Hæstiréttur íslands
Mál nr. 282/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður staðfestur
|
|
Fimmtudaginn 1. júní 2006. |
|
Nr. 282/2006. |
Radíó Reykjavík ehf. (Valgeir Kristinsson hrl.) gegn STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður staðfestur.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um frávísun málsins þar sem krafa R þótti ódómtæk, eins og hún var fram sett, og ekki í samræmi við ákvæði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut máli þessu til Hæstaréttar með kæru 18. maí 2006, sem barst réttinum 24. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2006 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að frávísunarúrskurðinum verði hrundið og málinu vísað til héraðsdóms til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði staðfestur og sóknaraðila gert að greiða honum kærumálskostnað.
Staðfest er sú niðurstaða héraðsdóms að dómkrafa sóknaraðila, eins og hún er fram sett í héraði, sé ódómtæk og ekki í samræmi við ákvæði d. liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Verður málinu vísað frá héraðsdómi þegar af þessari ástæðu.
Samkvæmt þessari niðurstöðu ber sóknaraðila að greiða kærumálskostnað, svo sem nánar er ákveðið í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Radíó Reykjavík ehf., greiði varnaraðila, STEF Sambandi tónskalda og eigenda flutningsréttar, 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 5. maí 2006.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 27. apríl sl. um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Radíó Reykjavík ehf., [kt.], Fákafeni 11, Reykjavík, á hendur STEF, Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, [kt.], Laufásvegi 40, Reykjavík, með stefnu birtri 7. mars 2005.
Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði skyldaður með dómi til að undirrita og efna formlegan samning við stefnanda um heimild til stefnanda án sérstaks leyfis hverju sinni, til að flytja í hljóðvarpi og á heimasíðu sinni tónverk, sem verndar njóta samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972 vegna höfundarréttar tónskálda og eigenda flutningsréttar allra þeirra sem stefnandi hefur umboð fyrir, á útvarpsstöð sinni Radíó Reykjavík FM 104,5 og á heimasíðu sinni www.radioreykjavik.com allt í samræmi við gjaldskrá stefnanda hverju sinni og miðast við eina útvarpsrás sem nái aðeins til sunnanverðs Faxaflóa.
Meðal samningsákvæða verði:
1. Að samningur miðist við 19. febrúar 2005 að telja, að stefnandi greiði stefnda í þóknun fyrir flutning efnis sem samningurinn nær til 5% af heildartekjum fyrirtækisins vegna rekstrar hljóðvarpsstöðvar að frádregnum virðisaukaskatti, lögbundnu framlagi í Menningarsjóð útvarpsstöðva samkvæmt útvarpslögum nr. 68/1985. Árleg greiðsla til stefnda skal þó aldrei vera lægri en fjárhæð kr. 2.820.729 eða kr. 235.060 á mánuði og skuli verða verðtryggð og fjárhæðin breytist á 6 mánaða fresti í samræmi við þær breytingar á neysluvísitölu fyrir desember og júní mánuð ár hvert næst í júní mánuð 2005 og gildir frá 1. júlí 2005.
2. Lágmarksfjárhæð þóknunar greiðist mánaðarlega fyrirfram með gjalddaga 1. hvers mánaðar.
3. Þegar ársreikningar samningshafa fyrir undangengið ár liggja fyrir þó ekki síðar en 1. júlí ár hvert skal greiddur mismunur á útreiknaðri fjárhæð samanber ákvæðið um 5% af heildarveltu ef um það er að ræða.
4. Flutningsheimild samningshafa feli ekki í sér rétt útvarpsnotenda til flutnings tónverka í atvinnuskyni úr útvarpstækjum.
5. Samningshafi láti stefnda í té skýrslur um alla tónlist sem flutt er í hljóðvarpi og heimasíðu sinni með tilgreiningu á nafni tónverks, höfundar, útsetjara, útgefanda, tegund og tímalengd verks eftir nánara samkomulagi við stefnda.
6. Samningur falli niður ef Ísland gengur úr Bernarsambandinu og Universal Convention Menningarstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNESCO).
7. Samningur aðila gildi til 31.12.2005 og framlengist um eitt ár í senn nema honum hafi verið sagt upp með þriggja mánaða fyrirvara við lok samningstímabilsins af öðrum hvorum aðila.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.
Stefndi krefst þess aðallega að kröfum stefnanda verði vísað frá dómi, en til vara að stefndi verði sýknaður af dómkröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins.
Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefnda verði hrundið og stefnanda verði dæmdur hæfilegur málskostnaður úr hendi stefnda í þeim þætti málsins.
Málsatvik
Forsögu máls þessa má rekja til útvarpsrekstrar Radíó Reykjavík - Netradíó ehf., kt. 660802-2660, sem rak hljóðvarpsstöðina Radíó Reykjavík (FM 104,5) og flutti á hljóðvarpsstöð sinni og heimasíðunni www.radioreykiavik.is, tónverk sem nutu verndar samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972.
Hlutafélag þetta hafði upphaflega heimild til tónflutnings af hálfu stefnda á grundvelli samnings frá 8. nóvember 2002. Vegna verulegra vanefnda félagsins á samningnum var honum rift af hálfu stefnda með bréfi, dags. 7. maí 2003.
Með bréfi, dags. 20. desember 2004, fór stefndi þess á leit við sýslumanninn í Reykjavík að lögbann yrði lagt við því að Radíó Reykjavík - Netradíó ehf. flytti eða léti flytja tónverk, sem verndar nytu samkvæmt höfundalögum, á hljóðvarpsstöðinni Radíó Reykjavík (FM 104,5) og af heimasíðunni www.radiorevkjavik.is. Hinn 7. janúar 2005 lagði sýslumaðurinn í Reykjavík lögbann við því að tónlist yrði flutt á hljóðvarpsstöð og af heimasíðu félagsins. Hinn 13. janúar 2005 var gefin út réttarstefna á hendur Radíó Reykjavík - Netradíó ehf. og var staðfestingarmál vegna fyrrnefnds lögbanns þingfest 8. febrúar 2005. Dómur í því máli var uppkveðinn hinn 17. mars 2005 og var lögbann sýslumannsins í Reykjavík staðfest.
Með kaupsamningi 5. desember 2004 keypti Jón Hlíðar Runólfsson öll tæki og tól útvarpsstöðvarinnar Radíó Reykjavík - Netradíó ehf. ásamt nafni og heimasíðu. Félagið sjálft fylgdi ekki með í kaupunum og bar seljanda að breyta nafni félagsins sem var breytt í F.E.T.S. ehf. Nýtt félag, Radíó Reykjavík ehf., kt. 660105-0730, var stofnað í janúar 2005 og er það stefnandi máls þessa. Nýja félagið fékk úthlutað útvarpsleyfi frá Útvarpsréttarnefnd 18. febrúar 2005, og fékk úthlutað útsendingartíðninni 104,5 frá Póst- og fjarskiptastofnun 17. febrúar 2005. Útvarpsleyfið gildir í 3 ár frá 18. febrúar 2005 til 18. febrúar 2008. Að fengnum þessum leyfum fór félagið þess á leit við stefnda að fá samning um flutning á tónlistarefni til að útvarpa á útvarpsstöðinni og á netinu á heimasíðunni www.radiorevkjavik.is. Jafnframt var stefnda tilkynnt um að fyrirhugað væri að hefja útsendingar 19. febrúar 2005.
Með bréfi stefnda, dags. 18. febrúar 2005, var því hafnað að slíkur samningur yrði gerður, m.a. með þeim rökum að augljóst væri að hið nýstofnaða félag hygðist notfæra sér viðskiptavild fyrri rekstraraðila, F.E.T.S. ehf., með því að nota heiti hans og hljóðvarpsstöðvarinnar, en sú viðskiptavild hefði m.a. orðið til með flutningi á tónlist sem ekki hefði verið greitt fyrir.
Hljóðvarpsútsendingar stefnanda hófust hinn 19. febrúar sl. en takmörkuðust í upphafi eingöngu við flutning tónverka af heimasíðunni www.radioreykjavik.is. Á þeim tíma var einkahlutafélagið Radíó Reykjavík - Netradíó ehf. (en þá undir nafninu F.E.T.S. ehf.) enn skráð fyrir netfanginu www.radioreykiavik.is. Með bréfi lögmanns stefnda, dags. 19. febrúar 2005, til sýslumannsins í Reykjavík, var þess krafist að lögbanni því sem lagt var á hinn 7. janúar 2005 yrði framfylgt af hálfu sýslumanns. Stuttu síðar hófst flutningur stefnanda í hljóðvarpi á senditíðninni FM 104,5.
Með bréfi, dags. 24. febrúar 2005, kvartaði stefnandi við Samkeppnisstofnun yfir afstöðu stefnda og taldi hana brjóta gegn samkeppnislögum nr. 8/1993.
Hinn 28. febrúar 2005 fór stefndi þess á leit við sýslumanninn í Reykjavík að lögbann yrði lagt við því að stefndi flytti eða léti flytja tónverk, sem verndar nytu samkvæmt höfundalögum, á hljóðvarpsstöðinni Radíó Reykjavík (FM 104,5) og af heimasíðunni www.radioreykiavik.is. Hinn 8. mars 2005 lagði sýslumaðurinn í Reykjavík á lögbann við því að tónlist yrði flutt á hljóðvarpsstöð og af heimasíðu félagsins. Hinn 5. apríl 2005 var þingfest mál í Héraðsdómi Reykjavíkur og þess krafist að lögbannið yrði staðfest. Tekið var til varna af hálfu stefnda og er það mál nú til meðferðar fyrir dóminum.
Hinn 8. apríl 2005 ritaði stefndi bréf til Samkeppnisstofnunar þar sem þeim málatilbúnaði, sem fram var settur í bréfi stefnanda 24. febrúar 2005, var mótmælt efnislega.
Hinn 20. maí 2005 var gert árangurslaust fjárnám hjá F.E.T.S. ehf. Með bréfi, dags. 1. júní 2005, krafðist stefndi þess að bú F.E.T.S. ehf. (áður Radíó Reykjavík-Netradíó ehf.) yrði tekið til gjaldþrotaskipta.
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi ekki virt hann viðlits og hafnað því að undirrita nokkra samninga nema gegn því að stefnandi greiði stefgjöld sem félagið F.E.T.S. ehf. skuldi stefnda. Sú skuld nemi um 1.200.000 kr. Stefnandi telur að stefndi beiti með þessum aðferðum stefnanda fjárkúgun og óeðlilegri misneytingu í viðskiptum á sviði þar sem stefndi hafi einkarétt og einokunaraðstöðu og vill stefnandi ekki una þessari meðferð. Stefnandi hafi kært vinnubrögð og lagabrot stefnda til Samkeppnisstofnunar 24. febrúar 2005 og telur að stefndi hafi brotið gegn ákvæðum samkeppnislaga nr. 8/1993.
Stefndi hafi gert kröfu til þess að stefnandi greiði skuld annars lögaðila, F.E.T.S. ehf. kt. 680802-2660, sem notað hafi sama kallmerki og stefnandi og sömu útsendingartíðni. Þeim kröfum hafnar stefnandi og telur þær vera ólögmæta þvingun í viðskiptum og því ólöglegar. Stefnandi hafi fengið opinber leyfi sem þurfi til útvarpsrekstrar og keypt kallmerki aðila sem áður hafi notað það í atvinnurekstri. Þá hafi stefnandi gert leigusamning við húseigandann að Fákafeni 11.
Stefnandi byggir á því að stefndi hafi neitað ítrekaðri beiðni stefnanda um að gerður verði samningur milli aðila með tíðkanlegum hætti um nýtingu og greiðslur fyrir höfundarrétt vegna reksturs útvarpsstöðvar í Reykjavík með dægurtónlist. Af hálfu stefnda væri samningsgerð bundin þeim skilyrðum að gerð verði skil á skuldum samnefndrar útvarpsstöðvar og að því tilskildu að settar verði viðhlítandi tryggingar fyrir samningsefndum.
Stefnandi hóf útvarpsútsendingar 19. febrúar 2005 og sendi stefnda peningagreiðslu fyrir þóknun miðað við gjaldskrá stefnda fyrir 11 daga í febrúar 2005.
Vegna hinna annarlegu sjónarmiða stefnda um forsendur þess að gera samning við stefnanda um afnot af tónlistarefni sem sent sé út vegum félagsins sé stefnanda nauðsynlegt að höfða einkamál til viðurkenningar á stefnukröfum.
Stefnukrafa styðjist efnislega við þrjá samninga sem stefndi hafi undirritað við félög í sambærilegum atvinnurekstri, sem eru Útvarp Ísland ehf., Radíó Reykjavík- Netradíó ehf. og Íslenska fjölmiðlafélagið ehf. Stefnandi telur sig eiga rétt til sambærilegra kjara en undanskilur ákvæði um ábyrgðartryggingar fyrir greiðslu afnotagjalds og greiðslufyrirkomulag um allt að tveggja mánaða fyrirframgreiðslu.
Stefndi sé félag tónskálda og rétthafa flutningsréttar á tónlist samkvæmt samningum milli félagsins við einstaka rétthafa og byggi tilveru sína á höfundalögum nr. 73/1972 og samkvæmt 1. og 3. gr. þeirra laga hafi tónskáld og textahöfundar einkarétt til þess að leyfa flutning á verkum sínum opinberlega, þar á meðal í útvarpi og á veraldarvefnum. Þennan rétt eigi innlendir og erlendir rétthafar á grundvelli Bernarsáttmálans um vernd bókmennta og listaverka frá 9. september 1886 sem Ísland sé aðili að, sbr. lög nr. 80/1972. Menntamálaráðuneytið hafi veitt stefnda löggildingu til að innheimta gjöld fyrir flutning á tónverkum almennt til þeirra tónskálda og textahöfunda sem stefndi hafi umboð frá á þessu sviði.
Stefnandi gerir kröfur um að fá samning um tónlistarflutning sem sambærilegur sé við það sem aðrar sambærilegar útvarpsstöðvar hafi gert við stefnda. Stefnandi hafi lagt fram þrjá samninga til að sýna kjör annarra.
Útreikningar stefnanda samkvæmt framlögðum samningum sýni að gildandi árgjald nú sé miðað við vístölu desember 2004 og gildi fyrir janúar til júní 2005 kr. 2.641.692 x 2379 / 2228 kr. 2.820.729 og 1/12, sem sé mánaðargjald þessa tímabils, kr. 235.061.
Stefnandi vísar til framlagðra bréfa frá stefnda um viðurkenningu á rétti stefnanda til samninga um flutning á tónlistarefni og telur að þar komi fram skuldbinding um að gera beri samning við stefnanda um útvarpsflutning á tónlistarefni.
Hinir íþyngjandi og ólögmætu skilmálar sem stefndi setji jafnframt fyrir gerð samnings
valdi því að stefnandi leiti til dómstóla til að fá úr því skorið hvort stefndi megi setja þá skilmála í slíkan samning sem stefnandi fellst ekki á og séu um greiðslu á skuld annars lögaðila en einnig um ábyrgðartryggingar fyrir greiðslu mánaðarlegs iðgjalds og í þriðja lagi krafa um fyrirframgreiðslu mánaðargjalds með gjalddaga 1. hvers mánaðar.
Mál þetta sé höfðað á grundvelli almennra samningalaga um stofnun samninga og einnig með hliðsjón af III. kafla laganna um ógildi þvingana sem beitt sé við samningsgerð. Þá sé vísað til samkeppnislaga nr. 8/1993, einkum 10. og 11. gr. Vísað er til höfundalaga nr. 73/1972. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við l. mgr. 130. gr. sbr. 129 gr., einkum l. tl. e, laga nr. 91/1991.
Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu
Aðalkrafa stefnda um frávísun byggist m.a. á þeirri málsástæðu að málatilbúnaður stefnanda sé þess eðlis að vísa beri máli þessu frá dómi, sbr. d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Málatilbúnaður stefnanda sé haldinn verulegum annmörkum. Í stefnu sé gerð krafa sem feli það m.a. í sér að stefndi verði skyldaður með dómi til að undirrita og efna formlega samning við stefnanda um heimild til stefnanda án sérstaks leyfis hverju sinni.
Í d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála sé mælt fyrir um að dómkrafa geti falið í sér „...viðurkenningu á tilteknum réttindum, ákvörðun á eða lausn undan tiltekinni skyldu...“. Samkvæmt framansögðu rúmist það ekki innan efnis fyrrnefnds d-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að stefndi verði skyldaður með dómi til að „...undirrita og efna formlegan samning...“, enda geti dómstólar ekki dæmt tiltekna aðila til að ganga til samninga með þessum hætti. Ofangreind krafa sé því ódómtæk og í raun óaðfararhæf.
Auk þessa er bent á að dómstóll geti í raun ekki komið á samningi með dómi, eins og gert sé ráð fyrir í stefnu, heldur sé einungis unnt í dómi að krefjast viðurkenningar á rétti stefnanda til að fá samning við stefnda eða skyldu stefnda til að gera samning við stefnanda. Að teknu tilliti til þessa sé dómkrafa stefnanda ódómtæk og óaðfararhæf.
Þá verði ekki hjá því komist að benda á að ósamræmi sé á milli dómkrafna og málsástæðna varðandi eðli dómkröfunnar. Þannig sé hvergi tekið fram í dómkröfum að krafist sé viðurkenningar á skyldu stefnda til samningsgerðar við stefnanda, heldur eingöngu minnst á skyldu stefnda til að undirrita og efna tiltekinn samning. Þrátt fyrir að krafa stefnanda sé ekki viðurkenningarkrafa þá gangi málsástæður stefnanda út frá því að svo sé. Þannig segir á blaðsíðu 2 í stefnu í kafla er nefnist „Málavextir, málsástæður og önnur atvik”, að nauðsynlegt hafi verið að höfða einkamál til „...viðurkenningar á stefnukröfum”. Á blaðsíðu 4 í sama kafla segist stefnandi vísa til framlagðra bréfa stefnanda „...um viðurkenningu á rétti stefnanda til samninga um flutning á tónlistarefni...”.
Auk framangreinds er á því byggt að sakarefni, eins og það er afmarkað í stefnu, eigi ekki undir lögsögu íslenskra dómstóla. Í stefnu sé þess krafist að ofangreindur samningur taki til flutnings tónverka á útvarpsstöð stefnanda, Radíó Reykjavík FM 104,5, og á heimasíðu stefnanda www.radioreykiavik.com. Í þessu sambandi beri að geta þess að engin heimasíða sé til staðar á þessu netfangi, og því ekki unnt að láta samning aðila taka til þeirrar heimasíðu. Jafnvel þótt slík heimasíða væri til og rekin af hálfu stefnanda þá myndi slík heimasíða ekki falla undir lögsögu íslenskra dómstóla þar sem öll netföng á veraldarvefnum sem hafi að geyma endinguna ,,.com” séu netföng sem haldið sé gangandi af tölvum staðsettum í Bandaríkjunum. Stefndi gæti hagsmuna tónskálda og eigenda flutningsréttar á Íslandi og geti því ekki gert samning við stefnanda um leyfi til flutnings tónlistar í Bandaríkjunum. Með vísan til framangreinds geti íslenskur dómstóll ekki skyldað stefnda eða viðurkennt rétt stefnanda til að gera samning við stefnda um flutning tónlistar í Bandaríkjunum. Af þeim sökum beri að vísa máli þessu frá dómi, sbr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Af ofangreindu leiðir að dómkrafa stefnanda sé ódómtæk og beri, með vísan til alls framangreinds, að vísa máli þessu frá dómi, sbr. 24. gr. og d-lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Niðurstaða
Dómkröfur stefnanda í máli þessu eru þær að stefndi verði skyldaður með dómi til að undirrita og efna formlegan samning við stefnanda um heimild til stefnanda án sérstaks leyfis hverju sinni, til að flytja í hljóðvarpi og á heimasíðu sinni tónverk, sem verndar njóta samkvæmt höfundalögum nr. 73/1972. Þá gerir stefnandi kröfu til þess að dæmt verði að tiltekin ákvæði, sem upp eru talin í 7 töluliðum, skuli vera í samningi aðila.
Fallist er á það með stefnda að dómkrafa stefnanda, eins og hún er sett fram, sé ekki í samræmi við ákvæði d-liðar 80. gr. laga nr. 91/1991. Ekki er hægt að skylda stefnda til að efna samning sem ekki hefur verið gerður. Þá verður stefndi ekki skyldaður með dómi til að gera samning við stefnanda á grunvelli samningsákvæða sem stefnandi setur einhliða fram. Það stríðir gegn meginreglunni um samningsfrelsi aðila og venjulegum viðskiptaháttum. Krafa stefnanda er því ódómtæk. Þá er ekki samræmi á milli dómkrafna og þeirra málsástæðna sem byggt er á. Er málsástæðum stefnanda að hluta lýst þannig í stefnu, eins og um viðurkenningarkröfu sé að ræða, þótt kröfugerð stefnanda sé ekki þannig háttað. Dómkrafa stefnanda brýtur þannig einnig í bága við e-lið 80. gr. laga nr. 91/1991.
Í málflutningi hefur stefnandi leiðrétt tilgreiningu sína í dómkröfu á netfangi heimasíðu sinnar, sem á að vera www.radioreykjavik.is Eru því ekki efni til að fjalla um þá málsástæðu stefnda varðandi frávísun sem að heimasíðunni lýtur.
Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 er máli þessu vísað frá dómi.
Stefnandi skal greiða stefnda málskostnað sem ákveðst 100.000 krónur.
Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Radíó Reykjavík ehf., greiði stefnda, STEF Sambandi tónskálda og eigenda flutningsréttar, 100.000 krónur í málskostnað.