Hæstiréttur íslands
Mál nr. 41/2010
Lykilorð
- Líkamsárás
- Skilorð
- Miskabætur
|
|
Fimmtudaginn 28. október 2010. |
|
Nr. 41/2010. |
Ákæruvaldið (Sigríður Elsa Kjartansdóttir settur vararíkissaksóknari) gegn Janusz Birkos (Kristján Stefánsson hrl.) (Sigurður Sigurjónsson hrl. f.h. brotaþola) |
Líkamsárás. Skilorð. Miskabætur.
J var sakfelldur fyrir brot gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga með því að hafa slegið A í höfuðið með glerflösku og valdið honum nánar tilgreindum áverkum. Í dómi Hæstaréttar segir meðal annars að ekkert slíkt misræmi væri í framburði vitna í skýrslum hjá lögreglu og fyrir dómi að einhverju varðaði um mat á því hver hefðu verið atvik málsins, enda hefði J ekki neitað sök í málinu. Þá leiddi ákvæði 75. gr. almennra hegningarlaga ekki til refsilækkunar fyrir J þótt hann hefði af misskilningi talið sig vera að jafna sakir við brotaþola eftir að hann hefði sjálfur verið sleginn með flösku í höfuðið, enda hefði brotaþoli ekki átt hlut að þeim átökum. Því yrði ákvörðun héraðsdóms um refsingu staðfest.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 5. janúar 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvalds er krafist staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms.
Ákærði krefst aðallega ómerkingar hins áfrýjaða dóms en til vara sýknu af kröfum ákæruvalds. Að því frágengnu krefst hann þess að honum verði ekki gerð refsing eða að refsing verði lækkuð og bundin skilorði. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu A verði vísað frá dómi, en til vara að bætur verði lækkaðar.
A krafðist í greinargerð til Hæstaréttar skaðabóta að fjárhæð 658.500 krónur auk vaxta samkvæmt 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 7. september 2008 til 20. maí 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags. Þá krafðist hann lögmannsþóknunar vegna starfa við meðferð málsins fyrir Hæstarétti. Í bréfi til réttarins 20. október 2010 tilkynnti lögmaður brotaþola að þess væri einungis krafist að hinn áfrýjaði dómur væri staðfestur um ákvörðun skaðabóta og að brotaþoli myndi að öðru leyti ekki láta málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
Atvik málsins áttu sér stað á skemmtistaðnum Nasa í Reykjavík að morgni 7. september 2008. Þeim er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Ákærði, sem dyraverðir höfðu í tökum fyrir utan skemmtistaðinn, var handtekinn og færður á slysadeild vegna skurðar á höfði. Brotaþoli, A, var einnig fluttur á slysadeild til meðferðar á skurðsári á höfði. Lögreglumaður sem kom á vettvang til að sinna málinu ræddi við nokkur vitni um málsatvik og tók niður nöfn þeirra. Hann gerði skýrslu um atvik málsins þar sem vitni eru einnig tilgreind, sbr. 1. mgr. 60. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Skýrsluna staðfesti lögreglumaðurinn fyrir dómi við aðalmeðferð málsins. Lögregla tók við rannsókn málsins skýrslu af ákærða og tveimur vitnum, en brotaþoli hafði gefið skýrslu hjá lögreglu er hann kærði árás á sig, sbr. 1. og 2. mgr. 61. gr. laga nr. 88/2008. Við aðalmeðferð málsins 6. nóvember 2009 gaf ákærði skýrslu svo og sex vitni að meðtöldum brotaþola og framangreindum lögreglumanni. Ekkert slíkt misræmi er í framburði vitna í skýrslum hjá lögreglu og fyrir dómi að einhverju varði um mat á því hver hafi verið atvik málsins, enda ber ákærði ekki á móti því að hafa slegið brotaþola í höfuðið með glerflösku og valdið þeim áverkum, sem brotaþoli hlaut umrætt sinn. Er ekkert tilefni til að ómerkja héraðsdóminn.
Verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um sakfellingu ákærða. Ákvörðun héraðsdóms um refsingu verður staðfest, enda leiðir það ekki til refsilækkunar fyrir ákærða, eins og hann gerir kröfu um með vísan til 75. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þótt hann hafi af misskilningi talið sig vera að jafna sakir við brotaþola eftir að hafa sjálfur verið sleginn með flösku í höfuðið í átökum. Brotaþoli átti engan hlut að þeim átökum.
Ákvæði héraðsdóms um skaðabætur og vexti til handa brotaþola og um sakarkostnað skulu vera óröskuð.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, sem ákveðst að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Ákærði, Janusz Birkos, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 266.380 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. nóvember 2009.
Mál þetta, sem dómtekið var 6. nóvember sl., er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 14. ágúst 2009 á hendur Janusz Birkos, kennitala 150880-2469, Stórholti 23, Reykjavík, fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa, aðfaranótt sunnudagsins 7. september 2008, á skemmtistaðnum Nasa, Austurvelli, Reykjavík, slegið A í höfuðið með glerflösku, með þeim afleiðingum að hann hlaut skurð ofan við hársvarðarlínu vinstra megin, sem sauma þurfti með sex sporum.
Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.
Af hálfu A, kennitala [...], er krafist miskabóta, greiðslu útlagðs kostnaðar og lögmannskostnaðar, samtals að fjárhæð 658.500 krónur, auk vaxta samkvæmt 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfu og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga. Auk þess er gerður áskilnaður um rétt til þess að koma að frekari kröfum um bætur samkvæmt skaðabótalögum nr. 50/1993.
Verjandi ákærða krefst þess aðallega að ákærði verði sýknaður af ákæru, en til vara að honum verði dæmd vægasta refsing sem lög leyfa. Þá er þess krafist að bótakröfu verði vísað frá dómi, en til vara að sýknað verði af bótakröfu. Loks krefst verjandi hæfilegra málsvarnarlauna að mati dómsins.
Málsatvik
Samkvæmt skýrslu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu frá aðfaranótt sunnudagsins 7. september 2008, sem miðar við tilkynningu til lögreglu klukkan 5:00, var óskað eftir lögreglu að skemmtistaðnum Nasa við Austurvöll, vegna slagsmála. Þegar lögreglumenn komu á vettvang sáu þeir hvar dyraverðir héldu ákærða niðri utan við skemmtistaðinn. Var ákærði blóðugur í framan og mjög æstur. A gaf sig á tal við lögreglumenn á vettvangi. Hann var með skurð á enni og nokkuð blóðugur. Sagðist A hafa verið inni á Nasa að skemmta sér þegar hann hefði séð hvar ákærði var sleginn í höfuðið með flösku. Hefði hann „farið á milli“ til þess að stilla til friðar, en þá hefði ákærði tekið tvær flöskur og slegið hann með þeim báðum. Hefðu dyraverðir komið og skakkað leikinn. Rætt var við B sem sagðist hafa séð slagsmál milli tveggja manna sem hann taldi vera Pólverja. Hefði annar mannanna slegið ákærða í höfuðið með flösku og ákærði fallið við það í gólfið. Hefði ákærði risið upp með tvær flöskur, sína í hvorri hendinni, og slegið A í höfuðið, en A hefði ætlað að ganga á milli mannanna. C, dyravörður á skemmtistaðnum, lýsti atvikum með svipuðum hætti og B. Ákærði var fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Sagðist hann hafa verið sleginn með flösku í höfuðið. Samkvæmt skýrslum lögreglu reyndust aðrir sem rætt var við á vettvangi ekki hafa verið vitni að atvikum.
Föstudaginn 26. september 2008 mætti A á lögreglustöð og lagði fram kæru vegna líkamsárásar sem hann hefði orðið fyrir í umrætt sinn. Sagðist hann hafa verið að skemmta sér á Nasa og verið á dansgólfinu þegar hann hefði séð mann sleginn þar í höfuðið með glerflösku. Hefði sá sem sleginn var vikið sér frá í augnablik, en snúið til baka með tvær bjórflöskur úr gleri, sína í hvorri hendinni. Hefði hann greinilega ætlað að ráðast á þann sem hafði slegið hann áður. A sagðist hafa ætlað að stilla til friðar, en maðurinn hefði þá slegið hann í höfuðið með annarri flöskunni. Hefðu dyraverðir fjarlægt manninn í framhaldi af þessu. Sagðist A hafa heyrt að maðurinn talaði pólsku. Hefði þetta verið sá maður sem lögregla hafði afskipti af og var fluttur af vettvangi í sjúkrabifreið.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu 5. febrúar 2009. Sagðist hann hafa verið sleginn í höfuðið með flösku fyrir utan skemmtistaðinn. Hefði hann vankast við þetta og myndi ekki hvað gerðist í kjölfarið. Hann vissi ekki hver hefði slegið hann og myndi ekki eftir því að hafa sjálfur beitt glerflösku gagnvart einhverjum. Hann hefði þó heyrt það frá félaga sínum að hann hefði slegið einhvern með flösku og hefði hann því ekki kært til lögreglu líkamsárásina sem hann hefði orðið fyrir í umrætt sinn.
Meðal rannsóknargagna málsins er læknisvottorð Steingerðar A. Gunnarsdóttur, sérfræðings á slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, dagsett 6. nóvember 2008, þar sem kemur fram að A hafi leitað á slysadeild um klukkan 5:30 að morgni 7. september 2008. Hefði hann sagst hafa verið vitni að slagsmálum á skemmtistaðnum Nasa og reynt að stilla til friðar, en þá verið sleginn með flösku sem brotnaði. Hann hefði verið með skurð á höfði vinstra megin við miðlínu, rétt ofan við hársvarðarlínu. Hefðu verið hreinsuð sex glerbrot úr sárinu og það saumað með sex sporum.
Þá liggur fyrir annað læknisvottorð Steingerðar A. Gunnarsdóttur, dagsett 5. nóvember 2009, vegna ákærða. Kemur fram að ákærði hafi komið á slysa- og bráðadeild þann 7. september 2009 (svo) um klukkan 5:30. Hefði hann sagst hafa verið sleginn með glasi í höfuðið utan við skemmtistaðinn Nasa og hefði hann verið einn á móti fimm árásarmönnum. Hann hefði verið með 5 sentímetra langan skurð framan á enninu og 1 sentímetra langt sár á fingri. Hefði sárið á enninu verið saumað með níu sporum, en sárið á fingri með tveimur sporum.
Einnig liggur fyrir vottorð Stefáns Halls Jónssonar tannlæknis, dagsett 5. október 2009, þar sem kemur fram að þann dag hafi hann skoðað ákærða og hefði verið brotið úr annarri miðframtönn og greinilegar sprungur í glerungi hinnar.
Við aðalmeðferð málsins greindi ákærði svo frá að hann myndi eftir því að hafa verið utan við skemmtistaðinn í umrætt sinn og að þar hefði verið hópur fólks. Næst myndi hann eftir sér þegar hann rankaði við sér í sjúkrabifreið. Hann hefði ekki verið verulega ölvaður þegar þetta var. Hann sagðist ekki hafa lent í útistöðum inni á skemmtistaðnum. Spurður um það sem haft var eftir honum í lögregluskýrslu að hann hefði verið sleginn í höfuðið með glerflösku utan við skemmtistaðinn sagðist ákærði ekki muna eftir þessu og útilokaði ekki að hann hefði haft þessa lýsingu eftir einhverjum öðrum. Þá sagðist ákærði hafa heyrt það hjá einhverjum að hann hefði verið sleginn með flösku og svarað fyrir sig með því að slá til baka með glerflösku. Hann myndi ekki eftir þessu sjálfur.
A sagðist hafa verið á dansgólfinu og séð hvar ákærði lá á gólfinu. Hefði ákærði risið upp með tvær glerflöskur í höndum og slegið hann í höfuðið með annarri þeirra. Hefði hann þá tekið ákærða tökum og haldið honum í gólfinu þar til dyraverðir komu og færðu hann út úr danssalnum. A sagðist ekki muna eftir að hafa séð ákærða sleginn með flösku áður en þetta gerðist. Þá kannaðist hann ekki við að hafa ætlað að stilla til friðar á milli manna sem voru í átökum.
B sagðist hafa staðið á palli í salnum þegar hann sá hvar ryskingar upphófust á milli manna skammt frá honum. Hefði ákærði átt þar í hlut og hefði hann verið sleginn með flösku í höfuðið. Brotaþoli hefði þá komið að og sýndist honum sem hann hefði verið að athuga líðan ákærða, sem hefði beygt sig niður á hnén og grúft andlit í höndum sér. Hefði ákærði þá risið upp og haft tvær flöskur í höndum, sem vitnið minnti að ákærði hefði tekið upp af gólfinu. Hefði hann slegið brotaþola með annarri flöskunni og reynt að slá hann með hinni. Dyravörður hefði komið aðvífandi og reynt að halda ákærða frá brotaþola. Hefðu fleiri dyraverðir komið að og dregið ákærða í burtu, en hann hefði veitt mikla mótspyrnu. Ákærði hefði verið í átökum við einhverja menn áður en þetta gerðist, en brotaþoli hefði ekki verið þar á meðal. Sýndist vitninu sem verið væri að ráðast að ákærða. Þetta hefði gerst í þvögu og hann ekki séð upptök átakanna, en einhverjar hrindingar hefðu átt sér stað og síðan hefði ákærði verið sleginn í höfuðið.
C sagðist hafa verið að vinna sem dyravörður þetta kvöld. Hefði hann séð hvar tveir menn voru að slást. Hefði hann þrifið annan þeirra ofan af hinum, en sá sem hafði verið undir hefði viljað halda slagsmálunum áfram. Hann hefði verið dreginn út úr húsinu og hefðu fleiri dyraverðir komið að því. Hefði manninum verið haldið þar til lögregla kom á vettvang og leiddi hann á brott. Báðir mennirnir hefðu verið með skurð á höfði og hefði blætt mikið.
Vitnið Hallgrímur Hallgrímsson lögreglumaður kom fyrir dóminn og staðfesti frumskýrslu sem hann ritaði um málið. Þá komu vitnin Steingerður A. Gunnarsdóttir og Stefán Hallur Jónsson fyrir dóminn og staðfestu læknisvottorð sín. Ekki er ástæða til að rekja framburð vitnanna.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök og segist ekki muna eftir því að hafa slegið A eins og lýst er í ákæru. Sagðist ákærði hafa heyrt það hjá öðrum að hann hefði verið sleginn með flösku inni á skemmtistaðnum og svarað fyrir sig með því að slá til baka með glerflösku, en hann myndi ekki eftir þessu sjálfur.
A hefur borið að ákærði hafi risið upp frá gólfinu með tvær glerflöskur í höndum og slegið hann í höfuðið með annarri flöskunni. Hafi hann tekið ákærða tökum og haldið honum uns dyraverði bar að sem færðu ákærða í burtu. B lýsti atvikum að þessu leyti með sama hætti og A. Sagðist hann hafa séð að ákærði átti í ryskingum við einhverja menn áður en þetta gerðist. Hefði ákærði verið sleginn í höfuðið með flösku og fallið við það í gólfið. C, sem var við dyravörslu þetta kvöld, sagðist hafa komið að þar sem tveir menn voru að slást og lágu í gólfinu. Hefði sá sem var undir viljað halda slagsmálum áfram, en dyraverðir dregið hann út úr húsinu þar sem honum var haldið uns lögregla kom á vettvang. Með framburði framangreindra vitna verður að telja sannað að ákærði hafi slegið A í höfuðið með glerflösku eins og í ákæru greinir, með þeim afleiðingum sem í ákæru getur og lýst er í áverkavottorði. Í ljósi þess að ákærði beitti glerflösku sem vopni var árásin sérstaklega hættuleg. Verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Refsing, skaðabætur og sakarkostnaður
Ákærði er fæddur í ágúst 1980 og hefur hann ekki sætt refsingu svo að vitað sé. Með hliðsjón af sakarefni málsins þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
A hefur krafist skaðabóta úr hendi ákærða að fjárhæð 658.500 krónur með virðisaukaskatti auk vaxta. Er krafan sundurliðuð þannig:
|
1. Miskabætur |
500.000 krónur |
|
2. Útlagður kostnaður |
9.100 krónur |
|
3. Málskostnaður vegna lögmanns að viðbættum virðisaukaskatti |
149.400 krónur |
A hlaut talsverða áverka af atlögu ákærða eins og lýst er í læknisvottorði. Þykja miskabætur hæfilega ákveðnar 200.000 krónur. Krafa um útlagðan kostnað vegna læknismeðferðar er studd viðhlítandi gögnum og verður dæmd eins og hún er fram sett. Þá á brotaþoli rétt á bótum vegna kostnaðar við að halda fram bótakröfu sinni svo sem krafist er. Verður ákærði dæmdur til að greiða A skaðabætur að fjárhæð 358.500 krónur sem beri vexti sem í dómsorði greinir.
Dæma ber ákærða til að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 65.200 krónur í annan sakarkostnað.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Margrét Unnur Rögnvaldsdóttir, fulltrúi ríkissaksóknara.
Ragnheiður Harðardóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.
Dómsorð:
Ákærði, Janusz Birkos, sæti fangelsi í 6 mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Ákærði greiði A skaðabætur að fjárhæð 358.500 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 7. september 2008 til 16. október 2009, en með dráttarvöxtum samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 242.500 krónur í sakarkostnað, þar með talið málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Kristjáns Stefánssonar hæstaréttarlögmanns, 180.000 krónur.