Hæstiréttur íslands
Mál nr. 418/2003
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Málskostnaður
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 1.apríl 2004. |
|
Nr. 418/2003. |
K (Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn M (Valborg Snævarr hrl.) |
Börn. Forsjá. Málskostnaður. Gjafsókn.
Í máli um forsjá barns var fyrir Hæstarétti aðeins deilt um málskostnað, sem felldur var niður á báðum dómstigum.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Garðar Gíslason og Guðrún Erlendsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 28. október 2003. Hún krefst þess að ákvæði hins áfrýjaða dóms um málskostnað verði hnekkt og sér dæmdur málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem hún hefur notið á báðum dómstigum.
Stefndi krefst þess að héraðsdómur verði staðfestur og áfrýjanda gert að greiða málskostnað fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar hans hér fyrir dómi.
Samkvæmt gögnum, sem lögð hafa verið fyrir Hæstarétt, var áfrýjandi með úrskurði Héraðsdóms Norðurlands eystra 21. nóvember 2003 svipt sjálfræði í tólf mánuði frá þeim degi að telja. Málið var þingfest fyrir Hæstarétti 10. desember sama ár. Í greinargerð áfrýjanda hér fyrir dómi var þess krafist að henni yrði dæmd forsjá nafngreindrar dóttur aðilanna og að stefnda yrði gert að greiða málskostnað á báðum dómstigum. Með bréfi 26. febrúar 2004 greindi lögmaður áfrýjanda frá því að sér hafi borist upplýsingar um áðurnefndan úrskurð frá 21. nóvember 2003. Var því lýst yfir að fallið væri af þeim sökum frá kröfu um forsjá.
Eins og ráðið verður af framansögðu er hinn áfrýjaði dómur ekki til endurskoðunar um annað en málskostnað. Rétt er að málskostnaður í héraði falli niður, en að öðru leyti skal héraðsdómur standa óraskaður.
Aðilarnir skulu hvort bera sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti. Um gjafsóknarkostnað þeirra hér fyrir dómi fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.
Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.
Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, K, og stefnda, M, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hvors þeirra fyrir sig, 100.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 28. júlí 2003.
Mál þetta, sem dómtekið var 30. f.m., hefur M, [kt. og heimilisfang], höfðað með stefnu, birtri 20. júní 2002, á hendur K [kt. og heimilisfang].
Dómkröfur stefnanda eru þær, að samkomulag hans og stefndu um sameiginlega forsjá dóttur þeirra, Y, frá [...] 1996 verði úr gildi fellt og að stefnanda verði með dómi falin óskipt forsjá barnsins. Þá er krafist málskostnaðar úr hendi stefnda samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eða mati dómsins.
Dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af kröfum stefnanda og henni verði dæmd forsjá barnsins til 18 ára aldurs. Þá er þess krafist að stefnandi greiði stefndu málskostnað með hliðsjón af vinnuskýrslu lögmanns stefndu eins og málið væri ekki gjafsóknarmál, en stefnda fékk gjafsókn 5. september 2002. Fallist dómurinn á kröfu stefnanda er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður en lögmanni stefndu ákvarðaður málskostnaður með hliðsjón af vinnuskýrslu.
[...]
Fellst því dómurinn á að úr gildi verði fellt samkomulag aðila um sameiginlega forsjá barnsins Y, er á komst [...] 1996, sbr. 2. mgr. 35. gr. barnalaga.
Samkvæmt þessari niðurstöðu greiði stefnda stefnanda málskostnað, en allur málskostnaður stefndu greiðist úr ríkissjóði, svo og útlagður kostnaður vegna öflunar sérfræðilegra álitsgerða í máli þessu, sbr. 3. mgr. 60. gr. barnalaga. Málskostnaður sundurliðast þannig og er þá tekið mið af tímaskráningu lögmanna aðilja: Málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Berglindar Svavarsdóttur hdl. kr. 450.000 auk virðisaukaskatts og útlagðs kostnaðar kr. 50.815, málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Daggar Pálsdóttur hrl., kr. 800.000 auk virðisaukaskatts og útlagður kostnaður vegna sérfræðiálita kr. 772.770.
Dóm þennan kvað upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson, héraðsdómari.
D Ó M S O R Ð :
Fellt er úr gildi samkomulag stefnanda, M, og stefndu, K, um sameiginlega forsjá dóttur þeirra, Y, frá [...] 1996.
Stefnandi fari einn með forsjá barnsins, Y.
Stefnda greiði stefnanda málskostnað, en allur málskostnaður stefndu svo og annar málskostnaður greiðist úr ríkissjóði þannig: Málflutningsþóknun lögmanns stefnanda, Berglindar Svavarsdóttur hdl. kr. 450.000 auk virðisaukaskatts og kr. 50.815 í útlagðan kostnað, málflutningsþóknun lögmanns stefndu, Daggar Pálsdóttur hrl., kr. 800.000 auk virðisaukaskatts og útlagður kostnaður vegna öflunar sérfræðilegra álitsgerða kr. 772.770.