Hæstiréttur íslands

Mál nr. 468/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómari
  • Vanhæfi


Þriðjudaginn 22

 

Þriðjudaginn 22. október 2002.

Nr. 468/2002.

Ákæruvaldið

(enginn)

gegn

X

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

 

Kærumál. Dómarar. Vanhæfi.

Héraðsdómarinn G vék sæti í máli ákæruvaldsins gegn X eftir að myndbandsupptaka úr öryggismyndavél, sem hann hafði horft á, eyðilagðist við afritun hjá lögreglu. Var í framhaldi af því ákveðið að héraðsdómur í málinu skyldi vera fjölskipaður. X krafðist þess þá að héraðsdómararnir H og P auk F, dómstjóra, vikju sæti þar sem þau væru öll samstarfsmenn G, sem hefði látið frá sér fara rökstuðning fyrir ákvörðun sinni sem fæli í sér afstöðu hans til sönnunargagna í málinu. Héraðsdómur féllst á kröfu X um að P, sem var mágur G, viki sæti, en hafnaði á hinn bóginn kröfu hans um að þau H og F vikju einnig sæti í málinu. X skaut úrskurðinum til Hæstaréttar þar sem hann krafðist þess að síðastnefndir dómarar vikju sæti í málinu. Með dómi Hæstaréttar var niðurstaða hins kærða úrskruðar staðfest að því leyti, sem hún var til endurskoðunar fyrir réttinum.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 15. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2002, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að Pétur Guðgeirsson héraðsdómari viki sæti í máli ákæruvaldsins á hendur varnaraðila, en hafnað á hinn bóginn kröfu hans um að Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari og Friðgeir Björnsson dómstjóri vikju einnig sæti í málinu. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að síðastnefndir dómarar víki sæti í málinu.

Sóknaraðili hefur ekki látið málið til sín taka fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest að því leyti, sem hún er til endurskoðunar fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. október 2002.

Við upphaf aðalmeðferðar í dag krafðist verjandi ákærða þess að fjölskipaður dómur í málinu viki sæti í heild, en til vara að meðdómandi Pétur Guðgeirsson viki sæti. Sækjandi mótmælti kröfunni. Ágreiningsefnið var þegar tekið til úrskurðar.

Forsaga krafna verjanda er að sönnunargagn í máli þessu, myndbandsspóla úr öryggismyndavél í miðbæ Reykjavíkur, þurrkaðist að mestu út við afritun hjá lögreglu eftir að dómsmeðferð málsins hófst, og eftir að þáverandi dómari málsins, Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari, sakflytjendur og ákærði höfðu horft á myndbandið í þinghaldi. Ákvað þá sá dómari að víkja sæti til að tryggt væri að alls hlutleysis yrði gætt við sönnunarmat í málinu. Við endurúthlutun fékk dómarinn sem hér úrskurðar málið til meðferðar. Vegna þeirra sérstæðu aðstæðna sem komnar voru upp við sönnunarmat ákvað hún að óska eftir því við dómstjóra að í máli þessu yrði dómurinn skipaður þremur dómurum í samræmi við 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 og var orðið við því. Meðdómendur voru valdir Friðgeir Björnsson dómstjóri og Pétur Guðgeirsson héraðsdómari.

Í tilefni af kröfu verjanda beindi dómsformaður þeirri spurningu til sakflytjenda hvort þeir hygðust leita eftir því að Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kæmi fyrir dóminn sem vitni. Hvorugur aðila kvaðst myndu fara fram á það.

Verjandi lagði fram bókun með kröfu sinni og er þar að finna svohljóðandi rökstuðningi fyrir henni:

Ákærði telur að núverandi dómendur séu allir vanhæfir til að fjalla um málið í ljósi þeirrar umfjöllunar, sem fyrri dómari, Guðjón St. Marteinsson, héraðsdómari lét frá sér fara í þinghaldinu 1. mars 2002, er hann sagði sig frá málinu. Ég tel dómarann hafa í rökstuðningi látið frá sér fara mat sitt sem dómara á sönnunargagni ákæruvaldsins, sem ekki er lengur til. Mat dómarans verður ekki skilið á annan veg en að hann samsinni málatilbúnaði ákæruvaldsins í grundvallaratriðum, þrátt fyrir að aðalmeðferð hafi þá ekki verið afstaðin. Vegna þessa telur ákærði að samstarfsmenn þessa dómara, þ.e. allir dómarar við Héraðsdóm Reykjavíkur, hljóti að teljast vanhæfir til dómarastarfa í málinu.

Þá telur ákærði að til viðbótar ofangreindum sjónarmiðum, sé meðdómarann (svo) Pétur Guðgeirsson, héraðsdómari vanhæfur til dómarastarfa í málinu, sé hann eða hafi verið mágur Guðjóns St. Marteinssonar héraðsdómara, en upplýsingar um þetta liggi fyrir í lögfræðingatali.

Við munnlegan málflutning um kröfuna vísaði verjandi til þessara raka og ennfremur til orðalags í greindum úrskurði og taldi dómarann þar tjá sig á þann hátt um sakarefnið að allir samstarfsmenn hans hlytu þar af að verða vanhæfir til meðferðar þessa máls.

Af hálfu sækjanda var því sérstaklega mótmælt hversu seint þessi krafa kæmi fram og bæri því að hafna því að hún kæmist að. Efnislega taldi sækjandi engin rök standa til þess að orð eins dómara gætu orsakað vanhæfi allra annarra dómara við sama dómstól og gæti orðalagið “önnur atvik” í g-lið 5. gr. laga nr. 91/1991 ekki átt við slík tilvik. Þá hefði því verið lýst yfir að ekki yrði óskað eftir því að fyrri dómari málsins bæri vitni, og ætti f-liður 5. gr. því ekki við að því er varðaði Pétur Guðgeirsson héraðsdómara.

Ekki verður fallist á það með sækjanda að ákærði hafi fyrirgert rétti sínum til kröfu þessarar þó seint sé fram komin.

Í þingbók máls þessa er skráður umræddur úrskurður fyrri dómara málsins um að hann víki sæti. Kemur þar skýrt fram að hann víkur sæti vegna þess að hann hefur horft á greint myndband og lagt mat á það og að með því hefur mótast afstaða hans til sakarefnisins. Greint sönnunargagn er ekki lengur til staðar í sömu mynd. Úrskurðurinn fylgir hins vegar málinu og verður því ekki breytt þótt nýir dómarar kæmu að því.

Um vanhæfi dómara í opinberu máli fer samkvæmt 5. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 6. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Héraðsdómarar þurfa iðulega í störfum sínum að takast á við verkefni sem annar hliðsettur dómari hefur komið að, svo sem þegar endurtaka þarf meðferð máls í héraði og það fengið öðrum dómara. Verður ekki á það fallist með verjanda að störf hliðsetts dómara sem fela í sér mat á gögnum eða sakarefni geri samstarfsmann sjálfkrafa vanhæfan til meðferðar sama máls. Dómarar eru sjálfstæðir og óháðir mati hvers annars í dómstörfum sínum, leysa þau af hendi á eigin ábyrgð og lúta þar aldrei boðvaldi annarra, sbr. 1. mgr. 24. gr. dómstólalaga nr. 15/1998. Krafa verjanda varðar ekki persónu eða hagsmuni fyrri dómara málsins. Engin þau atvik eru því til staðar sem valdið geta því að óhlutdrægni dómenda við sama dómstól verði dregin í efa. Er því hafnað kröfu verjanda um að dómurinn víki sæti í heild.

Í héraði er það aðalregla að einn dómari fari með mál. Sé dómur fjölskipaður gildir sú meginregla að þar sitji ekki saman dómendur sem eru nánir að skyldleika eða mægðum. Þessi meginregla er lögfest í 3. mgr. 4. gr. dómstólalaga nr. 15/1998, sbr. áður 2. mgr. 5. gr. laga nr. 75/1973 um Hæstarétt. Regla f-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991 er einnig byggð á svipuðum sjónarmiðum, þeim að þess skuli gætt að dómari máls hafi ekki náin fjölskyldutengsl við þá sem koma að máli þannig að áhrif geti haft á niðurstöðu þess. Í nefndu ákvæði er sérstaklega getið vitna, mats- og skoðunarmanna og manns sem neitar að láta af hendi sönnunargagn. Sérstök krafa hefur komið fram um það að Pétur Guðgeirsson héraðsdómari víki sæti í máli þessu vegna fjölskyldutengsla sinna við Guðjón St. Marteinsson héraðsdómara sem áður fór með málið, en þeir eru mágar. Ekki stendur til að Guðjón St. Marteinsson komi fyrir dóminn sem vitni. Engu að síður þykir í ljósi framangreindrar meginreglu og g-liðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 91/1991, og til þess að alls hlutleysis sé gætt til hins ýtrasta, rétt að fallast á þá kröfu.

Úrskurðinn kveður upp Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari samkvæmt 3. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

Hafnað er kröfu um að Hjördís Hákonardóttir dómsformaður og Friðgeir Björnsson meðdómandi víki sæti. Pétur Guðgeirsson meðdómandi víkur sæti.