Hæstiréttur íslands

Mál nr. 348/2005


Lykilorð

  • Verksamningur
  • Riftun
  • Vanefnd
  • Skaðabætur
  • Miskabætur


Fimmtudaginn 9

 

Fimmtudaginn 9. febrúar 2006.

Nr. 348/2005.

Kristjánssynir ehf. og

Elías Rúnar Kristjánsson

(Sigurður Jónsson hrl.)

gegn

Kaupási hf.

(Jakob R. Möller hrl.)

 

Verksamningur. Riftun. Vanefnd. Skaðabætur. Miskabætur.

K taldi KS hafa brotið gegn samningsskyldum sínum með þeim hætti að réttlætt hafi fyrirvaralausa riftun hans á tveimur verksamningum um þrif og fleira, og kæru á hendur E til lögreglu. KS og E kröfðust bóta vegna riftunarinnar. K var ekki talinn hafa fært sönnur á að E hafi tekið peningaseðla upp af gólfi verslunar K við afgreiðslukassa, svo sem K hafði haldið fram og byggði á heimild sína til fyrirvaralausrar riftunar samninganna. Var krafa KS um skaðabætur því tekin til greina. E reisti kröfu sína um miskabætur eingöngu á því að K hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu sinni og æru í skilningi b. liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga með því að kæra sig til lögreglunnar fyrir þjófnað. Miðað við gögn málsins var talið að K hafi verið rétt að óska eftir lögreglurannsókn á hvarfi peningaseðlanna, sem hann sagði hafa vantað í uppgjör úr afgreiðslukassa í verslun sinni. Gat þetta ekki orðið grundvöllur fyrir miskabótakröfu E samkvæmt Tilvitnuðu ákvæði og var K sýknaður af henni.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson prófessor.

Áfrýjandinn Kristjánssynir ehf. skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar með stefnu 5. ágúst 2005 til þingfestingar fyrir 21. september 2005. Málið varð ekki þingfest þá og skaut þessi áfrýjandi því á ný til réttarins 26. september 2005 samkvæmt heimild í 4. mgr. 153. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 7. gr. laga nr. 38/1994. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 996.923 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2002 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Áfrýjandinn Elías Rúnar Kristjánsson áfrýjaði málinu til Hæstaréttar 5. september 2005 að fengnu áfrýjunarleyfi. Hann krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða sér miskabætur að fjárhæð 200.000 krónur, með sömu dráttarvöxtum og greinir í kröfu áfrýjandans Kristjánssona ehf. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í héraði krafðist áfrýjandinn Kristjánssynir ehf. skaðabóta úr hendi stefnda sem námu þriggja mánaða endurgjaldi fyrir starf hans í þágu stefnda við þrif og fleira að viðbættum virðisaukaskatti. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lækkaði þessi áfrýjandi kröfu sína sem skattinum nam og varð fjárhæð kröfunnar þá sú sem að framan greinir.

Í greinargerð til Hæstaréttar tekur stefndi fram að ágreiningsefni málsins sé, hvort hann hafi haft nægilega ástæðu til að rifta verksamningunum um þrif og fleira sem málið greinir og kæra áfrýjandann Elías Rúnar Kristjánsson til lögreglu, þannig að áfrýjendur eigi ekki rétt til bóta úr hans hendi. Við munnlegan flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti stefndi yfir því að ekki væri gerður ágreiningur um tölulegar forsendur í kröfu áfrýjandans Kristjánssona ehf.

Stefndi ber sönnunarbyrði fyrir, að áfrýjandinn Kristjánssynir ehf. hafi brotið gegn samningsskyldum sínum með þeim hætti að réttlætt hafi fyrirvaralausa riftun verksamninganna tveggja. Dómendur í Hæstarétti hafa skoðað myndskeið úr öryggismyndavél sem liggur fyrir í málinu og lýst er í héraðsdómi. Myndskeiðið sannar ekki að áfrýjandinn Elías Rúnar Kristjánsson hafi tekið peningaseðla upp af gólfi verslunar stefnda við afgreiðslukassa svo sem stefndi heldur fram og byggir á heimild sína til fyrirvaralausrar riftunar á samningunum tveimur. Verður krafa áfrýjandans Kristjánssona ehf. því tekin til greina.

Áfrýjandinn Elías Rúnar Kristjánsson reisir kröfu sína um miskabætur eingöngu á því að stefndi hafi gerst sekur um ólögmæta meingerð gegn persónu sinni og æru í skilningi b-liðar 1. mgr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. 13. gr. laga nr. 37/1999, með því að kæra sig til lögreglunnar í Vestmannaeyjum fyrir þjófnað. Miðað við gögn málsins verður talið, að stefnda hafi verið rétt að óska eftir lögreglurannsókn á hvarfi peningaseðlanna sem hann segir hafa vantað í uppgjör úr afgreiðslukassa í verslun sinni að kvöldi 17. apríl 2002. Getur þetta ekki orðið grundvöllur fyrir miskabótakröfu þessa áfrýjanda samkvæmt fyrrgreindu lagaákvæði og verður stefndi sýknaður af henni.

Krafa áfrýjanda Kristjánssona ehf. um dráttarvexti, þar á meðal um upphafstíma þeirra, hefur ekki sætt sérstökum andmælum stefnda og verður hún tekin til greina.

Stefndi verður dæmdur til að greiða áfrýjanda Kristjánssonum ehf. málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti sem ákveðinn verður í einu lagi svo sem í dómsorði greinir.

Málskostnaður milli áfrýjandans Elíasar Rúnars Kristjánssonar og stefnda fellur niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Stefndi, Kaupás hf., greiði áfrýjanda Kristjánssonum ehf. 996.923 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. maí 2002 til greiðsludags.

Stefndi er sýkn af kröfu áfrýjanda Elíasar Rúnars Kristjánssonar.

Stefndi greiði áfrýjanda Kristjánssonum ehf. samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti. Málskostnaður fellur að öðru leyti niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 9. maí 2005.

Mál þetta, sem dómtekið var 12. apríl s.l., er höfðað með stefnu birtri 2. nóvember s.l.

Stefnendur eru Elías Rúnar Kristjánsson, kt. 231173-5529, Áshamri 56, Vestmannaeyjum, persónulega og fyrir hönd Kristjánssona ehf., kt. 540102-2950, sama stað.

Stefndi er Kaupás hf., kt. 711298-2239, Nóatúni 17, Reykjavík.

Dómkröfur stefnenda eru þær að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnendum hvorum fyrir sig skaðabætur og miskabætur vegna ólögmætrar uppsagnar stefnda á störfum stefnandans Kristjánssona ehf. við þrif á verslunarhúsnæði stefnda í tveimur verslunum stefnda í Vestmannaeyjum og vegna ólögmætrar kæru stefnda á hendur stefnandanum Elíasi Rúnari fyrir þjófnað, þannig:

Af hálfu Kristjánssona ehf. er gerð sú krafa að stefndi verði dæmdur til að greiða félaginu skaðabætur að fjárhæð kr. 1.241.190, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. maí 2002 til greiðsludags.  

Af hálfu Elíasar Rúnars er gerð sú krafa að stefndi verði dæmdur til að greiða honum miskabætur að fjárhæð kr. 200.000, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 1. maí 2002 til greiðsludags.  Báðir stefnendur krefjast þess með vísan til 12. gr. sömu laga að vextir leggist við höfuðstól á 12 mánaða fresti.  Þá krefjast stefnendur málskostnaðar samkvæmt reikningi.

Dómkröfur stefnda eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnenda í málinu og þeir verði dæmdir til að greiða honum málskostnað samkvæmt reikningi.

Málavextir.

Málavextir eru þeir að stefndi er verslunarfyrirtæki sem rekur matvöruverslanir að Strandvegi 48 og Goðahrauni 11 í Vestmannaeyjum.  Stefnandinn Kristjánssynir ehf., sem áður hét Kristjánssynir sf., mun á árunum 1995 til 2002 hafa séð um þrif og ræstingar í verslunarhúsnæði stefnda, þar á meðal verslun Krónunnar að Strandvegi 48.  Mun stefnandi og fyrirrennari hans, Kristjánssynir sf., hafa séð um bónun og slípun gólfa í verslun stefnda í Goðahrauni frá 1995 til 2001, en með samningi dagsettum 19. mars 2001 hafi verið samnið bæði um bónun og þrif.  Hafi sá samningur verið með ákveðnu föstu verði, kr. 138.000 á mánuði án virðisaukaskatts og með 3ja mánaða uppsagnarfresti.  Sams konar samningur mun hafa gilt milli aðila um bónun, slípun og þrif verslunarinnar að Strandvegi 48 og er ekki ágreiningur um það milli aðila.

Stefndi skýrir svo frá í greinargerð sinni að 17. apríl 2002 hafi Hafdís Ástþórsdóttir verið við störf í verslun stefnda að Strandvegi.  Hafi hún gert upp sjóðsvél í lok vinnudags og komið uppgjöri til verslunarstjórans, Ástþórs Jónssonar, venju samkvæmt.  Við yfirferð á uppgjörinu daginn eftir hafi komið í ljós að vantað hafi 15.000 krónur.  Ástþór hafi rætt við Hafdísi um þetta og hafi þá rifjast upp fyrir henni að hún hafi misst fimm þúsund krónur í gólfið en tekið þær upp aftur.  Ástþór mun þá hafa horft á upptöku úr öryggismyndavél og þá séð hvernig Hafdís rak sig í peningabúnt með fjórum fimmþúsundkrónaseðlum sem féllu á gólfið.  Hafdís hafi hins vegar beygt sig niður og tekið einn seðil upp af gólfinu.  Stefndi segir að u.þ.b. 7 mínútum síðar hafi stefnandi Elías Rúnar sést við störf við sama afgreiðsluborð.  Sýni upptakan hann koma að afgreiðsluborðinu, beygja sig niður með höndina undir afgreiðslustólinn, rétta úr sér með hægri hnefa krepptan og setja eitthvað í hægri vasa.  Eftir þetta snúi hann baki í eftirlitsmyndavélina og sinni hefðbundnum störfum við afgreiðsluborðið.  Skömmu síðar hverfi hann af skjánum um leið og hann líti í átt að öryggismyndavélinni. 

Ástþór boðaði stefnandann Elías Rúnar á sinn fund 20. apríl 2002 og sýndi honum umrædda upptöku og tjáði honum þá skoðun sína að stefnandinn Elías Rúnar hefði gerst sekur um þjófnað.  Var honum boðið að segja upp störfum án þess að þjófnaðurinn yrði kærður til lögreglu, en Elías Rúnar hafnaði því og lýsti sig saklausan.  Í framhaldi af því rifti Ástþór verksamningi aðila og kærði stefnanda Elías Rúnar til lögreglu.  Ákæra á hendur honum var gefin út 27. október 2003 fyrir þjófnað, en með dómi Héraðsdóms Suðurlands upp kveðnum 5. mars 2004 var stefnandi Elías Rúnar sýknaður af kröfum ákæruvaldsins.  Í niðurstöðu dómsins kemur fram að umrædd upptaka sé mjög óskýr.  Sjáist þar ekki greinilega hvort einhverjir peningaseðlar lágu undir afgreiðsluborðinu þegar stefnandi kom þar að eða hafi svo verið hve margir þeir voru og um hvers konar peningaseðla hafi verið að ræða.  Sýni upptakan því ekki með óyggjandi hætti að ákærði hafi stolið peningum eins og honum var gefið að sök og sé ekki loku fyrir það skotið að ákærði hafi tekið rusl af gólfinu eins og hann haldi fram.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandinn Kristjánssynir ehf. byggja skaðabótakröfu sína á því að fyrirtækið eigi rétt á greiðslum í 3 mánuði frá og með 1. maí 2002 vegna þess að stefndi hafi með ólögmætum hætti rofið samning þeirra.  Er krafan sundurliðuð þannig að gerð er krafa um þrif verslunar að Strandvegi vegna maí, júní og júlí 2002, samtals 725.760 krónur. Vegna þrifa verslunar að Goðahrauni  mánuðina maí, júní og júlí 2002 nemur krafan samtals 515.430 krónum.  Ekki er tölulegur ágreiningur milli aðila og er á því byggt að í gildi hafi verið ákvæði um þriggja mánaða uppsagnarfrest.  Stefnandi segist hafa verið með fólk í vinnu vegna þrifanna og ekki getað sagt því upp fyrirvaralaust eða fundið ný verkefni án fyrirvara.  Hafi stefnandi verið búinn að fjárfesta sérstaklega í tækjum vegna ræstinganna og hafi stefndi verið langstærsti viðskiptavinur stefnanda og hafi ólögmæt uppsögn stefnanda í för með sér verulegt fjártjón, umfram það sem krafa sé gerð um.  Eigi stefnandi því skilyrðislaust rétt á greiðslum í 3 mánuði frá uppsögn að telja.

Miskabótakrafa stefnandans Elíasar er á því byggð að hann hafi orðið fyrir miklu áfalli vegna hinnar óréttmætu kæru sem stefndi hafi lagt fram á hendur honum.  Þá hafi hann orðið fyrir þeirri niðurlægingu að sögur hafi verið bornar út um bæinn um að hann hafi verið rekinn vegna þjófnaðar.  Af þessum sökum hafi hann orðið fyrir aðkasti og óþægindum en á starfssvæði hans í Vestmannaeyjum þekki allir alla og hafi þetta orðið honum mjög til álitshnekkis auk þess að skaða viðskipta- og atvinnumöguleika hans.

Að því er skaðabótakröfu stefnandans Kristjánssona ehf. varðar er vísað til almennu skaðabótareglunnar.  Þá er vísað til reglna samninga- og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og reglur um ólögmæta uppsögn.  Miskabótakrafa stefnandans Elíasar er byggð á 26. gr. skaðabótalaga.  Dráttarvaxtakröfur eru byggðar á III. kafla vaxtalaga.  Krafa um málskostnað er reist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Málsástæður og lagarök stefnda.

Stefndi segir ágreining aðila lúta að svigrúmi verkkaupa til þess að rifta verksamningi vegna verulegrar vanefndar verksala.   Þurfi að meta í hverju tilfelli fyrir sig hvort vanefnd aðila sé svo veruleg að það réttlæti fyrirvaralausa riftun án greiðslu skaðabóta.  Er á því byggt að um mat á riftunarheimild verkkaupa sé rétt að gera ríkar kröfur um að sá sem riftir sé í góðri trú og að vanefnd gagnaðila sé veruleg.  Við slíkt mat verði hins vegar ekki gerðar sömu kröfur og gerðar séu í opinberum refsimálum um sönnun á sekt ákærðs manns.  Hagsmunir ákærðs manns, sem standi frammi fyrir refsingu í opinberu máli kalli á aðgætni og öll rök hnígi til þess að sekt hins ákærða verði að sanna að því marki að hún verði ekki vefengd með skynsamlegum rökum, sbr. lög um meðferð opinberra mála.  Sé þessi skipan einn hornsteinn réttarkerfisins og um hana ríki ekki ágreiningur, þótt hún kunni að leiða til þess að sekir menn séu sýknaðir.  Í ljósi þessa sé því ekki rétt að telja að sýkna í opinbera refsimálinu leiði sjálfkrafa til þess að skilyrðið um verulega vanefnd hafi ekki verið uppfyllt í aðdraganda málsins.  Þvert á móti beri að meta sjálfstætt hvort stefnda hafi verið rétt að segja upp samningi aðila með hliðsjón af aðstæðum öllum.  Megi finna fjölda dóma þar sem ólíku sakarmati sé beitt um sama tilvik eftir því hvort um opinbert refsimál eða einkamál sé að ræða. 

Stefndi byggir á því að í málinu liggi fyrir myndband úr öryggismyndavél þar sem glöggt megi sjá að mati starfsmanna stefnda að forsvarsmaður stefnanda sæki sér fé af gólfi verslunarinnar.  Hafi þetta einnig verið niðurstaða lögreglurannsóknar sem fram hafi farið í kjölfar atburðanna og einnig niðurstaða handhafa ákæruvaldsins.  Hafi rannsókn lögreglu m.a. falist í samanburði á verkferli forsvarsmanns stefnanda umræddan dag og aðra daga.  Leiði samanburður í ljós að verkferli hans við afgreiðslukassann hafi breyst í þetta eina skipti.  Þá hafi samanburður á uppgjörum verslunarinnar leitt í ljós að frávik í uppgjöri sjóðsvélar hafi verið óvenju mikið þennan dag.  Byggir stefndi á því að hann hafi verið í fullum rétti að rifta umræddum verksamningi við stefnanda á grundvelli verulegra vanefnda.  Eigi skaðabótakrafa stefnenda því ekki rétt á sér.  Stefndi vekur athygli á því að í stefnu sé engin grein gerð fyrir því hvort stefnendur hafi freistað þess að lágmarka tjón sitt og sé krafan að því leyti alvarlega vanreifuð.  Þótt ekki sé gerð krafa um frávísun af þeim sökum leiði skortur á sönnun á umfangi tjóns til sýknu.

Stefndi byggir á því að ekkert í háttsemi hans réttlæti miskabótakröfu.  Hafi háttsemi forsvarsmanns stefnenda gefið tilefni til þeirrar kæru til lögreglu sem síðar hafi orðið að opinberu refsimáli.  Mat lögreglu og handhafa ákæruvalds hafi verið að forsvarsmaður stefnenda væri sannanlega sekur um þjófnað.  Hafi riftun verksamnings aðila og kæra til lögreglu því ekki verið dæmi um gáleysislega framkomu af hálfu starfsmanna stefnda, hvað þá stórfellt gáleysi.

Stefndi reisir kröfu um málskostnað á 1. og 3. mgr. 129. gr. og 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

Niðurstaða.

Ágreiningur aðila máls þessa lýtur að því hvort stefnda hafi verið rétt að rifta verksamningi aðila vegna verulegrar vanefndar forsvarsmanna stefnenda.  Þá er um það ágreiningur hvort stefnandi Elías Rúnar eigi rétt á miskabótum vegna kæru sem stefndi lagði fram á hendur honum.

Eins og rakið hefur verið var stefnandi Elías Rúnar ákærður fyrir þjófnað í kjölfar rannsóknar sem fram fór á myndbandsupptöku úr öryggismyndavél í verslun stefnda.  Hann var hins vegar sýknaður af ákæru með rökum sem gerð hefur verið grein fyrir hér að framan.  Ljóst er að dómurinn er ekki bundinn af sönnunarmatinu í refsimálinu, enda gildir í einkamálum hið svokallaða frjálsa sönnunarmat dómara, en í sakamálum hvílir sönnunarbyrðin á ákæruvaldinu og metur dómari hverju sinni hvort nægileg sönnun, sem ekki verði vefengd með skynsamlegum rökum, sé fram komin um hvert það atriði sem varðar sekt og ákvörðun viðurlaga.

Umrætt myndband var sýnt í dóminum og sést þar ekki greinilega hvort einhverjir peningaseðlar lágu undir afgreiðsluborðinu þegar stefnandi kom þar að, en upptakan var mjög óskýr.  Af myndbandinu má þó ráða að peningaseðlar féllu á gólfið þegar Hafdís vann að talningu úr sjóðsvél og þá má sjá hana beygja sig niður og taka eitthvað upp af gólfinu.  Skömmu síðar sést þegar stefnandi kemur að afgreiðsluborðinu, beygir sig niður, virðist fara með höndina undir stólinn, reisa sig upp að því er virðist með krepptan hnefa og þá verður ekki betur séð en að hann setji eitthvað í hægri vasa sinn.  Þá vekur það athygli að stefnandi lítur í átt að öryggismyndavélinni um það leyti er hann lýkur störfum við afgreiðsluborðið.  Þá hefur þeirri fullyrðingu stefnda um að 15.000 krónur hafi vantað í uppgjörið ekki verið mótmælt.  Þegar framanritað er virt verður að telja að stefndi hafi haft fyllstu ástæðu til að gruna stefnanda Elías Rúnar um græsku og var stefnda því rétt að leggja fram kæru á hendur honum hjá lögreglu.  Ber af þessum sökum að hafna miskabótakröfu hans.  Dómurinn telur að ekki verði annað ráðið af myndbandinu en að stefnandi setji eitthvað í hægri vasa sinn eftir að hafa beygt sig undir afgreiðsluborðið, en fyrir dómi kannaðist stefnandi ekki við að hafa sett neitt í vasann.  Er þetta hátterni stefnanda sérstaklega grunsamlegt í ljósi þess að hann stóð þá rétt hjá ruslafötunni og því vandséð hvað hann gæti verið að setja í vasa sinn.  Þá vekur einnig grunsemdir að stefnandi leit í átt að öryggismyndavélinni og jafnframt að verklag hans við önnur afgreiðsluborð var með öðrum hætti.  Að mati dómsins gaf háttsemi stefnanda sem hér hefur verið lýst stefnda fullt tilefni til að ætla að stefnandi hefði rofið trúnað gagnvart honum.  Var stefnda því heimilt að rifta verksamningi aðila.   Verður stefndi því sýknaður af öllum kröfum stefnenda í máli þessu.

Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Hjörtur O. Aðalsteinsson, héraðsdómari kvað upp dóminn.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Kaupás hf., skal vera sýkn af öllum kröfum stefnenda, Kristjánssona ehf. og Elíasar Rúnars Kristjánssonar, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.