Hæstiréttur íslands
Mál nr. 367/2000
Lykilorð
- Sjómaður
- Veikindalaun
- Skipstjóri
- Stöðuumboð
- Tómlæti
|
|
Fimmtudaginn 22. febrúar 2001. |
|
Nr. 367/2000. |
Guðmundur Örn Jensson (Helgi Birgisson hrl.) gegn Básafelli hf. (Sigurbjörn Magnússon hrl.) og gagnsök |
Sjómenn. Veikindalaun. Skipstjóri. Stöðuumboð. Tómlæti.
B réð G til starfa á Sléttanesi ÍS-808 með munnlegum ráðningarsamningi og var hann lögskráður á skipið í júní 1998. Í lok júlí 1998 missteig B sig illa í veiðiferð og við það tóku sig upp gömul hnémeiðsli. Samkvæmt læknisvottorði var G óvinnufær frá 30. júlí til 5. september 1998. Á þessu tímabili missti hann af tveimur veiðiferðum og fékk engin laun frá B. Þann 1. desember 1999 krafðist B launa í veikindaforföllum sínum. Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að sökum tómlætis G yrði að fallast á sýknukröfu B. Hæstiréttur féllst á kröfu G. Var talið að þar sem látið var hjá líða að gera skriflegan ráðningarsamning við hann, þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, væri ekki sannað að G hefði einungis verið ráðinn til einnar veiðiferðar í senn. Yrði því að miða við að hann hefði notið ótímabundinnar ráðningar í skiprúm og ætti þannig rétt á launum í veikindaforföllum samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 35/1985. Þótt að G hefði ekki tilkynnt útgerðinni skriflega um veikindi sín hefði skipstjórinn vitað um orsakir fjarvista hans og vegna stöðuumboðs skipstjóra yrði að líta svo á að þar með hefði útgerðinni jafnframt verið kunnugt um veikindi G og því borið að huga að réttindum hans. Var ekki fallist á, að G hefði fyrirgert lögvarinni launakröfu sinni með tómlæti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Haraldur Henrysson og Pétur Kr. Hafstein.
Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 29. september 2000. Hann krefst þess, að gagnáfrýjandi greiði sér 968.014 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 90.965 krónum frá 7. ágúst 1998 til 5. september sama ár en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Gagnáfrýjandi áfrýjaði málinu 30. nóvember 2000. Hann krefst staðfestingar á héraðsdómi og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
I.
Eins og greinir í héraðsdómi krefst aðaláfrýjandi launa í veikindaforföllum á grundvelli 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Launakrafan nær til tveggja veiðiferða frá 31. júlí til 5. september 1998 og er ekki ágreiningur um útreikning hennar. Aðaláfrýjandi var lögskráður á Sléttanes ÍS 808 frá 10. júní til 30. júlí 1998 og aftur frá 6. september til 13. nóvember sama ár.
Aðaláfrýjandi hefur lagt fyrir Hæstarétt yfirlýsingu Sölva Pálssonar skipstjóra frá 7. desember 2000. Þar staðfestir hann, að aðaláfrýjandi hafi farið í land af skipinu í lok júlí 1998 vegna meiðsla í hné. Hann hafi gert sér sem skipstjóra grein fyrir því, að hann þyrfti að fara í aðgerð á hnénu og myndi af þeim sökum verða óvinnufær. Sér hafi þannig á þessum tíma verið fullkunnugt um orsakir þess, að aðaláfrýjandi mætti ekki í næstu tvær veiðiferðir. Yfirlýsing skipstjóra fær samrýmst útdrætti úr dagbók skipsins 26. júlí 1998 þess efnis, að aðaláfrýjandi hafi þennan dag verið frá vinnu vegna meiðsla í hné. Þessi gögn verða lögð til grundvallar í málinu, en gagnáfrýjandi hefur hvorki kvatt skipstjórann fyrir dóm, eins og hann boðaði í greinargerð sinni í héraði, né gert reka að því að afla frumrits skipsdagbókar.
Krafa aðaláfrýjanda hefur verið verið studd læknisfræðilegum gögnum. Er þar annars vegar um að ræða tvö vottorð Brynjólfs Y. Jónssonar bæklunarlæknis frá 17. nóvember 1998 og 16. nóvember 1999 og hins vegar örorkumat Atla Þórs Ólasonar sérfræðings í bæklunarskurðlækningum 14. desember 1998. Í fyrra vottorði Brynjólfs kemur fram, að áfrýjandi hafi komið til hnéspeglunar 30. júlí 1998 og hafi þá verið tekinn hluti af liðþófanum. Hann hafi komið til endurmats 18. ágúst sama ár og þá varla verið orðinn vinnufær og muni hann þurfa á frekari meðferð og hjálpartækjum að halda. Í síðara vottorði læknisins segir, að áfrýjandi hafi verið óvinnufær með öllu frá 30. júlí til 5. september 1998. Þá kemur einnig fram, að áfrýjandi hafi þurft að fara í sérstaka aðgerð á hnénu réttu ári eftir speglunina eða 30. júlí 1999. Í örorkumati Atla Þórs er því nánar lýst, hvernig aðaláfrýjandi varð fyrir meiðslum sínum í vinnu hjá öðrum atvinnurekanda á árinu 1997 og hvernig þau leiddi til þess, að hann varð óvinnufær um skeið sumarið 1998. Ekki eru efni til að bera brigður á þessi læknisfræðilegu gögn, þótt höfundar þeirra hafi ekki komið fyrir dóm, sbr. 71. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Með hliðsjón af öllu framansögðu verður að telja sannað, að aðaláfrýjandi hafi orðið óvinnufær af völdum meiðsla í lok júlí 1998 og verið það til 6. september sama ár, er hann kom til skips að nýju. Skriflegur ráðningarsamningur var ekki gerður við aðaláfrýjanda, svo sem þó er boðið í 1. mgr. 6. gr. sjómannalaga. Verður á það fallist með héraðsdómi, að gagnfrýjandi hafi ekki sannað, að aðaláfrýjandi hafi verið ráðinn til einnar veiðferðar í senn, og verður við það að miða, að hann hafi notið ótímabundinnar ráðningar í skiprúm. Átti hann því kröfu til launa í veikindaforföllum á þessum tíma samkvæmt 1. mgr. 36. gr. sjómannalaga.
II.
Af hálfu aðaláfrýjanda var ekki sett fram krafa á hendur gagnáfrýjanda um vangoldin laun fyrr en 1. desember 1999. Voru þá liðnir tæpir fimmtán mánuðir frá því, að aðaláfrýjandi hóf að nýju störf eftir veikindin, og rúmt ár frá því, að hann fór í land eftir tvær veiðiferðir haustið 1998. Í sjómannalögum er ekki að finna ákvæði, er takmarki rétt sjómanna til veikindalauna við ákveðinn tíma, en í kjarasamningi Sjómannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna á árinu 1998 var kveðið svo á í gr. 1.21, að skipverji ætti að tilkynna útgerðarmanni eða skipstjóra um veikindi eða meiðsl, svo fljótt sem verða mætti. Fyrir liggur, að aðaláfrýjandi tilkynnti útgerðinni ekki skriflega um veikindi sín og krafðist hvorki veikindalauna, þegar hann kom aftur til starfa 6. september 1998, né þegar hann fór alfarinn frá borði 13. nóvember sama ár. Fyrir héraðsdómi lýsti aðaláfrýjandi því svo, að hann hefði ekki verið viss um réttarstöðu sína og talið „betra að reyna halda plássinu heldur en að fara út í eitthvað sem ég þekkti, þekki ekki nákvæmlega, ekki fyrr en núna.”
Eins og áður er fram komið vissi skipstjóri Sléttaness ÍS 808 frá upphafi um orsakir fjarvista aðaláfrýjanda fram í september 1998. Vegna hins sérstaka stöðuumboðs skipstjóra, sem á bæði stoð í sjómannalögum og siglingalögum nr. 34/1985, verður að líta svo á, að þar með hafi útgerð skipsins jafnframt verið kunnugt um veikindi aðaláfrýjanda og því borið að huga að réttindum hans vegna þeirra. Ekki liggur fyrir, að aðaláfrýjandi hafi með nokkrum hætti gefið til kynna, að hann hafi haft í hyggju að afsala sér tilkalli til veikindalauna, þótt hann hefði vissulega átt að hafa kröfuna uppi mun fyrr en hann gerði. Þegar á allt er litið verður ekki á það fallist, að aðaláfrýjandi hafi fyrirgert lögvarinni launakröfu sinni með tómlæti.
Samkvæmt framansögðu verður gagnáfrýjandi dæmdur til að greiða aðaláfrýjanda 968.014 krónur og þykir rétt vegna seinlætis við framsetningu kröfunnar, að hún beri ekki dráttarvexti fyrr en frá 1. janúar 2000, er mánuður var liðinn frá kröfubréfi aðaláfrýjanda, sbr. 3. mgr. 9. gr. vaxtalaga.
Gagnáfrýjandi skal greiða aðaláfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Gagnáfrýjandi, Básafell hf., greiði aðaláfrýjanda, Guðmundi Erni Jenssyni, 968.014 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. janúar 2000 til greiðsludags.
Gagnáfrýjandi greiði aðaláfrýjanda 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 14. júlí 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 16. júní sl. að loknum munnlegum málflutningi, hefur Guðmundur Jensson, kt. 280566-3739, Jörundarholti 3, Akranesi höfðað hér fyrir dómi þann 7. febrúar 2000 með stefnu á hendur Básafelli hf., kt. 680292-2059, þá til heimilis að Sindragötu 1, Ísafirði en nú til heimilis að Hafnarhvoli, Reykjavík.
Stefnandi krefst þess að stefnda verði dæmt til að greiða honum 968.014 krónur með dráttarvöxtum af 90.965 krónum frá 7. ágúst 1998 til 5. september s.á., en af stefnufjárhæð frá þeim degi til greiðsludags og málskostnað að mati dómsins.
Stefnda krefst þess aðallega að verða alfarið sýknað af kröfum stefnanda en til vara að kröfur hans verði verulega lækkaðar og í báðum tilvikum málskostnaðar að skaðlausu.
Stefnandi var ráðinn til stefnda með munnlegum ráðningarsamningi sem svokallaður Baadermaður á Sléttanes ÍS-808, sknr. 1628, sem stefnda átti og gerði út. Hann var lögskráður fyrst á skipið þann 10. júní 1998. Hann kveðst hafa misstigið sig illa í veiðiferð í lok júlí 1998 og við það hefðu tekið sig upp hnémeiðsli sem hann hefði orðið fyrir í vinnuslysi árið áður. Hefði hann orðið að fara í land vegna meiðslanna og farið í hnéspeglun 30. júlí 1998, þar sem hluti af liðþófa hefði verið fjarlægður. Hafi hann verið óvinnufær af þessum sökum fram til 5. september 1998 og misst af tveimur veiðiferðum, annarri frá 31. júlí til 7. ágúst 1998 og hinni frá 8. ágúst til 5. september s.á.. Hafi hann engin laun fengið greidd frá stefnda fyrir þann tíma sem hann var óvinnufær.
Stefnandi kveðst vísa til almennra reglna vinnuréttar og 36. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 og ekki hafa átt að missa neins í launum í allt að tvo mánuði vegna þessara veikinda. Skuldi stefnda honum því laun sem nemi fullum hlut Baadermanns þær tvær veiðiferðir sem hann hafi orðið af.
Stefnda kveður stefnanda hafa byrjað störf hjá sér þann 9. júní 1998 og hafi hann verið lausráðinn, þannig að hann hafi verið ráðinn til einnar veiðiferðar í senn. Hafi hann ekki krafist launa í veikindaforföllum fyrr en með bréfi dagsettu 1. desember 1999, eða rúmu ári eftir að hann hefði hætt störfum hjá stefnda. Styðji hann kröfu sína við læknisvottorð dagsett 16. nóvember 1999, rúmu ári eftir að hann hefði farið aðrar tvær veiðiferðir fyrir stefnda án þess að gera nokkrar athugasemdir við það að hann hefði átt að fá greiðslur vegna þess að hann hefði verið veikur í þeim veiðiferðum sem farnar hefðu verið næst á undan. Kveðst stefnda mótmæla því að umrætt læknisvottorð sanni veikindi stefnanda og að hann hafi verið óvinnufær vegna sjúkdóms eða meiðsla sem hann hafi orðið fyrir meðan hann var ráðinn hjá stefnda en stefnandi hafi verið lausráðinn til hverrar veiðiferðar. Telur stefnda með vísan til þessara atriða að stefnandi geti ekki byggt kröfugerð sína á 36. gr. laga nr. 35/1985.
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dómi símleiðis við aðalmeðferð málsins.
Við þingfestingu málsins lagði stefnandi fram vottorð Brynjólfs Y. Jónssonar læknis, dagsett 16. nóvember 1999, um að stefnandi hefði verið óvinnufær með öllu vegna vinnuslyss frá 30. júlí 1998 til 5. september 1998, vegna hnéaðgerðar 30/7 99 [svo!].
Undir rekstri málsins var lagt fram áverkavottorð sama læknis, dagsett 17. nóvember 1998, þar sem m.a. kemur fram að stefnandi hafi komið í hnéspeglun 30. júlí 1998 og þá verið tekinn hluti af liðþófanum. Hann hefði komið til endurmats 18. ágúst 1998 og þá varla verið orðinn vinnufær. Einnig var lagt fram í málinu örorkumat Atla Þórs Ólasonar, dr. med., á stefnanda, dagsett 14. desember 1998.
Fyrir dóminn hefur verið lagt ljósrit skjals sem ber yfirskriftina „útdráttur úr dagbók Sléttanes ÍS-808“ og er ritað af Bergþóri Gunnlaugssyni yfirstýrimanni þar sem segir: „Sunnudagurinn 26. júlí 1998. Guðmundur Jensson frá vinnu vegna þess að vökvi var farinn að safnast í hnéð á honum. Honum gefið bólgueyðandi lyf. Sagði hann að þetta væri vegna vinnuslys sem hann varð fyrir á verkstæði Þorgeirs og Ellerts á Akranesi og væri að taka sig upp aftur. Ekki var haft samband við lækni“.
Stefnandi skýrði svo frá hér fyrir dómi að hann hefði sjálfur haft samband við lækni frá skipinu í umrætt sinn. Hann kvaðst hafa íhugað að krefjast launa í veikindaforföllum, en ekki gert svo vegna þess að hann hefði óttast að sér yrði vikið úr skiprúmi. Samkvæmt gögnum máls og skýrslu stefnanda fór hann í tvær veiðiferðir eftir þetta með Sléttanesinu, þá fyrri 6. september til 9. október 1998 og hina frá 10. október til 12. nóvember s.á. en hætti eftir það störfum hjá stefnda og sagði það hafa verið vegna þess að hann treysti sér ekki til að halda störfum áfram vegna hnémeiðslanna.
Stefndi ber sönnunarbyrði um það að stefnandi hafi aðeins verið ráðinn til einnar veiðiferðar í senn. Stefndi vanrækti að gera skriflegan ráðningarsamning við stefnanda, sem þó er lögboðið, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 35/1985. Er annað ósannað en að stefnandi hafi verið ráðinn ótímabundið í skiprúm.
Í lokamálsgrein 36. gr. sömu laga er kveðið á um að vilji skipverji neyta réttar síns til launa í forföllum vegna veikinda eða slyss, samkvæmt 1., 2. og 3. mgr., skuli hann, ef atvinnurekandi óskar þess, afhenda honum vottorð læknis um veikindin eða slysið, er sýni að hann hafi verið óvinnufær vegna veikindanna eða slyssins. Er þannig gert ráð fyrir því í ákvæðinu að skipverji verði að hafa uppi kröfu um að honum verði greidd laun í slysa- og veikindaforföllum. Áskilja verður einnig að krafa um slík laun sé höfð uppi án ástæðulauss dráttar. Stefnandi gerði ekki reka að því að krefjast launa fyrir þann tíma sem hann gat ekki innt af hendi vinnu í þágu stefnda af ofangreindum sökum, fyrr en lögmaður hans ritaði stefnda bréf þess efnis þann 1. desember 1999 og aflaði sér fyrst í nóvember það ár vottorðs læknis í því skyni að sýna fram á óvinnufærni sína. Var þá liðið u.þ.b. eitt ár og fjórir mánuðir frá byrjun fyrri veiðiferðarinnar af þeim tveimur sem stefnandi missti af vegna óvinnufærni sinnar í kjölfar hnéaðgerðarinnar. Engar sönnur hafa verið færðar á það að stefnandi hafi gert fyrirsvarsmönnum stefnda grein fyrir orsökum þess að hann kom ekki til skips í upphafi nefndra veiðiferða og hann hefur ekki fært fram neinar viðhlítandi ástæður fyrir því hve lengi hann dró að krefjast forfallalauna. Yfirgaf hann skiprúmið og hætti störfum hjá stefnda í nóvember 1998 og leið þannig u.þ.b. eitt ár frá því að hann hvarf úr starfi, uns hann setti fram kröfu um forfallalaun. Verður að telja, þegar ofangreint er virt, að stefnandi hafi sýnt af sér svo mikið tómlæti um að halda fram þeim rétti sem hann taldi sig eiga á hendur stefnda til launa í forföllum sínum vegna hnémeiðslanna, að fallast verður á sýknukröfu stefnda af þeim sökum. Rétt er hins vegar að hvor aðili beri sinn kostnað af rekstri málsins.
Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.
Dómsorð:
Stefnda, Básafell hf., er sýknað af kröfum stefnanda, Guðmundar Jenssonar, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.