Hæstiréttur íslands
Mál nr. 613/2012
Lykilorð
- Samningur
- Ábyrgð
|
|
Þriðjudaginn 26. mars 2013. |
|
Nr. 613/2012. |
Hestafl ehf. (Gestur Jónsson hrl.) gegn Landsbankanum hf. (Ólafur Örn Svansson hrl.) |
Samningur. Ábyrgð.
H ehf. og T hf. gerðu með sér samning um kaup síðastgreinds félags á öllu hlutafé í F ehf., sem var að fullu í eigu H ehf. Forveri L hf. tókst á hendur ábyrgð gagnvart H ehf. á greiðslu kaupverðs samkvæmt kaupsamningnum. H ehf. höfðaði mál á hendur L hf. til heimtu greiðslu á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingarinnar. L hf. var sýknað af kröfu H ehf. með vísan til þess að ábyrgð samkvæmt yfirlýsingunni væri háð skilyrðum sem ekki væru komin fram.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Greta Baldursdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 26. september 2012. Hann krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 230.000.000 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 12. desember 2009 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst aðallega staðfestingar héraðsdóms, en til vara lækkunar á kröfu áfrýjanda. Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I
Málavextir eru þeir að Fossafl ehf., sem var að fullu í eigu áfrýjanda, mun hafa keypt nokkrar fasteignir á Selfossi og skipulagt byggingarreit á lóðunum númer 51 til 59 við Austurveg þar í bæ, þar sem gert var ráð fyrir þjónustumiðstöð fyrir aldraða. Fossafl ehf. og sveitarfélagið Árborg, sem rekur þjónustumiðstöð fyrir aldraða að Grænumörk 5, gerðu 21. desember 2007 með sér tvo samninga um nýtingu þjónusturýmis í hinni fyrirhuguðu byggingu. Annars vegar „samkomulag um samstarf og þjónusturými“ í húsinu og hins vegar „húsaleigusamning um atvinnuhúsnæði“ þar sem sveitarfélagið tók á leigu 760 fermetra rými í hinni fyrirhuguðu byggingu. Skyldi leigusamningurinn gilda í 20 ár frá afhendingu hins leigða, sem áætluð var 1. febrúar 2010. Leigusamningurinn skyldi þó vera uppsegjanlegur með 12 mánaða fyrirvara þegar 14 ár væru liðin af leigutímanum. Mánaðarleg húsaleiga skyldi vera 1.840 krónur fyrir hvern fermetra og fylgja vísitölu byggingarkostnaðar.
Áfrýjandi, sem var í bankaviðskiptum við Landsbanka Íslands hf., forvera stefnda, leitaði að viðsemjanda sem kynni að hafa áhuga á að kaupa byggingarréttinn á reitnum við Austurveg og sneri sér til forvera stefnda og bað um ábendingar í þeim efnum. Benti forveri stefnda á Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf. sem hugsanlegan viðsemjanda, en það félag var einnig í bankaviðskiptum við forvera stefnda. Gerði Trésmiðja Snorra Hjaltasonar hf. áfrýjanda kauptilboð í öll hlutabréf í Fossafli ehf. 20. maí 2008, en byggingarréttur á umræddum reit ásamt fyrrgreindum leigusamningi var í tilboðinu tilgreint sem helstu eignir þess félags. Áfrýjandi samþykkti tilboðið. Samkvæmt því var kaupverðið 530.000.000 krónur sem skyldi greiðast þannig: „1. Við kaupsamning með yfirtöku lána 150.000.000.- 2. Við kaupsamning með peningum 150.000.000.- 3. Við útgáfu byggingarleyfis (Byggingarnefndar og burðarþolsteikn. samþ.) 30.000.000.- 4. Við úttekt á plötu yfir bílastæðahúsi 50.000.000.- 5. Við fokheldi 1. áfanga 50.000.000.- 6. Við fokheldi 2. áfanga 100.000.000.-.“ Skyldi kaupandi leggja fram ábyrgðir frá sínum viðskiptabanka vegna þeirra greiðslna sem ekki skyldu greiðast við undirritun kaupsamnings. Af gögnum málsins er ljóst að samningsaðilar áttu í samskiptum við forvera stefnda í byrjun júlí 2008, einkum vegna frágangs og yfirtöku á lánum í tengslum við kaupin. Með yfirlýsingu 18. júlí 2008 staðfesti forveri stefnda að hann myndi fjármagna kaup Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf. á öllum hlutum í Fossafli ehf. í samræmi við kaupsamning aðila og voru þar tilgreindar greiðslur og gjalddagar sem orðrétt svöruðu til liða 3 til 6 í framangreindu tilboði auk tiltekinnar greiðslu „við kaupsamning“. Þann 29. ágúst 2008 var undirritaður af hálfu áfrýjanda og Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf. kaupsamningur um alla hluti í Fossafli ehf. Helstu eignir félagsins voru þar tilgreindar með sama hætti og í kauptilboðinu. Kaupverðið var 530.000.000 krónur og var sá hluti þess sem greiðast skyldi síðar en á kaupsamningsdegi hvað varðar fjárhæðir og greiðsluáfanga tilgreindur orðrétt með sama hætti í B., C., D. og E. liðum í grein 2.4. kaupsamningsins og gert hafði verið í liðum 3 til 6 í framangreindu kauptilboði. Fyrir liggur að aðilar nutu lögmannsaðstoðar við gerð samningsins og er hann undirritaður af lögmönnum fyrir hönd þeirra beggja.
Sama dag og kaupsamningurinn var undirritaður gaf forveri stefnda út ábyrgðaryfirlýsingu þar sem hann ábyrgðist greiðslur Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf. samkvæmt fyrrgreindum kaupsamningi. Í yfirlýsingunni sagði meðal annars: „Greiðsluábyrgð Landsbankans kann að stofnast í samræmi við ábyrgðaryfirlýsingu þessa skv. eftirfarandi:“. Síðan voru tilgreindar fjárhæðir og greiðsluáfangar er tóku mið af framvindu framkvæmda á byggingareitnum við Austurveg með orðrétt sama hætti og gert hafði verið í kauptilboði og kaupsamningi aðila og að framan er rakið. Þá var samtala þeirra, 230.000.000 krónur, tilgreind. Í yfirlýsingunni var tekið fram að hún væri ótímabundin, en félli niður þegar greiðslur þær sem tilgreindar væru í yfirlýsingunni hefðu verið inntar af hendi eða fallið niður með nánar tilgreindum hætti. Fjármáleftirlitið tók 7. október 2008 ákvörðun um að víkja stjórn Landsbanka Íslands hf. frá og yfirtaka vald hluthafafundar í félaginu og litlu síðar að ráðstafa hluta eigna og skulda bankans til nýstofnaðs félags, stefnda í máli þessu. Óumdeilt er að skyldur samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni fluttust til stefnda í samræmi við ákvörðun Fjármálaeftirlitsins.
Fyrir liggur að ekki varð af framkvæmdum á byggingarreitnum við Austurveg. Samþykkt bæjarstjórnar Árborgar um deiliskipulag á reitnum frá 9. maí 2007 var kærð til úrskurðarnefndar skipulags- og byggingarmála 15. ágúst 2007. Gerðu kærendur kröfu um að frestað yrði réttaráhrifum hinnar kærðu ákvörðunar. Úrskurðarnefndin tók þá kröfu ekki til sérstakrar umfjöllunar þar sem ekki var ráðist í framkvæmdir á grundvelli deiliskipulagsins. Með úrskurði nefndarinnar 15. október 2010 var umrætt deiliskipulag fellt úr gildi. Á fundi bæjarstjórnar Árborgar 14. maí 2010 mun hafa verið tekin ákvörðun um að rifta fyrrgreindum samningum við Fossafl ehf. Bú Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf., sem þá mun hafa borið heitið Týrus hf., mun hafa verið tekið til gjaldþrotaskipta að kröfu stefnda með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 31. maí 2011.
II
Eins og að framan er rakið varðaði kaupsamningur áfrýjanda og Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf. kaup á öllum hlutum í einkahlutafélaginu Fossafli. Í kauptilboði og kaupsamningi er þó sérstaklega tilgreint að helstu eignir félagsins séu byggingarréttur á lóðunum við Austurveg 51 til 59 og leigusamningur við sveitarfélagið Árborg. Í kauptilboði trésmiðjunnar, sem áfrýjandi samþykkti, voru greiðslur kaupverðs, sem fara skyldu fram eftir undirritun kaupsamnings, miðaðar við tiltekna áfanga í framkvæmdum við gerð mannvirkja á reitnum og þar voru engin ákvæði um að unnt væri að krefjast þeirra við aðrar aðstæður. Þessar greiðslur voru tilteknar með nákvæmlega sama hætti í kaupsamningi trésmiðjunnar og áfrýjanda. Þessa skipan mála verður að skoða í ljósi þess að verðmæti einkahlutafélagsins var fyrst og fremst bundið við byggingarréttinn á lóðinni og leigusamninginn við sveitarfélagið um mannvirki er þar skyldi rísa, eins samningsaðilar tóku sérstaklega fram, og ljóst að félagið væri harla lítils virði ef ekki yrði úr framkvæmdum. Enda þótt óumdeilt sé að forveri stefnda hafi bent á trésmiðjuna sem hugsanlegan kaupanda er ekkert í gögnum málsins sem bendir til þess að forveri stefnda hafi haft áhrif á efni eða orðalag kauptilboðsins 20. maí 2008. Þá verður heldur ekki séð að samskipti samningsaðila við forvera stefnda frá því að tilboðið var samþykkt og fram að gerð kaupsamningsins 29. ágúst 2008 hafi haft áhrif á efni hans um þau atriði sem hér skipta máli, enda eru ákvæði kaupsamningsins um þessi atriði samhljóða ákvæðum kauptilboðsins. Þá er ljóst að báðir aðilar nutu aðstoðar lögmanna við samningsgerðina og verður ekki séð að þeir hafi verið háðir sérfræðikunnáttu forvera stefnda í þeim efnum.
Ábyrgðaryfirlýsing forvera stefnda, sem eins og að framan er rakið tók mið af umsömdum greiðsluáföngum samkvæmt kauptilboði og kaupsamningi, er samkvæmt orðum sínum skýrlega bundin við að greiðsluábyrgð samkvæmt henni stofnist í áföngum eftir því sem framkvæmdum á reitnum vindur fram og nánar skilgreindum áföngum er náð. Hún er því skilyrt og verður ekki virk nema þessum skilgreindu framkvæmdaáföngum sé náð. Breytir engu um skýrt orðalag yfirlýsingarinnar að þessu leyti þótt orðin „kann að stofnast“ komi fyrir í aðfaraforðum um ábyrgðaráfangana, enda eru ekki ákvæði í yfirlýsingunni um neinar aðrar aðstæður eða atvik sem leitt gætu til þess að ábyrgðin yrði virk. Enda þótt óumdeilt sé að orðalag sjálfrar ábyrgðaryfirlýsingarinnar sé frá starfsmönnum forvera stefnda komið er ljóst að hvað varðar skilyrði þess að ábyrgðin yrði virk byggir yfirlýsingin á orðalagi kaupsamnings aðila um greiðsluáfanga kaupverðs. Aðkoma starfsmanna forvera stefnda að samningu yfirlýsingarinnar skiptir því ekki máli við skýringu hennar. Þar sem ábyrgðin er háð skilyrðum sem ekki eru komin fram skiptir engu um kröfu áfrýjanda á hendur stefnda þótt allar kröfur á þrotabú Trésmiðju Snorra Hjaltasonar hf. hafi fallið í gjalddaga við uppkvaðningu gjaldþrotaúrskurðar samkvæmt 1. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Samkvæmt öllu framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur.
Áfrýjandi verður dæmdur til að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Hestafl ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 26. maí 2012.
I
Mál þetta, sem dómtekið var föstudaginn 8. júní sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Hestafli ehf., kt. 660404-3410, Bugðulæk 3, Reykjavík, með stefnu, birtri 27. júní 2011, á hendur Landsbankanum hf., kt. 471008-0280, Austurstræti 11, Reykjavík.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefnda verði gert að greiða stefnanda kr. 230.000.000, auk dráttarvaxta frá 12. desember 2009, samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, til greiðsludags. Þá er krafizt vaxtavaxta samkvæmt 12. gr. sömu laga, er leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti. Einnig er krafizt greiðslu málskostnaðar samkvæmt málskostnaðarreikningi eða mati dómsins, að viðbættu álagi og virðisaukaskatti.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda en til vara, að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Þá krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
II
Málavextir
Stefnandi kveður málavexti vera þá, að Fossafl ehf., (kt. 681005-1450), sem hafi verið/sé bygginga- og þróunarfélag og hafi verið að fullu í eigu Hestafls ehf., hafi keypt upp nokkrar fasteignir á Selfossi og skipulagt þar byggingarreit til þess að reisa þar þjónustumiðstöð fyrir aldraða. Þann 9. maí 2006 hafi Fossafl ehf. undirritað viljayfirlýsingu við Sveitarfélagið Árborg um byggingu og rekstur þjónustumiðstöðvar fyrir aldraða og hjúkrunarheimili, sem tengdist núverandi þjónustustarfsemi sveitarfélagsins að Grænumörk 5 með sérstakri tengibyggingu. Samkomulag milli Sveitarfélagsins Árborgar og Fossafls ehf. um samstarf vegna þjónustumiðstöðvar aldraðra við Austurveg 51-59 og húsaleigusamningur hafi verið undirritað þann 21. desember 2007. Samningar þessir hafi verið samþykktir og staðfestir á bæjarstjórnarfundi í Árborg þann 28 janúar 2008. Samkvæmt fyrrgreindum húsaleigusamningi skyldi sveitarfélagið greiða Fossafli ehf. krónur 1.840, án vsk., á hvern m² í leigu, og hafi leigufjárhæðin verið vísitölutryggð m.v. vísitölu desembermánaðar 2007. Samningurinn hafi verið bindandi til ársins 2024. Samkvæmt ofangreindu hefðu leigugreiðslur Sveitarfélagsins Árborgar á leigutímanum numið alls rúmlega 335 milljónum króna, að viðbættum virðisaukaskatti og hugsanlegum greiðslum vegna verðtryggingarákvæðis leigugreiðslna.
Fljótlega eftir áramótin 2008 hafi viðræður hafizt að frumkvæði stefnda milli stefnda og stefnanda um möguleika á því að selja félagið, og myndi stefndi annast milligöngu um sölu. Stefndi hafi, m.a. með vísan til fjármögnunar bankans, lagt áherzlu á mikilvægi þess að finna öflugan verktaka, sem hefði þekkingu og reynslu af verkframkvæmdum. Þann 29. apríl 2008 hafi Davíð Björnsson, aðstoðarframkvæmdarstjóri fyrirtækjasviðs stefnda, sent tölvupóst til Hrólfs Ölvissonar, eins eiganda stefnanda, og skýrt frá því, að bankinn hefði kynnt nokkrum aðilum félagið. Í tölvupóstinum sé óskað eftir frekari gögnum til að sýna einum aðila, sem hafi verið áhugasamur um kaupin.
Umræddur aðili, Trésmiðja Snorra Hjaltasonar, kt. 700189-2369 (hér eftir nefndur TSH hf.), hafi verið viðskiptavinur bankans. Af hálfu bankans hafi verið töluverður þrýstingur á að selja félagið þessum aðila og fyrirséð, að salan yrði óhjákvæmilega í nánu samráði við bankann vegna fjármögnunar. Stefndi hafi lýst sig reiðubúinn til að ábyrgjast greiðslur TSH hf. og aflétta persónulegum ábyrgðum af eigendum móðurfélags Fossafls ehf. Hafi einn af eigendum stefnanda farið með starfsmanni fyrirtækjasviðs stefnda að hitta Snorra Hjaltason, aðaleiganda TSH hf., á starfsstöð félagsins.
Með kauptilboði, dagsettu 20. maí 2008, hafi Hestafl ehf. samþykkt kauptilboð frá TSH hf. í allt hlutafé Fossafls ehf., sem hafi á þeim tíma verið 100% í eigu Hestafls ehf. Einu eignir Fossafls ehf. hafi á þessum tíma verið byggingarréttur og fasteignir að Austurvegi 51-59, auk fyrrgreinds leigusamnings við Sveitarfélagið Árborg um þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara. Tilboðsgjafi hafi metið ofangreindar eignir á 530 milljónir króna, og sala hlutanna í Fossafli ehf. hafi miðazt við það verðmat. Verðmæti hins selda hafi verið skráð í kauptilboði kr. 530.015.235, þ.m.t. veltufjármunir. Yfirteknar skuldir hafi verið kr. 281.316.684, og til greiðslu hafi því verið kr. 248.698.551, sem skyldi greiðast með tvennum hætti. Annars vegar kr. 230.000.000, í samræmi við töluliði 3.-6. í samþykktu kauptilboði milli Hestafls og THS hf., og hins vegar kr. 18.690.551, sem greiðast skyldi í peningum við undirritun kaupsamnings.
Hinn 29. ágúst 2008 hafi verið undirritaður kaupsamningur milli stefnanda og TSH hf. á grundvelli framangreinds kauptilboðs um sölu á öllu hlutafé í Fossafli ehf. Forsenda fyrir undirritun kaupsamnings milli ofangreindra aðila hafi verið sú, að skilyrðislaus bankaábyrgð lægi fyrir frá viðskiptabanka kaupanda, Landsbanka Íslands hf. um kaupsamningsgreiðslur skv. 3.-6. tl. samþykkts kauptilboðs.
Samhliða kaupsamningi hafi verið gefin út ábyrgðaryfirlýsing nr. G10100004381 frá Landsbankanum, dags. 29. ágúst 2008, til að uppfylla skilyrði um bankaábyrgð skv. 12. gr. kauptilboðs, dags. 20. maí 2008, til tryggingar á greiðslum kaupsamningsins. En 12. gr. kauptilboðs hljóði svo.
Kaupandi skal leggja til ábyrgðir frá sínum viðskiptabanka vegna þeirra greiðslna sem hann þarf að greiða samkvæmt kauptilboði þessu. (3. til 6. lið)
Um bankaábyrgð sé fjallað í 2.6 gr. kaupsamningsins og þar segi, að við undirritun samnings skuli TSH hf. leggja fram frumrit ábyrgðar frá viðskiptabanka sínum til tryggingar greiðslum skv. 2.4 gr., stafliðum B-E, en greiðsla skv. 2.4 gr. A-lið sé greidd á kaupsamningsdegi. En orðrétt segi í bankaábyrgðinni frá 29. ágúst 2008:
Landsbanki Íslands hf. ábyrgist hér með greiðslur Trésmiðju Snorra Hjaltasonar ehf., kt. 700189-2369 (hér eftir nefndur TSH hf.) til handa Hestafli ehf., kt. 660404-3410 (hér eftir nefnt Hestafl), vegna kaupa TSH á öllum hlutum í Fossafli ehf., kt. 681005-1450, af Hestafli, skv. kaupsamningi milli aðila dags. 29. ágúst 2008 (hér eftir nefndur Kaupsamningurinn), sbr. kauptilboð dags. 20. maí 2008 (hér eftir nefnt Kauptilboðið). Greiðsluábyrgð Landsbankans kann að stofnast í samræmi við ábyrgðaryfirlýsingu þessa skv. eftirfarandi:
Á eftir komi svo tilgreindur gjalddagi eftirstöðva kaupverðs, sem taki mið af framgangi verksins samkvæmt kaupsamningi.
Síðan segi orðrétt:
Hestafl ehf. getur krafið Landsbankann hf. um greiðslu skv. ofangreindu einhliða og án undangengins dóms.
Síðan segi orðrétt :
Ábyrgðaryfirlýsing þessi er ótímabundin en fellur niður þegar:
a. Allar greiðslur skv. ofangreindu hafa verið inntar af hendi annaðhvort í samræmi við kaupsamninginn eða endanlega dómsniðurstöðu.
Samkomulag hafi svo verið með aðilum um, að framangreind bankaábyrgð til tryggingar greiðslu eftirstöðva kaupverðs yrði ekki afhent fyrr en Glitnir Banki hf. hefði aflétt tryggingabréfum sínum, sbr. 1. mgr. 2.4 gr. í kaupsamningi, og skyldi lögmaður stefnda varðveita hana þangað til og afhenda hana þáverandi lögmanni stefnanda gegn framvísun veðbókarvottorðs, sem sýndi aflýsingu framangreindra tryggingarbréfa Glitnis Banka. Hafi það gengið að fullu eftir þann 29. september 2008.
Þann 10. nóvember 2008 hafi Hrólfur Ölvisson sent tölvupóst vegna falls Landsbankans, þar sem óskað hafi verið eftir því, að bankaábyrgð Landsbankans yrði endurnýjuð af stefnanda. Þessu erindi hafi verið svarað með tölvupósti frá áðurnefndum Davíð Björnssyni þann 11. nóvember 2008, þar sem staðfest sé, að allar ábyrgðir, sem hafi verið í íslenzkum krónum í gamla bankanum, hafi verið færðar yfir í nýja bankann. Ábyrgðin sé því í gildi.
Á fundi bæjarráðs Sveitarfélagsins Árborgar þann 14. maí 2010 hafi verið lögð fram tillaga um riftun á fyrrgreindum samningi um leigu á þjónusturými í húsi, sem Fossafl ehf. hugðist reisa að Austurvegi 51-59, þar sem enn hafði ekki orðið af byggingaráformunum og hafi því þótt eðlilegt að rifta samningnum. Hafi tillagan verið borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, uppkveðnum 31. maí 2011, hafi bú THS hf. verið tekið til gjaldþrotaskipta, en þá undir nýju nafni, Týrus ehf., kt. 700189-2369, með starfstöð að Kirkjustétt 2-6, Reykjavík.
Stefnandi hafi margsinnis óskað eftir því við stefnda, að hann stæði við gerða samninga, eftir að ljóst hafi verið, að TSH hf. myndi ekki efna kaupsamning sinn við Hestafl ehf. að fullu. Slíkt hafi fyrst verið gert með bréfi Helga Sigurðssonar hrl., dags 12. nóvember 2009. Einnig megi nefna gagnkröfu, sem gerð hafi verið skv. greinargerð í máli stefnda gegn Hrólfi Ölvissyni, eiganda Hestafls ehf., fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í máli nr. E-5114/2010, dags. 11. marz 2010. Og nú síðast hafi verið send greiðsluáskorun til stefnda þann 6. maí 2011.
Þar sem stefndi hafi aldrei brugðizt við framangreindum greiðsluáskorunum og þannig ekki uppfyllt greiðsluskyldu sína samkvæmt bankaábyrgðinni, þrátt fyrir sátta- og innheimtutilraunir stefnanda, beri stefnanda nauðsyn til málshöfðunar þessarar.
Hvað varði aðild Landsbankans hf. (þá NBI hf.) til greiðslu, sé vísað til ákvörðunar FME um skiptingu ráðstöfunar eigna og skulda Landsbanka Íslands hf. til NBI hf. (Nú Landsbankinn hf.) hinn 9. október 2008 ásamt síðari breytingum. Listi I sé yfir ábyrgðir, þar sem NBI hf. (Nú Landsbankinn hf.) hafi tekið yfir greiðsluskuldbindingu samkvæmt efni ábyrgðanna. Þar sé fyrst og fremst um að ræða ábyrgðir vegna innflutnings á vöru og þjónustu og efndaábyrgðir fyrirtækja og einstaklinga vegna skuldbindinga á Íslandi.
Stefndi gerir athugasemdir við framsetningu stefnanda á málavöxtum í stefnu að því leyti, að málinu sé ítrekað stillt þannig upp, að Gamli Landsbanki Íslands hf. (GLÍ) hafi átt fullt frumkvæði að þeim viðskiptum, sem deilt sé um og jafnvel eins og bankinn hafi beitt stefnanda þrýstingi og reynt að fá hann til að selja Fossafl ehf. Hið rétta sé hins vegar, að stefnandi hafi frá upphafi haft í hyggju að selja félagið með þeim réttindum, sem búið hafi verið að afla, og hafi aldrei komið til greina, að stefnandi myndi sjálfur reka þá starfsemi, sem samið hafi verið um við sveitarfélagið að reka á lóðinni við Austurveg 51-59. Hugmyndin muni alltaf hafa verið sú hjá stefnanda að búa til „pakka“, sem unnt væri að selja fjárfestum, sem hefðu áhuga á að setja á laggirnar og reka slíka starfsemi. Bankinn hafi ekki gert annað en að nefna mögulega fjárfesta, en stefnandi hafi annars leitað sjálfur að þeim.
III
Málsástæður stefnanda
Stefnandi byggir kröfu sýna á því, að stefnda beri að efna skuldbindingu sína samkvæmt ofangreindri ábyrgðaryfirlýsingu og engin atvik hafi orðið í samskiptum aðila, sem felli þá skuldbindingu niður.
Krafa stefnanda byggi á bankaábyrgð þeirri í formi ábyrgðaryfirlýsingar, sem stefndi hafi veitt stefnanda vegna kaupa TSH hf. á bygginga- og fasteignafélaginu Fossafli ehf. af stefnanda skv. kaupsamningi þann 29. ágúst 2008. Með ábyrgðaryfirlýsingunni hafi stefndi tekizt á hendur bankaábyrgð gagnvart stefnanda samkvæmt efni ábyrgðarinnar. Til að ábyrgð stefnda yrði gjaldkræf, hafi krafa stefnanda á hendur TSH hf. einungis þurft að vera í gjalddaga fallinn, þ.e. efndatíminn hafi þurft að vera runninn upp og/eða fyrirséð, að krafan yrði ekki efnd samkvæmt efni sínu af hálfu aðalskuldara, TSH hf. Óumdeilt sé, að TSH hf. hafi ekki staðið við gerðan kaupsamning, enda samningurinn í gjalddaga fallinn og fyrirséð, að hann verði ekki efndur af hálfu TSH hf. Tilkynning þess efnis og krafa um greiðslu ábyrgðarinnar hafi margsinnis verið send Landsbankanum. Þegar af þessari ástæðu ætti að fallast á dómkröfur stefnanda.
Greiðsluskylda stefnda samkvæmt bankaábyrgðinni hafi orðið virk, þegar aðalkrafa var vanefnd, og geti stefnandi fært nægjanlegar sannanir fyrir því, að engar efndir verði fengnar úr hendi aðalskuldara TSH hf. vegna ógjaldfærni hans. Vanefnd TSH hf. sé unnt að rekja til skorts á greiðslugetu félagsins og því skipti engu fyrir greiðsluskyldu ábyrgðarmanns, þótt aðalskuldara skorti vilja til að efna skuldbindingu sína.
Heimild stefnanda til að gjaldfella greiðslur samkvæmt kaupsamningnum og krefja stefnda um greiðslu skv. ábyrgðaryfirlýsingunni sé ótvírætt til staðar, þar sem efndatími greiðslna sé kominn, auk þess sem Fossafl ehf. hafi misst forræði á hluta af fyrrgreindum byggingarreit að Austurvegi 51-59, en sú bygging, sem þar hafi átt að rísa, hafi verið grundvöllur þess leigusamnings og þjónustusamnings, sem kauptilboð og samningur hafi byggst á og hafi m.a. markað efndatímann. Þá liggi einnig fyrir, að Sveitarfélagið Árborg hafi rift ofangreindum leigusamningi og bú kaupanda TSH hf. verið tekið til gjaldþrotaskipta.
Ábyrgðaryfirlýsingin sé skýr og afdráttarlaus. Af orðalagi hennar sjáist, að hún sé orðin gjaldkræf. Fyrirvari í ábyrgðaryfirlýsingu varðandi greiðslu samkvæmt d-lið komi ekki til skoðunar vegna þess tímaramma, sem fyrirvaranum hafi verið gefinn, en TSH hf. hefði, samkvæmt kaupsamningi, þurft að höfða dómsmál vegna fyrirvarans fyrir 2. apríl 2009, hefði svo átt að vera.
Orðalag ábyrgðaryfirlýsingarinnar verði ekki skilið á annan hátt en þann, að hugsanlegur ágreiningur á milli stefnanda og TSH hf. um önnur atriði skuli fá sjálfstæða úrlausn og greiðsla ábyrgðarinnar skuli fara fram óháð öðrum hugsanlegum deilum milli TSH hf. og stefnanda. Fráleitt verði að telja, að stefndi geti beitt annars konar túlkun.
Þá verði því ekki haldið fram, eins og hér hátti til, að ákvæði um mögulegan efndatíma á greiðslum, eins og hann sé tilgreindur í ábyrgðaryfirlýsingu, séu einhvers konar skilyrði fyrir því, að greiðsluskylda stofnist einungis samkvæmt þeim, heldur kunni greiðsluskyldan að stofnast þá. Þá sé engan fyrirvara um slík skilyrði að finna í málsgögnum, kauptilboði, kaupsamningi eða ábyrgðaryfirlýsingunni.
Stefnandi byggi á almennum túlkunarreglum við skýringu á ábyrgðaryfirlýsingunni. Ábyrgðaryfirlýsingin sé, að mati stefnanda, afgerandi og skýr. Þyki einhver óskýrleiki vera til staðar í skilmála, beri sá, er einhliða semji hann, hallann af óskýrleikanum. Sé sá, er óskýran skilmála semji, sérfróður um efnið, beri sá enn frekar hallann af óskýrleikanum. Stefndi hafi samið ábyrgðaryfirlýsinguna einhliða og verði án nokkurs vafa að teljast sérfróður um efni hennar.
Af hálfu stefnda hafi engin tilraun verið gerð til að útskýra, af hverju ekki hafi verið greitt samkvæmt ábyrgðinni.
Ábyrgðin sé til komin vegna umrædds kaupsamnings, sem gerður sé samkvæmt kauptilboði TSH hf. Verði orð og innihald bankaábyrgðarinnar þar af leiðandi ekki skýrð án tillits til þess skilnings, sem samningsaðilar hafi lagt í hana á þeim tíma, sem hún var stofnuð, og tilgangs hennar. Tölvupóstsamskipti stefnda og annarra aðila, sem að gerð umrædds kaupsamnings komu, staðfesti, að tilgangur ábyrgðarinnar hafi verið í algjöru samræmi við skilning stefnanda.
Aðkoma stefnda að kaupum TSH hf. á eign stefnanda hafi verið veruleg, og stefnda hafi verið ljóst, að útgáfa bankaábyrgðar stefnda hafi verið forsenda þess, að stefnandi samþykkti kauptilboð TSH hf. Upphaflegt kauptilboð TSH hf. hafi gert ráð fyrir því, að veitt væri bankaábyrgð vegna greiðslna kaupverðs, enda hafi stefnandi gert kröfu um það, þar sem um gríðarmikla hagsmuni hafi verið að ræða. Ótækt væri að gera slíkan kaupsamning, án þess að fyrir lægju tryggingar fyrir greiðslu kaupverðsins. Stefnda hafi frá upphafi verið kunnugt um þessa forsendu stefnanda. Hafi stefndi sjálfur samið ábyrgðaryfirlýsinguna, sem stefnandi hafi átt að geta gengið að, yrðu vanskil á greiðslum af hálfu TSH hf. Óhætt sé að fullyrða, að stefnandi hefði ekki ritað undir umræddan kaupsamning um sölu á Fossaafli ehf., ef ekki hefði legið fyrir bankaábyrgð, sem tryggði greiðslu kaupverðs að fullu skv. kaupsamningnum.
Þegar litið sé til aðdragandans að gerð kaupsamningsins og ótvíræðs orðalags ábyrgðaryfirlýsingarinnar, verði að telja, að stefndi hafi undirgengizt ábyrgð á skilvísum greiðslum samkvæmt kaupsamningi. Yfirlýsing stefnda að þessu leyti jafngildi kröfuábyrgð á fyrirliggjandi kaupsamningi. Í slíkri kröfuábyrgð felist óafturkræft loforð, þar sem stefnandi skuldbindi sig til að tryggja efndir óskipt með TSH ehf.
Ljóst sé, að stefndi hafi stofnað til hárrar ábyrgðar gagnvart stefnanda fyrir hönd TSH hf. með fyrrgreindri ábyrgðaryfirlýsingu á grundvelli bankaábyrgða, en stefnandi sé handhafi réttinda hennar.
Stefndi sé fjármálastofnun. Almennt megi gera ríka kröfu um, að hann sé verðugur trausts. Að starfsemi hans standi aðilar með mikla reynslu í viðskiptalífinu, og innan hans sé mikil sérfræðiþekking um fjármálastarfsemi og viðskipti. Stefndi hafi komið að söluferlinu á öllum stigum málsins. Hann hafi einhliða samið ákvæði bankaábyrgðarinnar og tekið fulla ábyrgð á greiðslu kaupverðs samkvæmt skilmálum kaupsamningsins. Stefndi geti því ekki borið því við, að bankaábyrgðin sé ekki orðin gjaldkræf. Á þeim forsendum beri að fallast á dómkröfur stefnanda.
Krafa um dráttarvexti frá 12. desember 2009 byggist á 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. einnig 7. gr. sömu laga. En á framangreindum degi sé mánuður liðinn frá því að stefndi hafi sannanlega fyrst verið krafinn um greiðslu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni.
Krafa um málskostnað byggist á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. einnig lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Krafa um álag á málskostnað byggist á 131. gr. laga um meðferð einkamála. Stefndi sé fjármálafyrirtæki og starfi samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Þannig beri stefnda að viðhafa eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti, sbr. m.a. 19. gr. laganna. Þá sé stefndi einn stærsti banki landsins og komi í viðskiptalífinu víða að kaupum og sölum fyrirtækja, fjármögnunum o.þ.h.
Þrátt fyrir ítarlega eftirgrennslan hafi engin formleg viðbrögð borizt stefnanda frá stefnda vegna kröfu um greiðslu skv. bankaábyrgðinni, sem verði að teljast sérlega ámælisverð háttsemi af hálfu fjármálastofnunar, sem hafi starfsleyfi sem banki og sé gert að starfa eftir reglum, sem gildi um fjármálafyrirtæki. Háttsemi stefnda hafi leitt til verulega aukins kostnaðar fyrir stefnanda og lögmenn hans. Háttsemi stefnda sé almennt til þess fallin að rýra traust í viðskiptalífinu. Almenn gjaldfelling af hálfu fjármálastofnana á öryggi ábyrgðaryfirlýsinga og óútskýrður flótti frá greiðsluskyldu sé þeim og þjóðfélaginu til tjóns. Hegðun stefnda í þessu máli gefi til kynna viðhorfsbreytingu og sé í andstöðu við þann skilning og venju, sem margoft hafi komið fram í dómum Hæstaréttar varðandi skuldbindingargildi ábyrgðaryfirlýsingar. Á þessum forsendum m.a., og með vísan til 131. gr. laga um meðferð einkamála, geri stefnandi þá kröfu, að stefndi verði dæmdur til greiðslu álags á málflutningsþóknun.
Stefnandi byggi kröfur sínar á almennum túlkunarreglum og meginreglum samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi ábyrgðaskuldbindinga og loforða og efndir fjárskuldbindinga. Þá vísist einnig til laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002. Krafa um málskostnað sé byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála, sbr. einnig lög um virðisaukaskatt nr. 50/1988. Krafa um álag á málskostnað styðjist við 131. gr. laga um meðferð einkamála. Krafa um dráttarvexti sé studd við 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001, sbr. einnig 7. gr. og 12. gr. sömu laga.
Málsástæður stefnda
Svo sem fram komi í stefnu snúist mál þetta um ábyrgðaryfirlýsingu, sem gefin hafi verið út af Gamla Landsbanka Íslands hf. (og síðar yfirtekin af stefnda) í tengslum við kaup Trésmiðju Snorra Hjaltasonar ehf. (TSH) á félaginu Fossafli ehf. af stefnanda, sbr. dskj. nr. 5. Í skjalinu sé mælt fyrir um, að GLÍ (stefndi) taki ábyrgð á tilteknum greiðslum samkvæmt kaupsamningi milli aðila, en síðan segi:
Greiðsluábyrgð Landsbankans kann að stofnast í samræmi við ábyrgðaryfirlýsingu þessa skv. eftirfarandi:
A. Við útgáfu byggingarleyfis (Byggingarnefndar og burðarþolsteikningar samþykktar)
kr. 30.000.000
B. Við úttekt á plötu yfir bílastæðahúsi kr. 50.000.000
C. Við fokheldi 1. áfanga kr. 50.000.000
D. Við fokheldi 2. áfanga kr. 100.000.000
Samtals kr. 230.000.000
Ekki sé unnt að skilja framangreint öðruvísi en svo, að ábyrgð GLÍ verði ekki virk fyrr en framangreindum áföngum sé náð. Óumdeilt sé í málinu, að engum þessara áfanga sé náð, og því geti ábyrgð stefnda ekki hafa stofnazt. Þetta sé grundvallaratriði í málinu, og hafi öllum málsaðilum verið þetta ljóst við undirritun skjalsins, auk þess sem öll önnur skjöl í málinu styðji þessa skýringu.
Nánar segi í 12. gr. kauptilboðins á dskj. nr. 4: „Kaupandi skal leggja til ábyrgðir frá sínum viðskiptabanka vegna þeirra greiðslna sem hann þarf að greiða samkvæmt kauptilboði þessu (3. til 6. lið).“
Samkvæmt tilboðinu skuli einungis leggja til ábyrgð vegna liða 3 til 6, en það séu sömu liðir og að framan greini og fram komi í ábyrgðaryfirlýsingunni. Ómögulegt sé að skilja kauptilboðið með þeim hætti, að gjalddagar umræddra greiðslna séu aðrir en þeir, sem þar séu tilgreindir, þ.e. við útgáfu byggingarleyfis, við plötu yfir bílastæðahúsi o.s.frv. Sé því ljóst samkvæmt kauptilboðinu, að kaupanda hafi einungis verið skylt að afla ábyrgðar vegna þessara gjalddaga.
Nákvæmlega sömu niðurstöðu megi leiða af kaupsamningnum sjálfum, sbr. dskj. nr. 12, en þar segi m.a: „2.6. Kaupandi sýnir við undirritun kaupssamnings frumrit ábyrgðar frá viðskiptabanka sínum til tryggingar greiðslum skv. gr. 2.4. stafliðum B-E, en greiðsla skv. gr. 2.4. A.-lið er greidd á kaupsamningsdegi.“
Þeir stafliðir, sem þarna sé vísað til og fram komi í kaupsamningnum, séu sömu gjalddagar og fjallað hafi verið um hér að framan.
Í stefnu segi, að stefnandi byggi á almennum túlkunarreglum um skýringu á ábyrgðaryfirlýsingunni, þannig að ef einhver óskýrleiki kunni að vera til staðar, beri að túlka hann bankanum í óhag, þar sem um sérfróðan aðila sé að ræða, sem jafnframt hafi einhliða samið ábyrgðaryfirlýsinguna. Í fyrsta lagi telji stefndi engan óskýrleika vera til staðar. Þvert á móti blasi framangreindur skilningur stefnda við, þegar skjöl málsins séu lesin. Í öðru lagi mótmæli stefndi harðlega þeim túlkunaraðferðum, sem stefnandi leggi til, en eins og sjá megi af framangreindu, séu skilyrðin í ábyrgðaryfirlýsingunni tekin beint upp úr skjölum, sem stefnandi og viðsemjandi hans, TSH ehf., hafi sjálfir samið, þ.e.a.s. kauptilboðinu og kaupsamningnum. Skilyrðin og gjalddagarnir hafi þannig verið ákveðnir af þessum aðilum, og ábyrgðaryfirlýsingin hafi tekið mið af því, þannig að bankinn ábyrgðist tilteknar greiðslur, þegar þær féllu í gjalddaga, eins og nánar verði fjallað um hér á eftir. Sá texti, sem hér sé ágreiningur um, sé því ekki kominn frá bankanum, heldur stefnanda.
Ljóst sé, að frá upphafi máls þessa hafi aldrei komið til greina, að GLÍ ábyrgðist greiðslur samkvæmt kaupsamningnum að heildarfjárhæð kr. 230.000.000, án þess að á móti kæmu einhvers konar eignir til að vega gegn áhættu, sem hafi falizt í ábyrgðinni. Þannig verði ábyrgðin einungis virk í nokkrum skrefum, eftir því sem verkinu vindi fram, þ.e.a.s. því verki, sem hafi verið grundvöllur verðmætis hins selda félags. Ljóst hafi verið frá upphafi, að meginverðmæti félagsins hafi verið bundið því skilyrði, að fasteignin risi og samningur félagsins við Sveitarfélagið Árborg kæmi til framkvæmda. Án þessa hafi félagið verið lítils virði og ljóst, að bankinn hefði aldrei tekizt á hendur svo háa ábyrgð, án frekari trygginga. Vegna þessa hafi ábyrgðin einmitt verið bundin við margnefnda áfanga, sem hver um sig hafi verið talinn auka verðmæti hins selda félags um viðkomandi fjárhæð.
Í stefnu sé nánast algjörlega skautað fram hjá framangreindum gjalddögum/skilyrðum, sem tilgreindir séu í ábyrgðaryfirlýsingunni. Einungis sé vikið að þessu atriði á einum stað á bls. 5 í stefnu, en þar segi:
Þá verður því ekki haldið fram eins og hér til háttar að ákvæði í um mögulegan efndatíma á greiðslum, eins og hann er tilgreindur í ábyrgðaryfirlýsingu, séu einhverskonar skilyrði fyrir því að greiðsluskylda stofnist einungis samkvæmt þeim heldur kann greiðsluskyldan að stofnast þá. Þá er enginn fyrirvari um slík skilyrði að finna í málsgögnum, kauptilboði, kaupsamningi eða í ábyrgðaryfirlýsingunni.
Í fyrsta lagi sé það alrangt, að enginn fyrirvari sé um skilyrðin í kauptilboði, kaupsamningi eða í ábyrgðaryfirlýsingunni sjálfri. Þvert á móti sé skýrt kveðið á um þau í öllum þessum gögnum, eins og fyrr hafi verið vikið að. Þá sé með ólíkindum skýring stefnanda þess efnis, að greiðsluskyldan stofnist ekki einungis samkvæmt umræddum skilyrðum, heldur kunni hún einungis að stofnast samkvæmt þeim. Svo virðist sem stefnandi sé að halda því fram, að tilvísun í umrædd skilyrði sé í einhvers konar dæmaskyni og hafi þannig í raun engin réttaráhrif. Það sé almennt viðurkennd og vel þekkt regla í samningarétti, að skýra skuli samningsákvæði með þeim hætti, að þau fái raunveruleg réttaráhrif, en verði ekki dauð og ómerk. Ef skýring stefnanda yrði fyrir valinu, yrði að líta svo á, að mikilvægasta ákvæði ábyrgðaryfirlýsingarinnar, þ.e.a.s. um það hvenær ábyrgð bankans kunni að stofnast, hafi engin réttaráhrif, enda telji stefnandi sig geta krafið bankann um alla fjárhæðina, þrátt fyrir að óumdeilt sé, að ekkert hinna tilvitnuðu skilyrða sé uppfyllt.
Í stefnu segi ítrekað, að krafa stefnanda á hendur TSH ehf. vegna hinna umkröfðu kr. 230.000.000 sé orðin gjaldkræf. Þar segi jafnframt á bls. 5, að til þess að krafan falli í gjalddaga, þurfi efndatíminn að vera runninn upp og/eða fyrirséð, að krafan yrði ekki efnd samkvæmt efni sínu af hálfu aðalskuldara, TSH ehf. Þeir gjalddagar, sem hér skipti máli og fjallað hafi verið um hér að framan, séu ekki runnir upp, þar sem ekki hafi verið hafizt handa við að reisa fasteignina. Hvergi í samningum TSH ehf. og stefnanda, eða í ábyrgðaryfirlýsingunni á dskj. nr. 5, sé að finna gjaldfellingarákvæði eða nokkurs konar ákvæði, sem setji TSH ehf. tímamörk. Þá séu engin ákvæði, sem leggi þá skyldu á félagið að ná umræddum byggingarstigum fyrir tiltekinn tíma. Hvergi segi í dómskjölum þessa máls, að öll fjárhæðin falli í gjalddaga, sé sýnt fram á, að TSH ehf. sé ógjaldfært, eða að fyrirsjáanlegt sé, að umræddum byggingarstigum verði ekki náð. Stefnandi hafi ekki útskýrt í stefnu með fullnægjandi hætti, á hvaða grundvelli hann telji, að umrædd fjárhæð sé fallin í gjalddaga og hvorki vísað til samnings- né lagaákvæða þessu atriði til stuðnings.
Stefndi telji ljóst af gögnum málsins, að kauptilboð og kaupsamningur TSH ehf. og stefnanda hafi verið þannig úr garði gerður, að TSH ehf. hafi strax í upphafi tekið yfir skuldir hins keypta félags og greitt tiltekna fjárhæð við undirritun kaupsamnings. Aðrar greiðslur hafi verið skilyrtar og því aldrei átt að koma til, nema kaupandi næði að búa til þau verðmæti, sem stefnt hafi verið að með samningnum. Tækist það ekki af einhverjum ástæðum, yrði greiðsluskyldan aldrei virk. Hvað sem öðru líði, geti ekki hafa stofnazt til ábyrgðar stefnda, enda þótt litið verði svo á, að krafa á hendur TSH ehf. sé gjaldfallin, enda ábyrgðaryfirlýsingin skýr um skilyrði ábyrgðar bankans.
Með vísan til alls framangreinds sé ljóst, að engin skylda hvíli á stefnda að greiða stefnukröfur í máli þessu, og beri samkvæmt því að sýkna hann að fullu.
Fari svo ólíklega, að ekki verði fallizt á sýknu að fullu, sé þess krafizt til vara, að kröfum stefnda á hendur stefnanda verði skuldajafnað gegn dómkröfum stefnanda. Um sé að ræða kröfur vegna yfirdráttar félagsins í bankanum og sex lánasamninga. Allir lánasamningarnir hafi verið endurútreiknaðir til 1. september 2011 á grundvelli vaxtalaga nr. 38/2001, þar sem um svokölluð gengistryggð lán hafi verið að ræða.
Umræddar kröfur sundurliðist með eftirfarandi hætti:
Skuld vegna yfirdráttar á reikningi nr. 0101-26-60404 kr. 22.485.802
Staða láns nr. 5958 kr. 25.754.131
Staða láns nr. 7060 kr. 25.389.641
Staða láns nr. 7269 kr. 31.310.605
Staða láns nr. 7504 kr. 29.117.472
Staða láns nr. 7505 kr. 11.457.510
Staða láns nr. 9260 kr. 24.298.879
Staða láns nr. 5937 kr. 23.065.764
Staða láns nr. 5938 kr. 26.999.715
Samtals kr. 219.879.519
Með vísan til framangreinds standi stefnandi í skuld við stefnda, samtals að fjárhæð kr. 219.879.519, og sé þess krafizt, að þessari fjárhæð verði skuldajafnað gagnvart þeim kröfum, sem dómurinn kunni að fallast á, að stefnandi eigi á stefnda.
Að lokum sé öllum kröfum, fullyrðingum, staðhæfingum, málsástæðum og málavaxtalýsingum stefnanda mótmælt, þ.m.t. dráttarvaxtakröfu stefnanda.
Krafa stefnda um sýknu sé einkum byggð á ólögfestum meginreglum samninga- og kröfuréttar. Krafa um skuldajöfnuð byggist á 1. mgr. 28. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 og ólögfestum reglum kröfuréttarins um skuldajöfnuð. Kröfu um málskostnað styðji stefndi við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
IV
Forsendur og niðurstaða
Davíð Björnsson, forstöðumaður á fyrirtækjasviði í Landsbankanum, gaf skýrslu fyrir dómi.
Ágreiningur í máli þessu snýst um túlkun á ábyrgðaryfirlýsingu Landsbanka Íslands, dags. 29. ágúst 2008, þar sem bankinn lýsir því yfir, að hann ábyrgist greiðslur Trésmiðju Snorra Hjaltasonar ehf. vegna kaupa félagsins á öllum hlutum stefnanda, Hestafls ehf., í Fossafli ehf. samkvæmt kaupsamningi þeirra, dagsettum sama dag. Í ábyrgðaryfirlýsingunni segir svo m.a.:
Greiðsluábyrgð Landsbankans kann að stofnast í samræmi við ábyrgðaryfirlýsingu þessa skv. eftirfarandi:
A. Við útgáfu byggingarleyfis (Byggingarnefndar
og burðarþolsteikningar samþykktar) kr. 30.000.000
B. Við úttekt á plötu yfir bílastæðahúsi kr. 50.000.000
C. Við fokheldi 1. áfanga kr. 50.000.000
D. Við fokheldi 2. áfanga kr. 100.000.000
Samtals kr. 230.000.000
Þá eru í yfirlýsingunni gerðir fyrirvarar vegna greiðsluskuldbindingar samkvæmt D-lið.
Í kaupsamningi aðila er greiðsla kaupverðs tilgreind undir stafliðum A-E, þar sem liðir B-E samsvara liðum A-D í ábyrgðaryfirlýsingunni, en liður A í kaupsamningi fjallar um greiðslu á kaupsamningsdegi og er ekki hluti af ágreiningi í máli þessu. Þá segir svo í lið 2.6 í kaupsamningi:
Kaupandi sýnir við undirritun kaupsamnings frumrit ábyrgðar frá viðskiptabanka sínum til tryggingar greiðslum samkvæmt gr. 2.4 stafliðum B-E, en greiðsla skv. gr. 2.4 A-lið er greidd á kaupsamningsdegi. Samkomulag er með samningsaðilum um að framangreind bankaábyrgð til tryggingar greiðslu eftirstöðva kaupverðs verði ekki afhent fyrr en Glitnis banki hf. hefur aflétt tryggingabréfum sínum, sbr. 1. mgr. gr. 2.4 “
Samkvæmt framburði Davíðs Björnssonar fyrir dómi kom bankinn ekki að sjálfri kaupsamningsgerð Trésmiðju Snorra Hjaltasonar og Hestafls ehf., og hafði ekki áhrif á efni hennar, enda þótt aðilar hefðu haft samráð við bankann um, hvernig fara ætti með áhvílandi lán og hvað greitt skyldi upp. Ábyrgðin hefði verið veitt með það í huga, að hún tæki gildi eftir framvindu verksins, þannig að bankinn fengi veð í byggingunni, eftir því sem henni þokaði áfram og veðið yrði verðmeira.
Ljóst er af orðalagi ábyrgðarskuldbindingarinnar, að ábyrgðin skyldi taka gildi eftir framvindu verksins, eins og henni er lýst í stafliðum A-D í yfirlýsingunni. Þykir orðalagið skýrt að þessu leyti. Þá er ljóst af kaupsamningi aðila, að ábyrgðaryfirlýsingin lá fyrir við gerð samningsins, og mátti aðilum vera ljóst af orðalagi hennar, að ábyrgðin væri háð verkframvindu. Hefur stefnandi hvorki sýnt fram á, né gert sennilegt, að bankinn hafi tekið á sig skilyrðislausa ábyrgð, án nokkurrar tengingar við verkframvindu. Ber því þegar af þessum sökum að sýkna stefnda af kröfum stefnanda í máli þessu. Þá ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir eftir atvikum hæfilega ákveðinn kr. 750.000.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn
D Ó M S O R Ð
Stefndi, Landsbankinn, er sýkn af kröfum stefnanda, Hestafls ehf.
Stefnandi greiði stefnda kr. 750.000 í málskostnað.