannig, að 5% séu vegna einkenna fyrir slys, en 25% vegna slyssins, er aftur skiptist þannig, að 20% séu vegna baksins og 5% vegna þunglyndis.

         Þann 1. febrúar 2001 höfðaði stefnandi mál þetta á hendur stefndu.  Snýst ágreiningur aðila um bótaskyldu og bótafjárhæðir.

III.

Málsástæður stefnanda:

Stefnandi kveðst reisa kröfur sínar á hinum ólögfestu reglum skaðabótaréttarins um óbeðinn erindrekstur (negotiorum gestio) og neyðarrétt, verði sú fullyrðing stefndu, Maríu, lögð til grundvallar, að hún hafi ekki kallað eftir aðstoð að húsi sínu, og aðstoð stefnanda hafi þar af leiðandi verið óumbeðin.  Í reglunni um óbeðinn erindrekstur felist það, að bíði erindrekinn eigna- eða líkamstjón við erindreksturinn, sé sá, sem hann vinni fyrir almennt ekki bótaskyldur, nema að fullnægðum skilyrðum neyðarréttar eða almennra skaðabótareglna.  Telji stefnandi ljóst, að skilyrðinu um neyðarrétt hafi hér verið fullnægt.  Sökum veðurs hafi þakplötur verið í þann veginn að fjúka af húsi stefndu, Maríu, og hefðu getað valdið miklu tjóni, ef ekkert hefði verið að gert.  Hin aðsteðjandi hætta hafi því verið brýn og yfirvofandi.  Hagsmunir stefndu hafi verið miklir af því, að frekara tjón hlytist ekki á fasteigninni, eða af völdum hennar, t.d. að fjúkandi þakjárn ylli tjóni á hagsmunum þriðja manns, lífi hans, líkama eða eignum.  Byggir stefnandi á hinni almennu, ólögfestu reglu, að eigandi þeirra hagsmuna, sem neyðarréttarverk sé ætlað að bjarga, beri skaðabóta­ábyrgð án sakar á tjóni því, er af hljótist.

         Sé það hins vegar lagt til grundvallar, að stefnda, María, hafi sjálf kallað til aðstoð að húsi sínu, reisir stefnandi kröfu sína aðallega á því, að niðurstaðan um bótaskyldu stefndu sé engu að síður sú sama og í tilviki óumbeðinnar aðstoðar.  Óeðlilegt sé, að bótaréttur erindreka verði minni af því, að aðstoð hans sé umbeðin, heldur eigi réttur hans þvert á móti að verða enn ríkari.  Húseigandi, sem sjálfur hafi beðið um hjálp annarra til að forða húsi sínu frá miklu tjóni í vonskuveðri, hljóti að þurfa að svara til þess tjóns, sem hjálparmaðurinn (erindrekinn) verði fyrir við starf sitt.  Þessi bótaréttur hjálparmannsins sé samkvæmt ólögfestum reglum talinn vera til staðar, þegar hjálpin sé óumbeðin, og geti ekki fallið niður við það, að húseigandi biðji um hjálpina sjálfur.  Þvert á móti hljóti bótaskylda húseigandans í því tilviki að vera enn ríkari.  Það sé því eðlilegt og eðli málsins samkvæmt, að hinar framangreindu ólögfestu reglur skaðabótaréttarins séu skýrðar rúmt, hvað þetta varði.

         Sé það enn lagt til grundvallar, að stefnda, María, hafi sjálf kallað til aðstoð að húsi sínu, reisir stefnandi kröfu sína til vara á því, að munnlegur samningur hafi komizt á milli hennar og stefnanda, persónulega og fyrir hönd björgunarsveitarinnar, um að lausar þakplötur á húsi hennar yrðu festar.  Hafi sá samningur komizt á fyrir brýna beiðni stefndu um aðstoð við að bjarga hagsmunum sínum frá tjóni og samþykki stefnanda, með því að verða við þeirri beiðni.  Samningur þessi hafi þannig hljóðað um einhliða skyldu annars samningsaðilans.  Telji stefnandi það eðlilega túlkun slíks samnings, sem aðeins sé til hagsbóta fyrir annan aðila hans og sé kominn á að beiðni hans, án þess að nokkrar skyldur komi á móti af hans hálfu, að sá hinn sami beri einnig áhættuna af því að þurfa að svara til tjóns, sem gagnaðilinn verði fyrir við framkvæmd samningsins.

         Gagnvart stefnda, VÍS, reisir stefnandi kröfu sína á skilmálum húseigenda­tryggingar þeirrar, sem stefnda, María, hafði keypt hjá félaginu, og leiði framan­greindar málsástæður þannig einnig til ábyrgðar félagsins.  Hvort sem stefnda, María, hafi sjálf kallað eftir aðstoð eður ei, sé félagið ábyrgt gagnvart henni og það einnig þótt lagt sé til grundvallar, að bótaskylda hennar gagnvart stefnanda sé byggð á samningi hennar og stefnanda.  Með því að kalla eftir aðstoð, hafi stefnda verið að sinna þeirri skyldu sinni gagnvart tryggingafélagi sínu, sem kveðið sé á um í skilmálum vátryggingar­samnings og 52. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingar­samninga, þ.e. að reyna af fremsta megni að afstýra yfirvofandi tjóni, sem félagið hefði borið fébótaábyrgð á.  Hagsmunir húseigandans og tryggingafélags hans séu sameiginlegir, þ.e. að komizt verði hjá tjóni á fasteigninni eða af völdum hennar, og þessa sameiginlegu hagsmuni hafi stefnda verið að vernda með því að beiðast þess, að þriðji maður annaðist það að koma í veg fyrir tjónið eða takmarka það eins og unnt væri.  Þannig sé e.t.v. eðlilegt að líta svo á, að þessir sameiginlegu hagsmunir beggja stefndu eigi að leiða til þess, að félagið sé við hlið stefndu, Maríu, aðili að samningnum við stefnanda um þessa hagsmuni, þó svo að stefnda, María, hafi ein formlega beiðzt þess, að hann kæmist á.  Þannig hafi samningur hennar og stefnanda ekki síður verið til hagsbóta fyrir félagið en hana, og sé því eðlilegt, að félagið beri með henni framangreinda áhættu af framkvæmd samningsins.

         Niðurstaðan sé þannig sú, að hvort sem aðstoð stefnanda hafi verið umbeðin eður ei, sé félagið ábyrgt gagnvart stefndu, Maríu, og þau bæði skaðabótaskyld gagnvart stefnanda, ­hvort sem um sé að ræða skaðabótaskyldu utan eða innan samninga.

         Með vísan til 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 geri stefnandi kröfu um miskabætur úr hendi stefndu.  Vegna þeirra óþæginda og þjáninga, röskunar á stöðu og högum svo og þess andlega og líkamlega álags, sem slysið hafi haft í för með sér fyrir stefnanda, telji hann fjárhæð miskabótakröfu sinnar vera hæfilega kr. 3.500.000.

         Stefnandi fallist ekki á þau rök, sem fram hafi komið í málinu af hálfu stefnda, VÍS, fyrir höfnun bótaskyldu félagsins.  Í fyrsta lagi fallist stefnandi ekki á, að með starfi sínu sem björgunarsveitarmaður í sjálfboðavinnu hafi hann tekið slíka áhættu, að bótaréttur hans falli niður.  Björgunarsveitarmenn vinni þjóðþrifaverk í þágu alls almennings og vinni störf sín við hinar erfiðustu aðstæður.  Með störfum sínum, sem unnin séu af miklu hugrekki og ósérhlífni, spari þeir samfélaginu stórfé, og þá ekki síst húseigendum og tryggingafélögum þeirra.  Það standi þessum aðilum nær að bera tjón, sem björgunarsveitarmaður kunni að verða fyrir við þessa hagsmunagæzlu hans í þágu þeirra, heldur en hann sjálfur.  Vissulega séu störf björgunarsveitarmanna hættuleg, enda sé almennt ekki kallað eftir liðsinni þeirra, nema þegar einhvers konar hætta vofir yfir lífi manna, líkama þeirra eða eignum, og eigendur hagsmunanna hafi ekki burði eða getu til að gæta þeirra sjálfir.  Vegna þessa sérstaka eðlis starfa björgunar­sveitar­manna í þágu samfélagsins sé einfaldlega ekki um að ræða þau tilvik, sem oftast reyni á í skaðabótarétti og þar séu almennt talin fela í sér áhættutöku tjónþola eða þegjandi samþykki hans um að bera áhættu með þeim afleiðingum, að bótaréttur hans falli niður.  Þar sem starf björgunarsveitarmanna sé bæði hættulegt og ekki á allra færi, þyki eðlilegt, að eigendur hagsmunanna, sem sveitarmenn forði oft frá stórtjóni, beri skaðabótaábyrgð án sakar í þeim tilvikum, er þeir hljóti líkamstjón í starfi sínu.  Þyki í því efni mega hafa til nokkurrar hliðsjónar tvo óáfrýjaða dóma bæjarþings Reykjavíkur; annars vegar frá 4. júlí 1956 í málinu nr. 833/1954, Guðfinnur Sigmundsson gegn Guðjóni Teitssyni vegna Skipaútgerðar ríkisins, og hins vegar frá 14. desember 1970 í málinu nr. 252/1970, Sigríður Bjarnadóttir gegn fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs.

         Í öðru lagi fallist stefnandi ekki á, að stefndu séu ekki skaðabótaskyld að lögum, þar sem veður á slysdegi hafi verið slíkt, að um "vis major" hafi verið að ræða.  Vísi stefnandi annars vegar til þess, að þótt veðurhæð hafi verið mikil og eignatjón sennilega töluvert, hafi veðrahamurinn ekki verið meiri en búast megi við hér á landi.  Því til stuðnings vísi stefnandi m.a. til dóms Hæstaréttar frá 31. janúar 1969 í málinu nr. 27/1968; Einar Björnsson gegn Prentverki Odds Björnssonar hf.  Hins vegar vísi stefnandi til þess, að hluti hinnar víðtæku húseigendatryggingar, sem stefnda, María, hafði keypt hjá stefnda, VÍS, hafi verið óveðurstrygging.  Í H-lið 2. kafla vátrygginga­skilmálanna sé kveðið á um tryggingu þessa, og komi þar fram, að tryggingin bæti eingöngu tjón af völdum óveðurs, þ.e. þegar vindur mælist yfir 11 vindstig.  Í skilmálunum séu ekki greind nein efri mörk vindhraða, sem bótaskylda félagsins takmarkist við, enda megi hér á landi búast við veðri, þar sem vindhraði fari langt yfir þau mörk.  Hefði stefndi, VÍS, viljað undanþiggja sig ábyrgð gagnvart tryggingataka vegna ofsaveðurs eða fárviðris, þ.e. þegar vindhraði fer yfir 12 vindstig, hefði félaginu verið í lófa lagið að gera það í skilmálum sínum.  Telji stefnandi þannig, að félaginu sé ekki á því stætt gagnvart vátryggingartaka, sem keypt hafi sérstaka óveðurs­tryggingu, að viðurkenna í skilmálum sínum bótaskyldu vegna verra veðurs en óveðurs, en hafna bótaskyldunni síðan með vísan til þess, að slíkt veður falli undir "vis major".

         Þegar dómsmál þetta var höfðað með birtingu stefnu hinn l. febrúar 2001, hafi ekki legið fyrir örorkutjónsútreikningur, en málshöfðun greindan dag hafi verið nauðsynleg vegna rofs fyrningar.  Þann 17. nóvember 2000 hafi verið dómkvaddir sérfræðingar til að meta örorku stefnanda.  Örorkumat lá fyrst fyrir hinn 30. janúar s.á., sbr. dskj. nr. 35-36.  Samkvæmt örorkutjónsútreikningi, dags. 5. marz 2001, sé fjártjón stefnanda vegna tímabundinnar og varanlegrar örorku, ásamt verðmæti tapaðra lífeyrisréttinda, sbr. dskj. nr. 38, kr. 13.927.000.  Miskabótakrafa stefnanda sé kr. 3.500.000.  Samtals nemi upphafleg krafa stefnanda því kr. 17.427.000.  Við aðalmeðferð lækkaði stefnandi kröfur sínar í kr. 7.813.420, en til vara í kr. 7.769.887.  Sundurliðar hann kröfur sínar þannig:

 

I.       Aðallega, m.v. leiðréttan útreikning v/tímabundinnar örorku:

1.      Tímabundin örorka                                                                                    kr.       501.500

         Frádr. dagpen. frá TR                                                                              - kr.         81.168

         Frádr. greiðsla frá vinnuveitanda                                                          - kr.         80.000

         Mismunur                                                                                                   kr.       340.332             kr.    340.332

2.      Varanleg örorka                                                                                          kr.  12.996.800

         Frádr. slysad.verðm. örorkulíf. & tekjutr. frá TR                                 - kr.    9.239.991

                                                                                                                               kr.    3.756.809

         15% lækkun v/skattahagr. & eingreiðsluhagr.                                   - kr.       563.521

         Mismunur                                                                                                   kr.    3.193.288             kr. 3.193.288

3.      Töpuð lífeyrisréttindi                                                                                                                     kr.    779.800

4.      Miskabætur                                                                                                                                    kr.  3.500.000      

         Fjárhæð dómkröfu                                                                                                                         kr.  7.813.420

 

II.      Til vara, m.v. tekjur skv. skattframtali 1991 v/tímabundinnar örorku:

1.      Tímab. örorka (1.373.903/12=114.491,92x4)                                            kr.       457.967

         Frádr. dagpen. frá TR, sbr. I.1.                                                               - kr.         81.168

         Frádr. gr. frá vinnuveitanda, sbr. I.1.                                                    - kr.         80.000

         Mismunur                                                                                                   kr.       296.799             kr.    296.799

        

2.      Varanleg örorka, sbr. I.2.                                                                                                                kr. 3.193.288

3.      Töpuð lífeyrisréttindi, sbr. I.3.                                                                                                      kr.    779.800

4.      Miskabætur, sbr. I.4.                                                                                                                      kr. 3.500.000

         Fjárhæð dómkröfu                                                                                                                          kr. 7.769.887      

         Stefnandi vísar til ólögfestra reglna skaðabótaréttarins um óbeðinn erindrekstur og neyðarrétt, grunnreglna um bótaskyldu án sakar vegna hættulegrar starfsemi, samnings aðila, skilmála vátryggingarsamnings, 52. og 53. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingar­samninga og þágildandi 2. mgr. 25. gr. sömu laga, og enn fremur þágildandi 264. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hvað miskabótakröfu varði.  Vaxtakröfu sína styður stefnandi við 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 og kröfu um dráttarvexti við reglur III. kafla sömu laga.  Með hliðsjón af 2. tl. 3. gr. laga nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda sé upphafsdagur vaxta miðaður við fjögur ár aftur í tímann frá þeim degi, er mál þetta teljist höfðað með birtingu stefnu.  Krafan um málskostnað styðjist við 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun sér reist á lögum nr. 50/1998 um virðisaukaskatt.  Málskostnaðarkrafan sé gerð, eins og máli væri eigi gjafsóknarmál, og sé í þessu efni vísað til leyfisbréfs Dóms- og kirkjumála­ráðuneytisins.  Um varnarþing vísist til 1. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður stefnda:

Stefndi, VÍS, byggir sýknukröfu sína fyrst og fremst á aðildarskorti félagsins og því, að húseigendatrygging meðstefndu, Maríu, hjá félaginu taki ekki til slyss stefnanda.

         Sýknukrafa beggja stefndu sé svo jafnframt byggð á því, að stefnandi eigi enga bótakröfu að lögum á hendur þeim vegna slyssins, en bótaréttur á hendur stefndu verði ekki byggður á reglum um óbeðinn erindisrekstur eða neyðarrétt eða á nokkrum reglum skaðabóta- og vátryggingaréttar, né heldur á neins konar samnings­grundvelli.  Skorti bótakröfu stefnanda alla stoð í lögum eða samningi.  Þá verði stefnandi að bera tjón sitt sjálfur eftir reglum skaðabótaréttar um samþykki og áhættutöku og eigin sök, og leiði það einnig til sýknu stefndu.

         Húseigendatrygging stefndu, Maríu Jónasdóttur, hjá stefnda, VÍS, sem stefnandi sé ekki neinn aðili að, gefi stefnanda engan aðildar- eða aðgangsrétt að félaginu, þótt hann verði fyrir tjóni, sem María beri skaðabótaábyrgð á.  Sé það ábyrgðar­tryggingarþáttur húseigendatryggingarinnar, sem veiti stefndu, Maríu, vátryggingar­vernd gegn hugsanlegri skaðabótaábyrgð hennar á tjóni, en tjónþolinn eigi ekki þar með neinn beinan bóta - eða aðgangsrétt að félaginu, sbr. 1. mgr. 95. gr. vsl. nr. 20/1954, Hrd. 1970:434 og Hrd. 2000, 14. desember, mál nr. 289/2000.  Sé skilyrði fyrir aðgangsrétti tjónþola gagnvart félaginu, að staðreynt hafi verið, að vátryggður sé skaðabótaskyldur gagnvart honum og upphæð bótanna ákveðin, en hvorugu sé til að dreifa í tilviki stefnanda.  Stefnandi eigi því enga kröfu á stefnda, VÍS, og beri að sýkna félagið á grundvelli aðildarskorts.

         Í annan stað geti félagið ekki átt aðild að máli þessu, þar sem umstefnt tjón falli ekki undir ábyrgðartrygginguna.  Segi í l. gr. skilmála ábyrgðartryggingarinnar, að félagið vátryggi gegn þeirri skaðabótaskyldu, sem falli á vátryggingartaka samkvæmt íslenskum lögum eða réttarvenjum, en ábyrgðartryggingin bæti slík tjón að því leyti sem tjónþoli eigi ekki að bera tjónið sjálfur vegna meðsakar eða meðábyrgðar.  Þá sé tekið fram, að bótaábyrgðin sé ekki víðtækari en venjuleg skaðabótaskylda utan samninga.  Í 3. gr. sameiginlegra skilmála tryggingarinnar séu svo tjón, sem beint eða óbeint séu af völdum náttúruhamfara, sérstaklega undanþegin bótaskyldu.  Falli slys stefnanda þannig ekki undir trygginguna, en stefnandi hafi slasazt af völdum ofsaveðurs og hafi borið sjálfur ábyrgð á slysinu með þátttöku í bjögunarsveitarstarfi við hættulegar aðstæður, og bótaskylda á grundvelli reglna um óbeðinn erindisrekstur og neyðarrétt sé víðtækari en venjuleg skaðabótaskylda utan samninga.  Falli tjónið þannig utan við gildissvið tryggingarinnar.

         Þá leiði til sýknu beggja stefndu, að reglur skaðabótaréttar um óbeðinn erindisrekstur og neyðarrétt eigi ekki við um tjón stefnanda, og ekki verði bótaréttur til handa stefnanda heldur reistur á grundvelli neins konar samnings milli stefnanda og stefndu, en milli þeirra hafi ekkert samningssamband stofnazt.  Stefnda, María hafi ekki beðið stefnanda eða aðra um aðstoð að húsi sínu, þegar stefnandi slasaðist, og sama gildi um meðstefnda, VÍS, og starfsmenn hans.  Þá hafi stefnandi ekki verið að vinna sérstaklega að björgun hagsmuna stefndu, þegar hann fauk niður af húsþaki Blómsturvalla, heldur hafi hann verið að vinna þar við björgun almannahagsmuna sem liðsmaður í björgunarsveit, er Almannavarnir höfðu kvatt út vegna almenns hættuástands af völdum ofsaveðurs.  Hafi stefndu enga sök átt á ofviðrinu og því, að þakplötur á húsi Maríu og öðrum húsum tóku að losna af völdum veðurhamsins.  Sé almenna reglan sú, að erindreki, sem bíði eigna- eða líkamstjón við óbeðinn erindis­rekstur eða neyðarréttarverk, svo sem björgunarstarf, eigi ekki bótarétt úr hendi manns, sem bjargað sé, eða eiganda bjargaðra muna, nema sá hafi stofnað til neyðarástandsins af stórfelldu gáleysi.  Um slíkt sé ekki að ræða hér.  Beri því að sýkna stefndu einnig af þessum ástæðum.

         Enn leiði til sýknu stefndu, að stefnandi verði að bera allt sitt tjón sjálfur eftir reglum skaðabótaréttarins um samþykki og áhættutöku.  Hafi stefnandi af fúsum og frjálsum vilja verið liðsmaður í björgunarsveit, sem var liður í almannavörnum á Suðurnesjum, og hafi sem slíkur, og eðli málsins samkvæmt, hlotið að þurfa að taka þátt í meira eða minna hættulegum björgunarstörfum, þegar hættu- eða neyðarástand bæri að höndum.  Með þátttöku sinni sem liðsmaður í björgunarsveitinni í aðgerðum við hættulegar aðstæður hafi stefnandi samþykkt að leggja sig í hættu í annarra þágu og hafi tekið áhættuna af því að slasast.  Beri honum því enginn réttur til skaðabóta, en reglan sé sú, þegar svo standi á, að réttur til skaðabóta stofnist ekki, eða teljist fyrirgert.  Verði stefnandi því að láta sér nægja þær slysabætur, sem hann hafi verið slysatryggður fyrir.

         Loks beri að sýkna stefndu vegna eigin sakar stefnanda á slysi sínu.  Hafi sök hans falizt í því að vera upp á þakinu á Blómsturvöllum í ofviðrinu, án öryggislínu eða líflínu, en hefði stefnandi haft slíkan öryggisbúnað, hefði ekkert slys orðið.

         Varakröfu sína byggir stefndi á því, að skipta beri sök og bótaábyrgð í málinu og stórlækka stefnukröfur.  Um eigin sök stefnanda, samþykki og áhættutöku vísist til þess, sem reifað sé hér að framan.  Verði stefnandi að bera tjón sitt sjálfur í hlutfalli við eigin sök og bótaábyrgð, en jafnframt beri að stórlækka stefnukröfurnar tölulega. Fari um ákvörðun bóta eftir þeim venjureglum, sem gilt hafi fyrir gildistöku skaðbótalaga nr. 50/1993.  Sé örorkumati hinna dómkvöddu matsmanna andmælt sem of háu og bótakröfunum að sama skapi, en ósannað sé, að þunglyndi stefnanda sé að rekja til slyssins.  Séu matsmenn ekki geðlæknar og matið því ótraust að þessu leyti.  Þá sé raunverulegt, tímabundið og varanlegt örorkutjón ósannað, og miskabótakrafa sé bersýnilega röng og í hróplegu ósamræmi við dómvenju.  Þá beri að lækka bætur vegna hagræðis af skattfrelsi og eingreiðslu og virða til lækkunar bótagreiðslur úr slysatryggingu, frá almannatryggingum og lífeyrisjóði, ef um sé að ræða.  Kröfu um dráttarvexti sé mótmælt frá fyrri tíma en dómsuppsögudegi.

         Samkvæmt dómvenju beri aðeins að bæta raunverulegt og sannað tímabundið vinnutekjutap, en líkindareikningur sé engin sönnun í því efni.  Þá séu viðmiðunartekjur við útreikning tekjutjóns vegna varanlegrar örorku mjög háar og myndi lækkun samkvæmt dómvenju vegna skattfrelsis bótanna og eingreiðslu­hagræðis því ekki vera undir 30-35%.  Í ljósi dómvenju gætu miskabætur heldur aldrei orðið hærri en 250-300 þúsund.

IV.

Forsendur og niðurstaða:

Kröfur sínar á hendur Vátryggingafélagi Íslands hf. byggir stefnandi á skilmálum húseigendatryggingar, sem stefnda, María, keypti hjá félaginu.  Ekki er fallizt á, að nokkurt réttarsamband sé milli stefnanda og hins stefnda félags, og getur hann ekki leitt bótarétt af hugsanlegum rétti, sem stefnda kann að eiga á hendur félaginu.  Er félagið því þegar af þeim sökum sýknað af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

         Fyrir dóminn komu til skýrslugjafar auk stefnanda Júlíus Valsson læknir, Páll Ingi Pálsson bifvélavirki, Kristófer Helgi Pálsson bóndi, Guðni Ásgeirsson, starfsmaður áhaldahúss Gerðahrepps, og Oddur Jónsson hleðslueftirlitsmaður.

         Stefnandi skýrði svo frá m.a., að formaður björgunarsveitarinnar hefði sent hann, ásamt a.m.k. þremur öðrum mönnum, niður að Blómsturvöllum til að athuga þakið hjá stefndu, Maríu, þar sem þakplötur væru að fjúka þar.  María hafi komið út og beðið þá um að athuga þakplöturnar.  Stefnandi hafi því farið upp á þakið og neglt niður nokkra nagla, sem stóðu upp úr járnplötunum, en þegar hann var að fara til baka, hafi hann fokið niður af þakinu og lent á steinstétt fyrir neðan.  Hann kvaðst ekki hafa verið með öryggisbúnað.  Mikið hvassviðri og rok hefði verið þennan dag, en það hefði verið alveg logn, þegar hann fór upp á þakið, og meðan hann var að vinna.  Hann kvaðst hafa verið vanur björgunarsveitarmaður.  Á þessum tíma hefði ekki verið venja að vera með öryggisbúnað, og hefði ekkert verið um það rætt að festa hann í líflínu, áður en hann fór á þakið.  Hann kvaðst ekki vita til, að þannig öryggisbúnaður hefði verið til staðar, og engar reglur hefðu verið um slíkan búnað hjá félaginu.  Vitnin, Páll Ingi Pálsson, Kristófer Helgi Pálsson, Guðni Ásgeirsson og Oddur Jónsson, sem allir voru meðlimir í björgunarsveitinni Ægi á umræddum tíma, könnuðust ekki við, að til hefði verið öryggisbúnaður hjá félaginu, svo sem líflínur eða belti.  Vitnið, Kristófer Helgi, kvaðst hafa verið staddur við Blómsturvelli, ásamt stefnanda og ef til vill fleiri mönnum, þegar slysið varð.  Hann taldi sig minna, að þeir hefðu rætt við húseiganda, þegar þeir komu á staðinn, en mundi það ekki nánar.

         Stefnda, María, kom ekki fyrir dóminn til skýrslugjafar.  Leggja verður framburð stefnanda til grundvallar um það, að hann hafi farið að Blómsturvöllum að beiðni formanns björgunarsveitarinnar, og jafnframt að hann hafi rætt við stefndu, Maríu, áður en hann fór upp á þakið.  Stefnandi var vanur björgunarsveitarmaður, svo sem hann skýrði sjálfur frá.  Hann starfaði í sjálfboðaliðavinnu á vegum björgunarsveitarinnar.  Hann skýrði svo frá, að björgunarsveitarmenn mætu sjálfir aðstæður á hverjum stað, og gætu þeir neitað að svara kalli eða taka þátt í aðgerðum, mætu þeir aðstæður hættulegar.  Stefnandi mat aðstæður þannig, að óhætt væri að fara upp á þakið.  Þegar hann fór á þakið var logn, en veðurhamur hafði verið mikill skömmu áður og mátti búast við, að veðrið ryki upp á ný.  Ástæða slyssins var skyndileg vindhviða, sem feykti stefnanda niður af þakinu.  Var þarna um algert óhappatilvik að ræða, sem stefnda ber ekki ábyrgð á, eins og atvikum var háttað, en stefnandi tók áhættuna af því að fara upp á þakið við vályndar og ótryggar veðuraðstæður, án öryggisbúnaðar.  Ber því að sýkna stefndu Maríu af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.

         Eftir atvikum þykir rétt, að málskostnaður falli niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, að meðtöldum útlögðum kostnaði, ákveðst kr. 650.000 og greiðist úr ríkissjóði.

         Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D Ó M S O R Ð :

Stefndu, María Jónasdóttir og Vátryggingafélag Íslands hf., skulu vera sýkn af öllum kröfum stefnanda, Kristins H. Ólafssonar, í máli þessu.

         Málskostnaður fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, kr. 650.000, greiðist úr ríkissjóði.