Hæstiréttur íslands
Mál nr. 162/2013
Lykilorð
- Eignardómsmál
- Eignarréttur
- Hefð
|
|
Fimmtudaginn 12. september 2013. |
|
Nr. 162/2013.
|
Dánarbú Helga Jónssonar (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn íslenska ríkinu (Eyvindur Sólnes hrl.) |
Eignardómsmál. Eignarréttur. Hefð.
Í höfðaði mál gegn db. H og krafðist þess að viðurkenndur yrði eignarréttur Í að tilteknu flugskýli á Reykjavíkurflugvelli. Þótti sannað að flugmálayfirvöld hefðu látið reisa flugskýlið og farið með eignarráð þess í upphafi og síðan heimilað F hf. endurgjaldslaus afnot af skýlinu. Hefði F hf. síðar framselt afnotarétt sinn til H. Einnig var ljóst að H, og þeir sem bærir voru til að binda hann að lögum, höfðu á árunum frá 1969 til 1997 byggt á því að Í nyti eignarréttar að flugskýlinu. Grunnrök að baki 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð stóðu því í vegi að H hefði getað unnið hefð yfir skýlinu. Var því viðurkenndur eignarréttur Í að flugskýlinu.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. mars 2013. Hann krefst sýknu af kröfu stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Mál þetta höfðaði stefndi sem eignardómsmál og krafðist þess að viðurkenndur yrði eignarréttur sinn að flugskýli 7 með fasteignamatsnúmer 202-9310-25-0101, sem stendur á Reykjavíkurflugvelli landnúmer 106748. Áfrýjandi tók til varna og krafðist þess að dómkröfu stefnda yrði hafnað.
Málvextir eru þeir að á fundi Flugráðs 11. júní 1951 var undir dagskrárlið, er varðaði Vestmannaeyjaflugvöll, bókað að samþykkt væri að láta rífa flugskýi er þar væri og flytja til Reykjavíkur. Í skýrslu sinni fyrir héraðsdómi kvað vitnið Karl Eiríksson að skýli þetta hafi Flugmálastjórn látið rífa, flytja til Reykjavíkur og setja þar upp árið 1953. Væri þetta flugskýli 7 á Reykjavíkurflugvelli. Hafi hann á þessum tíma verið einn eiganda og forsvarsmaður Flugskólans Þyts hf. Hafi eigendur flugskólans rennt hýru auga til þess að fá aðstöðu í skýlinu og aðstoðað við uppsetningu þess. Hafi Flugmálstjórn fengið flugskólanum endurgjaldslaus afnot skýlisins, en sér hafi aldrei til hugar komið að flugskólinn hefði eignast skýlið.
Með kaupsamningi 19. maí 1969 seldi Flugskólinn Þytur hf. Helga Jónssyni „aðstöðu seljanda á Reykjavíkurflugvelli, það er að segja húsnæði flugskólans á Reykjavíkurflugvelli, ásamt afnotum af flugskýli, sem er í eigu Flugmálastjórnarinnar, svo og rétt til afnota af benzíntanki í eigu Olíufélagsins h.f.“ Kaupsamningur þessi var móttekinn til þinglýsingar 28. mars 1972. Í afsali flugskólans 2. maí 1973 til Helga vegna kaupanna, var hliðstætt ákvæði en þar var tilgreint að kaupunum fylgdi „Aðstaða í flugskýli og afnotaréttur af benzíntanki, eða m.ö.o. húsnæði sem flugskólinn Þytur hf. hafði á Reykjavíkurflugvelli og afnot af flugskýli í eigu Flugmálastjórnar og rétt til afnota af benzíntanki í eigu Olíufél. hf.“ Afsalið var móttekið til þinglýsingar 7. maí 1973 að því er helst verður ráðið. Óumdeilt er að flugskýli það, sem til er vitnað í skjölum þessum, er flugskýli 7 sem mál þetta snýst um.
Samkvæmt matsvottorði Þjóðskrár Íslands 24. janúar 2011 er flugskýlið skráð í eigu ríkissjóðs Íslands. Íslenska ríkið eða stofnanir þess hafa verið skráðir eigendur skýlisins í öllum þeim opinberu gögnum um fasteignaskráningu sem lögð hafa verið fram í málinu. Elsta heimildin er fasteignamat 1972, en fram kemur í tölvubréfi Þjóðskrár Íslands 21. maí 2012 að þar hafi skýlið verið skráð eign Flugmálastjórnar. Þá er ljóst af gögnum málsins að flugskýlið stendur á landi í eigu ríkisins.
Með samningi 1. nóvember 1992 tók skiptastjóri flugskýlið á leigu fyrir hönd þrotabús Helga Jónssonar en leigusali var Flugmálastjórn. Samningurinn var tímabundinn frá 1. nóvember 1992 og þar til flugvélar sem geymdar væru í skýlinu hefðu verið seldar, en leigugjaldið var ákveðið 45.000 krónur á mánuði. Ekki liggja fyrir gögn í málinu um með hvaða hætti skiptum lauk en áfrýjandi heldur því fram að Helgi hafi fengið „bú sitt afhent að nýju úr hendi skiptastjóra“ og hafi ekki orðið um frekari leigugreiðslur samkvæmt samningnum eftir það.
Með bréfi til flugmálastjóra 31. október 1994 óskaði Helgi Jónsson fyrir hönd Flugfélagsins Óðins hf. eftir að kaupa flugskýlið. Erindi þetta ítrekaði hann með bréfi 30. nóvember 1994. Flugmálastjórn hafnaði erindinu með bréfi 21. febrúar 1995 þar sem tekið var fram að stofnunin hefði ekki hug á að selja neina af fasteignum sínum á Reykjavíkurflugvelli í náinni framtíð.
Af samanburði á gögnum úr bókhaldi Flugmálastjórnar og gögnum útibús Landsbanka Íslands hf. svo og framburði Áslaugar Guðrúnar Aðalsteinsdóttur þáverandi gjaldkera Flugmálastjórnar fyrir héraðsdómi er ljóst að Helgi Jónsson greiddi leigugjald af skýlinu til Flugmálastjórnar á árunum 1996 og 1997.
II
Með framangreindri bókun á fundi Flugráðs 11. júní 1951 og framburði Karls Eiríkssonar fyrir héraðsdómi er sannað að flugmálayfirvöld létu flytja flugskýli það sem síðar var nefnt flugskýli 7 frá Vestmannaeyjum og létu reisa það á Reykjavíkurflugvelli. Þá er sannað að flugmálayfirvöld fóru með eignarráð þess í upphafi, sem þau ráðstöfuðu með þeim hætti að heimila Flugskólanum Þyt hf. endurgjaldslaus afnot skýlisins. Með framangreindum kaupsamningi 1969 og afsali 1973 framseldi flugskólinn þann rétt er hann hafði til skýlisins til Helga Jónssonar og er berlega tekið fram í báðum þessum skjölum að framseldur sé afnotaréttur en eigandi skýlisins sé Flugmálastjórn. Af þessu og öðrum þeim gögnum, sem að framan eru rakin um leigugreiðslur og óskir um kaup á skýlinu á árunum 1992 til 1997, er ljóst að á því hefur verið byggt af hálfu Helga Jónssonar og þeirra sem bærir voru til að binda hann að lögum á árunum 1969 til 1997 að stefndi nyti eignarréttar að flugskýlinu. Með öllu framangreindu telst sannað að stefndi sé eigandi flugskýlisins.
Áfrýjandi reisir kröfu sína einnig að því að þar sem hann hafi eftir 1969 haft óslitið eignarhald á flugskýlinu í meira en 20 ár hafi hann öðlast eignarrétt að því fyrir hefð. Af öllu því sem að framan er rakið verður að álykta að áfrýjandi hafi í upphafi ekki haft ástæðu til að ætla annað en að hann hefði umráð umrædds flugskýlis einungis þar til annað yrði ákveðið og eingöngu fyrir greiðasemi stefnda enda kom ekkert endurgjald fyrir notin fram til 1992. Í þessu ljósi standa grunnrök að baki ákvæði 3. mgr. 2. gr. laga nr. 46/1905 um hefð því í vegi að sóknaraðili hafi á þessu tímabili getað unnið hefð yfir skýlinu, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins 17. desember 1998 í máli 474/1998, sem birtur er á bls. 4500 í dómasafni það ár. Af því sem að framan segir um samskipti aðila er og ljóst að hugrænum skilyrðum hefðar er heldur ekki fullnægt eftir 1992. Samkvæmt öllu framansögðu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefnda kostnað af meðferð málsins fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er óraskaður.
Áfrýjandi, dánarbú Helga Jónssonar, greiði stefnda, íslenska ríkinu, 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. desember 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var mánudaginn 10. desember sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Ríkissjóði Íslands, kt. 540269-6459, Arnarhváli, Reykjavík, með opinberri stefnu, útgefinni 12. desember 2011 af dómstjóranum í Reykjavík, og birtri í Lögbirtingablaði fimmtudaginn 5. janúar 2012 á hendur hverjum þeim, sem telur til réttar yfir flugskýli 7 á Reykjavíkurflugvelli.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að viðurkenndur verður eignarréttur stefnanda að flugskýli 7 með fasteignamatsnúmer 202-9310-25-0101, sem stendur á Reykjavíkurflugvelli landnúmer 106748. Þá krefst stefnandi málskostnaðar að skaðlausu að mati dómsins, auk virðisaukaskatts, en stefnandi hefur ekki frádráttarrétt á móti virðisaukaskatti, sem hann þarf að greiða af málskostnaði.
Dómkröfur stefnda, db. Helga Jónssonar, eru þær, að dómkröfum stefnanda verði hafnað. Þá gerir stefndi kröfu um málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
II
Málavextir
Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu, að umrætt skýli muni hafa verið reist á Reykjavíkurflugvelli árið 1953, en það hafi áður verið staðsett á flugvellinum í Vestmannaeyjum. Samkvæmt afriti af fundargerð Flugráðs, sem fram fór þann 11. júní 1951, komi fram, að samþykkt hafi verið að láta rífa og flytja flugskýlið, sem þá hafi verið á Vestmannaeyjaflugvelli, til Reykjavíkur. Flugskólinn Þytur muni síðan hafa fengið skýlið til afnota það sama ár.
Samkvæmt kaupsamningi, dags. 19. maí 1969, milli Flugskólans Þyts hf. og Helga Jónssonar, hafi verið tekið fram, að kaupandi, Helgi Jónsson, fengi afnot af flugskýli, í eigu Flugmálastjórnar. Í afsali, dags. 2. maí 1973, sem gert hafi verið á grundvelli þessa kaupsamnings og vísi til hans, komi aftur fram í tölulið 6, að afsalshafi fái afnot af flugskýli í eigu Flugmálastjórnar. Sé óumdeilt, að flugskýli það, sem rætt sé um í þessum skjölum, sé flugskýli 7.
Þann 1. nóvember 1992 hafi verið gerður leigusamningur milli þrotabús Helga Jónssonar og Flugmálastjórnar um tímabundna leigu þrotabúsins á flugskýli 7.
Þann 31. október 1994 hafi Helgi Jónsson, f.h. Óðins hf., ritað bréf til Flugmálastjórnar Íslands, þar sem hann hafi óskað eftir að kaupa flugskýli nr. 7 á Reykjavíkurflugvelli. Hafi sú ósk verið ítrekuð með bréfi, dags. 30. nóvember 1994. Bréfum þessum hafi verið svarað af hálfu Flugmálastjórnar með bréfi, dags. 21. febrúar 1995, þar sem fram komi, að stofnunin hafi ekki haft hug á að selja neina af fasteignum sínum á Reykjavíkurflugvelli í náinni framtíð.
Helgi Jónsson hafi greitt leigugjald af flugskýlinu til Flugmálastjórnar á árunum 1996 og 1997, en óumdeilt sé, að flugskóli Helga Jónssonar hafi haft aðstöðu í flugskýlinu. Flugmálastjórn hafi þó í tvígang gert tilraun til að fá Flugskóla Helga Jónssonar borinn út úr flugskýlinun en í bæði skiptin hafi útburðarbeiðnum verið hafnað af Hæstarétti.
Í fyrra skiptið, nánar tiltekið í dómi Hæstaréttar í máli nr. 468/2003, hafi Flugmálastjórn byggt á því, að munnlegur leigusamningur væri til staðar um afnot Flugskóla Helga Jónssonar á flugskýlinu. Hafi Flugmálastjórn krafizt útburðar á grundvelli riftunar leigusamnings, enda hefði leigugjald ekki verið greitt síðan árið 1997. Hæstiréttur hafi hins vegar talið, að þar sem Flugskóli Helga Jónssonar ehf. hefði annazt viðhald á skýlinu, ætti sá kostnaður þeirra að ganga upp í greiðslu á leigu og m.a. af þeim sökum hafi Flugmálastjórn ekki tekizt að sýna fram á réttmæti riftunar. Hafi Flugskóla Helga Jónssonar í kjölfarið verið sent bréf, þar sem sagt hafi verið upp afnotum af flugskýli 7, dags. 8. febrúar 2005. Ári síðar, eða þann 28. marz 2006, hafi flugskólanum síðan verið sent bréf, þar sem þess hafi verið krafizt, að skýlið væri rýmt, enda væri uppsagnarfrestur liðinn.
Þar sem ekki hafi verið orðið við tilmælum Flugmálastjórnar, hafi verið höfðað aðfararmál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem þess hafi verið krafizt, að Flugskóli Helga Jónssonar yrði borinn út úr flugskýlinu. Héraðsdómur hafi hins vegar talið, að ekki hefði verið sýnt fram á eignarhald flugskýlisins með nægjanlegum hætti, og hafi sú niðurstaða verið staðfest í Hæstarétti.
Stefnandi í máli þessu, íslenska ríkið, sé skjalfestur eigandi að viðbyggingu við umrætt flugskýli, sem beri fasteignamatsnúmerið 202-9328-26 0101. Hafi það húsnæði verið metið heilsuspillandi og ónothæft, sbr. bréf frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur, dags. 16. september 2010. Sé jafnframt mælt með því að húsnæðið verði rifið. Hafi áður verið gefin út niðurrifsheimild, en ekki hafi verið unnt að nýta þá heimild, þar sem nauðsynlegt sé að rjúfa rafmagn til húsnæðisins, en það liggur í gegnum flugskýli 7. Hafi flugmálayfirvöldum hingað til verið meinaður aðgangur að skýlinu af Flugskóla Helga Jónssonar.
Sé stefnanda þannig nauðsynlegt að fá staðfestingu á eignarhaldi sínu á umræddu flugskýli.
Sótt var þing af hálfu dánarbús Helga Jónssonar, þar sem kröfum stefnanda er mótmælt.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á því, að samkvæmt matsvottorði Þjóðskrár Íslands, dags. 24. janúar 2011, sé Ríkissjóður Íslands, kt. 540269-6459, skráður eigandi Flugskýlis 7, fastanúmer 202-9310 25 0101, dskj. nr. 3, og óski viðurkenningar á skráðum eignarrétti sínum.
Stefnandi höfði mál þetta sem eignardómsmál, enda sé óvíst hver eða hverjir gætu verið varnaraðilar málsins. Stefnanda sé því ekki önnur leið fær en að höfða málið sem eignardómsmál skv. 122. gr. laga. nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Hins vegar megi geta þess, að stefnandi hafi reynt málshöfðun gegn aðila, sem óumdeilanlega hafi haft aðstöðu í umræddu flugskýli, en því máli hafi verið vísað frá, sbr. úrsk. í máli nr. E-1416/2011. Í ljósi þeirrar niðurstöðu telji stefnandi enn frekari nauðsyn á að höfða mál þetta sem eignardómsmál.
Stefnandi byggi kröfu sína um viðurkenningu eignarréttar að umræddu flugskýli á eftirfarandi atriðum:
Opinber skráning
Ríkissjóður Íslands sé skráður eigandi umrædds flugskýlis samkvæmt Þjóðskrá, dskj. nr. 3. Hafi eigendaskráning frá upphafi verið með þeim hætti, að íslenska ríkið, eða ríkisstofnun fyrir hönd ríkisins, hafi verið skráður eigandi. Þannig hafi Flugmálastjórn verið skráð sem eigandi og greitt af skýlinu fasteignagjöld, dskj. nr. 22, og síðan Isavia ohf. (áður Flugstoðir ohf.), dskj. nr. 23.
Stefnandi telji ekkert hafa komið fram, sem geti hnekkt umræddri skráningu og þannig sé sýnt, að Ríkissjóður sé eigandi flugskýlisins.
Þinglýst skjöl
Samkvæmt kaupsamningi, dskj. nr. 4, milli Helga Jónssonar og flugfélagsins Þyts, kaupi Helgi húsnæði Flugskólans á Reykjavíkurflugvelli, „ásamt afnotum af flugskýli, sem er eign Flugmálastjórnarinnar“. Skjalið hafi verið móttekið til þinglýsingar þann 28. marz 1972. Afsal hafi síðan verið gert á grundvelli kaupsamnings þann 2. maí 1973, en í afsali komi sérstaklega fram, að hinu selda fylgi „afnot af flugskýli í eigu Flugmálastjórnar“, dskj. nr. 5. Sé afsalið móttekið til þinglýsingar þann 7. maí 1973 og undirritað af Helga Jónssyni.
Þau þinglýstu skjöl, sem séu til um umrætt flugskýli, sanni, að áliti stefnanda, að Ríkissjóður Íslands sé eigandi þess. Sé óumdeilt, að um sé að ræða flugskýli 7, sbr. dskj. nr. 26.
Leigusamningur
Í málinu liggi jafnframt fyrir leigusamningur, dskj. nr. 6, sem gerður hafi verið milli þrotabús Helga Jónssonar og Flugmálastjórnar, sem hafi haft umsjón með flugskýli 7, eins og áður segi. Kveði leigusamningurinn á um, að þrotabúið taki flugskýli það á leigu, sem Flugskóli Helga Jónssonar hafi haft á leigu á Reykjavíkurflugvelli. Sé jafnframt kveðið á um, að þrotabúið greiði kr. 45.000 á mánuði.
Stefnandi telji þennan leigusamning sanna, að Ríkissjóður Íslands sé eigandi umrædds flugskýlis.
Viðurkenning Helga Jónssonar á eignarhaldi stefnanda
Stefnandi byggi á því, að Helgi Jónsson hafi með margvíslegum hætti viðurkennt og staðfest eignarrétt stefnanda að hinu umrædda flugskýli. Þannig vísist í fyrsta lagi til kaupsamnings og afsals, dskj. nr. 4 og 5, sem áður sé getið og Helgi heitinn Jónsson hafi undirritað. Í öðru lagi vísist til leigusamnings sem skiptastjóri þrotabús Helga Jónssonar hafi undirritað, dskj. nr. 6. Í þriðja lagi vísist til tveggja bréfa, sem Helgi Jónsson hafi ritað til Flugmálastjórnar á árinu 1994, en þar óski hann eftir kaupum á flugskýli nr. 7, dskj. nr. 7 og 8.
Stefnandi vísi til þeirrar staðreyndar, að Helgi Jónsson hafi, á árunum 1996 og 1997, greitt leigugreiðslur til Flugmálastjórnar samkvæmt hreyfingarlistum úr bókhaldi Flugmálastjórnar, dskj. nr. 10 og 11.
Byggi stefnandi á því, að viðurkenning Helga Jónssonar á eignarhaldi stefnanda með þessum hætti staðfesti og sanni eignarhaldið.
Jafnframt sé byggt á því, að Flugskóli Helga Jónssonar og Helgi Jónsson hafi, við rekstur Hæstaréttarmálsins nr. 468/2003, viðurkennt eignarhald stefnanda. Í því máli hafi þessir aðilar lagt fram drög að samkomulagi, dskj. nr. 24, þar sem gert hafi verið ráð fyrir því, að útlagður kostnaður skólans vegna viðhalds á flugskýli 7 kæmi til frádráttar leigugjaldi til handa Flugmálastjórn. Í málinu hafi Flugskólinn krafizt þess, að Flugmálastjórn tæki þátt í kostnaði vegna viðhalds á skýlinu, og slíkur kostnaður ætti að koma til frádráttar leigugjaldi, dskj. nr. 25. Sé engin leið að skilja afstöðu aðila í því máli með öðrum hætti en að slíkar kröfur hafi byggzt á eignarhaldi ríkisins, enda hafi niðurstaða héraðsdóms verið sú, að Flugmálastjórn færi með umsýslu skýlisins í umboði ríkisins. Þeirri forsendu hafi ekki verið hafnað af Hæstarétti.
Yfirlýsing Karls Eiríkssonar og fundargerð Flugráðs
Einnig byggi stefnandi á yfirlýsingu Karls Eiríkssonar, dskj. nr. 26. Karl hafi verið framkvæmdastjóri og stjórnarmaður í Flugskólanum Þyt hf. frá stofnun félagsins árið 1951 til ársins 1969. Í yfirlýsingu Karls komi fram, að árið 1953 hafi Flugskólinn Þytur hf. fengið afnot af flugskýli 7 leigulaust með samþykki Flugmálastjórnar, eftir að skýlið hafði verið flutt frá Vestmannaeyjum og reist á Reykjavíkurflugvelli. Þegar aðstaða félagsins var seld Helga Jónssyni árið 1969, hafi sérstaklega verið tekið fram, að afnot af umræddu flugskýli fylgdi kaupunum og það væri í eigu Flugmálastjórnar. Þannig hafi flugskýlið alltaf verið í eigu Flugmálastjórnar. Sé þetta í samræmi við fundargerð Flugráðs þann 11. júní 1951, en þar sé samþykkt að flytja skýlið til Reykjavíkur frá Vestmannaeyjum, dskj. nr. 27.
Stefnandi telji ofangreindar málsástæður hverja fyrir sig sanna með fullnægjandi hætti eignarhald ríkisins á umræddu flugskýli. Séu ofangreind atvik og málsástæður virtar heildstætt, verði, hvað sem öðru líð, að telja sýnt, að Ríkissjóður Íslands sé eini mögulegi eigandi umrædds skýlis.
Stefnandi vísar um kröfur sínar til grundvallarreglna eignarréttar og einkamálaréttarfars um sönnun eignarréttar.
Málið sé höfðað með heimild í 122. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málið sé höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur skv. 2. mgr. 120. gr., sbr. 2. mgr. 122. gr. sömu laga. Stefna þessi sé birt í Lögbirtingablaðinu skv. 3. mgr. 121. gr., sbr. 2. mgr. 122. gr. laga nr. 91/1991.
Kröfu um málskostnað styðji stefnandi við 1. mgr. 130. gr., sbr. 129. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála.
Málsástæður stefnda
Stefndi byggir á því, að stefnandi hafi ekki fært sönnur að því, að hann hafi nokkurn tíma verið eða orðið eigandi að flugskýli 7 með fasteignamatsnúmer 202-931-25-0101.
Stefndi kveður það vefjast fyrir stefnanda að gera grein fyrir uppruna flugskýlisins eða því að telja, að skýlið hafi verið reist árið 1950, og að það hafi áður staðið á flugvellinum í Vestmannaeyjum.
Engin grein sé gerð fyrir eignarhaldi skýlisins, sem þar hafi verið staðsett, en á árinu 1950 hafi flugrekstur til Vestmannaeyja verið hjá Flugfélagi Íslands og Loftleiðum. Flugskýlið í Vestmannaeyjum hafi verið kallað Flugskýli Loftleiða hf. Loftleiðir hf. hafi síðan hætt í innanlandsflugi til Vestmannaeyja og líkur séu á, að félagið hafi flutt flugskýlið, hugsanlega selt það, en það muni hafa verið endurreist í Reykjavík. Flugafgreiðsla Flugfélags Íslands sé afar gömul og að stórum hluta braggabygging. Stefnda sé kunnugt, að flugskýli, sem áður hafi verið í Vestmannaeyjum, hafi verið flutt til Reykjavíkur, og það sé uppistaðan í flugafgreiðslu Flugfélags Íslands við Þorragötu.
Hér séu nefndar líklegar tilgátur, sem nauðsynlegt sé að sannreyna og í þessu atriði málsins beri stefnandi sönnunarbyrði fyrir því, að hann hafi verið eigandi þessa flugskýlis. Fái hann ekki slegið eign sinni á fasteignir, nema gera skýra grein fyrir uppruna málsins að þessu leyti.
Stefnandi vísi til dómskjals nr. 4, kaupsamnings frá 19.05. 1969 milli Flugskólans Þyts hf. og Helga Jónssonar. Viðsemjandi Þyts hafi verið Helgi Jónsson persónulega, og skýri það aðild hans að málinu. Helgi hafi látizt í september 2008. Ekkja hans sitji í óskiptu búi og sé dánarbúið því réttur aðili til varna í málinu.
Að því er varði flugskýli, (sbr. dskj. nr. 4 og 5), sem ekki sé nánar lýst, þá hafi legið þannig í málinu, að seljandi hafi talið sig eiga flugskýlið en hafi ekki haft þinglýsta eignarheimild að því. Skýlið standi að hluta á landi ríkisins og að hluta á landi Reykjavíkurborgar.
Heildarverðið á því, sem viðskiptin nái til, kr. 3.500.000, endurspegli söluverð á flugskýlinu, eða að verðmæti þess hafi verið innifalið í heildarverðinu. Stefnandi hafi lagt fram dómskjal nr. 27, undirritað af Karli Eiríkssyni, áður stjórnarmanni í flugskólanum Þyt. Stefndi telji skjalið ekkert gildi hafa fyrir þetta mál. Karl hafi farið út úr Þyti, líklega 1963, og farið þá með eina flugvél út úr félaginu. Þessa flugvél hafi Karl lánað Helga það ár, þegar hann var að safna flugtímum í flugnámi sínu. Karl geti því ekkert vottað um samskipti Helga og Björgvins Hermannssonar og hvað hafi farið fram þeirra í milli, þegar viðskiptin um kaup á eignum Þyts hf. hafi átt sér stað. Stefndi telji, að eigendaskipti hafi orðið á Þyt hf. um 1963, þegar Björgvin Hermannsson hafi keypt félagið og fyrri eigendur farið úr félaginu og stjórn þess, þar á meðal Karl Eiríksson.
Það séu út af fyrir sig einkennileg lögskipti, sem Karl gefi upp, að Flugmálastjórn hafi átt flugskýlið, en Þytur hf. haft endurgjaldslaus afnot af því, ekki aðeins í einhver ár, heldur áratugi.
Frá þessum tíma, eða 1969 að telja, hafi stefndi farið með flugskýlið sem sína eign, notað það við eigin flugrekstur, viðhaldið flugskýlinu á sinn kostnað, greitt af því fasteignagjöld o.s.frv., og enginn annar aðili notað eða nýtt eignina. Stefnandi hafi ekki stigið þar inn fæti allan þennan tíma. Allan tímann frá 1969 hafi stefnandi ekki farið fram á neina leigu. Stefndi hafi greitt fasteignagjöld af eigninni allt þar til stefnandi hafi einhliða ákveðið að greiða fasteignagjöld sjálfur, líklega 1993. Það hafi stefnandi gert í skjóli stöðu sinnar sem yfirvald og án þess að bera það undir stefnda. Þessi ráðstöfun sanni því ekki nokkurn skapaðan hlut. Sérstaklega sé því mótmælt, að með þessari einhliða skráningu stefnanda á skýlinu í fasteignaskrá sé stefnandi orðinn skjalfestur, skráður eigandi að því, eins og stefnandi orði það, og því síður hafi stefnandi sannað það með því að vera skráður eigandi umrædds flugskýlis samkvæmt þjóðskrá eða opinberri skráningu, eins og stefnandi komist að orði í stefnu.
Stefndi staðhæfi, að Flugskólinn Þytur hafi aldrei gert leigusamning við stefnanda og aldrei greitt húsaleigu fyrir skýlið. Stefndi hafi heldur aldrei gert leigusamning við stefnanda, hvorki munnlegan né skriflegan, og aldrei greitt húsaleigu.
Stefnandi vísi til leigusamnings, sem gerður hafi verið milli skiptastjóra þrotabús Helga Jónssonar (dskj. nr. 6) sem sönnun fyrir eignarhaldi stefnanda. Þessari röksemd sé hafnað. Það sé óviðkomandi lögmaður, sem gert hafi þennan samning upp á sitt eindæmi, án samþykkis stefnda. Helgi Jónsson hafi fengið bú sitt afhent að nýju úr hendi skiptastjóra og hafi ekki verið um frekari greiðslur að ræða af hendi þrotabúsins eftir það, og ekki heldur úr hendi stefnda, hvorki fyrir né eftir þessi tímamörk. Þess vegna verði ekkert ályktað um viðurkenningu stefnda vegna þessara samskipta.
Stefnandi vísi til kaupsamnings og afsals (dskj. nr. 4 og 5), sem Helgi Jónsson hafi ritað undir persónulega. Andmæli gegn þessum röksemdum séu þegar komin fram hér að framan. Það, sem sé nýtt hjá stefnanda, sé að telja tvö bréf til Flugmálastjórnar, þar sem Óðinn hf. flugfélag óski eftir kaupum á flugskýlinu (dskj. nr. 7 og 8).
Af þessum gögnum verði einungis ráðið, að félög sem tengist Helga heitnum Jónssyni hafi óskað eftir kaupum og afsali, en það hafi komið til af þeirri einföldu ástæðu, að Helga hafi skort þinglýsta eignarheimild og talið, að lausn á því fengist með samningi við FMS. Ekkert komi fram um kaupverð, enda hafi ekki staðið til að greiða fyrir skýlið. Kjarni málsins hafi verið sá að fá þinglýsta eignarheimild, og fengist hún útgefin af FMS, yrði henni væntanlega þinglýst án athugsemda sýslumannsins í Reykjavík. Á þessum tíma hafi stefnandi afsalað ýmsum flugskýlum til rekstraraðila á Reykjavíkurflugvelli fyrir lágar fjárhæðir og jafnvel ekki neitt. Helgi hafi þess vegna farið fram á afsal, eins og aðrir rekstraraðilar á flugvellinum.
Því sé haldið fram, að stefndi hafi greitt leigugreiðslur, sbr. dskj. nr. 10, 11 og 12, sem stefnandi telji enn eina sönnunarfærslu fyrir kröfum sínum.
Þessum rökum sé mótmælt. Stefndi hafi aldrei greitt stefnanda leigu fyrir flugskýlið. Það sé ekkert hald í því að leggja fram innanbúðargögn sem sönnunargögn. Ekki komi fram, að reikningarnir hafi verið greiddir eða bakfærðir í bókhaldi stefnanda.
Stefnandi hafi beitt sömu röksemd í hæstaréttarmálinu nr. 468/2003 frá 17. desember 2003: Flugmálastjórn gegn Helga Jónssyni og Flugskóla Helga Jónssonar ehf. Þar segi meðal annars.:
Sóknaraðili hefur lagt fyrir Hæstarétt reikninga fyrir árin 1996 og 1997 ásamt hreyfingarlistum úr bókhaldi sínu vegna sömu ára. Samkvæmt kæru sóknaraðila er þessum gögnum ætlað að „sanna að með greiðslu á níu reikningum á árunum 1996-1997 hafi varnaraðilar viðurkennt að þeir leiði afnotarétt sinn af flugskýli nr. 7 á Reykjavíkurflugvelli frá leigusamningi við sóknaraðila.“
Gegn andmælum varnaraðila verður ekki heldur séð að sóknaraðili hafi gert reka að því að krefjast greiðslu úr hendi varnaraðila fyrir þessi not þeirra á nefndu skýli. Nægir í þessu sambandi ekki að vísa til gamalla reikninga og hreyfingarlista úr bókhaldi sóknaraðila.
Hæstiréttur hafi því þegar hafnað þessari röksemd sem sönnun fyrir því, að stefndi hafi greitt stefnanda þá meintu húsaleigu, sem hér sé getið um.
Stefndi mótmæli því og hafni öllum rökum stefnanda í málinu.
Stefndi hafi notað, hagnýtt sér og rekið flugskýlið í eigin þágu samfellt frá 19. maí 1969 og talið það sína eign allan þennan tíma. Stefnandi hafi ekki stigið þarna inn fæti sínum en hafi freistað þess að fá stefnda borinn út úr húsnæðinu en ekki haft erindi sem erfiði og af réttum og löglegum ástæðum.
Eina undantekningin sé, að löglærður skiptastjóri þb. Helga Jónssonar hafi gert leigusamning við stefnanda, tímabundinn frá 1. nóvember 1992, ráðgert til janúar/febrúar næst á eftir. Stefndi hafi tekið vörzlur skýlisins strax á eftir en enga leigu greitt fyrir, hvorki til stefnanda né annars aðila. Þessi tími skapi stefnanda engan rétt. Samkvæmt framangreindu hafi stefndi öðlazt eignarrétt að nefndu flugskýli fyrir hefð, sbr. lög nr. 40/1905 um hefð, og uppfylli öll lagaskilyrði og eigi því rétt til þess að eignast skýlið með því að höfða mál til viðurkenningar á þessum rétti sínum.
Hefðargrundvöllur stefnda upphefji stefnukröfur stefnanda og leiði til sýknu.
Stefndi hafi ekki aðeins haft skýlið til afnota, heldur hafi hann einn notað og hagnýtt sér það með útilokandi hætti gagnvart öðrum, flugvallarstæðið sunnan við flugskýlið, sem afmarkist af akbraut (taxiway) að flugbraut 31 á flugvellinum.
Af ofangreindum ástæðum og rökum beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda og dæma stefnanda til greiðslu málskostnaðar.
Stefndi telji dskj. nr. 18-25 máli þessu óviðkomandi.
IV
Forsendur og niðurstaða
Fyrir dómi gáfu skýrslu Jytte Th. M. Jónsson, eigandi flugskóla Helga Jónssonar, Karl Eiríksson og Áslaug Guðrún Aðalsteinsdóttir, verkefnastjóri hjá ISAVIA.
Stefndi dregur í efa, að flugskýli það, sem ágreiningur aðila stendur um og kallað er flugskýli nr. 7, sé sama skýlið og flutt var frá Vestmannaeyjum upp úr miðbiki síðustu aldar. Ekkert hefur komið fram í málinu, sem styður þá tilgátu stefnda, að það skýli sé nú uppistaðan í flugafgreiðslu Flugfélags Íslands. Þá stangast sú tilgáta á við yfirlýsingu Karls Eiríkssonar á dskj. nr. 26, sem hann staðfesti fyrir dómi að væri rétt, en hann kvað eigendur Þyts m.a. hafa komið að einhverju leyti að uppsetningu skýlisins í Reykjavík.
Samkvæmt dskj. nr. 3, matsvottorði Þjóðskrár Íslands, er skýlið skráð sem eign Ríkissjóðs Íslands á árinu 2011. Af hálfu stefnda hefur sú skráning ekki verið dregin í efa.
Stefnandi vísar til kaupsamnings frá 19. maí 1969 og afsals frá 2. maí 1973, þar sem Flugskólinn Þytur selur og afsalar Helga Jónssyni m.a. afnotum af umdeildu flugskýli „í eigu Flugmálastjórnar“. Stefndi telur, að orðalag í framangreindum skjölum hafi verið á þennan veg, þar sem seljandi hafi ekki haft þinglýsta eignarheimild að skýlinu, en hafi hins vegar talið sig eiga það. Stefndi hefur ekki fært nein rök að þessari fullyrðingu sinni, og styður texti skjalanna þá staðhæfingu stefnanda, að skýlið hafi á þeim tíma verið í ríkiseign. Þá hefur stefndi ekki sýnt fram á eða sannað, að verð hinna afsöluðu muna hafi endurspeglað söluverð á flugskýlinu eða að verðmæti þess hafi verið innifalið í heildarverðinu.
Ágreiningur er um það, hvort stefndi hafi greitt fasteignagjöld af skýlinu allar götur frá því að hann tók við afnotum skýlisins árið 1969.
Samkvæmt álagningarseðlum fasteignagjalda á dskj. nr. 22 og 23 frá árunum 2006 og 2010 var eigandi umdeilds skýlis skráður ríkissjóður og greiðsluhluti skráður á Flugmálastjórn Íslands og síðan Flugstoðir ohf. Þá verður ráðið af tölvubréfum á dskj. nr. 29, að skýlið hafi verið skráð á ríkisstofnanir frá árinu 1992. Loks kemur fram, séu bornar saman færslur vegna húsaleigu úr hreyfingarlista Flugmálastjórnar tímabilið 1. janúar 1996 til 31. desember 2005 við færsluupplýsingar úr innlánakerfi Landsbanka Íslands á Hótel Loftleiðum, að fjárhæðir þessar og dagsetningar stemma við innborganir stefnda, en stefndi hefur ekki hrakið það, að um leigugreiðslur hafi verið að ræða. Styðja öll framangreind atriði eignarheimild stefnanda að umdeildu flugskýli, en stefndi hefur ekki lagt fram nein gögn, sem benda til þess, að hann sé réttur eigandi skýlisins.
Stefndi byggir á því, að hann hafi eignazt skýlið fyrir hefð á árunum 1969 til 1989.
Fyrir liggja tvö bréf stefnda til Flugmálastjóra á dskj. nr. 7 og 8, annars vegar frá 31. október 1994 og hins vegar frá 30. nóvember s.á., þar sem Helgi Jónsson óskar eftir því f.h. Óðins hf., að kaupa skýlið af Flugmálastjórn. Stefndi leit þannig ekki á sig sem eiganda skýlisins á árinu 1994, og viðurkenndi í raun eignarrétt stefnanda. Hefur hann ekki sýnt fram á, að hann hafi eignazt skýlið fyrir hefð.
Með vísan til alls framanritaðs ber að fallast á kröfur stefnanda í máli þessu. Eftir atvikum þykir rétt að hvor aðila beri sinn kostnað af málinu.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð
Viðurkenndur er eignarréttur stefnanda, Ríkissjóðs Íslands, að flugskýli 7 með fasteignamatsnúmer 202-9310-25-0101, sem stendur á Reykjavíkurflugvelli, landnúmer 106748.
Málskostnaður fellur niður.