Hæstiréttur íslands

Nr. 2020-100

Guðjón Ragnar Rögnvaldsson (Hjördís Halldórsdóttir lögmaður)
gegn
Landsbankanum hf. (Ásgeir Jónsson lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Afurðalán
  • Sjálfskuldarábyrgð
  • Fyrning
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Karl Axelsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Með beiðni 30. mars 2020 leitar Guðjón Ragnar Rögnvaldsson leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 13. sama mánaðar í málinu nr. 409/2019: Landsbankinn hf. gegn Guðjóni Ragnari Rögnvaldssyni, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Landsbankinn hf. leggst gegn beiðninni.

Málið höfðaði gagnaðili til heimtu skuldar samkvæmt afurðarlánasamningi, sem gagnaðili og Pétursey ehf. gerðu með sér, en leyfisbeiðandi tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð að fjárhæð 33.000.000 krónur til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu samningsins. Bú Péturseyjar ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 13. nóvember 2014 og lauk skiptum 5. febrúar ári síðar án þess að greiðsla fengist upp í kröfu gagnaðila.

Í héraðsdómi var leyfisbeiðandi sýknaður á þeim grunni að gagnaðili hefði veitt Pétursey ehf. lán fyrir andvirði keypts hráefnis og félagið hefði fengið greiðslufrest þar til unnin afurð hefði verið seld. Lánið hefði því verið veitt til fjármögnunar á þeim kaupum með greiðslufresti. Fyrningarfrestur kröfunnar væri því 4 ár samkvæmt 1. tölulið 3. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda og af 2. mgr. 7. gr. sömu laga leiddi að sami fyrningarfrestur gilti um kröfuna á hendur leyfisbeiðanda. Var krafan því talin fyrnd þegar málið var höfðað.

Landsréttur taldi á hinn bóginn að samkvæmt ákvæðum afurðalánasamningsins kæmi fram að um lán væri að ræða og ljóst af efni hans að öðru leyti að tilgangur hans hefði verið að veita lántaka rekstrarlán til framleiðslu sjávarafurða. Var því fallist á með gagnaðila að lánveiting samkvæmt samningnum hefði verið peningalán sem fyrnist á 10 árum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 og með vísan til 2. mgr. 7. gr. sömu laga gilti sami fyrningafrestur um ábyrgðarkröfuna á hendur leyfisbeiðanda. Krafa gagnaðila var því samþykkt.

Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem reyni á nýtt atriði í kröfurétti sem ekki hafi áður reynt á fyrir Hæstarétti um það hver sé fyrningartími kröfu samkvæmt afurðarlánasamningi. Þá varði málið sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda þar sem hans sé heilsuveill og möguleikar hans á að verjast gjaldþroti vegna væntanlegrar innheimtu í kjölfar niðurstöðu Landsréttar séu engar. Loks telur leyfisbeiðandi dóm Landsréttar bersýnilega rangan en í forsendum hans hafi ekki verið tilgreind þau ákvæði samningsins sem sýndu að lánið hefði verið veitt til fjármögnunar á kaupum með greiðslufresti. Samkvæmt þeim ákvæðum telur leyfisbeiðandi ljóst að lánið hafi verið veitt til fjármögnunar á kaupum og að greiðslufrestur þess væri þar til afurðin fengist greidd, sbr. orðalag 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007.

Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að fallast á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram það sem leitt verður af öðrum dómsúrlausnum né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Er beiðninni því hafnað.