Hæstiréttur íslands
Mál nr. 512/2004
Lykilorð
- Eignaspjöll
- Ákæra
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Fimmtudaginn 14. apríl 2005. |
|
Nr. 512/2004. |
Ákæruvaldið(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari) gegn X(Hilmar Ingimundarson hrl.) |
Eignaspjöll. Ákæra. Frávísun frá héraðsdómi.
X var ákærður fyrir brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 meðal annars með því að hafa hellt eldfimu lími á nokkrar hurðir að geymslum á geymslugangi í kjallara og lagt eld að með þeim afleiðingum að eldur læsti sig í hurð á einni geymslunni og olli skemmdum. Enginn tjónþola hafði gert refsikröfu í málinu. Við rannsókn málsins lagði hins vegar formaður húsfélagsins fram slíka kröfu fyrir hönd félagsins samkvæmt ákvörðun stjórnar þess. Talið var að ekki væri unnt að líta á húsfélagið sem þann sem misgert var við í skilningi 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 25. gr. sömu laga, enda tilheyrðu þær eignir sem skemmdust séreignarhlutum einstakra íbúðareigenda í húsinu. Var málinu því vísað af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 14. desember 2004 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á sakfellingu og greiðslu skaðabóta en þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst sýknu. Þá krefst hann þess að skaðabótakröfu verði vísað frá dómi eða hún lækkuð.
Í máli þessu er ákærða gefið að sök brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með áorðnum breytingum með því að hafa 22. mars 2003 hellt eldfimu lími á nokkrar hurðir að geymslum á geymslugangi í kjallara að Hjaltabakka 6 í Reykjavík og lagt eld að með þeim afleiðingum að eldur læsti sig í hurð á einni geymslunni og olli þeim skemmdum, sem nánar eru tilgreindar í ákæru. Samkvæmt 4. mgr. 257. gr. áðurnefndra laga skal mál út af brotum gegn 1. mgr. því aðeins höfðað að sá krefjist þess, sem misgert var við. Enginn tjónþola hefur gert refsikröfu í málinu. Við rannsókn málsins lagði formaður Húsfélagsins að Hjaltabakka 2-16 hins vegar fram slíka kröfu fyrir hönd félagsins samkvæmt ákvörðun stjórnar þess. Ekki er unnt að líta á húsfélagið sem þann, sem misgert var við í skilningi 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 1. mgr. 25. gr. sömu laga, enda tilheyrðu þær eignir sem skemmdust séreignarhlutum einstakra íbúðareigenda í húsinu. Þar sem áskilnaður þessa ákvæðis er samkvæmt framansögðu ekki uppfylltur verður ekki hjá því komist að vísa málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber að greiða allan kostnað málsins í héraði og fyrir Hæstarétti úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, í héraði, Lilju Tryggvadóttur héraðsdómslögmanns, 55.000 krónur, og skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 120.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. nóvember 2004.
Málið er höfðað með ákæru Lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 28. september sl. á hendur ákærða, X, “fyrir eignaspjöll með því að hafa að næturlagi laugardaginn 22. mars 2003 hellt eldfimu lími á nokkrar hurðir að geymslum á geymslugangi í kjallara að Hjaltabakka 6 í Reykjavík og lagt eld að með þeim afleiðingum, að eldur læsti sig í hurð á einni geymslunni og olli skemmdum á henni og geymslunni og reyk- og sótskemmdum á öðrum geymslum á ganginum og munum sem í þeim voru, og að hafa í sama skipti brotið rúðu í þvottahúsi.
Telst brotið varða við 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.
Í málinu krefjast eftirtaldir aðilar þess að ákærði verði dæmdur til greiðslu skaðabóta:
Tryggingafélagið Sjóvá-Almennar, kt. 701288-1739, krefst bóta að fjárhæð kr. 333.468,- ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001 frá tjónsdegi til dómsuppkvaðningar og dráttarvöxtum skv. III kafla, sbr. 9. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags vegna greiðslu til íbúa vegna tjóns sem þeir urðu fyrir og félagið bætti.
Tryggingafélagið VÍS, kt. 690689-2009, krefst kr. 261.057,- ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001 frá tjónsdegi til dómsuppkvaðningar og dráttarvöxtum skv. III kafla, sbr. 9. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags vegna greiðslna til íbúa vegna tjóns sem þeir urðu fyrir og félagið bætti.
Tryggingafélagið TM, kt. 660269-2079, krefst kr. 786.930,- ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001 frá tjónsdegi til dómsuppkvaðningar og dráttarvöxtum skv. III kafla, sbr. 9. gr., sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags vegna greiðslna til íbúa vegan tjóns sem þeir urðu fyrir og félagið bætti.
A, krefst kr. 14.700,- vegna tjóns sem hann varð fyrir.”
Af hálfu ákærða er þess krafist að málinu verði vísað frá dómi þar sem refsikrafa í því hafi verið borin fram af persónu sem ekki hafi verið til þess bær, enda ekki haft skjallegt umboð til þess frá húsfélaginu í Hjaltabakka 6-12. Í málinu er skýrsla þar sem fram kemur að B, Hjaltabakka 8, kom til lögreglu 13. júlí sl. og gerði slíka kröfu fyrir hönd húsfélagsins. Kom fram í skýrslunni að stjórn félagsins hefði falið henni það á fundi kvöldið áður. Dómurinn fellst ekki á kröfu þessa og telur málið vera réttilega höfðað, sbr. 4. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.
Málavextir
Fyrir liggur að kveikt var í geymsluhurð í kjallara fjölbýlishússins nr. 6 við Hjaltabakka aðfaranótt laugardagsins 22. mars 2003. Hús þetta er u-laga fjölbýlishús með húsnúmerunum 2 16. Sameiginlegt þvottahús er fyrir fjölbýlishúsið í kjallaranum á nr. 6 og því innangengt um húsið í kjallara. Eldvarnarhurðir eru þó á milli húsnúmeranna. Á þessum tíma átti ákærði heima í húsinu númer 10. Þegar lögreglu og slökkvilið bar að höfðu íbúar slökkt eldinn með vatni en reykur var talsverður á geymsluganginum þar sem kveikt hafði verið í. Lími hafði verið hellt úr brúsa á nokkrar geymsluhurðir þarna en eldur aðeins borinn að einni þeirra. Þá sást að þvottahúsgluggi hafði verið brotinn og lá steinn á gólfinu þar inni. Grasflöt er fyrir utan þvottahúsgluggann. Þrjú vitni gáfu sig fram og sögðust, skömmu áður en eldsins varð vart, hafa orðið vör við mann á hlaupum við húsið eftir að hafa heyrt brothljóð. Tvö þeirra báru kennsl á ákærða sem mann þennan. Lögreglumenn fóru heim til ákærða, handtóku hann og færðu á lögreglustöðina. Í skýrslu Benedikts Lund rannsóknarlögreglumanns, um aðkomu lögreglunnar og um handtökuna segir að skór ákærða hefðu staðið frammi á gangi og verið blautir. Kristján Friðþjófsson tók skó þessa til athugunar og ljósmyndaði þá. Í skýrslu hans um þetta segir að skórnir hefðu verið rakir og mold og nýlegar grasleifar verið undir sólunum.
Ákærði
var yfirheyrður hjá lögreglu daginn eftir, að viðstöddum verjanda, og hófst
yfirheyrslan kl. 13.39. Ákærði
kvaðst hafa verið ölvaður daginn áður og drukkið fram eftir kvöldinu. Hann
hefði komið heim, um kl. 23.00 að hann minnti. Kona hans hefði farið fljótlega að sofa og hann þá farið að horfa
á vídeó og haldið áfram drykkju. Hefði
hann farið að hugsa um seinagang hjá hússtjórninni sem ekki hefði komið því í
verk að setja upp reykskynjara, þrátt fyrir íkveikjur þarna í húsinu. Kvaðst hann
hafa ákveðið í ölæði að hrista upp í mönnum vegna þessa. Hann hefði þurft niður í geymslu að sækja kjúkling
úr frystikistunni en þegar niður kom hefði hann séð þar á glámbekk brúsa með
hættulegum efnum og það valdið honum enn meiri reiði. Hann hefði því tekið einn
brúsann og ákveðið að hrista Hann hefði
verið með lykil á sér og átt greiða leið um geymslugangana. Þegar hann kom í númer 6 hefði hann opnaði brúsann og hvolft úr
honum og svo kveikt í brúsanum. Þegar
hann gekk til baka og var staddur í
gangi hússins númer 10, hefði hann fengið bakþanka og fyllst skelfingu yfir því
sem hann hafði gert. Hann hefði
því ákveðið að snúa við og slökkva eldinn, en þegar hann kom að eldvarnarhurðinni á milli 8 og 10 hefði hann ekki
getað sett lykilinn í læsinguna fyrir taugaspenningi og því ekki komist
að eldinum að slökkva hann. Hefði hann
þá hlaupið upp stigann, út í gegnum undirgöng og að þvottahúsglugganum, brotið þar rúðu með það í huga að komast inn til
þess að slökkva eldinn. Ekki mundi hann
hvernig hann braut rúðuna en þá hefði
heyrst hár hvellur og hann orðið hræddur um að til hans sæist og honum þá kennt
um þessa og fyrri íkveikjur í húsinu.
Hann hefði því
hlaupið til baka, enda
verið viss um að einhver hefði heyrt brothljóðið og að þá yrði eldsins vart. Hann hefði farið upp til sín, lagst fyrir og
breitt yfír höfuð sér. Honum hefði þó
ekki orðið svefnsamt og orðið hálf feginn þegar lögreglan kom og handtók
hann. Ákærði gat þess að hann hefði lengi verið atvinnulaus og það
hvílt þungt á honum. Hefði drykkja hans
aukist og væri svo komið að hann réði ekki við hana. Þá sækti að honum kvíði og þunglyndi. Yrði hann að fá læknishjálp og áfengismeðferð. Dómkvaddir
voru menn til þess að leggja mat á það hvort almannahætta hefði verið af
íkveikjunni. Var það niðurstaða þeirra
að eldurinn hefði slokknað af sjálfu sér hefði hann ekki verið slökktur. Hefði því ekki stafað almannahætta af
íkveikjunni.
Fimmtudaginn 3. apríl 2003 kom ákærði á lögreglustöðina ásamt verjanda sínum og óskaði eftir því að draga fyrri skýrslu sína til baka, því hann væri saklaus af íkveikjunni. Hann kvaðst hafa játað á sig íkveikjuna af hræðslu við að vera settur í gæsluvarðhald og við að það kæmi í fréttum. Hefði hann treyst á það að málið færi ekki í blöðin ef hann játaði íkveikjuna. Hann var spurður hvort það væri rangt eftir honum haft að hann hefði farið niður í kjallara með það í huga að sækja sér kjúkling í frystikistuna. Hann kvaðst hafa ætlað að sækja sér kjúkling, en hætt við það og farið út úr blokkinni og út í Ferjubakka til að heimsækja kunningja sinn, C. Þar hefði enginn ansað dyrabjöllunni og hann þá farið aftur. Ekki vissi hann hvað klukkan var þá. Hann var þá spurður hvort hann hefði ekki brotið rúðuna í þvottahúsinu, þegar hann hefði séð eftir því að hafa kveikt í. Óskaði ákærði þá eftir hléi á skýrslutökunni svo hann gæti ráðfært sig við verjandann. Eftir tæpa klukkustund kom hann aftur og lýsti því yfir að hann væri hættur við að draga framburð sinn til baka og lauk yfirheyrslunni með því.
Verður nú gerð grein fyrir því sem fram hefur komið í meðferð málsins fyrir dómi. Við þingfestingu lýsti ákærði yfir sakleysi sínu í málinu. Í upphafi aðalmeðferðar færðist hann undan því að gefa skýrslu en gerði það þó í lokin, sbr. hér á eftir.
D, íbúi í nr. 8 í húsinu, segist hafa aðgætt það þetta kvöld hvort millihurðirnar væru læstar, eins og hann var vanur. Hefði hann þá fundið að hurðin á milli 6 og 8 var úr lás, en læst á milli 8 og 10 og einnig út. Þegar hann opnaði milli 6 og 8 hefði hann séð eldinn sem var auðsjáanlega nýkveiktur. Hann hafi hringt upp til sonar síns sem hefði komið með vatnsfötu og þeir slökkt eldinn.
Benedikt Lund rannsóknarlögreglumaður, yfirheyrði ákærða og skráði eftir honum lögregluskýrslurnar í málinu. Hann segir ákærða fyrst hafa neitað því að hafa verið úti þegar vitnið hitti hann heima um nóttina en þegar honum hafi verið bent á að skórnir hans væru blautir hefði hann kannast við að hafa verið úti.
Hann kveður ákærða hafa greint sjálfstætt frá atvikum þegar hann gaf skýrsluna daginn eftir eldinn. Hann segir það áreiðanlega hafa borið á góma á milli þeirra að ákærði kynni að verða settur í varðhald, vegna alvarleika brotsins, en hvort honum hafi verið tilkynnt það formlega muni hann ekki. Þetta hafi líklega borið á góma í hléum sem voru gerð á yfirheyrslunni. Ákærði hafi borið það með sér að vera ekki í andlegu jafnvægi og kvaðst vitnið hafa ekið honum á geðdeild eftir skýrslutökuna. Um skýrsluna 3. apríl segir hann að ákærði hafi eftir hléð lýst því yfir að hann væri hættur við að draga skýrsluna til baka og engar skýringar gefið á því.
E, íbúi í nr. 6 kveðst hafa verið að horfa á myndband inni hjá sér og þá heyrt brothljóð. Hafi hann þá opnað gluggann, litið út og séð ákærða bogra við þvottahúsgluggann, henda svo einhverju frá sér og hlaupa í burtu. Sé glugginn rétt hjá þvottahúsglugganum og á jarðhæðinni. Hafi ákærði verið rétt hjá galopnum glugganum þegar hann fór þar hjá. Sé gluggi þessi í höfuðhæð manni fyrir utan húsið. Hann kveðst auk þess hafa þekkt ákærða af kunnuglegu hlaupalagi hans. Þetta hafi verið um þrjúleytið að hann minni og hann gefið sig fram þegar lögreglan var komin og sagt frá þessu atviki.
F, sem bjó í nr. 8, hefur sagt frá því að hann hafi verið inni hjá sér að reykja við opinn glugga á annarri hæð, dálítið til hliðar við þvottahúsgluggann, og þá séð ákærða, sem hann þekkti í sjón, hlaupa meðfram húsinu. Hann hefi ekki veitt þessu frekar athygli og sest niður. Örstuttu seinna hafi hann heyrt brothljóð og litið út og þá séð ákærða hlaupa til baka þá leið sem hann hafði hlaupið. Ekki hafi hann séð fleira fólk á ferli.
G, íbúi í nr. 6, hefur skýrt frá því að hann hafi heyrt brothljóð og tvær raddir rétt eftir brothljóðið, einhvern tíma á öðrum tímanum umrædda nótt. Fannst honum eins og önnur röddin hefði spurt: “Hvað ertu að gera ?” eða eitthvað í þá veru. Hafi hann farið út á svalir en engan séð.
Kona ákærða, H, hefur skýrt frá því að hún hafi háttað snemma um kvöldið, líklega um 10 til 10.30 og sofnað. Ákærði hafi komið heim um tíuleytið, eitthvað undir áhrifum áfengis en ekki áberandi. Hafi hún svo orðið vör við það þegar lögreglan vakti hana að ákærði var kominn inn í rúm og svaf. Hún segir ýmist hafa verið læst eða ólæst á milli húshlutanna í kjallaranum. Hún kveðst aldrei hafa gert sér sérstaka ferð niður til þess að aðgæta hvort væri læst. Hún segir ákærða hafa haft aðgang að lykli að þessum hurðum eins og annað heimilisfólk. Annars hafi verið sífellt hringl með kjallaralyklana, verið að skipta um þá o.s.frv. Hún segir að smiðir hafi fengið lánaða lykla hjá henni því hún hafi sótt lykla ákærða til smiðs eftir þennan atburð.
Ákærði neitar algerlega sök. hann segir að áður en hann var yfirheyrður hefði verið búið að leggja honum “algerlega reglurnar”. Hefði verið sagt við hann áður að hann færi í gæsluvarðhald, enda létti það lögreglumönnunum vinnuna. Hann kveðst hafa komið heim um ellefuleytið og haldið áfram drykkju. Hann segir að honum hafi verið lögð orð í munn í skýrslunni og lögreglan búið til sögu til að hafa í skýrslunni. Lögreglan hefði verið búin að rugla hann svo í ríminu þessa nótt að hann gafst upp og samþykkti allt sem lögreglan vildi að hann segði. Ákærði segist ekki hafa heyrt brothljóð þegar hann gekk með húsinu og ekki brotið rúðuna. Hann hafi verið mun lengra frá blokkinni þegar hann gekk þar framhjá, heldur en vitnin segi. Hann kveðst hafa drukkið mikið á þessum tíma.
Hann segist oft hafa komið í kjallarann þarna, enda séð um þvottana og haft lykil til þess að komast um.
Um seinni skýrslutökuna sé það að segja að þegar hann kom til þess að draga framburð sinn til baka hafi orðið mikil læti. Hafi lögreglumaðurinn hótað því að reka verjandann út og setja ákærða í gæsluvarðhald. Hann hafi fengið annan lögreglumann til liðs við sig sem hafi gengið í hringi um herbergið og endurtekið í sífellu: “Þú gerðir þetta !” Kveðst ákærði þá hafa gefist upp. Hann kannast við að hafa verið argur út í hússtjórnina á þessum tíma fyrir slóðaskap.
Niðurstaða
Ákærði gaf tvær skýrslur hjá lögreglu í málinu, báðar að viðstöddum verjanda. Í fyrri skýrslunni, 22. mars 2003, er greinargóð lýsing á íkveikjunni í geymslukjallaranum og á hvötum ákærða til verknaðarins. Tólf dögum síðar kom ákærði til lögreglunnar og kvaðst vilja afturkalla játninguna. Eftir að langt hlé var gert á þeirri yfirheyrslu og ákærði hafði ráðgast við verjandann, lýsti hann því yfir að hann félli frá því að draga játninguna til baka. Ákærði hefur borið því við að hann hafi ekki ráðið því sem skráð var í skýrslurnar og þær séu undan rifjum lögreglunnar runnar. Rannsóknarlögreglumaðurinn sem skráði skýrslurnar hefur komið fyrir dóminn og sagt að ákærði hafi skýrt sjálfstætt frá málsatvikunum í fyrri yfirheyrslunni. Verður ekki séð af gögnunum að neitt hafi verið athugavert við þessa yfirheyrslu og það að hann hætti við að afturkalla hana, eftir að hafa ráðfært sig við verjandann, styður það eindregið. Þykir ákærði ekki hafa gefið trúverðuga skýringu á breyttum framburði sínum í málinu. Þá er til þess að líta að ytri atrið styðja hana einnig. Þannig voru sólarnir á skóm hans blautir og í þeim gras og moldarleifar þegar lögreglan kom að finna hann um nóttina og tvö vitni, sem telja verður áreiðanleg og þekktu ákærða í sjón, sáu hann á hlaupum við húsið rétt í þann mund þegar brothljóðið í þvottahúsglugganum kvað við. Þykir ekki varhugavert að byggja á játningu ákærða hjá lögreglunni og telja að hann sé orðinn sannur að því að valda þeim eignaspjöllum sem ákæran greinir. Hefur ákærði því orðið sekur um brot gegn 1. mgr. 257. gr. almennra hegningarlaga.
Refsing og sakarkostnaður
Ákærða hefur verið refsað nokkrum sinnum áður fyrir ýmisleg brot, þó ekki hegningarlagabrot. Brot hans nú var stórlega vítavert. Þykir refsing hans vera hæfilega ákveðin fangelsi í 5 mánuði. Rétt þykir að fresta framkvæmd refsingarinnar og ákveða að hún falli niður að liðnum 3 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.
Sjóvá-Almennar tryggingar hf. hafa greitt þremur íbúum í Hjaltabakka 6 samtals 333.468 þúsund krónur í bætur vegna tjóns sem þeir urðu fyrir af völdum eldsins. Hefur félagið krafist þess að ákærði verði dæmdur til þess að greiða félaginu þessa fjárhæð ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38, 2001 frá 22. mars 2003 til dómsuppsögu og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna, sbr. 9. gr. þeirra frá þeim degi til greiðsludags. Krafa þessi er studd gögnum og ber að taka hana til greina að öllu leyti. Ber að dæma ákærða til þess að greiða félaginu þessa fjárhæð ásamt vöxtum eins og krafist er, en upphafsdagur vaxta telst þó vera 2. desember 2003.
Vátryggingafélag Íslands hf. hefur greitt tveimur öðrum íbúum 241.057 krónur í bætur vegna tjóns sem hlaust af eldinum. Hefur félagið krafist þess að ákærði verði dæmdur til þess að greiða félaginu þessa fjárhæð (ekki kr. 261.057, eins og í ákæru segir) ásamt vöxtum “samkvæmt 7. gr. vaxtalaga frá greiðsludegi bótanna, en síðan dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga til greiðsludags”. Engin gögn fylgja kröfunni en þess aðeins getið að bæturnar hafi verið greiddar samkvæmt mati og reikningi. Krafa þessi er ekki nægilega rökstudd og ber að vísa henni frá dómi.
Tryggingamiðstöðin hf. hefur greitt samtals 786.930 krónur í bætur til fjögurra íbúa í Hjaltabakka 6 vegna tjóns af brunanum og krefst þess í fernu lagi að ákærði verði dæmdur til þess að greiða félaginu þá fjárhæð ásamt vöxtum samkvæmt 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38,2001 frá 22. mars 2003 til dómsuppsögu og dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla laganna, sbr. 9. gr. þeirra frá þeim degi til greiðsludags. Kröfurnar eru ekki studdar öðrum gögnum en greiðsluyfirlitum félagsins. Ekki þykja þær vera nægilega rökstuddar og ber að vísa kröfunum frá dómi.
Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Lilju Tryggvadóttur hdl., 55.000 krónur.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 5 mánuði. Frestað er framkvæmd refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum 3 árum frá dómsbirtingu, haldi ákærði almennt skilorð.
Ákærði greiði Sjóvá-Almennum tryggingum hf. 333.468 þúsund krónur í skaðabætur ásamt almennum vöxtum frá 2. desember 2003 til dómsuppsögu og dráttarvöxtum frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun til verjanda síns, Lilju Tryggvadóttur hdl., 55.000 krónur.