Hæstiréttur íslands

Mál nr. 2/2017

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H. B. Snorrason saksóknari)
gegn
X (Garðar Steinn Ólafsson hdl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald
  • Útlendingur

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 115. gr. og 3. mgr. sömu greinar laga nr. 80/2016 um útlendinga.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Helgi I. Jónsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 31. desember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 2. janúar 2017. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. desember 2016, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi  til föstudagsins 13. janúar 2017 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann „málsvarnarlauna skipaðs verjanda í Hæstarétti.“

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 115. gr. og 3. mgr. sömu greinar laga nr. 80/2016 um útlendinga, sbr. áður 3. og 4. mgr. 33. gr. a. laga nr. 96/2002, verður hinn kærði úrskurður staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Garðars Steins Ólafssonar héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 124.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.      

 

 

               

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. desember 2016

         Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X kt. [...] verði gert að sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 13. janúar 2017 kl. 16:00.

         Í greinargerð lögreglu kemur fram að bakgrunnur málsins sé sá að þann 12. febrúar sl. hafi Útlendingastofnun tekið ákvörðun um að réttur kærða til dvalar á landinu hafi verið felldur niður og hafi sú ákvörðun verið staðfest með úrskurði kærunefndar útlendingamála þann 28. júlí sl.

         Þann 14. desember sl. hafi verið birt fyrir kærða ákvörðun Ríkislögreglustjóra í samræmi við 33. gr. a. útlendingalaga um að honum yrði gert skylt að mæta á lögreglustöðina á Hverfisgötu 113 í Rvk. klukkan 14:00 á hverjum virkum degi næstu 30 daga frá birtingu ákvörðunarinnar.

         Fyrir liggur að kærði hafi aðeins tilkynnti sig einu sinni hjá lögreglu, þ.e. þann 15. desember. Eftir það hafi  kærði aldrei komið aftur á lögreglustöðina til að sinna tilkynningarskyldunni.

         Í gær hafi kærði svo verið handtekinn, grunaður um stórfellda líkamsárás, með því að hafa slegið annan mann í andlitið með hækju og ítrekað slegið hann hnefahögg í andlitið.

         Með vísan til þess að kærði hafi í engu sinnt lögboðinni tilkynningarskyldu sem á honum hvíldi auk þess sem hann liggi undir rökstuddum grun að hafa framið alvarlega líkamsárás verði að telja að skilyrði 33. gr. a. útlendingalaga séu uppfyllt til að kærði sæti gæsluvarðhaldi til að tryggja framkvæmd ákvörðunar Útlendingastofnunar.

         Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og ákvæði 33. gr. a. útlendingalaga og viðeigandi ákvæða laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

Niðurstaða:

         Eins og rannsóknargögn málsins greina, og vikið er að í greinargerð sóknaraðila, hefur kærunefnd útlendingamála staðfest ákvörðun Útlendingastofnunar þess efnis að réttur varnaraðila til dvalar á Íslandi skuli felldur niður. Hinn 14. desember sl. var birt fyrir kærða ákvörðun Ríkislögreglustjóra um að honum væri skylt að tilkynna sig daglega á lögreglustöð næstu 30 daga. Sú ákvörðun var reist á heimild í 1. mgr. 33. gr. a í útlendingalögum nr. 96/2002. Fyrir liggur að varnaraðili hefur ekki sinnt þessari skyldu nema einu sinni, þann 15. desember sl. Samkvæmt 4. mgr. 33. gr. a í útlendingalögum er heimilt að handtaka útlending og úrskurða í gæsluvarðhald samkvæmt lögum um meðferð sakamála, eftir því sem við á, sé það nauðsynlegt til að tryggja framkvæmd ákvörðunar um að útlendingur yfirgefi landið. Varnaraðili var handtekinn í gær grunaður um líkamsárás. Samkvæmt rannsóknargögnum varð vitni að líkamsárásinni sem greindi lögreglu frá því að varnaraðili hefði lamið brotaþola ítrekað í andlitið með hækju. Í ljósi þess að varnaraðili hefur í engu sinnt lögboðinni tilkynningarskyldu sinni og þar sem hann er undir rökstuddum grun um líkamsárás eins og að framan er rakið verður á það fallist að skilyrði 4. mgr. 33. gr. a í útlendingalögum séu fyrir hendi þannig að fallast megi á kröfu sóknaraðila. Að mati dómsins er það ekki ósanngjörn niðurstaða auk þess sem fyrir liggur að vægari úrræði hafa verið reynd.

         Með vísan til 38. gr. laga nr. 88/2008 á skipaður verjandi varnaraðila, Garðar Steinn Ólafsson hdl., tilkall til þóknunar sem greiðist úr ríkissjóði og þykir hæfilega ákveðin 65.000 krónur.

         Ásmundur Helgason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

X kt. [...] skal sæta gæsluvarðhaldi til föstudagsins 13. janúar 2017 kl. 16:00.

Þóknun til skipaðs verjanda varnaraðila, Garðars Steins Ólafssonar hdl., 65.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.