Hæstiréttur íslands
Nr. 2021-186
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Manndráp
- Sönnun
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar
1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Ingveldur Einarsdóttir, Ása Ólafsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.
2. Með beiðni 25. júní 2021 leitar X leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 11. sama mánaðar í málinu nr. 62/2021: Ákæruvaldið gegn X á grundvelli 1. mgr., sbr. 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Ákæruvaldið telur ekki efni til að fallast á beiðnina.
3. Með dómi Landsréttar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu leyfisbeiðanda fyrir brot gegn 211. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að þrengja svo að hálsi eiginkonu sinnar að hún lést af völdum köfnunar. Var refsing hans ákveðin fjórtán ára fangelsi.
4. Leyfisbeiðandi telur að skilyrðum 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008 fyrir veitingu áfrýjunarleyfis sé fullnægt þar sem verulegir ágallar hafi verið á rannsókn og meðferð málsins. Þá hafi Landsréttur vikið frá þeirri meginreglu að maður sé saklaus uns sekt sé sönnuð og að allan vafa beri að túlka sakborningi í hag. Niðurstaða málsins hafi því verulega almenna þýðingu. Þá hafi Landsréttur brotið gegn 2. mgr. 110. gr. laga nr. 88/2008. Loks telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til þar sem litið hafi verið fram hjá niðurstöðu tveggja dómkvaddra matsmanna um mögulega dánarorsök.
5. Að virtum gögnum málsins verður ekki séð að leyfisbeiðnin lúti að atriðum sem hafi verulega almenna þýðingu eða að mjög mikilvægt sé af öðrum ástæðum að fá úrlausn Hæstaréttar um þannig að fullnægt sé skilyrðum 2. málsliðar 4. mgr. 215. gr. laga nr. 88/2008. Þá eru ekki efni til að beita heimild 3. málsliðar 4. mgr. fyrrnefndrar lagagreinar í málinu. Beiðninni er því hafnað.