Hæstiréttur íslands
Mál nr. 550/2017
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. ágúst 2017, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum degi síðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 29. ágúst 2017, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 25. september 2017 klukkan 16 eða þar til dómur fellur í máli hennar. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. ágúst 2017.
Héraðssaksóknari hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að ákærðu, X, kt. [...], verði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 25. september 2017, kl. 16:00.
Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að með ákæru héraðssaksóknara, dags. 25. ágúst 2017, hafi X, kt. [...], verið ákærð fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa að morgni mánudagsins 5. júní 2017, ruðst grímuklædd inn á heimili A, ásamt meðákærða B, og fyrir að hafa í félagi við ákærða B ráðist á A og slegið hann nokkrum sinnum með hafnaboltakylfu, sem þau hafi skipts á að beita, en höggin hafi m.a. komið á höfuð hans með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið 3 cm skurð á höfði og áverka víða um líkamann. Þá sé X gefið að sök að hafa í framangreindri atlögu stungið A með hníf í brjóstkassa með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið djúpan skurð yfir rifbili 4 hægra megin á brjóstkassa, sem litlu hafi mátt muna að snerti innri líffæri, en stungan hafi legið nálægt slagæð aftan við rifbein og hefði getað valdið alvarlegri blæðingu. Sé brot ákærðu, X, talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Samkvæmt læknisvottorðum C, sérfræðings á Slysa- og bráðadeild Landspítala háskólasjúkrahúss, dags. 5. júní og 13. júlí sl., hafi brotaþoli hlotið 3 cm langan skurð á hnakka og marga minniháttar áverka um líkamann og djúpan skurð hægra megin yfir brjóstholi. Samkvæmt vottorðunum sýndi tölvusneiðmynd að stungan hafi verið mjög nálægt stærri slagæð í vöðva og hefði getað orðið lífshótandi blæðing inn í lunga ef hnífur hefði snert æðina.
Ákærða liggi undir sterkum grun um brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot hennar geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Af staðsetningu áverka á brjósti brotaþola sé ljóst að um lífshættulegan áverka hafi verið að ræða og hafi ákærðu, X, mátt hafa vera það ljóst að hending ein réði því að ekki hafi hlotist bani af. Með hliðsjón af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna sé það mat héraðssaksóknara að brot ákærðu sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hún gangi ekki laus meðan mál hennar sé til meðferðar fyrir dómstólum.
Ákærða, X, hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 5. júní sl. Fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, þ.e. a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-[...]/2017. Frá 9. júní sl. hafi ákærða sætt gæsluvarðhaldi á grundvelli almannahagsmuna, þ.e. 2. mgr. 95. gr. nefndra laga, sbr. úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. R-[...]/2017 og R-[...]/2017 en síðarnefndi úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 450/2017 þann 11. júlí s.á. Með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 4. ágúst sl. hafi ákærðu verið gert að sæta gæsluvarðhaldi til 1. september s.á., sbr. úrskurð R-[...]/2017, en Hæstiréttur hafi stytt þann tíma í til dagsins í dag, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 499/2017 sem upp hafi verið kveðinn 10. ágúst 2017. Með úrskurði héraðsdóms þann 4. ágúst sl. hafi ákærðu verið gert að sæta geðrannsókn og hafi D, geðlæknir, verið dómkvödd til þess að annast þá rannsókn. Samkvæmt upplýsingum frá D muni hún að öllu óbreyttu skila niðurstöðum sínum fyrir 1. september nk.
Að mati héraðssaksóknara séu skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 uppfyllt og hafi héraðsdómur Reykjavíkur þrisvar sinnum komist að þeirri niðurstöðu að skilyrðunum sé fullnægt í máli þessu og í tvö skipti hafi Hæstiréttur Íslands fallist á það mat héraðsdóms.
Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og 2. mgr. 95. gr. laga 88/2008 um meðferð sakamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.
Niðurstaða dómara:
Í greinargerð héraðssaksóknara kemur fram að með ákæru héraðssaksóknara, dagsettri þann 25. ágúst sl., sem móttekin var í morgun af dómstólnum, hafi ákærða X verið ákærð fyrir tilraun til manndráps, með því að hafa að morgni mánudagsins 5. júní 2017, ruðst grímuklædd inn á heimili A, ásamt meðákærða B, og fyrir að hafa í félagi við ákærða B ráðist á A og slegið hann nokkrum sinnum með hafnaboltakylfu, sem þau hafi skipts á að beita, en höggin hafi m.a. komið á höfuð hans með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið 3 cm skurð á höfði og áverka víða um líkamann. Þá sé ákærðu gefið að sök að hafa í framangreindri atlögu stungið A með hníf í brjóstkassa með þeim afleiðingum að hann hafi hlotið djúpan skurð yfir rifbili 4 hægra megin á brjóstkassa, sem litlu hafi mátt muna að snerti innri líffæri, en stungan hafi legið nálægt slagæð aftan við rifbein og hefði getað valdið alvarlegri blæðingu. Sé brot ákærðu talið varða við 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærða, X, hefur sætt gæsluvarðhaldi vegna málsins frá 5. júní sl. Fyrst á grundvelli rannsóknarhagsmuna, þ.e. a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008, sbr. úrskurð héraðsdóms Reykjavíkur í máli nr. R-[...]/2017, en frá 9. júní sl. á grundvelli almannahagsmuna, þ.e. 2. mgr. 95. gr. nefndra laga, sbr. úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur í málum nr. R-[...]/2017 og R-[...]/2017 en síðarnefndi úrskurðurinn hafi verið staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 450/2017 þann 11. júlí s.á., síðan með úrskurði héraðsdóms Reykjavíkur þann 4. ágúst sl. til 1. september s.á., en Hæstiréttur stytti þann tíma í til dagsins í dag, sbr. dóm Hæstaréttar í málinu nr. 499/2017 uppkveðum 10. ágúst 2017. Í greinrgerð héraðssaksóknar kemur fram að með úrskurði héraðsdóms þann 4. ágúst sl. var ákærðu gert að sæta geðrannsókn og var D, geðlæknir. dómkvödd til þess að annast þá rannsókn og muni hún að öllu óbreyttu skila niðurstöðum sínum fyrir 1. september nk.
Með hliðsjón af framangreindu sem rakið hefur verið úr greinargerð héraðssaksóknara og rannsóknargögnum málsins er fallist á það mat héraðssaksóknara að ákærða liggi undir sterkum grun um brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940 en brot hennar geti varðað allt að 16 ára fangelsi. Af staðsetningu áverka á brjósti brotaþola sé ljóst að um lífshættulegan áverka hafi verið að ræða og hafi ákærðu mátt hafa vera það ljóst að hending ein réði því að ekki hafi hlotist bani af. Skilyrði 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, um að sterkur grunur leiki á að sakborningur hafi framið afbrot sem varðað getur 10 ára fangelsi, er því fyrir hendi. Með hliðsjón af framangreindu og með tilliti til almannahagsmuna er fallist á það mat héraðssaksóknara að brot ákærðu sé þess eðlis að nauðsynlegt sé að tryggja að hún gangi ekki laus meðan mál hennar sé til meðferðar fyrir dómstólum en þó eigi lengur en til mánudagsins 25. september 2017, kl. 16:00.
Í ljósi atvika málsins og eðlis brotsins er einnig á það fallist að varðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Verður því fallist á kröfu héraðssaksóknara, um að kærða sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli heimildar í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008, eins og og nánar greinir í úrskurðarorði.
Þórður Clausen Þórðarson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð
Ákærða, X, kt. [...], skal sæta áfram gæsluvarðhaldi meðan mál hennar er fyrir dómstólum en þó eigi lengur en til mánudagsins 25. september 2017, kl. 16:00.