Hæstiréttur íslands
Mál nr. 664/2014
Lykilorð
- Kærumál
- Lögvarðir hagsmunir
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Mánudaginn 20. október 2014. |
|
Nr. 664/2014.
|
Suðurlandsvegur 1-3 ehf. (Arnar Þór Stefánsson hrl.) gegn Ólafi Elfari Júlíussyni Vátryggingafélagi Íslands hf. og (Heiðar Örn Stefánsson hrl.) Valtý Guðmundssyni (Hjörleifur B. Kvaran hrl.) |
Kærumál. Lögvarðir hagsmunir. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
S ehf. og R ehf. gerðu með sér verksamning 2009, að undangengnu útboði, þar sem R ehf. tók að sér sem verktaki að reisa tengibyggingu fyrir S ehf. sem verkkaupa. Ó var byggingarstjóri verksins og V múrarameistari þess. Meðan á verkinu stóð kom í ljós að gæði steypunnar sem notuð var fullnægðu ekki þeim kröfum sem gerðar höfðu verið í verklýsingu. S ehf. höfðaði mál gegn Ó og V til viðurkenningar á óskiptri skaðabótaskyldu þeirra á tjóni sem S ehf. kvaðst hafa orðið fyrir vegna þessa og gegn V hf. til viðurkenningar á greiðsluskyldu félagsins úr starfsábyrgðartryggingu Ó. Í dómi Hæstaréttar kom fram að heimild til þess að höfða viðurkenningarmál sé í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hafi í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo að sá, sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu, verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Taldi Hæstiréttur að S ehf. hefði fullnægt þessum skilyrðum og að málatilbúnaður félagsins væri nægilega skýr til þess að dómur yrði lagður á kröfur þess. Af þessum sökum var frávísunarúrskurður héraðsdóms felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfur S ehf. til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. október 2014 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 10. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2014 þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
I
Sóknaraðili og Rauðás ehf. gerðu með sér verksamning 24. júní 2009, að undangengnu útboði, þar sem síðarnefnda félagið tók að sér sem verktaki að reisa tengibyggingu fyrir sóknaraðila sem verkkaupa milli Suðurlandsvegar númer 1 og 3 á Hellu. Var stefndi Ólafur Elfar byggingarstjóri verksins og stefndi Valtýr múrarameistari þess. Í verklýsingu var meðal annars kveðið á um styrk og flokkun steypu sem nota skyldi við uppsteypu byggingarinnar og sá verktakinn um að útvega hana. Meðan á verkinu stóð voru tekin sýni úr steypunni sem notuð var í plötur byggingarinnar og bentu niðurstöður rannsókna sem gerðar voru á þeim til þess að gæði steypunnar fullnægðu ekki þeim kröfum sem gerðar höfðu verið í verklýsingu.
Í framhaldinu óskaði sóknaraðili eftir áliti Guðjóns Þ. Sigfússonar verkfræðings á orsökum og afleiðingum galla sem hann taldi að væru fyrir hendi á tengibyggingunni, meðal annars „hvað snertir ... uppsteypu við 1. áfanga“ byggingarinnar. Verkfræðingurinn átti fund með þeim aðilum sem hagsmuna áttu að gæta, þar á meðal stefndu Ólafi Elfari og Valtý, þar sem þeim gafst kostur á að koma að athugasemdum sínum. Í rökstuddri álitsgerð verkfræðingsins 28. ágúst 2012 var því svarað neitandi að steypa sú sem notuð hefði verið við uppsteypu umrædds byggingaráfanga uppfyllti þær kröfur sem gerðar hefðu verið í útboðsgögnum og almennt mætti gera til steypu í byggingum af þessu tagi. Einnig voru veitt svör við því hverjar væru orsakir þess að steypan hefði ekki uppfyllt þær gæðakröfur sem gerðar höfðu verið, svo og hver væri áætlaður kostnaður við að bæta úr steypugöllunum, hvaða afleiðingar þeir hefðu haft á framgang verksins og hver væri munurinn á söluverði eignarinnar að Suðurlandsvegi 1-3, miðað við ástand steypunnar annars vegar og ógallaðrar steypu hins vegar.
Sóknaraðili höfðaði mál þetta á hendur stefndu Valtý og Ólafi Elfari 4. maí og 11. júní 2013 til viðurkenningar á óskiptri skaðabótaskyldu þeirra á tjóni sem sóknaraðili kveðst hafa orðið fyrir vegna þess að steypa tengibyggingarinnar hafi verið haldin annmarka. Jafnframt var málið höfðað gegn stefnda Vátryggingafélagi Íslands hf. 2. maí sama ár til viðurkenningar á greiðsluskyldu úr starfsábyrgðartryggingu stefnda Ólafs Elfars. Í héraðsdómsstefnu er tekið fram að bú verktakans Rauðáss ehf. hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta og því sé málshöfðuninni ekki beint að honum. Þá segir í stefnunni að samkvæmt framangreindri álitsgerð sé ljóst að verklag við steypugerð og steypuvinnu hafi verið verulega ábótavant. Stefndi Ólafur Elfar hafi sem byggingarstjóri verið framkvæmdastjóri byggingarframkvæmda og borið ábyrgð í samræmi við það samkvæmt þágildandi skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, þar á meðal hafi hann sem slíkur átt að sjá til þess að iðnmeistarar sem kæmu að verkinu sinntu skyldum sínum og að framkvæmdin væri tæknilega og faglega fullnægjandi. Þá hafi stefndi Valtýr sem múrarameistari borið ábyrgð á allri steinsteypu, niðurlögn hennar og eftirmeðhöndlun, svo sem kveðið hafi verið á um í þágildandi byggingarreglugerð nr. 441/1998. Í stefnunni heldur sóknaraðili því fram að hann hafi vegna saknæmrar og ólögmætrar vanrækslu þessara tveggja stefndu á lögbundnum skyldum þeirra orðið fyrir fjárhagslegu tjóni sem er þar nánar lýst með skírskotun til framangreindrar álitsgerðar.
II
Eins og áður greinir höfðar sóknaraðili mál þetta sem viðurkenningarmál. Heimild til þess er í 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991, enda hafi aðili lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í dómum Hæstaréttar verið skýrður svo að sá, sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu, verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni, gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Svo sem rakið er að framan hefur sóknaraðili fullnægt þessum skilyrðum og er málatilbúnaður hans nægilega skýr til þess að dómur verði lagður á kröfur hans. Af þessum sökum verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka kröfur sóknaraðila til efnismeðferðar.
Varnaraðilar verða dæmdir til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar, Ólafur Elfar Júlíusson, Valtýr Guðmundsson og Vátryggingafélag Íslands hf., greiði sóknaraðila, Suðurlandsvegi 1-3 ehf., óskipt 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. september 2014.
Mál þetta, sem var tekið til úrskurðar 12. september sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Suðurlandsvegi 1-3 ehf., Suðurlandsvegi 1, Hellu, annars vegar á hendur Ólafi Elfari Júlíussyni, Skaregromsveien 22A, 4876 Grimstad, Noregi, og Valtý Guðmundssyni, Stóra-Rimakoti, Hellu, til viðurkenningar á skaðabótaskyldu og hins vegar á hendur Vátryggingafélagi Íslands, Ármúla 3, Reykjavík, til viðurkenningar á greiðsluskyldu úr starfsábyrgðartryggingu stefnda, Ólafs.
Stefna málsins var birt 2. maí 2013.
Endanlegar dómkröfur stefnanda eru þær að stefnandi krefst þess gagnvart stefndu Ólafi Elfari Júlíussyni og Valtý Guðmundssyni að viðurkennd verði skaðabótaskylda þeirra sameiginlega (in solidum) á tjóni stefnanda vegna þess að steypa fasteignarinnar við Suðurlandsveg 1-3 (fastanúmer 232-1250) er haldin annmarka og ekki í samræmi við fyrirskrifuð gæði.
Stefnandi krefst þess gagnvart stefnda Vátryggingafélagi Íslands að viðurkennd verði greiðsluskylda hans úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjórans Ólafs Elfars Júlíussonar hjá þessum stefnda, sbr. skírteinsnúmer 7304591, vegna tjóns stefnanda vegna þess að steypa fasteignarinnar við Suðurlandsveg 1-3 (fastanúmer 232-1250) er haldin annmarka og ekki í samræmi við fyrirskrifuð gæði.
Þess er krafist að stefndu verði sameiginlega (in solidum) gert að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu.
Endanlegar dómkröfur stefnda, Valtýs, eru aðallega krafa um sýknu af öllum kröfum stefanda og til vara að stefnandi verði látinn bera tjón sitt sjálfur að verulegu leyti. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Stefndu, Ólafur Elfar og Vátryggingafélag Íslands, krefjast sýknu af öllum kröfum stefnanda. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.
Við fyrirtöku málsins 2. september sl. breytti stefnandi dómkröfum sínum í það form sem að framan greinir og stefndi Valtýr féll frá frávísunarkröfu sinni.
Við fyrirtöku málsins 4. september sl. tilkynnti dómari að hann gæfi lögmönnum kost á að tjá sig um frávísun málsins án kröfu (ex officio) og fór sá málflutningur fram 12. september sl.
I
Hinn 24. júní 2009 gerði stefnandi verksamning við Rauðás ehf. um byggingu tengibyggingar milli Suðurlandsvegar 1 og 3 á Hellu. Rauðás ehf. varð síðar gjaldþrota. Stefndi Ólafur Elfar Júlíusson tók að sér byggingarstjórn verksins og var hann með starfsábyrgðartryggingu hjá stefnda VÍS. Stefndi Valtýr Guðmundsson tók að sér að vera múrarameistari verksins. Verkframkvæmdir hófust 26. júní 2009 og samkvæmt verksamningi aðilanna átti uppsteypu hússins að ljúka hinn 15. september 2009. Steinsteypan sem notuð var í bygginguna var frá Byggingarfélaginu Klakki, Vík í Mýrdal.
Stefnandi telur að steypan hafi verið gölluð og langt undir fyrirskrifuðum gæðum. Tekin voru sýni úr steypunni 7. september 2009 og síðar. Í verkfundargerð 27. október 2009 koma fram fyrstu niðurstöður steypuprófana sem sýna styrk undir mörkum. Í málinu liggur fyrir álit frá Mannviti, dags. 22. desember 2009, um áætlaðan steypustyrk. Þar kemur fram að steypugæði voru langt frá því sem fyrirskrifað var. Þannig var steypustyrkur í plötu 1. hæðar C16/20, C18/22,5 í plötu 2. hæðar og C20/25 í plötu 3. hæðar. Styrkurinn var því allt frá því að vera helmingur og upp í 2/3 af fyrirskrifuðum styrk steypunnar, sem átti að vera C30/37 eins og áður segir. Þá kemur fram í niðurstöðum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands, dags. 13. október 2009, að þrýstiþol (Mpa) steypunnar hafi aðeins verið 24 Mpa að meðaltali fyrir plötu 1. hæðar og 22 Mpa að meðaltali fyrir plötu 2. hæðar.
Í framhaldinu var farið í styrkingar á burðarvirki og voru þær framkvæmdar af verktakanum. Meðal annars voru steyptar nýjar súlur í kjallara og á 1. hæð. Þá voru einnig settar upp stálstyrkingar á súlur og veggi undir plötum í kjallara, og á 1. og 2. hæð. Kemur þetta fram á bls. 6/11 í matsgerð á dómskjali 14.
Hinn 17. desember 2009 sendu stefnandi og stefndi Ólafur, sem byggingarstjóri verksins, sameiginlega bréf til stefnda VÍS þar sem félaginu var tilkynnt um að niðurstöður úttekta og mælinga á steypustyrk byggingarinnar gæfu vísbendingar um að steypustyrkur í plötum á fyrstu og annarri hæð byggingarinnar væru undir þeim viðmiðunarmörkum sem almennt væri miðað við og koma ætti fram í tilboðsgögnum verksins. Í kjölfarið vann verktakafyrirtækið Verkís greinargerð fyrir stefnanda, dagsett í janúar 2010, sem send var stefnda. Hinn 4. desember 2010 sendi stefnandi bréf til stefnda VÍS þar sem gerð var formleg krafa í starfsábyrgðartryggingu byggingarstjórans vegna gallans Með tölvupósti stefnda VÍS, dags. 12. janúar 2011, var bótaskyldu hafnað.
Stefnandi kærði niðurstöðu stefnda VÍS til úrskurðarnefndar í vátryggingarmálum hinn 17. febrúar 2011. Með úrskurði nefndarinnar dags. 7. apríl 2011 í máli nr. 71/2011 var kröfu stefnanda hafnað með þeirri röksemd að í gögnum málsins væri ekki að finna neinar matsgerðir eða önnur sönnunargögn sem sýndu fram á að byggingarstjórinn hefði með saknæmum hætti vanrækt umsjón og eftirlit með framkvæmdunum þannig að hann bæri ábyrgð á þeim göllum sem fram komu á verkinu.
Hinn 17. febrúar 2012 ákvað stefnandi að óska eftir matsgerð Guðjóns Þ. Sigfússonar hjá verkfræðistofunni VGS. Í matsgerð Guðjóns, dags. 28. ágúst 2012, er komist að þeirri niðurstöðu að steypa hafi verið undir fyrirskrifuðum gæðum og að tjón stefnanda hafi numið a.m.k. 40,8 m.kr. Í fyrsta lagi tæplega 19,5 m.kr. vegna beins útlagðs kostnaðar við viðgerðir, lagfæringar og frekari hönnun. Í öðru lagi 4,5 m.kr. vegna tafa og í þriðja lagi 16,8 m.kr. vegna munar á söluverði eignarinnar vegna lélegra steypugæða.
Stefnandi sendi stefnda VÍS bréf hinn 30. janúar 2013 þar sem þess var krafist að félagið myndi greiða stefnanda hámarkstryggingu byggingarstjóratryggingarinnar í samræmi við matsgerð Guðjóns. Með tölvupósti stefnda VÍS, dags. 28. febrúar 2013, var kröfu stefnanda hafnað.
II
Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála. Í máli þessu krefst stefnandi viðurkenningar á skaðabótaskyldu stefndu Ólafs Elfars og Valtýs sameiginlega (in solidum) á tjóni stefnanda vegna þess að steypa fasteignarinnar við Suðurlandsveg 1-3 var haldin annmarka og ekki í samræmi við fyrirskrifuð gæði. Gagnvart stefnda Vátryggingafélagi Íslands er krafist viðurkenningar á greiðsluskyldu stefnda úr starfsábyrgðartryggingu byggingarstjórans Ólafs Elvars hjá VÍS vegna tjóns stefnanda vegna þess að steypa fasteignarinnar við Suðurlandsveg 1-3 er haldin annmarka og ekki í samræmi við fyrirskrifuð gæði.
Eftir 2. mgr. 25. gr. laga nr. 91/1991 getur aðili leitað viðurkenningardóms um kröfur sínar, enda hafi hann lögvarða hagsmuni af því að skorið sé úr um tilvist eða efni réttinda eða réttarsambands. Áskilnaður ákvæðisins um lögvarða hagsmuni hefur í fjölmörgum dómum Hæstaréttar verið skýrður svo að sá, sem höfðar mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu, verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni og gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Samkvæmt 1. mgr. 80. gr. sömu laga verður stefnandi að gera þetta í stefnu, nema tilefni gefist fyrst til þess síðar eða gagnaðili samþykki, sbr. 5. mgr. 101. gr. laganna.
Í stefnu málsins er byggt á því að steypan sem notuð var til verksins hafi verið gölluð og langt undir fyrirskrifuðum gæðum. Hins vegar skortir á að gerð sé grein fyrir því í stefnu hvað hafi valdið gallanum á steypunni og að sýnt sé fram á að stefndu, Ólafur Elfar og Valtýr, beri ábyrgð á gallanum. Í stefnu er vísað til matsgerðar Guðjóns Þ. Sigfússonar. Hann var ekki dómkvaddur til verksins heldur var matsgerðarinnar aflað einhliða af stefnanda. Í stefnu kemur fram að líklega hafi of langur tími liðið frá blöndun steypunnar í Vík í Mýrdal og þar til steypan var komin í mót. Þá hafi vatni líklega verið bætt út í steinsteypuna til að gera hana vinnanlegri, sem hafi leitt til þess að hún hafi misst styrk sinn. Í skýrslu Mannvits verkfræðistofu, dags. 22. desember 2009, segir að meginástæðan fyrir lágum þrýstistyrk steinsteypunnar sé að of mikið vatn hafi verið í henni miðað við sementsmagn. Síðan segir: „Ástæður fyrir of miklu vatni í steypunni eru líklegast vanstilling eða bilun í skömmtunarbúnaði steypustöðvarinnar. Er þá reiknað með að vatni hafi ekki verið bætt í steypuna eftir að hún yfirgaf steypustöð, en það er óheimilt samkvæmt handbók framleiðslustýringar. Framleiðslu á steypu ætti að stöðva í viðkomandi stöð og hefja ekki að nýju fyrr en gert hefur verið við og gengið úr skugga um að skömmtunarbúnaður hennar virki sem skyldi.“ Af þessu má ráða að ekki liggur ótvírætt fyrir hvers vegna steypan var haldin göllum. Það nægir ekki að tilgreina að „líklega“ hafi of langur tími liðið frá blöndun steypunnar og þar til hún var sett í mót og að „líklega“ hafi vatni verið bætt við steypuna á byggingarstað. Stefnandi hefur því ekki sýnt fram á hvað hafi valdið steypugallanum en vera má, samkvæmt því sem að framan greinir, að ábyrgð á honum hvíli á fleiri aðilum en stefndu málsins. Hafi framkvæmd á verkstað ekki verið í samræmi við verklýsingu um skyldur verktaka þá skortir á að gerð sé grein fyrir því hvernig sú skylda flyst yfir á stefndu.
Stefnandi heldur því fram að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessara ætluðu steypugalla. Umfjöllun stefnunnar um tjónið er á þá leið að byggt er á nefndri matsgerð Guðjóns Þ. Sigfússonar. Í stefnu er tjónið tilgreint á eftirfarandi hátt. Í fyrsta lagi beinn útlagður kostnaðar stefnanda samtals 19.484.217 kr. sem sundurliðast þannig að kostnaður Verkís samkvæmt samantekt 20. maí 2010 sé 3.811.518 kr., kostnaður Arkforms ehf. skv. tímaskýrslum (sept. 2010) 7.212.822 kr., verkefni unnin af Selhúsum ehf. vegna uppsteypu sem tilheyrðu útboðsverki Rauðás, skv. yfirliti frá Verkís hf. dags. 13. sept. 2010, 1.785.336 kr., flotunarkrafa 1.896.000 kr., verkefni unnin af Selhúsum ehf. vegna uppsteypu skv. aukaverkayfirliti „3.1786.541“ kr. og kostnaður við eftirlitsmann 1.602.000 kr. Í annan stað eru tilgreindar tafabætur að fjárhæð 4.500.000 kr. (45x100.000). Í þriðja lagi að munur sé á söluverði eignar vegna lélegra steypugæða að fjárhæð 16.800.000 kr. sem sundurliðast þannig að 12.900.000 kr. eru vegna hækkaðs viðhaldskostnaðar vegna lélegrar steypu, 2.400.000 kr. sem sé verðmat sem rýrnun út frá byggingarkostnaði og 1.500.000 kr. sem ófyrirséður kostnaður. Samtals 40.784.217 kr.
Þrátt fyrir að stefnandi tilgreinir 1. lið kröfunnar sem beinan útlagðan kostnað eru engin gögn vegna þess lögð fram með stefnu málsins. Engin skýring er í stefnunni á þessum kostnaði né tenging við málsástæður þær sem byggt er á í málinu. Í verkfundargerðum haustið og veturinn 2009 kemur fram að unnið var að mótvægisaðgerðum vegna steypugallans. Á það er hins vegar ekki minnst í stefnu málsins. Nauðsyn bar til að geta þessara mótvægisaðgerða í stefnunni, svo sem hvað hafi verið gert, hver hafi framkvæmt verkið og hver kostnaðurinn hafi verið. Ljóst má vera að mótvægisaðgerðirnar geta haft áhrif á tjónið. Skortir því á að stefnandi hafi leitt nægar líkur að því tjóni sem það telur stefndu bera ábyrgð á.
Í annan stað er krafist tafabóta að fjárhæð 4.500.000 kr. sem virðist vera byggðar á verksamningnum milli stefnanda og verktakans. Engin rökstuðningur liggur fyrir í stefnunni um þennan lið.
Í þriðja lagi er tilgreindur munur á söluverði eignar vegna lélegra steypugæða samtals 16.800.000 kr. Enginn rökstuðnings liggur fyrir í stefnu vegna þessa og hvergi er þess getið að húsið hafi verið selt.
Með vísan til þess sem að framan greinir er skilyrðum 2. mgr. 25. gr. laga um meðferð einkamála ekki fullnægt.
Eins og grundvöllur málsins er lagður í stefnu málsins virðist svo sem stefnendur vilji fá greiddan útlagðan kostnað af galla á verkinu samkvæmt verksamningi, en málið sé klætt í búning skaðabótamáls, með því að gera kröfu um viðurkenningu á skaðabótaskylda stefndu. Því ber einnig að vísa málinu frá á grundvelli d- og e-liðar og 80. gr. laga um meðferð einkamála en verulega skortir á að ljóst sé hver sé grundvöllur málsins sem og skortir á um skýrleika þess.
Niðurstaða málsins er því sú að málinu er vísað frá dómi án kröfu. Samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála ber stefnanda að greiða stefnda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn svo sem greinir í úrskurðarorði.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ
Málinu er vísað frá dómi, án kröfu.
Stefnandi, Suðurlandsvegur 1-3 ehf., greiði stefndu, Ólafi Elvari Júlíussyni og Vátryggingarfélagi Íslands hf., samtals 500.000 krónur í málskostnað og stefnda, Valtý Guðmundssyni, 500.000 kr. í málskostnað.