Hæstiréttur íslands
Mál nr. 55/2002
Lykilorð
- Vinnusamningur
- Uppsögn
- Trúnaðarskylda
|
|
Fimmtudaginn 3. október 2002. |
|
Nr. 55/2002. |
Origo ehf. (Guðmundur Ágústsson hdl.) gegn Eiði Arnarssyni (Jón Auðunn Jónsson hrl.) |
Vinnusamningur. Uppsögn. Trúnaðarskylda.
E var sagt upp störfum hjá fyrirtækinu O 29. september 2000. Ekki var deilt um lögmæti uppsagnarinnar, né að E hafi borið þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Krafðist E launa í uppsagnarfresti auk níu yfirvinnutíma sem hann kvaðst hafa unnið fyrir O í upphafi októbermánaðar en að öðru leyti var vinnuframlags E ekki óskað í uppsagnarfrestinum. Eftir að hafa kvatt samstarfsfólk sitt á starfsstöð O þann 9. október sama ár tengdi E fartölvu sína við tölvukerfi O og fór yfir þau gögn sem honum voru aðgengileg. Ljóst var að aðgerðir E urðu til þess að milli 2000 til 2500 skjöl hurfu af heimasvæði því sem honum hafði verið úthlutað á netþjóni í vélasal O til geymslu gagna. E kvaðst hafa flutt umrædd gögn milli netþjóna í eigu O en af hálfu O var því haldið fram að gögnunum hafi verið eytt og þau ekki fundist þar sem E kvaðst hafa vistað þau, þrátt fyrir leit en unnt hafði verið að nálgast gögnin á öryggisafriti hjá O. Talið var að O hafi ekki tryggt sér nægilega sönnun um þetta mikilvæga atriði og varð fyrirtækið að bera hallann af því. Óumdeilt var að E flutti umrædd gögn af heimasvæði sínu, eftir að reglulegum starfsskyldum hans í þágu O var lokið, án þess að vera um það beðinn og án þess að láta forsvarsmenn O af því vita. Enda þótt þessi framganga E væri ámælisverð varð ekki talið að hann hafi með henni brotið svo gegn starfsskyldum sínum eða trúnaði við O að heimilað gæti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi. Var því fallist á með E að hann ætti rétt til greiðslu launa til loka uppsagnarfrestsins. Jafnframt var fallist á kröfu E um greiðslu vegna þeirra yfirvinnutíma sem hann kvaðst hafa unnið fyrir O í október 2000, en andmæli O við þessum kröfulið þóttu of seint fram komin.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir og Arnljótur Björnsson fyrrverandi hæstaréttardómari.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar 1. febrúar 2002. Hann krefst sýknu af kröfum stefnda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Mál þetta var dómtekið í héraði að loknum munnlegum málflutningi 25. október 2001. Var héraðsdómur kveðinn upp á dómþingi 19. desember sama árs eftir að aðilar höfðu lýst því yfir að þeir teldu óþarft að málið yrði flutt á ný og dómarinn lýst sig sammála því.
Á árinu 2001 mun nafni áfrýjanda hafa verið breytt úr Skyggni ehf. í Origo ehf.
I.
Málavextir eru þeir að stefnda var sagt upp störfum hjá áfrýjanda 29. september 2000. Aðilar eru sammála um að sú uppsögn hafi verið bréfleg, en uppsagnarbréfið er þó ekki meðal gagna málsins. Hvorki er í máli þessu deilt um lögmæti uppsagnarinnar né að stefnda hafi borið þriggja mánaða uppsagnarfrestur. Aðilum ber saman um að við uppsögnina hafi verið miðað við að stefndi skyldi vinna á uppsagnarfrestinum en þó ekki mæta til vinnu fyrstu viku hans. Á fundi hjá áfrýjanda föstudaginn 6. október 2000 tilkynnti Guðmundur Guðnason, þáverandi framkvæmdastjóri áfrýjanda, stefnda að fyrri ákvörðun hefði verið breytt og ekki væri lengur óskað eftir því að hann ynni á því tímabili sem eftir lifði af uppsagnarfrestinum að öðru leyti en því að til hans mætti leita ef „stór vandamál kæmu upp”. Var á þessum fundi lýst yfir af hálfu áfrýjanda að eftir sem áður yrðu stefnda greidd laun út uppsagnarfrestinn.
Í samræmi við það sem ákveðið var á þessum fundi kom stefndi á starfsstöð áfrýjanda að morgni mánudagsins 9. október 2000 í þeim tilgangi að kveðja samstarfsfólk sitt og skila lyklum sem og símkorti og fartölvu sem voru í eigu áfrýjanda. Er hann hafði kvatt samstarfsfólkið tengdi stefndi fartölvuna við tölvukerfi áfrýjanda og fór yfir þau gögn sem honum voru aðgengileg. Á netþjóni í vélasal áfrýjanda hafði hverjum starfsmanni verið úthlutað heimasvæði til geymslu gagna. Urðu aðgerðir stefnda til þess að milli 2000 til 2500 skjöl hurfu af heimasvæði hans á þessum netþjóni. Greinir aðila á um hvað stefndi hafi gert við þessi gögn og hvort þessar aðgerðir hans hafi veitt áfrýjanda heimild til að víkja stefnda úr starfi án aðvörunar eða fyrirvara.
Telur áfrýjandi að stefndi hafi í umrætt sinn í þeim tilgangi að valda áfrýjanda tjóni eytt framangreindum gögnum úr tölvukerfi hans. Með því hafi stefndi brugðist trúnaðarskyldum sínum þannig að áfrýjanda hafi verið heimilt að víkja honum úr starfi þegar í stað. Af þessu sökum taldi áfrýjandi sér, eins og nánar er lýst í héraðsdómi, óskylt að greiða stefnda laun eftir 9. október 2000.
Stefndi kveðst hafa viljað „taka til“ í tölvugögnum sínum í tengslum við starfslok, meðal annars til að skapa aukið rými á heimasvæði sínu. Hafi hann því vistað umrædd gögn á öðrum netþjóni áfrýjanda sem var hjá James J. Dempsey, starfsmanni félagsins, en að því búnu eytt þeim af netþjóni þeim sem þau voru áður vistuð á. Hann hafi því einungis flutt umrædd gögn milli netþjóna áfrýjanda og því engu tjóni valdið eða aðhafst nokkuð sem réttlætt gæti fyrirvaralaus slit ráðningarsamningsins. Höfðaði hann mál þetta til heimtu launa fyrir það tímabil sem eftir stóð af uppsagnarfrestinum auk launa fyrir nánar tilgreinda yfirvinnu í október 2000 og orlofs af þessum launum.
II.
Í skýrslu áfrýjanda fyrir héraðsdómi kom fram að gögn þau sem hann eyddi af heimasvæðinu hafi, auk persónulegra gagna, verið gögn sem voru á tölvu hans þegar félag, sem hann áður starfaði hjá, sameinaðist á sínum tíma samsteypu áfrýjanda. Hafi hann þá fært gögnin yfir á fartölvu sem hann fékk þegar hann hóf þar störf eftir sameininguna, en að því búnu hafi hann vistað gögnin á framangreindu heimasvæði. Því hefði verið um að ræða gömul gögn sem hann vissi ekki til að neinn myndi nota og hafi þetta aðeins verið hluti af gögnum þeim sem voru á heimasvæði hans. Þegar hann hafi „tekið til“ í tölvu sinni við starfslok 9. október 2000 hafi hann flutt þessi gögn í þeim tilgangi að skapa pláss á netþjóninum sem hýsti heimasvæðin en þar hafi verið „ákveðin ... plássvandamál“. Gögnin hafi hann flutt og vistað á öðrum netþjóni áfrýjanda sem verið hafi hjá James J. Dempsey samstarfsmanni sínum. Hafi James áður verið búinn að opna fyrir aðgang hans að þeim netþjóni en að honum hafi einhverjir aðrir starfsmenn einnig haft aðgang. Hann hafi ekki sagt forsvarsmönnum áfrýjanda frá gagnaflutningnum á þessum tíma og James hafi þá heldur ekki vitað af honum. Fram kom að framkvæmdastjóri áfrýjanda hafi ekki spurt um hvað orðið hafi af gögnunum. Í málinu liggur fyrir að á fundi 15. nóvember 2000, þar sem leitað var sátta varðandi ágreining þann sem upp var kominn milli aðila, hafi stefndi skýrt forsvarsmönnum áfrýjanda frá því að hann hafi flutt gögnin yfir á netþjóninn hjá fyrrnefndum James. Aðspurður kvað stefndi James vera vin sinn og starfi hann nú sem verktaki hjá fyrirtæki, sem stefndi reki.
Í skýrslu Guðmundar Guðnasonar fyrir héraðsdómi kom fram að sett hafi verið upp sérstök „öryggisskráning“ hjá félaginu þegar stefnda var sagt upp störfum. Við athugun á þessari skráningu í síðari hluta október 2000 hafi hann komið auga á að miklu magni af gögnum hafi verið eytt af heimasvæði stefnda að morgni 9. þess mánaðar. Væru þetta gögn sem „að miklu leyti höfðu tilheyrt“ fyrri vinnuveitanda stefnda og áfrýjandi hafi eignast er félögin sameinuðust. Væri ljóst af öryggisskráningunni að notandanafn stefnda hefði verið notað við eyðingu gagnanna. Hann kvað ekkert vandamál hafa verið með pláss á heimasvæði stefnda. Ef slík vandamál kæmu upp væru til aðferðir til að bregðast við þeim. Flutningur gagna til geymslu yfir á netþjón á borð við þann sem James var með og ætlaður væri til að sinna sérstökum verkefnum væri mjög óvenjulegur. Því færi fjarri að aðgangur hafi verið opinn að þessum netþjóni sem almennri gagnageymslu. Hann kvaðst hafa aðgang að öllu tölvukerfi félagsins og hafi hann athugað hvort umrædd gögn hefðu verið færð á netþjón James en þar hafi þau ekki verið. Hann hafi hins vegar getað endurheimt þau gögn sem eytt hafði verið þar sem þau hafi verið til í öryggisafriti. Slík afrit séu þó aðeins geymd í ákveðinn tíma þannig að gögnin hefðu glatast endanlega ef hann hefði ekki séð jafn fljótt og raun bar vitni að stefndi hafði eytt þeim. Hann taldi að gagnanna hafi ekki verið saknað frá því að þeim var eytt af heimasvæði stefnda og þangað til hann komst að því að þeim hafði verið eytt. Hann kvaðst vita að þessi gögn hafi verið notuð eftir starfslok stefnda en gat ekki tilgreint einstök dæmi þess.
Fyrir Hæstarétt var af hálfu áfrýjanda lögð fram skýrsla 27. mars 2002, sem Hjörleifur Kristinsson starfsmaður Opinna kerfa hf. gerði að beiðni áfrýjanda. Í henni kemur fram að hann hafi verið beðinn að skýra hvað fælist í hinni sérstöku „öryggisskráningu“ (Security Audit Log), sem Guðmundur sagði fyrir héraðsdómi að tekin hafi verið upp hjá áfrýjanda í tilefni af uppsögn stefnda, og jafnframt að leitað væri eftir því hvað notandinn EA hefði gert á tímabilinu 8.45 til 10.02 hinn 9. október 2001 (svo). Í skýrslunni kemur fram að kerfið sé notað til að fylgjast með því sem gerist í Windows stýrikerfum. Með kerfinu sé til dæmis unnt að fylgjast með því hvenær notandi skráir sig inn eða út úr kerfinu, hvaða skrár hann fer inn á, les, breytir eða eyðir. Síðan segir í skýrslunni að með kerfinu megi sjá að viðkomandi notandi hafi skráð sig inn klukkan 8.45. Hann hafi eytt tilteknum skrám eða „skráarsvæðum“ klukkan 8.45, 9.06 og 9.29 og skráð sig út klukkan 10.02. Ekki kemur ótvírætt fram í skýrslunni hvort lesa hefði mátt úr öryggiskerfinu ef stefndi hefði í raun framkvæmt það sem hann segist hafa gert er hann flutti umræddar skrár yfir á netþjóninn hjá James. Stefndi telur þetta skjal of seint fram komið og þýðingarlaust þar sem þess hafi verið aflað einhliða af áfrýjanda og hafi stefndi hvorki átt kost á að koma að upplýsingum eða leita fyrir dómi skýringa á efni þess.
Meðal gagna málsins er ódagsett yfirlýsing fyrrgreinds James J. Dempsey. Þar kemur fram að hann hafi 8. nóvember 2000 framkvæmt venjubundna uppfærslu á gagnaskrám netþjóns síns hjá áfrýjanda. Hafi einum af hörðu diskum netþjónsins verið ætlað að þjóna frá miðjum september sem sameiginlegt drif fyrir tiltekna starfsmenn áfrýjanda þar á meðal stefnda. Hinn 16. sama mánaðar hafi lögmaður stefnda beðið sig að kanna hvort enn mætti finna á netþjóninum tiltekin skjöl frá stefnda. Hafi hann skoðað drifið og komist að því að stefndi hafi skilið þar eftir 2429 skjöl í 211 möppum. James gaf skýrslu fyrir héraðsdómi og staðfesti ofangreinda yfirlýsingu. Hann bar að hann hafi sem starfsmaður stefnda haft yfir að ráða tölvu sem sett hafi verið upp sem netþjónn og hafi stefndi auk annars nafngreinds starfsmanns áfrýjanda haft þar aðgang. Hann sagði að skort hafi rými á hinum almenna netþjóni þar sem minna en 12% af rýminu hafi verið laust, en þegar svo sé ástatt væri þörf á að bæta við diskaplássi eða rýma til. Hann staðfesti að hann hafi tekið öryggisafrit af umræddum netþjóni 8. nóvember 2000. Síðar hafi stefndi haft við sig samband og beðið sig að kanna hvort þar væru vistuð skjöl af heimasvæði stefnda. Hann kvaðst hafa athugað afrit í tölvunni og skjölin verið þar en framburður hans um hvar og hvernig hann hafi athugað þetta er ekki að öllu leyti skýr. Aðspurður um fyrrgreindan framburð Guðmundar Guðnasonar að skjölin hafi ekki fundist sagði hann að í tölvu sinni hafi verið 145.000 skjöl og ef grannt væri leitað væri unnt að finna hvað sem væri. Í framburði hans kom fram að honum mislíkaði hvernig áfrýjandi stóð að starfslokum stefnda. Vitnið lét af störfum hjá áfrýjanda seint í nóvember 2000.
III.
Eins og að framan er rakið kveðst stefndi hafa flutt margumrædd gögn milli netþjóna í eigu áfrýjanda og hafi gögnin því aldrei horfið úr tölvukerfinu enda þótt þeim hafi verið eytt af heimasvæði stefnda. Framkvæmdastjóri áfrýjanda fullyrðir hins vegar að gögnunum hafi verið eytt og þau ekki fundist þar sem stefndi segist hafa vistað þau þrátt fyrir leit. Vitnisburður James J. Dempsey styður fullyrðingar stefnda en tengsl vitnisins við stefnda draga úr gildi hans. Um þetta stendur því staðhæfing gegn staðhæfingu. Hvorki verður talið að framangreind skýrsla 27. mars 2002 um sérstaka „öryggisskráningu“ skeri þar úr né annað það sem áður er rakið. Áfrýjandi hefur því ekki tryggt sér nægilega sönnum um þetta mikilvæga atriði og verður að bera hallann af því. Óumdeilt er hins vegar að stefndi flutti umrædd gögn af heimasvæði því, sem honum hafði verið úthlutað, eftir að reglulegum starfsskyldum hans í þágu áfrýjanda var lokið, án þess að vera um það beðinn og án þess að láta forsvarsmenn áfrýjanda af því vita. Enda þótt þessi framganga stefnda sé ámælisverð verður ekki talið að hann hafi með henni brotið svo gegn starfsskyldum sínum eða trúnaði við áfrýjanda að heimilað geti fyrirvaralausa brottvikningu úr starfi. Verður því fallist á með stefnda að hann eigi rétt til greiðslu launa til loka uppsagnarfrestsins.
Í skýrslu stefnda fyrir héraðsdómi kom fram að hann hafi í desember 2000 tekið að sér tiltekið verkefni fyrir Reykjavíkurborg. Um hafi verið að ræða þróunarverkefni, sem hann hafi ekki gert verkkaupa reikning fyrir nema að hluta. Hafi ekki verið gefinn út reikningur vegna verksins fyrr en um miðjan janúar 2001 og ekki hafi hann tekið sér laun vegna þess fyrr en í apríl þess árs. Þykir ósannað að hann hafi fengið laun vegna þessa verkefnis á uppsagnarfrestinum. Fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af hálfu lögmanns stefnda að hann hafi ekki þegið laun frá öðrum á þessu tímabili. Kemur því ekki til skerðingar á kröfu stefnda af þessum sökum. Auk launa á uppsagnarfresti krefst stefndi greiðslu vegna níu yfirvinnutíma sem hann kveðst hafa unnið í október 2000. Í síðari ræðu sinni við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti andmælti lögmaður áfrýjanda þessum kröfulið og taldi engin yfirvinnulaun ógreidd. Verður að fallast á með stefnda að þessi andmæli séu of seint fram komin enda verður ekki af gögnum málsins ráðið að þau hafi fyrr verið höfð uppi. Samkvæmt því sem hér hefur verið rakið verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Origo ehf., greiði stefnda, Eiði Arnarsyni, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. desember 2001.
Mál þetta sem dómtekið var 25. október sl. er höfðað með stefnu birtri 23. janúar sl.
Stefnandi er Eiður Arnarson, Fagrahvammi 3, Hafnarfirði.
Stefndi er Skyggnir ehf., Mörkinni 6, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði gert að greiða stefnanda 1.393.500 krónur með dráttarvöxtum af 393.500 krónum frá 31. október 2000 til 30. nóvember s.á., af 893.500 krónum frá þeim degi til 31. desember s.á. en af 1.393.500 krónum frá þeim degi til greiðsludags og að viðurkenndur verði réttur stefnanda til orlofs á stefnufjárhæðina sem var í gjalddaga hinn 15. maí 2001.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega að hann verði sýknaðar af öllum kröfum stefnanda. Til vara er gerð krafa um að krafa stefnanda miðist við að stefndi greiði stefnanda laun til riftunardags hinn 6. nóvember 2000. Til þrautavarakrafa er gerð krafa um að kröfur stefnanda verði stórlega lækkaðar.
Þá krefst stefndi málskostnaðar.
Málavextir:
Stefnandi var starfsmaður stefnda, sem er fyrirtæki á sviði tölvuþjónustu, frá miðju ári 2000 þar til honum var sagt upp störfum hinn 29. september sl. Frá janúar 2000 var stefnandi hins vegar starfsmaður móðurfélags stefnda, Tölvumynda hf., en þar áður allt frá árinu 1985 var stefnandi starfsmaður Almennu kerfisfræðistofunnar hf. sem síðar sameinaðist Tölvumyndum hf. Stefnandi starfaði hjá stefnda sem markaðs- og verkefnastjóri. Stefnandi kveður uppsögnina hafa verið fyrirvaralausa en af hálfu stefnda hefur komið fram að ágreiningur hafi verið með stefnanda og forsvarsmönnum stefnda án þess að frekar sé um það fjallað í málatilbúnaði stefnda. Ekki kemur fram í málinu og því reyndar ekki haldið fram að stefnandi hafi sætt áminningu fyrir störf sín hjá stefnda. Við uppsögnina ákvað Guðmundur Guðnason, starfandi framkvæmdastjóri félagsins, að stefnandi skyldi ekki koma til vinnu næstu vikuna en vera hins vegar til taks ef kalla þyrfti hann til vinnu. Stefnandi kveðst hafa verið kallaður til af viðskiptavini stefnda og beðinn um aðstoð. Í samráði við stjórnendur stefnda hafi hann farið sunnudaginn 1. október og unnið fyrir þennan viðskiptavin í 9 klukkustundir. Þann 6. október 2000 hafi stefnandi komið til fundar hjá stefnda. Fundinn hafi setið auk stefnanda Friðrik Sigurðsson, stjórnarmaður stefnda, og Guðmundur Guðnason, framkvæmdastjóri stefnda. Á þessum fundi hafi stefnanda verið tjáð að stefndi óskaði ekki eftir því að hann ynni út uppsagnarfrestinn að öðru leyti en því að þess væri óskað að hann yrði á "bakvakt" þ.e.a.s. að hann kæmi til vinnu þegar og ef kallað yrði í hann. Stefnandi hafi óskað eftir því að þessi tilhögun vinnu í uppsagnarfresti yrði skráð og honum fengið í hendur afrit af því bréfi. Fundarmenn hafi lofað stefnanda því að slíkt bréf yrði ritað og honum afhent það innan viku. Bréf þetta hafi stefnanda ekki borist þrátt fyrir eftirrekstur. Hinn 20. október hafi stefnandi átt tal við Torfa Markússon, starfsmannastjóra stefnda, sem hafi lofað þá enn og aftur að bréf myndi berast allra næstu daga en ítrekað að stefnandi þyrfti ekki að hafa áhyggjur því laun yrðu gerð upp við hann í samræmi við ráðningarsamning. Hinn 9. október kom stefnandi í starfsstöð stefnda, kvaddi samstarfsfólk og afhenti fartölvu og símakort sem hann hafði haft til afnota. Áður en stefnandi afhenti fartölvuna kveðst hann hafa farið yfir þau gögn sem voru á vélinni, eytt persónulegum skjölum og vistað það sem eftir stóð á netþjóni hjá starfsmanni stefnda, James J. Dempsey, en stefnanda og einhverjum fleiri starfsmönnum stefnda hefði verið úthlutað plássi á þeim netþjóni. Ástæðuna kveður stefnandi þá að á þessum tíma hafi verið takmarkað laust pláss á netþjóni stefnda sem geymir heimadrif starfsmanna. Eftir að stefnandi hafði afritað fartölvuna á netþjón James J. Dempsey, kveðst hann hafa hreinsað út af netþjóni stefnda gamalt afrit af fartölvunni, sem enn hafi verið vistað á netþjóninum, í þeim tilgangi að losa um pláss.
Undir lok október kveðst stefnandi enn og aftur hafa haft samband við starfsmannastjóra stefnda til að kalla eftir bréfinu sem lofað hefði verið. Torfi starfsmannastjóri hafi þá sagt stefnanda að í ljós hefði komið að hann hefði eytt mikilvægum skjölum úr eigu stefnda og að málið væri komið í hendur Guðmundar Ágústssonar, lögmanns stefnda. Stefnandi hefði haft samband við hann og fengið sömu viðbrögð. Um mánaðamótin hafi stefnandi fengið útborguð laun fyrir 9 fyrstu daga uppsagnarfrestsins en síðan hafi hann ekkert fengið greitt. Hinn 6. nóvember 2000 hafi stefnandi fengið skeyti frá lögmanni stefnda þar sem á hann hafi verið borið að hafa eytt u.þ.b. 2.000 skjölum úr tölvum tilheyrandi stefnda. Hafi lögmaðurinn sakað stefnanda um vísvitandi skemmdarverk á eigum stefnda sem augljóslega hafi verið unnin í því augnamiði að valda stefnda tjóni. Hafi stefnanda jafnframt verið tilkynnt að félagið liti svo á að hann hefði fyrirgert rétti sínum til launa í uppsagnarfresti. Lögmaður stefnda hafi enn fremur tilkynnt stefnanda að óskað yrði eftir því að lögreglan rannsakaði þennan meinta verknað stefnanda. Þeirri rannsókn hefði lokið með því að lögregla felldi málið niður með bréfi 18. október 2001.
Í framhaldi þessa hafi bréf gengið á milli aðila og lögmanna þeirra auk þess sem tveir fundir hafi verið haldnir með aðilum í þeirri viðleitni að ná sátt í málinu. Á þessum fundum hafi stefnandi útskýrt hvað gert hefði verið við skjölin og að um venjubundna aðgerð hafi verið að ræða af sinni hálfu, þar sem reglulega sé tekið til á geymslusvæðum tölva og tekið afrit af þeim gögnum sem ekki eru í notkun. Jafnframt hafi hann bent forsvarsmönnum stefnda á þann stað þar sem umrædd gögn voru á tölvu í eigu félagsins og í vörslu þess, þ.e.a.s. á tölvu James Dempseys sem sett hafði verið upp sem netþjónn í þessu skyni. Í framhaldi þessara funda hafi stefnandi óskað eftir því við James að hann kannaði hvort umrædd gögn væru enn til staðar á netþjóni hans. Hafi hann staðfest að gögnin væru öll til staðar. Til að tryggja sönnun um tilvist gagnanna hafi lögmaður stefnanda óskað eftir því að James tæki afrit af tölvunni á geisladisk. James hafi orðið við þessari bón og afhent lögmanni stefnanda geisladisk ásamt bréfi þar sem hann lýsi ofangreindri framvindu.
Stefndi kveður þá ákvörðun hafa verið tekna í stjórn stefnda að segja stefnanda upp störfum hjá félaginu frá og með 1. október 2000. Stefnanda hafi verið afhent uppsagnarbréf hinn 29. september 2000. Við uppsögnina hafi staðið til að stefnandi ynni út uppsagnarfrestinn sem voru þrír mánuðir og hafi stefnanda verið kunngert það. Við uppsögnina hafi framkvæmdastjóri stefnda ákveðið að stefnandi tæki sér viku frí frá störfum en kæmi til vinnu aftur mánudaginn 9. október 2000. Á meðan stefnandi var í fríi frá störfum var tekin ákvörðun í stjórn stefnda að breyta fyrri ákvörðun um vinnuskyldu stefnanda í uppsagnarfresti og í stað þess að láta hann vinna uppsagnarfrestinn að greiða honum laun næstu þrjá mánuði. Framkvæmdastjóri stefnda tilkynnti stefnanda þessa ákvörðun föstudaginn 6. október 2000 og bauð honum jafnframt í morgunverðarfund á starfsstöð stefnda að Mörkinni 6, Reykjavík, mánudaginn 9. október 2000, til að kveðja samstarfsfólk sitt ásamt því að hann skilaði þá fartölvu sem hann hafði afnot af, lyklum, farsímakorti og öðru sem tilheyrði stefnda.
Það hafi verið vilji framkvæmdastjóra stefnda að viðskilnaðurinn mætti vera í friði og sátt á milli stefnanda og fyrrverandi samstarfsmanna þó ágreiningur væri á milli stjórnar stefnda og stefnanda. Stefnandi hafi þáð þetta boð og á morgunverðarfundinum hinn 9. október hafi farið vel á með honum og starfsfólkinu. Þar hafi stefnandi afhent framkvæmdastjóra stefnda lyklana að húsinu ásamt fartölvunni og farsímakortinu. Eftir að stafsfólkið hefði setið góða stund með stefnanda hafi hann verið kvaddur af framkvæmdastjóra stefnda og þökkuð störf fyrir félagið. Framkvæmdastjórinn hafi síðan þurft að fara á fund og stefnandi orðið eftir með nokkrum starfsmönnum á kaffistofu stefnda. Eigi hafi framkvæmdastjóri stefnda vitað hvenær stefnandi fór út úr húsi en nokkru síðar þegar hann fór að huga að gögnum sem hann vissi að höfðu verið vistuð á heimasvæði stefnanda hafi hann komist að því að eytt hefði verið út af heimasvæðinu um 2.500 skjölum. Við nánari eftirgrennslan hafi komið í ljós að um hafi verið að ræða skjöl sem tilheyrt hafi fyrirtækinu og stefnandi unnið að meðan hann var starfsmaður stefnda. Þrátt fyrir leit á öðrum stöðum í tölvukerfi stefnda hafi þau ekki fundist og eftir að hafa spurt lykilmenn í fyrirtækinu, sem höfðu aðgang að heimasvæðinu, hafi enginn þeirra kannast við að hafa átt við skjölin, fært þau til eða verið beðinn um að vista þau. Þá hafi einnig komið í ljós hjá starfsmönnum stefnda að stefnandi hafi ekki farið eftir morgunkaffið heldur sest við tölvu sína og unnið eitthvað í henni. Starfsmenn hafi ekki vitað hvað hann var að gera og ekki vitað annað en að stefnandi hafi unnið við tölvuna í fullu leyfi frá framkvæmdastjóra stefnda. Framkvæmdastjóra stefnda hafi tekist að ná skjölunum til baka og komist að því að rétt notendanafn hefði verið notað til að komast inn í tölvuna. Það notendanafn hafi tilheyrt stefnanda og enginn annar átt að vita eða haft rétt til að nota það. Framkvæmdastjórinn hafi ekki getað séð að skjölin hefðu verið flutt á annað heimasvæði eða annan netþjón. Það hafi verið greinilegt að tilgangur þess sem þarna var að verki hafi verið sá að eyða skjölunum. Með því að skoða gögnin komst framkvæmdastjóri stefnda að því að eitthvað af gögnum tengdust stefnanda beint en mikill meirihluti þeirra vörðuðu starfsemi stefnda og samskipti stefnda við viðskiptaaðila sína. Þegar framkvæmdastjóra stefnda var þetta ljóst hafi hann tilkynnt verknaðinn til stjórnar stefnda sem hafi tekið þá ákvörðun um mánaðamótin október nóvember að fela lögmanni félagsins málið. Stefnanda hafi í framhaldi af því verið sent símskeyti og tilkynnt formlega um brottrekstur hans frá fyrirtækinu. Jafnframt hafi sú ákvörðun verið tekin að greiða honum einungis laun til 8. október 2000 eða til þess tíma sem verknaðurinn var framinn. Á fundi sem haldinn hafi verið 15. nóvember 2000, hafi stefnandi gengist við því að hafa átt við gögn sem verið hafi á heimasvæði hans en ekki eytt þeim heldur fært þau yfir á annan netþjón hjá stefnda og hafi gefið þá skýringu að hann "hafi verið að hreinsa til eins og fólk gerði þegar það hætti störfum." Þrátt fyrir þessar upplýsingar hefði framkvæmdastjóri stefnda með engu móti getað rakið þessi skjöl frá heimasvæði stefnanda á þann stað sem stefnandi kvaðst hafa vistað þau, á tölvu James J. Dempsey. Framkvæmdastjóri stefnda kveðst hafa eftir þennan fund athugað sérstaklega hvort skjölin hafi verið vistuð hjá James en ekki fundið þau þrátt fyrir mikla leit. Kveður framkvæmdastjóri stefnda að skjölin hafi ekki getað farið fram hjá sér ef þau hefðu verið vistuð á netþjóni James. Hvernig sem á því standi hafi greindur James gefið þá yfirlýsingu, að stefnandi hafi fært gögn yfir á netþjón hans. Í sömu yfirlýsingu hafi hann tilkynnt að hann hafi látið lögmanni stefnanda í té eintak af þeim gögnum. Stefndi tekur fram að James J. Dempsey hafi sagt upp störfum hjá stefnda um miðjan nóvember 2000.
Þá fullyrðingu stefnanda í stefnu að honum og öðrum starfsmönnum hafi verið úthlutað plássi á netþjóni James til geymslu gagna kveður stefndi alranga. Fráleitt sé tíðkanlegt að gögn sem vista eigi varanlega séu færð yfir á netþjón sem notaður sé til þróunar- og kerfisprófana. Netþjónn James hafi verið af þeim toga. Stefndi kveður að í þeirri tölvu sem James notaði hafi hann haft harðan disk sem var í eigu hans. Kveðst framkvæmdastjóri stefnda vita að James hafi notað þennan disk fyrir hluta af þeim gögnum sem hann hafi verið að vinna við fyrir Reykjavíkurborg. Aðrir starfsmenn stefnda hafi ekki haft leyfi til að nota þennan harða disk fyrir gagnageymslu. Um hafi verið að ræða marga aðra staði þar sem þeir hefðu getað geymt gögn teldu þeir ástæðu til þess að vista þau á öðrum stöðum en sínu heimasvæði.
Engin plássvandræði hafi verið á heimasvæði stefnanda og hafi það verið ástæðulaust fyrir hann að flytja gögnin frá sínu heimasvæði.
Engin gögn hafi fundist á netþjóni James eftir að hann fór frá stefnda.
Málsástæður:
Stefnandi kveðst byggja á munnlegum ráðningarsamningi við stefnda sem hafi tekið mið af samningi sem stefnandi hafði haft við móðurfélag stefnda áður. Samkvæmt þessum samningi hafi mánaðarlaun stefnanda verið 500.000 krónur eins og framlagður launaseðill beri með sér. Tímakaup stefnanda hafi verið 3.000 krónur á tímann í yfirvinnu og í októbermánuði hafi hann unnið 9 yfirvinnutíma. Orlof reiknist á allar þessar fjárhæðir í samræmi við samning aðila og almennar reglur.
Stefnandi mótmælir því að hafa unnið stefnda tjón eða yfirleitt gert nokkuð er réttlæti riftun ráðningarsamnings eins og stefndi haldi fram. Það hafi verið staðfest af vitninu James J. Dempsey að vitninu hafi verið falið að opna svæði á tölvu sinni til afnota fyrir ákveðna starfsmenn stefnda og þ.á m. hafi verið stefnandi. Vitnið staðfesti að 2429 skjöl hafi verið afrituð inn á þetta svæði og staðið stjórnendum og starfsmönnum stefnda til afnota hinn 8. nóvember þegar vitnið hafi tekið afrit af tölvunni. Ásakanir stefnda á hendur stefnanda eru því úr lausu lofti gripnar og byggðar á misskilningi um atvik máls. Enginn grundvöllur var því til þess að rifta ráðningarsamningi stefnda og stefnanda og hann á því rétt til fullra launa í samræmi við ráðningarsamning sinn og ákvæði laga.
Réttur launafólks til launa í uppsagnarfresti sé ótvíræður og í raun lögákveðinn. Vegna langs starfsaldurs hjá stefnda og þeim félögum sem að honum standa eigi stefnandi ótvíræðan rétt til fullra launa í þrjá mánuði frá 1. október að telja. Stefnukröfur byggi alfarið á þessum réttindum stefnanda.
Stefndi byggir á því að stefnandi hafi fyrirgert rétti sínum til launa og að hann hafi verið í fullum rétti með að reka stefnanda úr starfi frá og með 9. október 2000. Stefnandi hafi framið þann alvarlega verknað að eyða út úr tölvukerfi stefnda um 2.500 skjölum eftir að honum hafði verið tilkynnt að vinnuskyldu hans hjá stefnda væri lokið. Telur stefndi að riftunin hafi ekki í för með sér bótaskyldu af hans hálfu og stefnandi eigi enga kröfu til greiðslu launa í uppsagnafresti.
Í máli þessu sé ekki deilt um að stefnandi hafi þurrkað út um 2.500 skjöl af heimasvæði sínu. Hins vegar séu mismunandi skoðanir á því hvort hann hafi eytt þessum gögnum eða flutt þau yfir á netþjón annars starfsmanns.
Stefndi telur engan vafa á því leika að tilgangur stefnanda hinn 9. október 2000, hafi verið sá að eyða þessum skjölum varanlega úr tölvukerfi stefnda. Það sé fyrirsláttur að um plássleysi hafi verið að ræða á heimasvæði hans, nægt pláss hafi verið á þessu svæði sem og öðrum svæðum til að geyma gögn af þessu tagi. Þá sé það til að styðja fullyrðingu stefnda að eyðingin/flutningurinn hafi átt sér stað á þeim tíma þegar vinnuskyldum stefnanda gagnvart stefnda var lokið. Það styðji staðhæfingu stefnda enn frekar að skjölunum hafi verið eytt án vitneskju framkvæmdastjóra stefnda eða annarra starfsmanna stefnda. Stefnandi hafi ekki lagt nein skilaboð til framkvæmdastjóra stefnda eða annarra starfsmanna um gagnaflutninga eða látið vitnið, James, vita að hann hefði gögnin á sínum netþjóni. Verknaðurinn hafi ekki verið framinn í ógáti og sú skýring ekki haldbær að stefnandi hafi verið að taka til á heimasvæði sínu.
Stefnda sé því ómögulegt að líta á málið öðruvísi en svo að stefnandi hafi vísvitandi verið að gera erfitt fyrir og eyðingin hafi verið hefndarráðstöfun vegna uppsagnarinnar. Stefnda sé treyst sem ábyrgu tölvufyrirtæki fyrir varðveislu og aðgengi að skjölum viðskiptavina sinna, sem séu í vörslu stefnda. Með háttsemi sinni hafi stefnandi stefnt þessu trausti stefnda í hættu. Þau gögn sem stefndi hafi eytt hafi ekki verið gögn viðskiptamanna félagins heldur gögn sem stefnandi og aðrir starfsmenn stefnda hefðu unnið með og samið fyrir stefnda á starfstíma stefnanda hjá stefnda auk annarra gagna sem unnin voru þegar stefnandi var starfsmaður AKS. Þar hafi verið m.a. ýmsir samningar og gögn um samskipti við viðskipavini stefnda. Stefndi geri engan greinarmun á því hvort um hafi verið að ræða gögn í eigu stefnda eða í eigu viðskiptavinar stefnda. Hvers konar óheimil eyðing skjala sé litin mjög alvarlegum augum hjá stefnda og hafi stefnandi vitað það fullvel og einnig að skjölin sem hann eyddi hafi ekki verið hans eigin heldur tilheyrt stefnda. Þá hafi stefnanda einnig verið fullljós þýðing þess fyrir stefnda sem tölvufyrirtækis að eiga afrit af öllum skjölum sem það hefur sent frá sér eða unnið með enda hafi stefndi starfað á þessu sviði í áratugi.
Á því leiki enginn vafi að háttsemi stefnanda falli að 1. mgr. 257. gr. alm. hgl. eins og ákvæðinu hafi verið breytt með lögum nr. 39/2000. Tilgangur þeirrar lagasetningar hafi einmitt verið sá að verja eigendur gagna sem geymd séu á tölvutæku formi fyrir eyðingu þeirra og breytingu. Í því sambandi skipti engu máli hvort eyðilegging hafi átt sér stað eða hvort tekist hafi að endurheimta skjölin eða breyta þeim í upphaflegt horf. Það sem ákvæðinu sé ætlað að vernda sé sú eign sem í gögnunum felist og að eigandi þeirra geti treyst því að þeim verði ekki eytt eða breytt án viðurlaga. Það verði að líta á verknaðinn sem slíkan en ekki tjónið. Með ákvæðinu sé verknaðurinn gerður refsiverður.
Stefndi telur það engu máli skipta hvort stefnandi hafi verið við vinnu hjá stefnda eða hann framið verknað sinn eftir að honum hafði verið tilkynnt að hann hefði engar vinnuskyldur gagnvart stefnda. Telur stefndi að hann hafi í báðum tilvikum haft trúnaðarskyldur gagnvart stefnda. Þó telur stefndi það sýnu alvarlegra að stefnandi skyldi hafa eytt skjölunum eftir að búið var að tilkynna honum að vinnuframlag hans í uppsagnafresti væri afþakkað. Með því hafi verið búið að gera honum fulla grein fyrir því að hann mætti ekki nota eignir stefnda.
Stefndi telur að riftunin eigi að miðast við 9. október 2000, en ekki dagsetningu skeytisins þar sem stefnanda var tilkynnt um riftun samningsins. Vísar stefndi til þess að forsvarsmönnum stefnda hafi ekki verið fyllilega ljóst strax að skjölunum hefði verið eytt. Þá hafi það tekið ákveðinn tíma að fara í gegnum tölvukerfi fyrirtækisins til að staðreyna eyðinguna jafnframt því sem athuga hefði þurft hver verið hafi að verki. Þá hafi það einnig komið til að stjórnarmaður félagsins hafi verið erlendis og ekki hægt að taka á málunum strax. Auk þess hafi þurft að athuga lagalega stöðu og hvernig ætti að bregðast við þessum óvæntu aðstæðum. Þá hafi stefnandi verið erlendis og því erfitt að koma boðum til hans.
Til stuðnings kröfum stefnda í aðalsök er vísað til almennra reglna í kröfu og vinnurétti, sérstaklega starfsskyldna launþega og réttar atvinnurekanda til riftunar á vinnusamningi brjóti starfsmaður af sér gagnvart atvinnurekanda. Þá er einnig vísað til þess að það sé fyrirvaralaus brottrekstrarsök ef starfsmaður verður uppvís að refsiverðum verknaði.
Varakröfu í málinu miðar stefndi við að stefnanda verði greidd laun til þess tíma að hann fékk riftunarbréfið í hendur, en vísar að öðru leyti til umfjöllunar um aðalkröfu stefnda.
Þrautavarakrafa byggist á því að fyrir liggi að stefnandi hafi verið að vinna að verkefni með James Joseph Dempsey og að stefnandi hafi fengið greitt fyrir þá vinnu. Þá hafi einnig komið fram að þeir hafi verið að vinna fyrir tölvufyrirtækið Hugvit ehf.
NIÐURSTAÐA
Stefnanda var sagt upp störfum 29. september 2000 og á fundi 6. september kynntu forsvarsmenn stefnda honum að ekki væri til þess ætlast að hann ynni í uppsagnarfresti. Mánudaginn 9. september kom stefnandi á skrifstofur stefnda til þess að kveðja samstarfsfólk sitt og ganga frá vinnusvæði. Jafnframt eyddi hann gögnum af heimasvæði sínu og færði á annan netþjón svo sem fram kom hjá vitninu James J. Dempsey. Fram kemur í skýrslu framkvæmdastjóra stefnda, Guðmundar Guðnasonar, að hann hefði þá verið búinn að setja öryggislás á tölvukerfið þannig að gögn eyddust ekki og að unnt var að nálgast gögn þessi. Kemur og fram í greinargerð stefnda að framkvæmdastjórinn gat nálgast gögnin og af skýrslu framkvæmdastjórans fyrir dómi verðir ráðið að sú öryggisaðgerð sem hann hafði framkvæmt hafi leitt til þess að gögnin eyddust ekki þrátt fyrir aðgerðir stefnanda. Samkvæmt því er ekki sýnt fram á að stefndi hafi orðið fyrir tjóni af gagnaeyðingu stefnanda. Þá verður litið til þess að mál vegna kæru á hendur stefnanda var fellt niður af lögreglunni í Reykjavík og því ekki sýnt fram á að stefnandi hafi framið refsiverðan verknað í umrætt sinn.
Samkvæmt þessu verður ekki fallist á það með stefnda að sýnt sé fram á að stefnandi hafi brotið þannig gagnvart honum að leiði til þess að stefnda hafi verið heimilt að fella niður greiðslur launa til hans út uppsagnarfrest hans og verður krafa stefnanda því tekin til greina með vöxtum eins og greinir í dómsorði.
Eftir úrslitum málsins verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.
Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp dóminn.
DÓMSORÐ
Stefndi, Skyggnir hf., greiði stefnanda, Eiði Arnarsyni, 1.393.500 krónur með dráttarvöxtum af 393.500 krónum frá 31. október 2000 til 30. nóvember s.á., af 893.500 krónum frá þeim degi til 31. desember s.á. en af 1.393.500 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Viðurkenndur er réttur stefnanda til orlofs, sem var í gjalddaga hinn 15. maí 2001, á stefnufjárhæðina.
Stefndi greiði stefnanda 350.000 krónur í málskostnað.