Hæstiréttur íslands
Mál nr. 253/2007
Lykilorð
- Ölvunarakstur
- Sönnun
|
|
Fimmtudaginn 22. nóvember 2007. |
|
Nr. 253/2007. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson, ríkissaksóknari) gegn X (Óskar Sigurðsson hrl.) |
Ölvunarakstur. Sönnun.
X var gefið að sök að hafa ekið bifreið undir áhrifum áfengis á bifreiðarstæði við Frakkastíg í Reykjavík. Hann neitaði að hafa ekið bifreiðinni og kvaðst aðeins hafa ætlað að sofa þar og spara sér hótelkostnað. Vitni báru að þau hefðu séð bifreiðina hreyfast úr stað þar sem henni var lagt í bifreiðastæði. Þegar lögreglan kom að var hún ekki í gangi en kveikt á útvarpi og vél og púströr var heitt. Þá báru lögreglumennirnir að X hefði verið sofandi þegar þá bar að garði. Í dómi Hæstaréttar var vísað til þess að þrátt fyrir neitun X hefði ekki verið rannsakað hvort mögulegt hefði verið að bifreiðin hefði hreyfst án þess að henni hefði verið ekið. Hefði X ekki verið við akstur þegar lögreglumennirnir komu að og hefðu vitni ekki getað borið um af hvaða orsökum bifreiðin hreyfðist. Þótti því ósannað að bifreiðin hefði verið í gangi þegar hún færðist úr stað og því ekki komin fram nægileg sönnun fyrir því að K hefði gerst sekur um þá háttsemi sem greindi í ákæru. Hann var því sýknaður.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 30. apríl 2007 í samræmi við yfirlýsingu ákærða og að fengnu áfrýjunarleyfi Hæstaréttar, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst staðfestingar á niðurstöðu héraðsdóms um sakfellingu og viðurlög.
Ákærði krefst aðallega sýknu, en til vara vægustu refsingar.
Ákærða er gefið að sök að hafa ekið bifreið á bifreiðastæði við Frakkastíg í Reykjavík að morgni 20. ágúst 2006. Er málsatvikum lýst í hinum áfrýjaða dómi. Með vætti þriggja stúlkna er sannað að ákærði var sofandi í ökumannssæti bifreiðarinnar þegar þær komu á bifreiðastæðið. Þær töldu vél bifreiðarinnar þá hafa verið í gangi. Tilkynntu þær lögreglu um bifreiðina. Stúlkurnar báru fyrir dómi að bifreiðin hefði verið alveg inni í stöðureit og að þær hafi séð hana hreyfast lítið eitt áfram. Verður helst ráðið að þær hafi séð þetta í þann mund að ein þeirra var að tala við lögregluna í síma. Samkvæmt vætti tveggja lögregluþjóna var ákærði sofandi í ökumannssæti og var vakinn þegar lögregla kom á vettvang. Bifreiðin var þá ekki í gangi, en kveikt var á útvarpi og vél og púströr voru heit. Af ljósmynd sem lögregla tók sést að bifreiðin stendur framarlega í stöðureitnum og getur sú staða samrýmst því að bifreiðin hafi færst lítið eitt áfram eins og vitnin báru. Ákærði, sem er búsettur úti á landi, neitaði strax að hafa ekið eða hafa haft í hyggju að aka bifreiðinni og kvaðst aðeins hafa ætlað að sofa þar og spara sér þannig hótelkostnað. Þrátt fyrir neitun ákærða rannsakaði lögregla ekki hvort mögulegt væri að bifreiðin hefði hreyfst án þess að vera ekið. Ekkert liggur fyrir í málinu um hversu mikill halli er á bifreiðastæðinu þar sem bifreiðin var, ekkert var skráð um það hvort bifreiðin var í gír og handbremsu, hvort ljós voru kveikt og hvernig staða ökumannssætis var. Ljóst er að þegar lögregla kom á vettvang var ákærði ekki við akstur og vitnin gátu ekki borið um af hvaða orsökum bifreiðin hreyfðist. Ósannað er að bifreiðin hafi verið í gangi þegar hún færðist úr stað. Sönnunarbyrði um atvik sem eru sakborningi í óhag hvílir á ákæruvaldinu, sbr. 45. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Með vísan til 46. gr. sömu laga telst ekki fram komin nægileg sönnun fyrir því að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem greinir í ákæru. Verður hann því sýknaður.
Samkvæmt 1. mgr. 169. gr. laga nr. 19/1991 verður allur sakarkostnaður málsins í héraði og áfrýjunarkostnaður lagður á ríkissjóð, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn saka.
Allur sakarkostnaður í héraði og áfrýjunarkostnaður málsins samtals 567.153 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða í héraði og fyrir Hæstarétti, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns, samtals 498.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 22. janúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var 8. janúar 2007, er höfðað með ákæru, útgefinni af lögreglustjóranum í Reykjavík, 27. nóvember sl., á hendur X, [kt. og heimilisfang], fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreiðinni Y, með einkamerkinu Z, að morgni sunnudagsins 20. ágúst 2006, undir áhrifum áfengis (vínandamagn í blóði 1,25) um bifreiðastæði við Frakkastíg í Reykjavík.
Telst þetta varða við 1. mgr., sbr. 3. mgr. 45. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. og 102. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44/1993 og 18. gr. laga nr. 66/2006.
Verjandi ákærða krefst sýknu. Þá er þess krafist að þóknun verjanda og sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði.
I.
Að morgni sunnudagsins 20. ágúst 2006, kl. 7:16, barst lögreglunni tilkynning um mjög ölvaðan mann á bifreiðastæði við Iðnskólann, sem gerði sig líklegan til að aka af stað í bifreið sinni. Fram kom að skráningarnúmer bifreiðarinnar væri „[Z]“. Í frumskýrslu lögreglu segir að þegar á vettvang hafi verið komið hafi mátt sjá karlmann í ökumannssæti bifreiðarinnar. Slökkt hafi verið á vél hennar en vélarhlíf og púströr verið heitt. Enn fremur hafi mátt sjá að rúður bifreiðarinnar voru móðulausar ólíkt öðrum kyrrstæðum bifreiðum í grenndinni. Þá hafi kveikjuláslyklar bifreiðarinnar verið í „svissinum“ og útvarpið í gangi. Ökumaður bifreiðarinnar, ákærði í máli þessu, hefði rankað við sér þegar lögreglan bankaði á rúðuna á bifreiðinni. Á vettvangi hefði hann neitað að gangast undir öndunarpróf og sagt óþarft að blása því hann væri „fullur“.
Á vettvangi hittist fyrir tilkynnandinn, A, en með henni voru B og C. Kvað A þær hafa tekið eftir að maður hefði sofið undir stýri í umræddri bifreið með skráningarnúmerið Z. Hefði bifreiðin verið í gangi. Kvaðst hún hafa séð ökumanninn aka bifreiðinni aðeins áfram en sofnað aftur undir stýri.
Ákærði var handtekinn og færður á lögreglustöðina að Hverfisgötu. Hann var mjög ósáttur við handtökuna og kvaðst aldrei hafa ætlað að aka bifreiðinni af stað. Í lögregluskýrslu, sem tekin var af ákærða að morgni 20. ágúst sl., kemur fram að ákærði hafi aðeins ætlað að ylja sér og því sett bifreiðina í gang í smástund, en hafi verið búinn að slökkva á bifreiðinni og verið sofandi er lögregla kom. Ákærði neitaði að rita undir skýrsluna.
Ákærði blés í S-D2 öndunarprófsmæli á lögreglustöðinni kl. 7:59 og sýndi hann 1,29. Tvö blóðsýni voru tekin úr ákærða, fyrst kl. 8:30 og síðan kl. 9:30, auk þvagsýnis. Samkvæmt niðurstöðu alkóhólrannsóknar mældist áfengismagn í blóði ákærða, samkvæmt fyrra sýninu, 1,25, en seinna sýninu 1,02. Alkóhól í þvagsýni mældist 1,82.
Ákærði var yfirheyrður hjá lögreglu vegna málsins hinn 31. október sl. Neitaði hann því að hafa ekið bifreiðinni undir áhrifum áfengis umrætt sinn. Hann kvaðst hafa farið í bifreið sína, sest í ökumannssætið, lagt bak þess eins mikið niður og hægt var og sofnað. Aðspurður neitaði hann því alfarið að hafa gangsett bifreiðina. Hafi bifreiðin hreyfst hljóti hann að hafa stigið á kúplinguna í svefni.
II.
Verður nú rakinn framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá að hann hefði farið með syni sínum á menningarnótt í Reykjavík. Til hafi staðið að fara heim um miðnætti en sonur hans þá ekki viljað fara heim. Þeir hefðu því í sameiningu ákveðið að vera áfram í Reykjavík til sunnudags og gista hjá frændfólki. Kvaðst ákærði hafa hringt í son sinn undir morgun og hvatt hann til að fara í bifreiðina og leggja sig þar því ekki tæki því að gista á hótelherbergi þar sem komið væri fram undir morgun. Ákærði kvaðst hafa viljað spara gistikostnað. Hann hefði skilið eftir lykil í bifreiðinni svo sonur hans kæmist inn í hana ef þeir kæmu ekki saman í hana á réttum tíma. Sonur hans hefði þá sagst ætla heim með vini sínum. Hefði verið ákveðið að ákærði myndi sækja son sinn þangað um hádegið. Ákærði kvaðst hafa farið á dansleik og að því loknu farið í bifreið sína til að hvíla sig. Á leiðinni hefði hann hitt mann við blaðburð og fengið Fréttablaðið. Hann kvaðst hafa sest í ökumannssætið, hallað því aftur og litið í Fréttablaðið. Brátt hefði hann sofnað. Sagði hann að ekki hefði staðið til neitt ólögmætt. Ákærði kvaðst hafa fundið að sonur hans hefði komið í bifreiðina þar sem smáylur hafi verið í henni. Ákærði hefði hringt í son sinn eða sent honum smáskilaboð. Sonur hans hefði þá sagst hafa beðið í bifreiðinni í smástund þar til hann fór með félaga sínum. Seinna hefði lögreglan vakið ákærða og honum orðið hverft við. Auk þess hefði hann orðið reiður vegna þeirrar truflunar sem hann hefði orðið fyrir. Hann hefði greint lögreglunni frá því að hann hefði ekki ekið bifreiðinni og ætlaði ekki að aka henni. Hann hefði ætlað að hlýja sér og lagst svo til svefns. Ákærði kvaðst hafa farið strax í vörn þar sem fyrir lá að sonur hans fengi æfingaleyfi næstu vikurnar. Kvaðst ákærði vera mjög andvígur akstri undir áhrifum áfengis. Væri fráleitt að hann hafi ætlað að aka bifreiðinni enda hefði hann þá verið farinn fyrir löngu hefði slíkt staðið til. Aðspurður um skýringu á því að bifreiðin hafi færst til sagði ákærði útilokað að hún hafi gert það. Reyndar hefði hann sett útvarpið á, en hann hefði ekki keyrt bifreiðina, sett hana í gang eða fært hana. Ákærði kvaðst ekki hafa orðið var við að bifreiðin færðist til. Hann sagði vegna framburðar vitnis fyrir lögreglu, um að hann hefði legið fram á stýrið, að hann hafi ekki gert það. Þegar ákærði var inntur eftir því hvort snúa þurfi lyklinum til að kveikja á útvarpinu sagði hann að það þurfi að snúa honum „um einn“. Ákærði gat ekki gert grein fyrir því hvernig hann hafði lagt bifreiðinni. Þegar borið var undir ákærða misræmi í framburði hans fyrir dómi um að hafa aldrei ræst bifreiðina og því sem fram kom hjá lögreglu um að hann hefði gert slíkt, sagði ákærði að skýring þess væri sú að hann hefði ekki viljað blanda syni sínum í málið þar sem það gæti skaðað hann vegna æfingaleyfis. Aðspurður hvort hugsanlegt væri að ákærði hefði rekist í kúplingu bifreiðarinnar, sem var beinskipt, kvaðst hann ekki minnast slíks en gat ekki útilokað það. Þegar ákærði var inntur eftir framburði sínum hjá lögreglu, þess efnis að hafi bifreiðin hreyfst hljóti hann að hafa stigið á kúplinguna, sagði hann að þetta gæti verið eina skýringin á því að bifreiðin hafi eitthvað færst úr stað, en hann ræki ekki minni til þess.
Vitnið, A, greindi frá því að hún hefði farið ásamt tveimur öðrum stúlkum í bifreið sem var á bifreiðastæði við Iðnskólann í Reykjavík. Þar hefðu þær tekið eftir bifreið sem hafði verið bakkað inn í stæði. Bifreiðin hefði verið í gangi, vélarhljóð hefði heyrst, og maður hallað sér fram á stýrið. Þær hefðu farið í bifreið B sem stóð við næsta eða þarnæsta stæði og bakkað henni út úr stæðinu. Vitnið, sem sat í farþegasætinu ökumannsmegin, hefði hringt í lögregluna og sagt B að fara aðeins lengra svo ákærði myndi ekki aka á þær ef hann færi af stað. Þær hefðu beðið aðeins og lögreglumaður hringt í þær til að spyrja nánar um staðsetningu. Í sama mund hefði bifreið ákærða farið aðeins áfram og hún sagt við lögreglumanninn að hann væri að fara af stað og hann sagt að lögregla væri á leiðinni. Þegar vitnið hefði lagt á hafi bifreiðin stansað eftir að hafa færst fram úr stæðinu um 1-2 metra og svo hefði drepist á bifreiðinni. Vitnið taldi að bifreiðin hafi ekki verið í gangi þegar lögreglan kom á vettvang. Aðspurð, hvort vélarhljóð hefði heyrst í bifreið ákærða er hún færðist til eða hvort hún hefði runnið, gat vitnið ekki sagt til um það þar sem hún hefði setið inni í bifreið B. Um það hvernig bifreið ákærða hefði verið bakkað í stæðið, er þær komu fyrst að henni, sagði vitnið að hún hefði verið vel inni í stæðinu. Um staðsetningu bifreiðar B, er bifreið ákærða fór af stað, sagði hún að þær hefðu verið tveimur stæðum til hliðar þannig að ein bifreið hefði verið á milli þeirra. Vitnið kvaðst hafa séð framenda bifreiðarinnar koma fram. Aðspurð í hvaða stöðu ökumannssætið var í bifreið ákærða, hvort það hefði hallað fram eða aftur, minnti vitnið að það hefði verið í venjulegri stöðu. Vitnið kvaðst hafa verið undir nokkrum áhrifum áfengis.
Vitnið, B, skýrði svo frá að hún hafi verið að koma frá vinnu á veitingastað um menningarnótt. Hún hefði lagt bifreið kærasta síns á bifreiðastæði við Iðnskólann í Reykjavík. Þar hafi hún séð bifreið sem var bakkað inn í stæði og mann sofandi undir stýri. Kveikt hefði verið á bifreiðinni og ljósin á. Vitnið minnti að útvarpið hefði verið í gangi. Sagði vitnið að þeim hefði ekki litist á þetta og því hringt á lögreglu. Þegar þær hefðu verið að tala við lögregluna hafi bifreiðin farið af stað og þær sagt lögreglunni að maðurinn væri að aka af stað. Lögreglan hefði sagt að hún væri á leiðinni. Eftir að bifreiðin hefði keyrt smá hefði hún stöðvast. Bifreiðin hefði ekki farið langt út úr stæðinu, eða um einn metra. Aðspurð hvort vélarhljóð hefði heyrst í bifreiðinni er hún fór af stað, eins og bifreiðinni hefði verið gefið inn, kvaðst vitnið ekki hafa heyrt það þar sem hún sat inni í bifreið. Fram kom að er þær komu á bifreiðastæðið hafi ein bifreið verið á milli bifreiðar ákærða og bifreiðarinnar sem vitnið var á. Vitnið hefði síðan fært bifreið sína í bifreiðastæði hinum megin til hliðar við bifreið ákærða og ein bifreið verið á milli þeirra. Þær hefðu séð bifreið ákærða færast til eftir að þær skiptu um stæði. Sagði vitnið að búið hafi verið að drepa á bifreið ákærða þegar lögregla kom á vettvang. Aðspurð hvort ökumannssætið í bifreið ákærða hafi hallað aftur sagði vitnið að það hefði ekki verið afturhallandi.
Vitnið, C, kvaðst hafa farið að bifreið stúlku, sem ætlaði að keyra hana heim, og hafði verið lagt á bifreiðastæði við Iðnskólann. Þar hefði vitnið séð mann með höfuð á stýrinu líkt og hann væri sofandi. Svo hefðu þær séð að hann var að fara að leggja af stað og þær hringt á lögreglu. Þegar vitnið var nánar innt eftir atvikum sagði hún að bifreiðin hefði verið kyrrstæð og minnti að bifreiðin hefði verið í gangi. Maðurinn hefði reist sig upp og bifreiðin hreyfst um einn metra, eða þrjú skref. Vitnið minnti að ákærði hefði séð þær. Svo hefði lögreglan komið. Gat vitnið ekki sagt til um hvort bifreið ákærða var í gangi er lögregla kom á vettvang eða hvort bifreiðinni hefði verið gefið inn er hún hreyfðist eða hvort hún hefði runnið. Vitnið sagði að ljós hefðu verið á bifreiðinni er hún fór af stað. Fram kom að þær hefðu fært bifreiðina sem þær voru á um nokkur stæði þannig að ein bifreið var á milli þeirra. Sagði vitnið að bifreið ákærða hefði hreyfst áður en þær færðu sig milli stæða. Þegar vitninu var bent á að sú frásögn væri ekki í samræmi við frásögn annarra vitna, um að bifreiðin hefði færst eftir að þær fluttust í annað stæði, sagði vitnið að hún hefði skýrt frá eins og hún myndi eftir þessu en kvaðst hafa verið undir áhrifum áfengis og þetta væri því aðeins í móðu.
Vitnið, D, sonur ákærða, sagði að hann hefði farið umrætt sinn ásamt föður sínum í miðbæ Reykjavíkur. Þegar vel hafi verið liðið á nóttina hefði ákærði hringt í sig og spurt hvort hann vildi fara inn í bifreiðina og jafnvel sofa þar. Vitnið hefði sagt að hann þyrfti kannski að fara þangað því félagi hans ætlaði að hringja í hann eftir um hálftíma. Vitnið hefði kveikt á bifreiðinni, en ákærði hefði sagt sér að lykilinn væri í henni. Hann hefði verið með „allt í botni“ því kalt hefði verið úti. Eftir u.þ.b. hálftíma hefði félagi vitnisins hringt og beðið sig um að gista hjá sér. Vitnið hefði drepið á bifreiðinni og farið úr henni. Hann kvaðst ekki hafa hitt ákærða, en þeir verið í símasambandi. Ákærði hefði svo hringt í vitnið um hádegi og þeir haldið til Selfoss. Aðspurður um áform þeirra umrædda nótt sagði vitnið að þeir hefðu ætlað að gista hjá frænda þeirra, en ekki náð í hann. Aðrir möguleikar hefðu verið fyrir hendi en ekkert verið fastákveðið.
Vitnið, Martha Sandholt Haraldsdóttur lögreglukona, skýrði svo frá að tilkynnt hefði verið um sofandi mann undir stýri á bifreiðastæðinu við Iðnskólann í Reykjavík. Vitnið hefði farið á vettvang og fyrst rætt við þrjár stúlkur sem þar voru. Stúlkurnar hefðu greint frá því að bifreiðin hefði færst úr stað og síðan hefði maðurinn sofnað aftur. Lögreglan hefði bankað á rúðu bifreiðarinnar og vakið ökumanninn. Aðspurð gat vitnið ekki sagt til um í hvaða stöðu ökumannssætið hefði verið. Sagði vitnið að bifreiðin hefði verið 1 - 1 ½ metra of framarlega í stæðinu og mynd verið tekin af því. Um aðstæður á bifreiðastæðinu sagði vitnið að aðeins væri halli á stæðinu. Aðspurð sagði vitnið að bifreiðin hefði ekki verið í gangi er lögreglumenn komu á vettvang. Lyklar hefðu verið í „svissinum“ en vél bílsins og púst hefði verið heitt. Þá hefði ákærði sagt að hann hefði verið með bifreiðina í gangi og stúlkurnar sagt það líka.
III.
Ákærði hefur frá upphafi neitað sök. Fyrir dómi greindi hann frá því að hafa farið í bifreið sína undir morgun að aflokinni skemmtun á menningarnótt til að spara gistikostnað. Þar hafi hann hallað ökumannssætinu aftur og sofnað. Hann kveðst hafa sett útvarpið á en neitaði því alfarið að hafa gangsett bifreiðina eða fært hana úr stað. Þá neitaði hann því að hafa lagst fram á stýrið.
Framburður ákærða stangast í veigamiklum atriðum á við framburð þriggja vitna sem staðhæfðu fyrir dómi, með sama hætti og fyrir lögreglu, að bifreið ákærða, sem var bakkað inn í bifreiðastæði, hafi verið í gangi er þær komu þarna að og ákærði hallað sér fram á stýrið. Báru tvö vitnanna að ökumannssætinu hafi ekki verið hallað aftur heldur verið í venjulegri stöðu. Hafa vitnin borið að bifreið ákærða hafi færst úr stað um 1-2 metra út úr bifreiðastæðinu. Vitnin gátu ekki fullyrt hvort vélarhljóð hefði heyrst er bifreið ákærða færðist úr stað þar sem þær sátu inni í bifreið og gátu ekki heyrt slíkt. Samkvæmt vitnisburði lögreglukonu voru lyklarnir í kveikjulásnum og vél bifreiðarinnar og púst heitt. Fyrir liggur mynd af bifreið ákærða, sem lögregla tók á vettvangi, og sýnir að bifreið ákærða stendur út úr bifreiðastæðinu þannig að framhjól hennar eru komin fram fyrir stæðið.
Ákærði hefur verið reikull í framburði um að hafa ekki gangsett bifreiðina. Þannig kemur fram í gögnum málsins að hann hafi greint frá því fyrir lögreglu að hafa sett bifreiðina í gang í smástund til að ylja sér og fyrir dómi bar lögreglukona sem fór á vettvang að ákærði hefði skýrt frá því að hafa gangsett bifreiðina. Þetta misræmi í framburði ákærða fyrir lögreglu og dómi þykir draga nokkuð úr trúverðugleika framburðar hans. Ákærði gaf þá skýringu á misræmi í framburði sínum að hann hafi ekki viljað blanda syni sínum í málið sem átti að fá æfingaleyfi til aksturs. Sonur ákærða bar fyrir dómi vitni um að hafa farið í bifreiðina áður en ákærði fór í hana og gangsett hana. Framburð vitnisins verður að virða í því ljósi að hann er sonur ákærða.
Þegar virtur er samhljóma og staðfastur framburður vitna, um að bifreið ákærða hafi verið í gangi á bifreiðastæðinu og bifreiðin svo færst til, auk þess að vél bifreiðarinnar og púst hafi verið heitt, og að gættu öðru því sem hér hefur verið rakið, telst sannað, svo hafið sé yfir skynsamlegan vafa, að bifreið ákærða hafi færst úr stað. Ólíklegt þykir að bifreiðin hafi færst svo mikið úr stað sem raun ber vitni við að ákærði hafi stigið á kúplinguna enda rekur hann ekki minni til þess að hafa gert slíkt og ekkert liggur fyrir um í hvaða gír bifreiðin var. Þá er halli á bifreiðastæðinu óverulegur. Samkvæmt niðurstöðum úr alkóhólrannsókn var magn áfengis í blóði ákærða 1,25%. Ákærði hefur því gerst sekur um akstur undir áhrifum áfengis og varðar brot hans við 1., sbr. 3. mgr. 45. gr. umferðarlaga nr. 50/1987, sbr. 1. gr. laga nr. 48/1997.
Ákærði er fæddur í september 1965. Samkvæmt sakavottorði ákærða var hann með dómi 21. október 2003 dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í 2 ár, fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr., 232. gr. og 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Ákærði hefur ekki gerst sekur um brot sem þýðingu hefur við ákvörðun refsingar nú. Þykir refsing hans hæfilega ákveðin 100.000 króna sekt til ríkissjóðs og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins.
Þá verður ákærði með vísan til 101. og 102. gr. umferðarlaga, með áorðnum breytingum, sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Með vísan til 1. mgr. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, alls 190.966 kr. Samkvæmt yfirliti um sakarkostnað er um að ræða kostnað vegna blóðtöku og alkóhólrannsóknar, alls 53.767 kr., og 33.615 kr. þóknun verjanda á rannsóknarstigi. Þóknun verjanda fyrir dómi þykir hæfilega ákveðin 103.584 kr., að meðtöldum virðisaukaskatti. Verður þóknun verjanda á rannsóknarstigi og fyrir dómi tiltekin í einu lagi í dómsorði með hliðsjón af 1. mgr. 168. gr. laga nr. 19/1991, með áorðnum breytingum, sbr. og 2. mgr. 44. gr. og 2. mgr. 44. gr. i. sömu laga.
Sturla Þórðarson flutti málið af hálfu ákæruvaldsins.
Dóm þennan kveður upp Sandra Baldvinsdóttir, settur héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Ákærði, X, greiði 100.000 króna sekt í ríkissjóð og komi 8 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún ekki greidd innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði er sviptur ökurétti í 12 mánuði frá birtingu dómsins að telja.
Ákærði greiði 190.966 krónur í sakarkostnað, þar með talin 137.199 króna þóknun skipaðs verjanda hans, Óskars Sigurðssonar hæstaréttarlögmanns.