Hæstiréttur íslands

Mál nr. 122/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Kröfulýsing
  • Laun


Þriðjudaginn 5. apríl 2011

Nr. 122/2011.

Guðmundur Pétur Davíðsson

(Sveinn Sveinsson hrl.)

gegn

Landsbanka Íslands hf.

(Herdís Hallmarsdóttir hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kröfulýsing. Laun.

G kærði úrskurð héraðsdóms þar sem hafnað var aðalkröfu hans um viðurkenningu á kröfu hans sem forgangskröfu, samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sem hann lýsti við slit L hf. og varakröfu hans um viðurkenningu kröfu hans sem almennrar kröfu samkvæmt 113. gr. sömu laga. G hóf störf á L hf. haustið 2003 og lauk störfum hans 1. apríl 2007 með samkomulagi um starfslok 30. mars 2007. Kröfu sína byggði G á kaupréttarsamningum við L hf. frá 11. febrúar 2004 og 1. apríl 2005 sem hann kvað að hefðu verið hluti af ráðningarsamningi sínum og að greiðslur til sín samkvæmt kaupréttarsamningunum væru launagreiðslur. Hann hefði unnið vinnu sem endurgjald fyrir þau laun sem hann hefði samið um í þeim og verið í fullu starfi allan þann tíma sem samningarnir tóku til. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, var talið að G hefði eignast rétt til þess að kaupa ákveðinn fjölda hlutabréfa á ákveðnu gengi, gegn ákveðnu endurgjaldi og á ákveðnu tímamarki. L hf. hefði því einungis verið skuldbundinn til þess að afhenda G hlutabréf gegn greiðslu. Hvorki hefði verið kveðið á um það í kaupréttarsamningunum né starfslokasamningi aðila að G ætti fjárkröfu á hendur L hf. vegna ákvæðis í fyrrnefndu samningunum. Var því ekki talið í ljós leitt að G hefði á grundvelli kaupréttarsamninganna eignast fjárkröfu á hendur L hf. og yrði því þegar af þeirri ástæðu að hafna kröfum hans.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Viðar Már Matthíasson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru móttekinni 18. febrúar 2011, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2011, þar sem kröfum sóknaraðila sem hann lýsti við slit varnaraðila, var hafnað. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og aðallega að krafa hans að fjárhæð 197.750.000 krónur verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 við slit varnaraðila en til vara að krafan verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur. Varnaraðili greiði kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Guðmundur Pétur Davíðsson, greiði varnaraðila, Landsbanka Íslands hf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. febrúar 2011.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 12. janúar sl., var þingfest 22. júní 2010.

Sóknaraðili er Guðmundur P. Davíðsson, Reykjavík.

Varnaraðili er Landsbanki Íslands hf., Reykjavík.

Sóknaraðili krefst þess að krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila að fjárhæð 198.050.000 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt 3. kafla vaxtalaga nr. 38/2001 frá 31. mars 2008 til 22. apríl 2009, verði samþykkt sem forgangskrafa samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Til vara krefst sóknaraðili þess að krafa hans verði samþykkt sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila samkvæmt mati dómsins auk virðisaukaskatts.

Varnaraðili krefst þess að öllum kröfum sóknaraðila verði hafnað.

Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að skaðlausu samkvæmt mati dómsins.

Málsatvik

Sóknaraðili hóf störf hjá varnaraðila haustið 2003 og lauk störfum 1. apríl 2007 með samkomulagi um starfslok 30. mars 2007.

Fjármálaeftirlitið tók yfir starfsemi varnaraðila 7. október 2008 samkvæmt heimild í 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Fjármálaeftirlitið skipaði þá skilanefnd til að taka við stjórn varnaraðila. Nýi Landsbanki Íslands hf. (nú NBI hf.) var stofnaður og voru innlendar eignir varnaraðila og helstu eignir hans sem tengdust innlendri starfsemi hans fluttar yfir til nýja bankans með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 9. október 2008.

Sóknaraðili lýsti kröfu í bú varnaraðila sem móttekin var 20. október 2009 af slitastjórn varnaraðila. Sóknaraðili lýsti kröfunni sem forgangskröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Kröfuhafafundur var haldinn 24. febrúar 2010 um skrá yfir lýstar kröfur og afstöðu slitastjórnar varnaraðila til viðurkenningar þeirra. Krafa sóknaraðila er nr. 1307 á kröfuskránni. Slitastjórn hafnaði kröfu sóknaraðila með öllu. Af hálfu sóknaraðila var afstöðu slitastjórnar mótmælt á kröfuhafafundum. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila, dagsettu 21. apríl 2010 og mótteknu 12. maí s.á., var ágreiningi málsaðila um kröfuna beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.

Krafa sóknaraðila byggir á kaupréttarsamningum milli sóknaraðila og varnaraðila, dagsettum 11. febrúar 2004 og 1. apríl 2005.

Í kaupréttarsamningi frá 11. febrúar segir m.a. eftirfarandi:

Kaupréttarsamningur þessi, hér eftir nefndur ,,samningurinn“ er gerður þann 11. febrúar 2004 á milli Landsbanka Íslands hf. kt. 540291-2259, Austurstræti 5, Reykjavík, hér eftir nefnt ,,félagið“ og Guðmundar P. Davíðssonar, kt. 311058-7549, hér eftir nefndur ,,starfsmaður“ og er hluti af ráðningarsamningi við starfsmanninn.

Í 1. gr. kaupréttarsamnings frá 11. febrúar 2004, þar sem kveðið er almennt á um kauprétt starfsmanns segir m.a: Félagið skuldbindur sig til þess að afhenda starfsmanni kauprétt til þess að kaupa þau hlutabréf sem honum standa til boða og koma fram í 2. gr. samningsins á því verði er fram koma í 2. gr. samningsins. Kauprétturinn telst ekki hafa verið afhentur né verður nýtanlegur hafi starfsmaður ekki undirritað þennan kaupréttarsamning og afhent félaginu afrit af honum. Eftir slíka undirritun og afhendingu verður starfsmanni heimilt að nýta kauprétt sinn á kaupréttartímabili því sem fram kemur í 2. gr. samningsins.

Í 3. mgr. 2. gr. samningsins, þar sem kveðið er á um kauprétt, tímamörk og nýtingu kaupréttar, segir m.a: Starfsmaður nýtir sér kauprétt sinn með því að tilkynna félaginu um hve mikinn kauprétt hann vill nýta. Á þeim degi er starfsmaður hefur heimild til nýtingar kaupréttar hefur hann 90 daga til þess að tilkynna félaginu á sannanlegan hátt um nýtingu þess kaupréttar sem hann hefur áunnið sér og hann má nýta. Með tilkynningu um nýtingu kaupréttar skal fylgja full greiðsla fyrir þau hlutabréf sem starfsmaður vill kaupa. Starfsmanni er heimilt að greiða innlausnarverðið með peningum, með veðskuldabréfi til 3ja ára. Tilkynni starfsmaður ekki um nýtingu kaupréttar innan 90 daga frestsins telst heimild til nýtingar á kauprétti fallin niður og áunninn kaupréttur sem nemur sömu fjárhæð telst einnig fallinn niður…

Þá segir í 2. mgr. 3. gr. samningsins: Ef starfsmaður lætur af störfum samkvæmt eigin ósk þar um, en þó ekki af ástæðum er greinir í 4. gr. samnings þessa, skal hann eiga rétt á að nýta sér áunninn kauprétt sinn innan 90 daga frá því að uppsögn hans tók gildi að frádregnum áunnum kauprétti síðustu tveggja ára. Heimil nýting kaupréttar í slíku tilviki skal þó aldrei nema meiru en 60% af heildarkauprétti starfsmanns samkvæmt samningi þessum.

Ákvæði kaupréttarsamnings frá 1. apríl 2005 varðandi kauprétt, nýtingu kaupréttar, tímamörk og ákvæði um starfslok starfsmanns, eru samhljóða ákvæðum kaupréttarsamningsins frá 11. febrúar 2004.

Sóknaraðili kveður að á starfstímabili hans hjá varnaraðila hafi aðilar málsins gert þrjá kaupréttarsamninga sem hluta af launum sóknaraðila, síðast í marsmánuði 2007. Við starfslok sóknaraðila hafi verið samið um að hann ætti rétt á að fá kaupréttarsamninga að fullu uppgerða eftir að síðustu laun hafi verið greidd, þ.e. eftir 1. mars 2008.

Fljótlega eftir starfslok sóknaraðila í mars 2007 en fyrir lokauppgjör sóknaraðila í mars 2008 hafi félag sóknaraðila, Brimholt ehf., fengið að láni hjá varnaraðila samtals 252 milljónir króna og hafi réttur sóknaraðila samkvæmt ógreiddum kaupréttarsamningum verið settur að veði í formi sjálfsskuldarábyrgðar.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili byggir kröfu sína á því að hann hafi gert tvo kaupréttarsamninga við varnaraðila og komi fram í báðum samningunum að um sé að ræða hluta af ráðningarsamningi sóknaraðila.

Samkvæmt kaupréttarsamningi, dagsettum 11. febrúar 2004, sé gerð krafa að fjárhæð 117,5 milljónir króna og samkvæmt kaupréttarsamningi, dagsettum 1. apríl 2005, sé gerð krafa að fjárhæð 80,55 milljónir króna. Samningar þessir skyldu vera innleystir 1. desember 2008 á 60% hlut þeirra, en það sem eftir stæði skyldi koma til greiðslu 1. desember 2009 og 1. desember 2010, 20% í hvort sinn.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi gert starfslokasamning við varnaraðila og samkvæmt því eigi sóknaraðili rétt á 100% greiðslu þegar vinnusambandi hans við varnaraðila hafi lokið í mars 2008, samkvæmt 3. gr. kaupréttarsamninga hans við varnaraðila.

Sóknaraðili kveðst hafa gert þriðja kaupréttarsamninginn við varnaraðila 23. mars 2007. Það hafi gerst eftir að sóknaraðili hafi tilkynnt um starfslok sín.

Sóknaraðili byggir á því að hann hafi samið við varnaraðila fyrir lok vinnusambandsins um að sóknaraðili setti til tryggingar sjálfskuldarábyrgð sinni þau verðmæti sem hann fengi með umræddum kaupréttarsamningum.

Sóknaraðili kveðst hafa gengist í persónulega ábyrgð vegna lántöku félagsins Brimholts ehf. á þeim grundvelli að hann ætti ógreiddar kaupréttargreiðslur frá varnaraðila. Varnaraðili hefði aldrei lánað félagi sóknaraðila nema hann hefði það bakland sem í kaupréttinum hafi falist.

Sóknaraðili fullyrðir að gengið hafi verið út frá því, síðan fyrri kaupréttarsamningur aðila hafi verið gerður 11. febrúar 2004, að hluti af launagreiðslum til sóknaraðila kæmi í formi greiðslna frá samningunum.

Sóknaraðili byggir á því að greiðslur til hans samkvæmt kaupréttarsamningum   við varnaraðila séu launagreiðslur og vísar um það til 2. gr. samninganna þar sem fram komi m.a.:

,,Starfsmaður skal ávallt vera í starfi þegar kaupréttur samkvæmt samningi þessum er nýttur og fellur áunninn kaupréttur, sem ekki er kominn á innlausnartíma, niður við starfslok, sbr. þó ákvæði 3. og 4. gr. Með því að vera í starfi er átt við að starfsmaður inni af hendi endurgjald í formi vinnu á þeim tíma sem um ræðir. Starfsmaður á launum í uppsagnarfresti án þess að inna af hendi vinnu fyrir félagið á þeim tíma telst í skilningi þessarar greinar ekki vera í starfi á þeim tíma.“

Samkvæmt þessu ákvæði sé við það miðað að ,,endurgjald í formi vinnu“ sé forsenda fyrir því að launagreiðsla þessi sé innt af hendi. Sóknaraðili hafi unnið vinnu sem endurgjald fyrir þau laun sem hann hafi samið um í kaupréttarsamningunum og hafi verið í fullu starfi allan þann tíma sem samningarnir hafi tekið til.

Sóknaraðili vísar til þess að í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, köflum 10.4 og 10.4.1, sé fjallað um launamál starfsmanna varnaraðila fyrir hrun. Í þessum skýrsluköflum komi fram nokkur atriði sem lýsi launafyrirkomulagi sem gilt hafi hjá varnaraðila.

Sóknaraðili sundurliðar kröfu sína á eftirfarandi hátt:

Kaupréttarsamningur dagsettur 11. febrúar 2004:

Kaupréttur samkvæmt þessum samningi sé 5.000.000 hlutar í varnaraðila og sé kaupverð samkvæmt samningnum sjö krónur á hlut, að teknu tilliti til útgreidds arðs félagsins frá því samningurinn sé gerður þar til að kaupum verði, á þann hátt að hvert prósent nafnverðs sem greitt sé út í arð komi til lækkunar á kaupverði sem nemi einum eyri á hlut.

Arðgreiðslur varnaraðila hafi verið 20% starfsárið 2004, 30% starfsárið 2005, 40% starfsárið 2006 en engar starfsárið 2007, samtals til lækkunar kaupverðs fyrir hvern hlut að fjárhæð 90 aurar.

Áunninn kaupréttur samkvæmt samningnum sé eftirfarandi:

1. desember 2004: 1.000.000 hlutar að kaupverði 7.000.000 króna.

1. desember 2005: 1.000.000 hlutar að kaupverði 7.000.000 króna.

1. desember 2006: 1.000.000 hlutar að kaupverði 7.000.000 króna.

1. desember 2007: 1.000.000 hlutar að kaupverði 7.000.000 króna.

1. desember 2008: 1.000.000 hlutar að kaupverði 7.000.000 króna.

Gerð sé krafa um að áunninn kaupréttarsamningur verði gerður upp á gengi varnaraðila miðað við dagsetningu síðustu launagreiðslu samkvæmt starfslokasamningi sóknaraðila 31. mars 2007 sem hafi þá verið 29,6 krónur á hlut. Lækkun vegna útgreidds arðs sé 90 aurar frá sjö krónum = 6,1 króna, sem geri kaupgengi á kauprétt 29,6 – 6,1 = 23,5 krónur á hlut, eða 117,5 milljónir króna. Auk þess sé krafist greiðslu dráttarvaxta Seðlabanka Íslands eins og þeir séu á hverjum tíma frá 2. apríl 2007.

Kaupréttarsamningur, dagsettur 1. apríl 2005:

Kaupréttur samkvæmt þessum samningi sé 5.000.000 hlutar í varnaraðila og sé kaupverð samkvæmt samningnum 14,25 krónur á hlut. Að frádregnum arðgreiðslum á tímanum sé kaupverðið 13,55 krónur á hlut.

Áunninn kaupréttur samkvæmt samningnum sé eftirfarandi:

1. desember 2005: 2.000.000 hlutar.

1. desember 2006: 1.000.000 hlutar.

1. desember 2007: 1.000.000 hlutar.

1. desember 2008: 1.000.000 hlutar.

Gerð sé krafa um að áunninn kaupréttur frá 1. desember 2005 verði gerður miðað við gengi varnaraðila 31. mars 2007, eða 29,6 krónur á hlut að frádregnu kaupréttargengi sem sé 13,55 krónur, eða 16,11 krónur á hlut, eða 80,55 milljónir króna, auk dráttarvaxta frá 1. apríl 2007.

Um lagarök vísar sóknaraðili til meginreglna laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum til 13. gr. og 1. til 3. mgr. 112. gr. Um málskostnaðarkröfu vísar sóknaraðili til laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og til laga nr. 50/1988 vegna kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir í fyrsta lagi á því að sóknaraðili eigi ekki lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila vegna umsamins kaupréttar sem sóknaraðili hafi ekki nýtt sér við starfslok sín hjá varnaraðila. Krafa sóknaraðila sé gerð á grundvelli kaupréttarsamninga dagsettra 11. febrúar 2004 og 1. apríl 2005 en samkvæmt þeim hafi sóknaraðili áunnið sér rétt til að kaupa hlutabréf í varnaraðila á tilteknum kjörum á tímabilinu frá 1. desember 2004 til 1. desember 2008.

Sóknaraðila hafi verið heimilt að nýta sér áunninn kauprétt með kaupum á hlutabréfum í varnaraðila 1. desember 2007, 1. desember 2008 og 1. desember 2009. Varnaraðili andmælir sjónarmiðum sóknaraðila um að frumkvæðisskylda varðandi nýtingu kaupréttarins hafi hvílt á varnaraðila og vísar um það einkum til 5. mgr. 2. gr. og 1. mgr. 7. gr. samninganna. Ekki verði ráðið af gögnum málsins að sóknaraðili hafi óskað eftir nýtingu áunnins og nýtanlegs kaupréttar með sannanlegri tilkynningu til varnaraðila og með því að bjóða fram fulla greiðslu fyrir hlutabréfin innan þeirra tímamarka sem greini í samningunum. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. samninganna hefði sóknaraðila borið að nýta sér áunninn kauprétt innan 90 daga frá því uppsögn hafi tekið gildi 1. apríl 2007. Sóknaraðili hafi ekki óskað eftir að nýta sér kaupréttinn innan tilskilins frests, þ.e. eigi síðar en 1. júlí 2007, og hafi allur kaupréttur hans því fallið niður, sbr. 2. mgr. 3. gr. og 5. mgr. 2. gr. samninganna.

Í samkomulagi varnaraðila við sóknaraðila sé hvergi minnst á óuppgerða kaupréttarsamninga en tekið sé skýrt fram í 7. gr. samningsins að aðilar staðfesti að lokið sé öllum kröfum þeirra í milli vegna ráðningarsambandsins.

Loks geti kröfur á grundvelli kaupréttarsamninganna ekki talist peningakrafa, enda hafi varnaraðili einungis verið skuldbundinn til þess að afhenda sóknaraðila hlutabréf gegn greiðslu frá sóknaraðila.

Komist dómurinn að þeirri niðurstöðu að sóknaraðili eigi lögvarða fjárkröfu á hendur varnaraðila mótmælir varnaraðili því að krafan njóti stöðu í réttindaröð samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991.

Varnaraðili vísar til þess að launahugtak gjaldþrotaréttar, og þar með forgangsréttur, sé bundið við að gagngjald í formi vinnu hafi verið innt af hendi og að launagreiðslur séu í beinum tengslum við slíkt gagngjald og vísar til dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 326/2003. Kröfur á grundvelli kaupréttarsamninga uppfylli ekki þetta skilyrði þar sem ekki hafi verið krafist sérstaks vinnuframlags vegna kaupréttarins heldur hafi einungis verið áskilið að sóknaraðili væri enn starfsmaður varnaraðila á þeim tíma sem hann hafi áunnið sér kauprétt, sbr. 2. gr. samninganna. Ákvæði 1. mgr. 112. gr. skipi vissum kröfum framar öðrum í réttindaröð. Þetta sé frávik frá meginreglu gjaldþrotalaga um jafnræði kröfuhafa við gjaldþrotaskipti og verði ákvæðið því ekki skýrt rýmra en leiði af orðanna hljóðan. Þegar fjallað sé um laun og annað endurgjald samkvæmt ákvæðinu þurfi greiðsla eða réttindi að stafa af vinnu kröfuhafans.  Réttur sóknaraðila til að eignast hlutabréf í varnaraðila á fyrir fram ákveðnum kjörum geti ekki uppfyllt skilyrði ákvæðisins að þessu leyti.

Varnaraðili byggir á því að hafna beri varakröfu sóknaraðila um að krafa hans verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 á þeim grundvelli að sóknaraðili eigi ekki fjárkröfu á hendur varnaraðila. Fallist dómurinn á að sóknaraðili eigi slíka kröfu mótmæli varnaraðili því ekki að kröfunni verði skipað í flokk almennra krafna.

Varnaraðili mótmælir útreikningi sóknaraðila á fjárhæð kröfunnar. Sóknaraðili vísi til þess að hann hafi gert starfslokasamning við varnaraðila sem hafi leitt til þess að hann hafi átt rétt á 100% greiðslu við lok vinnusambands í mars 2008 samkvæmt 3. gr. kaupréttarsamninganna. Varnaraðili segir að þegar starfslok sóknaraðila hafi tekið gildi 1. apríl 2007 hafi sóknaraðili áunnið sér annars vegar 60% af heildarkauprétti samkvæmt kaupréttarsamningi dagsettum 11. febrúar 2004 og 60% af heildarkauprétti samkvæmt kaupréttarsamningi dagsettum 1. apríl 2005.

Í 3. mgr. 3. gr. kaupréttarsamninganna segi:

,,Ef starfsmaður lætur af störfum samkvæmt eigin ósk þar um, en þó ekki af ástæðum er greinir í 4. gr. samnings þessa, skal hann eiga rétt á að nýta sér áunninn kauprétt sinn innan 90 daga frá því að uppsögn hans tók gildi að frádregnum áunnum kauprétti síðustu tveggja ára. Heimil nýting kaupréttar í slíku tilviki skal þó aldrei nema meiru en 60% af heildarkauprétti starfsmanns samkvæmt samningi þessum.“

Af þessu ákvæði leiði að sóknaraðili hafi við starfslok einungis átt rétt á að óska eftir nýtingu á 20% af heildarkauprétti samkvæmt hvorum samningi fyrir sig.

Varnaraðili mótmælir því að skilyrði 100. gr. laga nr. 21/1991 um skuldajöfnuð séu uppfyllt.

Varnaraðili byggir kröfu sína um málskostnað á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991. 

Niðurstaða

Krafa sóknaraðila er að slitastjórn varnaraðila samþykki fjárkröfu hans, 198.050.000 krónur, sem forgangskröfu í bú varnaraðila, auk dráttarvaxta, samkvæmt 1. mgr. 112. gr. laga nr. 21/1991. Til vara er þess krafist að fjárhæðin ásamt dráttarvöxtum verði samþykkt sem almenn krafa, samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991.

Sóknaraðili heldur því m.a. fram til stuðnings kröfu sinni, að við starfslok sóknaraðila hafi svo um samist að sóknaraðili ætti að fá ,,kaupréttarsamninga að fullu uppgerða eftir að síðustu laun höfðu verið greidd, þ.e. eftir 2. mars 2008“.

Fyrir dóminn komu vitnin Árni Maríasson, sem gegndi stöðu forstöðumanns á viðskiptasviði varnaraðila, Þór Kristjánsson, bankaráðsmaður, Atli Atlason starfsmannastjóri varnaraðila og Sigurjón Árnason fyrrum bankastjóri. Allir báru þeir á sömu lund, að þeim væri ekki kunnugt um að samið hefði verið um annað við sóknaraðila en að kaupréttarsamningar þeir sem gerðir voru við hann skyldu halda gildi sínu, þótt sóknaraðili hætti störfum, þrátt fyrir ákvæði 3. gr. kaupréttarsamninganna sem kveður á um að kaupréttur falli niður ef starfsmaður lætur af störfum. Ekkert ofangreindra vitna gat staðfest þá skoðun sóknaraðila að hann hefði átt rétt á peningagreiðslu við starfslok, sem væri ígildi uppreiknaðs verðmætis kaupréttar samkvæmt kaupréttarsamningunum.

Samkvæmt ákvæðum kaupréttarsamninganna sjálfra, og með hliðsjón af vætti framangreindra vitna, verður ekki annað ráðið en að sóknaraðili hafi eignast rétt til þess að kaupa ákveðinn fjölda hlutabréfa á ákveðnu gengi og gegn ákveðnu endurgjaldi á ákveðnu tímamarki. Varnaraðili var því einungis skuldbundinn til þess að afhenda sóknaraðila hlutabréf gegn greiðslu frá sóknaraðila. Hvorki er kveðið á um í samningum þessum né starfslokasamningi aðila að sóknaraðili eigi fjárkröfu á hendur varnaraðila vegna ákvæða í kaupréttarsamningunum. Með hliðsjón af framangreindu er ekki í ljós leitt að sóknaraðili hafi, á grundvelli framangreindra kaupréttarsamninga, eignast fjárkröfu á hendur varnaraðila.

Framangreind niðurstaða leiðir þegar til þess að hafna verður kröfum sóknaraðila, en auk þess verður ekki fram hjá því horft að sá réttur sem sóknaraðili átti til þess að kaupa hlutabréf í varnaraðila samkvæmt kaupréttarsamningunum, er niður fallinn. Sú niðurstaða er m.a. fengin í ljósi framburðar Atla Atlasonar sem gegndi stöðu starfsmannastjóra varnaraðila, en hann bar fyrir dómi að sóknaraðili hefði aldrei tilkynnt, hvorki við starfslok né í annan tíma, að hann hygðist nýta sér áunninn kauprétt sinn og jafnframt boðið fram greiðslu á þeim hlutabréfum sem hann vildi kaupa. Breytir þá engu um hvort miðað er við að sóknaraðila hafi borið að tilkynna um nýtingu kaupréttar síns innan 90 daga frá starfslokum, þ.e. eigi síðar en 1. júlí 2007, eða hvort miða beri við tímamarkið innan 90 daga frá 1. desember 2008, sbr. 3. mgr. 2. gr. kaupréttarsamninganna, en samkvæmt því ákvæði fellur heimild til nýtingar kaupréttar niður, tilkynni starfsmaður ekki um nýtingu kaupréttar innan 90 daga frá þeim degi er starfsmaður hefur heimild til nýtingar kaupréttar.

Samkvæmt framangreindu er aðal- og varakröfu sóknaraðila hafnað.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 greiði sóknaraðili varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Aðal- og varakröfu sóknaraðila, Guðmundar P. Davíðssonar, á hendur varnaraðila, Landsbanka Íslands hf. er hafnað.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 400.000 krónur í málskostnað.