Hæstiréttur íslands

Mál nr. 525/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Frestur
  • Kæruheimild


Dómsatkvæði

                                      

Þriðjudaginn 5. ágúst 2014.

Nr. 525/2014.

K

(Valborg Þ. Snævarr hrl.)

gegn

M

(Einar Hugi Bjarnason hrl.)

Kærumál. Frestur. Kæruheimild.

Í forsjármáli, sem K höfðaði gegn M, gerði hún meðal annars kröfu um forsjá barnsins A, meðlagsgreiðslur og að dæmt yrði um umgengni barnsins. Þá gerði hún kröfu um að sér yrði falin forsjá A til bráðabirgða meðan á rekstri málsins stæði. M tók til varna en hafði í greinargerð sinni í héraði eingöngu uppi málsástæður vegna kröfu K um bráðabirgðaforsjá. Í þinghaldi í héraði krafðist K þess að hafnað yrði beiðni M um frekari frest til að leggja fram greinargerð vegna annarra krafna K og krafðist þess að málið yrði dómtekið. Í úrskurði héraðsdóms kom fram að telja yrði M heimilt að bregðast sérstaklega við kröfu um forsjá til bráðabirgða, en gefa honum óháð því tóm til að rita greinargerð og afla gagna vegna annarra krafna K. Væri því ekki unnt að fallast á kröfu K um dómtöku málsins, heldur veita M frest til að leggja fram greinargerð af sinni hálfu. Í dómi Hæstaréttar kom fram að úrskurður héraðsdóms sætti kæru til Hæstaréttar á grundvelli h. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að því er varðaði kröfu K um að M yrði synjað um frest til framlagningar greinargerðar, en heimild brysti til að kærða ákvæði úrskurðarins um að hafna kröfu K um dómtöku málsins. Var niðurstaða hins kærða úrskurðar að öðru leyti staðfest. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. júlí 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra 11. júlí 2014, þar sem hafnað var andmælum sóknaraðila gegn því að varnaraðila yrði veittur frestur í máli hennar á hendur honum, svo og kröfu hennar um að málið yrði dómtekið. Um kæruheimild vísar sóknaraðili til h. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Hún krefst þess að varnaraðila verði synjað um frest til að leggja fram greinargerð í málinu og að það verði dómtekið. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Úrskurður héraðsdóms í málinu sætir kæru til Hæstaréttar á grundvelli fyrrnefnds h. liðar 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 að því er varðar kröfu sóknaraðila um að varnaraðila verði synjað um frest, en heimild brestur til að kæra ákvæði úrskurðarins um að hafna kröfu hennar um dómtöku málsins. Að því gættu verður hinn kærði úrskurður staðfestur með vísan til forsendna hans.

Rétt er að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Norðurlands eystra föstudaginn 11. júlí 2014.

Mál þetta höfðar stefnandi til að fá sér dæmda forsjá barns þeirra stefnda, auk þess sem gerðar eru kröfur um að dæmt verði um umgengni, meðlag og málskostnað.

Þá er í stefnu krafist að stefnandi fái ein forsjá barnsins til bráðabirgða meðan á rekstri málsins stendur.

Stefndi lagði fram greinargerð, þar sem eingöngu eru hafðar uppi kröfur og málsástæður vegna síðastgreindu kröfunnar. Kveðst stefndi hafa miðað við að hann fengi frekari frest til að leggja fram greinargerð vegna annarra krafna stefnanda. Ekkert var sérstaklega skráð í þingbók um þetta atriði, en málinu úthlutað til dómara, sem boðaði þetta þinghald til að fjalla um kröfu um forsjá til bráðabirgða. Kom þá fram krafa af hálfu stefnanda um að málið yrði dómtekið, þar sem ekki væri haldið uppi efnislegum vörnum og því þýðingarlaust að fjalla um forsjá til bráðabirgða.

Dómurinn lítur svo á að eðli máls samkvæmt verði að telja stefnda heimilt að bregðast sérstaklega við kröfu um forsjá til bráðabirgða, en gefa honum óháð því tóm til að rita greinargerð og afla gagna vegna annarra krafna í málinu. Samkvæmt því þykir ekki unnt að fallast á kröfu stefnanda um dómtöku málsins, heldur verða að veita stefnda frest til að leggja fram greinargerð af sinni hálfu, eins og hann fer fram á.

Úrskurðinn kveður upp Erlingur Sigtryggsson héraðsdómari.

ÚRSKURÐARORÐ:

Kröfu stefnanda, K, um að mál þetta verði dómtekið, er hafnað.

Stefnda, M, verður veittur frestur til að leggja fram greinargerð af sinni hálfu.