Hæstiréttur íslands

Mál nr. 660/2017

Klaudia Wirkus (Karl Ó. Karlsson lögmaður)
gegn
Green Motion Iceland ehf. (Einar Þór Sverrisson lögmaður)

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsögn
  • Riftun
  • Skaðabætur

Reifun

K krafði G ehf. um greiðslu skaðabóta sem svöruðu til launa í uppsagnarfresti. Hafði K starfað við afgreiðslu í bílaleigu G ehf. í Keflavík. Eftir að K hafði gengt störfum í um hálfs árs skeið ákvað G ehf. að færa hana til starfstöðvar félagsins í Kópavogi. Var henni síðar tilkynnt að óskað væri eftir að hún mætti aftur á vakt í Keflavík. Gerði K það en greindi G ehf. frá því næsta dag að hún treysti sér ekki til frekari starfa þar. Var henni síðar sagt upp störfum án uppsagnarfrests vegna brots á starfsskyldum. Í kjarasamningi sem tók til starfa K hjá G ehf. var áskilið að gerður væri skriflegur ráðningarsamningur. Meðal annars bar í honum að greina frá vinnustað en væri hann ekki fastur skyldi koma fram að starfsmaður væri ráðinn á mismunandi vinnustöðum. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur um störf K en á G ehf. hvíldi skylda til að eiga frumkvæðið að slíku. Var því talið að G ehf. yrði að bera halla af óvissu um inntak munnlegs ráðningarsamnings síns við K. Af framburði K fyrir héraðsdómi yrði ekki annað séð en að hún hefði fellt sig við einhliða ákvörðun G ehf. um að flytja hana til í störfum frá Keflavík til Kópavogs án þess að fá nokkra skýringu á þeirri ráðstöfun eða borið væri undir hana hvort hún væri því samþykk. Með þeirri afstöðu hefði K staðfest í verki að hún gengi út frá því að í munnlegum ráðningarsamningi sínum við G ehf. hefði meðal annars falist að hún yrði hverju sinni að hlíta ákvörðun hans um það á hvorri starfstöð hans hún leysti störf sín af hendi. Þann þátt í ráðningarsamningnum hefði K vanefnt með neitun um að sinna aftur vinnu í Keflavík og hefði G ehf. því af þeim sökum verið heimilt að víkja henni frá störfum. Var G ehf. því sýknaður af kröfu K.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari, Garðar Gíslason settur hæstaréttardómari og Eyvindur G. Gunnarsson prófessor.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 19. október 2017. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 957.845 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af 497.374 krónum frá 1. desember 2015 til 1. janúar 2016, en af 957.845 krónum frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst aðallega staðfestingar hins áfrýjaða dóms, en til vara að krafa áfrýjanda verði lækkuð. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Eftir uppkvaðningu hins áfrýjaða dóms hefur heiti stefnda verið breytt úr Grundum ehf. í Green Motion Iceland ehf.

I

Samkvæmt gögnum málsins réði áfrýjandi sig til starfa hjá stefnda í mars 2015 við afgreiðslu á bílaleigu hans í Keflavík, en ekki var gerður um þetta skriflegur ráðningarsamningur. Ágreiningslaust er að samið hafi verið um að áfrýjandi fengi 1.750 krónur í laun fyrir hverja vinnustund og verður ráðið af framlögðum launaseðlum hennar að þar hafi verið um að ræða jafnaðarkaup án tillits til vinnutíma, en störfin munu hafa verið leyst af hendi á vöktum. Fyrir liggur að áfrýjandi hafi frá því í apríl 2015 fengið greiddan ásamt tímavinnulaunum sínum mánaðarlegan kaupauka, sem mun hafa ráðist af tekjum af starfsemi stefnda.

Eftir að áfrýjandi hafði gegnt störfum sínum í um hálfs árs skeið ákvað stefndi að færa hana til og mun hún hafa byrjað 9. september 2015 að vinna á starfstöð hans í Kópavogi, en stefndi heldur því fram að hann hafi verið knúinn til að grípa til þessa ráðs vegna vandamála, sem hafi komið upp í samskiptum áfrýjanda við samstarfsmenn sína. Stefndi kveður áfrýjanda hafa verið nokkuð frá vinnu vegna veikinda síðari hluta september, en frá 1. til 26. október 2015 hafi hún síðan verið í ólaunuðu orlofi. Áfrýjandi hafi svo komið aftur til vinnu í Kópavogi. Óumdeilt er að þegar áfrýjandi var þar við störf 2. nóvember 2015 hafi henni verið tilkynnt að óskað væri eftir að hún mætti á vakt að kvöldi þess dags á starfstöð stefnda í Keflavík. Það mun hún hafa gert, en greint síðan stefnda frá því næsta dag að hún treysti sér ekki til frekari starfa þar. Framkvæmdastjóri stefnda mun þá hafa verið erlendis og samkomulag orðið um að áfrýjandi yrði í veikindaleyfi þar til hann kæmi aftur. Í framhaldi af því áttu þau fund 9. nóvember 2015 og var áfrýjanda þá afhent uppsagnarbréf, þar sem sagði meðal annars: „Þér ... er hér með sagt upp störfum hjá Grundum ehf. vegna brots á starfsskyldum sem fólust í að neita að mæta til vinnu og vegna samstarfsörðugleika á starfsstöð Grunda ehf. í Keflavík. Uppsögnin tekur gildi og er án uppsagnarfrests vegna brots á starfsskyldum. Grundir hafa fallist á að greiða þér laun út nóvember mánuð og er síðasti dagur á launaskrá því 30. nóvember n.k. Vinnuskyldu þinni líkur nú þegar.“

Áfrýjandi telur þessa uppsögn ólögmæta, þar sem fastur vinnustaður hennar hafi verið á starfstöð stefnda í Kópavogi þegar hann hafi einhliða tekið ákvörðun um að færa hana til starfa í Keflavík. Henni hafi af þessum sökum verið heimilt að neita að virða þá ákvörðun og hafi sú neitun ekki gefið stefnda réttmætt tilefni til að víkja henni úr starfi. Í málinu krefst áfrýjandi á þeim grunni bóta sem svari launum í uppsagnarfresti. Vísar hún til þess að samkvæmt kjarasamningi hafi uppsagnarfrestur, sem hér hafi verið einn mánuður, átt að miðast við mánaðamót og eigi hún því tilkall til launa, þar með töldum kaupauka, til loka desember 2015.

II

Í framlögðum kjarasamningi milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar stéttarfélags ásamt öðrum verkalýðsfélögum, sem óumdeilt er að tekið hafi til starfa áfrýjanda hjá stefnda, var áskilið að gerður yrði skriflegur ráðningarsamningur eða staðfesting á ráðningu í ráðningarbréfi ef vinnusambandi væri ætlað að standa lengur en einn mánuð. Meðal annars bar í samningi eða bréfi að greina frá vinnustað, en væri hann ekki fastur skyldi „koma fram að starfsmaður sé ráðinn á mismunandi vinnustöðum.“ Þá var tekið fram að breytingar á ráðningarkjörum skyldi staðfesta á sama hátt ekki síðar en mánuði eftir að þær kæmu til framkvæmda. Sem fyrr segir var ekki gerður skriflegur ráðningarsamningur um störf áfrýjanda hjá stefnda og heldur ekki ráðningarbréf, en á honum hvíldi skylda til að eiga frumkvæði að slíku. Verður stefndi þannig að bera halla af óvissu um inntak munnlegs ráðningarsamnings síns við áfrýjanda.

Í aðilaskýrslu fyrir héraðsdómi kvaðst áfrýjandi hafa unnið á starfstöð stefnda í Keflavík frá því í mars og fram í byrjun september 2015, en þá hafi hún verið „færð“ í Kópavog. Ekki minntist hún þess hver hafi tilkynnt sér þetta eða „nákvæmlega hvernig þetta fór fram“ og hafi ekkert verið „talað neitt beint við“ sig um ástæðuna fyrir þessari breytingu. Aðspurð um hverju hún hafi búist við í framhaldinu sagði áfrýjandi eftirfarandi: „Bara að ég væri komin þangað til að vera og það var ekkert rætt um að þetta sé í einhvern tíma, neinn ákveðinn tíma, eða að þetta sé í eina viku eða neitt.“ Af þessum framburði áfrýjanda verður ekki annað séð en að hún hafi fellt sig við einhliða ákvörðun stefnda um að flytja hana til í störfum frá Keflavík til Kópavogs án þess að fá nokkra skýringu á þeirri ráðstöfun eða borið væri undir hana hvort hún væri því samþykk. Með þeirri afstöðu verður áfrýjandi að teljast hafa staðfest í verki að hún hafi gengið út frá því að í munnlegum ráðningarsamningi sínum við stefnda hafi meðal annars falist að hún yrði hverju sinni að hlíta ákvörðun hans um það á hvorri starfstöð hans hún leysti störf sín af hendi. Þennan þátt í ráðningarsamningnum vanefndi áfrýjandi með neitun um að verða við tilmælum stefnda um að sinna aftur vinnu á starfstöð hans í Keflavík og var honum af þeim sökum heimilt að víkja henni frá störfum. Niðurstaða hins áfrýjaða dóms verður því staðfest um sýknu stefnda af kröfu áfrýjanda.

Hefði stefndi gætt að skyldu sinni samkvæmt áðurnefndum kjarasamningi til að gera skriflegan ráðningarsamning við áfrýjanda eða ráðningarbréf um störf hennar hefði engin óvissa þurft að vera uppi um það atriði, sem mál þetta varðar. Að því virtu er rétt að aðilarnir beri hvort sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur þriðjudaginn 10. október 2017

I.

Mál þetta sem var höfðað með stefnu birtri 25. maí 2016, var dómtekið 25. september 2017. Stefnandi er Klaudia Wirkus, til heimilis að Ástúni 4, Kópavogi, en stefndi er Grundir ehf., Þverholti 6, Mosfellsbæ.

                Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða henni skuld að fjárhæð 957.845 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, af 497.374 krónum frá 1. desember 2015 til 1. janúar 2016, en af 957.845 krónum frá þeim tíma til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

                Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda, auk greiðslu málskostnaðar, en til vara að stefnukröfur verði stórlega lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

II.

Stefndi í máli þessu rekur bílaleigu með starfsstöð í Keflavík og í Kópavogi. Stefnandi var fastráðin í fullt starf á starfsstöð bílaleigunnar í Keflavík í marsmánuði árið 2015. Fólst starf stefnanda í afgreiðslustörfum, afhendingu og móttöku á bílaleigubílum, og vann stefnandi á vöktum. Í apríl 2015 var stefnandi færð í svonefndan sölutengdan bónushóp hjá stefnda, með auknum starfsskyldum m.a. varðandi útleigu og skil bifreiða, og með því að annast meðferð tjónamála.

                Eftir fimm mánuði í starfi hjá stefnda í Keflavík var stefnandi færð á starfsstöð stefnda í Kópavogi í lok ágúst. Málsaðilum ber ekki saman um hvers vegna stefnandi var færð á starfsstöðina í Kópavogi, en stefndi heldur því fram að ástæða þess hafi verið samstarfsörðugleikar stefnanda og annarra starfsmanna.

                Þann 9. september 2015 var fyrsta vakt stefnanda á starfsstöðinni í Kópavogi. Mætti stefnandi þar til vinnu til 18. september, en á tímabilinu 19. september til 28. september 2015, gat stefnandi ekki mætt sökum veikinda. Stefnandi mætti síðan til vinnu þann 29. september en hinn 1. október 2015 hóf hún töku sumarleyfis.

                Þegar stefnandi kom til baka úr sumarleyfi að morgni hins 2. nóvember 2015 á starfsstöð stefnda í Kópavogi, var óskað eftir því við hana að hún tæki aftur til starfa á starfsstöð stefnda í Keflavík. Var henni falið að mæta á kvöldvakt í Keflavík þann sama dag. Varð stefnandi við þeirri beiðni stefnda og mætti þar til vinnu. Stefnanda leist mjög illa á að vera kvödd til vinnu í Keflavík á nýjan leik og hafði sú ákvörðun slæm áhrif á andlega líðan hennar. Staðfest var fyrir dóminum af starfsmönnum stefnda að líðan stefnanda hefði ekki verið góð þegar hún mætti þar til vinnu. Hefði niðurstaðan orðið sú að stefnandi yrði heima vegna veikinda þar til forstjóri stefnda kæmi til baka frá útlöndum.

                Hinn 9. nóvember 2015 var stefnda kölluð til viðtals á skrifstofu fyrirsvarsmanns stefnda þar sem henni var sagt upp störfum og afhent uppsagnarbréf. Í uppsagnarbréfinu, sem dagsett er sama dag, er ástæða tilgreind brot á starfsskyldum með því að neita að mæta til vinnu og vegna samstarfsörðugleika á starfsstöð Grunda ehf. í Keflavík. Í uppsagnarbréfinu er fallist á að stefnanda verði greidd laun fyrir nóvembermánuð 2015 og að vinnuskyldu hennar ljúki þegar í stað. Stefnandi skrifaði ekki undir uppsagnarbréfið.

                Stefnandi leitaði í kjölfar uppsagnarinnar til Eflingar-stéttarfélags. Með bréfi félagsins, dags. sama dag, hinn 9. nóvember 2015, til stefnda, segir að þar sem stefnandi sé í vinnu í Reykjavík á dagvöktum þurfi hún ekki að hlíta því að fara án fyrirvara á næturvaktir í öðru bæjarfélagi. Segir einnig í bréfinu að fyrirvaralaus uppsögn stefnanda sé óheimil, nema starfsmaður hafi brotið alvarlega af sér í starfi.

                Stefnandi bar fyrir dóminum að hún hefði ekki gert ráð fyrir að flutningur hennar á starfsstöðina í Kópavogi í lok ágúst 2015, væri tímabundinn. Kvaðst hún hafa reiknað með að þessar breytingar væru til frambúðar. Þá kvaðst hún ekki hafa treyst sér til að gegna starfi sínu áfram á starfsstöð stefnda í Keflavík, vegna andlegra veikinda sem hafi hrjáð hana. Hún hafi tilkynnt það yfirmanni í Keflavík þegar hún mætti þar til vinnu að kvöldi 2. nóvember 2015. Þá hafi hún ekki mætt til vinnu eftir 2. nóvember 2015 vegna veikinda. Hún kvaðst hafa verið boðuð á fund með fyrirsvarsmanni stefnda hinn 9. nóvember 2015, þar sem henni hafi verið afhent uppsagnarbréf. Stefnandi tók fram að mikið vinnuálag hefði verið á starfsstöðinni í Keflavík. Fólkið hafi verið mjög þreytt. Stefnandi kvaðst ekki muna hvernig flutning hennar til Kópavogs  bar að og henni hafi ekki verið sagt að hún færi tímabundið til Kópavogs. Það hafi verið hennar mat að hún færi alveg til Kópavogs.

                Rúnar Ólafsson, framkvæmdastjóri stefnda, lýsti samstarfsörðugleikum stefnanda við annað starfsfólk í Keflavík og að um það vandamál hefði verið rætt við stefnanda. Af þeim sökum hafi hún verið flutt tímabundið á starfsstöð stefnda í Kópavogi en um leið hafi annar starfsmaður verið færður þaðan á starfsstöðina í Keflavík. Kvað hann ástæðu fyrir uppsögninni aðallega vera þá að stefnandi vildi ekki vinna í Keflavík. Eftir sumarið hefðu orðið breytingar, sumarstarfsfólk hefði farið og því verið möguleiki fyrir stefnanda að byrja upp á nýtt.

                Helgi Hákonarson bað stefnanda um að fara á vaktina í Keflavík hinn 2. nóvember 2015. Kvað hann stefnanda ekki hafa gert neinar athugasemdir við það. Hann hafi síðar fengið símtal frá starfsmanni í Keflavík þar sem fram kom að illa hafi gengið á vakt stefnanda. Stefnandi hafi daginn eftir vaktina tjáð honum að hún treysti sér ekki til að vinna í Keflavík vegna kvíða. Hann hafi þá sagt henni að taka hlé frá störfum þar til Rúnar Ólafsson kæmi aftur. Kvað vitnið að stefnandi hefði á þessum tíma aldrei minnst á það að ráðningarkjörum hennar hafi verið breytt.

                Einnig gáfu skýrslur fyrir dóminum Camilla Rut Rúnarsdóttir og Valdís Jóna Valgarðsdóttir.

III.

1. Helstu málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi telur að sú ákvörðun stefnda að færa hana fyrirvaralaust úr dagvinnustarfi sínu í Reykjavík til Keflavíkur hafi stefndi einhliða og með ólögmætum hætti gert meiri háttar breytingar á ráðningarkjörum stefnanda. Af þeim sökum hafi stefnanda verið heimilt að neita að inna af hendi frekara vinnuframlag fyrir stefnda.

                Stefnandi vísar til þeirrar meginreglu vinnuréttar að hafi vinnuveitandi í hyggju að breyta ráðningarkjörum starfsmanna sinna beri honum að tilkynna starfsmanni slíkar breytingar með sama hætti og sama fyrirvara og ef um uppsögn væri að ræða. Telur stefnandi að einhliða breytingar á starfssviði starfsmanna jafngildi fyrirvaralausri uppsögn.

                Stefnandi telur uppsagnarfrest sinn vera einn mánuð og miðast við mánaðamót. Hún hafi því átt rétt á að vinna út desembermánuð og því sé gerð krafa um greiðslu skaðabóta sem ígildi launa í uppsagnarfresti út desember 2015. Vísar stefnandi til 12. kafla aðalkjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins og 1. gr. laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnarfrests frá störfum o.fl.

                Stefnandi kveðst hafa litið svo á að hún hafi verið flutt á starfsstöð stefnda í Kópavogi til frambúðar og að störfum hennar í Keflavík væri því lokið. Aldrei hafi verið rætt við stefnanda að um tímabundna tilfærslu hafi verið að ræða. Hefði stefndi átt að sjá til þess með gerð skriflegs ráðningarsamnings við stefnanda ef aðeins var um tímabundna ráðstöfun að ræða.

                Stefnandi miðar útreikning dómkröfunnar við vinnutíma sinn eins og hann var eftir að hún hóf störf í Kópavogi. Daglegur vinnutími hennar hafi verið frá kl. 9 til 18 á daginn, auk þess sem hún átti að vinna þrjár helgar í mánuði. Þá átti stefnandi að eiga frí einn virkan dag í viku. Miðað er við að stefnandi hafi átt að vinna 207 klst. á mánuði (23 dagar x 9 klst.). Sá tímafjöldi margfaldast með umsömdu tímakaupi stefnanda skv. síðasta launaseðli hennar eða 1.750 kr.

                Stefnandi krefst einnig greiðslu bónuss, þar á meðal fyrir þann tíma sem hún vann í Kópavogi. Miðar stefnandi kröfugerð sína við allan starfstíma hennar þ.e. frá mars til október 2015 og er þannig gerð krafa um greiðslu 297.654 kr. fyrir hvorn mánuð í uppsagnarfresti. Til frádráttar kröfunni um vangreidd laun koma greidd laun skv. launaseðli fyrir nóvember.

                Stefnandi hafi fengið launaseðil fyrir desembermánuð, en laun samkvæmt honum séu ógreidd. Þá hafi stefnandi takmarkað tjón sitt með því að ráða sig í nýja vinnu í uppsagnarfrestinum. Tekjur frá þriðja aðila hafi numið samtals 383.311 krónum og komi þær til frádráttar kröfunni.

                Krafa stefnanda sundurliðast með eftirfarandi hætti:

 

Skaðabætur – ígildi launa á uppsagnarfresti:

Nóvember 2015

Mánaðarlaun 207 klst. * 1.750 kr.                                kr.           362.250,-

Bónus meðaltal                                                                 kr.           297.654,-

Samtals                                                                               kr.           659.904,-

Áður greitt skv. nóvemberlaunaseðli                                            kr.           92.488,-

Áður greitt frá 3ja aðila                                                  kr.           70.042,-

Samtals                                                                                               kr.           497.374,

 

Desember 2015

Mánaðarlaun 207 klst. * 1.750 kr.                                kr.           362.250,-

Bónus meðaltal                                                                                 kr.           297.654,-

Samtals                                                                                               kr.           659.904,-

Áður greitt frá 3ja aðila                                                  kr.           313.269,-

Samtals                                                                                               kr.           346.635,-

Samtals                                                                                               kr.           844.009,-

 

Orlof

Heildarlaun    844.009 kr. * 10,17%                                            kr.           85.836,-

Orlofsuppbót

42.000 kr. / 45 vikur * 30 vikur                                      kr.           28.000,-

 

                         Samtals                                                                      kr.           957.845,-

 

                Stefnandi mótmælir því að hún hafi verið áminnt í starfi sínu hjá stefnda. Engin gögn liggi fyrir sem staðfesti slíkt.

                Stefnandi krefst greiðslu orlofs, eða sem nemur 10,17% á skaðabætur sem ígildi launa í uppsagnarfresti. Byggir krafan á 4. kafla aðalkjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins og ákvæðum laga nr. 30/1987, um orlof.

                Þá krefst stefnandi greiðslu orlofsuppbótar að fjárhæð 42.000 krónur á orlofsárinu sem hófst 1. maí 2015 miðað við fullt starf., sbr. 1.4.2 í aðalkjarasamningi Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins. Fullt ársstarf teljist í þessu sambandi 45 unnar vikur eða meira fyrir utan orlof. Uppbótin greiðist þann 1. júní miðað við starfshlutfall og starfstíma á orlofsárinu, öllum starfsmönnum sem verið hafa samfellt í starfi hjá atvinnurekanda í 12 vikur á síðustu 12 mánuðum m.v. 30. apríl eða eru í starfi fyrstu viku í maí. Áunna orlofsuppbót skuli gera upp samhliða starfslokum verði þau fyrir gjalddaga uppbótarinnar. Miðað er við að stefnandi hafi unnið 30 vikur á orlofsárinu.

2. Helstu málsástæður og lagarök stefnda

Stefndi tekur fram að ráðningarsamningur við stefnanda hafi verið munnlegur og að hún hafi verið ráðin á starfsstöð stefnda í Keflavík, þar sem aðalstarfsemi stefnda fari fram. Stefndi tekur fram að starf stefnanda í Kópavogi hafi verið tímabundið og starfsdagarnir þar hafi aðeins verið 16 dagar að teknu tilliti til veikinda og sumarleyfis sem hún tók í október 2015. Er því mótmælt að gerðar hafi verið einhliða og með ólögmætum hætti meiri háttar breytingar á ráðningarkjörum stefnanda.

                Stefndi telur að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt en ekki breyting á ráðningarkjörum. Stefnandi hafi hafnað fyrirmælum og vinnuskyldu og fyrirgert rétti til launa í uppsagnarfresti.

                Stefndi byggir á því að stefnandi hafi ítrekað fengið munnlegar viðvaranir og áminningar frá yfirmönnum og framkvæmdastjóra stefnda.

                Vegna alvarlegra vanefnda á ráðningarsamningi og starfsskyldum hafi stefnanda verið sagt upp störfum án uppsagnarfrests með bréfi, dags. 9. nóvember 2015. Ástæða uppsagnarinnar hafi veri sú að stefnandi hafi neitað að mæta á skrifstofu félagsins eins og starfsskyldur hennar kváðu á um. Hún hafi þannig brotið gegn fyrirmælum.

                Stefndi telur að ekki hafi verið um neina breytingu á ráðningarkjörum stefnanda að ræða, heldur hafi stefnandi neitað að mæta til vinnu á skrifstofuna í Keflavík þar sem hún var ráðin til að starfa. Stefnandi hafi með þessu brotið gegn grundvallarstarfsskyldum sínum. Með því hafi hún fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests eða launa í uppsagnarfresti.

                Stefnanda hafi verið gert ljóst að ef hún mætti ekki til vinnu á skrifstofuna yrði henni sagt upp störfum án uppsagnarfrests. Mótmæli af einhverju tagi við uppsögninni hafi fyrst komið frá stefnanda með bréfi stéttarfélagsins en fyrir þann tíma hafi stefnandi ekki gert athugasemd við röksemdir uppsagnarinnar. Þrátt fyrir ítrekaðar áminningar og viðvaranir og brot gegn hlýðniskyldu og grundvallarstarfsskyldum sínum hafi stefnandi ekki bætt ráð sitt og því hafi verið óhjákvæmilegt að segja henni tafarlaust upp án uppsagnarfrests.

                Um varakröfu sína tekur stefndi fram að mótmælt sé útreikningum á fjárkröfu stefnanda. Viðmiðun stefnanda um 207 klst. vinnuframlag sé rangt. Stefnandi hafi fengið greitt fyrir unna tíma og vaktavinnu. Vísar stefndi til launseðla stefnanda. Um sé að ræða árstíðabundna vinnu, þar sem á sumrin sé mikil vinna en lítil á veturna, svo sem launaseðlar stefnanda beri með sér.

                Stefndi byggir einnig á því að fullt starf geti aldrei falið í sér bónusgreiðslur, nema sérstaklega hafi verið samið um slíkar fastar greiðslur án vinnuskyldu. Bónusgreiðslur samkvæmt ráðningarsamningi stefnanda og annarra starfsmanna séu einungis greiddar fyrir aukna vinnu, þ.e.a.s. sölutengda vinnu. Því er mótmælt kröfu um bónusgreiðslur, enda geti slíkar greiðslur ekki verið fastur hluti launa auk þess sem bónusgreiðslur séu mjög ársíðabundnar og háðar árangri starfsmanna og félagsins hverju sinni. Þær verði að skoðast með tilliti til heildarfjárhæðar á ársgrundvelli en ekki einangrað yfir besta tímabil ársins í rekstrinum.

IV.

Niðurstaða

Í máli þessu deila aðilar um rétt stefnanda til launa í uppsagnarfresti í kjölfar þess að henni var sagt upp störfum hinn 9. nóvember 2015. Krefst stefnandi greiðslu launa fyrir nóvember og desember 2015, auk bónusgreiðslna, greiðslu orlofs og orlofsuppbótar.

                Stefnandi telur að hún eigi rétt á eins mánaðar uppsagnafresti sem miðist við mánaðamót, sbr. 12. kafli aðalkjarasamnings Eflingar-stéttarfélags og Samtaka atvinnulífsins og 1. gr. laga nr. 19/1979, um rétt verkafólks til uppsagnafrests. Telur stefnandi að ráðningarkjörum hennar hafi verið breytt einhliða og verulega þegar stefndi ákvað að hún skyldi mæta til vinnu á starfsstöð stefnda í Keflavík hinn 2. nóvember 2015, en stefnandi telur að breyting á starfsstöð hennar í ágústlok 2015 hafi verið til frambúðar og því hafi henni verið heimilt að neita að inna af hendi frekari vinnu fyrir stefnda á starfsstöð hans í Keflavík. Telur stefnandi að sú ákvörðun stefnda að krefjast þess að hún hæfi aftur störf á starfsstöð stefnda í Keflavík jafngildi fyrirvaralausri uppsögn hennar.

                Stefndi telur að uppsögn stefnanda hafi verið lögmæt og að starf hennar á starfsstöð stefnda í Kópavogi hafi verið tímabundin. Engar breytingar hafi verið gerðar á ráðningarkjörum hennar. Stefnandi hafi hafnað fyrirmælum um vinnuskyldu og því eigi hún ekki rétt á launum í uppsagnarfresti. Þá telur stefndi að stefnandi hafi ítrekað fengið munnlega áminningu frá yfirmönnum og framkvæmdastjóra stefnda vegna samskiptaörðugleika á starfsstöð stefnda í Keflavík. Vegna vanefnda á vinnusamningi hafi stefnanda því verið sagt upp störfum hinn 9. nóvember 2015.

                Stefnandi var fastráðin á starfsstöð stefnda í Keflavík í mars 2015. Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur á milli hennar og stefnda. Í lok ágúst s.á. var stefnandi færð á starfsstöð stefnda í Kópavogi, þar sem hún starfaði í tvo mánuði þar af einn mánuð í sumarleyfi. Þegar stefnandi kom aftur til starfa að loknu sumarleyfi í byrjun nóvember 2015 fór stefndi fram á að hún mætti aftur til vinnu á starfsstöð hans í Keflavík. Er óumdeilt að því hafi stefnandi hafnað. 

                Dómurinn telur að virtu öllu framangreindu að ekki verði talið að stefnandi hafi fært sönnur á þá staðhæfingu sína að flutningur hennar frá starfsstöð stefnda í Keflavík og í Kópavog í lok ágústmánaðar 2015, sem fór fram með hennar samþykki, hafi falið í sér breytingu á ráðningarsamningi hennar. Því verður ekki unnt að líta svo á að sú ákvörðun stefnda að krefjast þess að stefnandi mætti til vinnu á starfsstöð stefnda í Keflavík hinn 2. nóvember 2015, hafi falið í sér meiri háttar breytingu á ráðningarkjörum stefnanda sem borið hafi að tilkynna henni sérstaklega.

                Ástæða uppsagnar stefnanda kemur fram í uppsagnarbréfi stefnda til hennar, dags. 9. nóvember 2015, en þar segir, m.a. að hún sé sú að stefnandi hafi neitað að mæta til frekari vinnu á starfsstöð stefnda í Keflavík. Um það atriði virðist ekki vera ágreiningur í málinu. Slík neitun án réttmætra skýringa fól í sér verulega vanefnd á ráðningarsamningi stefnanda gagnvart stefnda. Er því fallist á með stefnda að með þessu hafi stefnandi fyrirgert rétti sínum til uppsagnarfrests og launa á því tímabili. Verður því að sýkna stefnda af öllum kröfum stefnanda í máli þessu.      

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, ber stefnanda að greiða stefnda 750.000 krónur í málskostnað.

                Ragnheiður Snorradóttir héraðsdómi kveður upp dóm þennan. 

DÓMSORÐ:

Stefndi, Grundir ehf., er sýknaður af öllum kröfum stefnanda, Klaudiu Wirkus, í máli þessu.

                Stefnanda ber að greiða stefnda 750.000 krónur í málskostnað.