Hæstiréttur íslands

Mál nr. 622/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Greiðsluaðlögun
  • Frávísun frá héraðsdómi


Þriðjudaginn 7. desember 2010.

Nr. 622/2010.

A

(sjálfur)

gegn

Héraðsdómi Reykjavíkur

(enginn)

Kærumál. Greiðsluaðlögun. Frávísun máls frá héraðsdómi.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem kröfu A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar var hafnað. Talið var að A hefði ekki upplýst um breyttar aðstæður sínar fyrir héraðsdómi og niðurstaða dómsins hefði því ekki verið reist á réttum forsendum. Var málið talið svo vanreifað að óhjákvæmilegt væri annað en að vísa því án kröfu frá héraðsdómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. október 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. nóvember sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2010, þar sem hafnað var beiðni sóknaraðila um að honum yrði veitt heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Kæruheimild er í 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fallist verði á beiðni hans um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Þá krefst hann að kærumálskostnaður verði greiddur úr ríkissjóði.

Með bréfi sem barst Héraðsdómi Reykjavíkur 6. maí 2010 óskaði sóknaraðili heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. Í þingbók er bókað að á dómþingi 14. október 2010 hafi fyrrgreind beiðni verið lögð fram ásamt fylgiskjölum. Meðal þessara fylgiskjala var greiðsluáætlun þar sem sóknaraðili tilgreindi mánaðarlegar tekjur sínar 134.321 krónu. Í beiðni hans kom fram að hann væri atvinnulaus og að tekjur sem gert væri ráð fyrir væru atvinnuleysisbætur. Miðað við þessar forsendur var neikvæð greiðslugeta hans 90.279 krónur á mánuði. Á framangreindu dómþingi var bókað að sóknaraðili hafi sjálfur sótt þing, skýrt beiðni sína og ítrekað kröfur sínar.

 Í kæru sóknaraðila til Hæstaréttar kemur fram að aðstæður hans hafi breyst 1. júlí 2010. Honum hafi verið synjað um atvinnuleysisbætur eftir að hann sendi beiðni sína ásamt fylgigögnum til Héraðsdóms Reykjavíkur. Þá hafi hann verið ráðinn til [...] frá 1. júlí 2010 og séu umsamin föst mánaðarlaun er því starfi fylgja 320.000 krónur. Ráðningarsamningur dagsettur 1. júlí 2010 milli sóknaraðila og [...] fylgdi kærunni ásamt nýrri greiðsluætlun þar sem mánaðarlegar tekjur eftir skatta voru tilgreindar 231.716 krónur og mánaðarleg greiðslugeta 7.116 krónur. Samkvæmt framanröktu höfðu aðstæður sóknaraðila breyst um atriði sem verulega þýðingu gátu haft við úrlausn um beiðni hans um nauðasamning til greiðsluaðlögunar frá því að beiðnin var rituð og þar til mál hans var tekið fyrir á dómþingi 14. október 2010. Með því að ekki var upplýst um þessar breyttu aðstæður fyrir héraðsdómi var hann ekki reistur á réttum forsendum. Var málið svo vanreifað af hálfu sóknaraðila að óhjákvæmilegt er að vísa því án kröfu frá héraðsdómi.

Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur. 

Dómsorð:

Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.

Kærumálskostnaður fellur niður.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. október 2010.

Með bréfi er barst dóminum 6. maí 2010 hefur A, kt. [...], [...], Reykjavík, óskað heimildar til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

Því er lýst í beiðni að umsækjandi sé menntaður [...] frá [...] auk þess sem hann sé með [...] frá Þ. Hann hafi fengist við ýmis störf tengd [...] undanfarin ár, m.a. í Æ, Ö og Þ, en sé atvinnulaus sem standi. Hann sé kvæntur en standi í skilnaði. Hann ráðgeri að flytjast í íbúð í sinni eigu eftir skilnaðinn. Fjárhagserfiðleika skuldara megi að langmestu leyti rekja til þess að starf og verkefni sem hann hafi tekið að sér fyrir aðila í Þ árið 2008 hafi brugðist. Á sama tíma hafi efnahagslífið á Íslandi snúist á hvolf og framfærslukostnaður hans hafi margfaldast án nokkurra aðgerða af hans hálfu.

Skuldari hefur lagt fram ítarlega greiðsluáætlun í samræmi við 2. mgr. 63. gr. c laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009.

Skuldari er skráður eigandi fasteignarinnar að [...] sem er 79 fm íbúð, að verðmæti 20.250.000 kr., samkvæmt Fasteignaskrá Íslands. Heildartekjur skuldara eru 134.321 kr., samkvæmt greiðsluáætlun, í formi atvinnuleysisbóta.

Samningskröfur samkvæmt greiðsluáætlun eru skuldir við Íslandsbanka, Arion banka, Avant hf., Danske bank, Barclays bank og Barclaycard. Heildarsamningskröfur skuldara nema 28.217.600 kr., að meðtöldum dráttarvöxtum, og þar af eru 3.699.900 kr. gjaldfallnar og í vanskilum. Aðrar kröfur vegna íbúðar skuldara nema rúmlega 41 milljón kr.

Greiðslugeta, að teknu tilliti til framfærslukostnaðar, afborgana vegna íbúðarhúsnæðis og annarra útgjalda, er neikvæð um 90.279 kr. samkvæmt greiðsluáætlun.

Skuldari kveðst ekki hafa gripið til neinna ráðstafana sem riftanlegar væru samkvæmt lögum nr. 21/1991.

Forsendur og niðurstaða

Leitað er greiðsluaðlögunar samkvæmt lögum nr. 24/2009 um breytingu á lögum nr. 21/1991.

Því er lýst í beiðni að umsækjandi sé menntaður [...] frá [...] auk þess sem hann sé með [...] frá Þ. Undanfarin ár hafi hann fengist við ýmis störf tengd [...]. Á árunum 2002-2006 hafi hann starfað hjá [...]fyrirtækinu [...] í Æ. Hann hafi starfað í Ö við [...] og önnur verkefni fram til ársins 2008 og þá hafi tekið við starfi og verkefnum tengd uppbyggingu fyrirtækis í Þ. Fjárhagserfiðleika skuldara megi að langmestu leyti rekja til þess að starf og verkefni sem hann tók að sér í Þ hafi brugðist. Hann hafi flutt búferlum til Þ með fjölskyldu sína, þ.e. konu og tvö börn, með skriflegan samning sem hafi kveðið á um að skuldari fengi greitt fyrir vinnu sína og þar með ætti hann að geta staðið undir rekstri fjölskyldu sinnar og sínum skuldbindingum. Hann hafi hins vegar aldrei fengið greitt fyrir vinnu sína.

Í beiðni skuldara kemur fram að verulegur hluti skulda hans sé tilkominn vegna framfærslu fjölskyldu hans í Þ. Hann og eiginkona hans hafi verið mjög tekjulítil þar sem erfiðlega hafi gengið að fá greitt líkt og áður var rakið. Þau hafi því fjármagnað líf fjölskyldunnar, þ.e. leigu á íbúð, bifreið og matarkaup, með lánsfé. Skuldari hafi ávallt litið svo á að hann ætti tekjur í vændum sem myndu standa undir þeim skuldbindingum sem hann réðst í. Af gögnum málsins má sjá að á árunum 2008 og 2009 hafi uppsafnast um 10 milljón kr. skuld í formi yfirdrátta, lána og kreditkortanotkunar sem, samkvæmt beiðni, hafi verið notaðar til að framfleyta skuldara og fjölskyldu hans í Þ.

Því er lýst í beiðni að skuldari hafi átt hlutabréf í [...] og að sú hlutabréfaeign hafi verið metin á u.þ.b. €300.000 (rúmar 50 milljónir ISK miðað við gengi dagsins í dag) fyrri hluta árs 2007. Hann hafi fengið nokkur tilboð í þennan hlut en að árið 2009 hafi félagið orðið gjaldþrota og þessi eign hans orðið að engu.

Á skattframtölum skuldara fyrir árin 2007 til 2010, tekjuárin 2006 til 2009, kemur fram að skuldari hafði 218.736 kr. í árstekjur árið 2006, 411.200 kr. árið 2007, 190.316 kr. árið 2008 og 908.190 kr. árið 2009.

Þegar litið er til ofangreindra skattframtala kemur í ljós að tekjur skuldara hafa verið afar lágar undanfarin ár. Ekki liggja fyrir gögn sem sýna fram á aðrar tekjur. Engu að síður stofnaði skuldari til umtalsverðra skulda á árunum 2008 og 2009. Ekki verður talið að samningur sá, sem skuldari gerði við hina [...] aðila, hafi verið næg trygging fyrir tekjum hans á meðan á dvöl hans stóð í Þ. Þess utan verður hlutabréfaeign hans í [...] ekki talin næg trygging fyrir þeirri miklu skuldasöfnun sem átti sér stað á þessum tíma. Hlutabréfakaup teljast ávallt til áhættufjárfestingar og hafði skuldari ekki selt þessa eign sína þegar hann hélt út til Þ. 

Þegar tekið er mið af tekjum skuldara samkvæmt skattframtölum áranna 2009 til 2010, fyrir tekjuárin 2008 til 2009, verður að telja að skuldari hafi með þeirri miklu skuldasöfnun sem átti sér stað á árunum 2008 og 2009 hagað fjármálum sínum á verulega ámælisverðan hátt. Hann hafi tekið fjárhagslega áhættu sem ekki var í samræmi við fjárhagsstöðu sína á þeim tíma er til þeirrar fjárhagsskuldbindingar var stofnað, sbr. 2. tl. 1. mgr. 63. gr. d laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009. Skuldari hafði afar lágar tekjur þegar hann stofnaði til þessara skuldbindinga. Þar af leiðandi er ljóst að til skulda var stofnað á þeim tíma er skuldari var greinilega ófær um að standa við fjárhagsskuldbindingar sínar, sbr. 3. tl. 1. mgr. 63. gr. d sömu laga.

Með vísan til þess er að ofan hefur verið rakið, sbr. 2. og 3. tl. 1. mgr. d laga nr. 21/1991, sbr. lög nr. 24/2009 um greiðsluaðlögun samningskrafna, er það niðurstaða dómsins að ekki verði hjá því komist að hafna beiðni skuldara um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar. 

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Ú r s k u r ð a r o r ð

Hafnað er beiðni A um heimild til að leita nauðasamnings til greiðsluaðlögunar.