Hæstiréttur íslands
Mál nr. 836/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Framlagning skjals
|
|
Fimmtudaginn 18. desember 2014 |
|
Nr. 836/2014. |
Ákæruvaldið (Bryndís
Ósk Jónsdóttir fulltrúi) gegn X (Guðmundur St. Ragnarsson hdl.) |
Kærumál. Framlagning skjals.
Með vísan til 2.
mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála var staðfestur úrskurður
héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu X um að tiltekið skjal yrði ekki lagt fram
í máli Á á hendur honum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt
Bogason og og Guðrún Erlendsdóttir settur
hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. desember 2014, sem
barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður
Héraðsdóms Vestfjarða 12. desember 2014, þar sem hafnað var kröfu varnaraðila
um að tiltekið skjal yrði ekki lagt fram í máli sóknaraðila á hendur honum. Kæruheimild
er í p. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að fyrrgreind
krafa sín verði tekin til greina. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Samkvæmt 2. mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008 leggur ákærandi fram þau
skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og
sönnunargildi hafa að hans mati. Sóknaraðili aflaði þeirra gagna, er liggja að
baki umræddu skjali, við rannsókn málsins að fengnum dómsúrskurði og hefur
metið það svo að skjalið hafi sönnunargildi í málinu. Þegar af þeirri ástæðu
verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður dæmist ekki, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Vestfjarða 12.
desember 2014.
I
Mál
þetta sem lögreglustjórinn á Vestfjörðum höfðaði með ákæru 15. september 2014 á
hendur ákærðu X, kennitala [...], og Y, kennitala [...], báðum til heimilis að [...],
var tekið til úrskurðar 9. desember sl. um kröfu ákærða X um að dómari úrskurði
að ákæruvaldi sé óheimilt að leggja fram endurrit af hljóðupptökum sem nánar
eru tilgreindar í skjali merktu nr. I.9.1, sbr. dómskjal nr. 6, og kröfu ákærða Y um að ekki verði lögð fram nein gögn er
varði símhlustun vegna hans, sbr. skjal merkt nr. I.11.1, sbr. dómskjal nr. 6.
Þá gera ákærðu kröfu um greiðslu málsvarnarlauna vegna þessa þáttar málsins.
Af
hálfu ákæruvalds er kröfum ákærðu mótmælt.
II
Í
ofangreindri ákæru eru ákærðu m.a. ákærðir fyrir fíkniefnalagabrot og
tollalagabrot, með því að hafa þriðjudaginn 23. júlí 2013, að [...], haft
sameiginlega í vörslum sínum, í sölu- og dreifingarskyni 111,64 grömm af maríhúana, 1,8 grömm af amfetamíni, 6,26 grömm af kókaíni, anabólíska stera (19 ml af Deca-Durabolin, 12 ml af Mesterolon, 10 ml af Trenbolon, 8 ml af Testosteron og 3 ml af Boldedone), sem ákærðu
vissu eða máttu vita að höfðu verið fluttir ólöglega til landsins, svo og
67.500 krónur í reiðufé sem talið er vera ágóði af sölu ólöglegra fíkniefna og
stera. Með úrskurðum Héraðsdóms Vestfjarða 17. júlí 2013 var lögreglu veitt
heimild til símhlustunar vegna síma ákærðu frá uppkvaðningu úrskurðanna til 13.
ágúst 2013. Samkvæmt málsgögnum voru símar ákærðu hlustaðir a.m.k. frá 19. júlí
2013. Þann 23. júlí var gerð húsleit á heimili ákærðu og fundust þá þau
fíkniefni og lyf sem tilgreind eru í ákæru. Þá benda gögnin til þess að
símhlustun hafi verið fram haldið þar til 12. ágúst 2013.
III
Af hálfu ákærðu er þess krafist að ákæruvaldi verði
meinað að leggja fram gögn er fengin voru við símhlustun. Um er að ræða endurrit af símtölum
ákærðu á tímabilinu 19. júlí 2013 til 12. ágúst 2013, en þar hefur á nokkrum
stöðum misritast ártalið 2014 í stað 2013, og tvo DVD-diska sem innihalda
upptökur af símtölunum. Gögn þessi voru lögð fram við þingfestingu málsins sem
hluti af dómskjali nr. 6 er inniheldur rannsóknargögn málsins. Ákærðu byggja kröfu sína á því að ekki séu
lagaskilyrði til þess að leggja umrædd skjöl fram og er í því sambandi einkum
vísað til 2. mgr. 83. gr. sakamálalaga nr. 88/2008, þ.e. meint brot geti ekki
varðað 8 ára fangelsi og/eða almannahagsmunir krefjast ekki símhlustunar.
Einnig er á því byggt að nefnd gögn hafi ekki sönnunargildi í málinu, sbr. 2.
mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008. Þá byggir verjandi ákærða X á því að símtal
hans við A lögmann sé trúnaðarsamtal ákærða við lögmann sinn og fari því
framlagning skjalsins m.a. í bága við 2. mgr. 119. gr. sömu laga.
Verjandi
ákærða X fékk afrit af málsgögnum send með bréfi dagsettu 23. september 2014 og
var hann þá einnig skipaður verjandi ákærða. Fyrrum verjandi ákærða Y fékk
málsgögn send á sama hátt með bréfi dagsettu 30. september 2014 en málið var
þingfest daginn eftir, 1. október 2014. Ákærðu mættu í þingfestinguna án
verjenda sinna og var þá ákveðið að aðalmeðferð málsins færi fram 7. nóvember
2014 en var síðan frestað til 9. desember vegna ófærðar. Skömmu fyrir ætlaða
aðalmeðferð 7. nóvember komu upp grunsemdir um að meðal rannsóknargagna væri að
finna símtal milli ákærða X og verjanda hans en svo reyndist ekki vera.
Málsgögn bera ekki með sér við hvern var rætt heldur er einungis vísað til „B“
sem viðmælanda ákærða. Í ljós kom síðar að um annan lögmann var að ræða með
sama fornafn. Ekki fæst því séð að fyrr hafi nokkuð verið fram komið sem gaf
verjanda ákærða X ástæðu til að ætla að framlögð rannsóknargögn gætu haft að
geyma gögn sem hugsanlega féllu undir undanþágu 4. mgr. 134. gr. laga nr.
88/2008. Hvað þetta atriði varðar lítur dómurinn svo á að með hliðsjón af
atvikum sé rétt að telja að andmæli ákærða X séu ekki of seint fram komin þar
sem þau komu fram áður en næsta þinghald fór fram eftir að grunsemdir um
framangreint vöknuðu. Enda þótt gögnin hafi þegar verið lögð fram telur
dómurinn rétt að líta svo á að ágreiningur málsins lúti að heimild til að
leggja þau fram sem sönnunargögn.
Samkvæmt 1. mgr. 134. gr. laga um meðferð sakamála
nr. 88/2008 leggja aðilar
fram þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem þeir vilja að tekið verði
tillit til við úrlausn máls. Í 2. mgr. ákvæðisins segir að ákærandi leggi fram
þau skjöl og önnur sýnileg sönnunargögn sem aflað hefur verið við rannsókn og
sönnunargildi hafa að hans mati. Samkvæmt 4. mgr. ákvæðisins er óheimilt að
leggja fram skjöl eða annars konar gögn ef þau hafa að geyma upplýsingar um það
sem sakborningi og verjanda hans hefur farið á milli, svo og upplýsingar sem 2.
mgr. 119. gr. tekur til. Ákærði X byggir kröfu sína á því að með vísan til 4.
mgr. 134. gr. laga nr. 88/2008, sbr. 2. mgr. 119. gr. sömu laga, sé ákæruvaldi
óheimilt að leggja fram símtal frá 31. júlí 2013 þar sem það hafi verið milli
ákærða og lögmanns hans. Óumdeilt er að lögmaðurinn er ekki og hefur ekki verið
verjandi ákærða í því máli sem hér er til umfjöllunar og að þegar símtalið átti
sér stað hafði ákærða hvorki verið tilnefndur né skipaður verjandi vegna
málsins. Í ákvæðinu er einnig vísað til upplýsinga sem 2. mgr. 119. gr. laganna
tekur til. Þar er í b-lið m.a. vísað til upplýsinga um einkahagi manns sem
lögmanni hefur verið trúað fyrir í starfi sínu. Samkvæmt 32. gr. laganna er
sakborningi á öllum stigum opinbers máls heimilt að ráða lögmann á sinn kostnað
til að gæta hagmuna sinna. Með vísan til framangreinds verður því undanþágan í
4. mgr. 134. gr. ekki einskorðuð við samskipti sakbornings við lögmenn sem eru
skipaðir eða tilnefndir verjendur viðkomandi. Í nefndu símtali ræddi ákærði um
ætlað brot sitt við lögmanninn og leitaði ráðlegginga hjá honum. Þá liggur
fyrir yfirlýsing lögmannsins um að hann hafi verið lögmaður ákærða í mörg ár og
varið hann í mörgum sakamálum og að ákærði hafi í nefndu símtali verið að leita
eftir ráðleggingum hans. Eins og á stendur í máli þessu verður að telja þær
upplýsingar sem fram koma í nefndu símtali varði einkahagi ákærða, sbr. 2. mgr.
119. gr. laga nr. 88/2008. Þá verður að telja, með vísan til yfirlýsingar
lögmannsins og innihalds símtalsins, að tengsl ákærða og lögmannsins séu slík
að þau eigi undir ákvæðið. Ákvæðinu er ætlað að vernda trúnaðarsamband
sérfræðings og skjólstæðings sem til hans leitar. Mátti ákærði treysta því að
þær upplýsingar sem hann lét lögmanninum í té í símtalinu yrðu ekki notaðar
gegn honum í sakamáli. Er það því mat dómsins að undanþáguheimild 4. mgr. 134.
gr. eigi við. Verður því ákæruvaldinu meinað að leggja nefnt símtal fram.
Hvað
varðar kröfur ákærðu að öðru leyti þá er ljóst að verjandi ákærða Y hafði ekki
svigrúm til að skoða gögn málsins fyrir þingfestingu þess 1. október 2014
andstætt því sem ætla má um verjanda ákærða X miðað við framangreindar
dagsetningar. Verjendur ákærðu komu andmælum sínum vegna framlagningar
skjalanna á framfæri við dómara nokkrum dögum fyrir ætlaða aðalmeðferð 9.
desember, verjandi ákærða X 4. desember og verjandi ákærða Y 5. desember. Voru
þá liðnir um tveir mánuðir frá þingfestingu málsins, og þar með framlagningu
gagnanna, og svipaður tími frá því verjendur fengu afhent afrit af gögnum
málsins. Verður því ekki talið að kröfurnar hafi verið settar fram jafnskjótt
og tilefni varð til og að þær séu því of seint fram komnar og er þeim þegar að
þeirri ástæðu hafnað.
Með vísan til alls framangreinds er kröfum ákærðu
hafnað, að því undanskildu að ákæruvaldi er meinað að leggja fram gögn um
símtal ákærða X við A hæstaréttarlögmann 31. júlí 2013, eins og nánar greinir í
úrskurðarorði.
Ákvörðun um greiðslu málsvarnarlauna vegna þessa
þáttar málsins bíður efnisdóms.
Úrskurð
þennan kveður upp Sigríður Elsa Kjartansdóttir dómstjóri.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Ákæruvaldi
er óheimilt að leggja fram gögn um símtal ákærða X við A hæstaréttarlögmann 31.
júlí 2013 frá klukkan 14.38.16. Kröfu ákærða um að ákæruvaldi verði meinað að
leggja fram skjal merkt I.9.1, sbr. dómskjal 6, að öðru leyti, er hafnað.
Kröfu
ákærða, Y, um að ákæruvaldi verði meinað að leggja fram skjal merkt I.11.1,
sbr. dómskjal 6, er hafnað.
Ákvörðun um greiðslu málsvarnarlauna bíður
efnisdóms.