Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-4
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Bifreið
- Líkamstjón
- Skaðabætur
- Uppgjör
- Endurupptaka bótaákvörðunar
- Samlagsaðild
- Frávísun frá héraðsdómi að hluta
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 4. janúar 2019 leitar A leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 7. desember 2018 í málinu nr. 154/2018: Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Tryggingamiðstöðin hf. gegn A og gagnsök, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sjóvá-Almennar tryggingar hf. og Tryggingamiðstöðin hf. leggjast gegn beiðninni.
Ágreiningur aðila lýtur að því hvort leyfisbeiðandi eigi rétt á frekari bótum frá gagnaðilum vegna líkamstjóns sem hún varð fyrir í tveimur umferðarslysum í apríl og maí 2006. Árið 2008 greiddu gagnaðilar hvor fyrir sig leyfisbeiðanda bætur í samræmi við niðurstöðu örorkumats sem aflað var vegna beggja slysanna, en leyfisbeiðandi reisir kröfu sína um endurupptöku uppgjörsins á niðurstöðu matsgerðar dómkvadds manns frá árinu 2016. Krefst hún frekari bóta fyrir varanlegan miska og örorku aðallega óskipt úr hendi gagnaðila, en til vara krefur hún hvorn þeirra um helming stefnufjárhæðarinnar. Með framangreindum dómi Landsréttar voru gagnaðilar sýknaðir af aðalkröfunni með vísan til þess að tveir sjálfstæðir atburðir hafi verið að baki heildartjóni leyfisbeiðanda og hafi tjón sem hún hlaut í hvoru slysi verið metið sérstaklega. Stæðu því engin rök fyrir kröfu hennar um óskipta greiðslu úr hendi gagnaðila. Þá var varakröfu leyfisbeiðanda vísað frá héraðsdómi þar sem ekki hafi verið uppfyllt skilyrði 19. gr. laga nr. 91/1991 fyrir samlagsaðild gagnaðila, enda væru kröfur hennar á hendur þeim ekki reistar á sama atviki, aðstöðu eða löggerningi.
Leyfisbeiðandi byggir á því að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi þar sem það sé til þess fallið að skýra þær reglur sem gilda um orsakasamband og skilyrði samlagsaðildar. Þá vísar hún til þess að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína og sé dómur Landsréttar bersýnilega rangur að efni til.
Leyfisbeiðandi kærði ekki til Hæstaréttar frávísun Landsréttar á varakröfu hennar svo sem henni var heimilt samkvæmt a. lið 1. mgr. 167. gr. laga nr. 91/1991. Kemur því einungis til skoðunar hvort heimila eigi áfrýjun vegna aðalkröfu hennar. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit um þá kröfu hafi verulegt almennt gildi né að þau varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.