Hæstiréttur íslands
Mál nr. 261/2007
Lykilorð
- Fíkniefnalagabrot
- Upptaka
|
|
Fimmtudaginn 1. nóvember 2007. |
|
Nr. 261/2007. |
Ákæruvaldið(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari) gegn Geir Bragasyni (Páll Arnór Pálsson hrl.) |
Fíkniefnalagabrot. Upptaka.
G var ákærður fyrir að hafa haft í vörslum sínum samtals 142,36 g af hassi, sem fundust við húsleit á veitingastað, sem G og sambúðarkona hans ráku, og ennfremur við húsleit á heimili þeirra. Þá var G einnig ákærður fyrir að hafa hálfu ári síðar haft lítilræði af tóbaksblönduðu kannabisefni í vörslum sínum. G neitaði að hafa vitað af þeim 136,25 g af hassi sem fundust á veitingastaðnum en játaði sakargiftir að öðru leyti. Laut áfrýjun málsins af hans hálfu einungis að þessu atriði. Eins og atvikum var háttað þótti ákæruvaldinu ekki hafa tekist að sanna að G hefði haft þessi fíkniefni í vörslum sínum og var hann því sýknaður af þessum hluta ákærunnar. Vegna þeirra brota sem hann var sakfelldur fyrir var hann dæmdur til að greiða 50.000 krónur í sekt í ríkissjóð.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 24. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds sem krefst þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst sýknu af ákæru 7. nóvember 2006, nema að því er varðar vörslur á 6,11 grömmum af hassi, og að honum verði einungis gerð sektarrefsing vegna þess brots og brota samkvæmt ákæru 28. nóvember 2006.
Málavöxtum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Lögregla fann 27. janúar 2006 við húsleit á veitingastaðnum X í Reykjavík 136,25 grömm af hassi. Það er skilyrði fyrir sakfellingu ákærða fyrir vörslur efnisins samkvæmt ákæru að ákæruvaldið sanni að ákærði hafi komið efnunum þarna fyrir eða að þau hafi að minnsta kosti verið geymd þarna með hans vitneskju. Efnið fannst bak við uppþvottavél í rými þar sem starfsmenn höfðu aðstöðu. Með efnunum fannst miði sem á stóð: „Vinur verð að fara núna. Þetta eru 110 + 1. Tölum saman á morgun.“ Ákærði og fyrrverandi sambýliskona hans önnuðust rekstur staðarins. Fyrir dómi gáfu skýrslur, auk ákærða og rannsóknaraðila, sambýliskona ákærða og sonur hennar, sem einnig var starfsmaður veitingastaðarins. Hvorugt síðastgreindra vitna bar um að ákærði hefði átt umrædd fíkniefni, þótt sonurinn hafi dregið þá ályktun við skýrslugjöf hjá lögreglu að efnin hefðu að verið í vörslum ákærða. Nefndi vitnið í því sambandi að hann hefði einhverju sinni tekið við um það bil einu grammi af marihuana sem hann hefði átt að afhenda ákærða. Fram kom hjá báðum þessum vitnum og ákærða að gestir hafi átt greiðan aðgang að því rými þar sem fíkniefnin fundust og nefndi sambýliskona ákærða að þeir hefðu meðal annars notað það til að geyma föt sín. Þá voru tveir af gestum staðarins að afgreiða aðra gesti á barnum í fjarveru starfsmanna er lögregla kom á vettvang til húsleitar. Einnig er fram komið að samkvæmt rannsókn á þeim fíkniefnum sem um ræðir verður ekki dregin sú ályktun að þau 6,11 grömm af hassi, sem fundust við húsleit heima hjá ákærða, hafi að öllu leyti verið sömu gerðar og þau fíkniefni sem fundust á veitingastaðnum. Að þessum atriðum virtum og með vísan til 45. gr. og 46. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála hefur ákæruvaldinu ekki tekist að sanna að ákærði hafi haft í vörslum sínum þau 136,25 grömm af hassi sem lögregla fann við húsleit á veitingastaðnum X umrætt sinn. Verður ákærði því sýknaður af þeim hluta ákæru 7. nóvember 2006 sem að þessu lýtur.
Vegna þeirra brota sem ákærði er sakfelldur fyrir skal hann greiða 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna en sæta ella fangelsi í fjóra daga.
Samkvæmt áfrýjunarstefnu er ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna ekki til endurskoðunar fyrir Hæstarétti. Stendur það ákvæði héraðsdóms óraskað.
Eins og rakið hefur verið játaði ákærði við meðferð málsins í héraði að hafa framið önnur brot en það sem hann er nú sýknaður af. Sökum neitunar ákærða varð aðalmeðferð í málinu í héraði. Samkvæmt því og með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 verður ákærði aðeins dæmdur til greiðslu þess hluta sakarkostnaðar í héraði sem hlaust af rannsókn á þeim efnum sem hann er sakfelldur fyrir að hafa haft í vörslum sínum svo og 1/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda hans í héraði, eins og nánar greinir í dómsorði. Þá skal allur áfrýjunarkostnaður falla á ríkissjóð samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Geir Bragason, greiði 50.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í fjóra daga.
Ákvæði héraðsdóms um upptöku fíkniefna er óraskað.
Ákvæði héraðsdóms um fjárhæð málsvarnarlauna skipaðs verjanda ákærða í héraði er staðfest. Ákærði greiði 111.961 krónu í sakarkostnað í héraði, þar með talin 1/3 hluta málsvarnarlauna skipaðs verjanda síns þar 56.108 krónur. Annar sakarkostnaður og allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Páls Arnórs Pálssonar hæstaréttarlögmanns, 311.250 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. janúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 12. janúar sl., er höfðað með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 7. nóvember sl. á hendur Geir Bragasyni, kt. 220355-2849, Lækjarkinn 24, Hafnarfirði, fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa að kvöldi föstudagsins 27. janúar 2006 haft í vörslum sínum samtals 142,36 g af hassi sem lögreglumenn fundu við húsleit á veitingastaðnum X, [...], Reykjavík, að undanskildum 6,11 g af efnum sem lögreglumenn fundu við húsleit á heimili ákærða.
Hinn 5. desember sl. var sakamálið nr. 2083/2006 sameinað þessu máli en þar er ákærða gefið að sök með ákæru útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík 28. nóvember 2006 fíkniefnalagabrot, með því að hafa miðvikudaginn 21. júní 2006, á Y að [...] í Reykjavík, haft í vörslum sínum 0,46 g af marihuana og 0,42 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, sem lögregla fann við leit á ákærða.
Teljast bæði brotin varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 848/2002.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og jafnframt að framangreind fíkniefni, sem hald var lagt á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001.
Verjandi ákærða krefst þess að ákærði verði eingöngu sakfelldur fyrir vörslur á 0,46 g af marihuana og 0,42 g af tóbaksblönduðu kannabisefni. Er þess krafist að öðru leyti að ákærði verði dæmdur til vægustu refsingar sem lög frekast heimila. Þá krefst verjandi málsvarnarlauna sér til handa að mati dómsins.
Samkvæmt skýrslum lögreglu frá 16. og 25. janúar 2006 bárust lögreglu upplýsingar þess efnis að fíkniefnasala færi fram á X að [...] í Reykjavík. Við skoðun þeirra upplýsinga kom í ljós að Z ehf. hafði vínveitingaleyfi á staðnum og var ábyrgðarmaður fyrirtækisins A. Fimmtudaginn 26. janúar 2006 fór lögregla þess á leit við héraðsdóm að heimiluð yrði leit á veitingastaðnum X. Var krafan reist á upplýsingum er lögreglu höfðu borist um ætlað fíkniefnabrot. Með úrskurði héraðsdóms sama dag var húsleit heimiluð.
Mánudagskvöldið 30. janúar 2006 kl. 20:40 fóru lögreglumenn inn á veitingastaðinn X. Var gestum staðarins vísað út og staðnum lokað. Klukkan 21:55 kom ákærði á vettvang og A kl. 22:05. Fram kemur í lögregluskýrslu að ákærði og A séu rekstraraðilar veitingastaðarins og sambýlisfólk. Við húsleit á X fannst efni er lögregla taldi getað verið hass. Efnið fannst í starfsaðstöðu inn af bar staðarins. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu hafði því verið komið fyrir á bak við uppþvottavél í aðstöðu fyrir starfsfólk og þar í gráum plastpoka. Í plastpokanum hafi verið ljósaperupakki. Í ljósaperupakkanum var svart efni er gat verið hass. Þá fannst inni í lokuðum sal, á bak við barðborð inni í skáp, grammavog af gerðinni MAUL. Á bak við sama borð í ruslafötu fannst plast og sellófan sem lögregla taldi geta verið utan af fíkniefnum. Samkvæmt frumskýrslu lögreglu vildu hvorki ákærði né A kannast við þau fíkniefni sem fundust á vettvangi. Lögregla óskaði eftir því að þau heimiluðu leit á heimili sínu að [...] í Hafnarfirði. Heimiluðu þau bæði leit á heimili sínu.
Að leit lokinni á skemmtistaðnum X kl. 22:45 var ákærði fluttur á lögreglustöðina á Hverfisgötu. Við leit á heimili A og ákærða fannst áhald fyrir kannabisneyslu í náttborðsskúffu ákærða í svefnherbergi. Áhald fyrir kannabisneyslu og tóbaksblandað kannabisefni í álpappír fannst í leðurjakka í fatahengi. Að auki fannst efni er talið gat vera hass í hægri vasa ,,KR jakka“ sem hékk í forstofu.
Ávana- og fíkniefnadeild lögreglunnar fór fram á samanburðarannsókn á því hvort um sama efni hafi verið að ræða sem fannst á X og við húsleit að [...]. Samkvæmt skýrslu tæknideildar frá 31. janúar 2006 var efnið sem fannst að [...] og á X skoðað, ljósmyndað og skráð. Samkvæmt skýrslunni virtust efnin vera eins að lit og ætla mætti að efnið væri svokallaður svartur afgani. Sýni var tekið af efnunum og þau send til frekari rannsóknar til Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum 31. janúar 2006. Samkvæmt efnaskýrslu lögreglu með efnaskrárnúmer 8547 lagði lögregla 27. janúar 2006 hald á 6,11 g af hassi á heimil ákærða. Samkvæmt annarri efnaskýrslu lögreglu frá sama degi með efnaskrárnúmer 8564 lagði lögregla hald á 136,25 g af hassi í eldhúsinu á veitingastaðnum X.
Samkvæmt matsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræðum frá 10. apríl 2006 reyndist ekki vera tölfræðilega marktækur munur á styrk tetrahýdrókannabínóls í sýnum nr. E-8564-1 og E-8564-2 sem eru efni sem fundust á X. Þriðja sýnið, nr. E-8547-1, sem fannst á heimili ákærða, innihélt hins vegar marktækt meira tetrahýdrókannabínól en hin sýnin. Bendi það til þess að það sýni eigi sér aðra sögu t.d. hvað varðar geymslu og meðferð en hin tvö. Munur þessi sé þó svo lítill að ekki sé óhætt að fullyrða að sýnin geti ekki öll verið úr sömu framleiðslu.
Ákærði var yfirheyrður af lögreglu 27. janúar 2006 í framhaldi af handtöku. Við skýrslugjöfina bar hann að ef ,,pínulítið“ af efnum hafi fundist heima hjá honum hafi hann líklega átt þau. Ákærði kvaðst ekki kannast við þau fíkniefni sem fundist hafi á X og ekki geta útskýrt tilkomu þeirra fíkniefna. Ákærða var kynnt að hassbútur sem fannst heima hjá honum væri svipaður í útliti, lit og áferð og hluti þess hass sem fannst við leit á X. Ákærði kvaðst ekki geta gefið skýringu á því. Ákærði var inntur eftir því hversu mikið af fíkniefnum hafi verið í jökkunum heima hjá honum og svaraði hann því til að það hafi verið í kringum 1 g með ,,hassmallinu“. Fíkniefnin hafi verið ætluð til eigin nota. Ákærði neitaði að svara því hvar hann hafi keypt fíkniefnin og bar því við að hann þyrði ekki að svara spurningunni. Ákærða var kynnt að í húsleit lögreglu á X hafi fundist plastpoki í pappakassa sem var í starfsmannaaðstöðu á bak við uppþvottavél en í honum hafi verið nokkurt magn ætlaðs hass. Einnig hafi fundist umbúðir sennilega utan af fíkniefnum í ruslafötu á bar í innra rými. Ákærði kvaðst ekki hafa haft vitneskju um þau efni sem fundist hafi á staðnum. Varðandi umbúðirnar þá hafi verið leyfislaust samkvæmi á staðnum kvöldið áður og líklegt væri að einhver hafi hent umbúðunum í ruslafötuna. Hann hafi enga aðra skýringu á því. Ákærði bætti því við að með leyfislausu samkvæmi ætti hann við að samkvæmið hafi ekki verið með hans samþykki, þ.e.a.s. að gestirnir hafi ekki mátt vera inni í innri salnum. Ákærði neitaði að stunda sölu eða dreifingu á fíkniefnum.
Fyrir dómi við aðalmeðferð málsins greindi ákærði svo frá, þegar hann var spurður um aðgengi að starfsmannaaðstöðunni þar sem fíkniefnin fundust, að hún hafi verið öllum opin, bæði starfsmönnum og viðskiptavinum. Ákærði kvaðst enga skýringu hafa á tilurð efnanna á þeim stað aðra en þá að hann gerði ráð fyrir því að einhver hafi komið þeim fyrir þar, hvort sem tilgangurinn hafi verið að geyma þau þar meðan að sá hinn sami var á barnum að drekka eða ekki. Það væri alþekkt að fólk geymdi alls konar dót inni í starfsmannaðstöðunni. Ákærði hafi þó ekki vitað til þess að fólk geymdi þar fíkniefni en hann hafi vitað til þess að fólk geymdi þar alls konar annað dót. Ekki hafi verið til lyklar að hurð að inngangi að starfsmannaaðstöðunni og hafi hurðin aldrei verið læst. Ómögulegt hafi verið fyrir þá sem unnu á X í hvert sinn að fylgjast með því hverjir væru inni í eldhúsi. Aðspurður um grammavog sem lögregla fann við húsleit bar ákærði að vogin væri umslagavog sem notuð hafi verið til að vigta fjölpóst sem hann hefði sent. Aðspurður um þau 6,11 g af hassi sem fundust á heimili ákærða kvaðst hann ekki muna eftir þeim efnum. Þau hafi fundist í jakka sem hann hafi ekki notaði síðan um sumarið. Ákærði kvað það vel geta verið að hann hafi fengið efnið á fylleríi um sumarið en þetta væri þó meira magn en hann væri vanur að hafa undir höndum. Ákærði kvaðst hafa haldið að hann ætti eitthvað lítið af efnum og þá ætti hann við hálft til 1 g sem hann hafi reiknað með að væru í náttborðsskúffunni. Ákærði kvaðst játa að hafa átt þau neysluáhöld sem fundust í náttborðsskúffu á heimili hans.
Að því er varðaði framburð B, þess efnis að ákærði hafi verið í fíkniefnadreifingu á X, kvað ákærði það vera rangt. B bæri til hans haturshug. Að því er varðaði framburð B þess efnis að ákærði hafi átt það til að ræða við viðskiptavini bak við inni í eldhúsi, þar sem hann teldi að fíkniefnaviðskipti hafi farið fram, kvað ákærði það rétt að hann hafi stundum rætt sérstaklega við fólk inni í þessu rými um persónuleg mál þegar einhver hafi þurft að ræða við hann í ró og næði. Oftast hafi verið farið fyrst í eldhúsið en þar sem lítið næði hafi verið þar hafi menn farið inn í innra rýmið og rætt saman þar. Ákærði kvað engin fíkniefnaviðskipti hafa farið fram þar. Ákærði kvaðst hafa reykt töluvert af kannabis flesta daga. Lítil regla hafi verið á óreglunni en töluvert mikil bjórdrykkja þessu samfara. Flesta daga hafi hann fengið sér eitthvað. Vikumagn kvað hann hafa geta verið um 3 g af kannabis.
A var yfirheyrð hjá lögreglu 28. janúar 2006. Kvaðst hún ekki hafa haft hugmynd um þau fíkniefni sem lögregla hafi fundið við leit á X og á heimili hennar sama kvöld. Kvað hún ákærða, hana sjálfa og son hennar hafa haft aðgang að starfsmannaaðstöðu á X. A kvaðst útiloka að sonur hennar væri eigandi að fíkniefnunum. Hún tók jafnframt fram að hún héldi að ákærði myndi vita um það hver væri eigandi að fíkniefnunum. Hún kvaðst ekki nota fíkniefni. Aðspurð um fíkniefni þau sem fundust við húsleit á heimili A og ákærða kvaðst hún ekki eiga þau efni. Ákærði ætti þá jakka sem efnin hafi fundist í og því hlyti hann að eiga efnin. Hún kvaðst ekki vilja tjá sig um það hvort ákærði notaði fíkniefni.
Fyrir dómi bar A að hún hafi ekki haft vitneskju um að ákærði hafi verið viðloðinn fíkniefnasölu á X. A var spurð út í framburð sinn hjá lögreglu 28. janúar þess efnis að hún héldi að ákærði vissi eitthvað um hver væri eigandi efnanna. Kvaðst A hafa átt við að lögreglan ætti að spyrja hann um efnin þar sem hún vissi ekkert um þau. Varðandi aðgengi að starfsmannaaðstöðunni bar A að aðstaðan hafi verið opin. Viðskiptavinir hafi ráfað þar um og fengið að geyma þar hitt og þetta. Starfsmannaaðstaðan hafi verið orðin eins og ,,örugga fatahengið“ viðskiptavina. Aðspurð um ætlaðar umbúðir utan af fíkniefnum sem fundist hafi í innra rými veitingastaðarins kvaðst A ekki kannast við það. Hún hafi aldrei orðið vör við fíkniefnaneyslu inni á X en bar að viðskiptavinirnir hafi stundum verið í annarlegu ástandi. A staðfesti að hún og ákærði hafi sent frá sér dreifibréf vegna rekstursins á þessum tíma. Þau hafi í tvígang sent frá sér dreifibréf en hún myndi ekki hvenær það hafi verið. Um hug B til ákærða bar A að B sonur sinn bæri haturshug til ákærða sem gæti hafa leitt til þess að B bæri refsivert brot á ákærða.
B gaf skýrslu hjá lögreglu 24. ágúst 2006. B kvaðst tengjast veitingastaðnum X á þann hátt að móðir hans, A, ræki staðinn. Hann kvaðst ekki hafa verið viðstaddur þegar umrætt mál hafi komið upp. Kvaðst hann ekki hafa vitað hvar fíkniefnin væru geymd en hann hafi vitað vel til þess að ákærði seldi fíkniefni á staðnum. B kvaðst telja ákærða hafa stundað sölu á fíkniefnum frá því að ákærði og A hafi opnað staðinn. B kveðst hafa vitað að ákærði notaði fíkniefnin kókaín og amfetamín. Hann kvaðst hafa unnið á X um helgar. Hafi hann verið beðinn um að taka á móti efnum sem hann hafi síðan átt að afhenda ákærða. Í eitt skiptið hafi hann tekið á móti um það bil 1 g af marihuana og sett inn í eldhús. Hann hafi síðan látið ákærða vita hvar efnið væri að finna. B kvaðst auk þess hafa verið beðinn af viðskiptavinum að selja þeim fíkniefni. Kvaðst B vita til þess að ákærði hafi selt fíkniefni yfir borðið því þegar viðskiptavinirnir gáfu sig á tal við ákærða hafi þeir stundum farið á bak við inn í eldhús eða inn í innri sal þar sem hann teldi að fíkniefnaviðskiptin hafi farið fram. B kvaðst hafa orðið var við fíkniefnasöluna um leið og ákærði hóf rekstur á X. Kvað hann móður sína engan þátt hafa tekið í því að selja fíkniefni á staðnum.
Fyrir dómi bar B að hann gæti ekki skýrt tilurð fíkniefnanna sem fundust á X. Þá gæti hann ekki fullyrt að ákærði hafi átt efnin. Hann vissi þó til þess að ákærði hafi oft verið með fíkniefni inni á staðnum. Um hafi verið að ræða hass og ,,svoleiðis dót”. Aðspurður um það hvor ákærði hafi verið að neyta efnanna eða dreifa þeim bar B að ákærði hafi verið að dreifa þeim. B kvað starfsmenn, fasta viðskiptavini og aðra sem þekktu ákærða persónulega, hafa haft aðgengi að rými fyrir starfsmenn þar sem fíkniefnin hafi fundist. Varðandi framburð sinn í lögregluskýrslu um að hann hafi verið beðinn um að taka á móti fíkniefnum sem hann hafi átt að afhenda ákærða, bar B að hann hafi gert það einu sinni. Hann hafi tekið á móti um það bil 1 g af efnum og sett þau inn í eldhús og látið þau vera þar. Þetta hafi verið í eina skiptið sem það hafi komið fyrir. B útskýrði fullyrðingu sína í lögregluskýrslu þess efnis að ákærði hafi ekki leyft neinum að geyma fíkniefni í húsin á þann hátt að hann vissi um mann sem hafi beðið um að fá að geyma fíkniefni á X en ekki fengið leyfi til þess hjá ákærða. Um hug B til ákærða viðurkenndi B að hann bæri haturshug í garð ákærða en tók fram að hann væri þó ekki að bera á hann rangar sakir.
Jakob Kristinsson dósent kom fyrir dóminn. Hann staðfesti matsgerð 6147 frá 10. apríl 2006 um samanburðargreiningu. Jakob bar að styrkleiki efnanna væri frekar í lægri kantinum. Þá lægi ekki fyrir áreiðanleg niðurstaða um að efnin úr samanburðarrannsókninni væru þau sömu. Ekki væri heldur hægt að fullyrða að þau væru ekki úr sömu framleiðslu.
Ingólfur Arnarson lögreglumaður og Haukur Bent Sigmarsson rannsóknarlögreglumaður komu fyrir dóminn, lýstu aðstæðum á X, húsleitinni á heimili ákærða, rannsókn málsins og staðfestu þátt sinn í henni.
Niðurstaða:
Ákærði játar sök samkvæmt ákæru frá 26. nóvember 2006. Með vísan til þeirrar játningar hans, sem samrýmist gögnum málsins, verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði neitar sök samkvæmt ákæru 7. nóvember 2006. Hefur hann einungis viðurkennt að hafa haft í vörslum sínum lítið magn fíkniefna er fundust á heimili hans að kvöldi föstudagsins 27. janúar 2006. Fram er komið að ákærði rak veitingastaðinn X, ásamt þáverandi sambýliskonu sinni A. Ákærði neitar því að hafa vitað um þau fíkniefni sem fundust á veitingastaðnum og hefur helst skýrt tilvist þeirra með þeim hætti að viðskiptavinir hafi skilið efnin þar eftir. Við mat á sök ákærða er til þess að líta að ákærði rak staðinn í félagi við þáverandi sambýliskonu sína. Hafði hann, ásamt sambýliskonunni og B, fullt aðgengi að staðnum. Efnunum var haganlega komið fyrir inni á staðnum fyrir aftan þvottavél inni í starfsmannaaðstöðu. Var frágangi efnanna þannig háttað að þau virðast fremur hafa verið geymd á staðnum til langframa frekar en að þau hafi verið skilin þar eftir af viðskiptavini. Ákærði hefur viðurkennt að hafa verið í neyslu fíkniefna á þessum tíma. Hefur hann játað sök samkvæmt ákæru 26. nóvember 2006, sem varðar vörslur fíkniefna. Þá fundust á heimili hans fíkniefni, sem ákærði hefur viðurkennt að hafa átt að hluta til. Einnig fundust á heimili hans áhöld til fíkniefnaneyslu, sem hann hefur viðurkennt að hafa átt. Loks er til þess að líta að B hefur nefnt tilvik þar sem hann hafi tekið við fíkniefnum inni á staðnum til að koma í hendur ákærða. Loks er til þess að líta að það magn fíkniefna er fannst í starfsmannaaðstöðunni er slíkt að telja verður einkar ósennilegt að slíkt magn efna sé geymt fjarri eiganda sínum. Þegar allt framangreint er virt í heild sinni er að mati dómsins hafið yfir skynsamlegan vafa að þau fíkniefni sem talin eru upp í ákæru og fundust á X og á heimili ákærða hafi verið í vörslum hans. Með hliðsjón af því verður ákærði sakfelldur samkvæmt ákæru og er háttsemin þar rétt heimfærð til refsiákvæða.
Ákærði er fæddur í mars 1955. Árið 2004 gekkst hann undir sátt hjá sýslumanninum í Hafnarfirði fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni. Þá hefur hann fjórum sinnum hlotið dóma fyrir brot á umferðarlögum. Með hliðsjón af því magni fíkniefna sem um ræðir í málinu er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 30 daga. Fram er komið að í júlí 2006 gekkst ákærði undir meðferð við fíkniefnaneyslu sinni sem enn stendur yfir. Í ljósi þess og atvika málsins að öðru leyti, þykir mega skilorðsbinda refsinguna með þeim hætti sem í dómsorði greinir.
Með vísan til lagaákvæða í ákæru skulu upptæk gerð fíkniefni, sem lagt var hald á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði sakarkostnað samkvæmt sakarkostnaðaryfirlit, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda, að teknu tilliti til virðisaukaskatts, með þeim hætti er í dómsorði greinir. Einnig greiði hann útlagðan ferða- og dvalarkostnað vitnis að fjárhæð 33.456 krónur.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti málið Daði Kristjánsson fulltrúi lögreglustjóra.
Símon Sigvaldason héraðsdómari kvað upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, Geir Bragason, sæti fangelsi í 30 daga, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Upptæk eru gerð til ríkissjóðs 142,36 g af hassi, 0,46 g af marihuana, 0,42 g af tóbaksblönduðu kannabisefni, er hald var lagt á við rannsókn málsins.
Ákærði greiði 425.262 krónur í sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Bjarna Haukssonar héraðsdómslögmanns, 168.324 krónur.