Hæstiréttur íslands
Mál nr. 227/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Nauðungarsala
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Þriðjudaginn 11. júní 2002. |
|
Nr. 227/2002. |
Halldóra Ingibergsdóttir(Ragnar H. Hall hrl.) gegn Leifi Árnasyni (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Kærumál. Nauðungarsala. Frávísun máls frá héraðsdómi.
H skaut til héraðsdóms ákvörðun sýslumanns um að fram skyldi fara byrjun uppboðs á fasteign hennar. H hafði ekki verið viðstödd umrædda fyrirtöku sýslumanns og bar því ekki við að uppfyllt væru skilyrði 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 til að hún gæti borið ágreininginn undir héraðsdóm. Auk þessa var til þess litið að yfirlýsing, sem gerðarbeiðandinn L hafði gefið í greinargerð sinni til héraðsdóms, fól ekki í sér ótvírætt samþykki við málatilbúnaði H, sbr. 4. mgr. 22. gr. sömu laga. Með vísan til 1. mgr. 74. gr. laganna var málinu því vísað frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. maí 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2002, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að hnekkt yrði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 17. janúar sama árs um að fram skyldi fara byrjun uppboðs á fasteign sóknaraðila á 2. hæð til hægri í húsinu nr. 22 við Logafold í Reykjavík. Kæruheimild er í 79. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu. Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumanns verði felld úr gildi og synjað verði kröfu varnaraðila um nauðungarsölu á eigninni. Hún krefst einnig málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I.
Eins og greinir í héraðsdómi mótmælti sóknaraðili með bréfi 15. október 2001 beiðni varnaraðila um nauðungarsölu á íbúð sinni á þeim grundvelli að krafa varnaraðila væri fyrnd. Þessari mótbáru hafnaði sýslumaður með bréfi 30. sama mánaðar, en sóknaraðili fullyrðir að það bréf sýslumanns hafi aldrei borist sér. Í samræmi við tilkynningu um nauðungarsölu, sem sýslumaður sendi sóknaraðila 9. október 2001, var nauðungarsölubeiðni varnaraðila tekin fyrir á skrifstofu sýslumanns fimmtudaginn 17. janúar 2002. Við þá fyrirtöku var ekki mætt af hálfu sóknaraðila og ákvað sýslumaður þá að uppboð á umræddri eign skyldi byrja á skrifstofu embættisins 18. mars sama árs. Með bréfi 23. janúar 2002, árituðu um móttöku hjá sýslumanni sama dag, mótmælti sóknaraðili þessari ákvörðun með vísan til fyrra bréfs síns og fann jafnframt að því að ákvörðunin hafi verið tekin að henni fjarstaddri. Að svo komnu máli voru frekari aðgerðir við nauðungarsöluna stöðvaðar og degi síðar sendi sóknaraðili málið héraðsdómi til meðferðar sem ágreiningsmál samkvæmt XIII. kafla laga nr. 90/1991. Af gögnum málsins verður ekki ráðið að afstaða varnaraðila til þeirrar málaleitunar hafi þá legið fyrir, en í greinargerð sinni til héraðsdóms 14. mars 2002 krafðist varnaraðili þess að kröfum sóknaraðila yrði hafnað og ákvörðun sýslumanns staðfest. Í niðurlagi greinargerðarinnar sagði síðan orðrétt: ,,Að mati varnaraðila kann að vera uppi vafi um það hvort uppfyllt séu skilyrði þess að leggja mál þetta fyrir dóm með þeim hætti sem sóknaraðili gerir enda mætti hann ekki við fyrirtöku máls og krafðist þess að nauðungarsala yrði stöðvuð. Samkvæmt því má um það deila hvort sýslumaður tók ákvörðun í skilningi 22. gr. laga nr. 90/1991 sem unnt er að bera undir héraðsdóm samkvæmt 4. mgr. 22. gr. laganna með þeim hætti sem sóknaraðili gerir. Varnaraðili hefur ekki uppi kröfur um frávísun af þessum sökum enda kýs hann ef dómari telur kröfur aðila úrskurðarhæfar að fá efnisúrlausn um ágreiningsefni aðila.”
II.
Að teknu tilliti til þeirrar fullyrðingar sóknaraðila að bréf sýslumanns 30. október 2001 hafi hvorki borist henni né lögmanni hennar er við úrlausn málsins ekki unnt að ganga út frá öðru en að ákvörðun sýslumanns um að byrja uppboð hafi fyrst orðið henni kunn eftir fyrirtökuna 17. janúar 2002, sbr. framangreint bréf hennar 23. sama mánaðar. Samkvæmt 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 skal sá, sem vill leita úrlausnar héraðsdómara um ágreining, sem rís við nauðungarsölu, lýsa því yfir við fyrirtöku sýslumanns á nauðungarsölunni, þar sem sú ákvörðun kemur fram, sem leita á úrlausnar um. Hafi hlutaðeigandi ekki verið staddur við fyrirtökuna og ekki mátt fá boðun til hennar eða haft lögmæt forföll eða ákvörðunin kom ekki fram við fyrirtökuna, má hann þó koma yfirlýsingu sinni bréflega fram við sýslumann innan viku frá því honum varð kunnugt um ákvörðunina. Sú aðstaða er ekki fyrir hendi í málinu og hefur sóknaraðili ekki borið því við að fjarvera hennar 17. janúar 2002 réttlættist af því að hún hafi ekki mátt fá boðun til fyrirtökunnar eða haft lögmæt forföll. Gat sóknaraðili ekki látið við það sitja að senda skrifleg mótmæli við framgangi uppboðsins, heldur var henni brýn nauðsyn á að mæta við hina boðuðu fyrirtöku og hafa þar uppi mótmæli sín. Það gerði hún ekki og var sýslumanni rétt að taka ákvörðun um framhald málsins með þeim hætti, sem fram er komið. Eru samkvæmt þessu ekki uppfyllt skilyrði 2. mgr. 73. gr. laga nr. 90/1991 til að sóknaraðili geti borið ágreininginn undir héraðsdóm. Er þá jafnframt til þess að líta að samkvæmt 4. mgr. 22. gr. laganna geta aðrir en gerðarbeiðendur leitað úrlausnar héraðsdóms samkvæmt XIII. kafla þeirra ef gerðarbeiðendur eru því allir samþykkir eða ef ákvörðun varðar aðeins einn gerðarbeiðenda, þá hann fyrir sitt leyti. Með bréfi sóknaraðila til héraðsdóms 24. janúar 2002 fylgdi ekki samþykki varnaraðila. Framangreind yfirlýsing í greinargerð hans til héraðsdóms felur heldur ekki í sér ótvírætt samþykki við málatilbúnað sóknaraðila og getur þegar af þeirri ástæðu ekki komið til neinna álita í málinu.
Samkvæmt 1. mgr. 74. gr. laga nr. 90/1991 skal héraðsdómari, þegar honum hafa borist gögn varðandi nauðungarsöluna, kanna hvort skilyrðum laganna til að leita úrlausnar hans sé fullnægt. Ef svo er ekki skal hann vísa málinu frá dómi með úrskurði án þess að kveðja til aðila þess eða taka það að öðru leyti fyrir á dómþingi. Af öllu framanskráðu er ljóst að skilyrði laga nr. 90/1991 brast til þess að mál þetta hlyti meðferð fyrir dómi. Ber af þeim sökum að vísa því sjálfkrafa frá héraðsdómi.
Sóknaraðili skal greiða varnaraðila málskostnað í héraði og kærumálskostnað, sem verður ákveðinn í einu lagi, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Sóknaraðili, Halldóra Ingibergsdóttir, greiði varnaraðila, Leifi Árnasyni, samtals 150.000 krónur í málskostnað í héraði og kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. maí 2002.
Mál þetta var þingfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 4. febrúar sl. og tekið til úrskurða að loknum munnlegum málflutningi 19. apríl sl.
Sóknaraðili er Halldóra Ingibergsdóttir, kt. [...], Logafold 22, Reykjavík.
Varnaraðilar er Leifur Árnason, kt. [...], Skólavörðustíg 12, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru að felld verði úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 17. janúar 2002 um að fram skuli fara byrjun uppboðs á fasteign sóknaraðila að Logafold 22, Reykjavík, 2. hæð t.h., þann 18. mars 2002 og að synjað verði kröfu varnaraðila um nauðungarsölu á eigninni. Þá er þess krafist að varnaraðili greiði sóknaraðila málskostnað að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.
Dómkröfur varnaraðila eru að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og staðfest verði ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að fram skuli fara nauðungarsala á fasteign sóknaraðila að Logafold 22, Reykjavík, 2. hæð til hægri. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að mati réttarins að teknu tilliti til 24,5% virðisaukaskatts á málflutningsþóknun.
Helstu málavextir eru sem hér segir: Þann 22. mars 1991 var fyrir héraðsdómi gerð réttarsátt þar sem sóknaraðili þessa máls skuldbatt sig til að greiða Jóni Árnasyni, kt. 200467-3379, 600.000 krónur á einu ári þannig að 100.000 krónur yrðu greiddar 22. maí 1991 og síðan 100.000 krónur á tveggja mánaða fresti, þannig að síðasta greiðsla færi fram 22. mars 1992. Í sáttargerðinni var tekið fram að félli ein greiðsla niður væri skuldin öll í gjalddaga fallin og bæri þá dráttarvexti frá og með gjaldfellingardegi. Jón Árnason framseldi varnaraðila þessa réttarsátt með áritun 27. mars 1991.
Þann 20. apríl 2001 var fjárnám gert íbúð sóknaraðila að Logafold 22 að kröfu varnaraðila. Krafa varnaraðila var reist á framangreindri dómsátt og bókað, að gerðarþoli hefði ekki verið boðaður til fjárnámsgerðarinnar af tilgreindum ástæðum, en sýslumaður myndi tilkynna gerðarþola um fjárnámið og þýðingu þess.
Með bréfi, sem móttekið var hjá sýslumanni 24. september 2001, krafðist varnaraðili að nauðungarsala færi fram á íbúð sóknaraðila til lúkningar á skuld við varnaraðila, sem samtals væri þá með vöxtum og áföllnum kostnaði 1.409.402 krónur. Vísað var til fjárnámsgerðarinnar 20. apríl 2001 til grundvallar nauðungarsölunni.
Með bréfi, sem dagsett er 9. október 2001, tilkynnti sýslumaður sóknaraðila að honum hefði borist framangreind beiðni um nauðungarsölu og yrði beiðnin tekin fyrir 17. janúar 2002 að undangenginni auglýsingu, sem send yrði til birtingar í Lögbirtingablaði 5. desember 2001.
Lögmaður sóknaraðila mótmælti framkominni beiðni um nauðungarsölu á íbúð sóknaraðila með bréfi til sýslumannsins 15. október 2001. Byggt var á því að krafa varnaraðila væri fyrnd. Meira en 10 ár hefðu liðið frá því dómsáttin var gerð og þar til varnaraðili hefði hafið fullnustugerðir vegna hennar. Með bréfi 30. október 2001 tjáði sýslumaður lögmanni sóknaraðila að ekki væri fallist á að krafa varnaraðila hefði verið fyrnd er fjárnám fór fram 20. apríl 2001, þar sem fyrningarfrestur hennar hefði fyrst byrjað að líða frá gjalddaga kröfunnar 22. maí 1991. Andmæli sóknaraðila væru því ekki tekin til greina. Og með bókun 17. janúar 2002 hjá sýslumannsembættinu í Reykjavík var tekin fyrir eins og hér segir:
Nauðungarsala á Logafold 22, 0202, íbúð á 2. h. t.h. og stæði nr. 10 bílskýli.
Gerðarbeiðandi: Leifur Árnason.
Gerðarþoli: Halldóra Ingibergsdóttir
Fyrir gerðarbeiðanda mætir Magnús Brynjólfsson, hdl.
Lagt er fram: nr. 1, nauðungarsölubeiðni
nr. 2, fjárnám.
Gerðarþoli er ekki mættur og enginn fyrir hans hönd.
Að kröfu gerðarbeiðanda er ákveðið að uppboð byrji á eigninni á skrifstofu sýslumanns mánudaginn 18. mars n.k. kl. 10:00. ...
Þessari ákvörðun sýslumanns var mótmælt með bréfi frá lögmanni sóknaraðila 23. janúar 2002. Fundið var að því að þessi ákvörðun hefði verið tekin í fjarveru sóknaraðila og lýst yfir, að sóknaraðili myndi leita úrlausnar Héraðsdóms Reykjavíkur um hana. Vísað var til ákvæða 73. gr. laga nr. 90/1991 um nauðungarsölu því til áréttingar að frekari aðgerðir við nauðungarsöluna yrðu stöðvaðar á meðan.
Málið var síðan þingfest fyrir héraðsdómi eins og áður sagði.
Af hálfu sóknaraðila er byggt á því að krafa varnaraðila á grundvelli dómssáttar frá 22. mars 1991 hafi verið fyrnd er fjárnámið 20. apríl 2001 fór fram samkvæmt 1. mgr. 4. gr. laga nr. 14/1905, sbr. 1. gr. sömu laga. Er sáttin var gerð hafi krafa Jóns Árnasonar verið gjaldfallin. Fyrningarfrestur hafi því byrjað að líða frá því að sáttin var gerð án tillits til aðfararfrests. Í lögum nr. 14/1905 gildi að öllu leyti sömu reglur um kröfur samkvæmt dómi annars vega og kröfur samkvæmt dómssátt hins vegar, sbr. 6. gr. laganna. Greiðsludagar, sem tilgreindir eru í dómssáttinni, séu ekki gjalddagar kröfunnar í skilningi laga nr. 14/1905. Með ákvörðun um tiltekna greiðsludaga, svo sem sátt var um eftir að krafan var gjaldkræf, hafi samkomulag orðið með aðilum, að ekki yrði gert fjárnám á grundvelli sáttarinnar, ef greiðslur bærust í samræmi við efni hennar.
Af hálfu varnaraðila er byggt á því að fyrningarfrestur kröfu sé frá þeim degi er krafan varð gjaldkræf, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga n. 14/1905. Samkomulag hafi verið gert um að sóknaraðili greiddi gagnaðila sínum 600.000 krónur á einu ári með sex gjalddögum, fyrsta gjalddaga 22. maí 1991. Krafa varnaraðila samkvæmt sáttinni hefði því fyrst orðið gjaldkræf 22. maí 1991. Ótækt sé að jafna saman fyrningarfresti á dómkröfu frá dómsuppsögu, sem sé án tillits til aðfararfrests, við kröfu samkvæmt réttarsátt, þar sem samið er um gjalddaga. Vísað er til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 90/1989 þar sem segir: „Aðför má gera eftir réttarsátt eða sátt, gerðri fyrir yfirvaldi, þegar krafa samkvæmt henni er komin í gjalddaga. Ef enginn gjalddagi er tiltekinn í sátt, má gera aðför samkvæmt henni að liðnum fimmtán dögum frá gerð hennar."
Niðurstaða: Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 14/1905 segir að fyrningarfrestur teljist frá þeim degi, er krafa varð gjaldkræf. Þá segir að gjalddagi á verslunarskuldum teljist 31. desember ár hvert fyrir þá skuld, sem stofnuð er á árinu, nema samið sé um annan gjalddaga. Og að lokum segir að fyrningarfrestur á dómkröfum teljist frá dómsuppsögu án tillits til fjárnámsfrests.
Samkvæmt réttarsáttinni var skuld sóknaraðila öll í gjalddaga fallin er fyrsta greiðsla, sem inna átti af hendi 22. maí 1991, var ekki greidd. Verður að telja að fyrningarfrestur kröfunnar hafi þá fyrst byrjað að líða enda var skuld, sem byggð var á réttarsáttinni, þá fyrst gjaldkræf - hver svo sem aðdragandi réttarsáttarinnar var. Um dómsuppsögu var ekki að ræða, heldur réttarsátt, sem var frjáls ákvörðun þeirra, sem gengu að sáttinni.
Hafna verður því kröfum sóknaraðila samkvæmt framansögðu og staðfesta verður ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að fram skuli fara nauðungarsala á fasteign sóknaraðila, 2. hæð til hægri í húsinu nr. 22 að Logafold í Reykjavík.
Rétt er að sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur á málflutningsþóknun.
Páll Þorsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hafnað er kröfum sóknaraðila, Halldóru Ingibergsdóttur.
Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að fram fari nauðungarsala á fasteign sóknaraðila, 2. hæð til hægri í húsinu nr. 22 að Logafold í Reykjavík.
Sóknaraðili greiði varnaraðila, Leifi Árnasyni, 150.000 krónur í málskostnað.