Hæstiréttur íslands
Mál nr. 670/2016
Lykilorð
- Kærumál
- Haldlagning
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Greta Baldursdóttir, Benedikt Bogason og Karl Axelsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 29. september 2016 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2016 þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sóknaraðila um haldlagningu inneignar á nánar tilgreindum bankareikningi. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess að framangreind haldlagning verði felld úr gildi. Þá krefst hún kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Af hálfu sóknaraðila hefur því verið lýst yfir að fyrirhugað sé að taka ákvörðun um útgáfu ákæru innan mánaðar frá því skýrslutökum og rannsókn málsins lauk 23. september 2016. Að þessu gættu eru ekki næg efni til að fella úr gildi framangreinda haldlagningu þótt rannsókn málsins hafi tekið langan tíma. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur, sbr. 3. mgr. 220. gr. laga nr. 88/2008.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. september 2016.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag, 26. september sl., var af hálfu sóknaraðila borið undir Héraðsdóm Reykjavíkur 31. ágúst sl. með kröfu um úrskurð um að haldi varnaraðila á inneign sóknaraðila á bankareikningi nr. [...] verði aflétt. Þá krefst sóknaraðli málskostnaðar.
Af hálfu varnaraðila er þess krafist að kröfum sóknaraðila verði hafnað og að málskostnaður sem kann að verða úrskurðaður verði felldur á sóknaraðila.
Mál þetta er rekið á grundvelli heimildar í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.
I
Hinn 12. febrúar 2013 tilkynnti skattrannsóknarstjóri A, eiginmanni sóknaraðila, um skattrannsókn, bæði á hans persónulegu skattskilum sem og á félögum í hans eigu. Rannsókn skattrannsóknarstjóra beindist að vanskilum á virðisaukaskattsskýrslum og mögulega efnislega röngum virðisaukaskattsskýrslum í rekstri félaga A. Þá beindist rannsóknin að bókhaldi félaganna sem og persónulegum skattskilum A vegna tekjuáranna 2009 til og með 2012. Þann sama dag var óskað eftir gögnum frá A. Engin gögn fengust afhent og var málinu því vísað til embættis sérstaks saksóknara hinn 22. febrúar 2013. Eftir það fór embættið í umfangsmiklar aðgerðir og haldlagði gögn í kjölfarið. Hinn 6. mars og 7. mars 2013 voru teknar skýrslur af sóknaraðila og eiginmanni hennar og höfðu þau þá réttarstöðu sakbornings.
Með bréfi sérstaks saksóknara, dagsettu 6. mars 2013, til B haldlagði embættið fjármuni á reikningi nr. [...] í eigu sóknaraðila. Ákvörðunin var tekin á grundvelli þess að í refsimáli á hendur sóknaraðila og eiginmanni hennar yrði gerð krafa um að fjármunirnir yrðu gerðir upptækir þar sem grunur væri um að þeirra hefði verið aflað með refsiverðum hætti, sbr. 1. mgr. 69. gr. og 69. gr. b í almennum hegningarlögum nr. 19/1940.
Hinn 4. apríl 2013 var málinu vísað til skattrannsóknarstjóra til frekari rannsóknar. Yfirferð gagna leiddi í ljós að ekki var haldið utan um tekjur og/eða rekstur félaganna á kerfisbundinn hátt þannig að unnt væri að byggja á við rannsókn. Því þurfti að sannreyna sölu með öðrum aðferðum.
Hinn 24. febrúar 2014 barst Héraðsdómi Reykjavíkur krafa sóknaraðila um að úrskurðað yrði að felld yrði úr gildi ákvörðun sérstaks saksóknara um haldlagningu inneignar á bankareikningi sóknaraðila nr. [...]. Héraðsdómur hafnaði kröfunni og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands í málinu nr. 188/2014, uppkveðnum 19. mars 2014.
Skattrannsóknarstjóri lauk rannsókn sinni með skýrslu dagsettri 5. maí 2015. Tilkynnti hann um ákvörðunartöku um refsimeðferð með bréfum dagsettum 12. maí 2015, þar sem gefinn var kostur á að tjá sig um ákvörðunartökuna og var veittur frestur til þess í 30 daga. Að beiðni A var fresturinn framlengdur til 29. júní 2015 en engin svör bárust embættinu. Skattrannsóknarstjóri vísaði málinu til opinberrar rannsóknar með bréfi dagsettu 2. nóvember 2015. Málið hefur verið í rannsókn hjá héraðssaksóknara síðan.
II
Í kröfu sóknaraðila kemur fram að hinn 6. mars 2013 hafi verið lagt hald á innistæðu að fjárhæð [...] kr. á bankareikningi sóknaraðila í B, nr. [...]. Varnaraðili hafi verið yfirheyrður vegna málsins 7. mars 2013. Varnaraðili tekur fram að nú séu liðin tæp fjögur ár síðan skýrsla var tekin af henni og ekki sé að sjá að málið hafi fengið neinn framgang hjá sóknaraðila og því verði að telja að málinu sé í raun lokið, samanber 72. gr. sakamálalaga. Ef ekki er fallist á að málinu sé lokið er engu að síður byggt á því að aflétta beri haldinu vegna þess langa tíma sem liðinn sé síðan rannsókn málsins hófst án þess að nokkur framgangur hafi verið í rannsókninni.
III
Varnaraðili tekur fram að rannsókn málsins sé bæði flókin og tímafrek og varði fjölda lögaðila og verulega fjárhagslega hagsmuni. Samkvæmt fyrirmælum ríkissaksóknara nr. 5/2009 um hámarkstíma fyrir meðferð líkamsárásarmála, nauðgunarmála og efnahagsbrota hjá lögreglu og ákærendum, sé almennt viðurkennt að efnahagsbrot geti verið umfangsmikil og flókin og því kunni þau að geta tekið mun lengri tíma en önnur mál. Þá kemur þar fram að rannsókn skuli lokið innan 2 ára nema sérstakar ástæður komi í veg fyrir það, sem er að mál teljist mjög umfangsmikið eða þegar afla þarf gagna erlendis frá. Varnaraðili telur ljóst, að um sé að ræða umfangsmikið mál sem tengist mörgum félögum og persónulegum skattskilum aðila. Við upphaf rannsóknar hafi reynst nauðsynlegt að fara í húsleit til að afla nauðsynlegra gagna. Frá upphafi rannsóknar hjá skattrannsóknarstjóra séu liðin rúm þrjú og hálft ár. Rannsókn málsins hefur verið í gangi í rúma 10 mánuði hjá héraðssaksóknara og er áætlað að henni ljúki innan skamms.
Þá bendir varnaraðili á, að hafa verði eðli haldlagningar sem þvingunarráðstöfunar í huga, en í fræðiskrifum sé hún almennt álitin sú þvingunarráðstöfun sem gangi skemmst í skerðingarátt. Þegar metið sé hvort réttmætt sé að fella niður haldlagningu með dómsúrskurði á grundvelli tímalengdar rannsóknar einnar saman, sem að mati varnaraðila getur ekki talist hafa dregist úr hófi, verði að taka tillit til þess. Í íslenskri dómaframkvæmd hafi verið tekið tillit til tímalengdar rannsóknar ef dráttur á rannsókn hefur talist óhæfilegur við ákvörðun refsingar, þ.e. ef gefin hefur verið út ákæra og sakfellt samkvæmt henni. Að öðrum kosti hafi sakborningur í máli þar sem rannsókn hafi verið hætt eða fallið verið frá saksókn átt kost á því að höfða bótamál gegn ríkissjóði ef hann telur að hann hafi orðið fyrir tjóni eða óhagræði vegna rannsóknar lögreglu.
Varnaraðili bendir á að samkvæmt 72. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála skuli aflétta haldi þegar þess sé ekki lengur þörf og í síðasta lagi þegar máli er endanlega lokið. Í máli því sem hér um ræðir sé hvorugt þessara skilyrða uppfyllt. Varnaraðili telur að ríkar refsivörsluástæður hafi verið og séu fyrir hendi til að viðhalda haldlagningu í málinu.
IV
Sóknaraðili byggir á því, að liðin séu tæp fjögur ár síðan skýrsla var tekin af henni og ekki sé að sjá að málið hafi fengið neinn framgang hjá sóknaraðila. Því verði að telja að málinu sé í raun lokið, samanber 72. gr. laga nr. 88/2008. Ef ekki verður fallist á málinu sé lokið, þá beri að aflétta haldinu vegna þess langa tíma sem liðinn sé síðan rannsókn málsins hófst án þess að nokkur framgangur hafi verið í rannsókninni.
Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 188/2014 var kröfu sóknaraðila þessa máls, um að felld yrði úr gildi ákvörðun sérstaks saksóknara um haldlagningu á inneign á bankareikningi nr. [...], hafnað. Dómurinn var kveðinn upp 19. mars 2014.
Mál þetta hófst í febrúar 2013, svo sem rakið er hér að framan. Hinn 2. nóvember 2015 vísaði skattrannsóknarstjóri málinu til opinberrar rannsóknar. Héraðssaksóknari er nú með málið í rannsókn og hefur haft það síðustu rúma tíu mánuði. Málið er umfangsmikið en rannsóknin tekur til þriggja félaga sem tengjast eiginmanni sóknaraðila og persónulegum skattskilum þeirra hjóna. Þá tekur rannsóknin til fjögurra ára og varðar verulegar fjárhæðir sem ekki hefur verið gerð grein fyrir í skattskilum. Einnig er gagnamagn málsins mikið. Héraðssaksóknari kveðst sjá fyrir endann á rannsókninni og ætlunin sé að taka ákvörðun um útgáfu ákæru innan skamms.
Með vísan til umfangs málsins er ekki fallist á það með sóknaraðila, að framgangur hafi ekki verið í rannsókn málsins, en hún er á loka metrunum. Hins vegar hefur rannsóknin tekið langan tíma. Þær tafir sem orðið hafa á rannsókninni eru aðfinnsluverðar með hliðsjón af 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar og 2. og 3. mgr. 53. gr. laga nr. 88/2008. Þar sem sér fyrir enda málsins hjá varnaraðila á næstu dögum/vikum, eru ekki næg efni til að verða við kröfum sóknaraðila. Verður því ekki fallist á það með sóknaraðila að varnaraðila sé skylt að aflétta haldi, sbr. 72. gr. laga nr. 88/2008.
Samkvæmt framansögðu er hafnað kröfu sóknaraðila um að haldi varnaraðila á inneign sóknaraðila á bankareikningi nr. 111-05-60455 verði aflétt.
Ekki eru efni til að kveða á um málskostnað.
Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð
Hafnað er kröfu sóknaraðila, X, um að aflétta haldi á inneign á bankareikningi í B nr. [...].