Hæstiréttur íslands

Mál nr. 120/2014


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Réttindaröð
  • Veðréttindi
  • Skuldajöfnuður
  • Lagaskil


                                     

Fimmtudaginn 8. maí 2014.

Nr. 120/2014.

De Nederlandsche Bank N.V.

(Heiðar Ásberg Atlason hrl.)

gegn

LBI hf.

(Kristinn Bjarnason hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Réttindaröð. Veðréttindi. Skuldajöfnuður. Lagaskil.

Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var að viðurkenna við slit L hf. stöðu kröfu D, seðlabanka Hollands, í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og heimild til að skuldajafna kröfunni gegn innstæðu á reikningi L hf. hjá D. Krafan var reist á innstæðu L hf. á svokölluðum HAM-innlánsreikningi sem stofnaður var í tilefni af því að útibúi L hf. í Hollandi var komið á fót. Vorið 2008 gerðu aðilar með sér samkomulag þar sem meðal annars var kveðið á um að skyldi L hf. verða ófær um að greiða innstæður yfirtæki D rétt innstæðueigenda að því marki sem hann hefði greitt kröfur þeirra eftir þeim reglum sem um það giltu. Hóf L hf. í kjölfarið að taka við innlánum á svonefnda Icesave reikninga í Hollandi. Í október 2008 tilkynnti L hf. að bankanum væri ókleift að fullnægja skuldbindingum sínum gagnvart innstæðueigendum vegna þrenginga á lánsfjármörkuðum. Í kjölfarið stóð D þeim sem voru með Icesave reikninga í útibúi L hf. í Hollandi skil á innstæðunum. Samhliða því fékk D framsal frá hverjum þeirra fyrir kröfum á hendur L hf. Þá millifærði D einnig innstæðu á HAM-innlánsreikningi L hf. yfir á svonefndan DIA-reikning.  D lýsti síðan kröfu við slit L hf. og hélt því fram að samkvæmt þeim skilmálum sem giltu um HAM-reikning L hf. hefði stofnast veð í innstæðu L hf. vegna krafna D á hendur L hf. Í dómi Hæstaréttar var ekki fallist á að hafna bæri kröfu D á þeim grundvelli að kröfulýsing hefði verið ófullnægjandi eða að ósamræmi gætti milli hennar og kröfugerðar D í málinu. Þá skipti ekki máli þótt fjárhæð innstæðunnar hefði ekki verið nákvæmlega tilgreind í kröfulýsingunni en þar hafði beinlínis komið fram að byggt væri á því að veðrétturinn tæki til innstæðunnar allrar. Ekki var ágreiningur milli aðila um að leysa bæri eftir hollenskum lögum úr ágreiningi um hvort D ætti veð til tryggingar kröfu sinni. Í dómi Hæstaréttar kom fram að engar einhlítar ályktanir yrðu dregnar af þeim álitsgerðum sem lagðar höfðu verið fram um það hvort stofnast hefði veðréttur í innstæðunni samkvæmt hollenskum lögum. Hefði D því ekki sannað hvert væri efni þeirra hollensku lagareglna sem á reyndi við mat á þessu atriði. Var því hafnað að fjárkröfu D við slit L hf. yrði skipað í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 að því marki sem henni yrði fullnægt með innstæðunni. Þá var talið að D brysti heimild til að skuldajafna kröfu sinni á hendur L hf. við kröfu hans vegna innstæðunnar hjá D. Vísað var til þess að við slit L hf. færi eftir íslenskum lögum og því yrði skuldajöfnuði gagnvart honum ekki lýst yfir við slitin nema fullnægt væri skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, enda varð ekki talið að vikið hefði verið frá þeim reglum með 1. mgr. 104. gr., sbr. j. lið 12. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Þar sem krafa D hafði ekki stofnast fyrr en löngu eftir það tímamark sem áskilið var samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 var skilyrðum skuldajafnaðar ekki fullnægt. Var hinn kærði úrskurður því staðfestur. 

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason, Helgi I. Jónsson og Þorgeir Örlygsson og Gunnlaugur Claessen fyrrverandi hæstaréttardómari.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 6. febrúar 2014, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2014 þar sem hafnað var að viðurkenna við slit varnaraðila stöðu kröfu sóknaraðila í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. og heimild til að skuldajafna kröfunni gegn innstæðu á reikningi varnaraðila hjá sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans um fyrrgreinda stöðu í réttindaröð við slitin verði viðurkennd á grundvelli veðréttar í innstæðu að fjárhæð 20.283.022,65 evrur á reikningi varnaraðila hjá sóknaraðila. Til vara krefst sóknaraðili þess að viðurkennt verði að honum sé heimilt að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila gegn innstæðunni. Í báðum tilvikum krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Samkvæmt ákvörðun Hæstaréttar var málið munnlega flutt 29. apríl 2014.

I

 Varnaraðili, sem hafði starfsleyfi sem viðskiptabanki, tilkynnti Fjármálaeftirlitinu með bréfi 6. mars 2006 að ákveðið hefði verið að stofna útibú bankans í Amsterdam í Hollandi. Fyrst um sinn var aðeins gert ráð fyrir útlánastarfsemi í útibúinu en síðar var ákveðið að það tæki einnig við innlánum. Í tilefni af því að útibúinu var komið á fót og til að fullnægja kröfum bókunar um seðlabankakerfi Evrópu og Seðlabanka Evrópu og reglugerðar Evrópuráðsins nr. 2531/98 um að hafa lágmarks varasjóð hjá Seðlabanka Evrópu stofnaði varnaraðili svonefndan HAM-innlánsreikning hjá sóknaraðila 12. desember 2006 og lagði 15. sama mánaðar inn á hann rúmlega 3.000.000 evrur.

Í tengslum við breytingu á bankakerfi sóknaraðila gáfu aðilar út 13. nóvember 2007 sameiginlega yfirlýsingu um samkomulag þess efnis að frá 18. febrúar 2008, þegar fyrrnefnd breyting tæki gildi, skyldu öll lagaleg tengsl varnaraðila við sóknaraðila ráðast af skilmálum og verklagsreglum sem fram kæmu í HAM-skilmálum, almennum skilmálum sóknaraðila og handbók um stefnu í efnahags- og peningamálum, eins og þessi skjöl hljóðuðu síðarnefndan dag eða hvaða dag sem væri eftir það og birt yrðu á vefsíðu sóknaraðila.

Hinn 23. maí 2008 gerðu aðilar með sér samning vegna útibúsins um aðild varnaraðila að innstæðutryggingakerfi Hollands. Í honum fólst að veitt yrði trygging umfram tryggingu hér á landi eftir lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta þannig að innstæður í útibúi varnaraðila í Hollandi nytu sömu tryggingaverndar og innstæður í hollenskum innlánsstofnunum. Í samningnum kom meðal annars fram að varnaraðili samþykkti, ef hann yrði ófær um að greiða innstæður, að sóknaraðili yfirtæki rétt innstæðueigenda að því marki sem hann hefði greitt kröfur þeirra eftir þeim reglum sem um það giltu. Skömmu eftir gerð þessa samnings hóf varnaraðili að taka við innlánum á svonefnda Icesave reikninga í Hollandi.

Samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008, tók Fjármálaeftirlitið 7. október 2008 yfir vald hluthafafundar í varnaraðila, vék stjórn hans frá og setti yfir hann skilanefnd. Varnaraðili var tekinn til slita í samræmi við lög nr. 44/2009, þar sem breytt var nokkrum ákvæðum laga nr. 161/2002. Miðaðist upphaf þeirra við 22. apríl 2009 þegar lögin tóku gildi, en frestdagur við slitin var 15. nóvember 2008. Hinn 29. apríl 2009 skipaði Héraðsdómur Reykjavíkur varnaraðila slitastjórn og degi síðar gaf hún út innköllun til skuldheimtumanna félagsins. Fresti til að lýsa kröfum lauk 30. október sama ár.

Hinn 8. október 2008 birti varnaraðili á vefsíðu útibúsins í Hollandi tilkynningu til þeirra sem áttu innstæðu á Icesave reikningum um að varnaraðila væri ókleift að fullnægja gagnvart þeim skuldbindingum sínum sem innlánsstofnun vegna þrenginga á lánsfjármörkuðum. Sama dag var tilkynningin birt í hollenskum dagblöðum.

Að tilhlutan sóknaraðila skipaði héraðsdómur í Amsterdam 13. október 2008 skiptastjóra yfir útibúi varnaraðila í 18 mánuði eða til 13. apríl 2010. Sami dómstóll úrskurðaði í mars það ár að skipunin yrði ekki framlengd og færðist forræðið þá til skilanefndar og slitastjórnar varnaraðila.

Hinn 9. október 2008 millifærði sóknaraðili þá innstæðu sem var á fyrrnefndum HAM-innlánsreikningi varnaraðila yfir á svonefndan DIA-reikning en fjárhæðin nam þá 20.269.720,04 evrum. Innstæða á þeim reikningi nam 13. sama mánaðar 20.283.022,65 evrum að meðtöldum vöxtum, en frá þeim tíma mun hún ekki hafa borið vexti. Skiptastjórar útibúsins fóru þess á leit 16. þess mánaðar að innstæðan yrði greidd útibúinu en þeirri beiðni synjaði varnaraðili með bréfi 4. nóvember sama ár.

Sóknaraðili mun á tímabilinu frá 12. desember 2008 til 10. apríl 2009 hafa staðið þeim sem voru með Icesave reikninga í útibúi varnaraðila í Hollandi skil á innstæðum og samhliða því fengið framsal frá hverjum þeirra fyrir kröfum á hendur varnaraðila.

II

Með bréfi 19. október 2009 lýsti sóknaraðila kröfu við slit varnaraðila. Höfðustóll hennar nam 1.635.873.676,03 evrum auk þess sem krafist var vaxta, sem reiknaðir voru út miðað við mismunandi vaxtafót í aðal- og varakröfum, og innheimtukostnaðar. Kröfunni var lýst sem forgangskröfu við slitin, sbr. 112. gr. laga nr. 21/1991, auk þess sem krafist var stöðu í réttindaröð samkvæmt 111. gr. sömu laga að því er varðaði innstæðu á HAM-reikningi varnaraðila hjá sóknaraðila. Þá var þess krafist að lýst krafa kæmi til skuldajafnaðar við innstæðuna á reikningnum að fjárhæð 20.000.000 evrur.

Í kröfuskrá varnaraðila var nær allur höfuðstóll kröfu sóknaraðila tekinn til greina auk þess sem fallist var á að krafan nyti stöðu í skuldaröð samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Varnaraðili hafnaði hins vegar kröfum sóknaraðila um vexti og innheimtukostnað. Þá reis að öðru leyti ágreiningur um kröfuna við slitin þar sem fjárhæð hennar og stöðu í skuldaröð sem forgangskröfu var andmælt af fjölda kröfuhafa. Úr þeim ágreiningi var leyst með dómi Hæstaréttar 28. október 2011 í máli nr. 341/2011, en þar var krafan að fjárhæð 282.301.014.008 krónur viðurkennd við slitin og henni skipað í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Við slit varnaraðila var í upphafi ekki tekin afstaða til kröfu sóknaraðila um að hann ætti veðrétt í innstæðu á HAM-reikningi varnaraðila eða að honum væri heimilt að skuldajafna kröfu sinni gegn innstæðunni. Þau atriði komu því ekki til úrlausnar í fyrrgreindu dómsmáli. Með bréfi varnaraðila 17. febrúar 2010 var bæði hafnað að sóknaraðili ætti veðrétt í innstæðunni og að honum væri heimilt að skuldajafna kröfu sinni gegn henni. Þeirri afstöðu til kröfunnar mótmælti sóknaraðili með bréfi 16. mars sama ár og var haldinn kröfuhafafundur 22. sama mánaðar til að freista þess að jafna ágreininginn. Sú viðleitni bar ekki árangur og því var ágreiningurinn lagður fyrir dóm með bréfi varnaraðila 28. mars 2010 á grundvelli 2. mgr. 120. gr. og 171. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 102. gr. laga nr. 161/2002.

III

Varnaraðili telur að leggja verði til grundvallar að kröfugerð í málinu eigi að svara til kröfulýsingar sóknaraðila, enda standi ekki heimild til að auka við kröfuna að liðnum kröfulýsingarfresti. Kröfulýsing sóknaraðila hafi miðað við að hann ætti veðrétt í HAM-reikningi varnaraðila eða gæti skuldajafnað gegn innstæðu á reikningnum. Þegar kröfunni var lýst hafi sóknaraðila hins vegar verið kunnugt um að engin innstæða var á HAM-reikningnum, enda hefði hann sjálfur millifært hana á annan reikning í nafni varnaraðila. Þetta hafi með engu móti komið fram í kröfulýsingunni og þar hafi heldur ekki verið byggt á því að sóknaraðili hafi innheimt veðsetta kröfu með því að millifæra fjármuni af HAM-reikningi yfir á DIA-reikning. Telur varnaraðili að þegar af þessari ástæðu sé ekki unnt að viðurkenna veðrétt yfir reikningi sem hafi enga innstæðu og því sé sá réttur fallinn niður hafi hann á annað borð verið fyrir hendi. Af þessu leiði jafnframt að hugsanlegur veðréttur í fjármunum sem voru á reikningnum eða innstæðu á öðrum reikningi hafi fallið niður fyrir vanlýsingu. Jafnframt bendir varnaraðili á að í kröfulýsingunni hafi komið fram að innstæða á HAM-reikningnum hafi verið 20.000.000 evrur en í kröfugerð hans í málinu sé miðað við hærri fjárhæð eða 20.283.022,65 evrur.

Í kröfulýsingu sóknaraðila og í kröfugerð hans fyrir dómi er byggt á því að hann hafi öðlast veðrétt í þeirri innstæðu sem var á HAM-reikningi varnaraðila til 9. október 2008. Jafnframt reisir sóknaraðili málatilbúnað sinn á því að millifærsla af þeim reikningi yfir á annan reikning hafi helgast af þeim sama veðrétti. Að þessu gættu verður ekki fallist á það með varnaraðila að kröfulýsing hafi í þessu tilliti verið ófullnægjandi eða að ósamræmi gætti milli hennar og kröfugerðar sóknaraðila í málinu. Þá skiptir ekki máli þótt fjárhæð innstæðunnar hafi ekki verið nákvæmlega tilgreind í kröfulýsingunni en þar kemur beinlínis fram að byggt sé á því að veðrétturinn taki til hennar allrar. Samkvæmt þessu verður kröfum sóknaraðila ekki hafnað af þessum ástæðum.

IV

    Krafa sóknaraðila um stöðu fjárkröfu sinnar í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 er reist á því að hann hafi öðlast veðrétt í innstæðu á HAM-reikningi varnaraðila hjá sóknaraðila. Til stuðnings þessu vísar sóknaraðili til sameiginlegrar yfirlýsingar aðila 13. nóvember 2007 um samkomulag þar sem varnaraðili hafi fallist á að frá og með 18. febrúar 2008 færu lagaleg tengsl þeirra eftir skilmálum og verklagsreglum sem fram kæmu í HAM-skilmálum og almennum skilmálum sóknaraðila. Í fyrrgreindu skilmálunum segir í 1. málsgrein 18. greinar að sóknaraðili skuli eiga veð í núverandi og síðari innstæðu HAM-reikningseiganda á slíkum reikningi hans, en þar með séu veðtryggðar allar núverandi og síðari kröfur sem stofnast í lagalegum tengslum aðilanna. Einnig segir í 1. málsgrein 8. greinar almennu skilmálanna að allar eignir sem bankinn hafi umráð yfir eða fái frá eða fyrir gagnaðila í sérhverju sambandi, teljist vera andlag veðs til tryggingar öllum kröfum á hendur gagnaðila sem sóknaraðili eigi eða kunni að eiga í sérhverju sambandi. Samkvæmt 2. málsgrein sömu greinar stofnist veðið í hverju tilfelli þegar viðkomandi eign komist í vörslur sóknaraðila eða þriðja aðila fyrir hans hönd. Þá leiðir af 3. málsgrein þessarar greinar að sóknaraðili hafi heimild til að veðsetja sjálfum sér allar kröfur gagnaðila á hendur sóknaraðila að því marki sem veð sé ekki þegar fyrir hendi samkvæmt 1. málsgrein. Þá er tekið fram í 25. grein almennu skilmálanna að um lagaleg tengsl sóknaraðila og gagnaðila fari eftir hollenskum lögum.

Sóknaraðili heldur því fram að samkvæmt hollenskum lögum sé innstæða varnaraðila skráð krafa hans en veðréttur eftir þeim reglum geti stofnast með tilkynningu (birtur veðréttur) eða án tilkynningar (óbirtur veðréttur). Lögmætur birtur veðréttur stofnist með skriflegum gerningi og tilkynningu frá veðhafa eða veðþola til skuldara veðsettrar kröfu. Telur sóknaraðili að þessi skilyrði séu fyrir hendi enda þurfi ekki tilkynningu til skuldara eftir hollenskum rétti þegar hann og veðhafi séu einn og sami aðilinn eins og hér eigi við. Til stuðnings þessum málatilbúnaði hefur sóknaraðili aflað álitsgerða frá hollenskum lögmanni sem jafnframt er prófessor í lögum.

Varnaraðili tekur undir með sóknaraðila að leysa beri eftir hollenskum lögum úr ágreiningi um hvort sóknaraðili eigi veð til tryggingar kröfu sinni. Varnaraðili heldur því hins vegar fram að ekki sé fullnægt skilyrðum hollenskra einkamálalaga (Burgerlijk Wetboek) fyrir stofnun veðs og jafnvel þótt það hafi stofnast hafi sá réttur fallið niður þegar innstæðan var færð af HAM-reikningnum yfir á annan reikning. Til stuðnings þessu hefur varnaraðili aflað álitsgerða frá hollenskum lögmanni, en þar kemur meðal annars fram að samkvæmt hollenskum lögum stofnist veðréttur í kröfu skráðri á nafn að tilgreindum skilyrðum fullnægðum. Samkvæmt þeim þurfi að vera fyrir hendi sameiginlegur vilji veðhafa og veðsala um stofnun veðs, stofna þurfi veðið með gildri skuldbindingu, veðsali verði að vera hæfur til að ráðstafa eigninni, tilgreina þurfi hana og eignin þurfi að vera þess eðlis að hún verði sett að veði, auk þess sem undirrita verði veðskjal. Að áliti lögmannsins fullnægi fyrrgreind yfirlýsing 13. nóvember 2007 ekki þeim áskilnaði að geta talist veðskjal en á það skorti að skjalið hafi að geyma viðhlítandi tilvísun í skilmála sóknaraðila sem mæli fyrir um veðsetninguna. Jafnframt er bent á að Hæstiréttur Hollands hafi í dómi 26. janúar 1973 (NJ 1973, 219 Pierson/Belastingdienst) komist að þeirri niðurstöðu að veðréttur hafi ekki stofnast í innstæðu þegar veðsali hafi getað ráðstafað henni, en það hafi átt við um HAM-reikning varnaraðila allt þar til sóknaraðili millifærði innstæðuna á annan reikning 9. október 2008. Um fordæmisgildi þessa dóms er ágreiningur með aðilum í ljósi þess að hann gekk í tíð eldri einkamálalaga.

Varnaraðili vísar einnig til þess að í 1. málsgrein 18. greinar HAM-skilmálanna komi fram að veðið taki til krafna sem stofnist vegna lagalegra tengsla aðilanna. Telur varnaraðili að þetta verði að skýra í ljósi 1. málsgreinar 2. greinar skilmálanna um gildissvið þeirra þar sem segir að þeir gildi um lagaleg tengsl milli sóknaraðila og eiganda HAM-reiknings sem verði til eða tengist eignarhaldi á HAM-reikningi. Því telur varnaraðili, að teknu tilliti til takmarkaðs tilgangs HAM-reikninga í tengslum við starfrækslu bankakerfis sóknaraðila, að hugsanlegt veð lúti aðeins að þeim tilgangi þessara reikninga og því geti veðið ekki staðið til tryggingar kröfu sóknaraðila vegna framsals á innstæðum á Icesave reikningum í útibúi varnaraðila í Hollandi. Í þeim álitsgerðum sem varnaraðili hefur aflað er komist að sömu niðurstöðu. Þá telur varnaraðili að almennir skilmálar sóknaraðila að því er varðar veðsetningu geti ekki átt við enda beri að beita HAM-skilmálunum ef ósamræmi sé milli þeirra og almennu skilmálanna, sbr. 3. málsgrein 2. greinar fyrrnefndu skilmálanna.

Í öndverðu lét nokkur hópur kröfuhafa við slit varnaraðila mál þetta til sín taka en féll frá aðild sinni að málinu í ljósi dóms Hæstaréttar 15. apríl 2011 í máli nr. 142/2011. Áður höfðu þeir lagt fram álitsgerð hollensks lögmanns þar sem komist var að þeirri niðurstöðu að óljóst væri samkvæmt hollenskum lögum hvort yfirlýsingin frá 13. nóvember 2007 teljist vera gilt veðskjal og hvort hollenskir dómstólar kæmust að þeirri niðurstöðu að hún ásamt HAM-skilmálunum fullnægði nauðsynlegum skilyrðum fyrir stofnun gilds veðréttar. Þá var komist að þeirri niðurstöðu í þessari álitsgerð að almennir skilmálar sóknaraðila ásamt yfirlýsingunni nægði ekki til að stofna gildan veðrétt.

Svo sem hér hefur verið rakið er ágreiningslaust með aðilum að hollenskar lagareglur gildi í löskiptum þeirra. Verður því að leysa úr ágreiningi um hvort sóknaraðili eigi veð til tryggingar kröfu sinni á grundvelli þeirra, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 43/2000 um lagaskil á sviði samningaréttar. Samkvæmt 2. mgr. 44. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá sem ber fyrir sig erlenda réttarreglu leiða tilvist hennar og efni í ljós. Sóknaraðili reisir kröfu sína um að fjárkröfu hans verði skipað í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 á því að hann hafi eftir hollenskum lagareglum öðlast veðrétt í innstæðu á HAM-reikningi varnaraðila. Sökum þess að sóknaraðili ber fyrir sig erlenda réttarreglur hvílir sönnunarbyrðin á honum um tilvist og efni þeirra reglna.

Í stað þess að afla matsgerðar um tilvist og efni þeirra hollensku lagareglna sem á reynir í málinu um þann veðrétt sem sóknaraðili telur sig eiga hefur hann freistað þess að axla sönnunarbyrði sína með því að fá lögmann og lagaprófessor til að taka saman álitsgerðir um efnið. Andspænis þeim standa álitsgerðir lögmanna sem lagðar hafa verið fram í málinu af varnaraðila og kröfuhöfum við slitin, sem upphaflega áttu aðild að því, en þar var komist að gagnstæðri niðurstöðu um efni þessara reglna. Af þessum gögnum verða engar einhlítar ályktanir dregnar um hvort stofnast hafi veðréttur í innstæðunni sem var á HAM-reikningi varnaraðila og sóknaraðili millifærði 9. október 2008 á annan reikning hjá sér í nafni varnaraðila. Sóknaraðili hefur því ekki sannað hvert sé efni þeirra hollensku lagareglna sem á reynir við mat á því hvort fyrir hendi sé veðréttur í innstæðunni. Af þeim sökum verður að hafna því að fjárkröfu hans við slit varnaraðila verði skipað í réttindaröð samkvæmt 111. gr. laga nr. 21/1991 að því marki sem henni yrði fullnægt með innstæðunni.

V

Eins og áður er rakið er ágreiningslaust með aðilum að hollenskar lagareglur gildi í lögskiptum þeirra. Á þeim grundvelli telur sóknaraðili að hann hafi heimild til að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila gegn þeirri innstæðu sem hinn síðarnefndi átti á HAM-reikningi hjá sóknaraðila. Þetta leiði af ákvæðum fyrrgreindra HAM-skilmála og almennra skilmála sóknaraðila sem vísað sé til í sameiginlegri yfirlýsingu aðila 13. nóvember 2007 um samkomulag. Varnaraðili telur aftur á móti að þær formreglur sem gildi um slitin samkvæmt íslenskum rétti girði fyrir skuldajöfnuð þótt hann fari að efni til eftir hollenskum lögum.

Í 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 segir að sömu reglur gildi við slit fjármálafyrirtækis og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að það sé tekið til slita leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga. Samkvæmt þessu á 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 við um heimild kröfuhafa til að lýsa yfir skuldajöfnuði við slitin gagnvart kröfu fjármálafyrirtækis á hendur honum, en meðal skilyrða þess ákvæðis er að kröfuhafi hafi eignast kröfu sína áður en þrír mánuðir voru til frestdags.  

Samkvæmt 1. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002 skal ákvörðun dómstóls hér á landi um slit lánastofnunar sem hefur staðfestu og starfsleyfi á Íslandi ná sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðru ríki sem á aðild að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið. Skal fara að íslenskum lögum um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna. Í 1. mgr. þeirrar greinar kemur fram að heimild dómstóls hér á landi til greiðslustöðvunar eða til að leita nauðasamnings fyrir lánastofnun taki sjálfkrafa til allra útibúa sem stofnunin starfrækir í öðru aðildarríki. Þá segir í 2. mgr. sömu greinar að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar skuli fara að íslenskum lögum með þeim frávikum sem talin séu upp í a. til n. liðum ákvæðisins. Samkvæmt j. lið skulu samningar um skuldajöfnuð fara eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gilda.

Af framansögðu leiðir að um skuldajöfnuð við slit fjármálafyrirtækis fer eftir samningi aðila en þegar honum sleppir gilda lög þess ríkis sem eiga við um samninginn. Það veltur því á þeim hvernig hann fer fram, en í þeim efnum er ýmist að lög ríkja geri ráð fyrir að kröfur falli niður sjálfkrafa þegar þær geta mæst eða að lýsa verði yfir skuldajöfnuði, sem getur þá haft áhrif með yfirlýsingunni eða verið afturvirkur frá því kröfur gátu mæst hvað greiðslutíma varðar. Frá slíkum almennum reglum er síðan vikið við ákveðnar aðstæður með því að þrengja eða rýmka rétt til skuldajafnaðar. Að því leyti sem hér hefur verið rakið fer um heimild sóknaraðila til að skuldajafna gagnvart innstæðu varnaraðila hjá honum eftir hollenskum lögum. Það breytir því þó ekki að slit varnaraðila fara eftir íslenskum lögum og því verður skuldajöfnuði gagnvart honum ekki lýst yfir við slitin nema fullnægt sé skilyrðum 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991, enda verður ekki talið að vikið hafi verið frá þeim reglum með 1. mgr. 104. gr., sbr. j. lið 2. mgr. 99. gr., laga nr. 161/2002. Ef víkja átti frá þeim reglum hefði þurft að koma ótvírætt fram þar sem slíkt hefði getað valdið því að kröfuhöfum væri mismunað við slitin eftir því hvaða reglur giltu um skuldajöfnuð, en jafnræði kröfuhafa er grundvallarregla við slit fjármálafyrirtækja á sama veg og við gjaldþrotaskipti. Verður með engu móti ráðið af lögskýringagögnum að slíkt hafi staðið til þegar j. liður 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 var lögfestur með lögum nr. 130/2004.  

Svo sem áður greinir var frestdagur við slit varnaraðila 15. nóvember 2008. Því þurfti sóknaraðili að eignast kröfu sína á hendur varnaraðila 15. ágúst sama ár, sbr. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili telur það leiða af almennum reglum kröfuréttar að krafa hans á hendur varnaraðila hafi stofnast 23. maí 2008 þegar samningur komst á um aðild varnaraðila vegna útibús hans að innstæðutryggingakerfi Hollands. Þegar sá samningur var gerður hafði varnaraðili ekki hafið móttöku innlána á Icesave reikninga í útibúinu og fer því fjarri að nokkrar kröfur á hendur honum hafi getað stofnast á þeim grundvelli. Samkvæmt því eignaðist sóknaraðili ekki kröfu sína á hendur varnaraðila er samningurinn komst á heldur við það að inna af hendi greiðslu til þeirra sem áttu innstæður á reikningum hjá varnaraðila. Þær greiðslur munu fyrst hafa farið fram undir árslok 2008 eða löngu eftir 15. ágúst það ár. Því brestur hann heimild samkvæmt 1. mgr. 100. gr. laga nr. 21/1991 til að skuldajafna kröfu sinni á hendur varnaraðila við kröfu hans vegna innstæðunnar hjá sóknaraðila. Af þeim sökum verður þeirri kröfu hans hafnað og hinn kærði úrskurður staðfestur.

Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.gmarkstryggingu eftir ka lámfram  innleftir það og birt yrðu

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, De Nederlandsche Bank N.V., greiði varnaraðila, LBI hf., 1.000.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 23. janúar 2014.

I.

Mál þetta, sem þingfest var 11. júní 2010, var tekið til úrskurðar 19. desember sl. Sóknaraðili er De Nederlandsche Bank N.V. en varnaraðili er LBI hf., sem áður hét Landsbanki Íslands hf. 

Sóknaraðili krefst þess aðallega að viðurkennd verði krafa hans skv. 111. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., eins og henni var lýst í bú varnaraðila, sbr. lið 24 í kröfulýsingu sóknaraðila, þ.e. að veðréttur sóknaraðila yfir innstæðu varnaraðila á reikningi hjá sóknaraðila að fjárhæð 20.283.022,65 evrur, til tryggingar öllum skuldum varnaraðila gagnvart sóknaraðila, nú að fjárhæð rúmlega 1,6 milljarðar evra, verði viðurkenndur.

Til vara er þess krafist að krafa hans, eins og henni var lýst í bú varnaraðila, sbr. lið 26 í kröfulýsingu, þ.e. að réttur til að skuldajafna innstæðu varnaraðila á reikningi hjá sóknaraðila, sem á rætur að rekja til framsals krafna hollenskra Icesave-innstæðueigenda, sem lýst var skv. 112. gr. laga nr. 21/1991, verði viðurkennd.

Að auki er þess krafist, bæði í aðalkröfu og varakröfu, að sóknaraðila verði dæmdur málskostnaður, auk virðisaukaskatts af málskostnaði, úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað og að honum verði dæmdur málskostnaður að skaðlausu úr hendi sóknaraðila samkvæmt mati dómsins.

                                                                                            

II.

Með bréfi, dags. 6. mars 2006, tilkynnti varnaraðili Fjármálaeftirlitinu um fyrirhugaða stofnun og starfsemi útibús bankans í Hollandi. Til að uppfylla kröfur bókunar um seðlabankakerfi Evrópu og Seðlabanka Evrópu og reglugerðar Evrópuráðsins nr. 2531/98 um lágmarks varasjóð opnaði varnaraðili reikning hjá sóknaraðila hinn 12. desember 2006, svokallaðan HAM-innlánsreikning, og lagði inn á hann 3.054.545,46 evrur. Frá stofndegi reikningsins til 18. febrúar 2008 notaði sóknaraðili svokallað TOP-bankakerfi en skipti yfir í svokallað TARGET-bankakerfi 18. febrúar 2008. Í tengslum við þá breytingu skrifaði varnaraðili undir yfirlýsingu hinn 13. nóvember 2007 og kemur þar fram að frá og með 18. febrúar 2008 skuli öll lagaleg tengsl þessara aðila ráðast af skilmálum fyrir eigendur HAM-reikninga, almennum skilmálum sóknaraðila og handbók um stefnu í efnahags- og peningamálum eins og þessi skjöl hljóði 18. febrúar 2008 og verði birt á vefsíðu sóknaraðila.

Hinn 7. október 2008 beitti Fjármálaeftirlitið heimild stjórnvalda samkvæmt 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., til að taka yfir starfsemi Landsbanka Íslands hf. Skipaði Fjármálaeftirlitið þá skilanefnd til að taka við stjórn bankans. Í samræmi við ákvæði laga nr. 44/2009 var bankinn tekinn til slita og miðaðist upphaf slitameðferðar við gildistöku laganna 22. apríl 2009. Í kjölfarið var bankanum skipuð slitastjórn 29. apríl sama ár. Samkvæmt ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002, sbr. lög nr. 44/2009, gilda í meginatriðum reglur laga nr. 21/1991 um slitameðferð fjármálafyrirtækja, þar á meðal um meðferð krafna á hendur slíku fyrirtæki.

Hinn 13. október 2008 skipaði héraðsdómur í Amsterdam skiptastjóra yfir útibúi varnaraðila í Amsterdam. Var skipunin til 18 mánaða, eða til 13. apríl 2010. Sami dómstóll úrskurðaði í mars 2010 að skipunin yrði ekki framlengd og hefur forræði yfir útibúinu því færst yfir til skilanefndar og slitastjórnar varnaraðila.

Sóknaraðili millifærði innstæðuna á HAM-reikningnum yfir á svokallaðan DIA-reikning hjá sóknaraðila með reikningsnúmerið 0600199975 hinn 9. október 2008. Skiptastjórar í útibúi varnaraðila í Amsterdam fóru hinn 16. október 2008 fram á það við sóknaraðila að innstæðan á reikningnum, 20.283.022,65 evrur, að meðtöldum áföllnum vöxtum til 13. október 2008, yrði greidd til búsins en þeirri beiðni var hafnað.

Hinn 30. apríl 2009 gaf slitastjórn varnaraðila út innköllun til kröfuhafa og lauk kröfulýsingarfresti á miðnætti 30. október 2009. Sóknaraðili lýsti kröfu sem mál þetta varðar hinn 19. október 2009. Um rétthæð kröfunnar var í kröfulýsingu vísað til 111. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. á grundvelli lýsts veðréttar í innstæðu á tilgreindum HAM-innlánsreikningi varnaraðila hjá sóknaraðila til tryggingar tilgreindri fjárkröfu, en til vara á grundvelli lýsts réttar til skuldajöfnunar. Kom fram að varnaraðili hefði lagt 20.000.000 evra inn á HAM-innlánsreikning og vísað til yfirlýsingar varnaraðila, dags. 13. nóvember 2008, og skilmála fyrir eigendur HAM-reikninga, almennra skilmála sóknaraðila og handbókar um stefnu í efnahags- og peningamálum, sem vísað er til í framangreindri yfirlýsingu. Slitastjórn varnaraðila ákvað að hafna umræddri kröfu varnaraðila og var tilkynning þess efnis send í bréfi, dags. 17. febrúar 2010. Sóknaraðili mótmælti þeirri afstöðu slitastjórnarinnar með bréfi, dags. 22. sama mánaðar, og rökstuddi þau mótmæli frekar með bréfi, dags. 16. mars 2010. Í því skyni að reyna að jafna ágreining aðila, í samræmi við fyrirmæli 2. mgr. 120. gr. laga nr. 21/1991, var haldinn skiptafundur 22. mars sama ár. Ekki tókst að jafna ágreininginn á fundinum og ákvað slitastjórn varnaraðila þá að beina ágreiningsefninu til úrlausnar héraðsdóms í samræmi við ákv. 171. gr., sbr. 2. mgr. 120. gr., framangreindra laga.

III.

Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt 1. mgr. 3. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, skuli beita þeim lögum sem aðilar hafi valið um réttarsamband þeirra. Varnaraðili hafi ritað undir yfirlýsingu um samþykki fyrir því að skilmálar sóknaraðila, sem lúti hollenskum lögum, myndu gilda um réttarsamband þeirra. Verði ekki annað séð en að ágreiningslaust sé með aðilum að hollensk lög gildi um veðréttinn, bæði hvað varði stofnun hans og réttaráhrif. Samkvæmt 18. gr. skilmála fyrir eigendur HAM-reikninga og 8. gr. almennra skilmála sóknaraðila hafi sóknaraðili skýran veðrétt, eins og vísað sé til í gr. 3:227, 2. mgr. í gr. 3:236 og 1. mgr. í gr. 3:94 í hollensku einkamálalögunum, meðal annars í innstæðu varnaraðila á HAM-reikningnum, eins hún standi á hverjum tíma.

Samkvæmt hollenskum lögum geti veðréttur yfir viðskiptakröfum stofnast með tvennum hætti, annars vegar með tilkynningu (birtur veðréttur) og hins vegar án tilkynningar (óbirtur veðréttur). Birtur veðréttur stofnist með skriflegum veðgerningi og tilkynningu frá veðhafa eða veðþola til skuldara veðsettu kröfunnar um gerð veðgernings. Í þessu máli feli yfirlýsing um samþykki, ásamt almennum skilmálum sóknaraðila og skilmálum fyrir eigendur HAM-reikninga, í sér skriflegan veðgerning. Samkvæmt hollenskum lögum sé litið á innstæðu á bankareikningi sem skráða kröfu reikningseiganda gagnvart bankanum. Varnaraðili eigi því kröfu á hendur sóknaraðila vegna innstæðu sinnar. Þar sem sóknaraðili sé einnig skuldari veðsettu kröfunnar feli yfirlýsing um samþykki einnig í sér tilkynningu til skuldarans.

Veðið standi til tryggingar núverandi kröfum og kröfum sem sóknaraðili kunni síðar að eignast á hendur varnaraðila, meðal annars kröfum sem sóknaraðili hafi eignast við framsal krafna frá innstæðueigendum á Icesave-reikningum varnaraðila í Hollandi og samþykktar hafi verið sem forgangskröfur við slit varnaraðila. Sé á því byggt að þær kröfur rúmist að öllu leyti innan hugtaksins „lagaleg tengsl“, sem vísað sé til í 1. og 2. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 18. gr. HAM-skilmálanna. Beri að túlka framangreint hugtak þannig að um sé að ræða öll lagaleg tengsl milli aðilanna. Jafnvel þótt komist væri að þeirri niðurstöðu að veðrétturinn sé takmarkaður við samskipti sem rísi vegna eða séu tengd við HAM-reikning varnaraðila séu skilyrðing uppfyllt. Varnaraðili hafi opnað HAM-reikning sinn til að uppfylla kröfur bókunar um seðlabankakerfi Evrópu og Seðlabanka Evrópu og reglugerðar nr. 2531/98 um lágmarks varasjóð, þar sem hann hafi tekið við innstæðum á Icesave-reikninga í Hollandi. Séu þess vegna lagaleg tengsl þar í milli. Ekkert ósamræmi sé milli 8. gr. almennu skilmálanna og 18. gr. HAM-skilmálanna, eins og varnaraðili haldi fram. Þvert á móti myndi þeir heild skv. 2. mgr. 2. gr. HAM-skilmálanna.

Á því sé og byggt að millifærsla innstæðu á HAM-reikningi varnaraðila yfir á DIA-reikning hafi engin áhrif haft á veðrétt sóknaraðila. Hafi hún því hvorki leitt til loka kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila né heldur afléttingar veðs sóknaraðila í skilningi gr. 3:81 í hollensku einkamálalögunum. Engu máli hafi því skipt í þessu tilliti að ekki hafi verið innstæða á HAM-reikningnum þegar sóknaraðili hafi lýst kröfu við slitameðferð varnaraðila á grundvelli 111. gr. laga nr. 21/1991.

Samkvæmt hollenskum lögum geti fullnusta veðréttar vegna skráðrar kröfu farið fram með því að selja kröfuna eða með því að innheimta hana. Veðhafinn verði að millifæra hagnaðinn yfir á sérgreindan reikning, í þeim tilvikum sem veðhafi sé banki hafi veðhafinn heimild til að innheimta hagnaðinn í gegnum reikning sem skráður sé í bókhaldi hans. Eftir að krafa tryggð með veðrétti verði gjaldkræf og greiðanleg megi veðhafi gera upp kröfu sína með hagnaðinum án þessa að tilkynna veðþola það áður. Með því að millifæra peningana yfir á annan reikning hafi sóknaraðili í raun verið að innheimta kröfu varnaraðila, sem orðið hafi til vegna innstæðu á HAM-reikningnum, og sé honum hvenær sem er heimilt að gera upp kröfu sína. Þannig sé veðrétti sóknaraðila breytt í veðrétt í fjárhæðinni á grundvelli 5. mgr. gr. 3:246 í hollensku einkamálalögunum.

Jafnvel þótt sóknaraðili verði ekki talinn hafa innheimt kröfu sína með fullnægjandi hætti á þeim tímapunkti sé réttur hans enn til staðar eftir færsluna og einnig veðréttur hans skv. 8. gr. almennu skilmálanna. Kröfur reikningseiganda gagnvart bankanum séu ekki ákveðnar á grundvelli þess hvernig bankinn meðhöndli kröfuna heldur hvernig hin undirliggjandi lagalegu tengsl séu. HAM-skilmálarnir innihaldi ekki ákvæði um að kröfur varnaraðila falli niður og að nýjar kröfur stofnist ef sóknaraðili flytur fjárhæðina yfir á annan bankareikning. Það þýði að veðréttur sóknaraðila yfir kröfum varnaraðila, sem stofnist vegna innstæðu á HAM-reikningnum, sé enn til staðar þrátt fyrir að sóknaraðili hafi fært kröfuna yfir á annan bankareikning

Sóknaraðili kveðst byggja varakröfu sína, þ.e. rétt sinn til að skuldajafna innstæðu varnaraðila við skuld varnaraðila gagnvart honum, á 11. gr. almennra skilmála sóknaraðila, 18. gr. skilmála fyrir eigendur HAM-reikninga og 104. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Hafnað sé þeirri málsástæðu varnaraðila að sóknaraðili hafi eignast gagnkröfur sínar eftir frestdag og fullnægi því ekki skilyrðum 100. gr. gjaldþrotaskiptalaga nr. 21/1991.

Samkvæmt 104. gr. laga nr. 161/2002 skuli fara að íslenskum lögum um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar slitastjórnar fjármálafyrirtækis, sem hafi staðfestu og starfsleyfi á Íslandi, með þeim takmörkunum sem greini í 2. mgr. 99. gr. laganna. Í j-liðar 2. mgr. 99. gr. laganna, sem innleitt hafi 23. gr. tilskipunar nr. 2001/24/EB, komi fram að samningur um skuldajöfnuð fari eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gildi.

Fyrir liggi að varnaraðili hafi samþykkt almenna skilmála sóknaraðila og HAM-skilmálana, en hollensk lög gildi um þá báða skv. 25. gr. almennu skilmálanna.

HAM-skilmálarnir kveði skýrt á um að gagnkvæmum skuldbindingum HAM- reikningseiganda og sóknaðila skuli sjálfkrafa skuldajafnað og að sá aðili sem skuldi hærri upphæð skuli greiða hinum mismuninn, óháð því hvort gjaldþrotaskipti séu hafin hjá HAM-reikningseiganda. Enn fremur veiti almennu skilmálarnir sóknaraðila heimild til að skuldajafna fjárhæðum sem sóknaraðili geti fengið frá gagnaðilanum við fjárhæðir sem gagnaðili geti fengið frá sóknaraðila hvenær sem er, óháð því hvort þær séu gjaldfallnar eða óskilyrtar.

Af framangreindu megi leiða að skilyrðin sem komi fram í 100. gr. laga nr. 21/1991 eigi ekki við um rétt sóknaraðila til að skuldajafna þar sem á grundvelli j-liðs 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 fari samningur um skuldajöfnuð eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gildi. Í þessu máli veiti ofangreindir skilmálar, sem fari eftir hollenskum lögum, sóknaraðila skýran rétt til skuldajafnaðar. Lög nr. 161/2002 séu sérlög að þessu leyti gagnvart lögum nr. 21/1991 og gangi því klárlega framar að því er varði skilyrði til skuldajöfnunar í tengslum við slit varnaraðila

IV.

Varnaraðili tekur í upphafi fram að óumdeilt sé að við úrlausn ágreinings aðilanna gildi hollensk lög, sbr. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 43/2000, um lagaskil á sviði samningaréttar, en þeir skilmálar sem um sé deilt í málinu kveði á um að hollensk lög gildi. Þá sé ekki ágreiningur um að íslenskar réttarfarsreglur laga nr. 91/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. gildi um slitameðferð varnaraðila að öðru leyti en því að deilt sé um hvort 100. gr. laganna eigi að koma til álita í ágreiningi aðila.

Bent er á að sá munur sé á kröfugerð sóknaraðila í kröfulýsingu og í greinargerð hans í máli þessu að í kröfulýsingunni sé krafist veðréttar í innstæðu á HAM-reikningi að fjárhæð 20.000.000 evra og skuldajöfnunar vegna innstæðu að sömu fjárhæð en í greinargerðinni sé vísað til innstæðu á reikningi varnaraðila hjá sóknaraðila og þá með hærri fjárhæð en í kröfulýsingu. Eins og kröfugerðinni hafi verið háttað, og með hliðsjón af framsetningu kröfugerðar í greinargerð, beri að líta svo á að sóknaraðili geri sömu kröfu og hann hafi gert í kröfulýsingu, enda hafi honum ekki verið heimilt að bæta við þá kröfu.

Verði ekki á þetta fallist sé á því byggt að veðréttur hafi ekki stofnast með gildum og bindandi hætti gagnvart varnaraðila í HAM-reikningi hans hjá sóknaraðila þar sem ekkert þeirra skilyrða sem hollensk lög áskilji að séu uppfyllt til að svo megi verða hafi verið til staðar. Til staðar þurfi að vera eindreginn ásetningur veðhafa og veðsala fyrir veðsetningunni og undirritun veðsamnings, þar sem skýrt sé kveðið á um að veðsali setji veðhafa að veði tilgreint veðandlag. Sé tilurð innstæðunnar á HAM-reikningnum athuguð, eins og hún sé sett fram af hálfu sóknaraðila, komi í ljós að varnaraðili hafi verið að skipta úr svokölluðu TOP-bankakerfi yfir í TARGET-kerfi. Sú yfirlýsing sem sóknaraðili telji fela í sér skriflegan veðsamning geti ekki falið í sér eindreginn ásetning varnaraðila til að veðsetja beinlínis þá innstæðu sem um ræði. Með yfirlýsingunni hafi einungis verið fallist á að tilgreindir skilmálar ættu að gilda á milli aðila en hvergi sé þar vísað til 18. gr. skilmálanna um HAM-reikninginn og heldur ekki til 8. gr. almennu skilmála sóknaraðila. Enn síður sé veðandlagið sérstaklega skilgreint. 

Auk framangreindra skilyrða þurfi að hafa verið um að ræða skráningu hjá opinberum aðila eða tilkynningu til skuldara veðandlagsins. Óumdeilt sé að ekki sé um það að ræða í málinu að veðið hafi verið skráð opinberri skráningu. Í því felist sú staðreynd að eina leiðin til að veðið teljist gilt samkvæmt hollenskum rétti sé að skuldara veðsettu kröfunnar hafi borist tilkynning um veðsetninguna. Slíkt sé þó óþarfi þegar veðhafi og skuldari veðsettu kröfunnar séu sami aðilinn. Það gildi þó ekki í þeim tilvikum þegar veðsali haldi ráðstöfunarrétti yfir hinu meinta veðandlagi. Telja verði að tilfærsla innstæðunnar af HAM-reikningi yfir á svokallaðan DIA-reikning hafi verið gerð til að svipta varnaraðila ráðstöfunarrétti yfir innstæðunni. Samkvæmt því sé ljóst að sóknaraðili hafi talið varnaraðila hafa ráðstöfunarrétt yfir innstæðunni, enda megi ætla að sóknaraðili hefði ekki þurft að færa innstæðuna yfir á DIA-reikninginn hefði ráðstöfunarrétturinn ekki verið fyrir hendi. Skilyrðið um tilkynningu til skuldara veðsettrar kröfu sé samkvæmt þessu óuppfyllt, sem leiði til þess að hafna beri kröfu sóknaraðila.

Jafnvel þótt talið verði að um gilt veð hafi verið að ræða sé á því byggt að með því að sóknaraðili hafi fært alla innstæðuna af HAM-reikningi varnaraðila hinn 9. október 2008 inn á DIA-reikning í eigu varnaraðila hafi veðrétturinn fallið niður á því tímamarki. Sé það mat varnaraðila að sóknaraðili geti einungis átt veð í innstæðu HAM-reikningsins og sé í því sambandi vísað til orðalagsins réttarsamband (e. legal relationship) sem fram komi í 1. mgr. 18. gr. HAM-skilmálanna. Með hliðsjón af hinum takmarkaða tilgangi HAM-reikningsins og TARGET-bankakerfisins hljóti að verða að túlka hugtakið réttarsamband þannig að einungis sé átt við þau tengsl sem verið hafi á milli aðila í tengslum við HAM-reikninginn. Styðjist það við 2. gr. í sömu skilmálum, sem skilgreini gildissvið þeirra á þann veg að þeir gildi um öll réttarsambönd milli sóknar- og varnaraðila sem verði til eða tengist eignarhaldi á HAM-reikningi. Sérstaklega sé vísað til þess að skilmálar um HAM-reikninginn gangi framar ákvæðum almennu skilmála sóknaraðila þegar ákvæðin stangist á, sbr. 3. mgr. 2. gr. HAM-skilmálanna.

Varnaraðili kveðst hafna þeim skilningi sóknaraðila að það sé venjubundin framkvæmd í bankageiranum að tryggingarréttindi séu veitt fyrir eins mörgum tegundum krafna og mögulegt sé og að takmarka hefði átt tryggingarréttindin hafi aðilar ekki viljað hafa þau þannig að þau stæðu til tryggingar öllum skuldum veðsala við veðhafa á hverjum tíma, líkt og komi fram í 8. gr. almennu skilmálanna. Í reynd hafi tengslin milli aðila einmitt verið takmörkuð með opnun HAM-reikningsins en hins vegar hafi sóknaraðili breytt réttarsambandi milli þeirra þegar innstæðan hafi verið færð inn á DIA-reikninginn. Með því hafi sóknaraðili leitast við að nýta sér víðtækari veðrétt en 18. gr. skilmála um HAM-reikninginn feli í sér. Sé í því sambandi á það bent að samkvæmt áliti sem sóknaraðili hafi lagt fram í málinu hafi ástæða millifærslunnar verið sú að koma í veg fyrir að varnaraðili gæti ráðstafað innstæðunni. Þá sé og ljóst að á þeim tíma sem millifærslan hafi átt sér stað hafi sóknaraðili ekki átt neina kröfu á hendur varnaraðila, sem undir venjulegum kringumstæðum hefði verið forsenda þess að gengið væri að veðinu á umræddum tímapunkti. Af þessu megi ráða að verði talið að sóknaraðili njóti veðréttar í innstæðunni á HAM-reikningnum sé ljóst að hann hafi ekki gengið að veðinu með réttum hætti. Þá sé til þess að líta að fullyrðingar um að gengið hafi verið að veðinu með því að taka alla innstæðuna út af HAM-reikningnum og leggja inn á nýjan reikning varnaraðila séu ekki í samræmi við kröfulýsingu sóknaraðila.

Varðandi varakröfu sóknaraðila vísar varnaraðili til þess að skv. 104. gr. laga nr. 161/2002 skuli um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvarðana við slit lánastofnunar, með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins, fara að íslenskum lögum, með þeim takmörkunum sem greini í 2. mgr. 99. gr. sömu laga. Í j-lið þess ákvæðis segi að um samning um skuldajöfnuð fari eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gildi. Að mati varnaraðila sé í ákvæði þessu einungis verið að vísa til þess að efnisreglur laga þess ríkis sem um samning gildi, í þessu tilviki Hollands, skuli ráða túlkun samnings um skuldajöfnun. Eftir sem áður hljóti að verða að fara eftir þeim formreglum sem ákv. 100. gr. laga nr. 21/1991 feli í sér, þ.e. að sá sem beiti skuldajöfnuði verði að hafa eignast kröfuna þremur mánuðum fyrir frestdag, sem í þessu tilviki 15. nóvember 2008, hvorki hafa vitað né mátt vita að þrotamaður ætti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna.

Reglur um skuldajöfnuð við gjaldþrot í íslenskum rétti séu sérreglur um nokkur skilyrði sem varði form en ekki efni og þrengi rétt til skuldajöfnunar í samanburði við almennar reglur um skuldajöfnuð í kröfurétti. Sem dæmi um slíkt skilyrði megi nefna það tímamark þegar gagnkröfuhafi þurfi að hafa eignast kröfu sína. Með vísan til þess sé þeirri túlkun sóknaraðila mótmælt að ákvæði 104. gr. laga nr. 161/2002 séu sérreglur sem gangi framar ákvæðum 100. gr. laga nr. 21/1991.

Sé í þessu tilliti á því byggt að við fall varnaraðila hinn 7. október 2008 hafi sóknaraðili ekki átt þær kröfur á hendur varnaraðila sem hann krefjist skuldajöfnunar við. Fyrir liggi að sóknaraðili hafi eignast kröfur sínar þegar hann leysti til sín og fékk framseldar kröfur Icesave-innstæðueigenda í útibúi varnaraðila í Amsterdam í kjölfar yfirlýsingar hollenskra yfirvalda um ógjaldfærni útibúsins hinn 13. október 2008. Því til staðfestingar að sóknaraðili hafi ekki átt umræddar kröfur við það tímamark nægi að benda á að í kröfugerð hans sjálfs í greinargerð lúti krafa hans um skuldajöfnuð að kröfum sem sóknaraðili hafi eignast fyrir framsal frá hollenskum Icesave-innstæðueigendum. Fyrir liggi að þau framsöl hafi öll farið fram eftir frestdag í slitameðferð varnaraðila. Einnig sé óumdeilt að sóknaraðili hafi á þeim tíma sem hann eignaðist kröfur sínar á hendur varnaraðila vitað að varnaraðili ætti á þeim tímapunkti ekki fyrir skuldum. Megi leiða líkur að því að sóknaraðili hafi jafnframt eignast kröfur sínar á hendur varnaraðila í þeim tilgangi að skuldajafna, enda ljóst að réttur hvers innstæðueiganda til greiðslu hafi verið háður framsali sérhvers innstæðueiganda á kröfu sinni til sóknaraðila.

Einnig sé hvað þetta varði vísað til þess að efnisreglur hollenskra laga um skuldajöfnun hafi ekki verið uppfylltar. Þær almennu reglur sem gildi samkvæmt hollenskum lögum komi fram í ákv. 6:127-6:140 í hollensku einkamálalögunum, en heimilt sé að víkja frá þeim með samningi. Þá gildi ákv. í 234.-235. gr. og 53.-54. gr. hollensku gjaldþrotaskiptalaganna um skuldajöfnun við greiðslustöðvun og gjaldþrotaskipti. Samkvæmt 53. gr. síðarnefndu laganna sé unnt að skuldajafna kröfum milli aðila að því gefnu að bæði aðalkrafan og gagnkrafan hafi orðið til fyrir úrskurð um gjaldþrotaskipti eða sé leidd af löggerningum sem orðið hafi til fyrir þann tíma. Ákvæði 54. gr. takmarki skuldajöfnunarréttinn skv. 53. gr. en í því segi svo: „1. Engu að síður getur aðili sem hefur áður en gjaldþroti er lýst tekið yfir skuld við skuldarann eða eignast kröfu frá þriðja aðila á hendur honum ekki beitt skuldajöfnun ef hann var ekki í góðri trú þegar yfirtaka eða kaup áttu sér stað. 2. Kröfur eða skuldir sem aðili eignast eftir að gjaldþroti er lýst verða ekki nýttar til skuldajöfnuðar.“ Skýra verði hugtakið „eignast kröfu“ skv. 54. gr. rúmri túlkun á þann veg að það nái yfir kröfuhafaskiptin sem orðið hafi vegna útgreiðslu sóknaraðila á innstæðum til Icesave-innstæðueigenda. Samkvæmt hollenskum rétti sé almennt ekki unnt að beita ákvæðinu nema í þeim tilvikum sem kröfuhafaskipti verði í þeim tilgangi að skapa rétt til skuldajöfnunar. Kröfuhafi geti ekki hafa verið í góðri trú í skilningi ákvæðisins hafi hann vitað að skuldari aðalkröfu hafi ekki getað staðið við skuldbindingar sínar.

Eins og áður sé fram komið hafi sóknaraðili vitað um aðstöðu varnaraðila og því verið í vondri trú í skilningi ákvæðisins. Ljóst sé að sóknaraðili hafi farið fram á inngrip í rekstur útibús varnaraðila hinn 7. október 2008 með beiðni til hollenskra dómstóla um neyðarmeðferð. Að fengnum þeim úrskurði hafi sóknaraðili vitað að þar með yrði hollenska innstæðukerfið virkjað og að sóknaraðili myndi eignast kröfur innstæðueigenda á hendur varnaraðila. Með þessu móti hafi sóknaraðili öðlast betri rétt á hendur varnaraðila en innstæðueigendur hafi haft. Í krafti stöðu sinnar sem Seðlabanki Hollands og umsjónaraðili hollenska innstæðutryggingakerfisins, sem sjái um útgreiðslur til innstæðueigenda hjá bönkum sem njóti aðildar að kerfinu, reyni sóknaraðili að skuldajafna kröfum sínum á móti innstæðu á HAM-reikning í vondri trú í skilningi tilvitnaðrar 54. gr. Þá sé og ljóst að framangreind staða veiti sóknaraðila betri rétt en upprunalegum kröfuhöfum og feli því m.a. í sér brot á grundvallarreglu, bæði hollenskra og íslenskra, gjaldþrotaskiptalaga um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti.

V.

Niðurstaða

Eins og fram er komið lýsti sóknaraðili kröfu við slitameðferð varnaraðila, hinn 19. október 2009, á grundvelli veðréttar í innstæðu á HAM-reikningi varnaraðila að fjárhæð 20.000.000 evra. Var þar vísað til þess að veðrétturinn byggðist á sameiginlegri yfirlýsingu aðilanna, dags. 13. nóvember 2007, þar sem fram kæmi meðal annars að frá og með 18. febrúar 2008 skyldu almennir skilmálar sóknaraðila, skilmálar fyrir eigendur HAM-reikninga og handbók um stefnu í efnahags- og peningamálum sóknaraðila gilda um öll lagaleg samskipti þeirra. Fyrir liggur að sóknaraðili millifærði hinn 9. október 2008 innstæðu varnaraðila á umræddum HAM-reikningi yfir á svokallaðan DIA-reikning, sem sóknaraðili hafði stofnað í nafni varnaraðila, og að þar hafi hún verið þegar kröfu sóknaraðila var lýst fyrir slitastjórn. Er í kröfulýsingunni ekkert tekið fram um að umrædd millifærsla hafi átt sér stað eða gerð krafa um að veðsetningin nái til innstæðunnar á þeim reikningi eftir millifærsluna.

Ekki er um það ágreiningur í málinu að á grundvelli samnings aðila gildi hollensk lagaákvæði um úrlausn efnislegs ágreinings þeirra. Hins vegar segir í 104. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki að taki dómstóll hér á landi ákvörðun um slit lánastofnunar, sem hefur staðfestu og starfsleyfi hér á landi, nái sú heimild sjálfkrafa til allra útibúa sem lánastofnunin starfrækir í öðrum aðildarríkjum EES-samningsins. Um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunarinnar fer að íslenskum lögum með þeim takmörkunum er greinir í 2. mgr. 99. gr. laganna. Þá segir í 2. mgr. 99. gr. að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar skuli fara að íslenskum lögum með þeim frávikum sem talin eru upp í a- til n-liðum ákvæðisins. Loks segir í fyrsta málslið 1. mgr. 102. gr. sömu laga að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga fyrirtækis og kröfur á hendur því, að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að fyrirtækið sé tekið til slita leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga. Af þessu leiðir að um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slitameðferð gilda ákvæði laga nr. 21/1991 en ekki hollensk lög.

Í 2. mgr. 117. gr. laga nr. 21/1991, um gjaldþrotaskipti o.fl., segir að í kröfulýsingu skuli tiltaka kröfur svo skýrt sem verða má, svo sem fjárhæð kröfu og vaxta í krónum og hverrar stöðu sé krafist að hún njóti í skuldaröð, eða um afhendingu hlutar, ákvörðun á tilgreindum réttindum á hendur þrotabúinu o.s.frv. Í lokamálslið ákvæðisins kemur fram að einnig skuli þar greina þær málsástæður sem kröfuhafi byggir rétt sinn á, svo og önnur atvik sem þarf að greina samhengis vegna. Af þessum fyrirmælum má ráða að kröfulýsing þarf nánast að vera í sama búningi og stefna í einkamáli. Þá er ljóst að kröfuhafi ræður því sjálfur hvort og að hve miklu leyti hann lýsir kröfu sinni í þrotabúið, láti það ógert eða krefjist lakari stöðu í skuldaröð en hann kann að eiga. Ætlist hann hins vegar til þess að tiltekin krafa hans njóti sérstöðu í skuldaröð verður hann að krefjast þess berum orðum og lýsa forsendum fyrir henni á nákvæman hátt.

Samkvæmt því sem að framan er rakið var engin innstæða á HAM-reikningi varnaraðila þegar veðkröfu hans í reikningnum var lýst og ekkert tekið fram um að umrædd millifærsla hefði átt sér stað eða gerð krafa um að veðsetningin næði til innstæðunnar á þeim reikningi eftir millifærsluna. Hins vegar hefur varnaraðili byggt á því að umrædd millifærsla hafi í raun falið í sér innheimtu kröfunnar og að þannig hafi veðrétti sóknaraðila verið breytt í veðrétt í þeirri fjárhæð sem inni á reikningnum var. Hafi þetta verið gert á grundvelli heimildar í 5. mgr. gr. 3:246 í hollensku einkamálalögunum.

Í upphafi 118. gr. laga nr. 21/1991 er mælt svo fyrir að krafa á hendur þrotabúi, sem ekki er lýst fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti lýkur samkvæmt 2. mgr. 85. gr. sömu laga, falli niður gagnvart því nema svo standi á sem í einhverjum af sex töluliðum fyrrnefndu lagagreinarinnar segir, enda sé ekki unnt að fylgja kröfunni fram gagnvart þrotabúinu skv. 116. gr. laganna. Eins og atvikum í máli þessu er háttað geta ákvæði 1., 2. og 3. mgr. 116. gr. ekki varðað kröfu sóknaraðila. Í 4. mgr. sömu lagagreinar felst sú meginregla að lánardrottinn, sem nýtur heimildar til fullnustu fjárkröfu á hendur þrotabúi án frekari dóms, sáttar eða aðfarar í skjóli tryggingarréttinda fyrir henni í eign þess getur fylgt þeim rétti sínum eftir án tillits til þess hvort hann hefur lýst kröfu sinni við gjaldþrotaskiptin.

Af greinargerð sóknaraðila og öllum málatilbúnaði hans hér fyrir dómi liggur fyrir að þær kröfur sem sóknaraðili telur að tryggðar séu með framangreindri innstæðu séu kröfur sem hann hafi eignast við framsal krafna frá innstæðueigendum á Icesave-reikningum varnaraðila í Hollandi og samþykktar hafi verið sem forgangskröfur við slit varnaraðila. Hins vegar verður og ráðið að sóknaraðili hafi á því tímamarki þegar innstæðan var millifærð ekki enn eignast þær kröfur, en fyrstu kröfurnar voru framseldar honum í desember sama ár. Án tillits til þess hvort veðréttur sóknaraðila í HAM-reikningi varnaraðila teldist samkvæmt samningum aðila og hollenskum rétti ná til umræddra óstofnaðra krafna og veita honum heimild til að leita fullnustu í andlagi veðsins gat sóknaraðili ekki á því tímamarki neytt þeirrar heimildar til að leita fullnustu í innstæðunni, óháð kröfulýsingu við slitameðferðina, þar sem umræddar kröfur höfðu þá ekki enn stofnast honum til handa. Verður því að fallast á það með varnaraðila að sóknaraðili hafi ekki lýst umræddri kröfu með fullnægjandi hætti við slitameðferð varnaraðila, sem leiðir til þess, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, að hún fellur niður gagnvart varnaraðila. Ber því að hafna aðalkröfu sóknaraðila í málinu.

Varakrafa sóknaraðila er reist á því að hann eigi samningsbundinn rétt til skuldajöfnunar á grundvelli 11. gr. almennu skilmála sóknaraðila og 18. gr. skilmála um HAM-reikninga. Jafnframt vísar hann til 104. gr., sbr. j-lið 2. mgr. 99. gr., laga nr. 161/2002, um að samningur um skuldajöfnuð fari eftir lögum þess ríkis sem um samninginn gildi.

Eins og áður hefur verið rakið kemur fram í 2. mgr. 99. gr. laga nr. 161/2002 að um réttaráhrif, málsmeðferð og framkvæmd ákvörðunar skuli fara að íslenskum lögum með þeim frávikum sem upp eru talin í a- til n-liðum ákvæðisins, en samkvæmt j-lið skulu samningar um skuldajöfnuð fara að lögum þess ríkis sem um samninginn gilda. Jafnframt að í fyrsta málslið 1. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 kemur fram að við slit fjármálafyrirtækis gildi sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga fyrirtækisins og kröfur á hendur því, að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að fyrirtækið sé tekið til slita leiði ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur fyrirtækinu falli í gjalddaga. Þau samningsákvæði um skuldajöfnuð sem sóknaraðili vísar til fjalla almennt um efnisleg skilyrði skuldajafnaðar í lögskiptum aðila og geta ekki haft áhrif á þær réttarreglur sem gilda um skuldajafnaðarrétt við slit fjármálafyrirtækis sem fram fara hér á landi. Af þessu leiðir að um rétt sóknaraðila við slit varnaraðila til að lýsa gagnkröfu til skuldajafnaðar við kröfu varnaraðila á hendur sóknaraðila gilda ákvæði laga nr. 21/1991 en ekki hollensk lög.

Samkvæmt 100. gr. laga nr. 21/1991 getur hver sá sem skuldar þrotabúi dregið það frá sem hann á hjá því hvernig sem skuld og gagnkröfu er varið ef lánardrottinn hefur eignast kröfuna áður en þrír mánuðir voru til frestdags, hvorki vitað né mátt vita að þrotamaðurinn átti ekki fyrir skuldum og ekki fengið kröfuna til að skuldajafna, enda hafi krafa þrotabúsins á hendur honum orðið til fyrir frestdag. Fyrir liggur að frestdagur við slitameðferð varnaraðila er 15. nóvember 2008. Þar sem áður hefur verið komist að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili hafi ekki eignast umræddar kröfur sínar á hendur varnaraðila, sem hann hafði eignast við framsal krafna frá hollenskum Icesave-innstæðueigendum, fyrr eftir fyrrgreindan frestdag, brestur hann þegar af þeirri ástæðu heimild skv. tilvitnaðri 100. gr. til að skuldajafna þeirri fjárhæð sem verið hafði á HAM-reikningi varnaraðila við þessa skuld varnaraðila við sóknaraðila. Samkvæmt því verður varakröfu sóknaraðila einnig hafnað.

Með hliðsjón af framangreindu er það niðurstaða dómsins að hafna beri öllu kröfum sóknaraðila í máli þessu. Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað, sem ákveðst hæfilegur 1.000.000 króna.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan

Úrskurðarorð:

Kröfum sóknaraðila, De Nederlandsche Bank N.V., á hendur varnaraðila, LBI hf., er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 1.000.000 króna í málskostnað.