Hæstiréttur íslands
Mál nr. 36/2014
Lykilorð
- Sjálfskuldarábyrgð
- Vanreifun
- Frávísun frá héraðsdómi
|
|
Miðvikudaginn 18. júní 2014. |
|
Nr. 36/2014.
|
Haukur Hilmarsson og Magnús Axel Hansen (Bjarki Þór Sveinsson hrl.) gegn Íslandsbanka hf. (Torfi Ragnar Sigurðsson hrl.) |
Sjálfskuldarábyrgð. Vanreifun. Frávísun frá héraðsdómi.
Í hf. höfðaði mál gegn J, H og M til innheimtu kröfu sem var til komin vegna yfirdráttar á tékkareikningi tiltekins einkahlutafélags. J, H og M höfðu gengist undir óskipta skuldaábyrgð vegna yfirdráttarins, auka vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar. Með yfirlýsingu J, H og M, sem útbúin hafði verið af hálfu Í hf., höfðu J, H og M samþykkt að gera upp skuldina á þann hátt að hver þeirra bæri óskipta ábyrgð á tilteknum hluta hennar. Þá hafði J greitt hluta kröfunnar og Í hf. fallið frá málsókn á hendur honum. Í stefnu var hvorki gerð grein fyrir umræddri yfirlýsingu né að J hefði fyrir sitt leyti uppfyllt skilyrði hennar með greiðslu til Í hf. Af þeim sökum lá ekki fyrir hvernig þeirri fjárhæð var ráðstafað inn á kröfuna og hvaða áhrif það hafði á skuld H og M á grundvelli ábyrgðar þeirra. Voru því svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði Í hf. að vísa varð málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Benedikt Bogason og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 16. janúar 2014. Þeir krefjast sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi höfðaði mál þetta 15. og 16. mars 2012 á hendur áfrýjendum og Jóni Hjörleifssyni, sem var skráður framkvæmdastjóri einkahlutafélagsins Krossgatna og prókúruhafi á nánar tilgreindum tékkareikningi þess. Nam stefnukrafan 8.743.595 krónum auk þess sem dráttarvaxta var krafist frá 2. mars 2012 til greiðsludags. Krafðist stefndi þess að áfrýjendur og Jón greiddu sér óskipt fyrrgreinda fjárhæð. Með bréfi til áfrýjandans Hauks 13. ágúst 2009 hóf stefndi löginnheimtu á skuld vegna yfirdráttar á reikningnum, sem þá nam 12.221.599 krónum, en áfrýjendur og Jón höfðu með yfirlýsingu 17. mars 2008 gengist undir 10.000.000 króna óskipta skuldaábyrgð vegna yfirdráttarins auk vaxta, dráttarvaxta og kostnaðar. Afrit bréfsins var sent fyrrnefndum Jóni og áfrýjandanum Magnúsi Axel. Í framhaldi af þessu leituðu áfrýjendur og Jón til stefnda í þeim tilgangi að fá breytt óskiptri ábyrgð sinni á umræddum reikningi yfir í skipta ábyrgð. Með yfirlýsingu áfrýjenda og Jóns 3. nóvember 2009, sem útbúin var af hálfu stefnda, samþykktu þeir að gera upp yfirdráttarskuldina á þann hátt að áfrýjendur myndu hvor um sig greiða 3.072.064 krónur og Jón það sem upp á vantaði, 6.394.907 krónur. Sagði í yfirlýsingunni að þegar hver þeirra um sig hefði gengið frá sínum hluta skuldarinnar, hvort sem það gerðist með greiðslu í reiðufé eða með samningi um skuldbreytingu gegn tryggingum, sem stefndi mæti fullnægjandi, skyldi hinn sami vera laus undan sjálfskuldarábyrgðinni. Fram er komið í málinu að 27. október 2011 greiddi Jón Hjörleifsson stefnda 7.912.339 krónur og féll hinn síðarnefndi frá málsókn á hendur honum í þinghaldi 13. mars 2013. Á hinn bóginn efndi hvorugur áfrýjenda greiðsluskyldu sína samkvæmt umræddri yfirlýsingu.
Þegar tékkareikningnum var lokað 29. febrúar 2012 nam skuld á honum 8.743.595 krónum. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 var öllum eignum Glitnis banka hf., þar á meðal kröfuréttindum, ráðstafað til Nýja Glitnis banka hf. samkvæmt heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Fékk sá banki síðar heiti stefnda.
Samkvæmt e. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála ber að greina í stefnu svo glöggt sem verða má málsástæður sem stefnandi byggir málsókn sína á, svo og önnur atvik sem þarf að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst. Eins og áður segir höfðaði stefndi mál þetta á hendur áfrýjendum og Jóni Hjörleifssyni og krafðist þess að þeir greiddu sér óskipt 8.743.595 krónur. Í stefnu er ekkert vikið að fyrrgreindri yfirlýsingu 3. nóvember 2009 um að óskiptri ábyrgð þessara einstaklinga sem sjálfsskuldarábyrgðarmanna á tékkareikningi Krossgatna ehf. væri breytt í skipta ábyrgð og að með greiðslu tiltekinnar fjárhæðar skyldi hver þeirra um sig vera laus undan ábyrgðinni. Þá var þar að engu getið að einn þeirra, Jón Hjörleifsson, uppfyllti skilyrði yfirlýsingarinnar fyrir sitt leyti 27. október 2011 með greiðslu 7.912.339 króna. Af þeim sökum liggur ekki fyrir hvernig þeirri fjárhæð var ráðstafað inn á kröfuna og hvaða áhrif það hafði á skuld áfrýjenda á grundvelli ábyrgðar þeirra. Úr þessu var ekki bætt undir rekstri málsins. Eru þetta svo verulegir annmarkar á málatilbúnaði stefnda að vísa verður málinu af sjálfsdáðum frá héraðsdómi.
Eftir 2. mgr. 130. gr., sbr. 166. gr., laga nr. 91/1991 verður stefndi dæmdur til að greiða áfrýjendum málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, sem ákveðinn verður í einu lagi eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Máli þessu er vísað frá héraðsdómi.
Stefndi, Íslandsbanki hf., greiði áfrýjendum, Hauki Hilmarssyni og Magnúsi Axel Hansen, hvorum um sig samtals 400.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 30. október 2013.
Mál þetta, sem dómtekið var 18. október 2013, er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu birtri 15. og 16. mars 2012 af Íslandsbanka hf., Kirkjusandi 2, Reykjavík gegn Magnúsi Axel Hansen, Jöklaseli 11, Reykjavík og Hauki Hilmarssyni, Skógarbraut 931, Keflavíkurflugvelli.
Dómkröfur stefnanda eru að stefndu verði dæmdir in solidum til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 8.743.595 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 2. mars 2012 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.
Magnús Axel Hansen krefst sýknu og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað.
Haukur Hilmarsson krefst aðallega sýknu. Til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar og að stefnanda verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins.
Af hálfu stefndu var í greinargerð krafist frávísunar málsins frá dómi. Með úrskurði héraðsdóms 21. maí 2013 var frávísunarkröfu hafnað. Málið var upphaflega höfðað gegn Jóni Hjörleifssyni, í félagi við stefndu. Stefnandi hefur fallið frá öllum kröfum gegn Jóni Hjörleifssyni.
I.
Stefndu rituðu 17. mars 2008 undir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttar á tékkareikningi Krossgatna ehf. nr. 90140 hjá Glitni banka hf. í útibúi við Lækjargötu 12 í Reykjavík. Var sjálfskuldarábyrgðin til tryggingar allt að 10.000.000 króna og stefndu, ásamt Jóni Hjörleifssyni, ábyrgir in solidum. Skráður prókúruhafi á reikninginn var Jón Hjörleifsson, framkvæmdastjóri félagsins. Á þessum tíma höfðu staðið yfir viðræður um aðkomu stefndu að félaginu, en að því var stefnt að flytja inn mótorhjól til landsins til endursölu. Fljótlega kom í ljós að ekki var grundvöllur fyrir slíkum innflutningi og urðu áform stefndu og Jóns þar að lútandi að engu. Hurfu þeir í framhaldi frá félaginu. Á árinu 2011 leituðu stefndu og Jón Hjörleifsson til stefnanda í þeim tilgangi að breyta sameiginlegri ábyrgð sinni yfir í skipta ábyrgð. Var við það miðað að stefndu bæru ábyrgð á sitt hvorum helming skuldar á reikningnum en Jón Hjörleifsson hinum helmingi. Tekið var fram að þegar stefndu eða Jón hefðu gengið frá sínum hluta hvort sem það gerðist með greiðslu í reiðufé eða með samningi um skuldbreytingu gegn tryggingum sem bankinn mæti fullnægjandi, skyldi hinn sami teljast laus undan sjálfskuldarábyrgðinni.
Stefnandi lokaði tékkareikningi nr. 90140 þann 29. febrúar 2012. Þann dag námu innstæðulausar færslur á reikningi 8.743.595 krónum. Krossgötur ehf. voru úrskurðaðar gjaldþrota 2. mars 2012. Stefnandi hefur höfðað mál þetta á hendur stefndu á grundvelli sjálfskuldarábyrgðar á nefndum tékkareikningi. Nemur stefnufjárhæðin stöðu á reikningnum við lokun hans.
II.
Stefnandi byggir kröfu sína á því að 29. mars 2005 hafi félagið Krossgötur ehf. stofnað tékkareikning nr. 90140 við útibú stefnanda í Lækjargötu 12, í Reykjavík. Þann 17. mars 2008 hafi Jón Hjörleifsson, Magnús Axel Hansen og Haukur Hilmarsson undirritað yfirlýsingu um að taka á sig sjálfskuldarábyrgð á greiðslu skuldar allt að 10.000.000 króna ásamt vöxtum og kostnaði vegna reikningsins. Þann 29. febrúar 2012 hafi innstæðulausar færslur á reikningum numið 8.743.595 krónum og reikningnum þá verið lokað. Stefndu sé stefnt til greiðslu ábyrgðarinnar. Þann 2. mars 2012 hafi félagið Krossgötur ehf. verið úrskurðað gjaldþrota. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Um lagarök vísar stefnandi til meginreglna samninga- og kröfuréttar um loforð og efndir fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti, þ.m.t. vaxtavexti, styður stefnandi við reglur 1. mgr. 6. gr laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 með síðari breytingum. Kröfu um málskostnað styður stefnandi við 1. mgr. 130. gr. laga 91/1991 um meðferð einkamála. Um kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun vísar stefnandi til laga nr. 50/1988. Um varnarþing vísar stefnandi til 32. gr. laga nr. 91/1991.
III.
Stefndi, Magnús Axel Hansen, byggir sýknukröfu sína aðallega á því að krafa stefnanda sé með öllu ósönnuð. Stefnandi hafi lagt fram útdrátt úr skrám reiknisstofu bankanna, yfirlit reiknings og innheimtubréf. Ekki verði séð að framangreind skjöl geti talist færa sönnur á þá skuld sem stefndi sé krafinn um greiðslu á. Útdráttur hafi að geyma ómarkvissar upplýsingar, flestar í formi skammstafana, sem stefndi fái ekki skilið. Þannig sé í raun ósannað hver fjárhæðin sé.
Fram komi á umræddum úrdrætti að prókúruhafi sé Jón Hjörleifsson en á honum séu engar upplýsingar að finna um eða tengdar stefnda. Þar komi fram eftirfarandi skammstafanir: „Dags vansk 15.09.08“ og „Dags yfird. 15.09.08“, hinsvegar sé í yfirliti umrædds reiknings hvergi að finna gögn frá því tímabili. Þau gögn sem þar sé að finna virðist einungis ná aftur til ársins 2010.
Stefndi telji að stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn. Hafi stefnandi einnig sýnt af sér verulegt tómlæti og sé stefndi því óbundinn af yfirlýsingu sinni. Þó sérstök álitamál geti risið vegna tengsla ábyrgðarmanns við lántakanda, þegar lántakinn sé félag sem ábyrgðarmaður sé viðriðinn og undir merkjum hvaða félagsforms það sé rekið, hafi stefndi Magnús Axel aldrei verið hluthafi í Krossgötum ehf. og enga fjárhagslega hagsmuni haft af yfirlýsingunni. Hafi stefndi hvorki haft áhrif innan félagsins, né hafi hann formlega komið að rekstri þess. Stefndi hafi því ekki gengist undir umrædda ábyrgð í þágu eigin atvinnurekstrar eða fjárhagslegs ávinnings. Bendi stefndi á að ákvæði laga um ábyrgðarmenn gildi um réttarsamband það sem stofnast hafi á milli Glitni banka hf. og stefnda við undirritun umræddrar sjálfsskuldarábyrgðar og þá síðar stefnanda, teljist stefnandi hafa sannað aðilaskipti að hinni umræddu kröfu. Stefndi líti svo á að teljist stefnandi hafa sýnt fram á aðilaskiptin að kröfunni, hafi hann samkvæmt framangreindu ekki sýnt fram á að gætt hafi verið að ákvæðum a-, c-, eða d- liðar 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 varðandi tilkynningarskyldu. Þar sem að stefnandi hafi talið stefnda ábyrgan fyrir umræddri skuld, hafi honum verið skylt að aðvara stefnda svo fljótt sem tilefni hafi verið til að ætla vanefndir af hálfu Krossgatna ehf. Samkvæmt framlögðum úrdrætti úr skrám Reiknistofu bankanna hafi virst sem slíkt tilefni hafi verið fyrir hendi, strax þann 15. september 2008. Það hafi hinsvegar ekki verið fyrr en með birtingu stefnu í máli þessu, sem stefnda hafi verið ljóst að stefnandi hygðist innheimta kröfu á hann, vegna umræddrar sjálfsskuldarábyrgðar. Verði því að telja að stefnandi hafi sýnt af sér verulegt tómlæti, sbr. 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 og sé það lánveitandi sem beri sönnunarbyrðina fyrir því að tilkynningaskyldu hafi verið gætt enda standi það honum nær en ábyrgðarmanni, sbr. athugasemdir í greinagerð með frumvarpinu til laga nr. 32/2009.
Stefndi bendi á að stefnandi hafi ekki uppfyllt skilyrði 4. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Hafi stefnandi sýnt af sér tómlæti. Umræddum reikningi hafi verið lokað 29. febrúar 2012 og skuld samkvæmt honum verið gjaldfelld þann 2. mars sama ár og stefnandi ekki sannað að hann hafi áður gefið stefnda kost á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Hafi stefnandi því ekki uppfyllt skyldu sína um að tilkynna ábyrgðarmanni um framsal réttinda sem reist hafi verið á ábyrgðinni. Þá hafi stefndi ekki með nokkrum hætti verið upplýstur um áhrif ábyrgðaryfirlýsingarinnar, áhættu o.fl. sem henni hafi fylgt. Stefndi hafi ekki á nokkrum tíma verið upplýstur um hvort greiðslumat hafi farið fram eða hvort Krossgötur hafi á nokkrum tíma verið hæft til að takast á hendur umkrafða skuldbindingu, þá síður hafi stefndi verið varaður við að gangast við ábyrgðinni. Ljóst sé að hinn upphaflegi lánveitandi, Glitnir banki hf. og síðar stefnandi, hafi haft yfirburðarstöðu á sviði fjármunaréttar gagnvart stefnda og beri honum því að upplýsa stefnda um alla þá þætti og þau réttindi sem hafi getað skipt hann máli varðandi ábyrgðina, sbr. t.d. atriði varðandi greiðslugetu aðalskuldara.
Stefndi telji yfirlýsinguna ógilda á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 þegar haft sé í huga að stefndi hafi verið ótengdur Krossgötum hf. og umrædd sjálfsskuldarábyrgð því verið honum afar íþyngjandi. Hafi Glitnir banki hf. og síðar stefnandi, verið í yfirburðarstöðu gagnvart stefnda á þessu sviði. Eins kveði umrædd sjálfsskuldarábyrgðaryfirlýsing á um það í 4. lið að sjálfsskuldarábyrgðin skuli standa óhögguð þótt reikningseiganda hafi verið úthlutað nýju reikningsnúmeri ef reikningurinn komi að öllu leyti í stað fyrri reiknings, hvort sem reikningurinn sé í sama útibúi eða í öðru útibúi bankans. Hvergi sé hinsvegar kveðið á um það að sjálfsskuldarábyrgðin skuli standa óhögguð ef reikningseiganda yrði úthlutað nýjum reikningi, hjá öðrum aðila, í kjölfar aðilaskipta af umræddri kröfu. Stefnandi beri ekki sömu kennitölu og hinn upphaflegi loforðsmóttakandi sjálfsskuldarábyrgðarinnar. Stefnandi sé því annar aðili en hinn upphaflegi loforðsmóttakandi og geti aðilaskipti þau sem stefnandi haldi fram að hinni umræddu kröfu, ekki fallið undir framangreinda skilgreiningu 4. lið sjálfsskuldarábyrgðaryfirlýsingarinnar. Hér séu uppi atvik sem síðar komu til sem stefndi hafi ekki getað séð fyrir við undirritun umræddrar sjálfsskuldarábyrgðaryfirlýsingar og ósanngjarnt verði að teljast af stefnanda og andstætt góðum viðskiptaháttum, að ganga á stefnda á grundvelli hennar.
Verði ekki fallist á sýknukröfu stefnda gerir stefndi þá kröfu að dómkrafa stefnanda verði lækkuð. Lækkunarkrafan byggi m.a. á skyldu stefnanda til að lýsa kröfu í þrotabúið og skyldu hans til þess að gefa ábyrgðarmanni sannanlega kost á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins, sbr. 3. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009. Hafi stefnandi ekki sýnt fram á að hann hafi með sannanlegum hætti gefið stefnda kost á að greiða gjaldfallnar afborganir lánsins. Þá byggi stefndi lækkunarkröfu sína á 36. gr. laga nr. 7/1936.
Stefndi mótmæli kröfu stefnda um málflutningsþóknun og andmæli kröfu um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Lögmaður stefnanda sé skráður sem starfsmaður stefnanda í gagnagrunni Lögmannafélags Íslands. Lögmaður stefnanda sé því ekki sjálfstætt starfandi heldur þiggi hann laun frá stefnanda sem ekki séu virðisaukaskattskyld.
Stefndi byggir á meginreglum íslensks réttarfars um skýra kröfugerð sem fær meðal annars stoð í stafliðum 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991. Stefndi byggir einnig á ákvæðum laga um ábyrgðarmenn nr. 32/2009. Stefndi byggir jafnframt á 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá vísar stefndi einnig til meginreglna laga nr. 91/1991 um sönnun og sönnunarbyrði. Málskostnaðarkrafa stefnda á sér stoð í 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991.
IV.
Stefndi, Haukur, krefst sýknu á kröfum stefnanda vegna aðildarskort. Stefndi telji stefnanda ekki hafa sýnt fram á að hann sé eigandi kröfunnar. Stefnandi Íslandsbanki hf., áður Nýi Glitnir banki kt. 000000-0000, hafi verið stofnaður í október 2008 og með ákvörðun fjármálaeftirlitsins 14. október 2008 tekið við ýmsum eignum upphaflegs eiganda kröfunnar Glitnis banka, kt. 000000-0000. Eignir sem hafi verið fluttar yfir í nýja Glitni banka hafi verið m.a. kröfuréttindi sbr. 1. tl. ákvörðunarinnar og samkvæmt 2. tl. ákvörðunarinnar hafi nýi bankinn einnig tekið við tryggingaréttindum og ábyrgðum sem tengdust kröfum bankans. Þó hafi verið tekið fram í 1. tl. að eignir og réttindi sem væru undanskilin framsalinu væru talin upp í viðauka með ákvörðuninni. Í viðaukanum hafi meðal annars verið undanskilin framsali í g-lið viðaukans „útlán í verulegri tapshættu, skv. Nánari útlistun í samantekt með stofnefnahag“ og jafnframt hafi verið undanskildar í h-lið viðaukans „Aðrar eignir sérstaklega tilgreindar í samantekt og sem tekið sé tillit til í stofnefnahag“. Segi svo í viðaukanum að nánari sundurliðun sé að finna í stofnefnahagsreikningi og skýringum með honum í sérstakri samantekt. Telji stefndi að skuld aðalskuldara, Krossgatna ehf., hafi fallið undir þær kröfur sem undanskildar voru framsali skv. g-lið viðaukans enda hafi verið um að ræða útlán í verulegri tapsáhættu. Þá telji stefndi Haukur einnig mögulegt að krafan á hendur Krossgötum ehf. hafi verið meðal þeirra eigna sem undanskildar voru og getið sé í h-lið ákvörðunarinnar. Stefndi telji því að stefnandi hafi ekki fært sönnur á að hann sé eigandi kröfunnar og því beri að sýkna stefnda af kröfum stefnanda með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Stefndi telji að sýkna eigi stefnda af kröfu stefnanda eða lækka hana. Ljóst sé að stór hluti kröfunnar séu dráttarvextir á yfirdráttarskuld Krossgatna ehf., að ekki sé heimilt að krefja stefnda sem ábyrgðamann um dráttarvexti þar sem stefnandi hafi ekki sinnt skyldum sínum skv. d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 um ábyrgðamenn. Samkvæmt þeim lið hafi Íslandsbanka borið að senda ábyrgðamönnum um hver áramót yfirlit yfir ábyrgðir og stöðu lána. Samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laganna skuli ábyrgðarmaður vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda á tilkynningu. Stefndi hafi talið að í kjölfar viðræðna við útibússtjóra stefnanda hafi Krossgötur ehf. og/eða eigandi félagsins og meðábyrgðarmaður, Jón Hjörleifsson, gert upp skuld á reikningi 513-26-90140 enda hafi útibústjórinn ekki fylgt eftir samningaviðræðum um yfirtöku ábyrgðarmanna á skuldinni pro-rata. Þar sem engar tilkynningar hafi borist og stefnandi ekki sent kröfuna í löginnheimtu, líkt og stefnda hafi verið tilkynnt um í innheimtubréfum að myndi verða ef ekki yrði greitt eða samið um kröfuna, hafi stefndi styrkst í trúnni um að skuldin væri frágengin af hálfu aðalskuldara eða meðábyrgðarmanni og eiganda aðalskuldara, Jóni Hjörleifssyni. Ekkert hafi heyrst frá bankanum vegna ábyrgðarinnar í rúmlega tvö ár fyrr en stefnda hafi verið birt stefna 15. mars 2012. Þá hafði stefnanda borið að senda stefnda yfirlit um þrenn áramót sbr. d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009.
Þá telji stefndi að með því tómlæti sem stefnandi hafi sýnt af sér með því að fylgja ekki eftir samningaviðræðum sem átt hafi sér stað árið 2009 og með því að senda ekki yfirlit yfirlit yfir ábyrgðina svo sem stefnanda hafi borið samkvæmt d-lið 1. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 hafi stefnandi dregið úr möguleikum stefnda á nýta endurkröfurétt sinn á hendur meðábyrgðarmönnum og aðalskuldara. Á þeim tíma sem stefnandi hafi vanrækt að senda stefnda tilkynningar hafa m.a. orðið þær breytingar á högum aðalskuldara að aðalskuldari hefur verið úrskurðaður gjaldþrota. Telji stefndi að honum hefði verið fært að fá hugsanlegar greiðslur vegna ábyrgðarinnar að miklu eða jafnvel öllu leiti endurgreiddar úr hendi aðalskuldara og meðábyrgðarmanna. Telji stefndi því að sýkna eigi hann af kröfum stefnanda eða lækka kröfuna verulega með vísan til þess að hann eigi samkvæmt 2. mgr. 7. gr. laga nr. 32/2009 að vera skaðlaus af vanrækslu lánveitanda. Telji dómurinn ekki að krafan sé niður fallin að fullu vegna tómlætis og vanrækslu lánveitanda telji stefndi að hann eigi eingöngu að bera skipta ábyrgð á hluta kröfunnar vegna áðurgreindrar skerðingar á möguleikum til að nýta endurkröfurétt gagnvart meðábyrgðarmönnum.
Þá telji stefndi að þar sem ekki hafi verið sendar tilkynningar í samræmi við d-lið 7. gr. laga nr. 32/2009 hafi heildarfjárhæð ábyrgðarinnar takmarkast við 10.000.000 krónur á meðan tilkynningar hafi ekki verið sendar. Ekki sé heimilt að bæta vöxtum og öðrum kostnaði við þá fjárhæð án þess að ábyrgðarmenn séu upplýstir um stöðu kröfunnar svo sem skylt sé samkvæmt lögum nr. 32/2009. Telji stefndi því að staða ábyrgðarinnar hafi að hámarki verið 10.000.000 krónur þann 27. október 2011 þegar Jón Hjörleifsson hafi greitt 7.912.339 krónur inn á kröfuna. Þar sem um hafi verið að ræða óskipta ábyrgð allra stefndu að heildarfjárhæð 10.000.000 krónur telji stefndi að við þá innborgun hafi ábyrgðarkrafan lækkað í 2.087.661 krónur og séu það því að hámarki eftirstöðvar ábyrgðarkröfunnar auk samningsvaxta frá þeim degi.
V.
Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um skuld samkvæmt yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð á tékkareikningi nr. 90140, við útibú Glitnis við Lækjargötu í Reykjavík, en undir ábyrgðina var ritað 17. mars 2008. Eigandi tékkareikningsins á þeim tíma voru Krossgötur ehf. Upplýst var við aðalmeðferð málsins að stefndu hafi komið að því félagi, sem Jón Hjörleifsson var fyrirsvarsmaður fyrir á þeim tíma. Til hafi staðið að flytja inn mótorhjól til endursölu, en þau áform hafi ekki gengið eftir. Þá var upplýst við aðalmeðferð málsins að stefndu, ásamt Jóni Hjörleifssyni, fóru til fundar við fyrirsvarsmann stefnanda á árinu 2011 þar sem rætt var um að skipta ábyrgð á nefndum tékkareikningi úr sameiginlegri ábyrgð í skipta ábyrgð, þannig að stefndu bæru hvor um sig ábyrgð á sitt hvorum helmingi skuldbindingarinnar en Jón Hjörleifsson tæki á sig hinn hlutann. Skjal um þetta er á meðal gagna málsins og er það dagsett 3. nóvember 2011. Samkvæmt nefndu skjali skal áður sameiginlegri ábyrgð á tékkareikningi nr. 90140 skipt niður í hlutföllum þannig að stefndi, Magnús Axel, tekur á sig að greiða 3.072.064 krónur, stefndi Haukur 3.072.064 krónur og Jón Hjörleifsson 6.394.907 krónur. Samkvæmt ákvæði í þessari yfirlýsingu skulu stefndu lausir undan sjálfskuldarábyrgð sinni þegar hver þessara aðila hefur gengið frá sínum hluta, hvort sem er með greiðslu reiðufjár eða með samningi um skuldbreytingu gegn tryggingum, sem bankinn metur fullnægjandi. Í aðilaskýrslum stefndu og fyrirsvarsmanns stefnanda kom fram fyrir dóminum að stefndu hafi aldrei uppfyllt skyldur sínar samkvæmt yfirlýsingunni þannig að þeir hafi greitt sinn hluta eða stofnað til skuldbindingar vegna hennar. Lýsti fyrirsvarsmaður stefnanda því að alla tíð hafi verið ljóst að frumkvæðið yrði að koma frá stefndu, þar sem bankinn hafi með þessu verið að færa ábyrgðina úr sameiginlegri ábyrgð í skipta ábyrgð, sem hafi verið verri kostur fyrir bankann. Stefndi Haukur hafi verið með til skoðunar fleira en eitt lánsform í þessu sambandi og m.a. farið í greiðslumat hjá bankanum. Hafi bankinn verið búinn að fallast á að lána honum fjármuni til að gera upp sinn hluta ábyrgðarinnar. Hann hafi þó aldrei gengið frá sínum þætti. Stefndi Magnús hafi hins vegar talið sig geta greitt sinn hluta. Hann hafi ekki heldur komið og gengið frá sínum hluta.
Við undirritun viðlíka sjálfskuldarábyrgðar og í máli þessu nýtur kröfuhafi samkvæmt ábyrgðinni þess réttar að geta krafist greiðslu samkvæmt yfirlýsingunni, í samræmi við efnisákvæði hennar. Samkvæmt yfirlýsingunni rita stefndu undir að hafa kynnt sér efni ábyrgðaryfirlýsingarinnar og upplýsingar bankans um sjálfskuldarábyrgð. Jafnframt rita stefndu undir að hafa kynnt sér fjárhagsstöðu Krossgatna ehf. Samkvæmt ákvæði yfirlýsingarinnar er skuldara skylt að greiða skuld samkvæmt yfirlýsingunni við vanskil, ef kröfuhafi krefst þess, þótt kröfuhafi hafi engar tilraunir gert til að fá hana greidda hjá skuldara. Við vanefnd er kröfuhafa í sjálfsvald sett hvern hann krefur fyrst, skuldara eða sjálfskuldarábyrgðaraðila.
Reikningi nr. 90140 var lokað 29. febrúar 2012 og Krossgötur ehf. úrskurðað gjaldþrota skömmu síðar eða 2. mars sama ár. Stefndu hafa ekki samið við kröfuhafa samkvæmt yfirlýsingunni um annars konar efndir á ábyrgðinni. Þá hafa stefndu ekki fært fram sönnur á að stefnufjárhæð sé röng. Mótbárur við kröfunni á þeim grundvelli að kröfufjárhæð sé ósönnuð eða að víkja beri samningi til hliðar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eru engum gildum rökum studdar og verður þeim hafnað. Þá liggur fyrir að ábyrgðir í eigu Glitnis banka hf. voru yfirfærðar til stefnanda með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 14. október 2008, en tekið var fram að Nýi Glitnir banki hf. tæki við öllum tryggingarréttindum Glitnis banka hf., þ.m.t. öllum ábyrgðum. Eru staðhæfingar stefndu um annað ósannaðar.
Loks er til þess að líta að lög um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, tóku gildi 4. apríl 2009, eða ríflega ári eftir að ábyrgðaryfirlýsingin 17. mars 2008 var undirrituð. Í III. kafla laganna er mælt fyrir um skyldur lánveitanda gagnvart ábyrgðarmönnum. Lúta þær einkum að tilkynningum lánveitanda til ábyrgðarmanna um vanefndir af hálfu lántaka, ófullnægjandi tryggingar og viðlíka atriði, sem leitt geta til þess að ábyrgð ábyrgðarmanns verður virk. Stefnda Hauki var með bréfi 5. maí 2009 tilkynnt um löginnheimtu vegna vanskila Krossgatna ehf. á yfirdráttarheimild tékkareiknings nr. 90140. Var skorað á stefnda að greiða vanskil, en að öðrum kosti yrði reikningnum lokað og sjálfskuldaábyrgðin send til innheimtu án frekari viðvörunar. Afrit þessa bréfs var sent stefnda Magnúsi Axel. Dómurinn telur fyrir liggja að stefndu hafi verið kunnugt um erfiðleika í rekstri Krossgatna ehf., en í aðilaskýrslu fyrir dóminum var því lýst yfir af stefndu að áform um innflutning og sölu á mótorhjólum hafi ekki gengið eftir aðallega vegna umskipta í íslensku efnahagslífi og það fljótlega orðið ljóst. Þá liggur fyrir að á árinu 2011 leituðu stefndu til fyrirsvarsmanns stefnanda í þeim tilgangi að leita úrræða varðandi ábyrgð á reikningi nr. 90140. Með hliðsjón af þessu telur dómurinn stefnanda ekki hafa vanrækt skyldur sínar gagnvart stefndu sem ábyrgðarmanna samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni og að gjaldfelling hennar hafi verið lögmæt. Loks er til þess að líta að stefnanda var í sjálfsvald sett að ákveða að leita ekki fullnustu samkvæmt ábyrgðaryfirlýsingunni gagnvart einhverjum ábyrgðaraðilanna.
Með hliðsjón af öllu framansögðu verða dómkröfur stefnanda teknar til greina og stefndu sameiginlega dæmdir til að greiða stefnanda 8.743.595 krónur, ásamt vöxtum svo sem í dómsorði greinir.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Mál þetta flutti af hálfu stefnanda Haukur Hafsteinsson héraðsdómslögmaður, af hálfu stefnda Magnúsar Axels, Bjarki Þór Sveinsson héraðsdómslögmaður og af hálfu stefnda Hauks, Guðni Jósep Einarsson héraðsdómslögmaður.
Dóm þennan kveður upp Símon Sigvaldason héraðsdómari.
D ó m s o r ð:
Stefndu, Magnús Axel Hansen og Hafsteinn Viðar Hilmarsson, greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., óskipt 8.743.595 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 2. mars 2012 til greiðsludags.
Málskostnaður fellur niður.