Hæstiréttur íslands

Mál nr. 289/2009


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


Föstudaginn 29

 

Föstudaginn 29. maí 2009.

Nr. 289/2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir fulltrúi)

gegn

X

(Bjarni Hauksson hrl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

 

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 28. maí 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2009, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. júní 2009 klukkan 16 og honum gert að sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Varnaraðili hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 25. maí 2009.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. maí 2009.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur þann 27. þ. m. krafist þess, að X, kt. [...], [...], Kópavogi, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness áfram gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. júní 2009, kl. 16:00.

Kærði hefur mótmælt kröfunni.

Í greinargerð lögreglustjóra kemur fram að kærði hafi verið stöðvaður í tollhliði við reglubundið eftirlit er hann kom til landsins með flugi nr. Y frá Kaupmannahöfn, Danmörku, sunnudaginn 24. maí s.l. vegna gruns um að kærði hefði fíkniefni meðferðis. Við eftirlit tollgæslu hafi fundist á klósetti í þeirri flugvél sem kærði kom til landsins með um 1,2 kg af amfetamíni. Upplýst hafi verið að símatengingar séu milli kærða og annars manns sem lögregla telji rökstuddan grun til að ætla að tengist málinu. Þá hafi lögregla jafnframt upplýst um símatengingar þess manns og starfsmanns IGS sem hafi átt ásamt öðrum að vera fyrstur inn í þá flugvél sem um ræðir til að ræsta rusl vélarinnar. Telji lögregla rökstuddan grun til að ætla að kærði kunni að vera viðriðinn þann innflutning fíkniefnanna og að hafa verið sá aðili sem kom fíkniefnunum fyrir inni á salerni vélarinnar.

Rannsókn máls þessa sé á frumstigi en fjölda gagna hafi verið aflað frá þeim tíma að kærði var handtekinn og enn eigi eftir að vinna úr mörgum af þeim auk þess sem lögregla telji ljóst að fleiri aðilar tengist hinum ætlaða innflutningi. Þá telji lögregla mjög líklegt að sú leið sem notuð ar við innflutning fíkniefnanna hingað til lands hafi verið notuð áður og hafi staðið til að nota hana oftar. Meðal þess sem rannsaka þurfi sé aðdragandi ferðar kærða utan og hingað til landsins og tengsl kærða við hugsanlega vitorðsmenn á Íslandi og eða erlendis auk annarra atriða. Það magn fíkniefna, sem lögregla hafi þegar haldlagt þyki benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og háttsemi hans kunni að varða við ákvæði 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 auk ákvæði laga nr. 65, 1974 um ávana- og fíkniefni. Lögregla telji að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka gangi hann laus.

Þess sé krafist að kærða verði gert að sæta einangrun í gæsluvarðhaldi skv. b-lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008. Þá sé þess jafnframt krafist að kærða verði gert að sæta takmörkunum sbr. a- til f-liða 1. mgr. sömu greinar.

Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88, 2008 um meðferð sakamála, 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni telji lögreglustjóri brýna rannsóknarhagsmuni standa til þess að kærða verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 3. júní 2009 kl. 16.00.

Í skýrslu greiningardeildar tollstjóra 24. þ.m. kemur fram að við líkamsleit á kærða hafi komið í ljós að hann var með límband límt á bakinu rétt fyrir ofan rassinn eins og hann hefði verið með eitthvað fast við líkamann sem þurfti límband til að halda við. Engin fíkniefni fundust á kærða, en í flugvélinni sem hann kom með til landsins fannst pakkning með fíkniefnum í ruslafötu á salerni. Við yfirheyrslu hefur kærði gefið þá skýringu á framangreindu límbandi, að hann hafi ætlað að taka 100 grömm af kókaíni með heim en guggnað á því og hent fíkniefnunum fyrir utan Kastrup. Hann hefur neitað að eiga efnin sem fundust í flugvélinni og að hafa komið þeim þar fyrir.

Með hliðsjón af framansögðu og gögnum málsins þykir rökstuddur grunur leika á því að kærði kunni að vera viðriðinn tilraun til að flytja ólöglega inn til landsins um 1,2 kg. af amfetamíni, sem tollgæslan fann við eftirlit á klósetti í þeirri flugvél sem ákærði kom með til landsins 24. maí sl. Liggur fangelsisrefsing við því broti sem kærði er undir rökstuddum grun um að hafa framið. Rannsókn málsins er á frumstigi og haldi kærði óskertu frelsi sínu gæti hann torveldað rannsóknina og haft áhrif á samseka. Með vísan til a-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er því fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi, en rétt þykir að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma en krafist er eða til þriðjudagsins 2. júní 2009 kl. 16:00. Verður að ætla að sá tími nægi til að ljúka frumrannsókn málsins. Þá verður með sömu rökum og rakin eru hér að framan og vísan til b-liðar 1. mgr. 99. gr. sakamálalaga fallist á kröfu lögreglustjóra um að kærði sæti einangrun á meðan hann sætir gæsluvarðhaldi samkvæmt úrskurði þessum.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 2. júní 2009 kl. 16:00.

Kærði skal sæta einangrun í gæsluvarðhaldinu.