Hæstiréttur íslands

Mál nr. 559/2011


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                                                              

Föstudaginn 14. október 2011.

Nr. 559/2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Ómar Örn Bjarnþórsson hdl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A-liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stæði var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Jón Steinar Gunnlaugsson, Eiríkur Tómasson og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. október 2011 sem barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum sama dag. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2011, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 8. nóvember 2011 klukkan 16 og einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og einangrun aflétt.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Fyrir Hæstarétti hefur komið fram af hálfu varnaraðila að nafngreindur maður hafi fengið hann til að flytja hingað til lands steratöflur og hafi sá maður virst hafa komið fyrir fíkniefnum í sendingunni án vitneskju varnaraðila. Sé þessi maður „þekkt nafn í fíkniefnaheiminum hér á landi“. Þá heldur varnaraðili því fram að hann hafi veitt lögreglu alla þá aðstoð, sem hann hafi getað við rannsókn málsins, og því beri að hafna kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir honum.

Samkvæmt gögnum málsins virðist svo sem fleiri menn séu viðriðnir það brot, sem til rannsóknar er, og er óupplýst á þessu stigi hver sé þáttur hvers þeirra í því. Þar sem hér sýnist vera um að ræða umfangsmikið mál, sem teygir anga sína til fleiri landa, er fallist á kröfu sóknaraðila um gæsluvarðhald yfir varnaraðila til 8. nóvember 2011. Að þessu gættu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 11. október 2011.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 8. nóvember nk. kl. 16:00.  Þá er þess krafist að honum verði gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Í greinargerð lögreglu kemur fram að í gær hafi lögreglan fundið og lagt hald á mikið magn hættulegra fíkniefna, sem flutt voru til landsins með skipi frá Hollandi.  Efnin hafi verið kirfilega falin í vörugám á vegum fyrirtækisins A ehf, sem kærði X er starfsmaður hjá.  Um magn og tegund efna sé vísað til efnaskýrslu tæknideildar.

Í skýrslutöku hjá lögreglu í gær hafi kærði viðurkennt aðild sína að innflutningnum, en segist ekki hafa vita að um fíkniefna væri að ræða, heldur hafi hann talið stera vera í gámnum.  Kærði hafi skýrt frá því að hann hafi hvorki komið að skipulagningu né fjármögnun innflutningsins.  Hans hlutverk hafi einungis verið það að koma efnunum, sem geymd voru í þremur pappakössum, í umrætt skip í Hollandi.  Hann kvaðst hafa hitt Íslending í Amsterdam sem hafi afhent honum pappakassana.  Hann kvað mann að nafni B, er kallaður væri “Snjalli” og ætti heima í húsi í [...] er væri nr. [...], í Grafarvogi,  hafi fengið sig til verksins.  Sá maður hafi skipulagt og fjármagnað fíkniefnainnflutninginn. 

Lögregla telji öruggt að hér sé um að ræða mann að nafni B, er búi að [...] í Reykjavík.

Samkvæmt upplýsingum lögreglu þá sé B nú staddur á Spáni og sé von á honum til landsins síðar í þessum mánuði.

Rannsókn málsins sé á frumstigi, en hér sé um að ræða umfangsmikið og vel skipulagt fíkniefnamál þar sem mikið magn mjög sterkra fíkniefna hafi verið flutt til landsins.  Aðalskipuleggjendur innflutningsins gangi nú lausir og vinni lögreglan nú að því að hafa uppi á B á Spáni og umræddum manni í Amsterdam, svo og öðrum sem málinu kunna að tengjast.

Það sé því afar brýnt að kærða verði gert að sæta gæsluvarðhaldi á meðan lögreglan nái utan um málið, þannig að hann fái ekki tækifæri til að torvelda rannsókninni, s.s. með því að koma undan munum, hafa áhrif á aðra samseka eða vitni. 

Með vísan til framangreinds, framlagðra gagna og a.-liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamálamála sé þess krafist að krafan nái fram að ganga.

                Af hálfu kærða er þess aðallega krafist að kröfu um gæsluvarðhald verði hafnað en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími, en komi til gæsluvarðhaldsvistar að þá verði kærða ekki gert að sæta einangrun meðan á henni stendur.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið sem og rannsóknargögnum sem liggja fyrir dóminum er fallist á með lögreglustjóra að kærði sé undir rökstuddum grun um að hafa framið brot sem getur varðað allt að 12 ára fangelsi, sbr. 173. gr. a laga nr. 19/1940.

Þá verður einnig að fallast á með lögreglustjóra að rannsókn málsins sé á frumstigi og að rannsóknarhagsmunir standi til þess að kærði sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008. Með hliðsjón af rannsóknargögnum og eins að teknu tilliti til þessu hversu mikið magn efna er um að ræða þykir ekki ástæða til að marka gæsluvarðhaldi skemmri tíma en lögreglustjóri krefst og verður krafa hans því tekin til greina að fullu eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Þá er fallist á með lögreglustjóra með vísan til b liðar 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008, að rannsóknarhagsmunir standi til þess að kærða veri gert að sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.

Halldór Björnsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kærði, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til þriðjudagsins 8. nóvember nk. kl. 16:00.  Kærði skal sæta einangrun á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.