Hæstiréttur íslands
Mál nr. 453/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Reynslulausn
- Skilorðsrof
- Fullnusta refsingar
|
|
Föstudaginn 18. ágúst 2006. |
|
Nr. 453/2006. |
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði(Arnfríður Þórarinsdóttir fulltrúi) gegn X (Jón Egilsson hdl.) |
Kærumál. Reynslulausn. Skilorðsrof. Fullnusta refsingar.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem X var gert að afplána 300 daga eftirstöðvar af 20 mánaða refsingu þar sem skilyrði 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 þóttu uppfyllt.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. ágúst 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 16. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. ágúst 2006, þar sem varnaraðila var gert að afplána 300 daga eftirstöðvar af 20 mánaða refsingu, er hann hlaut með dómi Malmö Tingsrätt í Svíþjóð 10. febrúar 2005. Kæruheimild er í 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 11. ágúst 2006.
Í máli þessu, sem tekið var til úrskurðar í dag krefst Lögreglustjórinn í Hafnarfirði þess með kröfu dagsettri í dag, að Héraðsdómur Reykjaness úrskurði, að X, [...], með lögheimili að [...] í Reykjavík og dvalarstað að [...] í Reykjavík verði með úrskurði gert að afplána 300 daga eftirstöðvar 20 mánaða fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Malmö Tingsrätt í Svíþjóð, uppkveðnum 10. febrúar 2005.
Þann 14. nóvember 2005 var varnaraðila veitt reynslulausn í tvö ár á eftrirstöðvum þessarar refsingar af Fangelsismálastofnun ríkisins.
Skipaður verjandi varnaraðila krefst þess að kröfu lögreglustjóra verði hafnað, enda sé skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 ekki fullnægt. Þá krefst verjandinn hæfilegrar þóknunar sér til handa úr ríkissjóði.
Lögreglustjóri byggir kröfu sína á 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga. Byggt er á því að varnaraðili hafi með brotum sínum gróflega rofið skilyrði reynslulausnar sinnar, en sterkur rökstuddur grunur sé fyrir hendi þess efnis að hann hafi framið rán þann 31. júlí sl. í Bónus Videó í Hafnarfirði og þar með brotið gegn 252. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Við ránið hafi varnaraðili ráðist á tvo starfsmenn og sé talið er að hann hafi tekið um 1.800.000 krónur. Hinn sterki grunur sé byggður á framburði vitna, þar á meðal annars árásarþola sem hafi getað borið kennsl á varnaraðila á mynd eftir atvikið. Varnaraðili hafi verið handtekinn utan við brotavettvang eftir að vitni sáu hann stökkva þar út um glugga. Sé um að ræða brot sem samkvæmt. lögum geti varðað allt að 10 ára fangelsi.
Þá eigi varnaraðili fleiri óafgreidd lögreglumál, þar sem hann sé talinn hafa rofið skilyrði framangreindrar reynslulausnar. Þar á meðal sé sterkur rökstuddur grunur um gripdeild, líkamsárás og fíkniefnalagabrot hans þann 15. júlí sl. í versluninni Skókaup að Fiskislóð 75 í Reykjavík. Á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrir liggja í því máli sé líkamsárásin talin geta varðað við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en beðið er útgáfu læknisvottorðs.
I.
Í máli þessu liggja fyrir skýrslur vitna hjá lögreglunni í Hafnarfirði um atvik og á grundvelli þeirra þykir vera fyrir hendi sterkur rökstuddur grunur um að varnaraðili hafi gerst sekur um alvarlegt ránsbrot samkvæmt 252. gr. almennra hegningarlaga.
Ekki þykir unnt að byggja á skýrslum lögreglunnar í Reykjavík varðandi atvikið 15. júlí sl. þar sem vafi leikur á fullnægt sé skilyrðum 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 hvað það ætlaða brot varðar.
Fyrir liggur staðfesting Fangelsismálastofnunar ríkisins, dagsett 11. ágúst 2006, um að varnaraðila hafi verið veitt reynslulausn á eftirstöðvum 300 daga af 20 mánaða fangelsisrefsingu samkvæmt dómi Malmö Tingsrätt uppkveðnum 10. febrúar 2005.
Varnaraðili sætir nú gæsluvarðhaldi sem rennur út kl. 16:00 í dag.
Dómurinn telur að skilyrði 1. málsliðar 2. mgr. 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga séu uppfyllt og með vísan til þess fellst dómurinn á þá kröfu að varnaraðili skuli afplána 300 daga eftirstöðvar 20 mánaða fangelsisrefsingar sem hann hlaut með dómi Malmö Tingsrätt í Svíþjóð þann 10. febrúar 2005.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns Egilssonar hdl., 62.250 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.
Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður úrkurðinn upp.
ÚRSKURÐARORÐ:
Varnaraðili, X, [...], afpláni 300 daga eftirstöðvar 20 mánaða refsingar sem hann hlaut með dómi Malmö Tingsrätt í Svíþjóð þann 10. febrúar 2005.
Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Jóns Egilssonar hdl., 62.250 krónur, greiðist úr ríkissjóði.