Hæstiréttur íslands

Mál nr. 97/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 19. febrúar 2010.

Nr. 97/2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Júlíus Magnússon fulltrúi)

gegn

X

(Sveinn Andri Sveinsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008.

Felldur var úr gildi úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 17. febrúar 2010 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. febrúar 2010 þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 9. mars 2010 klukkan 16. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt gögnum málsins er rannsókn lögreglu á ætluðu broti varnaraðila lokið. Hann hefur um nokkra hríð sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna, sbr. a. lið 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, en hann var handtekinn við komu til landsins 14. desember 2009 grunaður um innflutning fíkniefna. Reyndist hann vera með í vörslum sínum 3.736,11 g af efni sem líkist amfetamíni en er ekki á skrá yfir ávana- og fíkniefni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði. Hann hefur hins vegar játað hjá lögreglu að hafa ætlað að flytja til landsins 1 kg af kókaíni. Þótt fallast megi á með sóknaraðila að fram sé kominn sterkur grunur um að varnaraðili hafi haft í hyggju að fremja brot er varðað gæti við 1. mgr. 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, þá þykja almannahagsmunir ekki krefjast þess að hann sæti áfram gæsluvarðhaldi eins og atvikum er háttað. Eru skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 fyrir því að úrskurða varnaraðila í gæsluvarðhald ekki uppfyllt og verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 17. febrúar 2010.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur í dag krafist þess að X, kt. [...],[...], verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 16. mars 2010 kl. 16.00. Er krafan sett fram með vísan til 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og laga nr. 65/1974 um ávana og fíkniefni.

Kærði hefur mótmælt kröfu lögreglustjóra um gæsluvarðhald og til vara að verði á hana fallist þá verði því markaður skemmri tími en krafist er.

Í greinargerð lögreglustjóra segir að lögreglan á Suðurnesjum hafi haft til rannsóknar meint stórfellt brot kærða gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940 og lögum nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni.

Kærði var handtekinn í Flugstöð Leifs Eiríkssonar upp úr miðnætti aðfaranótt 15. desember 2009 vegna rökstudds gruns um að hann stæði að innflutningi á umtalsverðu magni fíkniefna, en við komu til landsins með flugi frá Berlín  á þeim tíma fundust falin í ferðatösku kærða 3.736.11 grömm amfetamíns.

Rannsókn þessa máls er lokið. Rannsóknargögn málsins hafa verið send Ríkissaksóknara til ákærumeðferðar.

Í máli sækjanda fyrir dóminum kom fram að efni það sem kærði flutti inn til landsins hafi samkvæmt matsgerð Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði reynst vera 4-flúoramfetamín sem sé náskylt amfetamíni að gerð en amfetamín sé að finna á lista með fylgiskjali I með reglugerð nr. 848/2002 og þar talið til ávana-og fíkniefnis sem, sem óheimilt er á íslensku forráðsvæði en 4-flúoróamfetamín sé hins vegar ekki á þeim lista. Sagði sækjandi að féllist dómari ekki á að beita gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. sakamálalaga eins og dómur Hæstaréttar á máli nr. 162/2002 gefur vísbendingu um þá bendi hann á að kærði hefur viðurkennt að hafa tekið að sér að flytja inn í kring um kílógramm af lyktarlausu kókaíni. Komi þetta skýrt fram í rannsóknargögnum sem fylgja gæsluvarðhaldskröfunni.

Verjandi vitnaði til þeirra raka sem fram koma fyrir niðurstöðu Hæstaréttar í tilvitnuðum dómi sem hann telur að ætti að leiða til þess að ekki beri að fallast á kröfu sækjanda. Mótmælir verjandi því að byggt verði á því að kærði hafi viðurkennt hjá lögreglu að hann hafi talið að hann væri að taka að sér innflutning á kókaíni enda væri þar hugsanlega  á ferðinni „putatíft“ brot sem ekki væri byggt á í gæsluvarhaldskröfunni.

Þá benti verjandi á að kærði hafi nú þegar setið í gæsluvarðhaldi í 9 vikur án þess að ákæra á hendur honum væri útgefin og því stæði ákvæði í d-lið 95. gr. laga nr.88/2008 í vegi fyrir því að heimilt sé að úrskurða kærða nema í mesta lagi í 3 vikna gæsluvarðhald.

Með vísan til 4. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni með síðari breytingum verður efnið sem kærði flutti inn talið meðal ávana og fíkniefna eins og gert er í matsgerð Rannsóknarstofu háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði og innflutningur á því varðað refsingu samkvæmt 5. gr. laganna. Verða þó ekki talin skilyrði til þess að beita af þessum sökum gæsluvarðhaldi á grundvelli 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Á hinn bóginn telur dómari óhjákvæmilegt að hafa hliðsjón af þeirri afdráttarlausu viðurkenningu ákærða, sem fram kemur í rannsóknargögnum, að hugur hans hafi staðið til þess að flytja inn gegn greiðslu um það bil eitt kílógramm af lyktarlausu kókaíni þrátt fyrir að það hafi við rannsókn reynst miklu meira magn og annað efni. Ásetningur kærða þykir ekki þurfa frekari rökstuðnings. Er því kominn fram rökstuddur grunur um stórfellt brot kærða sem falli undir 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en brot gegn þeirri grein varða fangelsi allt að 12 árum. Þykir því rétt að fallast á með sækjanda að nauðsynlegt sé í þágu almannahagsmuna að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi, sbr. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Kærði hefur nú þegar setið í gæsluvarðhaldi í 9 vikur án þess að mál hafi verið höfðað á hendur honum væri útgefin. Samkvæmt d-lið 95. gr. laga nr. 88/2008 er óheimilt að úrskurða kærða nema í mesta lagi í 3 vikna gæsluvarðhald til viðbótar.

Samkvæmt framansögðu verður kærða gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudags 9. mars 2010  kl. 16.00.

Úrskurð þennan kveður upp Sveinn Sigurkarlsson héraðsdómari.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, skal sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 9. mars 2010, kl. 16.00.

Gæsluvarðhaldið er án takmarkana.