Hæstiréttur íslands

Mál nr. 434/2006


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kröfugerð
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


Fimmtudaginn 17

 

Fimmtudaginn 17. ágúst 2006.

Nr. 434/2006.

Pálína Sif Gunnarsdóttir

(Guðmundur Ingvi Sigurðsson hdl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Skarphéðinn Þórisson hrl.)

 

Kærumál. Kröfugerð. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að ekki yrði leyst úr kröfu P á hendur Í um bætur vegna kostnaðar og tekjutaps vegna ættleiðingar og að vísa bæri þeim hluta kröfugerðarinnar frá dómi, sbr. 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Markús Sigurbjörnsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 25. júlí 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. ágúst sl. Kært er ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2006, þar sem vísað var frá dómi tveimur kröfuliðum að fjárhæð samtals 2.561.500 krónur í máli sóknaraðila á hendur varnaraðila, sem efnisdómur var að öðru leyti felldur á. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst að þetta ákvæði dómsins verði fellt úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka kröfuliðina til efnismeðferðar og dómsálagningar. Þá krefst sóknaraðili kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að ákvæði héraðsdóms um frávísun verði staðfest og sér dæmdur kærumálskostnaður.

Með vísan til þeirra forsendna, sem færðar eru fyrir hinu kærða ákvæði héraðsdóms, verður það staðfest.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af kærumáli þessu.

Dómsorð:

Ákvæði í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2006 um frávísun tveggja liða í kröfu sóknaraðila, Pálínu Sifjar Gunnarsdóttur, á hendur varnaraðila, íslenska ríkinu, að fjárhæð samtals 2.561.500 krónur skal vera óraskað.

Kærumálskostnaður fellur niður.

 

        

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 18. júlí 2006.

         Mál þetta var höfðað 25. apríl 2005 og var dómtekið 20. júní sl.       

         Stefnandi er Pálína Sif Gunnarsdóttir, Álfhólsvegi 29, Kópavogi.

         Stefndi er íslenska ríkið.

 

Dómkröfur

         Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða henni bætur að fjárhæð 5.561.500 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 af 5.561.500 krónum frá 13. maí 2004 til greiðsludags.

         Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, auk virðisaukaskatts samkvæmt lögum nr. 50/1988.

         Stefndi krefst þess aðallega að þeim hluta bótakröfu stefnanda sem varðar meintan kostnað vegna ættleiðingar og tekjutap vegna ættleiðingar verði vísað frá dómi. Jafnframt er krafist sýknu af öðrum dómkröfum stefnanda.  Til vara krefst stefndi sýknu af öllum kröfum stefnanda.  Til þrautavara er krafist lækkunar á dómkröfum stefnanda.  Með aðal- og varakröfu stefnda er krafist málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.  Með þrautavarakröfu er þess krafist að málskostnaður verði látinn niður falla.

 

Málavextir

         Málavextir eru þeir að hinn 16. september 1999 var framkölluð fæðing hjá stefnanda þar sem meðgöngulengd reyndist komin í 42 vikur.  Fæðing gekk hins vegar ekki á eðlilegan hátt.  Framkvæmdur var því keisaraskurður 18. september 1999 og fæddist heilbrigt sveinbarn.  Í kjölfar keisaraskurðsins kom fram blæðing frá leginu sem talið var hafa rifnað neðan til og hægra megin á mótum legháls og legbols og náði rifan niður í leggöngin.  Saumað var yfir rifuna og síðan gengið frá aðgerðarsvæðinu á venjulegan hátt. Þegar í ljós kom að blæðing hélt áfram niður leggöng og að hún varð ekki stöðvuð var framkvæmt legnám sama dag, eða 18. september 1999, en legpípur og eggjastokkar voru skilin eftir.  Var þá ljóst að stefnandi myndi ekki geta eignast fleiri börn.

         Að fengnu áliti nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 og áliti landlæknis þótti ljóst að mistök hefðu átt sér stað við fæðingu barns stefnanda.  Þau mistök leiddu til þess að stefnandi getur ekki átt fleiri börn.  Af þeim sökum viðurkenndi stefndi bótaskyldu í málinu.  Aðilar fóru sameiginlega fram á mat á afleiðingum ofangreinds atburðar á grundvelli skaðabótalaga nr. 50/1993.  Í matsgerð læknanna Jónasar Hallgrímssonar og Atla Þórs Ólasonar, dags. 11. nóvember 2002, er lagt mat á tímabundið atvinnutjón, þjáningatímabil, varanlegan miska og varanlega örorku stefnanda.  Í matinu segir m.a. að andleg einkenni sem stefnandi búi við séu töluverð og er reiknað með því að þau muni verða í einhverju mæli framvegis.  Stefnandi var metin með 30% varanlegan miska.

         Hinn 6. október 2004 gerðu aðilar með sér samkomulag um greiðslu skaðabóta til handa stefnanda vegna mistaka við fæðinguna, á grundvelli fyrrgreindrar matsgerðar. Lögmaður stefnanda tók á móti bótunum með fyrirvara um varanlega örorku, miskabætur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga og kostnað o.fl. vegna ættleiðingar.

         Stefnandi heldur því fram í málinu að hún eigi rétt á frekari skaðabótum en leiða af niðurstöðu hinna dómkvöddu matsmanna sem aðilar lögðu til grundvallar við gerð samkomulags sem þeir gerðu 6. október 2004.  Bótakrafa stefnanda er tvíþætt.  Annars vegar krafa um greiðslu miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999 og hins vegar krafa um greiðslu áætlaðs kostnaðar vegna fyrirhugaðra ættleiðinga barna frá Kína og þess líklega tekjutaps sem ættleiðingin hefði í för með sér fyrir stefnanda, en stefnandi kveðst hafa ætlað sér að eignast a.m.k. þrjú börn og hafi hún þegar hafið undirbúning að ættleiðingu eins barns, en ekki sé hægt að sækja um leyfi fyrir fleiri en einu barni í einu.  Stefndi hafnar þessum kröfum stefnanda.  Við þessa afstöðu stefnda kveðst stefnandi ekki geta unað og sér hún sig því tilneydda að höfða mál þetta þannig að hún geti orðið skaðlaus af mistökum stefnda.

 

Málsástæður stefnanda og lagarök

         Stefnandi byggir mál sitt á því að með mistökum starfsmanns stefnda hafi stefnandi orðið fyrir tjóni.  Mistök þessi hafa verið viðurkennd að fullu en einungis bætt að hluta.

         Óbætt tjón stefnanda sundurliðist svo:

         Miskabœtur samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

         Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 sé mælt fyrir um sjálfstæða bótaheimild til að láta þann sem af stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni greiða miskabætur til þess sem misgert var við.

         Eins og fram komi í álitsgerð um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990, um heilbrigðisþjónustu, var talið ámælisvert að láta stefnanda rembast eins lengi og raun bar vitni án þess að nokkur framgangur yrði í fæðingunni.  Undir þetta taki landlæknir í áliti sínu, en þar sé tekið fram að sá tími, sem stefnandi var látin rembast, hafi verið nærfellt tvöfalt of langur.

         Stefnandi telur ljóst að stefndi hafi sýnt af sér stórkostlegt gáleysi sem leitt hafi til líkamstjóns stefnanda.  Þetta líkamstjón hafi síðan leitt til þess að stefnandi muni aldrei geta átt börn framar með eðlilegum hætti.  Þessi staðreynd hafi nú þegar valdið stefnanda miklum óþægindum og andlegum þjáningum.

         Stefnandi telur þær miskabætur, sem stefndi hafi greitt á grundvelli 4. gr. laga nr. 50/1993, geti á engan hátt talist fullnægjandi eða tæmandi miðað við stöðu stefnanda eftir mistök stefnda.  Af þeim sökum krefur hún stefnda nú um 3.000.000 króna miskabætur á grundvelli 26. gr. laga nr. 50/1993, en bótakröfu þessa telur stefnandi mjög í hóf stillta miðað við þær þjáningar, sem hún þurfi að líða hvern dag.

Kostnaður vegna ættleiðinga

         Stefnandi ætlaði sér að eignast a.m.k. 3 börn.  Sé það í samræmi við fjölskyldumynstur Íslendinga í dag, en samkvæmt upplýsingum frá Hagstofu Íslands hafi kjarnafjölskyldan að meðaltali verið 2,92 einstaklingar árið 2003.  Mistök stefnda hafi leitt til þess að þeir draumar verði aldrei að veruleika.  Þar sem stefnandi geti ekki átt börn með eðlilegum hætti hafi hún nú hafið undirbúning að ættleiðingu eins barns frá Kína, en aðeins sé hægt að sækja um leyfi til ættleiðingar fyrir eitt barn í einu.

         Samkvæmt staðfestingu Íslenskrar ættleiðingar nemi beinn útlagður kostnaður við ættleiðingu barns frá Kína um. 1.100.000 króna.  Fyrirsjáanlegt fjárhagslegt tjón stefnanda nemi því um 2.200.000 króna.  Stefnandi telur að tjón hennar verði rakið beint til þeirra mistaka sem urðu við fæðingu sonar hennar hinn 18. september 1999.       Þá sé jafnframt ljóst að tjónið sé sennileg afleiðing mistakanna þar sem fyrirsjáanlegt sé að kona á barneignaraldri muni ekki sætta sig við að mistök stefnda komi í veg fyrir að hún geti eignast þá fjölskyldu, sem hún hafi ávallt stefnt að.      

Tekjutap vegna œttleiðingar

         Stefnandi fari einnig fram á að henni verði bætt það tekjutap, sem fylgi því að undirbúa og sækja ættleitt barn til Kína.  Telja verði að á sama hátt og kostnaður vegna ættleiðingarinnar sjálfrar sé bótaskyldur þá verði jafnframt að bæta það óumflýjanlega tekjutap sem fylgi ættleiðingarferlinu.

         Að mati stefnanda muni a.m.k. 3 vikur fara í það að undirbúa og sækja barn frá Kína, eða alls 6 vikur vegna tveggja barna.  Stefnandi reki eigin hárgreiðslustofu.  Reiknað endurgjald iðnaðarmanns, sem starfi einn, sé 241.000 krónur á mánuði, sbr. flokk D(2) í reglum Ríkisskattstjóra um reiknað endurgjald fyrir árið 2005.  Krafa stefnanda um bætur vegna tekjutaps nemi því alls 361.500 krónum (1,5 x 241.000).

         Alls nemi því stefnukrafa máls þessa 5.561.500 krónum (3.000.000 + 2.200.000 + 361.500) en gerð sé krafa um dráttarvexti frá 13. maí 2004, sbr. 9. gr. laga nr. 38/2001.

         Stefnandi vísar til almennu skaðabótareglunnar og skaðabótalaga nr. 50/1993.

         Kröfur um málskostnað styður stefnandi við 130. gr. laga 91/1991  um meðferð

einkamála.

 

Málsástæður stefnda vegna frávísunarkröfu

         Stefnandi krefst í máli þessu skaðabóta sem taka mið af greiðslu kostnaðar við fyrirhugaða ættleiðingu tveggja barna frá Kína og vinnutaps stefnanda vegna ættleiðinganna, þ.e. ef til kemur.

         Stefndi krefst þess að þessari kröfu verði vísað frá dómi.  Í 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála kemur fram að ef mál er höfðað til úrlausnar um rétt eða skyldu, sem stefnandi játar eða sýnt er á annan hátt að sé ekki enn orðin til, þá skuli vísa máli frá dómi.  Algerlega ófyrirséð er hvort að ættleiðingarbeiðni stefnanda uppfylli þær kröfur sem ættleiðingarþjónustan Íslensk ættleiðing og kínversk stjórnvöld setja fyrir ættleiðingu.  Ekki er hægt að höfða mál um hagsmuni vegna fjártjóns sem enginn vísir er orðinn að eða eru algerlega háð ókomnum atvikum.

         Enn fremur er til rökstuðnings frávísunarkröfu stefnda vísað til  1. tl.  25.  gr. einkamálalaga. Þar segir að dómstólar verði ekki krafðir álits um lögfræðileg efni nema að því leyti sem er nauðsynlegt til úrlausnar um ákveðna kröfu í dómsmáli. Dómsmál þetta er höfðað og rekið sem skaðabótamál.  Dómkröfur stefnanda vegna hugsanlegs kostnaðar í framtíðinni er krafa um álit á lögfræðilegu efni.  Slíkum dómkröfum ber að vísa frá dómi.

 

Málsástæður stefnda til stuðnings sýknukröfu

         Sýknukrafa stefnda er byggð á því að gert hafi verið að fullu upp við stefnanda með ofangreindu samkomulagi hinn 6. október 2004 sem hafi falið í sér fullar bætur fyrir stefnanda.  Mótmælt sé frekari rétti stefnanda til bóta.

         Stefnandi krefjist í máli þessu skaðabóta sem taki mið af greiðslu kostnaðar við fyrirhugaða ættleiðingu tveggja barna frá Kína og væntanlegs vinnutaps stefnanda vegna ættleiðingarinnar.  Að mati stefnda sé bótakrafa þessi utan þeirra hagsmuna sem skaðabótareglum sé ætlað að vernda.

         Almennt skilyrði skaðabótaábyrgðar sé að orsakatengsl séu milli háttsemi og þess tjóns sem bóta er krafist fyrir og að tjónið sé sennileg afleiðing háttsemi.  Stefndi telur að skilyrði sakarreglunnar um sennilega afleiðingu sé ekki fullnægt í málinu.  Ekki sé hægt að ganga svo langt að segja að kostnaður vegna ættleiðinga sé sennileg afleiðing þeirra mistaka sem áttu sér stað.

         Stefnanda málsins hafi verið greiddar miskabætur á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 í samræmi við matsgerð hinna dómkvöddu matsmanna á tjóni hennar.  Varanlegur miski stefnanda hafi verið metinn 30%.  Þegar fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska tjónþola sé ákveðin leiði af orðalagi 4. gr. að litið sé til þess hvers eðlis tjón er og hversu miklar afleiðingar tjóns séu frá læknisfræðilegu sjónarmiði, svo og til erfiðleika sem það valdi í lífi tjónþola.

         Af matsgerðinni megi ráða að við matið á varanlegum miska stefnanda hafi einkum verið tekið tillit til þeirrar staðreyndar að stefnandi, sem sé á barnseignaraldri, hefði misst legið og geti því ekki átt fleiri börn.  Jafnframt hafi verið tekið tillit til þeirra andlegu áhrifa sem sú staðreynd hefði haft og væri líkleg til að hafa á sálarlíf stefnanda til frambúðar.

         Af þessu megi ljóst vera að stefnandi hafi þegar fengið fullar bætur af tjóni sínu sem greiddar voru með fyrrgreindu samkomulagi aðila.  Stefnandi hafi ekki sannað að umfang tjóns hennar sé meira en leiði af ofangreindri matsgerð frá 11. nóvember 2002 sem unnin hafi verið á grundvelli bótareglna skaðabótalaga nr. 50/1993 sem ætlað sé að tryggja fullar bætur til tjónþola.

         Stefnandi krefjist í málinu miskabóta á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999.  Rétti stefnanda til miskabóta á þessum grundvelli sé mótmælt af hálfu stefnda, enda líti stefndi enn og aftur svo á að samkomulagið frá 6. október 2004 hafi falið í sér fullar bætur á tjóni stefnanda.

         Skilyrði fyrir beitingu 26. gr. skaðabótalaga séu þröng, enda áskilji a. liður 1. mgr. ákvæðisins að einungis sé heimilt að láta þann, sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi valdi líkamstjóni, greiða miskabætur til þess sem misgert var við.  Stefndi hafni því að sú meðferð stefnanda á spítalanum sem leitt hafi til líkamstjóns hennar hafi helgast af ásetningi eða stórfelldu gáleysi starfsmanna spítalans.  Þó að fallist sé á það að stefnandi hafi verið látin rembast of lengi í tilraun til þess að framkalla fæðingu barns hennar á eðlilegan hátt, sé því mótmælt að sú meðferð hafi verið stórkostlega gálaus.  Frekar hafi verið um að ræða einfalt gáleysi eða saknæm mistök.  Þessi fullyrðing fái stuðning í gögnum málsins.

         Í álitsgerð nefndar um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 segi m.a. að ekki hafi verið ámælisvert að álitsbeiðandi hafi ekki verið látin gangast undir frekari rannsóknir fyrir fæðinguna þar sem ekki hafi verið vísbendingar um að erfiðleikar væru yfirvofandi í fæðingunni.  Nefndin telji það vera ámælisvert að álitsbeiðandi skyldi vera látin rembast eins lengi og raun bar vitni án þess að nokkur framgangur yrði í fæðingunni.  Nefndin telji þó að meðferð stefnanda að öðru leyti fyrir og við fæðingu barns hennar hafi verið með eðlilegum hætti en þó hefði mátt standa betur að ráðgjöf til stefnanda eftir atburðinn.

         Í áliti landlæknis komi fram að ekki sé víst að legbresturinn hafi verið vegna þess að móðirin var látin rembast jafn lengi og raun bar vitni, heldur gæti hann einnig hafa orðið í keisaraskurðinum þegar reynt hafi verið að losa höfuð barnsins úr grindarinnganginum.  Landlæknir segi enn fremur að viðbrögð við blæðingunni af hálfu starfsfólksins hafi verið hárrétt, eðlileg og fagleg og enn fremur að allt hafi verið gert til þess að forða legnámi, en því miður reyndist það óhjákvæmilegt.

         Stefndi telur í ljósi þessa að aðferðin sem notuð var við fæðinguna hafi leitt til víðtækara og alvarlegra heilsutjóns en hægt hafi verið að sjá fyrir um og þrátt fyrir að telja verði að meðhöndlun stefnda hafi verið saknæm, þá sé fráleitt að halda því fram að um stórfellt gáleysi hafi verið að ræða í skilningi 26. gr. skaðabótalaga.

         Dómstólar hafi beitt 26. gr. skaðabótalaga um miskabætur í samræmi við það þrönga inntak reglunnar sem leiði af áskilnaði hennar um hátt saknæmisstig en einna helst hafi reynt á greiðslu miskabóta á grundvelli ákvæðisins til þolenda líkamsárása í sakamálum.  Fátítt, ef ekki óþekkt, sé að reglunni sé beitt í málum þar sem málsatvik séu með sambærilegum hætti og hér sé.

         Verði fallist á skaðabótaábyrgð stefnda í málinu er gerð sú krafa að dómkrafa stefnanda verði lækkuð og málskostnaður verði látinn falla niður.

 

Niðurstaða

         Stefndi krefst þess að þeim hluta bótakröfu stefnanda sem varðar meintan kostnað vegna ættleiðingar og tekjutap vegna ættleiðingar verði vísað frá dómi. 

         Fyrir liggur að stefnandi hefur hafið undirbúning að ættleiðingu barns frá Kína og hún og eiginmaður hennar hafa verið metin hæfir fósturforeldrar samkvæmt gögnum málsins.  Ennþá er hins vegar ófyrirséð hvort ættleiðing mun eiga sér stað.  Þá er einnig ófyrirséð hvort stefnandi mun verða fyrir kostnaði eða tekjutapi af þeim sökum og þá hve miklum.  Er krafa stefnanda um kostnað og tekjutap vegna ættleiðingar háð ókomnum atvikum og verður því ekki úr henni leyst í máli þessu.  Ber því, þegar af þeim sökum, með vísan til 1. mgr. 26. gr. laga nr. 91/1991, að fallast á frávísunarkröfu stefnda og vísa þessum hluta kröfugerðar stefnanda frá dómi. 

         Stefnandi krefst 3.000.000 króna miskabóta á grundvelli 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.  Í greininni segir m.a. að heimilt sé að láta þann sem af ásetningi eða stórfelldu gáleysi veldur líkamstjóni greiða miskabætur til þess sem misgert var við.  Er þarna um að ræða sjálfstæða bótaheimild, en fyrir liggur að stefnandi hefur þegar fengið greiddar bætur vegna varanlegs miska að fjárhæð 1.693.650 krónur á grundvelli 4. gr. skaðabótalaga.

         Deilt er um það í málinu hvort skilyrði nefndrar lagagreinar séu uppfyllt.  Heldur stefnandi því fram að starfsmenn Landspítalans hafi sýnt af sér stórfellt gáleysi við fæðingu sveinbarns sem stefnandi ól sem leiddi til þess að framkvæma varð legnám hjá stefnanda.

         Í málinu liggur frammi ítarleg greinargerð Reynis Tómasar Geirssonar, prófessors og forstöðulæknis kvennadeildar Landspíta-háskólasjúkrahúss, þar sem ítarlega er rakinn aðdragandi og framgangur fæðingar.  Í niðurlagi greinargerðarinnar segir:

         “Hér er um leitt slys að ræða sem varð vegna einlægrar tilraunar til þess að hjálpa við að láta ósk um eðlilega fæðingu rætast og barn fæðast um leggöng, en fulllengi dróst að framkvæma keisaraskurð um nóttina og það hafði þau áhrif að veikja legið og skapa aukna hættu á legbresti í fæðingunni, sem síðan leiddi til þess að taka varð legið vegna blæðingar.“

         Stefnandi lagði mál sitt fyrir nefnd um ágreiningsmál samkvæmt lögum nr. 97/1990 um heilbrigðisþjónustu.  Álitsgerð nefndarinnar er dags. 23. ágúst 2001.  Í forsendum hennar segir m.a. að svo virðist sem í tilviki stefnanda hafi ekki vaknað grunur um það fyrir fæðinguna að barn hennar væri orðið eins stórt og raun bar vitni.  Erfitt sé að meta fyrir fæðingu hversu stór börn séu orðin og hversu líklegt sé að kona geti fætt barn með eðlilegum hætti.  Taldi nefndin ekki ámælisvert að stefnandi hafi ekki verið látin gangast undir frekari rannsóknir fyrir fæðinguna þar sem ekki voru vísbendingar um að erfiðleikar væru yfirvofandi í fæðingunni.

         Segir einnig í álitsgerðinni að nokkuð skiptar skoðanir séu um það hvort rétt sé að leyfa konum að byrja að rembast áður en útvíkkun sé að fullu lokið.  Telja verði ljóst að í þeim tilvikum sem slíkt sé gert verði að sýna fyllstu aðgát og fylgjast náið með framvindu fæðingarinnar.  Ef enginn framgangur sé í fæðingunni, líkt og raunin hafi verið í tilviki stefnanda, sé slíkt hættulegt.  Ef gefin séu lyf til að örva sóttina geti það einnig leitt til þess að of mikið reyni á legið.

         Við skoðun á stefnanda eftir á sé ljóst að hún hafi verið látin rembast of lengi þar sem brestur kom í leg hennar við áreynsluna með þeim afleiðingum að blæðing varð og nema þurfti burtu leg hennar.  Spurningin sé hins vegar hvort starfsfólk sjúkrahússins hefði átt að sjá þetta fyrir og bregðast öðruvísi við.  Stefnandi hafi verið látin rembast þrátt fyrir að útvíkkun  væri ekki að fullu lokið og henni gefin lyf til að örva sóttina.  Þegar fæðingarlæknir hafi skoðað hana hafi hann ákveðið að láta hana hætta að rembast og draga úr rembingsþörfinni.  Hún hafi síðan verið látin rembast aftur um nóttina án þess að árangur yrði.  Þegar fæðingarlæknir skoði hana í framhaldi af því sé ákveðið að láta skoða hana á skurðstofu og eftir þá skoðun sé ákveðinn keisaraskurður.

         Nefndin telur að ámælisvert hafi verið að láta stefnanda rembast eins lengi og raun ber vitni án þess að nokkur framgangur yrði í fæðingunni.  Telja verði mjög líklegt að brestur hafi komið í legið af þeim sökum og sé því orsök þess að nema þurfti burtu leg hennar eftir keisaraskurðinn.

         Í bréfi landlæknis til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins  kemur fram að landlæknir er í meginatriðum sammála niðurstöðu Reynis Tómasar Geirssonar og nefndar um ágreiningsmál.

         Segir m.a. í bréfi landlæknis:

         „Of langur tími leið frá því að útvíkkun lauk þar til barnið fæddist eða tæplega sex klukkutímar.  Tekið er undir það álit prófessorins að hæfilegur tími hefði átt að vera nærfellt helmingi styttri.  Á þessum tíma var móðirin að rembast sem gæti hafa átt þátt í legbrestinum.  Legbresturinn gæti einnig hafa orðið í keisaraskurðinum þegar reynt var að losa höfuð barnsins úr grindarinngangi.  Eigi að síður bendir allt til að hinn langi tími sem að ofan er getið hafi verið megin áhrifavaldur legbrestsins og orsakað legbrottsnámið síðar.“

         Í málinu hefur ekki verði sýnt fram á annað en að því fagfólki sem að fæðingunni stóð hefði átt að vera ljós sú hætta sem að steðjaði við það að of langur tími leið frá því að útvíkkun lauk þar til barnið fæddist.  Eins og fram er komið, hefði hæfilegur tími átt að vera helmingi styttri en var í tilviki stefnanda.  Að mati dómsins verður að telja það stórfellt gáleysi að bíða helmingi lengri tíma en eðlilegt má teljast með að framkvæma keisaraskurð.  Teljast uppfyllt skilyrði 1. mgr. 26. skaðabótalaga til greiðslu miskabóta.  Teljast miskabætur til handa stefnanda hæfilega ákveðnar 1.000.000 króna.

         Stefnandi hefur gjafsókn í máli þessu.  Eins og aðild málsins háttar þykir því rétt að málskostnaður falli niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Guðmundar Ingva Sigurðssonar hdl., 280.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.  Við ákvörðun málskostnaðar er ekki tekið tillit til virðisaukaskatts.

         Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

D Ó M S O R Ð

         Skaðabótakröfu stefnanda vegna kostnaðar við ættleiðingar og tekjutap vegna ættleiðingar, 2.561.500 krónur, er vísað frá dómi.

         Stefndi, íslenska ríkið, greiði stefnanda, Pálínu Sif Gunnarsdóttur, 1.000.000 króna í miskabætur.

         Málskostnaður fellur niður.

         Gjafsóknarkostnaður stefnanda, þ.e. þóknun lögmanns hennar, Guðmundar Ingva Sigurðssonar hdl., 280.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.