Hæstiréttur íslands

Mál nr. 153/2004


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Umgengni
  • Meðlag


Miðvikudaginn 5

 

Miðvikudaginn 5. maí 2004.

Nr. 153/2004.

M

(Hilmar Magnússon hrl.)

gegn

K

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengisréttur. Meðlag.

M kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu hans og K, hvors um sig, um forsjá barns þeirra til bráðabirgða, skorið úr um að lögheimili barnsins yrði hjá K, umgengni M við það og um greiðslu hans á meðlagi með því. Fyrir Hæstarétti krafðist M aðallega að lögheimili barnsins yrði hjá sér og að K yrði gert að greiða meðlag með því en til vara að umgengni yrði óbreytt frá því að aðilar slitu sambúð. Var úrskurður héraðsdóms staðfestur í Hæstarétti.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 23. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2004, þar sem hafnað var kröfu hvors aðilanna um sig um forsjá barns þeirra til bráðabirgða, skorið úr um lögheimili barnsins, umgengni sóknaraðila við það og um greiðslu sóknaraðila á meðlagi með því. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að lögheimili barnsins verði hjá honum og að varnaraðila verði gert að greiða honum meðlag sem sé jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins. Til vara krefst hann þess að umgengni verði óbreytt frá því að aðilar slitu sambúð þannig að barnið dvelji viku í senn hjá hvorum aðila, frá mánudegi til mánudags. Loks krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar án tillits til gjafsóknar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt bréfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 10. mars 2004 var gjafsókn varnaraðila bundin við rekstur forsjármáls aðila í héraði. Kemur því ekki til þess að mæla fyrir um gjafsóknarkostnað í kærumáli þessu, sbr. 5. mgr. 127. gr. laga nr. 91/1991.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. mars 2004

                Sóknaraðili er K.

Varnaraðili er M.

Sóknaraðili krefst þess að fá til bráðabirgða forsjá barnsins X.  Umgengni varnaraðila við barnið skuli verða aðra hverja helgi frá fimmtudegi eftir leikskóla/skóla til mánudagsmorguns en þá sé barninu skilað í leikskóla.  Sóknaraðili krefst þess að verði ekki fallist á niðurfellingu sameiginlegrar forsjár skuli lögheimili barnsins vera hjá sóknaraðila. Þá er þess krafist að varnaraðili verði úrskurðaður til að greiða meðlag með barninu frá uppkvaðningu úrskurðar sem sé jafn hátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma. Þá er krafist málskostnaðar eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.

Varnaraðili krefst þess aðallega að hafnað verði kröfu sóknaraðila um niðurfellingu sameiginlegrar forsjár og að lögheimili X verði hjá varnaraðila til bráðabirgða en til vara að varnaraðila verði falin forsjá X til bráðabirgða. Þá gerir varnaraðili kröfu um að kveðið verði á um meðlagsskyldu sóknaraðila og um inntak umgengnisréttar til bráðabirgða, hvort heldur er í aðal- eða varakröfu. Þess er óskað að umgengnisréttur verði óbreyttur þannig að barnið verði viku í senn hjá hvorum aðila, frá mánudegi til mánudags.  Komi til þess að varnaraðili fái ekki forsjá drengsins er þess óskað að hann dvelji hjá varnaraðila frá 2. ágúst nk. í fimm vikur samfleytt vegna umgengni yfir sumartímann.

                Krafist er einfalds meðlags sem sé jafn hátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma.

Þá gerir varnaraðili kröfu um málskostnað úr hendi sóknaraðila.

 Málið var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi hinn 25. mars sl.

Málsatvik

Aðilar máls þessa voru í sambúð frá 1994, skráðri sambúð frá 1996 og slitu sambúð hinn [...] 2003 er sóknaraðili flutti af heimilinu. Aðilar eiga saman soninn X fæddan [...] 1998. Síðasta sameiginlegt heimili þeirra var að [...]. Sambúðaslitin voru tekin fyrir hjá sýslumanninum í Reykjavík hinn 26. nóvember 2003 en ekki náðist samkomulag um forsjá barnsins. Fyrir héraðsdómi er rekið ágreiningsmál aðila um forsjá barnsins, sem þingfest var [...] janúar sl. Áður höfðu aðilar gengið frá samkomulagi sín á milli um samvistir drengsins, þannig að hann dvelst nú í viku í senn hjá hvoru foreldri. Eftir samvistarslitin flutti sóknaraðili heim til móður sinnar og stjúpföður að [...], þar sem hún hefur tvö herbergi til afnota fyrir sig og drenginn. Í máli þessu er ágreiningur með aðilum um forsjá barnsins til bráðabirgða, um meðlagsgreiðslur, umgengni og lögheimili.

Málsástæður sóknaraðila

                Sóknaraðili byggir á því að hún hafi aðallega annast barnið og fyrstu æviár þess unnið minna til að ala önn fyrir barninu og um það hafi aðilar verið sammála. Eftir sambúðarslitin hafi varnaraðili hindrað umgengi sóknaraðila við barnið þar til gengið var frá tilhögun um umgegni til bráðabirgða milli aðila mánuði eftir sambúðaslit. Varnaraðili hafi fengið bróður sinn til að búa heima hjá sér um tíma til þess að hann gæti farið með barnið á leikskólann vegna vinnutíma varnaraðila. Þó hafi komið í ljós að varnaraðili hafi skilið barnið eftir eitt í íbúðinni og farið til vinnu.  Óforsvaranlegt sé að skilja fimm ára barn eftir eitt í íbúð.

Varnaraðili sé afar ósáttur við sambúðarslitin og beiti barninu fyrir sig í deilum aðilanna vegna sambúðarslitanna. Varnaraðili geri þær kröfur vegna fjárskipta aðila að til hans falli nánast allar eignir aðila þrátt fyrir að aðilar hafi búið saman í tæp tíu ár og eigi saman íbúð að [...], og bæði hafi unnið úti og aflað tekna. Varnaraðili hafi nú skipt um lás á íbúðinni þrátt fyrir að allir persónulegir munir sóknaraðila séu enn í íbúðinni. 

Sóknaraðili telur að varnaraðili sé ekki í stakk búinn til að annast barnið, hann eigi við alvarlega skapgerðarbresti að stríða og missi oft stjórn á skapi sínu og öskri á heimilisfólkið. Til þess hafi komið kvöldið áður en sóknaraðili fór að heiman að nágrannar hafi sent lögregluna á heimilið vegna hávaða frá íbúðinni. Sóknaraðili segist hafa ákveðið að slíta sambúðinni, sem hafi verið afar erfið bæði fyrir hana og barnið. Sóknaraðili kveður varnaraðila ekki vera í óreglu en að hann eigi við mikla andlega erfiðleika að etja.

Sóknaraðili segir að þegar barnið komi til dvalar hjá sóknaraðila sé það hrætt og óöruggt. Barnið vakni upp á næturnar með martraðir og geti ekki sofið, drengurinn sé mjög óöruggur og hræddur. Sóknaraðili telur að varnaraðili sé ófær um að fara með forsjá barnsins.

Beiðni sóknaraðila um forsjá til bráðabirgða er byggð á 35. gr. laga nr. 76/2003.

Málsástæður varnaraðila

Varnaraðili telur að það fyrirkomulag sem aðilar sömdu um varðandi vikudvöl hjá hvoru foreldri um sig hafi gengið mjög vel, enda ekki langt að fara þar sem sóknaraðili dvelji nú um stundarsakir hjá móður sinni og stjúpföður að [...].

Telur varnaraðili kröfu sóknaraðila um úrskurð um forsjá til bráðabirgða illa ígrundaða og þarflausa og alls ekki þjóna hagsmunum barnsins, heldur hafi sóknaraðili þar hagsmuni sína í fyrirrúmi. Hafi engir þeir samskiptaörðugleikar verið með aðilum sem réttlæti slíka kröfu nú, eða að það samkomulag sem aðilar urðu ásáttir um, sé fellt niður drengnum einum til tjóns að mati varnaraðila.

Varnaraðili mótmælir sem röngu fullyrðingum sóknaraðila um að varnaraðili hafi hindrað að sóknaraðili gæti hitt barn sitt. Þvert á móti hafi varnaraðili reynt að stuðla að eðlilegum samskiptum barnsins við móður sína á þessum breytingartímum. Er sóknaraðili fór fyrirvaralaust af heimilinu, hafi varnaraðili ekki staðið gegn því að barnið færi með móður sinni það sama kvöld. Hafi barnið dvalið hjá sóknaraðila til jafns á við varnaraðila.

Þá sé óskiljanleg fullyrðing sóknaraðila þess efnis að drengurinn hafi verið skilinn einn eftir í íbúð varnaraðila í marga klukkutíma. Vegna vinnutíma varnaraðila hafi hann fengið bróður sinn til að gæta drengsins frá 5.30 fram til 8.30, er hann komi heim til að fara með drenginn í leikskóla. Aldrei hafi drengurinn verið skilinn einn eftir. Þá mótmælir varnaraðili þeim fullyrðingum sem fram koma í beiðni sóknaraðila þess efnis að varnaraðili beiti drengnum fyrir sig í forsjárdeilu aðilanna. Vissulega hafi sambúðarslitin tekið verulega á varnaraðila og hafi hann í því efni haft verulegar áhyggjur af drengnum. Þær áhyggjur hafi sóknaraðili kosið að túlka svo að varnaraðili sé ekki í stakk búinn til að annast barnið og jafnvel talið hann eiga við andleg veikindi að stríða. Varnaraðili telur að hann sé fullkomlega fær að annast um barnið líkt og áður og hafi t.d. gengið frá skólaskráningu drengsins.

Varnaraðili telur aftur á móti sóknaraðila vart geta annast barnið eins og aðstæðum og ástandi hennar sé háttað í dag. Sóknaraðili hafi flutt fyrirvaralaust út af heimilinu án þess að gera nokkrar ráðstafanir varðandi barnið og búi enn hjá móður sinni, þar sem hún hafi til afnota tvö lítil herbergi. Ljóst sé að hagsmunir barnsins krefjast þess nú að sem minnst röskun verði gerð á högum þess og það geti þá dvalið áfram á þeim stað sem hefur verið heimili þess undanfarið.

Sóknaraðili hafi kosið að byggja kröfu sína um forsjá til bráðabirgða á staðhæfulausum fullyrðingum um illt innræti varnaraðila og vegna aðgerða hans sé drengnum búinn bráður háski, án þess að leiða fram nokkrar sannanir. Varnaraðili telur aftur á móti að hagsmunum barnsins sé best borgið með því að hafnað verið kröfu sóknaraðila og báðir foreldrar fari með forsjána meðan forsjármálið sé rekið fyrir dómstólum. Telur varnaraðili það samskiptamunstur sem komist hafi á eftir sambúðarslitin barninu fyrir bestu, og að ekki verði hróflað við því, en dómari geti ákveðið að barn skuli búa hjá foreldrum sínum á víxl, svo sem það hafi gert. Hafi sóknaraðili ekki fært nein viðhlítandi rök fyrir kröfu sinni.

Niðurstaða

Aðilar máls þessa hafa sameiginlega farið með forsjá sonar síns, X, samkvæmt 1. mgr. 29. gr. barnalaga nr. 76/2003.  Við sambúðarslit þeirra tókst ekki samkomulag um forsjá barnsins og krafðist hvort þeirra um sig að fara með forsjána.

Sérstakt ágreiningsmál um forsjá er rekið milli aðila þar sem leitað verður sérfræðiálits um forsjárhæfi þeirra.  Í máli þessu liggur ekki annað fyrir, að svo komnu, en aðilar séu báðir færir um að annast son sinn og fara með forsjá hans.  Samkvæmt því og með vísan til 2. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 þykja ekki næg efni vera til, meðan forsjármál aðila er til meðferðar fyrir dómi, að fella niður sameiginlega forsjá þeirra. Kröfum aðila, hvors um sig, um forsjá sonar síns, X, til bráðabirgða er því hafnað.

Aðilar búa í sama hverfi í [...]. Varnaraðili býr að [...], sem var síðasta sameiginlegt heimili aðila, en sóknaraðili býr nú hjá móður sinni og stjúpföður að [...], og hefur þar tvö herbergi til afnota fyrir sig og barnið. 

Aðila greinir á um það hvort það fyrirkomulag, sem samið var um varðandi umgengni, að barnið sé viku í senn hjá hvorum aðila, sé heppilegt. Varnaraðili telur það fyrirkomulag hafa gengið mjög vel, en sóknaraðili segir að þegar barnið komi til dvalar hjá sér sé það hrætt og óöruggt. Barnið vakni upp á næturnar með martraðir og geti ekki sofið. Verður því að telja að óvíst sé að búseta hjá foreldum til skiptis, með þeim hætti sem verið hefur, sé heppileg fyrir barnið. 

Þegar litið er til ungs aldurs drengsins og þess að sóknaraðili hefur á sambúðartíma annast drenginn mun meira en varnaraðili verður að telja að tengsl barns séu meiri við sóknaraðila en varnaraðila og beri því með vísan til 2. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 að ákveða að barnið skuli eiga lögheimili hjá sóknaraðila, enda verður ekki talið að heimilisaðstæður sóknaraðila séu því til fyrirstöðu. Verður þá einnig fallist á þá kröfu sóknaraðila að varnaraðili skuli greiða meðlag með barninu frá uppkvaðningu úrskurðar þessa sem sé jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma.  Þá verður einnig fallist á þá kröfu sóknaraðila að umgengni varnaraðila við barnið framvegis skuli verða aðra hverja helgi frá fimmtudegi eftir leikskóla/skóla til mánudagsmorguns.  Fallist er á kröfu varnaraðila um rétt á umgengni við drenginn yfir sumartímann þannig að hann dvelji hjá honum frá 2. ágúst nk. í fjórar vikur samfleytt.

Rétt þykir að ákvörðun málskostnaður bíði dóms í forsjármáli aðila, þar sem ekki verður ráðið af framlögðu gjafsóknarleyfi að sóknaraðili hafi gjafsókn við rekstur þessa máls.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Kröfum aðila, hvors um sig, um að fá forsjá sonar síns, X, til bráðabirgða, er hafnað. 

X skal eiga lögheimili hjá sóknaraðila, K.

Varnaraðili, M, skal greiða meðlag með barninu frá uppkvaðningu úrskurðar þessa sem sé jafnhátt og barnalífeyrir frá Tryggingastofnun ríkisins á hverjum tíma. 

Umgengni varnaraðila við barnið skal framvegis verða aðra hverja helgi frá fimmtudegi eftir leikskóla/skóla til mánudagsmorguns. Varnaraðili á rétt á því að barnið dvelji hjá honum frá 2. ágúst nk. í fjórar vikur samfleytt vegna umgengni yfir sumartímann.

Ákvörðun málskostnaðar bíður dóms í forsjármáli aðila.