Hæstiréttur íslands

Mál nr. 163/2006


Lykilorð

  • Bifreið
  • Líkamsmeiðing af gáleysi
  • Kröfugerð


Fimmtudaginn 30

 

Fimmtudaginn 30. nóvember 2006.

Nr. 163/2006.

Ákæruvaldið

(Kolbrún Sævarsdóttir saksóknari)

gegn

Helga Pálmari Aðalsteinssyni

(Guðmundur Ágústsson hdl.)

 

Bifreiðir. Líkamsmeiðing af gáleysi. Kröfugerð.

H var ákærður fyrir að hafa ekið á vörubíl sínum gegn rauðu ljósi á gatnamótum með þeim afleiðingum að hann lenti í árekstri við strætisvagn. Ökumaður strætisvagnsins slasaðist alvarlega við áreksturinn. Með vísan til framburðar vitna taldist sannað að H hefði ekið inn á gatnamótin gegn rauðu ljósi og varðaði brot hans við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Í héraði var refsing H ákveðin 60 daga skilorðsbundið fangelsi og var sú refsiákvörðun staðfest fyrir Hæstarétti. Hæstiréttur sýknaði hins vegar H af broti gegn vátryggingarskyldu þar sem ekki var sannað að ábyrgðartrygging bifreiðar hans hafi ekki verið í gildi þegar slysið varð. Í greinargerð ákæruvaldsins til Hæstaréttar var ekki gerð krafa um að H yrði sviptur ökurétti. Segir í dómi Hæstaréttar að ekki verði dæmdar aðrar kröfur á hendur ákærða en þær sem ákæruvaldið gerir og verði H þegar af þeirri ástæðu ekki dæmd svipting ökuréttar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 9. mars 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Í áfrýjunarstefnu krafðist ákæruvaldið þyngingar á refsingu, bæði fangelsis og fésektar, og enn frekari sviptingar ökuréttar. Í greinargerð ákæruvalds fyrir Hæstarétti var krafist þyngingar á refsingu, sem ákveðin var í héraðsdómi, bæði til fangelsis og fésektar. Þar var hins vegar ekki minnst á kröfu um sviptingu ökuréttar. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti kvað ákæruvaldið að haldið væri við þá kröfu en láðst hafi að geta hennar í greinargerðinni.

Ákærði krefst aðallega sýknu en til vara að refsing verði milduð.

I.

         Ákærði hefur neitað að hafa ekið gegn rauðu ljósi yfir gatnamót  Kringlumýrarbrautar, Suðurlandsbrautar og Laugavegar umrætt sitt, eins og honum er gefið að sök í I. kafla ákæru. Hann sagði fyrir dómi að hann hafi séð grænt ljós loga á götuvita vinstra megin við sig er hann ók vörubifreiðinni „niðurúr“, en ekki veitt því athygli að umferðarljósin við gatnamótin hægra megin við hann voru ótengd. Hann hafi séð til ferðar strætisvagnsins vestur Suðurlandsbrautina og hafi vagninn hægt á sér. Þegar hann ók inn á gatnamótin hafi athygli hans beinst að manni sem var við vinnu þar. Þótt ákærði hafi mótmælt því að hann hafi ekið gegn rauðu ljósi verður ekki ráðið af framburði hans að hann hafi veitt stöðu umferðarljósanna sérstaka athygli um það leyti sem hann ók inn á gatnamótin. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms er sannað að ákærði ók gegn rauðu ljósi inn á gatnamótin með þeim afleiðingum sem þar er nánar lýst. Eru brot hans réttilega heimfærð til refsiákvæða í héraðsdómi.

II.

         Ákærða er gefið að sök brot gegn vátryggingarskyldu með því að hafa sem eigandi og umráðamaður vörubifreiðarinnar, notað hana svo sem greinir í I. kafla ákæru eftir að lögboðin ábyrgðar- og slysatrygging hennar hafi fallið úr gildi 4. maí 2005.

         Vátryggingafélag Íslands hf., sendi ákærða bréf 4. maí 2005 þar sem honum var tilkynnt að vegna vanskila á iðgjaldi lögboðinnar ábyrgðartryggingar væri vátrygging áðurnefndrar vörubifreiðar fallin úr gildi. Í bréfinu segir að tilkynning um þetta hafi verið send til Umferðarstofu.

         Í málflutningi fyrir Hæstarétti byggði verjandi ákærða á að umrædd uppsögn tryggingafélagsins hafi ekki verið komin í gildi er áreksturinn átti sér stað þar sem skilyrði 16. gr. skilmála félagsins um lögboðna ábyrgðartryggingu ökutækja hafi ekki verið uppfyllt. Í ákvæðinu er fjallað um heimild „félagsins til uppsagnar á vátryggingarsamningi“. Segir þar að félagið hafi „heimild til að segja vátryggingarsamningi upp, ef vátryggingartaki og/eða vátryggður, hefur ítrekað stórkostlega vanrækt skyldur sínar gagnvart félaginu.“ Skal félagið þá senda vátryggingartaka tilkynningu þar að lútandi á sannanlegan hátt og gera honum grein fyrir afleiðingum uppsagnarinnar. Síðan segir: „Jafnframt skal félagið tilkynna lögreglustjóra þessa ákvörðun og ber félagið áfram ábyrgð gagnvart þriðja manni á sérhverju tjóni, þar til fjórar vikur eru liðnar frá því að lögreglustjóri fékk tilkynningu þessa, nema önnur fullnægjandi vátrygging hafi verið keypt.“

         Óumdeilt er að ákærða barst með sannanlegum hætti fyrrgreint bréf frá Vátryggingafélagi Íslands hf. þess efnis að ábyrgðartrygging vörubifreiðarinnar væri fallin úr gildi. Hins vegar liggja í þessu máli ekki fyrir fullnægjandi gögn um að ákærði hafi „ítrekað stórkostlega vanrækt skyldur sínar“ gagnvart vátryggingarfélaginu, en slík vanræksla er samkvæmt skilmálunum skilyrði þess að félaginu sé heimilt að segja ábyrgðartryggingunni upp. Ekki hafa heldur verið lögð fram gögn af hálfu ákæruvaldsins, sem færa sönnur á að félagið hafi tilkynnt lögreglustjóra um þá ákvörðun að segja upp ábyrgðartryggingu bifreiðarinnar, svo sem skylt er samkvæmt 16. gr. skilmálanna. Samkvæmt framansögðu er því ekki sannað í málinu að lögboðin ábyrgðartrygging bifreiðarinnar hafi verið fallin úr gildi þegar umferðarslysið varð. Verður ákærði því sýknaður af broti samkvæmt II. kafla ákæru.

III.

          Samkvæmt 155. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála skal ákæruvaldið við áfrýjun opinbers máls skila greinargerð til Hæstaréttar. Í a. lið 2. mgr. er kveðið svo á að þar skuli koma fram hvers ákæruvaldið krefjist fyrir Hæstarétti. Samkvæmt b. lið 2. mgr. skal ennfremur koma fram í greinargerðinni hvort málsaðili felli sig við lýsingu málsatvika í héraðsdómi og röksemdir fyrir niðurstöðu, en ef svo sé ekki skuli getið á stuttan og gagnorðan hátt í hverjum atriðum hann sé ósammála og hvernig hann rökstyðji í meginatriðum kröfur um breytingu á niðurstöðum héraðsdóms.

          Svo sem fyrr var greint, lýsti ákæruvaldið kröfum sínum svo í greinargerð til Hæstaréttar 21. september 2006 að „refsing ákærða sem ákveðin var í hinum áfrýjaða héraðsdómi verði þyngd, bæði til fangelsis og fésektar.“ Hins vegar er ekki nefnd sú krafa sem fram hafði komið í áfrýjunarstefnu ákæruvalds 9. mars 2006, að málinu væri einnig áfrýjað „til enn frekari sviptingar ökuréttar“. Í greinargerðinni er hvergi vikið að kröfu um sviptingu ökuréttar hvorki til staðfestingar eða þyngingar og heldur ekki að rökstuðningi fyrir slíkri kröfu.

          Við meðferð opinberra mála verða ekki dæmdar aðrar kröfur á hendur ákærða en þær sem ákæruvaldið gerir. Af eðli máls leiðir, að ákæruvaldið getur fallið frá eða dregið úr kröfum sem áður hafa verið gerðar og verða þá ekki aðrar kröfur dæmdar en þær sem eftir standa. Með því að nefna ekki í greinargerðinni til Hæstaréttar kröfu um sviptingu ökuréttar ákærða og með hliðsjón af skýru orðalagi kröfugerðar ákæruvalds þar, verður hún ekki skilin á annan veg en þann að fallið hafi verið frá slíkri kröfu í málinu. Mátti ákærði treysta því að krafan yrði ekki tekin upp á ný síðar. Verður honum þegar af þessari ástæðu ekki dæmd svipting ökuréttar.

IV.

         Ákærði ók stórri vörubifreið með áföstum krana á nokkurri ferð gegn rauðu ljósi inn á fjölfarin gatnamót. Fram er komið að bílstjóri strætisvagnsins var ekki í öryggisbelti og er því ekki loku fyrir það skotið að áverkar hans hefðu orðið minni ef svo hefði verið. Eitt umferðarljósanna var sem fyrr segir óvirkt og kann það að hafa haft þau áhrif að ákærði veitti því ekki næga athygli að rautt ljós logaði fyrir akstursstefnu hans. Akstur ákærða var allt að einu mjög vítaverður. Að þessu virtu er staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um fangelsisrefsingu ákærða. Ekki eru efni til að dæma honum jafnframt sektarrefsingu.       

         Samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og reikningi Fræðslumiðstöðvar bílgreina hf. greiddi Lögreglustjórinn í Reykjavík félaginu 634.950 krónur vegna „bíltæknirannsóknar á slysavettvangi“. Leiddi niðurstaða hennar í ljós að ekki væri unnt að rekja orsök slyssins til ástands ökutækjanna. Þótt nauðsynlegt hafi verið að kanna þau atriði sem rannsóknin laut að, meðal annars hvort öryggisbúnaður bifreiðanna hafi verið í lagi, verður ekki séð að hún hafi þurft að vera svo umfangsmikil sem raun ber vitni. Verður ekki talið réttlætanlegt að fella kostnað við þessa rannsókn á ákærða. Skal hann því greiddur úr ríkissjóði. Á áðurnefndu yfirliti og meðfylgjandi reikningum Landspítala háskólasjúkrahúss kemur fram að greiddar voru samtals 93.500 krónur fyrir fimm vottorð vegna læknisrannsókna á fjórum farþegum strætisvagnsins sem slösuðust við áreksturinn auk eins farþega sem talið var að hefði slasast en svo reyndist ekki hafa verið. Ekki þykir rétt að ákærða verði gert að greiða kostnað vegna þessara vottorða, enda lýtur sakarefnið ekki að áverkum þessara farþega. Verður kostnaður vegna vottorðanna því lagður á ríkissjóð. Hins vegar verður ákvæði hins áfrýjaða dóms um greiðslu kostnaðar vegna læknisvottorðs að fjárhæð 12.150 krónur staðfest.

         Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara, samtals 171.274 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir báðum dómstigum, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

       Ákvæði hins áfrýjaða dóms um fangelsisrefsingu ákærða, Helga P. Aðalsteinssonar, skal vera óröskuð.

         Ákvæði hins áfrýjaða dóms um sviptingu ökuréttar ákærða er fellt úr gildi.

         Ákærði greiði áfrýjunarkostnað málsins, 171.274 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Guðmundar Ágústssonar héraðsdómslögmanns, í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 684.750 krónur.

         Ákærði greiði 12.150 krónur af öðrum sakarkostnaði í héraði, sem að öðru leyti greiðist úr ríkissjóði.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 14. febrúar 2006.

Ár 2006, þriðjudaginn, er á dómþingi sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni, héraðsdómara,  kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 1799/2005:  Ákæruvaldið (Þorsteinn Skúlason) gegn  Helga Pálmari Aðalsteinssyni (Guðmundur Ágústsson hdl.), sem tekið var til dóms hinn 7. sama mánaðar, að lokinni aðalmeðferð.

Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 8. nóvem­ber sl. á hendur ákærða, Helga Pálmari Aðalsteinssyni, kt. 030448-2869, Furugrund 58, Kópavogi, “fyrir eftirtalin brot framin föstudaginn 19. ágúst 2005 í Reykjavík:

I.

Hegningar- og umferðarlagabrot með því að hafa á leið norður Kringlumýrarbraut ekið vörubílnum RG-675 gegn rauðu ljósi á gatnamótunum við Laugaveg og Suðurlandsbraut með þeim afleiðingum að hann lenti í árekstri við strætisvagninn ML-068, sem ekið var vestur Suðurlandsbraut, og fimm manns í vagninum meiddust, þar á meðal ökumaður hans, X, fæddur [...], sem kastaðist út úr vagninum og hlaut meiri háttar áverka á fótum svo að taka varð þá báða af neðan við hné, mar og skrapsár á öxl og áverka á mjöðm þar sem húð skemmdist mikið og fór alveg af á nokkru svæði.

Telst þetta varða við 219. gr. almennra hegningarlaga nr. 19,1940 og 1. mgr. 4. gr. og 1. mgr. 5. gr., sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50,1987.

II.

Brot á vátryggingarskyldu með því að hafa sem eigandi og umráðamaður framangreindrar bifreiðar, RG-675, notað hana svo sem greinir í I. ákærulið eftir að lögboðin ábyrgðar- og slysatrygging vegna hennar féll úr gildi 4. maí 2005.

Telst þetta varða við 1. mgr. 91. gr. og 1. mgr. 92. gr., sbr. 1. mgr. 93. gr. og 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 32,1998 og 1. gr. laga nr. 26,2003.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. gr. umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44,1993.”

I. kafli ákæru.

Málavextir

Samkvæmt frumskýrslu A lögreglumanns, dagsettri, 19. ágúst 2005, barst tilkynning kl. 9:12 um alvarlegt umferðarslys á gatnamótum Kringlumýrarbrautar, Laugavegar og Suðurlandsbrautar. Hafði árekstur orðið með vörubílnum RG-675, sem ekið hafi verið norður Kringlumýrarbraut á hægri akrein, og strætisvagninum ML-068, sem ekið var vestur Suðurlandsbraut á hægri akrein. Rákust saman hægri framhlið vörubílsins og vinstra framhorn strætisvagnsins en við það hafði vagninn snúist til hægri og kastast á gangbrautarljósavita, sem staðsettur var á umferðareyju við norðausturhorn gatnamótanna.  Staurinn hafði lagst niður og ljósabúnaður hans brotnað af.  Vörubíllinn hafði stöðvast á vinstri akrein Kringlumýrarbrautar um 30 m norðan við gatnamótin. Fyrir aftan stýrishús vörubílsins var áfastur krani og hafði hægri stuðningsfótur kranans brotnað og dregist með honum.  Ökumaður vörubílsins, ákærði í máli þessu, sem hafði verið einn í bílnum og í öryggisbelti, reyndist ómeiddur. Ökumaður strætisvagnsins, X, hafði kastast út úr strætisvagninum við áreksturinn og lá á bakinu á hægri akrein Kringlumýrarbrautar um 27 m norðan við gatnamótin. Var hann greinilega mikið slasaður á fótum og hafði misst talsvert blóð.  Virtist hann hafa dregist tæpa 22 metra eftir götunni með vörubílnum. Var hann fluttur á Landspítalann Fossvogi þar sem hann gekkst undir aðgerð.  Þá voru í strætisvagninum fimm farþegar sem höfðu slasast en þó ekki alvarlega. Voru þeir fluttir með sjúkrabifreiðum á slysadeild.

Í skýrslunni kemur fram að umferðarljós eru á gatnamótunum en á þessum tíma hafi staðið yfir vinna við breytingar á gatnamótunum og það gefið til kynna með greinilegum varúðarmerkjum. Vegna breytinganna var einn umferðarljósavitinn á umferðareyju við suðausturhorn gatnamótanna ótengdur, en það var einn viti af þremur sem voru fyrir akstursstefnu vörubílsins.

Eftir ákærða var það haft að hann hefði ekið norður Kringlumýrarbraut á hægri akrein umrætt sinn og ætlað þá leið áfram. Hefði hann komið að gatnamótunum á grænu ljósi og því ekið viðstöðulaust áfram inn á þau á eftir annarri bifreið en ekki vissi hann á hversu miklum hraða.  Hefði hann þá skyndilega séð útundan sér hvar strætisvagni hefði verið ekið áleiðis inn á gatnamótin frá Suðurlandsbraut. Hefði hann því sveigt til vinstri til að reyna að afstýra yfirvofandi árekstri en síðan fundið högg koma á vörubílinn aftan við stýrishúsið. Kvaðst hann ekki hafa náð að hemla fyrir áreksturinn.

Á vettvangi voru teknar ljósmyndir sem liggja frammi í málinu sem fyrr segir og uppdráttur gerður af  vettvangi.  Þá liggur frammi í málinu staðfest skýrsla vegna bíltæknirannsóknar Fræðslumiðstöðvar bílgreina á vörubílnum RG-675 sem unnin var í ágúst og september 2005 að beiðni lögreglunnar í Reykjavík.  Fram kemur í niðurstöðum skýrslunnar að rannsókn á ökutækinu hafi leitt í ljós að ekki væri hægt að rekja orsökina fyrir slysinu til ástands ökutækisins. Þá hafi rannsóknin ennfremur leitt í ljós að hraði þess var um 55-57 km á klukkustund þegar strætisvagninn ók fremst á hlið vörubílsins.  Fram kemur þar að eigin þyngd vörubílsins er 13.590 kg. 

Þá liggur frammi í málinu staðfest skýrsla vegna bíltæknirannsóknar á strætisvagninum ML-068. Þar segir að hemlar ökutækisins hafi reynst ójafnir sem nam 44% á framhjólum og umfram hámark sem væri 30%. Mæld heildarhemlun hafi reynst vera 48% en lágmark 50%. Þrátt fyrir að ástand hemla í hemlaprófun hafi reynst rétt undir lágmarkskröfum sem gerðar hafi verið í skoðunarbók dómsmálaráðuneytisins, hafi rannsókn á ökutækinu leitt í ljós að ekki væri hægt að rekja orsök fyrir slysinu til ástands ökutækisins eða að ástand hemlabúnaðarins hafi komið í veg fyrir að stöðva mætti ökutækið á eðlilegum tíma og vegalengd.

Af hálfu ákærða hefur verið aflað gagna frá Reykjavíkurborg um umferðar­ljósin á gatnamótunum umræddu, tímaskiptingu og samhæfingu þeirra.  Þá hefur ákærði fengið B, prófessor í vélaverkfræði, til þess að svara með fræðilegri greinargerð tveimur spurningum verjandans:

-ók vörubíllinn RG-675 yfir stöðvunarlínu áður en rauða ljósið kviknaði?

-stöðvaði strætisvagninn ML-068 við stöðvunarlínu og tók af stað úr kyrrstöðu þegar græna ljósið kviknaði?

Í greinargerðinni var auk fræðirita stuðst við vettvangsuppdrátt og rannsókn á ökutækjunum og ökurita vörubílsins svo og upplýsingar um umferðarljósin sem fyrr er getið.  Niðurstaða prófessorsins er sú að sé miðað við að strætisvagninn hafi farið yfir stöðvunarlínu eftir að gult ljós kviknaði á götuvita hafi vörubíllinn farið yfir á rauðu ljósi, þannig að hann hafi verið 42 m frá stöðvunarlínu þegar rautt ljós kviknaði.  Strætisvagninn hafi, samkvæmt dragförum á vettvangi,  verið á 24 - 28 km hraða áður en hemlun hófst.  Sé ólíklegt að vagninn hafi ekið úr kyrrstöðu frá stöðvunarlínu. 

Hinn 14. september var tekin lögregluskýrsla af X, bílstjóra strætisvagnsins. Kvaðst hann hafa stöðvað strætisvagninn fremst á gatnamótunum á rauðu ljósi. Hann hafi tekið fremur seint af stað og hafi sennilega verið á 10-15 km/klst hraða. Hann hafi ekki orðið var við vörubílinn fyrr en augnabliki áður en áreksturinn varð. Kvaðst hann ekki muna hvort hann hemlaði og geti ekki gert sér grein fyrir því sem gerðist næst. Þá kvaðst hann muna eftir því að einhverjir farþegar hafi hrópað upp yfir sig að vörubílnum hafi verið ekið á móti rauðu ljósi.

Tekin var lögregluskýrsla af ákærða hinn 15. september sl. Greindi hann þá frá í öllum meginatriðum á sama veg og í frumskýrslu og kvaðst vera öruggur um að hann hefði farið yfir gatnamótin á grænu ljósi.

Þá hefur verið lagt fram vottorð D dr. med., sérfræð­ings í bæklunarskurðlækningum, varðandi X, dags. 2. september 2005. Þar segir: “Við skoðun á slysadeild er sjúklingur vel vakandi en mjög verkjaður. Hann man vel eftir atburðinum.  Ekki eru merki um innri áverka á kvið eða brjósthol en hinsvegar merki um meiriháttar áverka á báðum ganglimum þar sem stóran hluta hægri ganglims vantar upp fyrir miðjan kálfa og þar sem vinstri ganglimur er verulega skaddaður upp í ökklann.” Þá er því lýst hvernig skoðun á skurðstofu var háttað og ákvörðun um aflimun. Þar segir jafnframt: “Gerð er aðgerð í beinu framhaldi af skoðun þar sem báðir ganglimir eru aflimaðir fyrir neðan hné. Hægra megin er húð og vöðvar á utanverðunni það illa farnir að gera verður afbrigði við venjulega aflimunar­aðgerð til að geta þakið stúfinn á utanverðunni. Vinstra megin er gerð hefðbundin aflimun. Varðandi hægri öxl og mjöðm þá eru skemmdir sárkantar skornir burt og sár hreinsuð og saumuð. Í eftirmeðferð hafa enn engin veruleg vandamál komið upp. Sár virðast gróa vel en þó er ekki enn alveg útséð um hvernig fer fyrir stúfinum hægra megin. Ekki er útilokað að gera þurfi einhverjar sárhreinsanir áður en sár gróa en þetta mun koma í ljós á næstu dögum. Haft hefur verið samband við stoðtækjasmiði til að undirbúa gerð og notkun gervilima og hafa þeir þegar skoðað sjúkling. Gert er ráð fyrir að sjúklingur geti fljótlega flust yfir á endurhæfingardeildina Grensási til frekari þjálfunar og endurhæfingar.”

Einnig hafa verið lögð fram læknisvottorð vegna farþega strætisvagnsins sem allir fengu aðhlynningu á slysadeild Landspítalans.

Verður nú gerð grein fyrir framburði ákærða og vitna fyrir dómi.

Við þingfestingu málsins sagði ákærði ákæruna vera ranga og neitaði því að hafa ekið yfir gatnamótin á rauðu ljósi, og bera sök á slysinu sem varð.  Hann kveðst hafa verið á umferðarhraða á hægri akrein og ekið yfir gatnamótin við Háaleitisbraut á grænu ljósi, sem logað hafi á götuvitanum á milli akbrautanna, að hann heldur.  Þegar hann hafi ekið áfram niður eftir hafi hann séð varúðarskilti á grasinu við veginn um vegavinnu og mann að störfum.  Jafnframt hafi hann séð að grænt umferðarljós var á götuvitanum gagnvart honum og því haldið áfram ferðinni.  Hann hafi svo séð strætis­vagninn koma niður Suðurlandsbrautina og hægja á sér og því ekið inn á gatnamótin.  Í því hafi hann séð strætisvagninn koma fyrir vélarafli inn á gatnamótin.  Hafi hann furðað sig á þessu og hugsað hvort maðurinn ætlaði ekki að nema staðar.  Hann hafi sveigt aðeins til vinstri undan strætisvagninum en í því hafi strætisvagninn skollið á hlið vörubílsins. Hafi þetta verið mikið högg svo að hann hallaðist á rönd og kveðst ákærði ekki hafa hemlað fyrr en hann var komin niður á öll hjólin aftur og þá hemlað eðlilega.  Ákærði kveðst ekki hafa orðið var við að neitt væri athugavert við umferðarljósin þarna.  Aðspurður segist hann ekki hafa veitt því athygli að götuvitinn á hægri hönd var óvirkur.  Athygli hans hafi reyndar öll verið á því svæði því hann hafi verið að fylgjast með manni sem þarna var að störfum og hafði veitt athygli varúðarskiltinu sem fyrr getur.  Af þeirri ástæðu hefði hann verið búinn að taka eftir strætisvagninum koma niður Suðurlandsbraut. 

X, ökumaður strætisvagnsins, segist hafa ekið vagninum til vesturs í umrætt sin og numið staðar við gatnamót Kringlumýrarbrautar þar sem log­aði rautt á götuvita.  Hann hafi lagt af stað þegar grænt ljós kviknaði en skyndilega hafi áreksturinn orðið.  Hafi hann ekki séð vörubílinn nálgast og því hafi hann ekki hemlað, enda enga ástæðu séð til þess.  Sérstaklega aðspurður segist hann muna vel eftir því að hafa numið staðar við rautt ljós á götuvitanum.  Hafi hann þurft að bíða í 1 – 1½  mínútu eftir því að grænt ljós kviknaði og þá hafi hann ekið af stað.

Vitnið segir að bati gangi vel nú orðið.  Í fyrstu hafi verið smádrep í sárunum en það hafi verið skorið burt og eftir það gangi allt betur. 

Vitnið, E, hefur skýrt frá því að hún hafi ekið norður Kringlumýrarbraut og ætlað að beygja inn á Laugaveg.  Hafi hún numið staðar á rauðu ljósi og séð að strætisvagninn var kyrrstæður á gatnamótunum.  Hún hafi svo orðið vör við það, á að giska 1 – 2 sekúndum síðar, að vörubíl hafi verið ekið fram úr henni þar sem hún var kyrrstæð og þá verið rautt ljós á götuvitanum.  Hafi vörubíllinn ekið greitt inn á gatnamótin og hún furðað sig á þessu, enda séð að grænt ljós var fyrir strætisvagninum og hann lagður af stað.  Hafi hún ekki séð hemlaljós kvikna á vörubílnum. 

Vitnið, F, hefur skýrt frá því að hann hafi verið á leið suð­ur Kringlumýrarbraut og ætlað að beygja inn á Suðurlandsbraut til þess að fara í Lágmúla.  Hafi hann þá numið staðar á afreininni fyrir rauðu ljósi á götuvitanum.  Hafi hann séð, á að giska 1 - 3 sekúndum og þá nær 3 sekúndum, eftir að rauða ljósið kviknaði, vörubílinn lenda á strætisvagninum, sem einnig var kominn inn á gatna­mótin.  Hann geti ekki gert sér grein fyrir hraðanum á vörubílnum en áreksturinn hafi verið harður. 

Vitnið, G, hefur skýrt frá því að hann hafi ekið eftir vinstri akrein, um 10 metrum á eftir strætisvagninum sem ekið var á þeirri hægri.  Hafi verið komið grænt ljós fyrir þeim og þeir lagðir af stað og hann þá séð vörubíl koma á fullri ferð niður brekkuna.  Hafi hann farið að hugsa hvað yrði úr þessu en þá hafi orðið árekstur þegar strætisvagninn var kominn 3 – 4 metra yfir stöðvunarlínuna.  Vitnið segir aðspurður að strætisvagninn hafi farið af stað úr kyrrstöðu þegar grænt ljós kom á götuvitanum en nánar aðspurður vill hann ekki fullyrða þetta.  Grænt ljós hafi logað fyrir strætisvagninn þegar hann ók yfir stöðvunarlínuna og jafnframt hafi hann séð rautt ljós loga á götuvitanum fyrir vörubílnum sem hafi þá verið í brekkunni fyrir ofan gatnamótin, kannski 5 – 25 metra.  Hann segist hafa tekið eftir vörubílnum þegar hann átti eftir 3 – 4 metra að gatnamótunum en nánar aðspurður segist hann ekki gera sér fulla grein fyrir þessari fjarlægð.  Þegar hann sá til vörubílsins hafi strætisvagninn verið lagður af stað og vitnið einnig.  Hann giskar á að vörubílnum hafi verið ekið með 60 – 80 km hraða, fullhratt að vitninu fannst.

Vitnið, H, hefur skýrt frá því að hún hafi verið farþegi í strætisvagninum og setið framarlega, bílstjóramegin og við glugga.  Hafi vagninn ekki verið kominn nema á litla ferð eftir að grænt ljós kviknaði fyrir honum og segist hún þá hafa séð stóran vörubíl koma aðvífandi og strætisvagninn þá nauðhemlað en áreksturinn svo orðið. Segist vitnið vera viss um það að grænt ljós hafi verið kviknað fyrir strætisvagninum þegar hann lagði af stað yfir línuna.  Ekki telur vitnið að strætisvagninn hafi þurft að nema staðar heldur hafi hann verið á ferð þegar græna ljósið kviknaði.  Aðspurð segir vitnið að hún geti ekki fullyrt hvort hún beinlínis sá umferðarljósin sjálf en segir svo að verið geti að hún hafi markað þetta af annarri umferð.   Segir hún vörubílnum hafa verið ekið mjög hratt, eins og hann væri “úti á vegum”.  Hún kveðst hafa kastast í gólfið við áreksturinn og m. a. rifbeinsbrotnað og misst meðvitund stutta stund.

Vitnið, I, hefur skýrt frá því að hún hafi setið aftast í strætisvagninum.  Segir hún að vagninn hafi numið staðar á rauðu umferðarljósi og þegar hann var lagður af stað hafi hún séð vörubílinn koma aðvífandi fram með öðrum bílum sem numið höfðu staðar.  Hafi hann svo skollið á strætisvagninum.  Ekki muni hún hvernig umferðarljósin voru þegar strætisvagninn lagði af stað.  Fannst vitninu vörubílnum vera ekið hratt.  Hún heldur a strætisvagninum hafi verið hemlað áður en áreksturinn varð.  Kveðst hún hafa sloppið við meiðsli en þó marist eitthvað.

Vitnið, J, hefur skýrt frá því að hún hafi setið hægra megin, framarlega í strætisvagninum.  Hafi hún ekki fylgst með umferðinni.  Henni finnst þó að vagninn hafi hægt á sér en síðan haldið áfram.  Hafi svo kona hrópað og hún þá séð vörubílinn koma æðandi og var þá skammt á milli ökutækjanna.  Ekki geri hún sér grein fyrir því hvort strætisvagninn hemlaði áður en áreksturinn varð.  Hún kveðst hafa orðið fyrir hnjaski og bólgnað á læri og hendi.  

Vitnið, K, hefur skýrt frá því að hann hafi setið fremst í strætisvagninum en hann muni ekki eftir neinu varðandi slysið öðru en því að hann lá skyndilega á gólfinu í vagninum.  Hann hafi marist mikið víða á líkama við þetta.  Þá hafi hann fengið höfuðhögg og misst úr við það. 

Vitnið, L, hefur skýrt frá því að hann hafi verið á leið austur eftir Laugavegi.  Hafi hann setið í bíl sínum að bíða eftir grænu ljósi og litið í kring um sig í 2 – 3 sekúndur og þá ekki fylgst með umferðarljósunum.  Hann hafi séð hvar strætisvagninn beið við gatnamótin.  Hann hafi svo heyrt mikinn skell og séð hvar vörubíll, sem hann hafði ekki tekið eftir áður, skoppaði niður götuna en strætis­vagninn kastaðist til hliðar og fólk í honum féll niður á gólf vagnsins.  Þegar hann leit upp hafi hann séð að grænt ljós logaði fyrir honum og ekið af stað.  Um það hvernig ljósin stóðu geti hann ekki annað sagt en að hann hafi verið seinn til þess að leggja af stað og bíll við hliðina verið kominn hálfur fram úr honum.  Hafi hann ekki séð þegar ljósin breyttust.

Vitnið, M, hefur skýrt frá því að hún hafi verið í bíl á vinstri akrein við hlið strætisvagnsins sem hafi verið kyrrstæður.  Fyrir framan hana hafi verið 2 bílar og kveðst hún hafa beðið á rauðu umferðarljósi.  Þegar grænt hafi kviknað hafi strætisvagninn ekki farið strax af stað heldur hikað en svo lagt af stað.  Skyndilega hafi hún séð vörubílinn koma aðvífandi „frekar á mikilli ferð” með 60 – 70 km hraða, og áreksturinn þá orðið.  Ekki hafi hún tekið eftir því hvort bílarnir hafi hemlað á undan árekstrinum. 

N lögreglumaður, kveðst hafa verið í bíl á leið í vesturátt og hafði numið staðar á gatnamótunum.  Hafi hann séð að strætisvagninn lagði af stað, úr kyrrstöðu að honum sýndist, eftir að grænt ljós hafði kviknað.  Hafi hann séð vörubílinn koma aðvífandi og fara inn á gatnamótin eftir að grænt ljós kviknaði fyrir strætisvagninum.  Kveðst hann vera alveg viss um að vagninn hafi ekki ekið yfir stöðvunarlínu fyrr en grænt ljós hafði kviknað.  Hann kveður vörubílinn hafa átt 2 - 4 bíllengdir sínar ófarnar að gatnamótunum þegar grænt ljós kviknaði fyrir strætis­vagninn.  Hann segist hafa álitið hraða vörubílsins hafa verið langt yfir umferðarhraða en tekur fram að mjög erfitt sé að áætla hraða ökutækis við þessar aðstæður.  Þetta viti hann af langri reynslu sinni í umferðardeild lögreglunnar.  Hann kveðst hafa verið 60 – 90 metrum fyrir aftan strætisvagninn og ekki hafa tekið eftir öðrum bílum fyrir framan sig. 

B prófessor, hefur skýrt greinargerð þá sem hann hefur gert í málinu.  Hann segir að ekki sé hægt að segja neitt um stöðu ljósanna á gatna­mótunum út frá þeirri rannsókn sem hann hefur gert, enda skorti til þess allar forsendur.  Hann telur nokkuð öruggt, miðað við hemlaförin eftir strætisvagninn, að hann hefði ekki getað náð þeim hraða sem förin bendi til með því að fara úr kyrrstöðu við stöðvunarlínu.  Til þess hefði hann þurft lengri spöl en frá stöðvunarlínu til þess að ná hraðanum 24 - 28 km/klst., um það bil 20 metra.

Niðurstaða

Ákærði neitar því að hafa ekið gegn rauðu ljósi inn á gatnamótin.  Á hinn bóginn hafa strætisvagnsstjórinn og þrjú önnur vitni, sem sáu á umferðarljósin fyrir strætisvagninn, borið það að vagninum hafi ekki verið ekið inn á gatnamótin fyrr en grænt ljós hafði kviknað og tvö vitni sem sáu á umferðarljósin fyrir vörubílinn hafa borið að rautt ljós hafi logað fyrir hann þegar hann ók inn á gatnamótin.  Ekki eru efni til þess að efast um áreiðanleika þessara vitna um stöðu umferðarljósanna gagnvart ökutækjunum tveimur og ekkert í málinu, annað en framburður ákærða, er í andstöðu við vætti þeirra.  Telst því vera sannað að ákærði hafi ekið inn á gatnamótin gegn rauðu ljósi og með því valdið árekstrinum við strætisvagninn og meiðslunum á vagnstjóranum sem lýst er í ákæru og læknisvottorðinu um þau.  Hefur ákærði orðið sekur um brot gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru í ákærunni.

II. kafli ákæru.

Ákærði neitar sök að því er varðar II. kafla ákærunnar.  Fyrir liggur að hann var og er eigandi og umráðamaður vörubílsins RG-675.  Þá liggur það einnig fyrir að hann var í vanskilum með tryggingariðgjald vegna ábyrgðar- og slysatryggingar bíls­ins hjá Vátryggingafélagi Íslands hf. og að vegna þeirra vanskila hafði félagið tilkynnt honum að tryggingarnar væru felldar niður.  Jafnframt var tilkynning um þetta send rafrænt til ökutækjaskrár Umferðarstofu, hvort tveggja í samræmi við 13. gr. reglugerðar um lögmæltar ökutækjatryggingar nr. 392,2003.  Ákærði tók við tilkynn­ingunni í ábyrgðarpósti 13. maí sl.  

Ákærði kveðst hafa álitið að bíllinn væri tryggður áfram vegna þess að hann hefði gert óformlegt samkomulag við O hjá félaginu um það að iðgjaldaskuldin væri gerð upp einu sinni á ári og dráttarvextir þá  felldir niður.  Hann kveðst stundum hafa verið svo skuldugur við félagið að hann hafi fengið hótanir um uppboð og lögfræðinga en alltaf borgað að endingu og þá stundum með áföllnum kostnaði.  Hann kveðst líta svo á að tryggingafélagið hafi ekki staðið við þetta munnlega samkomulag þegar þeir sögðu honum upp tryggingunni.  Ákærði segist hirða sinn póst sjálfur en hann viðurkennir að hann hafi ekki alltaf tíma til þess að lesa bréfin frá tryggingafélaginu.  Hann kveðst aðspurður ætla að hann hafi þó lesið ábyrgðarbréfið umrædda. 

Hann segist aðspurður hafa fengið heilablæðingu sl. vor og átt í því í nokkurn tíma. Sé það að einhverju leyti ástæða þess að hann dró það að greiða trygg­ingariðgjaldið.  Hafi maður frá tryggingafélaginu hringt í sig meðan hann var á spítala sl. vor út af þessu og kveðst ákærði hafa sagt manni þessum af högum sínum.  Hafi maðurinn þá sagt að þeir skyldu ekki hafa neinar áhyggjur af þessu og hann gæti gengið frá þessu seinna þegar hann hefði náð sér.  Það hafi þó dregist og hann kveðst hafa verið búinn að aka bílnum í um mánaðartíma þegar slysið varð.  Ákærði kveðst ekki geta fundið hjá sér bréfið um niðurfellingu vátryggingarinnar. 

P, tryggingastjóri hjá ökutækjatryggingu VÍS, segir það vera rangt hjá ákærða að komin hafi verið á það löng hefð í viðskiptum ákærða og félagsins að hann greiddi tryggingariðgjöld einu sinni á ári gegn afslætti, þótt gjalddagi sé á mismunandi tímum.  Sé ekkert skráð um slíkt hjá félaginu en slíkt sé undantekningarlaust gert hjá innheimtu félagsins í slíkum tilvikum.  Ákærði hafi hins vegar fengið afslátt hjá félaginu af iðgjaldi vegna eins af bílum hans, sem lítið sé notaður, og eins kveðst vitnið hafa samþykkt að lækka iðgjöld hjá ákærða.

Niðurstaða. 

Vörubíll ákærða, RG-675, er vátryggingarskylt ökutæki samkvæmt 91. – 93. gr. umferðarlaga.  Samkvæmt 1. mgr. 93. gr. hvílir vátryggingarskyldan á eiganda eða varanlegum umráðamanni ökutækisins.  Eftir að ákærði fékk tilkynningu vátrygginga­félagsins um það að vátryggingar fyrir bílinn væru felldar úr gildi var honum óheimilt að aka bílnum og með því að gera það umræddan dag, eins og lýst er í ákærunni, braut hann gegn þeim lagaákvæðum sem tilfærð eru þar.

Viðurlög.

Ákærði telst hafa sýnt af sér stórvítavert gáleysi þegar hann ók þungum vörubíl gegn rauðu umferðarljósi og nærri lögleyfðum hámarkshraða inn á fjölfarin gatnamót.  Þetta gáleysi ákærða leiddi auk þess til stórfellds líkamstjóns fyrir X, vagnstjóra í strætisvagninum, sem varð fyrir vörubíl ákærða.  Þá er það einnig sérstaklega vítavert athæfi af hálfu ákærða að aka umræddum vörubíl eftir að vátryggingafélagið hafði fellt úr gildi ábyrgðartrygginguna vegna hans.  Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 60 daga.  Þar sem ákærði hefur ekki annað á sakaskrá sinni en öxulþungabrot árið 2002, þykir mega ákveða að fresta refsingu þessari og að hún falli niður, haldi ákærði almennt skilorð í 3 ár frá dómsuppsögu að telja.  Jafnframt fangelsisrefsingunni ber að gera ákærða 300.000 króna sekt og ákveða að 20 daga fangelsi komi í stað hennar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirt­ingu.

Samkvæmt 1. mgr. 101. gr. umferðarlaga ber að svipta ákærða ökurétti í 3 mánuði frá dómsbirtingu að telja.

Loks ber að dæma ákærða til þess að greiða verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni hdl., 180.000 krónur í málsvarnarlaun, að meðtöldum virðisaukaskatti, og 890.000 krónur í annan sakarkostnað.

890.000 krónur í annan sakarkostnað.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp dóminn.

                                                                                  DÓMSORÐ

Ákærði, Helgi Pálmar Aðalsteinsson, sæti fangelsi í 60 daga.  Frestað er framkvæmd refsingar þessarar og fellur hún niður að liðnum 3 árum haldi ákærði almennt skilorð.

Ákærði greiði 300.000 krónur í sekt og komi 20 daga fangelsi í stað sektarinnar, greiðist hún ekki innan 4 vikna frá dómsbirtingu.

Ákærði er sviptur ökurétti í 3 mánuði frá dómsbirtingu að telja.

Ákærði greiði verjanda sínum, Guðmundi Ágústssyni hdl., 180.000 krónur í málsvarnarlaun og

890.000 krónur í annan sakarkostnað.