Hæstiréttur íslands
Mál nr. 668/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slit
- Kröfulýsing
- Verðbréfaviðskipti
- Afleiðusamningur
|
|
Mánudaginn 27. október 2014. |
|
Nr. 668/2014.
|
Gunnar Magnússon (Kristján Stefánsson hrl.) gegn Dróma hf. (enginn) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kröfulýsing. Verðbréfaviðskipti. Afleiðusamningur.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna kröfu, sem G hafði lýst við slit F hf. Byggði G kröfu sína á því að undir slitum F hf. hefði slitastjórn gengið að innstæðu á bankareikningi hans til fullnustu kröfu á hendur honum, sem reist hefði verið á ólögmætum samningi. Vísaði G m.a. til þess að starfsheimildir F hf. hefðu verið takmarkaðar við viðskipti fyrir eigin reikning á grundvelli starfsleyfis sem honum hefði verið veitt. Taldi Hæstiréttur að þótt gögn málsins gæfu til kynna að starfsheimildir F hf. hefðu verið þessum takmörkunum háðar og viðskiptin sem um ræddi, hefðu ekki getað talist vera fyrir eigin reikning, væri ekki að finna í lögum nr. 161/2002 fyrirmæli um hvaða áhrif slíkt hefði á skuldbindingargildi löggernings sem fjármálafyrirtæki hefði staðið að. Hefði G ekki byggt á því í þessu sambandi að samningurinn sem um ræddi væri ógildanlegur með vísan til ákvæða III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða ólögfestum reglum fjármunaréttar um ógildingu samninga. Þótt það gæti varðað fjármálafyrirtæki eða starfsmenn þess viðurlögum samkvæmt XIV. kafla laga nr. 161/2002 að standa að löggerningi, sem ekki væri starfsheimild til, hefði það eitt engar sjálfgefnar afleiðingar á rétt þess til að krefjast efnda á honum. Eins og málatilbúnaði G var háttað gæti framangreint ekki leitt til að krafa hans yrði tekin til greina. Þá féllst Hæstiréttur ekki á með G að kröfu hans skyldi taka til greina þar sem það hefði ekki verið á hans færi sem almenns fjárfestis að gera framvirkan samning um gjaldmiðlaskipti og að F hf. hefði ekki farið að ákvæðum laga nr. 108/2007 við veitingu upplýsinga um eðli viðskiptanna og áhættu af þeim eða við mat á því hvort þau hæfðu honum. Vísaði Hæstiréttur til þess að engar reglur væri að finna í lögum nr. 108/2007 um skuldbindingargildi eða ógildingu samninga ef einhverjir annmarkar hefðu verið á undirbúningi eða framkvæmd tiltekinna viðskipta. Taldi Hæstiréttur jafnframt að málsástæður G um að af þessum sökum væri samningurinn ógildanlegur væru of seint fram komnar. Að framangreindu virtu taldi Hæstiréttur að bankanum hefði hvorki verið óheimilt að taka til sín eign G til uppgjörs á skuld hans í skjóli handveðréttar né hefði það bakað bankanum skaðabótaskyldu að neyta þeirrar heimildar. Var niðurstaða héraðsdóms um að hafna viðurkenningu krafna G því staðfest.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. október 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2014, þar sem hafnað var að viðurkenna kröfur, sem sóknaraðili hafði lýst við slit Frjálsa hf. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að við slitin verði viðurkennd annars vegar krafa sín að fjárhæð 13.313.089 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 og hins vegar krafa að fjárhæð 1.597.571 króna með stöðu samkvæmt 110. gr. sömu laga. Til vara krefst hann þess að við slitin verði viðurkennd krafa sín að fjárhæð 14.910.660 krónur með stöðu í réttindaröð samkvæmt síðastnefndu lagaákvæði. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.
I
Samkvæmt gögnum málsins virðist sóknaraðili hafa lagt drög að því að stofna til verðbréfaviðskipta við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. 22. febrúar 2008 með því að fylla út eyðublað, sem ætlað var bankanum til að leggja mat á hæfi hans til slíkra viðskipta. Meðal þess, sem þar kom fram, var að sóknaraðili teldi sig áhættusækinn með því að hann væri reiðubúinn til að taka talsverða áhættu í fjármálum gegn kosti á mikilli ávöxtun, árlegar launatekjur hans væru á bilinu 2.000.000 til 5.000.000 krónur og fjármagnstekjur 5.000.000 til 10.000.000 krónur, hann ætti innan við 5.000.000 krónur á bankareikningum, en fasteignir að andvirði 50.000.000 til 100.000.000 krónur. Hann hefði litla reynslu af viðskiptum með gjaldmiðla, reynslu í meðallagi af framvirkum samningum með gjaldmiðla, en mikla reynslu af lánum í erlendri mynt. Hann hefði hvorki menntun, sem máli skipti á þessu sviði, né starfsreynslu hjá fjármálafyrirtækjum. Á þessum grunni var sóknaraðili sama dag metinn af bankanum sem almennur fjárfestir, sem hann samþykkti með sérstakri yfirlýsingu, ásamt því að staðfesta að hann hafi fengið afhenta almenna markaðsskilmála bankans og gengist undir þá.
Sóknaraðili gerði 25. febrúar 2008 lánssamning við Frjálsa fjárfestingarbankann hf., þar sem kveðið var á um að hann tæki að láni jafnvirði 7.000.000 króna, en skuldin, sem bæri að endurgreiða 20. febrúar 2009 með LIBOR vöxtum ásamt 3,95% álagi, yrði að 60% í svissneskum frönkum og 40% í japönskum jenum. Sóknaraðili kveður 5.000.000 krónur af þessu lánsfé hafa verið ráðstafað inn á reikning sinn nr. 1155-15-42416 hjá svonefndum Netbanka, sem mun hafa verið á vegum Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis hf. Í framhaldi af þessu gerði sóknaraðili 27. febrúar 2008 samning við bankann um gjaldmiðlaskipti. Samkvæmt samningnum átti sóknaraðili á lokadegi hans 2. mars 2009 að greiða bankanum 753.975 svissneska franka gegn því að bankinn greiddi sér 50.000.000 krónur, en greiðslur hvors um sig áttu að mætast og mismunurinn einn að koma til útborgunar. Kveðið var á um að sóknaraðili legði fram 5.000.000 krónur sem tryggingu fyrir viðskiptunum og yrði sú fjárhæð á reikningi, sem stæði bankanum að handveði, en sami reikningur yrði notaður til uppgjörs á viðskiptunum. Í samræmi við þetta undirritaði sóknaraðili 27. febrúar 2008 yfirlýsingu um að bankanum væri sett að handveði innstæða á áðurnefndum reikningi nr. 1155-15-42416 til tryggingar efndum á skuldbindingum sóknaraðila samkvæmt samningnum um gjaldmiðlaskipti, svo og að bankanum væri heimilt að ganga að þessari tryggingu án fyrirvara eða tilkynninga. Samhliða þessu undirritaði sóknaraðili svonefnda áhættuyfirlýsingu, þar sem tekið var fram að hann gerði sér grein fyrir því að samningurinn um gjaldmiðlaskipti fæli í sér „töluvert mikla áhættu“ fyrir sig, sem stafaði af því að breytingar á gengi gjaldmiðlanna hefðu áhrif á hagnað eða tap af samningnum. Þá sagði einnig: „Ég geri mér að fullu grein fyrir því að þeir peningar sem ég lagði inn sem tryggingu fyrir þessum samningi geti að fullu tapast og áskil ég mér engan rétt til þess að eiga kröfu á Frjálsa fjárfestingarbankann hf. vegna þessa.“ Af gögnum málsins verður ráðið að sóknaraðili hafi með bréfi 9. febrúar 2009 komið því á framfæri við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. að hann teldi alvarlega misbresti hafa verið á því að bankinn fullnægði skyldum sínum samkvæmt lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti þegar stofnað var til framangreindra gjaldmiðlaskipta. Þessu mótmælti bankinn í bréfi til sóknaraðila 23. sama mánaðar.
Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. gerði skriflegt uppgjör vegna samningsins um gjaldmiðlaskipti, þar sem fram kom að á lokadegi hans 2. mars 2009 hafi sóknaraðili staðið í skuld að fjárhæð 14.840.169 krónur. Virðist óumdeilt í málinu að þann dag hafi innstæða á fyrrnefndum reikningi, sem stóð að handveði vegna viðskiptanna, numið 11.631.329 krónum, en ekki liggur fyrir hvernig sú innstæða hafi myndast umfram þær 5.000.000 krónur, sem áður var getið. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 21. mars 2009 var innstæðum hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis hf. ráðstafað til Nýja Kaupþings banka hf., sem nú ber heitið Arion banki hf. Við það mun umræddur reikningur sóknaraðila hafa flust til þess banka og fengið þar númerið 0344-13-042416.
Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. var tekinn til slita 23. júní 2009 og honum skipuð slitastjórn, sem gaf út innköllun til skuldheimtumanna. Á kröfulýsingarfresti lýsti þáverandi lögmaður sóknaraðila kröfum 21. október 2009, sem í meginatriðum lutu að endurgreiðslu fjár, sem sóknaraðili teldi sig hafa ofgreitt vegna skuldbindinga sem virðast hafa verið bundnar við gengi erlendra gjaldmiðla. Í kröfulýsingunni var þó einnig tekið fram að „kröfu í handveð, er lýst skv. 109. og eða 111. gr. laga nr. 21/1991 sem kröfu utan skuldaraðar eða sem veðkröfu og er krafist afhendingar á bankainnistæður, kr. 11.361.955 ... sem er að fullu eign kröfuhafa inni á bankareikn. kröfuhafa 344-13-42416.“ Af skrá slitastjórnar um lýstar kröfur á hendur bankanum verður ráðið að öllum kröfum sóknaraðila hafi verið hafnað. Þessari afstöðu slitastjórnarinnar virðist hafa verið mótmælt og ekki tekist að jafna ágreining um kröfur sóknaraðila, en með bréfi til lögmannsins 25. nóvember 2009 tilkynnti slitastjórnin að hún hygðist vísa ágreiningi um þær til héraðsdóms 18. desember sama ár. Áður en til þess kom beindi lögmaðurinn orðsendingu 17. desember 2009 til slitastjórnarinnar, þar sem óskað var eftir fundi um kröfur sóknaraðila og tekið fram að þess væri farið á leit að ágreiningi um þær yrði „alls ekki“ vísað til héraðsdóms eins og slitastjórnin hafi ætlað. Ekki virðist hafa orðið af fundi um þetta efni. Slitastjórnin sendi bréf til þáverandi lögmanns sóknaraðila 16. maí 2011, þar sem boðað var til fundar 31. sama mánaðar og tekið fram að yrði ekki mætt til hans yrði „litið svo á að fallið sé frá mótmælum við afstöðu slitastjórnar“. Svo virðist sem hvorki hafi þessu bréfi verið svarað né að mætt hafi verið til fundarins af hálfu sóknaraðila.
Í bréfi Frjálsa Fjárfestingarbankans hf., sem þá virðist hafa fengið heitið Frjálsi hf., til sóknaraðila 23. október 2012 var vísað til þess að hann hafi gert kröfu um að innstæða á reikningi nr. 0344-13-042416 yrði afhent sér. Þeirri kröfu væri hafnað, þar sem innstæðan hafi verið háð handveðrétti og gengið hafi verið að henni 2. mars 2009 vegna skuldar sóknaraðila samkvæmt gjaldmiðlaskiptasamningnum frá 27. febrúar 2008, sem ekki væri enn að fullu greidd.
Sóknaraðili lýsti 19. febrúar 2013 kröfu á hendur Frjálsa hf. um greiðslu á 13.313.089 krónum auk 1.597.571 krónu vegna innheimtukostnaðar. Sagði meðal annars í kröfulýsingunni að fjárhæð höfuðstóls kröfunnar hafi 21. janúar 2013 verið færð af reikningi sóknaraðila nr. 0344-13-042416 inn á tiltekinn reikning Frjálsa hf. Frjálsi hf. hafnaði þessari kröfu með bréfi 11. mars 2013. Viðleitni til að leysa ágreining um kröfuna bar ekki árangur og beindi Frjálsi hf. honum 21. júní 2013 til Héraðsdóms Reykjavíkur, þar sem mál þetta var þingfest af því tilefni 27. september sama ár.
II
Fyrir liggur að Héraðsdómur Reykjavíkur staðfesti 17. desember 2013 nauðasamning fyrir Frjálsa hf. Samkvæmt því, sem segir í hinum kærða úrskurði, var því lýst yfir við munnlegan flutning málsins í héraði 1. september 2014 að félagið hafi verið sameinað Dróma hf., sem hafi af þeim sökum tekið við aðild að því. Í dómaframkvæmd Hæstaréttar hefur verið gengið út frá því að máli, sem beint er til héraðsdóms samkvæmt 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki með síðari breytingum til að fá leyst úr ágreiningi um viðurkenningu kröfu á hendur slíku fyrirtæki meðan slit þess standa enn yfir, verði lokið eftir reglum 5. þáttar laga nr. 21/1991 þótt slitum ljúki undir rekstri málsins með því að fyrirtækið geri nauðasamning, sbr. meðal annars dóma réttarins 25. nóvember 2010 í máli nr. 620/2010 og 20. mars 2014 í máli nr. 724/2013. Þótt Frjálsi hf. hafi samkvæmt framansögðu síðan verið sameinaður varnaraðila, sem ekki er til slita eftir reglum XII. kafla laga nr. 161/2002, verður að fara á sama veg með mál þetta.
Varnaraðili hefur meðal annars borið fyrir sig að hafna beri kröfu sóknaraðila í máli þessu með því að henni hafi áður verið haldið fram í fyrrnefndri kröfulýsingu hans 21. október 2009, en kröfunni hafi í framhaldi af því verið hafnað svo að bindandi sé fyrir hann. Eins og áður greinir var þess meðal annars krafist með óljósum hætti í fyrri kröfulýsingu sóknaraðila að honum yrði afhent innstæða á bankareikningnum, sem um ræðir í málinu, en annað var þar ekki tekið fram en að hún næmi tiltekinni fjárhæð, sem háð væri handveðrétti, og var frekari atvika í engu getið eða rök færð fyrir þeirri kröfu. Í máli þessu byggir sóknaraðili á hinn bóginn á því að undir slitum Frjálsa fjárfestingarbankans hf. hafi slitastjórn gengið að innstæðunni til fullnustu kröfu á hendur sóknaraðila, sem reist hafi verið á samningi sem hafi verið „ólögmætur“, svo sem komist var að orði í greinargerð hans í héraði. Með því hafi slitastjórnin tekið til sín eign sóknaraðila, sem hann geti nú krafist að fá í hendur eftir 109. gr. laga nr. 21/1991, eða stofnað til skaðabótakröfu á hendur Frjálsa fjárfestingarbankanum hf., sem standi í réttindaröð við slitin samkvæmt 3. tölulið 110. gr. sömu laga. Ekki verður litið svo á að þetta sé sama krafa og getið var í kröfulýsingu sóknaraðila 21. október 2009, en samkvæmt 4. og 5. tölulið 118. gr. laga nr. 21/1991 er unnt að gera kröfu, sem nyti stöðu í réttindaröð eftir framangreindum ákvæðum, óháð því að kröfulýsingarfresti sé lokið. Kröfu sóknaraðila verður því ekki hafnað á þessum grunni.
Sóknaraðili hefur reist kröfu sína meðal annars á þeirri málsástæðu að í starfsleyfi, sem Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. naut, hafi verið tiltekið samkvæmt 2. mgr. 6. gr. laga nr. 161/2002 að starfsheimildir hans tækju meðal annars til þeirra þátta, sem getið væri í 7. tölulið 1. mgr. 20. gr. sömu laga, en þó „fyrir eigin reikning eingöngu“, svo sem tekið var fram í tölvubréfi Fjármálaeftirlitsins til sóknaraðila 2. maí 2013. Samkvæmt c. lið síðastnefnds lagaákvæðis geti fjármálafyrirtæki notið heimildar til viðskipta fyrir eigin reikning eða fyrir viðskiptavini með framvirka samninga, en til þeirra heyri meðal annars gjaldmiðlaskiptasamningar eins og sá, sem sóknaraðili gerði við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. 27. febrúar 2008. Þann samning hafi bankinn ekki gert fyrir eigin reikning, sem starfsheimildir hans hafi í þessum efnum verið bundnar við. Um þetta verður að gæta að því að þótt fyrirliggjandi gögn um starfsheimildir Frjálsa fjárfestingarbankans hf. gefi til kynna að þær hafi verið þessum takmörkunum háðar og viðskiptin, sem málið varðar, geta ekki talist hafa verið fyrir eigin reikning bankans í skilningi 7. töluliðar 1. mgr. 20. gr. laga nr. 161/2002 er ekki að finna í þeim lögum fyrirmæli um hvaða áhrif slíkur heimildarbrestur geti haft á skuldbindingargildi löggernings, sem fjármálafyrirtæki hefur staðið að. Sóknaraðili hefur ekki í málatilbúnaði sínum byggt á því að samningurinn frá 27. febrúar 2008 sé ógildanlegur vegna þessa samkvæmt einhverju nánar tilgreindu ákvæði III. kafla laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga eða ólögfestum reglum fjármunaréttar um ógildingu samninga, heldur hefur hann þess í stað borið því einu við að samningurinn hafi af þessum sökum verið ólögmætur. Þótt það geti varðað fjármálafyrirtæki eða starfsmenn þess viðurlögum samkvæmt XIV. kafla laga nr. 161/2002 að standa að löggerningi, sem fyrirtækið brestur starfsheimild til, hefur það eitt út af fyrir sig engar sjálfgefnar afleiðingar á rétt þess til að krefjast efnda á honum úr hendi viðsemjanda síns. Eins og málatilbúnaði sóknaraðila er samkvæmt þessu háttað getur sá brestur á starfsheimildum Frjálsa fjárfestingarbankans hf., sem hér um ræðir, ekki leitt til þess að krafa hans verði tekin til greina.
Eins og nánar greinir í hinum kærða úrskurði hefur sóknaraðili reist kröfu sína að öðru leyti á málsástæðum, sem snúa einkum að því að ekki hafi verið á færi hans sem almenns fjárfestis að gera framvirkan samning um gjaldmiðlaskipti og að Frjálsi fjárfestingarbankinn hf. hafi ekki farið að ákvæðum laga nr. 108/2007 við veitingu upplýsinga til sóknaraðila um eðli viðskipta þeirra og áhættu af þeim eða við mat á því hvort þau hæfðu honum. Um þessar málsástæður sóknaraðila verður að líta til þess að í lögum nr. 108/2007 eru engar reglur um skuldbindingargildi eða ógildingu samninga fjármálafyrirtækis við viðskiptavin ef einhverjir þeir annmarkar hafa verið á undirbúningi eða framkvæmd viðskipta þeirra, sem sóknaraðili heldur fram að hér hafi orðið, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar 24. janúar 2011 í máli nr. 638/2010. Sóknaraðili hélt því hvorki fram fyrir héraðsdómi né í kæru til Hæstaréttar að samningur sinn við Frjálsa fjárfestingarbankann hf. frá 27. febrúar 2008 væri ógildanlegur af þessum sökum. Var þessu fyrst borið við í greinargerð hans til réttarins en málsástæður á þessum grunni eru of seint fram komnar sbr. 163. gr. laga nr. 91/1991. Þegar af þeirri ástæðu getur það hvorki hafa talist bankanum óheimilt að taka til sín eign sóknaraðila til uppgjörs á skuld hans í skjóli handveðréttar né bakað bankanum skaðabótaskyldu að neyta þeirrar heimildar.
Samkvæmt öllu framangreindu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest um annað en málskostnað, en rétt er að málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður falli niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2014.
Máli þessu, sem er ágreiningsmál við slitameðferð Frjálsa hf. (áður Frjálsa Fjárfestingarbankans hf.), var beint til dómsins með bréfi slitastjórnar 21. júní 2013, sem móttekið var 26. sama mánaðar. Við aðalmeðferð málsins upplýsti lögmaður varnaraðila að Frjálsi hf. hefði varið sameinaður Dróma hf. undir nafni hins síðarnefnda. Breyttist aðild málsins því til samræmis.
Um lagagrundvöll vísaði slitastjórn til 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Málið var tekið til úrskurðar mánudaginn 1. september sl.
Sóknaraðili er Gunnar Magnússon, Álfkonuhvarfi 33, Kópavogi, en varnaraðili er Drómi hf., Lágmúla 6, Reykjavík.
Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennd verði sértökukrafa hans við slitameðferð varnaraðila, skv. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. að fjárhæð 13.313.089 krónur og búskrafa hans að fjárhæð 1.597.571 króna. Til vara að viðurkennd verði búskrafa sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila, skv. 110. gr. laga nr. 21/1991 að fjárhæð 14.910.660 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar.
Varnaraðili krefst sýknu og málskostnaðar.
I
Varnaraðili máls þessa er fjármálafyrirtæki í slitameðferð skv. lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Var varnaraðila skipuð slitastjórn skv. 101. gr. fyrrnefndu laganna 23. júní 2009. Innköllun var gefin út vegna slitameðferðarinnar og rann kröfulýsingarfrestur út 22. október 2009.
Sóknaraðili lýsti kröfu sinni 19. febrúar 2013, en henni var hafnað af slitastjórn varnaraðila vegna vanreifunar 11. mars sama ár. Mun sóknaraðila hafa verið gefinn kostur á að rökstyðja kröfu sína frekar og gerði hann það með bréfi 7. maí 2013. Kröfunni var hafnað að nýju með bréfi slitastjórnar 5. júní 2013. Mótmælti sóknaraðili þeirri afstöðu og var haldinn fundur 18. júní 2013 til að freista þess að jafna ágreining aðila. Þar sem sá fundur reyndist árangurslaus var málinu vísað til dómsins með bréfi 26. sama mánaðar.
Málavextir eru þeir að sóknaraðili gerði samning við varnaraðila um gjaldmiðlaskipti í febrúar 2008 og er samningurinn dagsettur 27. dag þess mánaðar. Hann gerði og samning um handveð í innstæðu á reikningi og undirritaði svokallaða áhættuyfirlýsingu og eru bæði þessi skjöl dagsett þann sama dag. Einnig liggur fyrir í málinu skjal sem ber yfirskriftina „mat á hæfi viðskiptavinar“ og er skjalið undirritað af sóknaraðila. Þá hefur sóknaraðili undirritað almenna markaðsskilmála Frjálsa Fjárfestingarbankans þar sem hann er skilgreindur sem almennur fjárfestir. Umrædd skjöl eru dagsett 22. febrúar 2008. Sóknaraðili byggir á því að þessi skjöl séu rangt dagsett og hann hafi ekki undirritað þau á ofangreindum dagsetningum.
Efni framangreinds samnings um gjaldmiðlaskipti var í stórum dráttum það að sóknaraðili lofaði að greiða varnaraðila 753.975 svissneska franka á lokadegi samnings, 2. mars 2009, gegn móttöku á 50.000.000 krónum frá varnaraðila. Var kveðið á um að á umræddum degi kæmu framangreindar greiðslur hvor á móti annarri þannig að mismunur þeirra kæmi til uppgjörs í krónum. Þá er kveðið á um að sóknaraðili leggi fram 5.000.000 krónur til tryggingar á efndum samningsins. Samhliða var ritað undir handveðsyfirlýsingu þar sem sóknaraðili setti innstæðu á tilteknum reikningi í Netbankanum að handveði til tryggingar efndum á samningum við varnaraðila um gjaldmiðlaskipti. Framangreindi trygging mun hafa verið lögð inn á nefndan reikning.
Af gögnum málsins má ráða að við uppgjör samningsins 2. mars 2009 hafi varnaraðili talið skuld sóknaraðila samkvæmt samningnum nema 14.840.169 krónur. Óumdeilt er í málinu að varnaraðili leysti til sín innstæðu á hinum handveðsetta bankareikningi 21. janúar 2013 að fjárhæð 13.313.089 krónur.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort varnaraðila hafi verið rétt og heimilt að leysa til sín umrætt handveð. Byggir sóknaraðili einkum á því að samningsgerð varnaraðila við hann hafi verið utan starfsleyfis varnaraðila og einnig hafi verið um að ræða samning sem hafi verið áhættusamari en svo að hæfði sóknaraðila sem almennum fjárfesti. Byggir sóknaraðili á að það hafi verið saknæm háttsemi af hálfu varnaraðila að leysa til sín umrætt handveð þar sem það hafi átt að tryggja efndir á ólögmætum samningi.
Af hálfu varnaraðila er einkum byggt á því að sóknaraðili hafi áður lýst sömu kröfu sem hafi þá verið hafnað og sú niðurstaða sé því endanleg við slitameðferð varnaraðila. Þá byggir hann og á því að krafan sé fallin niður fyrir tómlæti. Að auki telur varnaraðili að samningur aðila hafi verið innan starfsleyfis hans og að réttra reglna hafi verið gætt við mat á hæfi sóknaraðila til að gera samninginn. Séu því engar forsendur í málinu til að telja samninginn óskuldbindandi fyrir sóknaraðila. Þá telur varnaraðili kröfu sóknaraðila vanreifaða.
II
Sóknaraðili kveðst byggja málsástæður sínar annars vegar á sjónarmiðum skiptaréttar um séreignarkröfur og hins vegar um búskröfur. Málsástæður og málsatvik séu hin sömu. Kveðst sóknaraðili byggja á að aðgerðir varnaraðila 21. janúar 2013 varði hann ábyrgð á grundvelli sakarreglu skaðabótaréttarins. Ennfremur kveðst hann byggja á reglum um vinnuveitendaábyrgð og sérfræðiábyrgð. Samningur sá sem legið hafi til grundvallar innlausnar umrædds handveðs hafi verið ólögmætur og hafi ekki getað verið grundvöllur fjárkröfu á hendur sóknaraðila. Ákvörðun varnaraðila um að leysa veðið til sín hafi valdið sóknaraðila fjártjóni.
Um viðskipti aðila hafi gilt lög nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Þá hafi lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki gilt um starfsemi varnaraðila.
Kveðst sóknaraðili byggja á því að starfsmenn varnaraðila hafi ekki metið hæfi hans réttilega. Þeir hafi átt frumkvæði að umræddum viðskiptum sem hafi verið langt umfram getu sóknaraðila. Þá hafi viðskiptin verið áhættusamari en hann hafi verið í stakk búinn til að gera sér grein fyrir. Starfsmenn varnaraðila hafi ekki kynnt sóknaraðila raunverulega áhættu að baki samningnum, eða víðtækari ábyrgð á honum, umfram innstæðu á handveðsettum reikningi. Hafi varnaraðili ekki komið fram í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, eins og áskilið sé í 19. gr. laga nr. 161/2002. Varnaraðili hafi haft frumkvæði að viðskiptunum og hafi vitað eða mátt vita að þau hafi verið umfram það sem hæfilegt gæti talist með tilliti til þekkingar og reynslu sóknaraðila. Kveðst sóknaraðili byggja á því að hann hefði ekki átt í viðskiptunum hefði honum verið kynnt áhættan af þeim og telur varnaraðila hafa brugðist upplýsingaskyldu sinni skv. lögum nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti. Einnig hafi varnaraðila ekki verið heimilt að bjóða sóknaraðila framvirkan samning um gjaldmiðlaskipti vegna flokkunar hans sem almenns fjárfestis. Sóknaraðili byggir á að varnaraðili hafi ekki haft starfsleyfi til að eiga í framvirkum gjaldeyrissamningum fyrir reikning viðskiptavina sinna. Framvirkir gjaldmiðlasamningar teljist til afleiðusamninga. Hafi varnaraðili hvorki haft starfsleyfi til slíkra viðskipta né hafi það verið á færi sóknaraðila sem almenns fjárfestis að taka þátt í slíkum viðskiptum. Við undirritun samnings hafi varnaraðili starfað á grundvelli staðfestrar starfsheimildar Fjármálaeftirlitsins frá 16. ágúst 2007. Hafi starfsheimildir varnaraðila náð til b. liðar 1. tl. og 3. tl., 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002, sem og 1., 2., 3., 5., 6., 7. og 13. tl. 1. mgr. 20. gr. laganna. Heimild varnaraðila skv. 7. tl. 1. mgr. 20. gr. laganna hafi á umræddum tíma aðeins náð til viðskipta fyrir eigin reikning en ekki fyrir viðskiptavini.
Framvirkir samningar falli undir d-lið 2. tl. 1. mgr. 2. gr. laga nr. 108/2007. Slíkir samningar teljist til flókinna fjármálagerninga og krefjist þekkingar sem sóknaraðili hafi ekki búið yfir. Hann hafi verið flokkaður sem almennur fjárfestir og hafi því ekki haft stöðu, samkvæmt starfsreglum varnaraðila sjálfs um flokkun viðskiptamanna, til að eiga í umræddum viðskiptum. Bendir sóknaraðili og á að nefndar starfsreglur hafi ekki verið lagðar inn hjá Fjármálaeftirlitinu eins og skylt sé.
Telur sóknaraðili að með hliðsjón af framangreindu sé ljóst að samningur um gjaldmiðlaskipti standist ekki skilyrði laga um verðbréfaviðskipti eða laga um fjármálafyrirtæki. Þá hafi varnaraðili ekki fylgt þeirri stefnu sem hann hafi markað sér, eins og lögboðið sé, í viðskiptum við sóknaraðila sem almennan fjárfesti. Telur sóknaraðili ljóst að varnaraðila sé ekki stætt á því að sækja kröfur á grundvelli umrædds samnings.
Sóknaraðili kveðst alfarið hafna sjónarmiðum varnaraðila um að kröfu hans hafi áður verið lýst. Þá kveðst hann og hafna því að hafa sýnt af sér tómlæti. Kveðst hann hafa brugðist við um leið og varnaraðili hafi tekið til sín innstæðu á bankareikningi hans. Þá hafi sóknaraðili um árabil átt í ágreiningi við varnaraðila og hafi gert margítrekaðar tilraunir til að útkljá þann ágreining og hafi hann haldið fram rétti sínum með virkum hætti.
Um aðalkröfu sína vísar sóknaraðili til þess að hann geri kröfu um afhendingu fjármuna, enda teljist þeir nægilega sérgreindir í kröfulýsingu svo verða megi við kröfunni. Sé kröfunni lýst sem sértökukröfu á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Innstæður sóknaraðila teljist til eignar hans og séu sérgreindar í fórum varnaraðila. Sá hluti aðalkröfu hans sem teljist innheimtukostnaður sé fjártjón sóknaraðila sem hlotist hafi af innheimtu kröfunnar hjá slitastjórn.
Um varakröfu vísar sóknaraðili til þess að um sé að ræða búskröfu á grundvelli 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991. Byggi krafan á því að aðgerðir slitastjórnar varði hana skaðabótum á grundvelli almennu sakarreglunnar, með sérstakri hliðsjón af sjónarmiðum skaðabótaréttarins um sérfræðiábyrgð.
Þá vísar sóknaraðili til þess varðandi málskostnaðarkröfu að taka þurfi tillit til þess að hann hafi ekki með höndum virðisaukaskattskylda starfsemi og því verði að horfa til skyldu til greiðslu slíks skatts við ákvörðun málskostnaðar honum til handa.
Sóknaraðili vísar til almennra reglna skaðabótaréttar, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti.
III
Varnaraðili kveðst byggja á því að umræddri kröfu sóknaraðila hafi áður verið lýst með kröfulýsingu 21. október 2009. Kröfunni hafi þá verið hafnað vegna vanreifunar og hafi sú afstaða slitastjórnar orðið bindandi þegar sóknaraðili hafi ekki sinnt fundarboði þar sem fjalla átti um ágreining um kröfuna, enda hafi áður verið fallið frá því að senda málið héraðsdómi til úrlausnar að ósk lögmanns sóknaraðila. Í tengslum við framangreind sjónarmið byggir varnaraðili einnig á því að sóknaraðili hafi sýnt af sér tómlæti við að halda fram kröfu sinni í þeim mæli að leiða eigi til þess að henni verði hafnað teljist hún ekki fallin niður af framangreindum ástæðum.
Þá byggir varnaraðili á því að sóknaraðili eigi ekki rétt til kröfu sinnar skv. reglum laga um gjaldþrotaskipti. Verði ekki séð að um sértökukröfu geti verið að ræða á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991 þar sem innstæða sú er deilt sé um hafi legið í vörslum Arion banka hf. en ekki varnaraðila. Þá sé einnig ljóst að eftir að gengið hafi verið að veðinu hafi fjármunirnir ekki lengur verið sérgreindir og hafi skilyrði sértökukröfu því heldur ekki verið uppfyllt eftir að varnaraðili hafi gengið að veðinu. Engin fordæmi séu fyrir því að innstæða teljist sértökukrafa.
Þá sé grundvöllur búskröfunnar hvergi útskýrður í kröfulýsingunni. Á fundi sem haldinn hafi verið til að fjalla um afstöðu varnaraðila til kröfunnar hafi því verið haldið fram að varnaraðila hafi verið óheimilt að ganga að veði sem lagt hafi verið til tryggingar „ólögmæts samnings“ og því hafi stofnast búskrafa á grundvelli 3. tl. 110. gr. laga nr. 21/1991 gagnvart varnaraðila við töku veðsins. Í greinagerð færi sóknaraðili fram þau rök að sú athöfn varnaraðila að ganga að handveðinu 21. janúar 2013 hafi verið saknæm í skilningi skaðabótaréttarins. Samningur að baki handveðinu hafi verið ólögmætur og því hafi verið saknæmt að ganga að veðinu. Til stuðnings ætluðu ólögmæti samningsins byggi sóknaraðili á því að varnaraðili hafi ekki metið hæfi sóknaraðila, varnaraðili hafi átt frumkvæði að viðskiptunum og þau hafi verið langt umfram getu hans eða hæfi til að meta áhættuna af viðskiptunum. Þá hafi varnaraðili ekki kynnt sóknaraðila áhættuna af viðskiptunum.
Varnaraðili kveðst hafna þessum sjónarmiðum sóknaraðila. Fyrir hafi legið gildur handveðssamningur til tryggingar skuldbindingum sóknaraðila sem hann hafi vanefnt og slitastjórn varnaraðila hafi enga ástæðu haft til að ætla að væri haldinn ógildingarannmörkum. Þær ósönnuðu mótbárur sóknaraðila að hann hafi verið beittur þrýstingi og blekkingum við gerð samningsins af hálfu starfsmanns varnaraðila séu allar síðar til komnar. Saknæmisskilyrði séu því ekki uppfyllt, jafnvel þótt fullyrðingar sóknaraðila ættu við rök að styðjast.
Þegar litið sé til fyrirliggjandi skjala sé augljóst að fullyrðingar sóknaraðila fái ekki staðist. Honum hafi skilmerkilega verið kynnt áhættan af viðskiptunum og hafi undirritað yfirlýsingu þess efnis sem liggi fyrir í málinu. Þá hafi sóknaraðili undirritað almenna markaðsskilmála og kveðst varnaraðili vísa til 20. gr. þeirra, liða a, c, d og g. Sóknaraðili hafi einnig skilgreint sig sem áhættusækinn fjárfesti í skriflegu mati á hæfi viðskiptavinar sem liggi fyrir í málinu.
Sóknaraðili hafi réttilega verið flokkaður sem almennur fjárfestir af varnaraðila. Það sé hins vegar rangt hjá sóknaraðila að sú flokkun hafi komið í veg fyrir að sóknaraðili gæti gert umþrættan gjaldmiðlaskiptasamning við varnaraðila. Varnaraðila hafi hins vegar borið að vekja athygli sóknaraðila á áhættunni sem falist hafi í viðskiptunum og það hafi hann gert. Sóknaraðili hafi ekki sýnt fram á að hann hafi skort skilning á áhættunni þannig að varðað geti ógildingu skuldbindingar hans. Vísi varnaraðili hér til hliðsjónar til dóms Hæstaréttar í máli nr. 638/2010 en þar hafi rétturinn hafnað því að röng flokkun viðskiptamanns gæti leitt til ógildingar samnings um virka gjaldmiðlastýringu og stöðutöku af þeirri ástæðu einni.
Sóknaraðili fullyrði í greinargerð sinni að varnaraðila hafi verið óheimilt að stunda viðskipti sem þessi, þar sem starfsleyfi varnaraðila hafi einungis náð til þess að eiga viðskipti fyrir eigin reikning, en ekki fyrir viðskiptavini. Þarna gæti misskilnings af hálfu sóknaraðila þar sem umrædd viðskipti hafi einmitt verið viðskipti fyrir eigin reikning varnaraðila, þar sem varnaraðili hafi sjálfur verið mótaðili sóknaraðila í viðskiptunum.
Varnaraðili kveðst sérstaklega mótmæla kröfu sóknaraðila um innheimtuþóknun með vísan til þess að hún sé óf há og auk þess órökstudd. Þá kveðst varnaraðili hafna stöðu kröfunnar sem búskröfu. Hafi upphaflegur lögmaður sóknaraðila réttilega lýst kröfunni sem eftirstæðri kröfu.
Varnaraðili kveðst vísa til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti og meginreglna samningaréttar um skuldbindingargildi samninga.
IV
Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að hafna beri kröfu sóknaraðila þar sem henni hafi áður verið lýst og hafnað af slitastjórn hans. Málsástæðu þessari til stuðnings hefur varnaraðili lagt fram kröfulýsingu sóknaraðila við slitameðferð varnaraðila sem dagsett er 21. október 2009. Varðar sú kröfulýsing einkum ágreining um greiðslur af lánum sem byggt var á að hefðu verið bundin ólögmætri gengistryggingu. Verður ekki séð að þar sé vikið efnislega að þeim ágreiningi sem hér er til úrlausnar þó vissulega sé þar krafist afhendingar á þeirri handveðsettu innstæðu á bankareikningi sem varnaraðili gekk að 21. janúar 2013 og þá er sögð nema 11.361.955 krónum. Liggja þegar af framangreindum ástæðum ekki fyrir dóminum nú gögn sem rennt geta fullnægjandi stoðum undir að krafa sú sem sóknaraðili hefur uppi í þessu máli sé sú sama og hann lýsti 21. október 2009. Verður kröfunni því ekki hafnað á framangreindum forsendum.
Ekki er ágreiningur um það í málinu að 21. janúar 2013 leysti varnaraðila til sín innstæðu á bankareikningi í eigu sóknaraðila að fjárhæð 13.313.089 krónur. Þá er ekki deilt um það að sú innlausn var til fullnustu vegna taps sem orðið hafði á gjaldmiðlaskiptasamningi milli aðila sem dagsettur er 27. febrúar 2008. Eins og nánar er rakið hér að framan þegar gerð var grein fyrir málsástæðum aðila byggir sóknaraðili á því í fyrsta lagi að varnaraðili hafi farið út fyrir starfsleyfi sitt þegar hann gerði umræddan samning og vísar hann til þess að varnaraðili hafi ekki haft starfsleyfi til að gera samninga fyrir reikning viðskiptavina, heldur eingöngu fyrir eigin reikning. Fallist er á með varnaraðila að málsástæður sóknaraðila í þessa veru séu haldlausar enda var samningur sá sem um ræðir milli málsaðila þessa máls og fólust þar af leiðandi ekki í honum viðskipti varnaraðila „fyrir reikning“ sóknaraðila. Er því hafnað þegar af framangreindum ástæðum að varnaraðili hafi farið út fyrir starfsleyfi sitt við gerð hins umþrætta samnings.
Í öðru lagi byggir sóknaraðili á því að gjaldmiðlaskiptasamningur eins og sá sem um ræðir í málinu sé flókinn og áhættusamur fjármálagerningur og það hafi því ekki verið á færi hans sem almenns fjárfestis að gera samninginn og einnig að varnaraðili hafi ekki gætt þess að upplýsa sóknaraðila nægilega um áhættu. Þá byggir sóknaraðili á því að dagsetningar á pappírum sem liggja fyrir í málinu undirritaðir af honum séu rangar og hann hafi í raun undirritað síðar en þar er greint.
Í málinu liggur fyrir eyðublað sem ber yfirskriftina „mat á hæfi viðskiptavinar“ sem undirritað er af sóknaraðila. Kemur þar m.a. fram að hann sé áhættusækinn og sé tilbúinn að taka talsverða áhættu í fjármálum gegn möguleikanum á því að fá mikla ávöxtun. Þá merkir sóknaraðili við að hann hafi meðalreynslu af fjármálagjörningum tengdum gengi gjaldmiðla. Umrætt eyðublað er sagt undirritað 22. febrúar 2008. Sama dagsetning undirritunar kemur fram á almennum markaðsskilmálum varnaraðila sem sóknaraðili undirritaði. Er í þeim skilmálum ítarlega fjallað um þá áhættu sem fylgir viðskiptum með fjármálagerninga. Í málinu heldur sóknaraðili því fram að umrædd skjöl hafi verið undirrituð síðar en þar greinir. Fyrir þeirri fullyrðingu hefur hann sönnunarbyrði. Liggur ekkert fyrir í málinu þessu til stuðnings utan orð sóknaraðila sjálfs og duga þau ekki til sönnunar gegn andmælum varnaraðila. Er því ekki unnt að leggja annað til grundvallar í málinu en að umrædd skjöl séu undirrituð á þeim degi sem þau sjálf greina. Á þetta einnig við um gjaldmiðlaskiptasamning aðila og fylgigögn með honum sem dagsett eru 27. febrúar 2008. Sóknaraðili ritaði undir svokallaða áhættuyfirlýsingu sama dag og samninginn og er hún sögð fylgiskjal með samningi um gjaldmiðlaskipti. Greinir þar að sóknaraðili lýsi því yfir að hann geri sér grein fyrir því að samningurinn um gjaldmiðlaskipti feli í sér töluvert mikla áhættu fyrir hann og að hann geri sér grein fyrir því að peningar sem hann hafi lagt fram sem tryggingu geti að fullu tapast.
Það er mat dómsins að ekkert komi fram í lögum sem banni fortakslaust að fjármálafyrirtæki geri flókna fjármálagerninga við viðskiptamenn sína sem flokkaðir hafa verið sem almennir fjárfestar. Á hinn bóginn er ljóst að sú skylda hvílir á fjármálafyrirtækjum að veita fullnægjandi upplýsingar til viðskiptavinar um áhættu samfara þeim viðskiptum sem kynnt eru fyrir honum og að afla sér einnig upplýsinga um viðskiptavininn þannig að það geti metið hæfi hans til að eiga í viðkomandi viðskiptum.
Í máli þessu liggur fyrir að að varnaraðili aflaði upplýsinga um hagi og þekkingu sóknaraðila og kynnti fyrir honum almenna skilmála viðskipta þar sem ítarlega var varað við áhættu samfara m.a. viðskiptum af því tagi sem hér um ræðir. Þá undirritaði sóknaraðili sérstaka áhættuyfirlýsingu sem að framan er rakin. Með hliðsjón af framangreindum gögnum, sem sóknaraðili hefur ekki hnekkt, verður talið að varnaraðili hafi upplýst sóknaraðila með fullnægjandi hætti um áhættu samfara umræddum viðskiptum og þetta hafi hann gert í kjölfar þess að hann aflaði upplýsinga um hæfi sóknaraðila og fjárhagslegan styrk. Liggur því ekki annað fyrir en að sóknaraðili hafi verið í stakk búinn til að taka upplýsta fjárfestingarákvörðun þegar hann ritaði undir hinn umdeilda samning, sbr. 1. mgr. 14. gr. laga nr. 108/2007. Hefur sóknaraðili ekki rennt nægilegum stoðum undir fullyrðingar sínar um að samningsgerð varnaraðila við hann hafi farið í bága við reglur laga nr. 108/2007 eða laga nr. 161/2002. Liggur því ekki annað fyrir en að hann sé bundinn við þann samning sem aðilar gerðu með sér 27. febrúar 2008. Að þeirri niðurstöðu fenginni er einsýnt að sóknaraðili hefur ekki fært fram röksemdir eða teflt fram gögnum sem hann með réttu getur reist á tilkall til þeirra fjármuna sem krafa hans greinir, hvorki á grundvelli eignarréttar eða skaðabótaréttar. Verður kröfum sóknaraðila hafnað þegar af framangreindum ástæðum.
Með hliðsjón af málsúrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn sú fjárhæð sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Kröfum sóknaraðila, Gunnars Magnússonar, sem hann lýsti við slitameðferð Frjálsa hf. með kröfulýsingu dags. 19. febrúar 2013, er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Dróma hf., 400.000 krónur í málskostnað.