Hæstiréttur íslands

Mál nr. 174/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjárnám


                                     

Miðvikudaginn 2. apríl 2014.

Nr. 174/2014.

 

Sigurður Guðjónsson og

Hildur Eiríksdóttir

(Sigurður Sigurjónsson hrl.)

gegn

Björk Sigurðardóttur

(Hilmar Magnússon hrl.)

 

Kærumál. Fjárnám.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumanns um að stöðva aðfarargerð B gegn S og H.

 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson.

Sóknaraðilar skutu málinu til Hæstaréttar með kæru 5. mars 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2014, þar sem felld var úr gildi ákvörðun sýslumanns 15. apríl 2013 um að stöðva aðfarargerð varnaraðila gegn sóknaraðilum. Um kæruheimild er vísað til 3. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðilar krefjast þess að staðfest verði ákvörðun sýslumanns um að stöðva áðurgreinda aðför. Þá krefjast þau málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eins og greinir í hinum kærða úrskurði eru bókanir af hálfu sýslumanns við fyrirtöku 15. apríl 2013 ekki svo glöggar sem skyldi. Af endurritum verður þó ráðið að ákveðið hafi verið að fjárnám í eignum sóknaraðila skyldi ekki ná fram að ganga, sbr. 27. laga nr. 90/1989. Varnaraðili krafðist þegar í stað úrlausnar héraðsdóms um þessa ákvörðun og bar að leysa úr ágreiningnum eftir 14. kafla laganna. Þetta leiðir þó ekki til þess að hinn kærði úrskurður verði ómerktur. Með þessari athugasemd en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Sóknaraðilar verða dæmdir til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar, Sigurður Guðjónsson og Hildur Eiríksdóttir, greiði óskipt varnaraðila, Björk Sigurðardóttur, 250.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2014.

                Mál þetta, sem barst héraðsdómi með bréfi sóknaraðila 7. júní 2013, var þingfest 27. september 2013 og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 28. janúar sl.          Sóknaraðili er Björk Sigurðardóttir, Hlyngerði 3 í Reykjavík.

                Varnaraðilar eru Sigurður Guðjónsson og Hildur Eiríksdóttir, bæði til heimilis að Háaleitisbraut 103 í Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess aðallega að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 15. apríl 2013 um að synja beiðni hennar um endurupptöku aðfarargerðar hjá varnaraðilum, sem fram fór 14. febrúar 2013, verði felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að halda gerðinni áfram. Til vara krefst sóknaraðili þess að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 15. apríl 2013, um að „stöðva gerðina þar sem skilyrði fyrir aðför eru ekki til staðar“ og ljúka henni þar með, verði felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að halda gerðinni áfram. Þá krefst hún málskostnaðar að viðbættum virðisaukaskatti.

                Varnaraðilar krefjast þess að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 15. apríl 2013 um að stöðva gerðina, þar sem skilyrði fyrir aðför voru ekki til staðar, verði staðfest. Þá krefjast þau þess að staðfest verði með úrskurði heimild þeirra til skuldajafnaðar við kröfu sóknaraðila, samkvæmt yfirlýsingu um skuldajöfnuð, dags. 22. febrúar 2013. Þá krefjast þau málskostnaðar að teknu tilliti til virðisaukaskatts.

I

                Með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 11. apríl 2012 í máli nr. E-1191/2011 og dómi Hæstaréttar Íslands 19. desember 2012 í málinu nr. 308/2012 voru varnaraðilar dæmd til að greiða sóknaraðila málskostnað, samtals að fjárhæð 1.250.000 krónur. Í málinu var leyst úr ágreiningi aðila um eignarrétt að fasteigninni Neðri-Þverá í Húnaþingi Vestra. Málskostnaðurinn var ekki greiddur og sóknaraðili krafðist aðfarar hjá varnaraðilum með beiðni, dags. 7. janúar 2013, til Sýslumannsins í Reykjavík. Aðfararbeiðnin var tekin fyrir hjá sýslumanni 14. febrúar 2013. Lögmaður varnaraðila mætti við aðfarargerðina og lagði fram mótmæli gegn beiðninni. Kom þar fram að varnaraðilar teldu sóknaraðila fyrst þurfa að ganga til uppgjörs við þau vegna greiðslu þeirra á ýmsum kostnaði vegna fasteignar þeirrar er ágreiningur aðila laut að í framangreindu dómsmáli. Sóknaraðili hafnaði þeirri kröfu og taldi það ekki vera skilyrði fyrir fjárnámi, enda væri um flókið uppgjör milli aðila að ræða, þar sem hún ætti háar fjárkröfur á hendur varnaraðilum. Skuldajöfnuði var ekki lýst yfir á þessu stigi málsins, en sóknaraðili féll frá kröfu um innheimtuþóknun. Við aðfarargerðina var að ábendingu varnaraðila gert fjárnám í fasteign þeirra að Háaleitisbraut 103, Reykjavík. Sóknaraðili taldi það ekki nægja til tryggingar kröfunni að fullu þar sem áhvílandi lán væru hærri en fasteignamat íbúðarinnar, en varnaraðilar höfðu tveimur dögum áður þinglýst handhafatryggingarbréfi á eignina að fjárhæð 5.000.000 króna. Að ábendingu sóknaraðila var einnig gert fjárnám í eignarhlut varnaraðila í hesthúsi A-tröð 6 í Víðidal, Reykjavík, og var gerðinni þannig lokið.

                Þegar sóknaraðili hugðist þinglýsa fjárnáminu kom í ljós að gerðarþolar höfðu afsalað hesthúsinu til annarra barna sinna en sóknaraðila þann 11. febrúar 2013. Var afsalið dagbókarfært 12. febrúar 2013, en innfært í þinglýsingabók 13. mars 2013. Af þessum sökum óskaði sóknaraðili eftir endurupptöku aðfarargerðarinnar með beiðni 14. febrúar 2013. Lögmanni varnaraðila var tilkynnt um endurupptöku aðfarargerðarinnar með tölvupósti 19. sama mánaðar. Lögmaðurinn staðfesti boðun sýslumanns, en með tölvupósti 21. sama mánaðar tilkynnti hann sýslumanni að varnaraðilar hefðu leitað til annars lögmanns. Voru varnaraðilar þá sjálf boðuð og fyrirhuguð endurupptaka ákveðin 1. mars 2013. Sýslumaður frestaði fyrirtökunnar til 13. sama mánaðar. Við þá fyrirtöku voru lögð fram gögn af hálfu beggja aðila og málinu við svo búið frestað. Þann 5. apríl 2013 var beiðnin tekin fyrir á ný. Lögmaður varnaraðila lagði þá fram bókun þar sem þess var krafist að hafnað yrði kröfu sóknaraðila um fjárnám vegna yfirlýsingar varnaraðila um skuldajöfnuð. Sóknaraðili hafnaði skuldajafnaðarkröfu varnaraðila. Var gerðinni þá frestað og málið tekið fyrir á ný 15. sama mánaðar. Ákvað fulltrúi sýslumanns þá að stöðva gerðina þar sem hann taldi skilyrði aðfarar ekki vera til staðar og lýsti því að gerðinni væri lokið. Af hálfu sóknaraðila var lýst yfir kæru til héraðsdóms og barst mál þetta með bréfi sóknaraðila 7. júní 2013.

II

                Sóknaraðili kveður kröfu sínu um úrlausn um aðfarargerð aðallega reista á 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, en til vara á 1. mgr. 85. gr. laganna. Kröfugerð hennar sé því marki brennd að ekki sé ljóst af bókunum sýslumanns hvort gerðinni hafi verið lokið með synjun á endurupptöku fjárnámsins frá 14. febrúar 2013 og því geti sóknaraðili leitað úrlausnar héraðsdóms eftir ákvæðum 15. kafla laganna eða hvort gerðin hafi verið stöðvuð í skilningi 27. gr. laganna og því sæti sú ákvörðun endurskoðun dómstóla eftir 14. kafla.

                Sóknaraðili byggir kröfur sínar á því að hún eigi efalausa og dæmda fjárkröfu á hendur varnaraðilum sem sé tæk til fjárnáms, enda hafi þau ekki borið brigður á réttmæti og fjárhæð kröfunnar. Varnaraðilar telji hins vegar að þau eigi ódæmdar fjárkröfur á hendur henni sem þau geti skuldajafnað við kröfu hennar þannig að hún teljist greidd. Sóknaraðili sé ósammála því. Hún telji skilyrðum skuldajöfnuðar ekki fullnægt, hvorki almennum skilyrðum, né skilyrðum samkvæmt 40. gr. laga nr. 90/1989, sem við eigi í málinu. Því beri sýslumanni að taka gerðina upp að nýju.

                Sóknaraðili hafi hafnað kröfu varnaraðila um skuldajöfnuð. Hún telji kröfuna ekki eiga við rök að styðjast. Ljóst sé að meint gagnkrafa varnaraðila sé ódæmd og því ekki aðfararhæf, líkt og 40. gr. laga nr. 90/1989 áskilji. Hvað hitt skilyrðið áhræri hafi sóknaraðili ekki á neinn hátt talið að meintar kröfur varnaraðila geti talist gjaldkræfar og hvað þá réttmætar. Ekkert loforð um greiðslu þessara gagnkrafna liggi fyrir í málinu eða að af þeim skuli greiða dráttarvexti og innheimtukostnað, enda hafi þær verið greiddar í óþökk sóknaraðila, eins og komi fram í gögnum dómsmáls aðila.

                Það hafi ekki verið að ástæðulausu sem sóknaraðili hafi tekið fram í stefnu að væntanlegt uppgjör milli aðila væri flókið og umfangsmikið. Það sé þekkt í málum af þessum toga að ýmsar afleiddar kröfur komi fram sem ganga þurfti til uppgjörs á, líkt og reyni á í riftunarmálum. Uppgjörsmál vegna riftana samninga hafi margoft komið til kasta dómstóla, einmitt vegna ágreinings um réttmæti og fjárhæð krafna, sem af slíkum riftunum leiði. Sóknaraðili telji sig eiga verulegar fjárkröfur á hendur varnaraðilum vegna tilrauna þeirra til að sölsa undir sig eign hennar, fyrir utan sannanlegar fjárkröfur sem studdar séu gögnum. Yfirlýsingu sóknaraðila beri að skoða í þessu ljósi.

                Sóknaraðili vísi til skjals frá varnaraðilum þar sem fram komi að þau telji aðila verða að ganga til uppgjörs áður en hægt sé að krefjast fjárnáms. Sóknaraðili telji fjarstæðukennt að dómur sem sé aðfararhæfur hafi á einhvern hátt verið skilyrtur með þeim hætti, en ekkert sé kveðið á um það í dómsorði. Dómurinn sé aðfararhæfur í sjálfu sér. Hvers væntanlegt uppgjör leiði til viti sóknaraðili ekki eða hvort leita þurfi til dómstóla til þess að fá niðurstöðu í því máli. Það verði hins vegar ekki gert við fyrirtöku hjá sýslumanni, enda hafi sýslumaður ekki dómsvald.

                Sóknaraðili telji sig eiga verulegar fjárkröfur á hendur varnaraðilum, sem þeim hafi verið kunnugt um allt frá upphafi málsins. Ítrekað hafi verið gerður áskilnaður um innheimtu þeirra krafna, sem verði leyst úr í væntanlegu uppgjörsmáli, innan eða utan réttar. Varnaraðilar hafi vitað um þessar kröfur, enda fjallað um þær í bréfaskiptum lögmanna aðila vegna ágreinings um eignarhald á sumarhúsi, sem mál þetta sé sprottið af. Þær kröfur hafi verið settar fram af hálfu sóknaraðila áður en stefna málsins hafi verið útbúin. Varnaraðilar geti ekki komið sér hjá uppgjöri við sóknaraðila með þeim hætti sem þau freisti í þessu máli.

                Þessu til viðbótar sé ekki fullnægt ákvæðum 40. gr. laga nr. 90/1989, sem við eigi í þessu máli þar sem beðist hafi verið endurupptöku fjárnáms sem fram hafi farið 14. febrúar 2013, án þess að þá eða fyrir þann tíma hafi verið lýst yfir skuldajöfnuði. Réttur varnaraðila til skuldajöfnuðar sé bundinn við það að krafa hans sé orðin aðfararhæf eða að sóknaraðili viðurkenni hana rétta. Hvorugt eigi við í þessu tilfelli og því hafi sýslumanni ekki verið rétt að synja endurupptöku gerðarinnar.

                Af gögnum málsins megi greina að kröfur varnaraðila séu allar ódæmdar og því ekki aðfararhæfar. Sóknaraðili hafi ekki viðurkennt kröfurnar, enda telji hún stóran hluta þeirra ekki eiga við rök að styðjast, eins og dráttarvexti, innheimtuþóknun og greiðslu vegna lána og fasteignagjalda, þar sem varnaraðilar verði sjálfir að taka áhættuna af því að hafa greitt þær kröfur í óþökk sóknaraðila, í þeim tilgangi einum að reyna að sölsa undir sig eign sóknaraðila. Að minnsta kosti liggi engin slík viðurkenning fyrir sem greinin áskilji. Skorti því á skilyrði fyrir beitingu hennar. Greinin eigi við þar sem fram komin yfirlýsing um skuldajöfnuð hafi ekki komið fram fyrr en löngu eftir fjárnám hjá varnaraðilum 14. febrúar 2013. Þá hefði jafnframt verið krafist endurupptöku og lögmaður varnaraðila fengið boðun sýslumanns vegna hennar áður en fram komin yfirlýsing um skuldajöfnun hafi verið sett fram.

                Yfirlýsing varnaraðila um skuldajöfnuð geti ekki skapað þeim betri rétt, þar sem krafa sóknaraðila hafi beinst að endurupptöku fjárnámsgerðar sem hafi verið framkvæmd 14. febrúar 2013 vegna atvika sem varnaraðilar hafi vitað um.

                Með vísan til alls ofangreinds sé þess krafist að sýslumanni verði falið að taka upp að nýju fjárnámsgerðina frá 14. febrúar 2013 og halda henni áfram.

                Sóknaraðili vísi aðallega til 15. kafla laga nr. 90/1989, en til vara til 14. kafla laganna, verði talið að um ágreining sé að ræða sem risið hafi við framkvæmd aðfarargerðar. Þá sé vísað til 40. gr. og 9. kafla laganna um endurupptöku fjárnámsgerðar, svo og til almennra reglna kröfuréttar um skuldajöfnuð og strangra lagaskilyrða til beitingar hans við framkvæmd aðfarar.

III

                Varnaraðilar byggja kröfu sína á því að sóknaraðili hafi viðurkennt skuld sína við þau með yfirlýsingu lögmanns hennar í stefnu fyrir dómi undir rekstri ágreiningsmáls milli þeirra um eignarhald á jörðinni Neðri-Þverá. Þetta komi fram í stefnu og jafnframt í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur í málinu nr. E-1191/2011. Kröfur varnaraðila séu til komnar af greiðslum vegna jarðarinnar. Fyrir liggi að varnaraðilar hafi eignast gagnkröfu á hendur sóknaraðila eftir úrlausn Hæstaréttar, en þá fyrst hafi þau getað haft uppi kröfu til skuldajafnaðar. Þau hafi verið í góðri trú um að þau væru réttir eigendur að jörðinni Neðri-Þverá. Þau hafi greitt alla skatta og skyldur af eigninni eins og hún væri þeirra eign. Við yfirfærslu eignarheimildar til sóknaraðila hafi greiðsluskylda færst til hennar og skylda myndast til endurgreiðslu á öllum greiðslum varnaraðila af umræddri jörð.

                Sóknaraðili hafi lýst því yfir að hún viðurkenndi greiðsluskyldu eðli máls samkvæmt, ef til þess kæmi að henni yrði dæmdur eignarréttur að jörðinni Neðri-Þverá. Það sé haldlaust fyrir sóknaraðila að bera það fyrir sig nú að engri viðurkenningu sé til að dreifa eða greiðsluskyldu gagnvart varnaraðilum. Hið gagnstæða liggi fyrir með órækum hætti í málsskjölum sem stafi frá sóknaraðila sjálfri.

                Samkvæmt 40. gr. laga nr. 90/1989 sé heimilt að neyta réttar til skuldajafnaðar við kröfu sóknaraðila með kröfu sem hún viðurkenni rétta ef almennum skilyrðum er fullnægt. Varnaraðilar telji ljóst að öll skilyrði séu til staðar, en fyrir liggi viðurkenning sóknaraðila á kröfum varnaraðila, um samrættar kröfur sé að ræða og kröfur varnaraðila séu hærri en kröfur sóknaraðila.

                Yfirlýsing varnaraðila um skuldajöfnuð gegn fjárnámskröfu sóknaraðila leiði til þess að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðilum sé þegar fallin niður, líkt og hún hefði verið greidd. Eins og síðar verði vikið að hafi sýslumaður, með endurupptöku, fellt niður aðfarargerð frá 14. febrúar 2013. Sóknaraðili hafi haft uppi kröfu um aðför 15. apríl 2013. Yfirlýsing varnaraðila um skuldajöfnuð hafi þá verið fram komin og höfð uppi af þeirra hálfu. Varnaraðilar hafi lýst yfir skuldajöfnuði samkvæmt 40. gr. laga nr. 90/1989 þegar framkvæma hafi átt fjárnámið. Það hafi haft þau áhrif í senn að krafa sóknaraðila hafi talist greidd og krafa varnaraðila á hendur sóknaraðila verið niður fallin að því marki sem fjárhæðir krafnanna hafi mæst. Eins og hér hátti til gæti í reynd engra annarra áhrifa af gerðinni, enda líði réttarsamband aðilanna undir lok við framkvæmd gerðarinnar að því leyti sem skuldajöfnuður ráði niðurlögum krafna þeirra. Við úrlausn sýslumanns hafi komið fram að sýslumaður hafi staðreynt kröfurnar tölulega og efnislega, ásamt kvittunum og öðrum gögnum sem lögð séu fram til grundvallar kröfum varnaraðila. Sýslumaður hafi komist að þeirri niðurstöðu að krafan væri réttmæt og tæk til skuldajafnaðar. Krafa sóknaraðila við fjárnám 14. febrúar 2013 hafi verið að fjárhæð 1.345.152 krónur. Engin rök séu fyrir því að auka við kröfurnar við beiðni um endurupptöku fjárnámsins. Krafa varnaraðila lækki því um þá fjárhæð, eða úr 1.962.676 krónum í 617.524 krónur, auk vaxta. Krafa sóknaraðila hafi þannig í reynd verið greidd með gagnkröfu varnaraðila og aðfararheimild þar með fallið niður.

                Sóknaraðili hafi ekki andmælt kröfum varnaraðila tölulega, en haldið því fram að skuldajöfnuði verði ekki við komið, auk þess sem sóknaraðili eigi ef til vill kröfur á hendur varnaraðilum vegna annarra viðskipta. Varnaraðilar andmæli þessum rökum sem tilhæfulausum.

                Aðalkrafa sóknaraðila um að ákvörðun sýslumanns um synjun á endurupptökubeiðni verði felld úr gildi sé óskiljanleg. Það sé rangt að sýslumaður hafi synjað beiðni um endurupptöku. Sýslumaður hafi fallist á kröfu um endurupptöku fjárnáms, sem gert var 14. febrúar 2013, og tekið upp gerðina að nýju að kröfu sóknaraðila með vísan til 2. og 6. töluliðar 66. gr. laga nr. 90/1989. Gerðin frá 14. febrúar 2013 hafi því verið felld niður og aðfararandlög leyst undan fjárnámi. Þegar af þessum ástæðum sé ekki unnt að fallast á aðalkröfu sóknaraðila.

                Þá sé varakröfu sóknaraðila einnig áfátt. Eins og sjá megi af endurriti úr gerðabók sýslumanns sé bókað að gerðinni hafi verið lokið. Þeirri gerð verði ekki haldið áfram eins og hér sé gerð krafa um, hvorki með dómsúrskurði né öðrum hætti. Krafa sóknaraðila um úrlausn héraðsdóms sé sögð reist á 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989, en til vara við 1. mgr. 85. gr. laganna. Ljóst megi vera að 1. mgr. 85. gr. geti ekki átt við þar sem gerðinni hafi verið lokið þegar ákvörðun hafi verið tekin um að kæra ákvörðun sýslumanns.

                Varnaraðilar byggi kröfu um greiðslu málskostnaðar úr hendi sóknaraðila á XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Þá sé vísað til laga nr. 50/1988 um virðisaukaskatt, en varnaraðilar séu ekki virðisaukaskattskyldir.

IV

                Sóknaraðili krafðist úrlausnar héraðsdómara um aðfarargerð með kröfu sem móttekin var 7. júní 2013. Í málinu er í raun um að ræða tvö mál Sýslumannsins í Reykjavík, mál nr. 011-2013-1818 og 011-2013-1819. Varnaraðilum var gefið hvorum sitt málnúmerið, en bókanir eru sams konar. Ekki er ágreiningur um að krafa sóknaraðila lúti að ákvörðun sýslumanns í málum með báðum framangreindum málnúmerum.

                Sóknaraðili byggir kröfu sína aðallega á 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, en til vara á 1. mgr. 85. gr. sömu laga. Kveðst hún haga máli sínu á þennan hátt þar sem ekki sé ljóst af bókunum sýslumanns hvort gerðinni hafi verið lokið með synjun á endurupptöku fjárnámsins frá 14. febrúar 2013 eða hvort gerðin hafi verið stöðvuð í skilningi 27. gr. laganna.

                Í endurriti úr gerðabók Sýslumannsins í Reykjavík frá 15. apríl 2013 segir: „... og er það ástæða þess að aðfarargerðin er endurupptekin í samræmi við 2. og 6. tl. 66. gr. afl. Er tilgreint hesthús og tilgreind eign því leyst undan fjárnámi hér með.“ Neðar kemur fram að fyrir liggi beiðni sóknaraðila um endurupptöku aðfarargerðar. Þá segir að fulltrúi sýslumanns ákveði að stöðva gerðina þar sem skilyrði fyrir aðför séu ekki til staðar. Gerðinni sé því lokið.

                Með hliðsjón af framangreindu þykir ljóst að aðfarargerðin frá 14. febrúar 2013 var endurupptekin. Eignir þær er teknar höfðu verið fjárnámi voru þá leystar undan því. Þrátt fyrir að fram komi síðar í bókuninni að fyrir liggi beiðni um endurupptöku verður það ekki skilið á þann hátt að beiðni um endurupptöku hafi verið hafnað að hluta. Með hliðsjón af framangreindu verður aðalkröfu sóknaraðila, um að ákvörðun um að synja beiðni um endurupptöku aðfarargerðar hjá varnaraðilum verði felld úr gildi, vísað frá dómi.

                Fulltrúi sýslumanns taldi skilyrði aðfarar ekki vera fyrir hendi og stöðvaði gerðina. Því næst var bókað að gerðinni væri lokið. Verður talið að sóknaraðila hafi samkvæmt 1. mgr. 92. gr. laga nr. 90/1989 verið heimilt að bera málið undir héraðsdómara innan átta vikna frá því að gerðinni var lokið. Þeirri aðfarargerð sem hér um ræðir lauk 15. apríl 2013 og var krafa sóknaraðila um úrlausn dómsins móttekin 7. júní 2013.

                Ágreiningur aðila lýtur að því hvort skilyrði skuldajafnaðar hafi verið uppfyllt og rétt hafi verið að stöðva aðfarargerðina af þeim sökum. Samkvæmt 40. gr. laga nr. 90/1989 er gerðarþola heimilt að neyta réttar til skuldajafnaðar við kröfu gerðarbeiðanda með kröfu, sem orðin er aðfararhæf, eða kröfu, sem gerðarbeiðandi viðurkennir rétta, ef almennum skilyrðum skuldajafnaðar er fullnægt.

                Varnaraðilar byggja á því að öllum almennum skilyrðum til skuldajafnaðar sé fullnægt, enda séu kröfurnar samrættar og snúi að greiðslum vegna jarðarinnar Neðri-Þverár sem deilt hafi verið um í dómsmáli aðila. Óumdeilt er að almenn skilyrði skuldajafnaðar eru uppfyllt. Þá er óumdeilt að krafa varnaraðila er ekki orðin aðfararhæf. Varnaraðilar byggja hins vegar á því að sóknaraðili hafi viðurkennt kröfuna í skilningi ofangreindrar lagagreinar. Sú viðurkenning komi fram í stefnu dómsmálsins milli aðila. Sóknaraðili hafnar því að slíka viðurkenningu sé að finna í stefnunni.

                Í framangreindri stefnu kemur fram að sóknaraðili lýsi því yfir að nái dómkrafan fram að ganga muni hann ganga frá uppgjöri við varnaraðila vegna greiðslna sem þau hafi innt af hendi og tengist fasteigninni, en þau hafi í óþökk hennar greitt af áhvílandi láni og gjöld af fasteigninni. Þá kemur fram að sóknaraðili telji unnt að fallast á dómkröfu hennar í málinu án þess að jafnframt sé boðið fram uppgjör, enda sé það nokkuð flókið og umfangsmikið. Af þessum ummælum þykir ekki verða ráðið að sóknaraðili hafi viðurkennt ákveðna kröfu varnaraðila. Ljóst er að uppgjör á eftir að fara fram þeirra á milli, en ágreiningur er um hvaða kröfur sóknaraðila ber að greiða varnaraðila. Samkvæmt 40. gr. laga nr. 90/1989 þarf sóknaraðili að viðurkenna kröfu varnaraðila rétta til þess að hægt verði að fallast á skuldajöfnuð. Í því felst óhjákvæmilega að fjárhæð kröfunnar sé ekki andmælt. Fyrir liggur að sóknaraðili andmælti skuldajafnaðarkröfu varnaraðila, meðal annars með bréfi til lögmanns þeirra, dags. 25. febrúar 2013, sem lagt var fram hjá sýslumanni. Kemur þar fram að skuldajöfnuðarkröfu sé hafnað, sérstaklega fjárhæð hennar og kröfum um dráttarvexti og innheimtukostnað. Þá var þar lýst fjárkröfum sóknaraðila á hendur varnaraðilum að upphæð 2.354.221 krónu. Af framangreindu þykir ljóst að sóknaraðili hefur ekki viðurkennt rétta kröfu varnaraðila á hendur henni, þannig að skuldajafna megi við aðfarargerðina, sbr. 40. gr. laga nr. 90/1989.

                Með vísan til alls framangreinds verður fallist á varakröfu sóknaraðila um að ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík, 15. apríl 2013, um að stöðva aðfarargerðina og ljúka henni þar með, verði felld úr gildi og lagt fyrir sýslumann að halda gerðinni áfram.

                Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. laga nr. 90/1989 skal í úrskurði héraðsdómara kveða á um staðfestingu eða ógildingu aðfarargerðar eða um breytingu hennar. Sú krafa varnaraðila að staðfest verði með úrskurði heimild þeirra til skuldajafnaðar við kröfu sóknaraðila, samkvæmt yfirlýsingu um skuldajöfnuð, dags. 22. febrúar 2013, kemur því ekki til álita í málinu.

                Með vísan til framangreindrar niðurstöðu og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 verður varnaraðilum gert að greiða sóknaraðilum málskostnað, sem þykir með hliðsjón af umfangi málsins hæfilega ákveðinn 380.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

                                                               Ú R S K U R Ð A R O R Ð :

                Aðalkröfu sóknaraðila, Bjarkar Sigurðardóttur, er vísað frá dómi.

                Felld er úr gildi ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík 15. apríl 2013, um að stöðva aðfarargerð sóknaraðila gegn varnaraðilum, Sigurði Guðjónssyni og Hildi Eiríksdóttur, í málum nr. 011-2013-01818 og 011-2013-01819.

                Varnaraðilar greiði sóknaraðila 380.000 krónur í málskostnað.