Hæstiréttur íslands

Mál nr. 89/2005


Lykilorð

  • Skuldamál


Fimmtudaginn 20

 

Fimmtudaginn 20. október 2005.

Nr. 89/2005.

Jóhann Gíslason

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

gegn

Domus Medica húsfélagi

(Guðjón Ármann Jónsson hrl.)

 

Skuldamál.

Húsfélagið D krafði J, sem átti hlut í fjöleignarhúsinu, um greiðslu tiltekinna húsgjalda og gjalda vegna framkvæmda á árunum1999 til 2003. Kröfum J um frávísun málsins frá héraðsdómi og um ómerkingu héraðsdóms var hafnað. J taldi D reisa kröfu sína um þátttöku J í umræddum gjöldum og kostnaði á hlutfallstölum sem væru á reiki. Talið var, að rétt væri að leggja til grundvallar skiptayfirlýsingu 3. mars 1996, þrátt fyrir að skjalið hafi ekki fundist í skjalahylkjum sýslumannsins í Reykjavík, þar sem því hafði verið þinglýst, en afrit yfirlýsingarinnar lá fyrir í málinu. Þá var talið að málsástæða J um að hluti kröfunnar væri fyrndur, væri of sent fram komin og varð því ekki á henni byggt fyrir Hæstarétti. J reisti sýknukröfu sína m.a. á því að tiltekin ákvörðun D um utanhúsklæðningu á hluta hússins væri ólögmæt. Samkvæmt gögnum málsins sat J í stjórn D á árunum 2001 og 2002, en í ársreikningum D vegna þessara ára var kostnaður vegna umræddrar framkvæmdar með skýrum orðum færður til gjalda. Engin gögn voru hins vegar um andmæli J við lögmæti þeirra. Var J talinn bundinn við ákvörðunina. Niðurstaða Hæstaréttar um innborganir J til lækkunar kröfu D var reist á forsendum héraðsdóms, en endanleg kröfugerð D fyrir Hæstarétti var í samræmi við þær. Í dómsorði héraðsdóms hafði hins vegar láðst að tilgreina innborganirnar. Var héraðsdómur staðfestur þó þannig að frá dómkröfu D með dráttarvöxtum skyldi draga umræddar innborganir.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 3. mars 2005. Hann krefst þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að því verði vísað heim í hérað. Að því frágengnu krefst hann sýknu af kröfu stefnda. Í öllum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krafðist í greinargerð til Hæstaréttar staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti. Skilja verður munnlegan málflutning hans fyrir Hæstarétti svo að í honum felist breytt kröfugerð þannig að frá þeirri fjárhæð sem áfrýjanda var dæmd með dómsorði héraðsdóms ásamt þar greindum dráttarvöxtum skuli dragast eftirtaldar innborganir á tilgreindum innborgunardögum: 57.064 krónur  13. október 2000, 111.652 krónur 20. desember sama ár, 32.617 krónur 5. febrúar 2001, 90.678 krónur 13. júlí sama ár, 15.152 krónur 2. september 2002, 30.304 krónur 16. desember sama ár, 31.968 krónur 21. janúar 2003, 8.881 króna 4. febrúar sama ár, 28.962 krónur 21. sama mánaðar, 1.599 krónur 12. mars sama ár, 46.096 krónur 6. maí sama ár og 7.445 krónur 3. júní sama ár.

I.

Áfrýjandi er eigandi að eignarhluta 0101 í fjöleignarhúsinu við Egilsgötu 3, Reykjavík. Stefndi er húsfélag fjöleignarhússins. Í máli þessu krefur stefndi áfrýjanda um greiðslu tiltekinna húsgjalda og gjalda vegna framkvæmda við húsið á tímabilinu 1999 til 2003. Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi.

Með úrskurði héraðsdóms 18. mars 2004 var kröfu stefnda um staðfestingu á lögveðrétti í eignarhlut áfrýjanda vísað frá dómi en kröfu áfrýjanda um frávísun málsins að öðru leyti hafnað. Við áfrýjun málsins leitaði áfrýjandi jafnframt endurskoðunar á úrskurði þessum að því er varðar þær kröfur sem fengu efnimeðferð í héraði. Áfrýjandi telur að við breytingar á kröfugerð stefnda eftir að úrskurðurinn gekk hafi málatilbúnaður hans orðið enn óljósari en áður og varði það einnig frávísun málsins frá héraðsdómi. Með vísan til forsendna fyrrgreinds úrskurðar sem og forsendna hins áfrýjaða dóms er staðfest sú niðurstaða að skilyrðum sé fullnægt til að efnisdómur verði lagður á málið. Er kröfu áfrýjanda um frávísun þess frá héraðsdómi því hafnað.

Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms reisir áfrýjandi annars vegar á því að misræmi sé milli forsendna hans og dómsorðs og hins vegar að með niðurstöðu hins áfrýjaða dóms hafi héraðsdómari farið út fyrir kröfu stefnda þar sem þar hafi láðst að tilgreina til frádráttar óumdeildar innborganir á kröfuna. Í forsendum hins áfrýjaða dóms er fjallað efnislega um tölulega kröfugerð í málinu þar á meðal um nefndar innborganir og afstaða tekin til málsástæðna aðila. Enda þótt mistök hafi orðið í dómsorði hins áfrýjaða dóms varðandi tilgreiningu á innborgunum eru ekki efni til að verða við kröfu áfrýjanda um ómerkingu dómsins.

II.

Áfrýjandi telur stefnda reisa kröfu sínar um þátttöku í rekstrargjöldum og framkvæmdakostnaði á kostnaðarhlutföllum sem séu á reiki. Telur hann sig ekki verða krafinn um hærri hlutdeild en 1,35%, sem gögn málsins sýni að gilt hafi 1992 og 1995. Meðal gagna málsins er afrit af skiptayfirlýsingu 3. mars 1996. Er hún undirrituð af áfrýjanda og þinglýst 6. mars 1996. Er eignarhlutdeild hans þar tilgreind 1,76%. Áfrýjandi hefur lagt fram staðfestingu sýslumannsins í Reykjavík um að umrætt skjal hafi þrátt fyrir ítrekaða leit ekki fundist í skjalahylkjum embættisins og lætur hann að því liggja í greinargerð til Hæstaréttar að yfirlýsingin sé fölsuð eða að undirritun hans hafi ekki réttilega tengst efni yfirlýsingarinnar. Hann hefur engin haldbær rök eða gögn lagt fram þessu til stuðnings og verður yfirlýsingin því lögð til grundvallar. Haggar það ekki þessari niðurstöðu þótt áfrýjandi hafi miðað einstaka reikninga við lægri hlutfallstölu.

Í greinargerð til Hæstaréttar byggir áfrýjandi á því að elsti hluti kröfu stefnda, 76.397 krónur sé fyrndur. Stefndi telur þessa kröfu hafa fallið í gjalddaga 31. janúar 2000, en hún eigi rætur að rekja til rekstrargjalda fyrir árið 1999 og sé í samræmi við ársreikning stefnda fyrir það ár. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að þessi málsástæða áfrýjanda hafi verið höfð uppi í héraði og hefur stefndi andmælt því að svo hafi verið. Verður að telja hana of seint fram komna með vísan til  2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 17. gr. l. nr. 38/1994. Verður því ekki á henni byggt fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandi telur í greinargerð til Hæstaréttar að „framkvæmdakostnaður ýmis konar“ njóti ekki lagastoðar þar sem kröfur stefnda byggi á ógildum ákvörðunum stefnda, „sem sumar fari í berhögg við ákvæði B liðs 41. greinar laga nr. 26/1994 um fjöleignarhús.“ Þrátt fyrir þessa almennu fullyrðingu hefur áfrýjandi í málatilbúnaði sínum einungis fjallað efnislega um eina tiltekna ákvörðun stefnda sem hann telur þessum annmörkum háða. Er það ákvörðun félagsfundar 29. maí 2001 um að gengið verði til samninga við Björn Traustason á grundvelli tilboðs í utanhúsklæðningu á hluta hússins. Verður með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á þá ályktun hans að tveir liðir í kröfu stefnda tengist þessari ákvörðun, það er 147.152 krónur með gjalddaga 1. september 2001 og 163.742 krónur með gjalddaga 3. maí 2003. Samkvæmt gögnum málsins er ljóst að áfrýjandi sat í stjórn stefnda á árunum 2001 og 2002. Í ársreikningum stefnda vegna beggja þessara ára er kostnaður vegna þessarar framkvæmdar með skýrum orðum færður til gjalda. Eru engin gögn um að áfrýjandi hafi sem stjórnarmaður gert fyrirvara um staðfestingu reikninganna eða hreyft á annan hátt andmælum við þeim. Með þessari athugasemd verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að áfrýjandi sé bundinn við umrædda ákvörðun þar sem mótmæli hans um ólögmæti hennar við málsókn þessa séu of seint fram komin.

Í forsendum héraðsdóms eru einstakir liðir kröfu stefnda raktir sem og innborganir áfrýjanda og kreditfærslur til lækkunar kröfunni. Samkvæmt því miðaðist endanleg krafa stefnda við að nánar tilgreindar innborganir áfrýjanda hafi samtals numið 462.418 krónum. Þá var það niðurstaða héraðsdóms að stefndi teldi sig hafa greitt samtals sömu fjárhæð með eða án fyrirvara. Áfrýjandi hefur ekki lagt fram gögn um frekari greiðslur fyrir Hæstarétt og verður niðurstaða um innborganir til lækkunar stefnukröfu því reist á forsendum héraðsdóms, en endanleg kröfugerð stefnda fyrir Hæstarétti er í samræmi við þær. Í dómsorði hins áfrýjaða dóms láðist hins vegar að tilgreina þær innborganir sem samkvæmt kröfugerð stefnda og forsendum dómsins skyldu koma til frádráttar dómkröfu. Samkvæmt öllu framanrituðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur þó þannig að frá dómkröfu stefnda með dráttarvöxtum skal draga innborganir eins og nánar greinir í dómsorði.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður en þó þannig að frá dómkröfu stefnda, Domus Medica húsfélags, dragast eftirgreindar innborganir áfrýjanda, Jóhanns Gíslasonar: 57.064 krónur 13. október 2000, 111.652 krónur 20. desember sama ár, 32.617 krónur 5. febrúar 2001, 90.678 krónur 13. júlí sama ár, 15.152 krónur 2. september 2002, 30.304 krónur 16. desember sama ár, 31.968 krónur 21. janúar 2003, 8.881 króna 4. febrúar sama ár, 28.962 krónur 21. sama mánaðar, 1.599 krónur 12. mars sama ár, 46.096 krónur 6. maí sama ár og 7.445 krónur 3. júní sama ár.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 3. desember 2004.

Mál þetta var höfðað með stefnu birtri 7. október 2003 og dómtekið 19. nóvember sl. Stefnandi er Domus Medica, húsfélag, Egilsgötu 3, Reykjavík, en stefndi er Jóhann Gíslason, Flókagötu 47, Reykjavík.

Endanleg krafa stefnanda er að stefndi verður dæmdur til greiðslu skuldar að fjárhæð 922.575 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, af 76.397 krónum frá 31. janúar 2000 til 1. nóvember 2000, af 133.461 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2001, af 245.113 krónum frá þeim degi til 11. febrúar 2001, af 277.730 krónum frá þeim degi til 18. ágúst 2001, af 344.250 krónum frá þeim degi til 30. október 2001, af 398.100 krónum frá þeim degi til 1. júní 2002, af 440.898 krónum frá þeim degi til 1. september 2002, af 603.578 krónum frá þeim degi til 11. desember 2002, af 633.882 krónum frá þeim degi til 20. janúar 2003, af 703.693 krónum frá þeim degi til 19. mars 2003, af 705.292 krónum frá þeim degi til 3. maí 2003, af 869.034 krónum frá þeim degi til 4. maí 2003, af 915.130 krónum frá þeim degi til 7. júní 2003, af 922.575 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Endanlegar kröfur stefnda eru þær að málinu verði í heild vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til þrautavara er krafist verulegrar lækkunar kröfunnar og að dráttarvextir verði einungis dæmdir frá uppkvaðningu dóms. Hann krefst einnig málskostnaðar.

Málið var flutt um kröfu stefnda um frávísun 4. mars 2004. Með úrskurði 18. sama mánaðar var kröfu stefnanda um staðfestingu á lögveðrétti í eignarhluta stefnda merktum M-0101 í húsinu nr. 3 við Egilsgötu í Reykjavík, fyrir tímabilið desember 2002 til og með júní 2003 auk dráttarvaxta og málskostnaðar, var vísað frá dómi. Að öðru leyti var hafnað kröfu stefnda um frávísun málsins. Við aðalmeðferð málsins krafðist stefndi enn frávísunar málsins í heild með vísan til þess hvernig málið hefði þróast eftir að framangreindur úrskurður var kveðinn upp. Er gerð nánari grein fyrir þeirri kröfu í umfjöllun um málsástæður og lagarök stefnda.

Ekki var um munnlegar skýrslur að ræða við aðalmeðferð málsins. Rétt er að geta þess að stefndi fór með mál sitt sjálfur fram að fyrirtöku þess 11. maí sl.

I.

Málsatvik

Stefndi er eigandi að eignarhluta 0101 í fjöleignarhúsinu við Egilsgötu 3, Reykjavík, en stefnandi er húsfélag fjöleignarhússins. Meðal gagna málsins er skiptayfirlýsing árituð um þinglýsingu 6. mars 1996. Samkvæmt þeirri yfirlýsingu er eignarhluti stefnda 32,3 fm í suð-austur horni háhýsis á 1. hæð og fylgir eignarhlutanum hlutdeild í sameign háhýsis og sameign alls hússins samkvæmt meðfylgjandi töflu og sérsameign nr. 0106. Hlutfallstala eignarhlutans er 1,76%. Samkvæmt því sem fram kemur í stefnu er krafa stefnanda komin til vegna eftirfarandi húsgjalda og gjalda í framkvæmdasjóð á tímabilinu desember 1999 til 2003:

Kröfur

Gjalddagar

76.397,-

31.01.00

57.064,-

01.11.00

28.532,-

01.01.01

83.120,-

01.01.01

32.617,-

11.02.01

63.546,-

13.08.01

27.132,-

13.08.01

42.516,-

18.08.01

24.004,-

18.08.01

53.850,-

30.10.01

42.798,-

01.06.02

15.152,-

01.09.02

147.528,-

01.09.02

30.304,-

11.12.02

31.968,-

20.01.03

28.962,-

20.01.03

8.881,-

20.01.03

1.599,-

19.03.03

163.742,-

03.05.03

46.096,-

04.05.03

7.445,-

07.06.03

Samtals 1.013.253,-

 

Samkvæmt stefnu skyldu dragast frá ofangreindri fjárhæð innborganir og kreditfærslur samtals að fjárhæð 286.257 krónur sem hér segir:

Greiðsla

Dagsetning innborgunar

32.617,-

05.02.01

27.132,- (kreditfærsla)

13.07.01

63.546,- (kreditfærsla)

13.07.01

15.152,-

02.09.02

30.304,-

16.12.02

31.968,-

21.01.03

8.881,-

04.02.03

28.962,-

21.02.03

1.599,-

12.03.03

46.096,-

06.05.03

Samtals 286.257,-

 

Í þinghaldi 14. apríl sl. gerði stefnandi þá breytingu á kröfugerð sinni að frá stefnufjárhæð skyldu einnig dragast frá höfuðstól dómkröfu innborganir dags. 13. okt. 2000 að fjárhæð 57.064 krónur, 20. desember 2000 að fjárhæð 28.532 krónur, 20. des. 2000 að fjárhæð 83.120 krónur og 3. júní 2003 að fjárhæð 7.445 krónur. Að viðbættum þessum innborgunum nemur frádráttur frá kröfu stefnanda alls 462.418 krónum sem er sú heildarinnborgun sem endanleg stefnukrafa miðast við, eins og áður segir. Við aðalmeðferð málsins lækkaði stefnandi höfuðstól kröfu sinnar í 922.575 krónur. Var þessi lækkun skýrð svo að kröfur að fjárhæð 27.132 krónur og 63.546 krónur, báðar með gjalddaga 1. ágúst 2001, hefðu verið felldar niður með hliðsjón af kreditfærslum sem sömu fjárhæðum. Ekki var af þessu tilefni gerð breyting á fjárhæð þeirra innborgana sem stefnandi telur að eigi að koma til frádráttar höfuðstól.

II.

Málsástæður og lagarök aðila

Stefnandi reisir kröfur sínar á almennum reglum samninga- og kröfuréttar um greiðslu fjárskuldbindinga svo og 48. gr. laga nr. 26/1994 um fjöleignahús. Við munnlegan flutning málsins taldi lögmaður stefnda að mótmæli stefnda væru of seint fram kominn og væri réttur stefnda til að andmæla einstökum kröfum fallinn niður fyrir tómlæti, ef honum hefði verið til að dreifa. Þá mótmælti stefnandi málsástæðum stefnda viðvíkjandi gildi eignaskipayfirlýsingar, sem reifaðar voru við flutning málsins, sem nýjum og of seint fram komnum.

Eins og áður greinir krefst stefndi frávísunar málsins í heild. Þá kröfu sína byggir hann á því að málatilbúnaður stefnanda sé óskýr og hafi sá óskýrleiki fremur aukist en minnkað eftir að gagnaöflun lauk. Í þessu sambandi telur stefnandi að óheimilt sé að láta eina ótilgreinda fjárhæð dragast frá höfuðstóli dómkröfu. Þá hafi orðið slíkar breytingar á grundvelli málsins með breytingum á dómkröfum stefnanda að grundvöllur málsins sé brostinn.

Að því er varðar efnishlið málsins lýsir stefndi afstöðu sinna til krafna með eftirfarandi hætti í greinargerð sinni:

Kröfur

Gjalddagar

 

76.397,-

31.01.00

Barst stefnda ekki

57.064,-

01.11.00

Greitt með fyrirvara

28.532,-

01.01.01

Greitt með fyrirvara

83.120,-

01.01.01

Greitt með fyrirvara

32.617,-

11.02.01

Greitt

63.546,-

13.08.01

Greitt

27.132,-

13.08.01

Greitt

42.516,-

18.08.01

Engin afst. kemur fram

24.004,-

18.08.01

Engin afst. kemur fram

53.850,-

30.10.01

Engin afst. kemur fram

42.798,-

01.06.02

Engin afst. kemur fram

15.152,-

01.09.02

Greitt

147.528,-

01.09.02

Ógreitt

30.304,-

11.12.02

Greitt

31.968,-

20.01.03

Greitt

28.962,-

20.01.03

Greitt

8.881,-

20.01.03

Greitt

1.599,-

19.03.03

Greitt

163.742,-

03.05.03

Ógreitt

46.096,-

04.05.03

Greitt

7.445,-

07.06.03

Greitt

Samkvæmt framangreindu telur stefndi sig hafa greitt, með eða án fyrirvara 462.418 krónur, sem er sama fjárhæð og stefnandi telur honum til innborgunar.

Stefndi telur sig þegar hafa greitt alla reikninga sem hafi verið í löglegu formi. Aðra reikninga hafi hann ekki greitt og sé greiðsluskyldu þeirra mótmælt þar sem þeir hafi ekki verið í löglegu formi. Þá byggir stefndi á því að framkvæmdir, sem reikningar standi fyrir, hafi ekki verið ákveðnar með löglegum hætti. Við munnlegan flutning málsins voru af hálfu stefnda gerðar sérstakar athugasemdir við ákvörðun húsfundar sem tekin var 29. maí 2001 um að Björn Traustason ehf. klæddi húsið að utan. Var af hálfu stefnda vísað til þess að umrædd ákvörðun hefði verið andstæð 9. tölulið B. mgr. 41. gr. laga nr. 26/1994. Af hálfu stefnda voru einnig gerðar athugasemdir við greiðslur til arkitekta vegna framkvæmda innanhúss. Af hálfu stefnda var ekki gerð nánari grein fyrir því hvaða kröfur stefnanda leiddu af framangreindum ákvörðunum. Af þessu tilefni mótmælti stefndi efni fundargerða húsfunda og funda stjórnar húsfélagins sem stefnandi hefur lagt fram í málinu.

Í greinargerð stefnda koma fram athugasemdir stefnda við því að hlutur hans í greiðslum hafi hækkað þegar húsið var stækkað. Hlutfall stefnda í eigninni hafi verið 1,35% í apríl 1986, október 1992 og janúar 1995 en sé orðinn 1,76% 6. mars 1996. Við munnlegan flutning málsins útskýrði lögmaður stefnda þessa málsástæðu í greinargerð stefnda á þá leið að því væri haldið fram að eignaskiptayfirlýsing árituð um þinglýsingu 6. mars 1996 væri óbindandi fyrir stefnda. Var því haldið fram að  líklega hefði stefndi undirritað eignaskiptayfirlýsingu annars efnis en hefði verið þinglýst. Var um þetta atriði vísað til þess að dagsetning á þeirri blaðsíðu samningsins þar sem undirskriftir væri að finna væru með annarri dagsetningu en blaðsíða þar sem hundraðshlutar fyrir eignahluta kæmu fram. Einnig séu teikningar sem fylgi samningnum ekki samþykktar af byggingaryfirvöldum.

Að lokum telur stefndi að útskýringar með reikningum séu að engu leyti fullnægjandi.

III.

Niðurstaða

Í úrskurði héraðsdómara 18. mars sl. var ekki á það fallist með stefnda að málatilbúnaður stefnda væri vanreifaður með vísan til þess að kröfur hans væru studdar ónógum gögnum. Á sú niðurstaða enn frekar við eins og málið liggur fyrir nú.  Þótt stefnandi hafi lækkað kröfu sína og viðurkennt ýmsar innborganir af hálfu stefnda verður ekki á það fallist að grundvöllur málsins sér brostinn. Er því skilyrðum fullnægt til að efnisdómur verði lagður á málið.

Í máli þessu liggur fyrir eignaskiptayfirlýsing árituð um þinglýsingu 6. mars 1996. Við munnlegan flutning málsins var því haldið fram af hálfu stefnda að efni eignaskiptayfirlýsingarinnar hafi verið breytt, eftir að hún var undirrituð af honum. Hafi stefndi þannig aldrei samþykkt að eignahluti hans væri 1,76% eins og málatilbúnaður stefnanda byggði á.

Enda þótt stefnandi hafi haldið því fram í greinargerð sinni að hlutfallstala eignarhluta hans í fasteigninni að Egilsgötu 3 væri á reiki komu þar ekki fram ásakanir um að hann hefði verið beittur blekkingum við samþykkt eignaskiptayfirlýsingar. Verður að líta svo á þessi málsástæða hafi fyrst komið fram við munnlegan flutning málsins og kemst hún ekki að í málinu gegn mótmælum stefnanda. Verður því á því byggt að eignahluti stefnda í umræddri fasteign svari til 1,76% eins og málatilbúnaður stefnanda byggir á. Getur það ekki haggað þessari niðurstöðu þótt stefnandi kunni að hafa tekið tillit til lægri hlutfallstölu við útgáfu einstakra reikninga sem fyrir liggja í málinu.

Stefndi hefur mótmælt kröfu að fjárhæð 76.397 krónur með gjalddaga 31. janúar 2000 með vísan til þess að honum hafi hvorki borist reikningur vegna kröfunnar né hafi verið gert ljóst síðar hvernig krafan sé til kominn. Af hálfu stefnanda hefur umrædd krafa verið skýrð svo að um sé að ræða rekstrargjöld fyrir árið 1999 sem hafi fallið í gjalddaga í árslok það ár. Er þessu til stuðnings vísað til ljósrita úr ársreikningum stefnanda þar sem umrædd fjárhæð er talinn stefnda til gjalda með þessum hætti, en jafnframt kemur þar fram að engin innborgun hafi verið innt af hendi af hálfu stefnda. Með vísan til framangreindra gagna telur dómari umrædda kröfu stefnanda nægilega sannað verður hún tekin til greina.

Að því er varðar kröfu að fjárhæð 57.064 krónur með gjalddaga 1. nóvember 2000 liggur fyrir að stefndi greiddi kröfuna 13. október 2000 með fyrirvara um rétta upphæð. Af hálfu stefnda hefur framangreindur fyrirvari ekki verið skýrður nánar við meðferð málsins eða færð rök að því að umrædd fjárhæð væri ekki rétt. Verður því krafan tekin til greina. Með hliðsjón af skuldastöðu stefnda við stefnanda var þeim síðarnefnda heimilt samkvæmt almennum reglum að færa greiðsluna 13. október 2000 sem innborgun inn á eldri skuld stefnanda. Með sömu röksemdum verða kröfur að fjárhæð 28.532 krónur með gjalddaga 1. janúar 2001 og að fjárhæð 83.120 með gjalddaga 1. janúar 2001 teknar til greina, en tekið er tillit til allra þessara innborgana í kröfugerð stefnanda.

Samkvæmt greinargerð stefnda greiddi hann, án athugasemda, kröfu að fjárhæð 32.617 krónur með gjalddaga 11. febrúar 2001. Með hliðsjón af skuldastöðu stefnda við stefnanda var þeim síðarnefnda heimilt samkvæmt almennum reglum að færa greiðsluna sem innborgun inn á eldri skuld stefnanda, en tekið er tillit til þessarar innborgunar í kröfugerð stefnanda.

Að því er varðar kröfur að fjárhæð 63.546 krónur og að fjárhæð 27.132 krónur, báðar með gjalddaga 13. ágúst 2001, koma fram í stefnu kreditfærslur dagsettar 1. júlí 2001 með sömu fjárhæðum. Eins og lögmaður stefnanda skýrði í munnlegum málflutningi hafa þessar kröfur verið felldar niður og höfuðstóll endanlegrar dómkröfu stefnanda lækkaður sem því nemur, það er úr 1.013.253 krónum í 922.575 krónur. Þrátt fyrir þessa lækkun höfuðstóls telur stefnandi umræddar kreditfærslur enn sem innborganir stefnda sem koma eiga til lækkunar. Stefnandi er bundinn af kröfugerð sinni og verður fjárhæð innborgunar stefnda ekki lækkuð af þessum ástæðum.

Að því er varðar kröfur að fjárhæð 42.516 krónur með gjalddaga 18. ágúst 2001, að fjárhæð 24.004 krónur með gjalddaga 18. ágúst 2001 og að fjárhæð 53.850 með gjalddaga 30. október 2001 og að fjárhæð 42.798 krónur með gjalddaga 1. júní 2002 kemur engin afstaða stefndu fram í greinargerð hans eða gögnum málsins. Umræddar kröfur eru allar studdar endurritum af reikningum úr bókhaldi stefnanda. Með vísan til þessara gagna verður fallist á kröfurnar.

Ágreiningslaust er að krafa að fjárhæð 15.152 krónur var greidd án athuga­semda 2. september 2002. Með sömu rökum og áður greinir var stefnanda heimilt að færa greiðsluna sem innborgun inn á eldri skuld stefnanda, en tekið er tillit til þessarar innborgunar í kröfugerð stefnanda.

Krafa að fjárhæð 147.528 krónur með gjalddaga 1. september 2002 er ógreidd. Samkvæmt gögnum málsins er hér um að ræða framkvæmdakostnað samtals að fjárhæð 9.579.763 krónur sem reiknaður var til gjalda 1. ágúst 2002. Liggur fyrir í gögnum málsins nánari sundurliðun þessa kostnaðar. Að því er best verður ráðið er hér um að ræða hluta þess kostnaðar sem stafar þeim framkvæmdum sem Birni Traustasyni ehf. var falið með verksamningi, sbr. ákvörðun húsfundar 29. maí 2001, og stefndi hefur mótmælt. Þótt ljóst sé að stefndi hafi verið mótfallinn umræddri ákvörðun og greitt atkvæði gegn henni á húsfundi og hjá stjórn húsfélagsins verður ekki séð að hann hafi mótmælt ákvörðuninni sem ólögmætri fyrr en við meðferð máls þessa fyrir dómi. Verður að telja mótmæli stefnda svo seint fram komin að hann sé nú bundinn við umrædda ákvörðun. Verður krafan, sem fær næga stoð í gögnum málsins, tekin til greina. Með sömu rökum verður tekin til greina krafa stefnanda að fjárhæð 163.742 krónur með gjalddaga 3. maí 2003 sem samkvæmt gögnum málsins stafaði af lokagreiðslu stefnanda til Björns Traustasonar ehf. Það getur ekki haggað greiðsluskyldu stefnda að við útreikning hlutdeildar hans er af ástæðum, sem ekki liggja fyrir í málinu, miðað við lægri hlutfallstölu en fram kemur í eignaskiptayfirlýsingunni 6. mars 1996.

Að því er varðar aðrar greiðslur er ágreiningslaust að stefndi hefur þegar innt þær af hendi, sum þó eftir gjalddaga. Eins og áður greinir var stefnanda heimilt að færa þessar greiðslur sem innborgun inn á eldri skuld stefnda, enda er tekið tillit til þessara innborgana í kröfugerð stefnanda.

Samkvæmt öllu framangreindu verður fallist á kröfu stefnanda, eins og hún hefur endanlega verið sett fram við aðalmeðferð málsins og áður greinir. 

Eins og áður greinir var kröfu stefnanda um staðfestingu á lögveðrétti vísað frá dómi með úrskurði 18. mars 2004. Að þessu virtu svo og hvernig málið hefur þróast verður stefnanda aðeins dæmdur málskostnaður að hluta sem ákveðst hæfilegur 75.000 krónur og er þá ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

Það athugast að hefur skort á skipulega framlagning gagna af hálfu málsaðila, meðal annars með þeim afleiðingum að ýmis þegar framlögð skjöl hafa verið lögð fram á nýjan leik sem hlutar annarra skjala.

Af hálfu stefnanda flutti málið Sigríður Elsa Kjartansdóttir hdl.

Af hálfu stefnda flutti málið Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.

Skúli Magnússon héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndi, Jóhann Gíslason, greiði stefnanda, Domus Medica, húsfélagi,  922.575 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla laga nr. 38/2001, af 76.397 krónum frá 31. janúar 2000 til 1. nóvember 2000, af 133.461 krónum frá þeim degi til 1. janúar 2001, af 245.113 krónum frá þeim degi til 11. febrúar 2001, af 277.730 krónum frá þeim degi til 18. ágúst 2001, af 344.250 krónum frá þeim degi til 30. október 2001, af 398.100 krónum frá þeim degi til 1. júní 2002, af 440. 898 krónum frá þeim degi til 1. september 2002, af 603.578 krónum frá þeim degi til 11. desember 2002, af 633.882 krónum frá þeim degi til 20. janúar 2003, af 703.693 krónum frá þeim degi til 19. mars 2003, af 705.292 krónum frá þeim degi til 3. maí 2003, af 869.034 krónum frá þeim degi til 4. maí 2003, af 915.130 krónum frá þeim degi til 7. júní 2003, af 922.575 krónum frá þeim degi til greiðsludags.

Stefndi greiði stefnanda 50.000 krónur í málskostnað.