Hæstiréttur íslands

Mál nr. 282/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gjaldþrotaskipti
  • Fjármögnunarleiga
  • Lánssamningur
  • Gengistrygging
  • Sératkvæði


                                                                                              

Fimmtudaginn 20. október 2011.

Nr. 282/2011.

Íslandsbanki hf.

(Andri Árnason hrl.)

gegn

þrotabúi AB 258 ehf.

(Sigurbjörn Þorbergsson hrl.)

Kærumál. Gjaldþrotaskipti. Fjármögnunarleiga. Lánssamningur. Gengistrygging. Sératkvæði

K ehf., sem hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta undir heitinu A ehf., og G hf., nú Í hf., gerðu 16. ágúst 2007 með sér samning um fjármögnun á vinnuvél, svokallaðri búkollu. Í hf. lýsti í febrúar 2010 kröfu í þrotabú A ehf. vegna samningsins en skiptastjóri þrotabúsins hafnaði kröfunni. Aðila greindi einkum á um hvort um væri að ræða lánssamning eða leigusamning, en fyrir Hæstarétti féll Í hf. frá þeirri málsástæðu að samningurinn hefði falið í sér skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum, en ekki íslenskum krónum. Hæstiréttur taldi að þegar ákvæði sérstakra og almennra skilmála samningsins væru virt í heild yrði að telja að þótt samningurinn væri nefndur fjármögnunarleigusamningur væri það heiti nafnið tómt. Yrði að líta svo á að í raun hefði G hf. veitt K ehf. lán til kaupa á vinnuvél, sem bankinn hefði kosið að klæða í búning leigusamnings. Var því lagt til grundvallar að samningurinn væri lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Þá vísaði Hæstiréttur til dóma réttarins 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 og staðfesti niðurstöðu hins kærða úrskurðar um að ákvæði samningsins um gengistryggingu hefði verið í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 38/2001 og væru því ekki skuldbindandi fyrir þrotabú A ehf. Loks deildu aðilar um það hvort reikna bæri kröfu Í hf. að meðtöldum virðisaukaskatti en Hæstiréttur vísaði til þess samningur aðila hefði verið um lán en ekki leigu og að greiðslur samkvæmt slíkum samningum bæru ekki virðisaukaskatt.  

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Gunnlaugur Claessen, Jón Steinar Gunnlaugsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með ódagsettri kæru sem barst héraðsdómi 2. maí 2011 og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 9. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2011, þar sem krafa sóknaraðila að fjárhæð 7.330.789 krónur var viðurkennd sem almenn krafa á hendur varnaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 22.049.044 krónur en til vara 8.767.584 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 12. október 2011.

I

Bú varnaraðila, sem áður bar nafnið Kraftvélaleigan ehf., mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta 13. janúar 2010. Sóknaraðili lýsti 24. febrúar 2010 kröfu í búið vegna samnings Glitnis banka hf. og Kraftvélaleigunnar ehf. 16. ágúst 2007 um fjármögnun á vinnuvél af gerðinni Komatsu, svokallaðri búkollu. Í skrá um lýstar kröfur í þrotabúið, sem lögð var fram á skiptafundi 24. ágúst 2010, hafnaði skiptastjóri þeirri kröfu og 19 öðrum kröfum sóknaraðila á grundvelli samsvarandi samninga. Þar sem ekki tókst að jafna ágreining um viðurkenningu þessara krafna varð að samkomulagi aðila að vísa einni þeirra, þeirri kröfu sem um ræðir í máli þessu, til dómstóla og var það gert með bréfi skiptastjóra 7. september 2010. Ákváðu aðilar að fram komið verðmat á vinnuvél þeirri sem samningur að baki þessari kröfu varðaði yrði lagt til grundvallar þannig að ágreiningur væri „afmarkaður við eðli löggerningsins, gengistryggingu og vaxtakjör“ eins og það var orðað í bréfi skiptastjóra.

Í fyrrgreindum samningi, sem ber fyrirsögnina „samningur um fjármögnunarleigu“, eru skilmálar tvíþættir. Annars vegar sérstakir skilmálar í sjö liðum og hins vegar almennir skilmálar í 15 greinum. Í l. lið sérstöku skilmálanna er tilgreint að leigutaki sé Kraftvélaleigan ehf. Samkvæmt 2. lið er seljandi Kraftvélar ehf. Í 3. lið kemur fram tegund, fastanúmer og skráningardagur vinnuvélar þeirrar sem samningurinn varðaði. Þá er þar tilgreint að kaupverð hennar án virðisaukaskatts sé 21.800.000 krónur, fyrirfram greidd leiga án virðisaukaskatts sé engin og „samningsfjárhæð“ án virðisaukaskatts sé 21.800.000 krónur. Í 4. lið kemur fram að lágmarksfjöldi gjalddaga sé 60, fyrsti gjalddagi 15. september 2007 og samningstími til 14. september 2012. Í 5. lið er undir yfirskriftinni „leigugjald á samningstíma“ og „leigugjald/kaupverð í íslenskum krónum við gerð samnings“ svofelldur texti: „60 greiðslur með 1. mánaða millibili í fyrsta sinn þann 15.09.2007 kr. 413.100“. Í sama lið er undir yfirskriftinni „leigugjald eftir lok lágmarkssamningstíma“ tilgreind fjárhæðin 102.692 krónur. 6. liður er svohljóðandi: „Samningsviðmiðun: Miðast í upphafi við: USD 25%, JPY 15%, EUR 40%, CHF 20%. Endanleg fjárhæð í erl. mynt/myntum ræðst af gengi á útborgunardegi samningsins.“ Í 7. lið er kveðið á um hjá hvaða vátryggingafélagi vélin skuli tryggð og með hvaða tryggingum. Síðan er undir fyrirsögninni sérstakir skilmálar svofelldur texti: „Vextir frá útborgunardegi greiðast með 1. gjalddaga. Vsk reiknast á heildargreiðslur samnings. Leigugjald greiðist í byrjun hvers leigutímabils.“ Samningurinn er undirritaður fyrir hönd Kraftvélaleigunnar ehf. sem leigutaka og Glitnis Fjármögnunar sem leigusala, en það mun hafa verið deild innan Glitnis banka hf.

Í aðfararorðum almennra skilmála samningsins er tekið fram að þeir gildi jafnt um kaupleigu- og fjármögnunarleigusamninga nema annað sé sérstakleg tekið fram. Samkvæmt 1. grein þeirra helst eignarrétturinn að hinu leigða hjá leigusala á meðan samningurinn gildir. Leigusali ber undir engum kringumstæðum áhættuna af því tjóni sem verða kann á hinu leigða frá undirritun samningsins. Leigutaki kemur fram sem kaupandi hins leigða gagnvart seljanda og á réttindi og ber skyldur sem slíkur gagnvart honum samkvæmt ákvæðum kaupalaga. Vanefndir seljanda eru leigusala óviðkomandi og hafa engin áhrif á skuldbindingar leigutaka samkvæmt samningnum. Leigutaka ber því að beina öllum kröfum vegna hins leigða til seljanda vélarinnar. Samkvæmt 2. grein taka leigugreiðslur sem eru gengistryggðar breytingum á útgáfudegi hvers leigureiknings til hækkunar eða lækkunar samkvæmt sölugengi þeirra gjaldmiðla sem tilgreindir eru í 6. lið samningsins gagnvart íslenskri krónu. Þá er leigusala heimilt að endurreikna leigugjald það sem gengistryggt er „samkvæmt breytingum, sem verða á millibankavöxtum, LIBOR/EURIBOR-vöxtum“ á þeim erlendu gjaldmiðlum sem tilgreindir eru í 6. lið. Samkvæmt 3. grein skal leigutaki meðal annars greiða alla skatta og opinber gjöld sem lögð kunna að vera á hið leigða. Samkvæmt 7. grein ber leigutaki ábyrgð á öllu tjóni eða bilunum á hinu leigða og hefur slíkt engin áhrif á skyldu hans til að greiða leigu. Í 12. grein eru ákvæði um uppgjör ef samningnum er rift eða honum slitið með öðrum hætti. Ber leigutaka þá, auk greiðslna sem fallnar voru í gjalddaga, að standa skil á leigugreiðslu þeirri sem tilgreind er í 5. lið eftir að henni hefur verið breytt til samræmis við ákvæði 2. greinar margfaldaðri með þeim fjölda greiðslna sem eftir standa „að frádregnum vaxtahluta þeirra.“ Frá kröfu leigusala skal hins vegar draga verðmæti hins leigða og miða þá við staðgreiðsluverð. Standi þá eitthvað eftir er leigusala heimilt að ráðstafa því til að greiða vanskil eða eftirstöðvar annarra eignaleigusamninga milli sömu aðila. Í 13. grein er fjallað um lok samningstíma eða lágmarkssamningstíma og sýnist það vera eina ákvæði almennu skilmálanna sem gerir greinarmun á réttarstöðu aðila eftir því hvort samningurinn er nefndur kaupleigusamningur eða fjármögnunarleigusamningur, ef undan er skilið ákvæði í 2. málslið 2. töluliðar 1. mgr. 12. greinar. Í 13. grein b. er kveðið á um að sé fjármögnunarleigusamningi ekki sagt upp af hálfu leigutaka við lok lágmarksleigutíma framlengist samningurinn um óákveðinn tíma og skuli leigutaki þá greiða gjald sem greint er í 5. lið svo reiknað sem í 2. grein segir.

Skilmálum samnings aðila var breytt þrívegis, fyrst með yfirlýsingu 14. nóvember 2008. Í upphafi hennar er vísað til samningsins og tilgreint að eftirstöðvar hans séu 34.089.745 krónur, en síðan segir: „Aðilar hafa komist að samkomulagi um að breyta upphaflegri greiðsluáætlun samningsins á þann veg að frá og með 15.11.2008 verði fjórir vaxtagjalddagar (eingöngu greiddur vaxtaþáttur afborgunar skv. greiðsluáætlun), til og með 15.02.2009. Sú fjárhæð getur tekið breytingum á því tímabili í samræmi við breytingar sem kunna að verða á grunnforsendum samningsins s.s. mynthlutfalli, vísitölu, gengi og þess háttar til hækkunar eða lækkunar. Höfuðstóll samnings greiðist ekkert niður á tímabilinu. Samningurinn lengist um fjóra mánuði ... Að öðru leyti er samningurinn óbreyttur.“ Næsta skilmálabreyting var gerð með yfirlýsingu 23. mars 2009. Þar er „leigugreiðslum breytt á þann veg að frá og með 15.03.2009 verði 2 vaxtagjalddagar (eingöngu greiddur vaxtaþáttur afborgunar skv. greiðsluáætlun), til og með 15.04.2009.“ Að öðru leyti er orðalag þessar yfirlýsingar hliðstætt og í hinni fyrri, en samningstíminn skyldi lengjast um tvo mánuði. Loks var skilmálunum breytt með yfirlýsingu 8. maí 2009. Samkvæmt henni skyldi „upphaflegri greiðsluáætlun samningsins“ breytt þannig að frá og með 15. maí 2009 yrðu „2 vaxtagjalddagar“ þar sem yrði „eingöngu greiddur vaxtaþáttur afborgunar skv. greiðsluáætlun“. Samningstíminn skyldi lengjast um tvo mánuði. Orðalag þessarar yfirlýsingarinnar er að öðru leyti hliðstætt hinum fyrri.

Samkvæmt gögnum málsins virðist Kraftvélaleigan ehf. hafa greitt umsamdar fjárhæðir til og með 15. júní 2009.

II

Ágreiningur aðila snýst fyrst og fremst um hvers eðlis framangreindur samningur Kraftvélaleigunnar ehf. og Glitnis banka hf. sé. Sóknaraðili telur að samningurinn sé leigusamningur og falli því utan gildissviðs laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, en varnaraðili telur að um lánssamning sé að ræða sem eigi undir reglur framangreindra laga, þar á meðal óundanþægt bann þeirra við að binda fjárskuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla. Málsástæður aðila er að þessu lúta eru raktar í hinum kærða úrskurði.

Ákvæði hinna sérstöku skilmála í samningi aðila sem að framan eru rakin eru ákaflega ruglingsleg og óskýr. Þannig eru í upphafi þeirra, 1. og 2. lið, kynnt til sögunnar Kraftvélaleigan ehf. sem leigutaki og Kraftvélar ehf. sem seljandi þótt samningurinn sé ekki um kaup samkvæmt fyrirsögn hans. Leigusala er í þessum þætti skilmálanna hvergi getið eða honum berum orðum fengin réttindi eða á hann lagðar skyldur. Það er fyrst neðan við meginmál sérstöku skilmálanna að þeir eru undirritaðir fyrir hönd Glitnis Fjármögnunar sem leigusala. Í þessum þætti skilmálanna eru mörg atriði sem illa samrýmast því að um leigusamning geti verið að ræða. Þeirra á meðal má nefna framangreinda tilgreiningu á seljanda vélarinnar. Þá er í 3. lið þessara skilmála tilgreint kaupverð vélarinnar og „samningsfjárhæð“. Er vandséð hvaða hlutverki upplýsingar um kaupverð vélarinnar hafi að gegna í leigusamningi um hana. Það sama á við um svokallaða „samningsfjárhæð“ ef um er um ræða leigusamning, þar sem ekki þarf að tilgreina höfuðstól skuldar. Í yfirskrift 5. liðar er leigugjald og kaupverð lagt að jöfnu. Í 6. lið er rætt um gengi á útborgunardegi samnings, en ekki verður séð um hvaða útborgun gæti verið að ræða í leigusamningi. Í 7. lið eru réttaráhrif aftur tengd við útborgunardag og nú þau að vextir frá þeim degi skuli greiðast með fyrsta gjalddaga. Þegar þessi þáttur skilmálanna er metinn heildstætt samrýmast hann því mun betur að samningurinn sé í raun um lán en ekki leigu á tiltekinni vél.

Eins og að framan er rakið skyldu hinir almennu skilmálar samningsins gilda jafnt um kaupleigu- og fjármögnunarleigusamninga nema annað væri sérstaklega tekið fram, en það var aðeins gert í 2. málslið 2. töluliðar 1. mgr. 12. greinar og 13. grein þeirra. Efni þessara almennu skilmála er fyrst og fremst sniðið að kaupleigusamningum og samrýmist því í mörgum atriðum illa að um fjármögnunarleigusamning geti verið að ræða. Má þar nefna ákvæði 1. greinar um að leigutaki komi fram sem kaupandi gagnvart seljanda vélarinnar og eigi réttindi og beri skyldur sem slíkur samkvæmt ákvæðum kaupalaga og að vanefndir seljanda séu leigusala óviðkomandi og hafi engin áhrif á skuldbindingar leigutaka. Er óumdeilt að varnaraðili hafi haft frumkvæði að kaupum á vinnuvél þeirri sem samningurinn varðaði og verður ekki séð að sóknaraðili hafi komið að kaupunum að öðru leyti en að hann var skráður eigandi til tryggingar efndum samningsins.

 Í 2. grein skilmálanna var ákvæði um að leigusala væri heimilt að endurreikna leigugjaldið samkvæmt breytingum sem verða kynnu á millibankavöxtum á þeim erlendu gjaldmiðlum sem við var miðað í samningnum. Þetta ákvæði sýnir að greiðslur samkvæmt samningnum báru vexti, en slíkt samrýmist ekki eðli leigusamninga. Kemur raunar einnig fram í 12. grein almennu skilmálanna að greiðslur báru vexti, sem síðar verður vikið að, og enn skýrar í fyrrgreindum skilmálabreytingum. Þar sést glöggt að einstakar greiðslur skiptust upp í þátt vaxta og afborgunar og var með skilmálabreytingunum veittur greiðslufrestur á afborgunarþættinum. Enn má ráða þessa skiptingu í vexti og höfuðstól af áðurnefndri tilgreiningu á samningsfjárhæð í 3. lið sérstöku skilmálanna og ákvæðinu um vexti frá útborgunardegi í 7. lið þeirra.

 Þá samrýmist ákvæði 7. greinar almennu skilmálanna því vart að um leigusamning geti verið að ræða, en samkvæmt því bar leigutaki ábyrgð á öllu tjóni og bilunum á hinu leigða og átti skylda hans til greiðslu leigu ekki að falla niður þótt notkun hins leigða stöðvaðist vegna tjóns eða bilunar á því. Samkvæmt þessu var því ekkert samhengi milli greiðslna varnaraðila og afnota hans af samningsandlaginu.

 Af ákvæðum 12. greinar skilmálanna leiðir að þótt samningnum yrði rift eða slitið á annan hátt á samningstímanum féll greiðsluskylda leigutaka ekki niður, heldur bar honum að greiða í einu lagi það sem honum hefði borið að greiða á þeim gjalddögum sem eftir stóðu að „frádregnum vaxtahluta“ þessara greiðslna. Þá skyldi draga verðmæti hins leigða frá því sem leigutaki skyldi greiða og verður ráðið af efni greinarinnar að stæði þá eitthvað eftir af andvirði hins leigða skyldi því ráðstafað í þágu leigutaka. Þessar uppgjörsreglur samrýmast því að við uppgjör kaupleigusamnings skuli lántaki greiða eftirstöðvar höfuðstóls lánsins en njóta þess hluta andvirðis hlutar sem keyptur var fyrir lánsféð sem eftir stendur þegar lánveitandi hefur nýtt sé tryggingarrétt sinn í hlutnum. Þau samrýmast hins vegar á engan hátt reglum um uppgjör við slit fjármögnunarleigusamnings.

Einn helsti skilsmunur kaupleigusamninga annars vegar og fjármögnunarleigusamninga hins vegar er sá að með kaupleigusamningi eignist leigutaki þann hlut sem er andlag samningsins við lok samningstíma eða eigi kauprétt að honum en við lok lágmarksleigutíma fjármögnunarleigusamnings verði leigutaki ekki eigandi hlutarins án þess að til frekari samninga komi. Eins og að framan er rakið er þessi greinarmunur gerður í 13. grein hinna almennu skilmála í margnefndum samningi. Í 13. grein b. er kveðið svo á að við lok lágmarkssamningstíma fjármögnunarleigusamnings framlengist samningurinn um óákveðinn tíma sé honum ekki sagt upp. Skuli leigutaki þá greiða ársfjórðungslega leigugjald sem tilgreint er í lið 5.

 Varnaraðili heldur því fram að þrátt fyrir þetta samningsákvæði hafi verið samið um það frá upphafi viðskipta sem þessara milli Glitnis banka hf. og Kraftvélaleigunnar ehf. að síðarnefnda félagið myndi eignast tæki þau, sem fjármögnuð hafi verið með samningum aðila, í samningslok gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu. Starfsemi Kraftvélaeigunnar ehf. hafi einkum verið fólgin í útleigu á vinnuvélum til verktaka og annarra. Forveri sóknaraðila hafi boðið upp á fjármögnun kaupa á slíkum tækjum meðal annars í formi svokallaðra fjármögnunarleigusamninga. Glitnir Fjármögnun hafi útfært þetta og aðilarnir gert með sér fjölmarga samninga sama eðlis og þann sem um er deilt í máli þessu. Hafi umsamið kaupverð varnaraðila við lok samningstíma verið 2% af samningsverði og skyldi það greitt með lokareikningi. Þessi háttur hafi í raun ætíð verið hafður í umfangsmiklum viðskiptum aðila. Þessu til sönnunar hefur varnaraðili lagt fram þrjá reikninga Glitnis Fjármögnunar vegna þess samnings sem um er deilt í málinu vegna gjalddaganna 15. febrúar, 15. júlí og 15. desember 2008. Á þeim er svohljóðandi samhljóða texti: „Áætlað verðmæti leigumunar í lok samningstíma er 2,00% af uppfærðri samningsfjárhæð“. Ekki kom til þess að reyndi á réttarstöðuna í lok samningstíma í því tilviki sem mál þetta fjallar um. Það gerðist hins vegar í lok samningstíma samnings aðila um fjármögnun á Komatsu beltagröfu, sem varnaraðili hefur lagt fram gögn um. Á reikningi vegna 59. af 60 gjalddögum þess samnings 15. júlí 2008 er texti samhljóða þeim er að ofan getur. Á reikningi vegna lokagjalddaga samningsins 14. september 2008 er svohljóðandi texti: „Uppgjör samnings og útgáfa afsals miðast við að leigugreiðsla og aðrar greiðslur séu í skilum“. Þar er fjárhæð til greiðslu vegna uppgjörs samnings tilgreind 342.225 krónur og heildarfjárhæð reiknings að meðtöldu greiðslugjaldi og virðisaukaskatti 426.693 krónur. Þá er meðal gagna málsins tilkynning um eigendaskipti að umræddri vinnuvél undirrituð af samningsaðilum þar sem dagsetning kaupsamnings er sögð 15. september 2008 og Kraftvélaleigan ehf. tilgreind sem kaupandi. Loks er í málinu afsal fyrir þessari vél dagsett 18. september 2008 þar sem Glitnir Fjármögnun afsalar Kraftvélaleigunni ehf. vélinni og kaupverð er tilgreint 426.693 krónur eða sama fjárhæð og fram kom á reikningi vegna síðasta gjalddaga samnings þeirra. Þá hefur varnaraðili lagt fram „tilboð í fjármögnun“ dagsett 18. október 2007. Þar kemur fram að í tilefni af fyrirspurn Kraftvélaleigunnar ehf. geri Glitnir Fjármögnun tilboð í fjármögnun á leigutækjum fyrir allt að 300.000.000 krónur. Þar er samningsform tilgreint fjármögnunarleiga, getið er fjögurra gjaldmiðla sem myndi í nánar tilgreindum hlutföllum myntkörfu samnings, vextir tilteknir af hverjum þessara gjaldmiðla og meðalvextir myntkörfunnar, en af þeim sé „álag á libor 1,90%“. Þá er tekið fram að leigugreiðslur feli í sér vexti og afborgun höfuðstóls og að vaxtahluti leigugreiðslna breytist miðað við „breytingar sem verða á liborvöxtum á erlendum mörkuðum.“ Þá er kveðið á um að kaupverð í lok samningstíma sé 2% af samningsverði og greiðist með lokareikningi. Þetta tilboð var gert tveimur mánuðum eftir að sá samningur sem mál þetta varðar var undirritaður. Texti þess sýnist þó í fullu samræmi við fyrirliggjandi gögn um þá skilmála og samningsframkvæmd sem gilti í raun um fyrri samninga aðila og varpar því nokkru ljósi á eðli þeirra. Verður að líta svo á að með framangreindum gögnum hafi varnaraðili fært sönnur á að þrátt fyrir texta 13. greinar b. í samningi aðila 16. ágúst 2007 hafi verið um það samið að Kraftvélaleigan ehf. eignaðist umrædda vinnuvél gegn fyrirfram ákveðinni greiðslu í lok samningstíma.

Þegar framangreind atriði eru virt í heild verður að telja að þótt umræddur samningur 16. ágúst 2007 sé nefndur fjármögnunarleigusamningur sé það heiti nafnið tómt. Verður að líta svo á að í raun hafi Glitnir banki hf. veitt Kraftvélaleigunni ehf. lán til kaupa á vinnuvél, sem bankinn kaus að klæða í búning leigusamnings. Verður því lagt til grundvallar að hér hafi verið um að ræða lánssamning í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001. Sóknaraðili hefur fyrir Hæstarétti fallið frá þeim málsástæðum að umræddur samningur hafi falið í sér skuldbindingu í erlendum gjaldmiðlum en ekki íslenskum krónum, að heimilt hafi verið á grundvelli 2. gr. laga nr. 38/2001 að víkja frá ákvæðum VI. kafla laganna og að 40. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið leiði til þess að skýra beri ákvæði laga nr. 38/2001 svo að samningur um verðtryggingu miðað við gengi erlendra gjaldmiðla teljist heimill. Með vísan til framanritaðs og dóma Hæstaréttar 16. júní 2010 í málum nr. 92/2010 og 153/2010 verður staðfest sú niðurstaða hins kærða úrskurðar að ákvæði um gengistryggingu í samningnum 16. ágúst 2007 hafi verið í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 38/2001 og skuldbindi því ekki varnaraðila.

Sóknaraðili kveðst miða varakröfu sína við umsamdar greiðslur í íslenskum krónum og vexti sem á hverjum tíma séu jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru samkvæmt 10. gr. laga nr. 38/2001. Kveður hann varakröfu sína í fyrsta lagi nema samtölu þess sem hann telur vangreitt miðað við þær forsendur á einstökum gjalddögum samningsins frá 15. september 2007 til og með 15. desember 2009 að viðbættum virðisaukaskatti. Eru greiðslur vegna allra gjalddaga samningsins til þess tíma endurreiknaðar, án tillits til þess hvort Kraftvélaleigan ehf. stóð skil á umkröfðum greiðslum á einstökum gjalddögum. Við þessa samtölu kveðst sóknaraðili bæta eftirstöðvum samningsins eins og þær voru 15. desember 2009 og vöxtum af þeim til 13. janúar 2010, en draga síðan frá matsverð vinnuvélarinnar miðað við útflutningsverð hennar. Varnaraðili kveður kröfu sína um staðfestingu hins kærða úrskurðar miða við sömu forsendur að öllu öðru leyti en því að hann reikni ekki virðisaukaskatt á þá hækkun sem af útreikningunum leiði á greiðslum vegna einstakra gjalddaga frá 15. september 2007 til 15. desember 2009. Aðila greinir því ekki á um að endurreikna skuli greiðslur vegna einstakra gjalddaga óháð því hvort staðið var í skilum með þær á sínum tíma. Kemur það atriði því ekki til umfjöllunar hér fyrir dómi. Aðilar lýstu því yfir við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti að munur á varakröfu sóknaraðila og kröfu varnaraðila um staðfestingu hins kærða úrskurðar fælist eingöngu í áðurgreindum virðisaukaskatti. Að framan er komist að þeirri niðurstöðu að umræddur samningur hafi verið um lán en ekki leigu. Greiðslur samkvæmt honum bera því ekki virðisaukaskatt og verður niðurstaða hins kærða úrskurðar um kröfu sóknaraðila staðfest á grundvelli þess og framangreindra málflutningsyfirlýsinga.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað verður staðfest.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðila, þrotabúi AB 258 ehf., 600.000 krónur í kærumálskostnað.

Sératkvæði

Jóns Steinars Gunnlaugssonar

Fyrir liggur í málinu að Kraftvélaleigan ehf., síðar AB 258 ehf., sem gerði hinn umdeilda samning við sóknaraðila 16. ágúst 2007, rak atvinnustarfsemi sem fólst í að leigja út vinnuvélar til verktaka og annarra sem þurftu á slíkum tækjum að halda. Í atkvæði þessu verður notað orðið varnaraðili um þetta fyrirtæki þó að fjallað sé um starfsemi þess fyrir gjaldþrot.

Við innkaup á vinnuvélum og tækjum til starfsemi sinnar átti varnaraðili meðal annars kost á að afla fjár með samningum um svonefnda fjármögnunarleigu. Bauðst honum slíkur samningur hjá sóknaraðila til kaupa á Komatsu vinnuvél sem hann vildi fá til reksturs síns og gerðu þeir þá fyrrnefndan samning. Megineinkenni samnings um fjármögnunarleigu eru þau að sá sem leggur til fjármagnið verður eigandi hlutarins, sem keyptur er, en viðsemjandinn tekur hlutinn á leigu af honum og greiðir leigugjald fyrir umsaminn leigutíma. Mun þá oft vera miðað við væntanlegan endingartíma þess tækis sem keypt er og selt á leigu. Samningar af þessu tagi eru vel þekktir á Íslandi og í öðrum löndum. Meðal annars hefur sérstaklega verið kveðið á um þá í settum lögum, sbr. til dæmis 1. gr. laga nr. 19/1989 um eignarleigustarfsemi, þar sem teknar voru upp skilgreiningar á hugtökunum fjármögnunarleiga og kaupleiga. Þessi lög eru nú fallin úr gildi en yngri lagaákvæði þar sem ráð var gert fyrir samningum af þessu tagi var meðal annars að finna í 2. tölulið 1. mgr. 8. gr. laga nr. 123/1993 um lánastofnanir aðrar en viðskiptabanka og sparisjóði. Nú er að finna ákvæði í 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, þar sem hugtakið eignaleiga er skýrt og kveðið á um að leyfis þurfi við til að reka megi starfsemi um hana. Um samninga af því tagi sem hér um ræðir, meðal annars um fjármögnunarleigu, hefur verið ítarlega fjallað í fræðiritum um lögfræði.

Það er eitt einkenni á samningi um fjármögnunarleigu að hinn leigði hlutur er við lok leigutímans áfram eign leigusala, þó að algengt muni vera að leigutaka sé þá gefinn kostur á að festa kaup á honum, jafnvel á verði sem leigusali hefur fyrirfram gefið fyrirheit um hvert muni verða. Samningur um fjármögnunarleigu er að þessu leyti frábrugðinn samningi um kaupleigu, þar sem í hinum síðarnefnda felst að hluturinn verður eign kaupleigutaka við lok samningstíma án þess að semja þurfi þá um það sérstaklega. Meðferð þessara tvenns konar samninga við skattskil er mismunandi. Við fjármögnunarleigu skal innheimtur virðisaukaskattur af leigugjaldinu og heimilt er að færa greidda leigu til gjalda í rekstri. Kaupleiga er hins vegar meðhöndluð eins og um sé að ræða afborganir af láni til kaupa á hlutnum, sem er þá eignfærður í upphafi samnings og síðan afskrifaður á tilteknu tímabili og afskrift þá færð til gjalda í rekstri. Ekki er innheimtur virðisaukaskattur af greiðslum samkvæmt kaupleigusamningi.

Í samningi málsaðila 16. ágúst 2007 var leigutími Komatsu vinnuvélarinnar ákveðinn 60 mánuðir. Sá háttur mun yfirleitt vera hafður á ákvörðun leiguverðs samkvæmt samningum um fjármögnunarleigu að það sé samtala þeirrar fjárhæðar sem hluturinn kostar í upphafi, vaxta af kaupverðinu út leigutímann og eftir atvikum þóknun til þess aðila sem leggur féð til. Eru þessar fjárhæðir samanlagðar látnar ráða leiguverði samningsins í heild sem þannig ber enga vexti umfram það sem reiknað hefur verið inn í leigugjaldið sjálft. Það breytir engu um eðli samninganna, þó að samið kunni að vera um gengistryggingu leigugjaldsins eða áskilinn sé réttur leigusala til að krefjast breytinga á leigugjaldi á leigutímanum, til dæmis vegna almennrar hækkunar á fjármagnskostnaði.

Í fyrirsögn samnings málsaðila 16. ágúst 2007 segir að hann sé samningur um fjármögnunarleigu. Enginn vafi er á að báðum málsaðilum var vel ljóst hvað í því fólst. Benda gögn málsins reyndar til þess að vilji varnaraðila hafi sérstaklega staðið til þess að haga samningsgerðinni með þessum hætti og þá eftir atvikum vegna hagræðis sem hann taldi sig njóta af hinni skattalegu meðferð samninga um fjármögnunarleigu, enda stóðu honum vafalaust aðrir kostir til boða við að fjármagna kaup á tækinu. Tilefnið til að vilja losna undan samningsskuldbindingu sinni um gengistryggingu leigunnar kom síðar. Ekki er um það deilt í málinu að hin skattalega meðferð var á þann hátt sem lýst er að framan, það er að segja að varnaraðili færði leigugreiðslur samkvæmt samningnum til gjalda í rekstri sínum og virðisaukaskattur var lagður á leiguna og greiddur.

Fallast má á það sem fram kemur í atkvæði meirihluta dómara að samningsgerðinni var ábótavant í mörgum greinum og óheppilegt var að sömu eyðublöð skyldu notuð fyrir samninga um kaupleigu og fjármögnunarleigu. Engar löglíkur eru hins vegar til þess að um kaupleigu sé að ræða fremur en fjármögnunarleigu. Í atkvæði meirihlutans eru nefnd atriði sem talin eru benda til þess að um kaupleigu sé að ræða en ekki fjármögnunarleigu. Ekkert af þeim skiptir hér máli að mínu mati. Þannig skiptir ekki máli þó að sá aðili sem seldi vélina sé nefndur í samningstextanum. Samningsaðilarnir vissu sjálfir hvaða þýðingu það hafði. Og þó að vextir séu nefndir er alveg ljóst að vextir komu fyrst og fremst við sögu þegar sóknaraðili reiknaði út samningsfjárhæðina með því að þeir urðu innifaldir í leiguverðinu. Þá er aðilum samnings um fjármögnunarleigu heimilt að semja sín í milli um að leigutaki skuli bera kaupandaábyrgð gagnvart seljanda hlutarins, sem leigusali annars bæri. Frumkvæði að samningsgerðinni kom að sjálfsögðu frá varnaraðila sem var að afla fjármögnunar fyrir tæki sem hann vildi fá til reksturs síns. Af því verða ekki dregnar ályktanir um að samningurinn sé ekki leigusamningur. Sama er að segja um ákvæði samningsins um uppgjör við riftun. Hagsmunir sóknaraðila lágu augljóslega í því að fá til baka það fé sem hann hafði ráðstafað til kaupa hlutarins auk þeirra vaxta sem reiknaðir höfðu verið inn í leigugjaldið. Ekkert er athugavert við ákvæði samningsins sem að þessu lutu. Ráðagerð í öðrum viðskiptum málsaðila um að varnaraðila yrði heimilað að kaupa hluti í samningslok á 2% af samningsverði getur heldur ekki haft þau áhrif að byggja út meginefni samninga sem þar voru gerðir um fjármögnunarleigu og enn síður þess samnings sem hér er til umfjöllunar. Og vegna þess sem segir í atkvæði meirihlutans um tilboð sóknaraðila til varnaraðila 18. október 2007 verður að benda á að þar er skýrt tekið fram að leigugreiðslur eigi að innifela vexti og afborgun höfuðstóls. Samkvæmt því sem fyrr var rakið er þetta einmitt gert með þessum hætti þegar samið er um fjármögnunarleigu. Fram kemur í gögnum málsins að sóknaraðili hefur á samningstímanum verið skráður eigandi tækisins hjá ökutækjaskrá. Ég tel samkvæmt öllu þessu engan vafa leika á að sóknaraðili hefði verið talinn eigandi tækisins í lok samningstímans ef þá hefði komið til ágreinings málsaðila um eignarréttinn. Tel ég að varnaraðili hefði ekki þá, án sérstaks samþykkis sóknaraðila, getað krafist kaupa á tækinu á grundvelli þess samnings sem aðilar gerðu 16. ágúst 2007.

Sá sem byggir á því að víkja eigi frá efni samnings og breyta því frá því sem samningur kveður á um berum orðum, ber þungann af sönnunarbyrði um atvik sem þessu eiga að valda. Varnaraðili hefur að mínum dómi ekki teflt neinu fram sem getur haft þess háttar áhrif á samning málsaðila. Sú afstaða hans að hafna við skiptameðferð varnaraðila kröfu sóknaraðila um gengisbindingu leiguverðsins byggist á því að um sé að ræða fjárskuldbindingu samkvæmt VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og þess vegna sé gengisbinding leigunnar ógild, sbr. dóma Hæstaréttar frá júní 2010 sem nefndir eru í atkvæði meirihlutans. Samkvæmt þeim dómum stenst gengisbinding ekki ef um kaupleigusamning ræðir. Ljóst má hins vegar vera að nefnd lagaákvæði banna ekki gengisbindingu á leigugjaldi samkvæmt leigusamningum. Engin lagarök standa til þess að mínum dómi að gefa samningi málsaðila, á forsendum sem tengjast þessu, annað efni en þeir sjálfir gerðu. Það eru með öðrum orðum engin efni til að breyta meginefni samningsins, sem báðir samningsaðilar voru sammála um hvert væri, úr því að vera um fjármögnunarleigu yfir í að vera um kaupleigu.

Samkvæmt því sem að framan greinir tel ég að taka eigi aðalkröfu sóknaraðila til greina og dæma varnaraðila til að greiða honum málskostnað í héraði og kærumálskostnað sem ég tel hæfilega ákveðinn í einu lagi 1.200.000 krónur.

                                                            

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. apríl 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 30. mars sl., var þingfest 29. október 2010. Sóknaraðili er Íslandsbanki hf., Kirkjusandi, Reykjavík. Varnaraðili er  þrotabú AB 258 ehf.

Kröfur sóknaraðila í málinu eru eftirfarandi:

Aðallega að viðurkennd verði krafa sóknaraðila að fjárhæð 23.757.923 krónur, sem njóti réttarstöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, o.fl., við gjaldþrotaskipti varnaraðila, sbr. kröfu nr. 3 í kröfuskrá.

Til vara að viðurkennd verði krafa sóknaraðila að fjárhæð 14.311.954 krónur sem njóti réttarstöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, o.fl., við gjaldþrotaskipti varnaraðila.

Til þrautavara að viðurkennd verði krafa sóknaraðila að fjárhæð 11.990.494 krónur sem njóti réttarstöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, o.fl., við gjaldþrotaskipti varnaraðila.

Til þrautaþrautavara að viðurkennd verði krafa sóknaraðila að fjárhæð 11.848.583 krónur sem njóti réttarstöðu samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti, o.fl., við gjaldþrotaskipti varnaraðila.

Í öllum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

Kröfur varnaraðila í málinu eru þær að krafa sóknaraðila að fjárhæð 7.330.789 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa í bú varnaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 13. janúar 2010 var bú varnaraðila tekið til gjaldþrotaskipta. Sóknaraðili lýsti kröfum í búið, svo sem rakið er í framlagðri kröfulýsingu. Á skiptafundi 24. ágúst 2010 hafnaði skiptastjóri kröfum sóknaraðila, þ.m.t. kröfu þeirri um ræðir í málinu, vegna óvissu um lögmæti gengistryggingar í samningi aðila og vegna þess að ekki lá fyrir mat á eignum. Var ákveðið að vísa til héraðsdóms ágreiningi vegna eins samnings, nr. 612391-012.

Ágreiningur aðila varðar kröfu sóknaraðila í bú varnaraðila á grundvelli samnings um fjármögnunarleigu nr. 612391-012. Samkvæmt samningnum, dagsettum 16. ágúst 2007, var hið leigða KOMATSU HM350-2 vél, fastanúmer/raðnúmer UJ126. Seljandi samkvæmt 2. tölulið samningsins var Kraftvélar ehf. en varnaraðili var leigutaki, sbr. 1. tölulið. Sóknaraðili var hins vegar leigusali. Gjalddagar voru samtals 60, frá 16. september 2007 til og með 14. september 2012.

Skv. 3. tölulið fjármögnunarleigusamningsins var kaupverð hins leigða 21.800.000 krónur, án virðisaukaskatts, og þá var samningsfjárhæð, einnig án virðisaukaskatts, sögð hin sama. Í 5. tölulið samningsins sagði að leigugjald/kaupverð í íslenskum krónum við gerð samnings væri 60 greiðslur með eins mánaðar millibili, í fyrsta sinn 15. september 2007, að fjárhæð 413.100 krónur, en 102.692 krónur við lok samningstíma. Í 6. tölulið samningsins var kveðið á um svokallaða samningsviðmiðun sem í upphafi skyldi miðast við „USD 25%, JPY 15%, EUR 40%, CHF 20%“. Var jafnframt kveðið á um að endanleg fjárhæð í erlendum myntum réðist af gengi á útborgunardegi samningsins. Í 7. tölulið voru tilgreindir sérstakir samningsskilmálar en þar sagði: „Vextir frá útborgunardegi greiðist með 1. gjalddaga.“

Um samning aðila giltu almennir samningsskilmálar sóknaraðila. Skilmálar þessir giltu jafnt um kaupleigu- og fjármögnunarleigusamninga nema annað væri sérstaklega tekið sérstaklega fram. Í samningsskilmálunum er kveðið á um, sbr. 1. gr., að eignarréttur að hinu leigða haldist hjá leigusala á meðan að samningurinn er í gildi. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. samningsskilmálanna kemur leigutaki fram sem kaupandi hins leigða gagnvart seljanda og á réttindi og ber skyldur sem slíkur samkvæmt ákvæðum kaupalaga. Vanefndir seljanda eru leigusala óviðkomandi. Ber leigutaka að beina öllum kröfum vegna hins leigða til seljanda.

Í 2. gr., 3. tölulið, er kveðið á um að á útgáfudegi hvers leigureiknings taki leigugreiðslur „sem eru gengistryggðar breytingum til hækkunar eða lækkunar miðað við sölugengi hins erlenda gjaldmiðils/hinna erlendu gjaldmiðla, sem greindur er/greindir eru í lið 6 gagnvart íslenskri krónu samkvæmt gengisskráningu Glitnis banka hf.“. Í 2. gr., 4. tölulið er kveðið á um að leigusala sé heimilt að endurreikna leigugjald það, sem gengistryggt sé, samkvæmt breytingum sem verði á millibankavöxtum í þeim erlendu gjaldmiðlum sem greindir séu í lið 6.

Samkvæmt 3. gr. hinna almennu samningsskilmála greiðir leigutaki alla skatta og öll opinber gjöld sem kunna að verða lögð á hið leigða. Sama gildir um kostnað vegna skráninga þess. Þá er í 7. gr. samningsskilmálanna kveðið á um að leigutaki beri ábyrgð á öllu tjóni eða bilunum á hinu leigða og hefur tjón eða bilun engin áhrif á skyldu hans til að greiða leigu.

Í 10. gr. skilmálanna er kveðið á um hvenær leigusala sé heimilt að rifta samningi og í 11. gr. er kveðið á um afhendingu hins leigða vegna riftunar. Þar segir að sé samningi rift samkvæmt 10. gr. skuli leigutaki afhenda leigusala hið leigða, enda hafi leigusali ekki fallið frá eignarrétti sínum. Í 12. gr. er kveðið á um uppgjör vegna riftunar. Er leigusala heimilt að krefja leigutaka um fullar greiðslur allt til loka leigutíma jafnvel þó svo samningi sé rift eða honum með öðrum hætti slitið á samningstímanum. Í 2. tölulið 12. gr. er tilgreint að leigusali geti krafið leigutaka um mánaðarlegt leigugjald skv. 5. gr. samnings aðila uppreiknað, margfaldað með fjölda greiðslna sem eftir standa að frádregnum vaxtahluta greiðslnanna. Í 13. gr. b. er síðan sérstaklega kveðið á um að „sé fjármögnunar­leigusamningi ekki sagt upp af hálfu leigutaka við lok lágmarkssamningstíma framlengist samningurinn um óákveðinn tíma.“ Skal leigutaki þá greiða leigugjald það, sem greint er í lið 5 í fjármögnunarleigusamningi, svo reiknað sem í 2. gr. segir, ársfjórðungslega.

Með dreifibréfi Fjármálaeftirlitsins (FME) til lánastofnana um meðferð rekstrar-, einka- og fjármögnunarleigusamninga frá 14. september 2010 beindi FME því til lánastofnana að meðferð rekstrar-, einka- og fjármögnunarleigusamninga væri með sama hætti og meðferð kaupleigusamninga meðan ekki hefði verið skorið úr hvort viðkomandi samningar féllu undir gildissvið VI. kafla laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

II.

Kröfur sínar byggir sóknaraðili í fyrsta lagi á því að umþrættur samningur falli utan gildissviðs laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu þar sem um leigu en ekki lán sé að ræða. Eftir heiti VI. kafla laga nr. 38/2001, sem 13.-16. gr. laganna tilheyri, taki hann til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár. Samningurinn sé ekki um lán heldur leigu og falli þar af leiðandi ekki undir þessar reglur laganna. Af þeim sökum hafi verið frjálst að semja um gengistryggingu án tillits til þeirra, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í máli nr. 98/1978.

Hinn umþrætta samning segir sóknaraðili vera í grundvallaratriðum frábrugðin þeim samningum sem fjallað hafi verið um í dómum Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, enda sé eðlismunur á kaupleigu annars vegar og fjármögnunarleigu hins vegar. Samkvæmt samningnum sé ekki ráðgert að varnaraðili eignist hið leigða við lok samningstímans, sbr. 13. gr. b. hinna almennu skilmála þar sem segi „... að sé fjármögnunarleigusamningi ekki sagt upp af hálfu leigutaka við lok lágmarks­samningstíma framlengist samningurinn um óákveðinn tíma“. Leigutaki skuli þá greiða leigugjald það sem greint sé í lið 5 í fjármögnunarleigusamningi að teknu tilliti til mögulegra breytinga í samræmi við 2. gr. hinna almennu skilmála, hér sölugengi erlendra gjaldmiðla, árfjórðungslega. Umþrættur samningur geti því aldrei talist vera annað en leigusamningur þar sem eignarrétturinn færist ekki til varnaraðila við lok leigutíma. Til að um lán í skilningi laga gæti verið að ræða þyrfti samningurinn að fela í sér að varnaraðili eignaðist hið leigða við lok samningstíma. Að þessu leyti sé algjör eðlismunur á fjármögnunarleigusamningum annars vegar og svokölluðum kaupleigu­samningum hins vegar. Einu gildi þó svo í framkvæmd geti leigutaki eftir atvikum samið um kaup á hinu leigða við lok samningstíma. Slíkur réttur verði ekki leiddur af samningi um fjármögnunarleigu heldur sé hann alfarið háður nýjum og sjálfstæðum gerningi á milli leigusala og leigutaka og sé leigusala í sjálfsvald sett hvort hann vill selja hið leigða eða ekki.

Af framangreindu kveður sóknaraðili leiða að orðalagið „[l]eigugjald/kaupverð í íslenskum krónum við gerð samnings“, sbr. 5. tölulið samningsins, sé misvísandi og um leið merkingarlaust þegar það sé, í samræmi við viðurkenndar túlkunarreglur samningaréttar, lesið í samhengi við önnur ákvæði samningsins og hina almennu skilmála sem um samninginn hafi gilt, svo og framkvæmd hans. Bendir sóknaraðili á að í réttarlegu samhengi hafi verið litið á eignaleigu sem leigustarfsemi, sbr. til dæmis 3. tölulið 1. mgr. 3. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, og þá hafi skattayfirvöld talið að innheimta beri virðisaukaskatt af heildarfjárhæð reikninga í fjármögnunarleigusamningnum, en líta skuli á greiðslur samkvæmt kaupleigu­samningum á sama hátt og afborganir í almennum afborgunarviðskiptum. Virðisauka­skattur sé aldrei lagður á afborganir samkvæmt lánasamningum.

Önnur ákvæði umþrætts samnings segir sóknaraðili styðja þá niðurstöðu að um leigu frekar en lán sé að ræða. Þannig sé, öndvert við áðurgreinda kaupleigusamninga, hvergi talað um „lán“, sbr. á hinn bóginn umfjöllun í dómum Hæstaréttar í málum nr. 153/2010 og 92/2010. Af framlögðu greiðsluyfirliti megi jafnframt ráða að leigugreiðslur hafi ekki borið sérstaka vexti, gagnstætt því sem gilt hafi um samningana í tilvísuðum dómum Hæstaréttar. Að þessu leyti sé orðalag 7. töluliðar umþrætts samnings um að „[v]extir frá útborgunardegi greiðast frá gjalddaga“ misvísandi og um leið merkingarlaust, þ.e. þegar ákvæðið sé, í samræmi við viðurkenndar túlkunarreglur samningaréttar, lesið í samhengi við önnur ákvæði samningsins og hina almennu skilmála sem um samninginn hafi gilt og framkvæmd hans. Sömuleiðis sé ekkert í gögnum málsins sem styðji að sóknaraðili hafi verið að kaupa samningsandlagið frekar en að taka það á leigu. Þvert á móti beri gögn málsins það með sér að sóknaraðili kaupi hið leigða en leigi síðan varnaraðila samkvæmt sérstökum samningi þeirra á milli. Sé enda ekki, gagnstætt því sem gildi um kaupleigusamninga, samið um tiltekið kaupverð við lok leigutíma.

Sóknaraðili segir einu gilda við úrlausn málsins að hann hafi keypt hið leigða fyrir milligöngu varnaraðila. Í því hafi einfaldlega falist ákveðið viðskiptalegt hagræði fyrir báða aðila. Einn helsti kosturinn við fjármögnunarleigu sé að hún bindi ekki dýrmætt rekstrarfé. Með endurfjármögnun nýlegra tækja megi bæta lausafjárstöðu viðkomandi fyrirtækis og auðvelda þannig fjárhagslega endur­skipulagningu. Með því að láta sóknaraðila kaupa tækið hafi auk þess fengist staðgreiðslukjör. Þá fylgi fjármögnunarleigu skattalegt hagræði, en nýta megi leigugreiðslur til skattalækkunar.

Að mati sóknaraðila gildir jafnframt einu þótt riftun leigusamnings hafi getað leitt af sér þá niðurstöðu að varnaraðili þyrfti að greiða fjárhæð sem svaraði til fjölda ógreiddra leigugreiðslna út samningstímann, sbr. 12. gr. hinna almennu skilmála. Að lögum sé ekkert sem meini leigusala að semja um slíkan rétt sér til handa vegna vanefnda leigutaka. Með þessu sé í reynd verið að semja um ígildi skaðabóta í formi efndabóta til handa leigusala. Þessi niðurstaða sé í samræmi við almennar reglur um samningsfrelsi.

Samkvæmt öllu framansögðu telur sóknaraðili einsýnt að hinn umdeildi samningur sé um leigu en ekki lán og hann falli því utan gildissviðs laga nr. 38/2001.

Komist dómurinn hins vegar að þeirri niðurstöðu að samningurinn sé um lán en ekki leigu kveðst sóknaraðili byggja á því að samningurinn feli ekki í sér gengistryggingu í andstöðu við lög nr. 38/2001. Skuldbindingin sem slík sé í erlendri mynt en ekki íslenskum krónum og falli hún því utan gildissviðs laganna. Enn fremur sé á því byggt að jafnvel þó svo talið verði að um gengistryggt lán hafi verið að ræða þá hafi sóknaraðila verið heimilt að víkja frá ákvæðum IV. kafla laga nr. 38/2001 þar sem það hafi verið til hagsbóta fyrir varnaraðila, sbr. 2. gr. laganna. Á því tímamarki sem samningurinn var gerður hafi sú fjármögnun sem samningurinn fól í sér verið varnaraðila hagfelldari en önnur sem honum stóð til boða og hún því um leið verið lögmæt á grundvelli tilvitnaðs ákvæðis. Gerð samningsins hafi þannig ekki verið andstæð lögum nr. 38/2001.

Verði talið, þrátt fyrir allt framangreint, að umþrættur samningur falli innan gildissviðs laga nr. 38/2001 og hann jafnframt talinn fela í sér „gengistryggingu“ andstæða lögunum sé á því byggt af hálfu sóknaraðila að slík niðurstaða sé í andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum um frelsi til fjármagnsflutninga, sbr. 40. gr. samningsins, sbr. lög nr. 2/1993. Líta verði á EES-reglur sem sérreglur er gangi framar lögum nr. 38/2001 og þá sé það viðurkennd lögskýringarregla að skýra beri íslensk lög til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, sbr. 3. gr. laga nr. 2/1993. Krafa þess efnis að lánsskuldbinding sé í erlendri mynt, svo og endurgreiðslur hennar, og „gengis­trygging" þannig bönnuð, hafi það í för með sér teljandi fyrirhöfn og kostnað fyrir lántaka sem aftur geri veitingu erlendra lána erfiðari og óhentugri fyrir lánveitendur og lántaka. Það sé síðan til þess fallið að draga úr möguleikanum á því að lánastofnanir innan EES-svæðisins bjóði þjónustu hér á landi. Þá geri það áhættustýringu erfiðari að því er varði jafnvægi innlendra og erlendra eigna sem aftur sé til þess fallið að draga úr áhuga aðila á að sækja sér fjármagn til annarra ríkja innan EES. Slíkt regluverk sé jafnframt til þess fallið að letja lánsviðskipti við erlenda aðila, sem aftur teljist hindrun á frjálsu flæði fjármagns.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að um lánsskuldbindingu í íslenskum krónum sé að ræða sem sé í andstöðu við lög nr. 38/2001 byggir sóknaraðili á því að skuldbindingin eigi að teljast verðtryggð og bera vexti eins og aðrar láns­skuldbindingar. Aðallega sé á því byggt, sbr. vara- og þrautavarkröfur, að skuldbindingin skuli þá teljast verðtryggð í samræmi við vísitölu neysluverðs, sbr. og 2. gr. 2) hinna almennu skilmála, og bera vexti í samræmi við það samkvæmt gjaldskrá sóknaraðila á tíma lánsskuldbindingar, en ella bera seðlabankavexti miðað við verðtryggðar skuldbindingar á sama tímabili, enda að sönnu ætlun sóknaraðila, sbr. umþrætta gengisviðmiðun, að „verðtryggja“ skuldbindinguna. Krafa sóknaraðila um verðtryggingu og vexti miðað við verðtryggðar skuldbindingar fái þannig stoð í forsendukenningu samningaréttar, sbr. einnig 36. gr. laga nr. 7/1936. Verði ekki á þetta fallist krefjist stefnandi þess, sbr. þrautaþrautavarakröfu, að skuldbindingin beri vexti sem teljist jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu samkvæmt 10. gr. laganna. Venjuhelgað sé að lán fjármálafyrirtækja til einstaklinga og lögaðila beri vexti, sbr. og ákvæði 3. gr. laga nr. 38/2001 um að almenna vexti skuli greiða af peningakröfu þegar það leiði af venju. Skv. 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001 skuli vextir þegar svo standi á að ekki sé samið um vaxtaviðmiðun vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákveði með hliðsjón af læstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir séu skv. 10. gr. laganna. Af hálfu sóknaraðila sé á því byggt að sömu niðurstöðu megi leiða af 36. gr. laga nr. 7/1936, sem og forsendukenningu samningaréttar.

Til stuðnings kröfum sínum vísar sóknaraðili einkum til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, svo og meginreglna fjármunaréttar, þar á meðal um samnings­frelsi og skuldbindingargildi samninga sem og forsendukenningu samningaréttar. Þá vísar sóknaraðili einnig til ákvæða laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 113. gr. laganna.

III.

Varnaraðili reisir kröfur sínar á því að samningur aðila sé í raun lánssamningur. Samningurinn sé um margt ólíkur því sem almennt gerist um leigusamninga og beri efni hans með sér að í raun sé um að ræða lánssamning en ekki leigusamning. Samkvæmt orðsskýringu á heiti samningsins sé um að ræða leigu á fjármagni, en hún kallist í daglegu tali lán.

Með vísan til niðurstöðu Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010 heldur varnaraðili því fram að samningur aðila hafi verið lánssamningur en ekki leigusamningur. Í fyrsta lagi vísar varnaraðili til þess að hann hafi sjálfur haft frumkvæði að kaupum á samningsandlaglinu og komið fram gagnvart seljanda sem kaupandi. Eignarhald þriðja manns á samningsandlaginu fyrir gerð samningsins sýni fram á að um hafi verið að ræða lán til kaupa á andlaginu. Aðstaðan sé ólík því sem tíðkist með leigusamninga því sóknaraðili kaupi samningsandlagið að beiðni og frumkvæði varnaraðila, gagngert í þeim tilgangi að fela varnaraðila umráð þess.

Skv. 2. mgr. 1. gr. samningsskilmálanna sé það varnaraðili en ekki sóknaraðili sem komi fram gagnvart seljanda sem kaupandi. Varnaraðili eigi réttindi og beri skyldur gagnvart seljanda tækisins. Hugsanlegar vanefndir seljanda hafi verið sóknaraðila óviðkomandi og hafi varnaraðila borið að beina öllum kröfum vegna kaupanna til seljanda tækisins.

Sóknaraðili hafi á engan hátt komið að kaupum á samningsandlaginu að öðru leyti en því að hann hafi verið skráður kaupandi til tryggingar á efndum á lánssamningi. Það hafi verið varnaraðili sem farið hafi með öll réttindi og skyldur kaupanda og átt allar kröfur á hendur seljanda vegna hugsanlegra vanefnda. Þetta fyrirkomulag sé ekki í samræmi við það sem almennt tíðkist í leigusamningum heldur megi  líkja þessu við að sóknaraðili hafi fengið veðtryggingu fyrir láni sínu.

Í öðru lagi bendir varnaraðili á að leiguverðið hafi eingöngu verið ákvarðað út frá kostnaði sóknaraðila við fjármögnun kaupanna, en ekki raunverulegu verðmæti samningsandlagsins. Greiðslur varnaraðila til sóknaraðila hafi tekið mið af því að endurgreiða upprunalegan höfuðstól, þ.e. kaupverð samningsandlagsins, að viðbættum vöxtum og vaxtaálagi. Þetta fyrirkomulag svari til endurgreiðslu á láni.

Varnaraðili heldur því fram að fyrirkomulag og útreikningur greiðslna sé í samræmi við lánssamning en ekki leigusamning. Sú útfærsla hafi verið vel þekkt í viðskiptum aðila að sóknaraðili hafi boðið upp á fjármögnun upp að tilteknu marki. Varnaraðili hafi þá greitt tiltekið hlutfall kaupverðs í upphafi samnings- og leigugreiðslur verið ákvarðaðar út frá eftirstöðvum kaupverðs, en ekki verðmæti andlagsins.

Jafnframt vísar varnaraðili til þess að það hafi verið sóknaraðili sem boðið hafi upp á og auglýst fjármögnunarleigu sem hagstæðan kost við fjármögnun á atvinnutækjum. Sóknaraðili hafi klætt lánssamning í búning leigusamnings. Samningurinn hafi verið útfærður sem leigusamningur þar sem trygging sóknaraðila fyrir endurgreiðslu hafi verið í formi eignarskráningar, í stað þess að varnaraðili gæfi út skuldabréf, tryggt með veði í samningsandlaginu.

Á því er byggt af hálfu varnaraðila að hin efnislega meðferð kaupleigu- og fjármögnunarleigusamninga hafi verið eins. Um samningana hafi gilt að stofni til sömu skilmálar, almennir samningsskilmálar sóknaraðila. Því séu ekki forsendur til að skilja á milli þessara tegunda eins og sóknaraðili geri í málatilbúnaði sínum. Í tilmælum FME frá 14. september 2010 hafi stofnunin ekki séð ástæðu til að gera greinarmun á þessum samningum með tilliti til lögmætis gengistryggingar. Þá hafi sóknaraðili ekki fært samningsandlagið sem eign í bókahaldi sínu heldur hafi hann fært til eignar kröfuna samkvæmt samningi aðila.

Í þriðja lagi vísar varnaraðili til þess að þar sem greiðslur samkvæmt samningi aðila beri vexti hafi verið um að ræða lán en ekki leigugreiðslur, sem almennt beri ekki vexti. Í 7. gr. samnings aðila segi að vextir frá útborgunardegi greiðist með 1. gjalddaga. Þá segi í 4. tölulið 2. gr. almennra samningsskilmála samningsins að sóknaraðila sé heimilt að endurreikna leigugjald sem sé gengistryggt samkvæmt breytingum á LIBOR/EURIBOR-vöxtum á erlendum gjaldmiðlum tilgreindum í 6. gr. samningsins.

Varnaraðili vísar til þess að í þremur skilmálabreytingum með samningi aðila segi að greiðsluáætlun sé breytt á þann veg að á tilteknu tímabili verði „... vaxtagjalddagar (einungis greiddur vaxtaþáttur afborgunar skv. greiðsluáætlun)“. Bendir varnaraðili á að í tilvitnuðum texta sé bæði vísað til vaxta og afborgana sem eigi við um lán en ekki leigu. Enn fremur segi í 2. tölulið 12. gr. almennu samningsskilmálanna að við riftun á samningi skuli leigutaki standa leigusala skil á leigugreiðslu skv. 5. lið samnings „... margfaldaðri með þeim fjölda greiðslna sem eftir standa, að frádregnum vaxtahluta þeirra.“ Varnaraðili greiði því eftirstöðvar samnings að frádregnum ógjaldföllnum vöxtum.

Samkvæmt framansögðu hafi greiðslur samkvæmt samningi aðila borið vexti sem bendi eindregið til þess að um hafi verið að ræða lán en ekki leigu.

Varnaraðili kveðst hafna því sem haldið sé fram í greinargerð sóknaraðila að ákvæði 7. gr. samnings aðila um vexti sé misvísandi og merkingarlaust. Þvert á móti sé merking þess ljós sé ákvæðið lesið í samhengi við ákvæði samningsins um endurútreikning leigugjalds samkvæmt breytingum á millibankavöxtum, uppgjör ógreiddra leigugreiðslna við riftun og yfirlýsingu aðila um breytingar á samningnum. Beri samningurinn ekki vexti, svo sem sóknaraðili haldi fram í greinargerð sinni, hefði aðilum verið ómögulegt að semja um greiðslu sérstakra vaxtagjalddaga eða draga frá vaxtahluta greiðslna við uppgjör samningsins. Varnaraðili bendir ennfremur á að í bókhaldi sóknaraðila hafi tekjur af samningum vegna fjármögnunarleigu, sem og annarri eignarleigu, verið færðar sem vaxtatekjur en ekki leigutekjur. Í rekstrarreikningi sóknaraðila hafi hann umtalsverðar vaxtatekjur en engar leigutekjur.

Í fjórða lagi byggir varnaraðili á því að í samningi aðila hafi ekki verið samhengi milli greiðslna varnaraðila annars vegar og afnota af samnings­andlaginu hins vegar. Þegar um leigusamning sé að ræða sé gagnkvæmni milli skyldu leigusala til að láta í té afnotarétt af samningsandlaginu og skyldu leigutaka til að greiða leigugreiðslu fyrir þau afnot. Þessi sé ekki svo farið í hinum umdeilda samningi þar sem greiðsluskylda varnaraðila sé óháð afnotum af andlaginu, sbr. ákvæði 7. gr. samningsskilmálanna um að greiðsluskylda falli ekki niður þó svo afnot falli niður vegna bilunar eða tjóns. Jafnframt vísar varnaraðili til ákvæðis 2. töluliðar 12. gr. um heimild sóknaraðila til að innheimta leigugreiðslur að fullu, verði samningi rift eða honum slitið af öðrum orsökum fyrir áætluð lok leigutíma.

Samkvæmt framansögðu hafi skylda varnaraðila samkvæmt samningi aðila ekki verið fólgin í því að greiða fyrir afnot hlutarins heldur að endurgreiða það fé sem sóknaraðili lánaði til kaupa á tækinu.

Í fimmta lagi vísar sóknaraðili til þess að skv. 12. gr. hinna almennu samningsskilmála hafi sóknaraðila verið heimilt, þótt samningi aðila væri rift á grundvelli vanskila eða honum slitið af öðrum ástæðum, að innheimta fullar leigugreiðslur til loka samningstímans. Samkvæmt skilmálunum hafi varnaraðila borið að standa skil á; gjaldföllnum greiðslum skv. 1. tölulið 12. gr., ógjaldföllnum afborgunum skv. 2. tölulið, öðrum tilfallandi kostnaði skv. 3. tölulið, bótum til leigusala vegna riftunar samkvæmt 4. tölulið og dráttarvöxtum skv. 5. tölulið.

Þá staðreynd að sóknaraðila hafi við vanefndir verið heimilt að rifta samningi og samhliða krefja varnaraðila um fullar greiðslur til loka samningstímans kveður varnaraðili sýna að um hafi verið að ræða lánssamning en ekki leigusamning. Varnaraðila hafi verið gert að greiða mánaðarlega leigugreiðslu samkvæmt samningi „... margfaldaðri með þeim fjölda greiðslna sem eftir standa, að frádregnum vaxtahluta þeirra.“, þ.e. greiða ógjaldfallnar eftirstöðvar samningsins, eins og þegar lán sé gjaldfellt vegna vanskila. Gera verði skýran greinarmun á rétti leigusala til að krefjast bóta fyrir missi leigutekna annars vegar og fortakslausri skyldu til að greiða eftirstöðvar samnings að fullu, sbr. samning aðila. Í þessu sambandi bendir varnaraðili sérstaklega á að bótaréttur leigusala vegna riftunar á samningi fyrir lok samningstíma sé sérstaklega áréttaður í 4. tölulið 12. gr. samningsskilmálanna. Réttur þessi sé óháður skyldu varnaraðila til að greiða ógjaldfallnar leigugreiðslur skv. 2. tölulið sömu greinar.

Í sjötta lagi bendir varnaraðili á að þar sem eignamyndun á samningstíma tilheyri honum en ekki sóknaraðila sé um lán að ræða, en séu verðmæti samningsandlagsins hærri en eftirstöðvar hans renni mismunurinn til varnaraðila. Væri um leigusamning að ræða væri þessu öfugt farið.

Ljúki samningi aðila fyrir ætluð samningslok gildi ákvæði 12. gr. samnings­skilmálanna um uppgjör aðila. Frá þeim kröfum sem sóknaraðili kunni að eiga skv. 1.-5. tölulið 12. gr. dragist staðgreiðsluverðmæti samningsandlagsins að frádregnum kostnaði sóknaraðila.

Skv. 4. mgr. 12. gr. samningsskilmálanna sé sóknaraðila heimilt að verja andvirði samningsandlagsins, sem eftir kunni að standa þegar greiðslum skv. 1.-5. tölulið 1. mgr. hafi verið fullnægt, til að greiða niður vanskil og kröfur vegna annarra eignaleigusamninga milli aðila. Ákvæði þetta verði ekki skilið öðru vísi en svo að ef engar slíkar kröfur séu fyrir hendi beri sóknaraðila að greiða varnaraðila út mismuninn.

Í sjöunda lagi vísar varnaraðili til þess að í viðskiptum aðila hafi sá háttur verið hafður á við lok fjármögnunarleigusamninga að eignarhald samningsandlagsins hafi færst frá sóknaraðila til varnaraðila án sérstaks samnings þar um. Á greiðsluseðlum frá sóknaraðila hafi verið tilgreint áætlað verðmæti leigumunar í lok samningstíma. Hafi það verið ígildi lokagreiðslu til færslu eignarréttar frá sóknaraðila til varnaraðila. Við uppgjör hafi verið tekið fram á útsendum greiðsluseðli að „[u]ppgjör samnings og útgáfa afsals miðast við að leigugreiðsla og aðrar greiðslur séu í skilum“. Engin dæmi séu hins vegar til um það í umfangsmiklum viðskiptum aðila að lok samnings hafi verið með þeim hætti sem greini í ákvæði 13 b í almennum samningsskilmálum sóknaraðila.

Af hálfu varnaraðila er á því byggt að uppgjör aðila hafi verið með þeim hætti að í lok samnings hafi sóknaraðili gefið út greiðsluseðil fyrir lokagreiðslu sem varnaraðili hafi greitt samhliða því að gefið var út afsal. Sami háttur hafi verið hafður á þegar varnaraðili hafi kosið að leysa til sín tæki fyrir lok samningstíma. Eftirstöðvar samnings aðila hafi þá verið greiddar upp og eignarréttur færður til varnaraðila. Þá telji varnaraðili að með hliðsjón af uppgjörsákvæðum í 12. gr. samningsskilmálanna hafi hinn raunverulegi eignarréttur legið hjá varnaraðila en ekki sóknaraðila. Ljóst sé af ákvæðinu að ef verðmæti hins leigða eða vátryggingarbætur væru hærri en krafa leigusala skv. 1.-5. tölulið 12. gr. rynni sá mismunur til varnaraðila.

Með vísan til alls þess sem að framan er rakið segir varnaraðili verða að líta svo á að sóknaraðili hafi veitt varnaraðila lán til kaupa á samningsandlaginu, sem klætt hafi verið í búning leigusamnings. Aðdragandi samningsins, ákvæði hans og uppgjör taki mið af því að sóknaraðili láni varnaraðila til kaupa á samningsandlaginu og fái greitt til baka ásamt umsömdum vöxtum. Ekki sé um það að ræða að varnaraðili greiði sóknaraðila fyrir afnot samningsandlagsins, svo sem algilt sé um leigusamninga. Samningur aðila hafi því verið lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001.

Varnaraðili kveður samning aðila skýrlega bera með sér að hann sé lán í íslenskum krónum. Samningsfjárhæðin sé tilgreind í íslenskum krónum, svo og mánaðarlegar greiðslur. Þá sé í 3. tölulið 2. gr. almennra samningsskilmála getið um gengistryggðar leigugreiðslur. Enn fremur séu fjárhæðir í erlendir mynt ekki tilgreindar í samningi, heldur eingöngu hlutfall þeirra.

Á því sé byggt, með vísan til forsendna Hæstaréttar í málum nr. 92/2010 og 153/2010, að ótvírætt sé að samningur aðila hafi falið í sér skuldbindingu í íslenskum krónum og falli hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001. Um sé að ræða lánssamning í íslenskum krónum sem gengistryggður sé eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla á gjalddögum hans. Lög nr. 38/2001 heimili ekki að lán í íslenskum krónum séu verðtryggð með því að binda þau við gengi erlendra gjaldmiðla. Reglur 13. og 14. gr. laga nr. 38/2001 séu ófrávíkjanlegar, sbr. 2. gr. laganna, og verði því ekki samið um grundvöll verðtryggingar sem ekki sé stoð fyrir í lögum. Fyrrnefnd ákvæði í samningi sóknar- og varnaraðila um gengistryggingu hafi því verið í andstöðu við fyrirmæli laganna og af þeim sökum óskuldbindandi fyrir varnaraðila.

Þeim málatilbúnaði sóknaraðila að undanþága 2. gr. laga nr. 38/2001 geti átt við um viðskipti aðila kveðst varnaraðili hafna. Sóknaraðili hafi ekki fært neinar sönnur á að gengistryggður samningur sé varnaraðila hagstæðari. Þvert á móti sýni framlagðir endurútreikningar að umreiknaður í samræmi við forsendur Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010 sé samningurinn varnaraðila hagstæðari en ef hann stæði óbreyttur.

Varnaraðili segir gera verða skýran greinarmun á lánum í erlendri mynt og gengistryggðum lánum í íslenskum krónum. Ekkert hindri aðila í því að bjóða lán sem í raun og veru séu í erlendri mynt.

Með setningu laga nr. 38/2001 hafi heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla verið felldar niður. Eðlilegt hafi verið talið að ef vilji væri til að nota erlenda gjaldmiðla í lánsviðskiptum væri sá tiltekni gjaldmiðill notaður, svo sem fram komi í lögskýringargögnum. Ef um sé að ræða skuldbindingu í erlendri mynt sé engin fyrirstaða fyrir aðila að semja um uppgjörsaðferð sem taki mið af kostnaði í erlendri mynt/myntum. Ekki verði séð að nokkrar hömlur eða hindranir séu settar við starfsemi lánastofnana sem vilji bjóða upp á raunveruleg erlend lán. Ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 séu því ekki andstæð ákvæðum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga, sbr. 40. gr. samningsins.

Jafnvel þó svo dómurinn kæmist að þeirri niðurstöðu að ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 séu í andstöðu við ákvæði EES-samningsins verði að leggja gildandi landsrétt til grundvallar við úrlausn ágreinings aðila í málinu. Lög nr. 38/2001 séu yngri en lög nr. 2/1993 og engin gild rök séu fyrir því að láta eldri lög ganga framar hinum yngri við úrlausn ágreinings samkvæmt íslenskum landsrétti. Ekki sé þá tekin afstaða til þess hvort sóknaraðili kunni að eiga bótarétt á hendur íslenska ríkinu vegna vankanta á lögleiðingu EES-samningsins.

Til stuðnings kröfum sínum vísar varnaraðili til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu. Enn fremur vísar hann til ákvæða 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.

IV.

A.

Óumdeilt er að varnaraðili hafði frumkvæði að kaupum á Komatsu-vél þeirri sem samningur aðila varðaði og kom fram gagnvart seljanda sem kaupandi í samræmi við 2. mgr. 1. gr. hinna almennu samningsskilmála. Samkvæmt sömu grein var það varnaraðili sem átti réttindi og bar skyldur gagnvart seljanda tækisins. Þá voru hugsanlegar vanefndir seljanda sóknaraðila óviðkomandi og bar varnaraðila að beina öllum kröfum vegna kaupanna til seljanda tækisins.

Ekki verður séð að sóknaraðili hafi komið að kaupum á fyrrnefndri vél að öðru leyti en því að hann hafi verið skráður kaupandi til tryggingar á efndum á lánssamningi. Varnaraðili fór hins vegar samkvæmt framansögðu með öll réttindi og skyldur kaupanda og átti allar kröfur á hendur seljanda vegna hugsanlegra vanefnda.

Af gögnum málsins þykir mega ráða að umsamið leiguverð hafi verið ákvarðað út frá kostnaði sóknaraðila við fjármögnun kaupanna, en ekki raunverulegu verðmæti vélarinnar. Greiðslur varnaraðila til sóknaraðila tóku mið af því að endurgreiða upprunalegan höfuðstól, þ.e. kaupverð vélarinnar, að viðbættum vöxtum og vaxtaálagi.

Svo virðist sem meðferð kaupleigu- og fjármögnunarleigusamninga sem sóknaraðili gerði hafi efnislega verið eins. Um samningana giltu að stofni til sömu skilmálar, almennir samningsskilmálar sóknaraðila. Einnig þykir verða að líta til þess að sóknaraðili færði ekki umrædda vél sem eign í bókahaldi sínu heldur færði hann kröfuna samkvæmt samningi aðila til eignar og voru tekjur af samningum vegna fjármögnunarleigu færðar sem vaxtatekjur en ekki leigutekjur.

Við úrlausn málsins verður enn fremur að horfa til þess að greiðslur samkvæmt samningi aðila báru vexti, en slík ákvæði eiga engan veginn við í leigusamningum. Þannig sagði í 7. gr. samningsins að vextir frá útborgunardegi greiddust með 1. gjalddaga. Einnig sagði í 4. tölulið 2. gr. hinna almennu samningsskilmála að sóknaraðila væri heimilt að endurreikna leigugjald sem væri gengistryggt samkvæmt breytingum á LIBOR/EURIBOR-vöxtum á erlendum gjaldmiðlum tilgreindum í 6. gr. samningsins. Jafnframt sagði í 2. tölulið 12. gr. skilmálanna að við riftun á samningi skyldi leigutaki standa leigusala skil á leigugreiðslu skv. 5. lið samnings margfaldaðri með þeim fjölda greiðslna sem eftir stæðu, að frádregnum vaxtahluta þeirra. Þá liggur fyrir að í þremur breytingum á skilmálum samnings aðila sagði að greiðsluáætlun væri breytt á þann veg að á tilteknu tímabili yrðu vaxtagjalddagar, þ.e. einungis greiddur vaxtaþáttur afborgunar skv. greiðsluáætlun.

Ekki verður séð að í samningi aðila hafi verið samhengi milli greiðslna varnaraðila og afnota af samnings­andlaginu og var greiðsluskylda varnaraðila óháð afnotum af andlaginu, sbr. ákvæði 7. gr. samningsskilmálanna um að greiðsluskylda falli ekki niður þó svo afnot falli niður vegna bilunar eða tjóns.

Skv. 12. gr. hinna almennu samningsskilmála var sóknaraðila heimilt, þó svo samningi aðila væri rift á grundvelli vanskila eða honum slitið af öðrum ástæðum, að innheimta fullar leigugreiðslur til loka samningstímans og bar varnaraðila að standa skil á gjaldföllnum greiðslum, ógjaldföllnum afborgunum, öðrum tilfallandi kostnaði, bótum til leigusala vegna riftunar og dráttarvöxtum.

Þá virðist sá háttur hafa verið hafður á í framkvæmd í viðskiptum aðila við lok fjármögnunarleigusamninga, en aðilar munu hafa gert allnokkra slíka samninga, að eignarhaldið færðist frá sóknaraðila til varnaraðila án sérstaks samnings þar um. Á greiðsluseðlum frá sóknaraðila var tilgreint áætlað verðmæti leigumunar í lok samningstíma og mun það hafa verið ígildi lokagreiðslu til færslu eignarréttar frá sóknaraðila til varnaraðila. Ekkert dæmi virðist til um það í viðskiptum aðila að lok fjármögnunarleigusamnings hafi verið með þeim hætti sem greinir í ákvæði 13 b í almennum samningsskilmálum sóknaraðila.

Að öllu því virtu sem hér hefur verið rakið er það álit dómsins að sóknaraðili hafi í raun veitt varnaraðila lán til kaupa á vél þeirri sem samningur aðila tók til og hafi samningurinn því ekki verið raunverulegur leigusamningur heldur lánssamningur í skilningi VI. kafla laga nr. 38/2001, sem sóknaraðili kaus í orði kveðnu að klæða í búning leigusamnings.

B.

Samningsfjárhæðin í samningi aðila var tilgreind í íslenskum krónum og einnig mánaðarlegar greiðslur. Þá er í 3. tölulið 2. gr. hinna almennu samningsskilmála sóknaraðila talað um gengistryggðar leigugreiðslur. Einnig verður ekki fram hjá því litið að fjárhæðir í erlendri mynt eru ekki tilgreindar í samningi aðila, eingöngu hlutfall þeirra.

Með vísan til framangreinds og niðurstöðu Hæstaréttar Íslands í málum nr. 92/2010 og 153/2010 verður að telja ljóst að hinn umdeildi samningur hafi falið í sér skuldbindingu í íslenskum krónum. Fellur hann því undir reglur VI. kafla laga nr. 38/2001. Samningurinn er lánssamningur í íslenskum krónum sem er gengistryggður eftir gengi tiltekinna erlendra gjaldmiðla á gjalddögum hans. Tilvitnuð lög heimila ekki verðtryggingu lána í íslenskum krónum með bindingu þeirra við gengi erlendra gjaldmiðla. Ákvæði 13. og 14. gr. laganna eru ófrávíkjanleg, sbr. 2. gr. þeirra. Tekið skal fram að sóknaraðili hefur ekki sannað að hinn gengistryggði samningur hafi verið varnaraðila til hagsbóta og hann því lögmætur á grundvelli 2. gr. i.f. laganna. Þvert á móti þykir mega ráða af fyrirliggjandi endurútreikningum, gerðum í samræmi við forsendur Hæstaréttar í málinu nr. 471/2010, að þannig sé samningurinn varnaraðila hagstæðari en ef hann stæði óbreyttur. Að öllu þessu sögðu verður því slegið föstu að ákvæði um gengistryggingu í samningi aðila hafi verið í andstöðu við fyrirmæli laga nr. 38/2001 og þau því ekki skuldbindandi fyrir varnaraðila.

Með setningu laga nr. 38/2001 voru heimildir til að binda skuldbindingar í íslenskum krónum við gengi erlendra gjaldmiðla felldar niður. Lögin standa því hins vegar ekki á nokkurn hátt í vegi að lán séu veitt hérlendis í erlendri mynt. Reifun sóknaraðila á þeim málatilbúnaði að framangreind niðurstaða sé í andstöðu við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum um frelsi til fjármagnsflutninga, sbr. 40. samningsins, er alls ófullnægjandi. Þykir sóknaraðili ekki hafa fært fram fyrir því haldbær rök að ákvæði VI. kafla laga nr. 38/2001 séu andstæð ákvæðum EES-samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga, sbr. 40. gr. samningsins. Verður því að hafna þeim málatilbúnaði sóknaraðila.

C.

Í samningi aðila frá 16. ágúst 2007 var ekki mælt fyrir um að skuldbinding varnaraðila við sóknaraðila ætti að fylgja breytingum á vísitölu neysluverðs. Er hvorki unnt að gefa samningnum það inntak með skýringu né geta lög leitt til þeirrar niðurstöðu, sbr. dóm Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010. Með vísan til þessa fordæmis réttarins, sem hér þykir eiga við, verður að líta svo á að atvik svari hér til þess að samið hafi verið um að greiða vexti af peningakröfu án þess að tiltaka hverjir þeir skyldu vera. Þegar svo stendur á skulu vextir skv. 4. gr., sbr. 3. gr., laga nr. 38/2001, vera á hverjum tíma jafnháir vöxtum sem Seðlabanki Íslands ákvæður með hliðsjón af lægstu vöxtum á nýjum almennum óverðtryggðum útlánum hjá lánastofnunum og birtir eru skv. 10. gr. laganna.

Samkomulag er með aðilum um að við úrlausn málsins skuli miða við útflutningsverð Komatsu-vélarinnar að fjárhæð 15.385.000 krónur, sbr. fyrirliggjandi verðmat Vélafs ehf. Samkvæmt áðursögðu og framlögðum endurútreikningi, sem byggir á dómafordæmi Hæstaréttar Íslands í máli nr. 471/2010, og sóknaraðili hefur ekki hnekkt, eru eftirstöðvar samnings aðila 22.715.789 krónur. Aðrar málsástæður sóknaraðila eru ekki studdar haldbærum rökum og verður þeim hafnað. Að þessu athuguðu þykir verða að fallast á kröfu varnaraðila í málinu.

Eftir úrslitum málsins úrskurðast sóknaraðili til að greiða varnaraðila málskostnað, sem hæfilega þykir ákveðinn svo sem í úrskurðarorði greinir.

Úrskurð þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

Krafa sóknaraðila, Íslandsbanka hf., að fjárhæð 7.330.789 krónur, er viðurkennd sem almenn krafa í þrotabú AB 258 ehf., varnaraðila máls þessa.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 450.000 krónur í málskostnað.