Hæstiréttur íslands

Mál nr. 114/2004


Lykilorð

  • Stéttarfélag
  • Kjarasamningur
  • Ráðningarsamningur
  • Aðild


Fimmtudaginn 21

 

Fimmtudaginn 21. október 2004.

Nr. 114/2004.

Íslensk erfðagreining ehf.

(Kristján Þorbergsson hrl.)

gegn

Rafiðnaðarsambandi Íslands

(Páll Arnór Pálsson hrl.)

 

Stéttarfélag. Kjarasamningur. Ráðningarsamningur. Aðild.

Í kjarasamningi milli atvinnugreinasamtaka annars vegar og R hins vegar, var kveðið á um eftirmenntunargjald sem vinnuveitendur greiða. Í átti ekki aðild að umræddum atvinnugreinasamtökum og deildu aðilar um skyldu Í til að greiða gjald í sjóðinn vegna rafiðnaðarmanna sem störfuðu hjá fyrirtækinu. Í dómi Hæstaréttar segir, að samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks o.fl. skuli laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein. Ákvæðið veiti launamönnum rétt samkvæmt efni hennar og þá kröfu eigi þeir á vinnuveitanda. Í 1. mgr. 6. gr. laganna sé kveðið á um skyldur allra atvinnurekenda að greiða í sjúkra- og orlofssjóði samkvæmt kjarasamningum. Slíka kröfu eigi stéttarfélögin vegna þessara tvenns konar sjóða og sé það tæmandi talning. Kröfur þeirra vegna annarra sjóða en þar séu tilgreindir verði ekki reistar á þessu lagaákvæði og brysti R heimild til þess að krefja Í um gjöldin. Var Í því sýknaður af kröfu R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir og Hrafn Bragason.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. mars 2004 að fengnu áfrýjunarleyfi og krefst sýknu af kröfu stefnda svo og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Málavöxtum er lýst í héraðsdómi. Eins og þar greinir lýtur ágreiningur aðila að því hvort áfrýjanda beri að greiða eftirmenntunarsjóðsgjald til stefnda vegna rafiðnaðarmanna sem hjá honum starfa.

I.

Áfrýjandi reisir sýknukröfu sína á því, að hann sé ekki aðili að kjarasamningi þeim sem stefndi reisi kröfur sínar á og það sé ágreiningslaust. Einnig sé ágreiningslaust að 1. gr. laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyrisréttinda nái til allra atvinnurekenda, en hún kveði á um að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um skuli vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein og að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör skuli ógildir. Hins vegar felist í ákvæðinu sú skylda ein að lögum að greiða lágmarkslaun samkvæmt kjarasamningi. Ráðningarsamningar áfrýjanda við þá starfsmenn hans, sem stefndi styðji kröfu sína við, séu langt yfir lágmarkslaunum þess stéttarfélags sem þeir tilheyri, eins og framlagðir samningar sýni.

Við skýringu á 1. gr. laganna verði einnig að horfa til ákvæða annarra greina þeirra. Löggjafinn hafi sett í sérstaka lagagrein fyrirmæli um skyldu atvinnurekenda til að greiða í tiltekna sjóði stéttarfélaga, sjúkrasjóði og orlofssjóði, fyrst með 3. gr. laga nr. 9/1974 um starfskjör launþega o.fl. og síðar með 1. mgr. 6. gr. laga nr. 55/1980, sem hafi haldist óbreytt frá fyrri lögum. Sá greinarmunur sé á 1. gr. og 6. gr. laganna að í 1. gr. sé kveðið á um skyldu til lágmarkskjara samkvæmt ráðningarsamningi milli launþega og atvinnurekenda en í 6. gr. um skyldu til greiðslu í tvenns konar tilgreinda sjóði stéttarfélags launþega á grundvelli kjarasamnings milli aðildarsamtaka vinnumarkaðarins. Þessar tvær greinar laganna hvíli þannig hvor á sínum grunni, 1. gr. tryggi lágmarkslaun og starfskjör til handa launþega í ráðningarsamningi fyrir að vinna tiltekið starf, en 6. gr. tryggi greiðslu í tvenna tiltekna sjóði stéttarfélaga með vísan til reglna kjarasamninga, hvað sem félagsaðild atvinnurekanda líði. Af þessu leiði að í 1. gr. laganna geti ekki falist skylda atvinnurekanda til þess að greiða í sjóði stéttarfélags, enda mæli 6. gr. laganna fyrir um þá greiðslu. Þar séu sjóðirnir taldir upp með tæmandi hætti og verði atvinnurekandi, sem ekki eigi aðild að kjarasamningi, ekki skyldaður til að greiða í aðra sjóði stéttarfélags en þá sem taldir séu upp í 6. gr. laganna, þar sem fleiri sjóðum verði ekki bætt við lagagreinina með rýmkandi lögskýringu. Áfrýjandi hafi greitt í þá sjóði sem 6. gr. tilgreini, en skylda til að greiða í aðra sjóði verði ekki leidd af ákvæðum laganna. Greinarmunur á efni 1. gr. og 6. gr. laganna stafi af tvískiptingu vinnuréttarins í kjarasamningarétt og ráðningarrétt, og þessi tvö svið fari ekki alltaf saman, svo sem um aðild. Ákvæði kjarasamnings séu oft tekin upp í ráðningarsamninga eftir því sem við eigi. Í þessu máli sé ekki um slíkt að ræða heldur sé deilt um skyldu samkvæmt kjarasamningi sem áfrýjandi eigi ekki aðild að og lögin tilgreini ekki. Málið sé ekki rekið fyrir starfsmann áfrýjanda heldur fyrir samband stéttarfélaga, og launþeginn eigi ekki aðild að þessari kröfu. Á sama hátt eigi stéttarfélag ekki aðild að kröfum samkvæmt 1. gr. laganna, þar sem það geri ekki ráðningarsamninga heldur launþeginn.

 

 

II.

Stefndi andmælir málsástæðum áfrýjanda og heldur því fram að í 1. gr. laga nr. 55/1980 felist skylda áfrýjanda til að greiða gjöld í eftirmenntunarsjóð stéttarfélagsins. Ákvæði 1. gr. vísi til kjarasamninga og lágmarkskjara þeirra sem þar semjist um, og séu það bæði lágmarkslaun og önnur starfskjör. Ákvæðið taki því samkvæmt orðanna hljóðan ekki aðeins til lágmarkslauna heldur einnig til annarra starfskjara. Með orðinu starfskjör sé átt við hvers konar greiðslur til launþega og til stéttarfélaga sem séu þeim til hagsbóta. Í kjarasamningum sé samið um fleiri lágmarksréttindi en laun og sum lágmarksréttindi verði ekki tekin af launamönnum með því að hækka laun þeirra. Aðilar vinnumarkaðarins á sviði raf- og tölvuiðnaðar hafi fyrir áratugum metið það svo að það væru lágmarkskjör að veita félagsmönnum kost á eftirmenntun, og í kjarasamningnum sé kveðið á um hvernig skipulagi hennar sé háttað. Áfrýjandi haldi því fram að á móti eftirmenntunargjaldinu komi ýmislegt sem hann bjóði starfsfólki sínu upp á, svo sem aðgangur að svokölluðum háskóla íslenskrar erfðagreiningar og endurmenntun innan fyrirtækisins og ýmsir styrkir. Þessi atriði megi sín lítils andspænis þeirri endurmenntun sem rafvirkjum, rafeindavirkjum og tölvuiðnaðarfólki sé nauðsynleg og komi engan veginn í stað þess sem fer fram hjá eftirmenntunarkerfi því sem samið sé um af aðilum vinnumarkaðarins. Þetta séu starfskjör launamanna, sem samið hafi verið um í kjarasamningi samkvæmt 1. gr. laganna og séu því hluti af lágmarkskjörum hans. Þau verði ekki af honum tekin í ráðningarsamningi eða með einhliða ákvörðun atvinnurekandans.

III.

Ágreiningslaust er að Samtök atvinnulífsins og Samtök atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði séu sambönd atvinnurekenda og að áfrýjandi eigi ekki aðild að þeim. Stefndi Rafiðnaðarsamband Íslands er samband launþegafélaga í rafiðnaði. Þessir aðilar gerðu með sér kjarasamning 24. mars 2000, þar sem kveðið er á um eftirmenntunargjald sem vinnuveitendur greiða.

Samkvæmt 1. gr. laga nr. 55/1980 skulu laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semja um, vera lágmarkskjör fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein. Samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveði skuli ógildir. Þessi lagagrein veitir launamönnum rétt samkvæmt efni hennar og þá kröfu eiga þeir á vinnuveitanda. Í 1. mgr. 6. gr. laganna er kveðið á um skyldur allra atvinnurekenda að greiða í sjúkrasjóði og orlofssjóði viðkomandi stéttarfélaga iðgjöld sem samið sé um hverju sinni í kjarasamningum. Kröfur samkvæmt þessari lagagrein eiga stéttarfélögin á hendur öllum atvinnurekendum vegna þessara tvenns konar sjóða og er það tæmandi talning. Verða kröfur þeirra vegna annarra sjóða en þar eru tilgreindir ekki reistar á þessu lagaákvæði. Greiðsla í eftirmenntunarsjóð er þar ekki nefnd og brestur stefnda heimild til þess að krefja áfrýjanda um gjöldin. Verður áfrýjandi því sýknaður af kröfu stefnda.

Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Áfrýjandi, Íslensk erfðagreining ehf., er sýkn af kröfu stefnda, Rafiðnaðarsambands Íslands.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. desember 2003.

Mál þetta var höfðað 5. júní 2003 og dómtekið 4. þ.m.

Stefnandi er Rafiðnaðarsamband Íslands, Stórhöfða 31, Reykjavík.

Stefndi er Íslensk erfðagreining ehf., Sturlugötu 8, Reykjavík.

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 257.270 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 3.000,- frá 10. ágúst 2000 til 10. september 2000, af kr. 7.334,- frá 10. september 2000 til 10. október 2000, af kr. 15.584,- frá 10. október 2000 til 10. nóvember 2000, af kr. 20.834,- frá 10. nóvember 2000 til 10. desember 2000, af kr. 26.084,- frá 10. desember 2000 til 10. janúar 2001, af kr. 31.334,- frá 10. janúar 2001 til 10. febrúar 2001, af kr. 36.584,- frá 10. febrúar 2001 til 10. mars 2001, af kr. 43.134,- frá 10. mars 2001 til 10. apríl 2001, af kr. 51.484,- frá 10. apríl 2001 til 10. maí 2001, af kr. 59.834,- frá 10. maí 2001 til 10. júní 2001, af kr. 68.184,- frá 10. júní 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 10. júlí 2001, af kr. 76.534,- frá 10. júlí 2001 til 10. ágúst 2001, af kr. 87.399,- frá 10. ágúst 2001 til 10. september 2001, af kr. 97.909,- frá 10. september 2001 til 10. október 2001, af kr. 108.474,- frá 10. október 2001 til 10. nóvember 2001, af kr. 119.039,- frá 10. nóvember 2001 til 10. desember 2001, af kr. 130.856,- frá 10. desember 2001 til 10. janúar 2002, af kr. 141.421,- frá 10. janúar 2002 til 10. febrúar 2002, af kr. 151.986,- frá 10. febrúar 2002 til 10. mars 2002, af kr. 168.418,- frá 10. mars 2002 til 10. apríl 2002, af kr. 184.568,- frá 10. apríl 2002 til 10. maí 2002, af kr. 200.718,- frá 10. maí 2002 til 10. júní 2002, af kr. 217.319,- frá 10. júní 2002 til 10. júlí 2002, af kr. 230.219,- frá 10. júlí 2002 til 10. ágúst 2002, af kr. 243.619,- frá 10. ágúst 2002 til 10. september 2002 og af kr. 257.270,- frá 10. september 2002 til greiðsludags. Krafist er vaxtareiknings í samræmi við 12. gr. vaxtalaga. Einnig krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnanda og málskostnaðar úr hendi hans.

 

Stefnandi gerir eftirfarandi grein fyrir málsatvikum og málsástæðum:

Stefnandi er landssamband stéttarfélaga rafiðnaðarmanna og annast gerð kjara­samninga fyrir aðildarfélög þess og innheimtu gjalda samkvæmt þeim.  Krafan er til komin vegna vangoldinna eftirmenntunarsjóðsgjalda sem stefnda ber að greiða í eftirmenntunarsjóði Félags íslenskra rafvirkja, kt. 530169-4489, Stórhöfða 31, Reykja­­vík, f.h. Eftirmenntunarnefndar rafiðna, kt. 690174-2139, Háaleitisbraut 68, Reykja­vík og Félags tæknifólks í rafiðnaði, kt. 560493-3049, Stórhöfða 31, Reykjavík, vegna starfsmanna stefnda til stefnanda fyrir tímabilið júlí 2000 til ágúst 2002.  Stefnda ber samanber grein 12.1 í kjarasamningi milli Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðildarfélaga annars vegar og Samtaka atvinnulífsins, Samtaka atvinnurekenda í Raf-og tölvuiðnaði hins vegar, frá 24.3.2000 að greiða 1% af kaupi til viðkomandi eftir­menntunarnefndar, gjald vegna rafvirkja er 1,1%.  Þessa skyldu sína hefur stefndi vanrækt og neitar að greiða þrátt fyrir ítrekaðar áskoranir.  Krafan byggir á skilagreinum frá stefnda þar sem gerð eru skil á afdregnum félagsgjöldum og greiðslu framlags atvinnurekanda í sjúkrasjóð og orlofssjóð en eftirmenntunarsjóðsgjald vantar.  Krafan sundurliðast með eftirfarandi hætti samanber dómsskjal nr. 4:  Eftir­menntunarsjóður rafiðna kr. 6.817, Eftirmenntunarsjóður rafeindavirkja kr. 193.890 og Eftirmenntunarsjóður rafiðnaðar kr. 56.563.  Samtals kr. 257.270.               

Um lagarök vísar stefnandi til kjarasamnings milli Rafiðnaðarsambands Íslands vegna aðildarfélaga annars vegar og Samtaka atvinnulífsins, Samtaka atvinnu­rekenda í Raf- og tölvuiðnaði hins vegar, laga nr. 80/1938 um stéttarfélög og vinnudeilur, laga nr. 55/1980 um starfskjör launafólks og skyldutryggingu lífeyris­réttinda, almennra reglna kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga og samningalaga nr. 7/1936.

Af hálfu stefnda er byggt á því að hann sé hvorki aðili að Samtökum atvinnulífsins né Samtökum atvinnurekenda í raf- og tölvuiðnaði enda sé hann ekki skyldugur til að vera aðili að samtökum atvinnurekenda.  Hann sé því ekki aðili að þeim kjarasamningi sem kröfugerð stefnanda sé reist á enda séu engin ákvæði í lögum sem skyldi hann til þess að vera aðili að kjarasamningum sem gerðir séu milli aðila vinnumarkaðarins.  Samkvæmt þessu beri að sýkna stefnda með vísun til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.

Hvorki í lögum nr. 55/1980 né lögum nr. 80/1938 sé að finna ákvæði um skyldu stefnda til þess að greiða 1% af kaupi launþega sinna í eftirmenntunarsjóði.

Stefndi byggir einnig á því að hömlur á samningsfrelsi þurfi að vera skýrar svo heimilt sé að víkja samningi um laun eða önnur starfskjör til hliðar.  Hann hafi gert skriflega ráðningarsamninga við alla starfsmenn sína og í þeim sé á tæmandi hátt kveðið á um hver séu réttindi og skyldur stefnda og launþega.  Í þeim ráðningar­samningum er varði mál þetta sé hvergi vísað til þess að stefndi hafi skuldbundið sig með samningi við ákvæði fyrrnefnd kjarasamnings.

Stefndi kveður skyldur sínar samkvæmt lögum sem varða kjarasamninga aðila á vinnumarkaði takmarkast við það að laun og önnur starfskjör sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um skuli vera lágmarkskjör, sbr. 1. gr. laga nr. 55/1980.  Umrætt eftirmenntunargjald sé ekki hluti af launakjörum heldur sé það greitt í sjóði félags tengdu stéttarfélagi og því njóti launþegi ekki gjaldsins með beinum hætti sem þáttar í launakjörum sínum hjá atvinnurekanda.  Því byggi stefndi á  því, með vísun til upplýsinga sem hann gefur um launakjör þeirra starfsmanna sem hér um ræðir að þau hafi verið verulega betri en kveðið sé á um í kjarasamningum stefnanda.  Því til viðbótar njóti starfsmenn stefnda, þ.á m. þeir, sem mál þetta fjallar um, ýmissa annarra ólögbundinna réttinda, þ.m.t. aðgangs að svokölluðum Háskóla ÍE, sem gangist fyrir sí- og endurmenntun innan fyrirtækisins á ýmsum sviðum og Þekkingarsjóði ÍE, sem veiti starfsmönnum styrki til að sækja námskeið og ráðstefndur innan lands og utan, auk styrkja til fjarnáms o. fl.

 

Það kjarasamningsákvæði um eftirmenntunargjald, sem krafa stefnanda er reist á, er svohljóðandi:  “Vinnuveitendur greiði 1% af kaupi til viðkomandi eftir­menntunar­nefndar.  Gjald vegna rafvirkja reiknast sem 1,1% skv. gr. 15.1”

Um eftirmenntunarnámskeið segir í kjarasamningnum:  “Rafiðnaðarmenn skulu eiga kost á að sækja fagtengd námskeið fræðslustofnana samtaka atvinnu­rekenda og launamanna í rafiðnaði til að fylgjast með breytingum í rafiðnaðargreinum.  Við það er miðað að árlega geti þeir varið allt að 12 dagvinnustundum til námskeiðs­setu án skerðingar á föstum launum þó þannig að a.m.k. helmingur námskeiðsstunda sé í þeirra eigin tíma.  Jafnt rafiðnaðarmaður og fyrirtæki getur haft frumkvæði að námskeiði.  Tími til námskeiðssetu skal valinn með hliðsjón af verkefnastöðu viðkomandi fyrirtækja. – Líði meira en tvö ár milli námskeiðssóknar skapar það ekki rétt til meiri tíma en 24 dagvinnustundum (svo) nema um það sé sérstaklega samið eða það ástand hafi skapast vegna verkefnastöðu. – RSÍ og SART eru aðilar að Norrænni samvinnu um menntun innan rafiðnaðargeirans (NEUI) og skuldbinda sig til þess að hafa þar samráð og samvinnu sem tengist eftirmenntun í rafiðnaði.”

Þess skal getið að í þeim ráðningarsamningum, sem stefndi hefur lagt fram í málinu, eru engin ákvæði um rétt starfsmanna til endur- eða símenntunar.

 

Í málinu er ekki deilt um rétt stefnda til að standa utan aðildar að samtökum atvinnulífsins svo og kjarasamninga sem gerðir eru milli aðila vinnumarkaðarins. 

Því er heldur ekki haldið fram að stefndi hafi  skuldbundið sig með ráðningarsamningum að standa við ákvæði umrædds kjarasamnings.

Þá er því ekki andmælt af hálfu stefnanda, sem upplýst er í málinu, að launakjör þeirra starfsmanna stefnda, sem hér um ræðir, hafi verið umfram þau lágmarkslaun sem kveðið er á um í kjarasamningi þeim sem kröfugerð stefnanda byggist á.

Vísun stefnanda í lög nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga á ekki við í málinu.

Í 1. gr. laga  um 55/1980 segir að laun og önnur starfskjör, sem aðildarsamtök vinnumarkaðarins semji um, skuli vera lágmarkskjör . . . fyrir alla launamenn í viðkomandi starfsgrein á svæði því er samningurinn tekur til svo og að samningar einstakra launamanna og atvinnurekenda um lakari kjör en hinir almennu kjarasamningar ákveða skuli ógildir.

Ágreiningsefni aðila varðar ekki laun heldur fellur það undir “önnur starfskjör”, þ.e. að vinnuveitandi greiði eftirmenntunargjald sem varið er til endurmenntunar rafiðnaðarmanna sem skipulögð er af samtökum þeirra sjálfra.  Af hálfu stefnda er ekki gerð athugasemd um aðild stefnanda og krafa hans sætir ekki ágreiningi um útreikning fjárhæðar.

Samkvæmt þessu er niðurstaða málsins sú að dæma beri stefnda til að greiða stefnanda 257.270 krónur með vöxtum eins og greinir í dómsorði og málskostnað sem er ákveðinn 120.000 krónur.

Mál þetta dæmir Sigurður H. Stefánsson héraðsdómari.

D ó m s o r ð:

Stefndi, Íslensk erfðagreining ehf., greiði stefnanda, Rafiðnaðarsambandi Íslands, 257.270 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af kr. 3.000,- frá 10. ágúst 2000 til 10. september 2000, af kr. 7.334,- frá 10. september 2000 til 10. október 2000, af kr. 15.584,- frá 10. október 2000 til 10. nóvember 2000, af kr. 20.834,- frá 10. nóvember 2000 til 10. desember 2000, af kr. 26.084,- frá 10. desember 2000 til 10. janúar 2001, af kr. 31.334,- frá 10. janúar 2001 til 10. febrúar 2001, af kr. 36.584,- frá 10. febrúar 2001 til 10. mars 2001, af kr. 43.134,- frá 10. mars 2001 til 10. apríl 2001, af kr. 51.484,- frá 10. apríl 2001 til 10. maí 2001, af kr. 59.834,- frá 10. maí 2001 til 10. júní 2001, af kr. 68.184,- frá 10. júní 2001 til 1. júlí 2001, en samkvæmt III. kafla laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá þeim degi til 10. júlí 2001, af kr. 76.534,- frá 10. júlí 2001 til 10. ágúst 2001, af kr. 87.399,- frá 10. ágúst 2001 til 10. september 2001, af kr. 97.909,- frá 10. september 2001 til 10. október 2001, af kr. 108.474,- frá 10. október 2001 til 10. nóvember 2001, af kr. 119.039,- frá 10. nóvember 2001 til 10. desember 2001, af kr. 130.856,- frá 10. desember 2001 til 10. janúar 2002, af kr. 141.421,- frá 10. janúar 2002 til 10. febrúar 2002, af kr. 151.986,- frá 10. febrúar 2002 til 10. mars 2002, af kr. 168.418,- frá 10. mars 2002 til 10. apríl 2002, af kr. 184.568,- frá 10. apríl 2002 til 10. maí 2002, af kr. 200.718,- frá 10. maí 2002 til 10. júní 2002, af kr. 217.319,- frá 10. júní 2002 til 10. júlí 2002, af kr. 230.219,- frá 10. júlí 2002 til 10. ágúst 2002, af kr. 243.619,- frá 10. ágúst 2002 til 10. september 2002 og af kr. 257.270,- frá 10. september 2002 til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 120.000 krónur í málskostnað.