Hæstiréttur íslands

Mál nr. 439/2016

Ákæruvaldið (Helgi Magnús Gunnarsson vararíkissaksóknari)
gegn
Sigurjóni Haraldssyni (Ásgeir Þór Árnason hrl.)

Lykilorð

  • Virðisaukaskattur
  • Staðgreiðsla opinberra gjalda
  • Sekt
  • Refsilágmark
  • Skilorð
  • Aðfinnslur

Reifun

S var sakfelldur fyrir brot gegn 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda með því að hafa á nánar tilgreindum tímabilum í starfi sínu sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður A ehf. látið hjá líða að standa ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri A ehf., skilagrein vegna staðgreiðslu á lögmæltum tíma og opinberum gjöldum sem haldið var eftir af launum starfsmanna félagsins. Fram kom í málinu að vangoldinn virðisaukaskattur á því tímabili sem ákæran tók til hafði að verulegu leyti verið greiddur eftir eindaga hans. Var því talið að undanþága frá lágmarki fésektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 ætti við um þá skuld. Við ákvörðun refsingar S var litið til þess að honum hafði ekki áður verið gerð refsing auk þess sem horft var til þess óhæfilega dráttar sem orðið hafði á meðferð málsins. Var refsing S ákveðin fangelsi í 2 mánuði en fullnustu refsingarinnar var frestað skilorðsbundið í tvö ár. Þá var honum gert að greiða 16.250.000 króna sekt í ríkissjóð og skyldi sjö mánaða fangelsi koma í stað sektarinnar yrði hún ekki greidd innan fjögra vikna.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Karl Axelsson og Viðar Már Matthíasson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 7. júní 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af kröfum ákæruvaldsins, en til vara að refsing hans verði milduð.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Ákærða verður gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Það athugist að Hæstarétti bárust málsgögn 17. febrúar 2017 en þá voru liðnir tæpir átta mánuðir frá því að dómsgerðir voru afgreiddar frá héraðsdómi til ríkissaksóknara. Ekki hafa verið gefnar haldbærar skýringar á þessum drætti, sem kemur til viðbótar þeim óútskýrða drætti sem varð á rannsókn málsins og saksókn, og er hann aðfinnsluverður.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Sigurjón Haraldsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 782.795 krónur, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 744.000 krónur.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 27. apríl 2016.

                Mál þetta var höfðað með ákæru sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008, útgefinni 28. október 2015, á hendur X, kt. [...], [...] á [...], Sigurjóni Haraldssyni, kt. [...], búsettum í Danmörku, og Y, kt. [...], [...] í [...]. 

                Í málinu eru ákærðu sóttir til saka fyrir meiri háttar skattalagabrot, ákærði X sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður frá 9. júlí 2009 til 18. nóvember 2010, ákærði Sigurjón sem framkvæmdastjóri og stjórnarmaður frá 18. nóvember 2010 og ákærði Y sem framkvæmdastjóri frá 18. nóvember 2010, einkahlutafélagsins A, kt. [...], með því að hafa:

1.       Eigi staðið ríkissjóði skil á virðisaukaskatti sem innheimtur var í rekstri einkahlutafélagsins, vegna uppgjörstímabilanna maí–júní, júlí–ágúst og nóvember–desember rekstrarárið 2010, í samræmi við fyrirmæli IX. kafla laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, samtals að fjárhæð 7.112.104 krónur hvað varðar ákærða X og samtals að fjárhæð 4.162.390 krónur hvað varðar ákærðu Y og Sigurjón, sem sundurliðast sem hér greinir:

X:

 

maí - júní                                                            kr.   1.852.674

júlí – ágúst                                                          kr.   5.259.430

                                                                              kr.   7.112.104

 

Y/Sigurjón:

 

nóvember - desember                                       kr.   4.162.390    

 

2.       Eigi staðið skil á skilagreinum einkahlutafélagsins vegna staðgreiðslu opinberra gjalda á lögmæltum tíma vegna greiðslutímabilanna maí, júní, júlí, ágúst, september og desember rekstrarárið 2010, og hafa eigi staðið ríkissjóði skil á staðgreiðslu opinberra gjalda í samræmi við fyrirmæli III. kafla laga nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda, sem haldið var eftir af launum starfsmanna einkahlutafélagsins vegna greiðslutímabilanna mars rekstrarárið 2010 til og með janúar rekstrarárið 2011, samtals að fjárhæð 27.722.796 krónur hvað varðar ákærða X, samtals að fjárhæð 7.908.139 krónur hvað varðar ákærða Sigurjón og samtals að fjárhæð 7.690.901 króna hvað varðar ákærða Y, sem sundurliðast sem hér greinir:

                                               X:                            Sigurjón:                              Y:

Árið 2010

mars                                      kr.   3.682.375                                    

apríl                                       kr.   4.502.735

maí                                        kr.   4.388.424    

júní                                        kr.   3.836.491                    

júlí                                         kr.   2.461.867                    

ágúst                                     kr.   2.954.434                    

september                             kr.   2.993.584                    

október                 kr.   2.902.886    

nóvember                                                                           kr.   4.753.224                     kr. 4.535.986

desember                                                                             kr.   1.201.528                     kr. 1.201.528              

                                               kr. 27.722.796                     kr.   5.954.752                     kr. 5.737.514

 

Árið 2011

janúar                                                                                  kr.   1.953.387                     kr. 1.953.387                                      

Framangreind háttsemi ákærðu telst varða við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 39/1995, sbr. einnig 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt að því er varðar 1. tölulið ákæru og 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987, um staðgreiðslu opinberra gjalda að því er varðar 2. tölulið hennar.

                Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar. 

                Ákærðu krefjast sýknu og að allur sakarkostnaður verði lagður á ríkissjóð. Til vara gera ákærðu X og Y þá kröfu að þeim verði gerð vægasta refsing sem lög leyfa.

I

                Ákæra í málinu styðst við lögreglurannsókn sem fram fór á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra 7. júlí 2011 og rannsóknargagna sem því fylgdu. Var lögreglurannsóknin í höndum embættis sérstaks saksóknara samkvæmt lögum nr. 135/2008 sem að henni lokinni gaf út ákæru í málinu, en í þinghaldi 2. febrúar síðastliðinn tók héraðssaksóknari við saksókninni, sbr. 3. mgr. 29. gr. laga nr. 47/2015 um breytingu á lögum um meðferð sakamála og lögreglulögum.

                Einkahlutafélagið sem um ræðir í málinu hét upphaflega [...]. Í nóvember 2009 var nafni þess breytt í A, en þá nafngift má rekja til verkefnis sem þá var í bígerð og síðar verður vikið að. Félagið var tekið til gjaldþrotaskipta með úrskurði héraðsdóms 5. maí 2011. Svo sem í ákæru greinir var ákærði X framkvæmdastjóri og stjórnarmaður félagsins frá stofnun þess 9. júlí 2009 til 18. nóvember 2010, en þann dag tóku ákærðu Sigurjón Haraldsson og Y við framkvæmdastjórn af honum og ákærði Sigurjón varð jafnframt stjórnarmaður í stað hans. Átti þessi breyting rót sína að rekja til samnings sem þá var gerður um kaup B ehf., sem ákærði Sigurjón var í forsvari fyrir, á A ehf. af ákærða X og tveimur öðrum mönnum. Kaupverðið var ein króna. Í sérstökum viðauka við kaupsamninginn var mælt fyrir um heimild kaupanda til að segja samningnum upp fyrir 31. desember 2010 ef í ljós kæmi að efnahagsreikningur „[sýndi] ekki þá stöðu sem lögð var fram við kaupin“ eða aðrar verulegar vanefndir kæmu fram, svo og ef kaupendum tækist ekki að semja um lífeyrisskuldbindingar og vörsluskatta að fjárhæð allt að 90 milljónir króna. Ekki kom til uppsagnar. Þá gerðu sömu aðilar samning sín í milli 18. nóvember 2010 um kaup B ehf. á einkahlutafélaginu C fyrir eina krónu. Mun það félag upphaflega hafa verið rekið sem tækjaleiga og á sala á því að hafa tekið til tækja og búnaðar í eigu þess sem A ehf. hafði haft full afnot af.

II

                Fram er komið í málinu að á þeim tíma sem ákæra tekur til var á vegum A ehf. unnið að byggingu fjöleignarhúss að [...] í Garðabæ. Þá mun hafa legið fyrir samningur um að félagið kæmi að byggingarframkvæmdum að A á Álftanesi [...]. Í framburði ákærða X fyrir dómi kom fram að væntingar hefðu staðið til þess að með framangreindri sölu á félaginu, sem hefði verið komið að fótum fram á þessum tíma, tækist að skapa grundvöll fyrir áframhaldandi rekstri þess, enda hefðu nýir eigendur ætlað að leggja því til nýtt fjármagn. Við söluna hefðu aðstæður verið með þeim hætti að það hafi alfarið verið í höndum viðskiptabanka félagsins, D hf., að ákveða hvaða kröfur á hendur því skyldu greiddar. Þannig hafi bankinn í krafti stöðu sinnar gagnvart félaginu sem viðskiptabanki þess en á sama tíma sem verkkaupi að því er tekur til framkvæmda að [...] í Garðabæ tekið yfir fjárstjórn þess. Félagið hafi glímt við viðvarandi lausafjárskort og framangreind skipan mála hafi leitt til þess að vanskil urðu á greiðslu virðisaukaskatts og staðgreiðslu opinberra gjalda. Þá hefur ákærði Sigurjón borið á þann veg fyrir dómi að þegar B ehf. keypti félagið hafi hann talið sig hafa vissu fyrir því eftir samtöl við stjórnendur hjá D hf. og [...] um fyrirhugaðar framkvæmdir að [...] að grundvöllur væri fyrir áframhaldandi rekstri þess. Hann hafi fljótlega gert sér grein fyrir að þessar væntingar hans myndu ekki ganga eftir og endanlega í ársbyrjun 2011 þegar sérstök fjárhaldsstjórn hafi verið sett yfir sveitarfélagið vegna slæmrar fjárhagsstöðu þess og þá strax hafist handa við að loka fyrirtækinu þannig að sem minnstur skaði hlytist af. Með þessu hafi forsendur fyrir því að hann kæmi með nýtt fjármagn inn í félagið algjörlega brostið. Þegar hér var komið sögu hafi það á hinn bóginn verið orðið of seint fyrir hann að rifta umræddum tveimur kaupsamningum eða segja þeim upp. Þá hafi D hf. sem fyrr haft tögl og haldir hvað viðkom fjárhagsstjórn félagsins og þannig alfarið ráðið því hvaða reikningar voru greiddir og þar með hvaða kröfur á hendur því fóru í vanskil.

                Ákærðu hafa aðspurðir fyrir dómi borið því við að þeir hafi engar forsendur til að leggja mat á tölulega framsetningu í ákæru, en í því sambandi hefur verið vísað til þess að rannsókn málsins hafi byggst á mjög takmörkuðum upplýsingum og niðurstaða hennar sé í raun byggð á einhliða túlkun gagna frá skattstjóra. Rannsóknin geti því vart talist gefa glögga eða áreiðanlega mynd af meintum vanskilum skattaðila. Að því marki sem um vanskil hafi verið að ræða sé skýringin á þeim sú að ekki hafi verið til peningar til að greiða vörsluskatta, en af því leiði að ekki sé unnt að dæma ákærðu til refsingar fyrir að standa ekki skil á þeim. Þá hafa ákærðu X og Y sérstaklega byggt á því til stuðnings sýknukröfu og í öllu falli til refsimildunar að við þann þátt saksóknar sem snýr að vanskilum á greiðslu virðisaukaskatts hafi ekki verið tekið tillit til tapaðra krafna A ehf. á hendur [...] og C ehf. samtals að fjárhæð 70.782.490 krónur. Samtala reiknaðs útskatts vegna þessara krafna nemi 13.929.074 krónum sem sé talsvert hærri fjárhæð en ákært sé fyrir. 

                Að því sögðu sem að framan er rakið byggja ákærðu X og Y sýknukröfu sína í fyrsta lagi á því að samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda og 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt sé refsiábyrgð annars vegar lögð á launagreiðanda og hins vegar á skattskyldan aðila. Í því tilviki sem hér er til umfjöllunar eigi þetta við um A ehf. en ekki fyrirsvarsmenn félagsins. Fyrirsvarsmanni lögaðila verði því ekki gerð refsing á grundvelli þessara ákvæða, sem aftur leiði til þess að ákvæði 262.gr. almennra hegningarlaga taki ekki heldur til hans. Er þessu til frekari stuðnings vísað til 1. mgr. 69. gr. stjórnarskrárinnar og þá ekki hvað síst í því ljósi að við ákvörðun um fjárhæð sekta fyrir brot gegn þessum ákvæðum fari ekki nema að litlu leyti eftir þeim viðmiðum sem almennt gilda þegar sektafjárhæð er ákveðin, sbr. 1. mgr. 51. gr. almennra hegningarlaga. Ákvæðin eigi því í öllu falli að skýra þröngt. Í öðru lagi halda ákærðu því fram, verði ekki á framangreint fallist, að saknæmisskilyrði tilvitnaðra lagaákvæða séu ekki uppfyllt, en samkvæmt þeim sé áskilið að um ásetning eða stórfellt gáleysi hafi verið að ræða. Þá sé í öllu falli ekki uppfyllt það skilyrði refsiábyrgðar samkvæmt hegningarlagaákvæðinu að um meiri háttar brot hafi verið að ræða. Í þriðja lagi hefur um rök fyrir sýknukröfu verið vísað til þess að umsjón með fjármálum félagsins, frágangur skilagreina og virðisaukaskattsskýrslna og launavinnsla hafi ekki verið í höndum ákærðu heldur annarra nafngreindra starfsmanna þess. Af hálfu ákærða Y, sem er tæknifræðingur að mennt, hefur í þessu sambandi verið sérstaklega á því byggt að þó svo að hann hafi verið skráður framkvæmdastjóri félagsins frá og með 18. nóvember 2010 hafi hann enga aðkomu átt að fjárhagsstjórn þess, þar með talin skattskil og bókhald, heldur hafi sá þáttur í rekstri félagsins alfarið verið í höndum ákærða Sigurjóns. Í skýrslu sinni fyrir dómi lýsti ákærði störfum sínum fyrir félagið með þeim orðum að hann hafi verið tæknilegur framkvæmdastjóri þess. Hann hafi til samræmis við það haft með höndum tilboðsgerð, haft yfirumsjón með þeim verkum sem félagið vann að á hverjum tíma, ritað framvinduskýrslur sem lagðar voru til grundvallar við reikningsgerð og haldið utan um tímaskráningar í samráði við verkstjóra á verkstað. 

                Við aðalmeðferð málsins var ákærði Sigurjón, sem er viðskiptafræðingur að mennt, inntur eftir því af hverju tveir framkvæmdastjórar voru starfandi í félaginu frá og með 18. nóvember 2010. Svaraði hann því til að ákærða Y hafi verið ætlað að sjá um tæknilega hluta rekstursins, en hann sjálfur hafi ekki haft þekkingu á því sviði, og útgáfu reikninga. Bókarar sem störfuðu hjá félaginu hefðu séð um bókhaldið og launafulltrúi um launavinnslu. Kvaðst ákærði hafa rekið eftir því að bókhald væri fært í samræmi við lög og ekki verður annað ráðið af framburði hans en að hann hafi séð til þess að virðisaukaskattsskýrslum og skilgreinum vegna staðgreiðslu væri skilað á réttum tíma. Lýsti ákærði störfum sínum í þágu félagsins á þann veg að þau hafi að mestu tekið mið af stöðu hans sem stjórnarformaður og tiltók sérstaklega í því sambandi samskipti við D hf. og [...] vegna fyrirhugaðra byggingarframkvæmda á vegum þess. 

                Auk þess sem að framan er rakið hefur þeirri málsvörn verið teflt fram af hálfu ákærða X að skattaðili, A ehf., hafi þegar sætt refsimeðferð með því að félaginu hafi verið gert að greiða vanskilagjöld, en af því leiði að áfellisdómur gagnvart ákærða fæli í sér að hann sætti tvöfaldri refsimeðferð í andstöðu við ákvæði mannréttindasáttmála Evrópu.

III

Ákærðu eru svo sem fram er komið gefin að sök brot á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt og lögum nr. 45/1987 um staðgreiðslu opinberra gjalda fyrir að hafa ekki afhent á lögmæltum tíma skilagreinar vegna staðgreiðslu opinberra gjalda A ehf. og fyrir að hafa ekki staðið skil á virðisaukaskatti og staðgreiðslu opinberra gjalda sem haldið var eftir af launum starfsmanna fyrirtækisins á þeim tímabilum sem í ákæru greinir. Því er áður lýst að ákærðu X og Sigurjón gegndu starfi framkvæmdastjóra hjá A ehf. á þeim tíma sem ákæra tekur til, ákærði X fram til 18. nóvember 2010 en ákærði Sigurjón þaðan í frá. Samhliða því starfi sátu þeir í stjórn félagsins. Þá var ákærði Y framkvæmdastjóri félagsins ásamt ákærða Sigurjóni. Bú félagsins var tekið til gjaldþrotaskipta 5. maí 2011.

Í fyrirliggjandi skýrslu starfsmanns skattrannsóknarstjóra ríkisins um þá rannsókn sem lá til grundvallar kæru embættisins til lögreglu kemur fram að hún hafi einkum byggt á upplýsingum fyrirsvarsmanna A ehf., upplýsingum frá fyrirtækjaskrá ríkisskattstjóra, staðgreiðsluskilagreinum og sundurliðunum, virðisaukaskattsskýrslum, upplýsingum úr bókhaldi félagsins og tekjubókhaldi ríkissjóðs. Ákæra í málinu styðst síðan við lögreglurannsókn sem ráðist var í að fram komnu bréfi skattrannsóknarstjóra 7. júlí 2011 og gögn um rannsókn hans sem því fylgdu. Er ekkert fram komið um að rannsókn málsins hafi verið ábótavant og engin efni eru til að líta svo á að töluleg framsetning í ákæru með tilliti skattfjárhæða sé röng, en um álitaefni sem tengjast töpuðum viðskiptakröfum verður fjallað hér á eftir.  

Í 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt er refsing lögð við því ef skattskyldur maður afhendir ekki á lögmæltum tíma virðisaukaskatt sem hann hefur innheimt eða bar að innheimta. Þá er í 2. mgr. 30. gr. laga um staðgreiðslu opinberra gjalda lýst refsiverð sú háttsemi launagreiðanda að afhenda ekki skilagreinar vegna staðgreiðslu á lögmæltum tíma eða inna ekki af hendi þær greiðslur vegna launamanna sem hann hefur haldið eftir eða bar að halda eftir. Ákærðu hafa teflt fram þeirri málsvörn að ákvæði þessi taki ekki til fyrirsvarsmanna lögaðila heldur séu þau samkvæmt orðum sínum bundin við skattaskyldan aðila annars vegar og launagreiðanda hins vegar. Fordæmi Hæstaréttar um skýringu á þessum ákvæðum eru ótvírætt á þá leið að refsiákvæðum þeirra verði beitt gagnvart fyrirsvarsmanni lögaðila vegna brota, sem drýgð eru í starfsemi lögaðilans. Eru þessi andmæli ákærðu því haldlaus.

Stjórnarmenn einkahlutafélags bera almennt ábyrgð á því að skipulag þess og starfsemi sé jafnan í réttu og góðu horfi, sbr. 1. og 3. mgr. 44. gr. laga nr. 138/1994 um einkahlutafélög. Þar á meðal ber þeim að sjá til þess að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna félags. Ráðinn framkvæmdastjóri félags ber einnig ábyrgð samkvæmt 44. gr. laganna, og skal hann meðal annars annast daglegan rekstur og sjá um að bókhald sé fært í samræmi við lög og venjur og að meðferð eigna félags sé með tryggilegum hætti. Er dómaframkvæmd Hæstaréttar skýr um það að á grundvelli þessa lagaákvæðis hvíli sú skylda á framkvæmdastjóra einkahlutafélags og eftir atvikum stjórnarmönnum að sjá til þess að skattskilum þess sé hagað í samræmi við það sem lög áskilja. Erfiðleikar í rekstri félags breyta ekki þeirri skyldu og enn síður sú staða að öll umsjón með skattskilum hafi verið í höndum annarra starfsmanna þess. Á sama grunni er haldlaus sú málsvörn ákærðu að framganga viðskiptabanka A ehf. gagnvart félaginu, sem þeir hafa borið um, hafi leyst þá undan þessum skyldum sínum sem fyrirsvarsmenn þess eða geti á annan hátt haft þýðingu við úrlausn um refsiábyrgð þeirra.

Í málinu háttar þannig til samkvæmt framansögðu að frá og með 18. nóvember 2010 og þar til rekstri A ehf. var hætt voru skráðir framkvæmdastjórar félagsins tveir, það er ákærðu Sigurjón og Y. Af því sem fram er komið í málinu og áður er að hluta til rakið þykir mega slá því föstu að út frá því hafi verið gengið að ákærði Sigurjón, sem er viðskiptafræðingur að mennt og var að auki fyrirsvarsmaður þess félags sem varð eigandi A ehf. 18. nóvember 2010, hefði fjármálastjórn í félaginu með höndum og að tilgangurinn með ráðningu ákærða Y í starf framkvæmdastjóra hafi alfarið lotið að tæknilegum atriðum í starfsemi þess og nánar svo sem sem hann hefur sjálfur lýst. Er þess þá jafnframt að gæta að ákærði hafði sinnt þessum störfum fyrir félagið allt frá stofnun þess og verður ekki séð að breyting hafi orðið á starfsskyldum hans við framangreind eigendaskipti að því. Svo sem hér háttar sérstaklega til samkvæmt framansögðu er það mat dómsins að refsiábyrgð vegna vanrækslu á skattskilum verði ekki lögð á ákærða Y. Er ákærði samkvæmt þessu sýknaður af kröfum ákæruvaldsins í málinu.    

Samkvæmt 2. tölulið 5. mgr. 13. gr. laga um virðisaukaskatt er seljanda við uppgjör á skattskyldri veltu heimilt að draga frá tiltekið hlutfall af töpuðum útistandandi viðskiptaskuldum, enda hafi hin tapaða fjárhæð áður verið talin til skattskyldrar veltu. Af dómafordæmum Hæstaréttar er ljóst að þessarar heimildar má neyta á því uppgjörstímabili þegar í ljós er leitt að krafa er töpuð með því að bú skuldara hefur verið tekið til gjaldþrotaskipta eða gert hjá honum árangurslaust fjárnám. Heimildin leysir félag á hinn bóginn ekki undan skyldu til að standa skil á virðisaukaskatti til samræmis við veltu sína og án tillits til innheimtu útgefinna reikninga, jafnharðan og skatturinn er réttilega kominn á gjalddaga hverju sinni. Er brot samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt þannig fullframið þegar skattur, sem innheimtur var eða bar að innheimta, er ekki afhentur á réttum tíma. Með sama hætti og við á um greiðslu upp í skattskuld hafa afskriftir krafna þannig að jafnaði eingöngu áhrif við mat á því hvort sektarlágmarki ákvæðisins, það er fésekt sem nemur tvöfaldri skattfjárhæð, skuli beitt, en breyta engu um refsinæmi vanskila á virðisaukaskatti. Í málatilbúnaði ákæruvalds og á grundvelli mats þess á töpuðum kröfum samkvæmt rannsóknargögnum málsins er út frá því gengið að undanþága frá fésektarlágmarkinu eigi við um öll þau vanskil á virðisaukaskatti sem ákært er fyrir og í því efni aðallega vísað til kröfu á hendur [...] ehf. og gjaldþrots þess félags 24. september 2012. Ákærðu hafa fyrri dómi gert kröfu um að tekið verði tillit til frekari krafna sem þeir telja að hafi tapast og hefur áður verið gerð grein fyrir þeim. Að því er varðar kröfu á hendur C ehf. er til þess að líta að samkvæmt gögnum málsins var fyrst gert árangurslaust fjárnám hjá félaginu 29. september 2011 og bú þess var tekið til gjaldþrotaskipta 4. apríl 2012. Samkvæmt þessu væru ekki efni til að lækka kröfur í ákæru þótt þessi tiltekna krafa teldist töpuð, en taka bæri tillit til þessa við ákvörðun refsingar að öðrum skilyrðum uppfylltum. Er þess þá að gæta að samkvæmt rannsóknargögnum málsins kom fram hjá ákærða Sigurjóni við skýrslugjöf hans að krafan hafi verið greidd með því að C ehf. hafi yfirtekið lán frá A ehf. Um kröfu á hendur [...] ehf. er þess að geta að samkvæmt gögnum málsins var því hafnað að litið yrði á hana sem tapaða þar sem hún hafi ekki byggst á virðisaukaskattskyldum reikningum. Er ekkert komið fram sem fær þessu hnekkt. Samkvæmt öllu framansögðu verður ekki fallist á að efni séu til að lækka kröfur í ákæru vegna tapaðra viðskiptakrafna, heldur verður tekið tillit til þeirra við ákvörðun refsingar og þá með þeim hætti sem ákæruvaldið miðar við samkvæmt framansögðu.

Ákærði X hefur um rök fyrir sýknukröfu sinni vísað til þess að skattgreiðanda hafi verið gert að greiða vanskilagjöld og að því feli saksókn á hendur honum í sér endurtekna málsmeðferð til úrlausnar um refsiverða háttsemi eða tvöfalda refsingu sem fari í bága við 1. mgr. 4. gr. samningsviðauka nr. 7 við mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994. Hafi skattgreiðanda verið gert að sæta álagi á opinber gjöld felur saksókn á hendur ákærða ekki í sér brot gegn banni við endurtekinni málsmeðferð eða tvöfaldri refsingu, enda ekki um að ræða sömu aðila. Þegar af þeirri ástæðu verður ekki fallist á kröfu ákærða um sýknu á þessum grundvelli.

Að öllu því sögðu sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að fram til 18. nóvember 2010 hafi ákærða X borið skylda til að sjá til þess að skattskil A ehf. væru með þeim hætti sem lög áskilja og að sú skylda hafi þann dag færst yfir á ákærða Sigurjón sem þá tók við framkvæmdastjórn í félaginu samhliða því að taka sæti í stjórn þess. Þá eru uppfyllt saknæmisskilyrði fyrir refsiábyrgð ákærðu samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga um virðisaukaskatt og 2. mgr. 30. gr. um staðgreiðslu opinberra gjalda. Er samkvæmt þessu talið nægilega sannað að ákærðu hafi gerst sekir um brot gegn þessum ákvæðum og að vanskil á eindaga í hverju tilviki fyrir sig hafi numið þeim fjárhæðum sem í ákæru greinir. Að þessu gættu varðar háttsemi ákærðu jafnframt við 1. mgr. 262. gr. almennra hegningarlaga.

Það er áður rakið að samkvæmt málatilbúnaði ákæruvalds og í samræmi við gögn málsins telst vangoldinn virðisaukaskattur vegna allra þeirra tímabila, sem ákæran lýtur að, hafa verið greiddur að verulegu leyti eftir eindaga hans. Verður samkvæmt þessu miðað við að undanþága frá lágmarki fésektar samkvæmt 1. mgr. 40. gr. laga nr. 50/1988 eigi við um skuld vegna tímabilsins maí til ágúst 2010 að fjárhæð 7.112.104 krónur og skuld vegna nóvember og desember sama ár að fjárhæð 4.162.390 krónur. Þá verður út frá því gengið til samræmis við sakargögn og málflutning sækjanda við aðalmeðferð málsins að undanþága frá fésektarlágmarki 2. mgr. 30. gr. laga nr. 45/1987 eigi við um vanskil á staðgreiðslu opinberra gjalda vegna mars 2010 að fjárhæð 3.682.375 krónur. Um skuldir vegna annarra tímabila gildir hins vegar sektarlágmark ákvæðisins.

IV

Ákærðu X og Sigurjón eru samkvæmt framansögðu sakfelldir fyrir þá háttsemi sem þeim er gefin að sök í ákæru og þar er réttilega heimfærð til refsiákvæða.

Svo sem fram er komið var málið tekið til lögreglurannsóknar á grundvelli bréfs skattrannsóknarstjóra ríkisins 7. júlí 2011. Ekki hafa verið gefnar haldbærar skýringar á þeim mikla drætti sem varð á rannsókn málsins hjá lögreglu og saksókn í því, en ákæra var ekki gefin út fyrr en 28. október 2015. Fer þessi málsmeðferð í bága við 3. mgr. 18. gr. og 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð sakamála og 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.

Ákærði X var með dómi [...]. mars 2014 fundinn sekur brot gegn sömu lagaákvæðum og hann er nú sakfelldur fyrir. Var honum gert að sæta fangelsi í 12 mánuði, skilorðsbundið til tveggja ára, og greiða 44.000.000 króna í sekt en sæta ella fangelsi í 360 daga. Með vísan til 60. gr. almennra hegningarlaga verður skilorðshluti þessa dóms tekinn upp og ákærða gerð fangelsisrefsing að nýju fyrir bæði málin eftir reglum 78. gr. sömu laga. Samkvæmt þessu og að teknu tilliti til þess óhæfilega dráttar sem varð á rannsókn málsins og ákvörðun um saksókn er refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 15 mánuði og skal fullnusta hennar í heild bundin skilorði eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærða að auki gert að greiða sekt til ríkissjóðs, sem þykir með vísan til þess sem áður er rakið um fésektarlágmark og undanþágu frá því hæfilega ákveðin 49.200.000 krónur. Í ljósi þeirrar vararefsingar sem mælt var fyrir um í framangreindum dómi og með vísan til 1. mgr. 54. gr. almennra hegningarlaga kemur ekki til þess að kveðið verði á um vararefsing vegna þeirrar sektar sem ákærða er nú gerð.

Ákærði Sigurjón hefur ekki áður sætt refsingu. Þykir refsing hans að því gættu og í ljósi framangreinds dráttar á málsmeðferð hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði, sem bundin verður skilorði á þann veg sem í dómsorði greinir. Þá verður honum að auki gert að greiða 16.250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs, en um vararefsingu fer samkvæmt því sem í dómsorði greinir.

                Með því að ákærði Y hefur alfarið verið sýknaður af kröfum ákæruvaldsins skulu málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans, Lúðvíks Arnar Steinarssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 1.550.000 krónur, greidd úr ríkissjóði, sbr. 2. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008.

Ákærða X verður gert að greiða málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Guðlaugssonar hæstaréttarlögmanns, sem þykja hæfilega ákveðin 1.860.000 krónur.

Við ákvörðun málsvarnarlauna samkvæmt framansögðu hefur verið tekið tillit til virðisaukaskatts.

Þorgeir Ingi Njálsson héraðsdómari dæmir mál þetta.

D ó m s o r ð

                Ákærði, Y, er sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.

Ákærði, X, sæti fangelsi í 15 mánuði, en fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá greiði ákærði 49.200.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dómsins að telja.

Ákærði, Sigurjón Haraldsson, sæti fangelsi í í tvo mánuði, en fullnustu þeirrar refsingar skal frestað og hún falla niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá greiði ákærði 16.250.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá birtingu dóms þessa, en sæta ella fangelsi í sjö mánuði.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða Y, Lúðvíks Arnar Steinarssonar hæstaréttarlögmanns, 1.550.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                Ákærði X greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Magnúsar Guðlaugssonar hæstaréttarlögmanns, 1.860.000 krónur.