Hæstiréttur íslands
Mál nr. 636/2013
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald
- Frávísun frá Hæstarétti
|
|
Þriðjudaginn 1. október 2013. |
|
Nr. 636/2013.
|
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. Frávísun máls frá Hæstarétti.
Kærður var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þar sem upplýst var að X hafði verið afhentur dönskum yfirvöldum var ljóst að það ástand sem leiddi af hinum kærða úrskurði var þegar um garð gengið og var málinu því vísað frá Hæstarétti.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. september 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi þar til afhending hans færi fram til danskra yfirvalda, þó eigi lengur en til 1. október 2013 kl. 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfu sóknaraðila verði vísað frá héraðsdómi en til vara að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Hæstarétti hefur borist bréf þar sem upplýst er að varnaraðili hafi verið afhentur dönskum yfirvöldum fyrr í dag. Samkvæmt því er ljóst að það ástand, sem leitt hefur af hinum kærða úrskurði, er þegar um garð gengið. Málinu verður því vísað frá Hæstarétti, sbr. 4. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá Hæstarétti.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur sunnudaginn 29. september 2013.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu krefst þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi uns afhending hans fer fram til danskra yfirvalda, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 1. október 2013 kl. 16:00.
Í greinargerð lögreglunnar kemur fram að þann 11. september sl. hafi ríkissaksóknara borist beiðni frá yfirvöldum í Danmörku um handtöku og afhendingu X vegna meðferðar sakamáls þar í landi, þ.e. norræn handtökuskipun. Grundvöllur norrænu handtökuskipunarinnar sé úrskurður héraðsdóms í Kaupmannahöfn frá 6. ágúst sl. í máli nr. SS [...]/2013, þar sem X hafi verið úrskurðaður í gæsluvarðhald að honum fjarstöddum skv. ákvæðum dönsku sakamálalaganna.
Ríkissaksóknari hafi sent lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu norrænu handtökuskipunina til meðferðar þann 12. september sl. í samræmi við 1. mgr. 10. gr. laga nr. 12/2010. X hafi verið handtekinn þann 16. september og í framhaldinu hafi verið úrskurðaður í farbann til þriðjudagsins 1. október n.k. skv. úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur nr. 352/2013. Þá hafi verið fjallað um það hvort skilyrði fyrir afhendingu X til danskra yfirvalda væru uppfyllt og hafi héraðsdómur talið svo vera. Það hafi verið staðfest í Hæstarétti sbr. dóm Hæstaréttar nr. 616/2013. Þann 20. september sl. hafi síðan legið fyrir endanleg ákvörðun ríkissaksóknara um afhendingu á grundvelli norrænnar handtökuskipunar skv. 3. mgr. 13. gr. laga nr. 12/2010.
Dönsk yfirvöld hafi upplýst um ferðatilhögun og tímasetningu, en danskir lögreglumenn komi hingað til lands 30. september n.k. og muni afhendingin fara fram þriðjudaginn 1. október n.k. kl. 11:10 og hafi þessi ferðaáætlun verið samþykkt.
Þann 27. september sl. hafi ríkissaksóknari farið þess á leit við ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu að gerðar yrðu viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nærveru X vegna fyrirhugaðar framkvæmdar á afhendingu til Danmerkur n.k. þriðjudag. Það feli í sér að kærði verði sviptur frelsi sínu og falinn í umsjá og vörslu danskra lögreglumanna.
X var handtekinn rétt fyrir kl. 15.00 í dag er hann hafi komið á lögreglustöðina við Hverfisgötu til að sinna tilkynningarskyldu sinni.
Í kröfu ríkissaksóknara þann 17. september hafi verið farið fram á að varnaraðili sætti gæsluvarðhaldi á meðan beiðni um afhendingu væri til meðferðar hjá yfirvöldum og eftir atvikum uns afhending hans færi fram. Ekki hafi verið fallist á það af hálfu héraðsdóms en þá hafi verið talið að farbann tryggði veru hans hér á landi og væri vægara. Á þeim tíma hafi ekki legið fyrir endanleg ákvörðun um afhendingu varnaraðila til danskra yfirvalda. Þá liggi heldur ekki fyrir ferðartilhögun danskra yfirvalda hingað til lands.
Í ljósi alls framangreinds og til að tryggja nærveru varnaraðila vegna framkvæmdar framsals sé gerð sú krafa að varnaraðili sæti nú gæsluvarðhaldi þar til afhending til danskra lögregluyfirvalda hafi farið fram þann 1. október n.k. Er þá litið til þess að varnaraðili hafi sætt farbanni sem renni út þann 1. október kl. 16:00, en tilhögun tilkynningarskyldu sé nú með þeim hætti að honum beri að tilkynna sig á lögreglustöð á milli kl. 12:00 og 13:00. Slík ráðstöfun sé að mati embættisins ekki nægileg í því ljósi að varnaraðili hafi mótmælt fyrirhugaðri afhendingu. Sé því að mati lögreglu fyrirliggjandi hætta á að hann muni reyna að leynast eða koma sér undan framkvæmd afhendingarinnar verði hann ekki í gæslu lögreglu. Sé talið að vægari úrræði, þ.e. farbann sé ekki nægjanlegt í þessu tilviki. Tilgangur gæsluvarðhaldsins á þessu stigi máls sé að tryggja að íslensk stjórnvöld geti staðið við samningsbundnar skyldur sínar skv. samningi við hin Norðurlöndin um að afhenda íslenskan mann sbr. 1. mgr. 4. gr. laga nr. 12/2010. Gæsluvarðhaldinu sé þannig ætlað að tryggja að það náist í varnaraðila þegar afhending eigi að eiga sér stað. Lögreglan telji mikilvægt að tryggja nærveru varnaraðila áður dönsk yfirvöld leggi af stað til landsins á morgun. Um lagarök er vísað til 2. mgr. 10. gr. laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða og b. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
Niðurstaða:
Með úrskurði Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 616/2013, var fallist á að varnaraðili skyldi framseldur til Danmerkur á grundvelli laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða (norræn handtökuskipunin). Varnaraðili hefur sætt farbanni á meðan framsalsmál hans hefur verið til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum og dómstólum, sbr. úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 17. september sl., sem rennur út 1. október n.k.
Varnaraðili krefst frávísunar á kröfu sóknaraðila á þeim grunni að í gildi sé farbannsúrskurður í málinu sem renni ekki út fyrr en 1. október n.k. Dómari getur ekki fallist á að slíkt valdi frávísun enda eru breyttar aðstæður frá því að sá úrskurður var kveðinn upp, sbr. ofangreindur dómur Hæstaréttar, og því rétt af lögreglu að setja fram kröfu um gæsluvarðhald teldi hún lögvarða hagsmuni standa til þess. Verður kröfu um frávísun því hafnað.
Varnaraðili byggi jafnframt á því að honum hafi ekki verið birt ákvörðun ríkissaksóknara frá 20. september sl. um afhendingu. Að mati dómsins getur sú staðreynd ein og sér ekki valdið því að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað enda hefur varnaraðili ekki tök á að kæra þá ákvörðun. Ennfremur er rétt að taka fram að samkvæmt gögnum málsins var gerð tilraun til að birta varnaraðila ákvörðun ríkissaksóknara en bréf þar að lútandi komst ekki til skila til varnaraðila þar sem að hann bjó ekki lengur á því heimilisfangi ([...]) sem bréfið var sent á. Í því samhengi er rétt að taka fram að varnaraðili gaf upp það heimilisfang við fyrirtöku í héraðsdómi 17. september sl.
Vegna tilvísunar varnaraðila til þess að fimm sólahringa frestur samkvæmt 15. gr. laga nr. 12/2010 sé liðinn til afhendingar er rétt að taka fram að þann frest er hægt að framlengja með samningi við þann sem að handtökutilskipun gaf út, þ.e. í þessu tilfelli dönsk yfirvöld. Verður af gögnum málsins ekki annað ráðið en að það hafi verið gert og verður gæsluvarðhaldskröfu ekki hafnað á þeim grunni.
Fyrir liggur að dönsk yfirvöld hafa upplýst ríkislögreglustjóra um að framsal varnaraðila fari fram 1. október n.k. Hafa íslensk yfirvöld farið þess á leit að gerðar verði viðeigandi ráðstafanir til að tryggja nærveru varnaraðila vegna fyrirhugaðar framkvæmdar á afhendingu þann dag. Þótt varnaraðili sé í farbanni og hafi til þessa sinnt tilkynningaskyldu til lögreglu verður að fallast á það með sóknaraðila að það sé ekki næg trygging fyrir því að öruggt sé að unnt verði að færa hann í hendur danskara yfirvalda á framangreindum tíma. Er þá jafnframt haft í huga að er varnaraðili var úrskurðaður í farbann lá ekki fyrir niðurstaða Hæstaréttar um að skilyrðum framsals væri fullnægt. Réttmætt þykir því nú að gæsluvarðhaldi sé beitt til að tryggja að það náist í varnaraðila nú þegar endanleg ákvörðun ríkissaksóknara um afhendingu liggur fyrir.
Með vísan til ofanritaðs og framlagðra gagna þykja uppfyllt skilyrði 2. mgr. 10. gr. laga nr. 12/2010 um handtöku og afhendingu manna milli Norðurlandanna vegna refsiverðra verknaða og b-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 til þess að verða við kröfunni eins og hún er sett fram og nánar greinir í úrskurðarorði. Verður krafan þannig tekin til greina.
Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
X skal sæta gæsluvarðhaldi uns afhending hans fer fram til danskra yfirvalda, þó eigi lengur en til þriðjudagsins 1. október 2013 kl. 16:00.