Hæstiréttur íslands
Mál nr. 749/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Nálgunarbann
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir og Karl Axelsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 2. nóvember 2016, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 7. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 31. október 2016, þar sem staðfest var ákvörðun sóknaraðila 25. október sama ár um að varnaraðili sætti nánar tilgreindu nálgunarbanni. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að nálgunarbanninu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknun verjanda varnaraðila fyrir Hæstarétti, Sigurðar Sigurjónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Suðurlands 31. október 2016.
Lögreglustjórinn á Suðurlandi, hefur með vísan til 1. mgr. 12. gr. laga nr. 85/2011, um nálgunarbann og brottvísun af heimili, farið fram á að héraðsdómur staðfesti ákvörðun lögreglustjórans á Suðurlandi, sem tekin var þann þann 25. október sl., með vísan til 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011.
Samkvæmt framangreindri ákvörðun hefur lögreglustjórinn á Suðurlandi ákveðið að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni sbr. 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 í sex mánuði frá 25. október að telja; þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...] á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.
Krafan barst dóminum 28. október 2016 og var hún tekin fyrir á dómþingi 31. október 2016. Er kröfunni mótmælt af hálfu varnaraðila og þess krafist að henni verði hafnað, en til vara þess krafist að nálgunarbanni verði markaður skemmri tími. Af hálfu brotaþola er þess krafist að ákvörðunin verði staðfest. Af hálfu verjanda varnaraðila og réttargæslumanns brotaþola er krafist þóknunar úr ríkissjóði.
Málavextir
Í greinargerð lögreglustjóra segir að forsaga málsins sé að þann 26. september sl. hafi brotaþoli tilkynnt um meint heimilisofbeldi kærða gagnvart sér sbr. mál lögreglu nr. [...]. Hafi lögregla hitt brotaþola fyrir í [...]þar sem hún hafi setið í bifreið, klædd náttfötum einum fata og kvartað undan miklum sársauka í hægri framhandlegg, eins og meðal annars komi fram í frumskýrslu lögreglu. Hafi kærði auk þess verið á vettvangi á annarri bifreið en samkvæmt brotaþola hafi kærði elt hana að gatnamótum [...] og [...] af heimili þeirra beggja að [...], en þaðan hafi brotaþoli sagst hafa flúið undan ofbeldi kærða. Við skýrslutöku hjá lögreglu hafi brotaþoli greint frá því að hún hafi legið sofandi í rúmi þeirra beggja að [...] í [...] að kvöldi 26. september sl. þegar kærði hafi veist að henni með ofbeldi, og meðal annars slegið hana með hurðakarmslista.
Er lögregla hafi gefið sig á tal við kærða á vettvangi hafi hann verið æstur, ekki viljað hlýða fyrirmælum lögreglu og verið að endingu handtekinn og færður í fangaklefa á lögreglustöðina á [...].
Í kjölfarið hafi lögreglustjóri tekið ákvörðun þann 27. september 2016 um að kærða yrði gert að sæta brottvísun af heimili þeirra beggja að [...] í [...] sbr. 1. mgr. 3. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 og nálgunarbanni gagnvart brotaþola í fjórar vikur að telja frá birtingu ákvörðunarinnar sbr. 4. gr. sömu laga. Hafi ákvörðun lögreglustjóra verið staðfest með úrskurði Héraðsdóms Suðurlands þann 3. október sl. í máli nr. R-77/2016 og loks staðfest með dómi Hæstaréttar þann 10. október sl. í máli nr. 685/2016.
Síðan hafi lögreglustjóri, að beiðni brotaþola, fellt brottvísun kærða af heimili úr gildi og þann hluta nálgunarbanns er lúti að heimili kærða að [...] úr gildi, þar sem brotaþoli sé nú flutt út af heimilinu og dveljist á heimili móður sinnar í [...]. Hafi ákvörðun lögreglustjóra verið kynnt kærða þann 12. október sl. en þar komi fram að kærða sé áfram bannað að hafa samskipti við brotaþola, svo sem veita henni eftirför, heimsækja hana, eða vera með nokkru móti í samskiptum við hana. Þrátt fyrir það hafi lögregla til rannsóknar að minnsta kosti fjögur tilvik þar sem kærða sé gefið að sök að hafa brotið framangreint nálgunarbann með því að setja sig í samband við brotaþola. Hafi kærði að einhverju leyti gengist við því að hafa brotið gegn nálgunarbanni sbr. fyrirliggjandi rannsóknargögn lögreglu.
Brotaþoli hafi gert kröfu um að kærða verði gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni gagnvart sér. Samkvæmt 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 sé heimilt að beita nálgunarbanni ef:
a. rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola, eða
b. hætta er á að viðkomandi brjóti gegn brotaþola skv. a-lið.
Að mati lögreglustjóra sé í málinu fram kominn rökstuddur grunur um að kærði hafi beitt brotaþola líkamlegu ofbeldi og raskað friði hennar á heimili þeirra beggja, auk þess að hafa ítrekað brotið gegn nálgunarbanni gagnvart brotaþola. Ennfremur sé það mat lögreglustjóra að hætta sé á því að kærði brjóti á ný gegn brotaþola. Það sé jafnframt mat lögreglustjórans á Suðurlandi að vægari úrræði en nálgunarbann muni ekki vernda friðhelgi og tryggja öryggi og hagsmuni brotaþola, sbr. 1. gr. 6. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili.
Með vísan til ofangreinds og annarra gagna í málum lögreglu nr. 318-2016-11103, 318-2016-11557 og 318-2016-11924 hafi lögreglustjórinn á Suðurlandi ákveðið að X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni sbr. 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 frá og með birtingu ákvörðunar þessarar í sex mánuði; þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.
Var ofangreind ákvörðun birt varnaraðila 25. október 2016 kl. 16:04.
Forsendur og niðurstaða
Fyrir dóminn hafa verið lögð afrit rannsóknargagna vegna þeirra atvika sem urðu tilefni þess að framangreint nálgunarbann var ákveðið af lögreglustjóra.
Samkvæmt a-lið 4. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili er heimilt að beita nálgunarbanni ef rökstuddur grunur er um að sakborningur hafi framið refsivert brot eða raskað á annan hátt friði brotaþola eða hætta sé á að viðkomandi muni fremja háttsemi samkvæmt framanlýstum a-lið gagnvart brotaþola.
Að mati dómsins verður að fallast á það með lögreglustjóra að rökstuddur grunur sé um að varnaraðili hafi framið refsivert brot gagnvart brotaþola eða raskað á annan hátt friði hennar og jafnframt að hætta sé á að hann muni gera það á ný. Þá verður að fallast á það með lögreglustjóra að ekki þyki sennilegt að friðhelgi brotaþola verði vernduð með öðrum og vægari hætti.
Verður fallist á nálgunarbann eins og krafist er en tímalengd nálgunarbanns þykir ekki úr hófi. Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., ákveðst kr. 347.820 að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., ákveðst kr. 146.568 að teknu tilliti til virðisaukaskatts. Þóknanirnar greiðist úr ríkissjóði og teljast til sakarkostnaðar sbr. 3. mgr. 38. gr. og 3. mgr. 48. gr. laga nr. 88/2008.
Sigurður G. Gíslason héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Ú r s k u r ð a r o r ð :
Staðfest er ákvörðun Lögreglustjórans á Suðurlandi um að varnaraðila, X, kt. [...], verði gert að sæta áframhaldandi nálgunarbanni sbr. 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 í sex mánuði frá 25. október að telja; þannig að lagt er bann við því að hann komi að eða sé við [...], á svæði sem afmarkast af 50 metra radíus mælt frá miðju hússins, og jafnframt verði honum bannað að veita eftirför, heimsækja, nálgast á almannafæri sem nemur 50 metra radíus frá staðsetningu hennar hverju sinni, eða vera með nokkru öðru móti í beinu sambandi við A, kt. [...], svo sem með símtölum, tölvupósti eða með öðrum hætti.
Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., kr. 347.820 að teknu tilliti til virðisaukaskatts sem og þóknun skipaðs réttargæslumanns brotaþola, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., kr. 146.568 að teknu tilliti til virðisaukaskatts.